Þrenndartaugabólga eða vangahvot

Þetta er fyrsta færsla í færsluröð um þrenndartaugarverk (sem ranglega er kallaður þrenndartaugabólga í færslunum). Hinar eru, í tímaröð:

2. Lyfjameðferð við þrenndartaugabólgu;
3. Þrenndartaugin og inngrip gegn þrenndartaugabólgu
4. Skurðaðgerðir og aðrar aðgerðir í eða við þrenndarhnoða
5. Þrenndartaugaverkur/vangahvot: Saga orðanna.

Þrenndartaugabólga (sem einnig er kölluð vangahvot á íslensku, Trigeminal neuralgia er algengasta sjúkdómsheitið á ensku) er viðvarandi (krónískur) sársauki í 5. andlitstauginni, svokallaðri þrenndartaug/þríburataug.1 Nafnið er dregið af því að þessi taug greinist í þrennt í hvorum helmingi andlitsins, s.s. sjá má á myndinni:

Þrenndartaug

Þrenndartaugin (nervus trigeminus) er skyntaug sem tengist heilanum en liggur um andlitið. Efsta greinin, augntaug (nervus ophthalmicus), stjórnar skynjun í höfuðleðri, enni og framhluta höfuðs. Miðgreinin, kinnkjálkataug (nervus maxillaris), stjórnar skynjun í kinn, efri kjálka, efri vör, efri tanngarði og efri gómi, ásamt hálfu nefinu. Neðsta greinin, kjálkataug (nervus mandibularis) stjórnar skynjun í neðri kjálka, neðri tanngarði, neðri gómi og neðri vör.1

 

 

Dæmigerð/klassísk þrenndartaugabólga (oft skammstöfuð TN1 á ensku) veldur ofboðslegum sársaukastingjum í andlitinu, sem oft minna á raflost eða bruna. Stingirnir geta varað frá nokkrum sekúndum upp í tvær mínútur og þeir geta komið hver á fætur öðrum í allt að tvær klukkustundir samfleytt. Mislangt hlé gefst milli sársaukakastanna.1 Sársaukinn getur verið það gífurlegur að þessi gerð þrenndartaugabólgu ku hafa verið kölluð „sjálfsvígssjúkdómurinn“. 2

Tal, tygging, tannburstun, rakstur eða kaldur vindur í andlit geta útleyst verkjakast. Þó að hvert kast vari aðeins í sekúndur getur verkurinn endurtekið sig með svo stuttu millibili að köstin renni saman í eitt. Eftir mörg köst getur sjúklingur upplifað viðvarandi andlitsverk.3

Nánari lýsingu á sársaukaköstum dæmigerðrar þrenndartaugabólgu má finna í tveimur stuttum íslenskum greinum sem tengjast umfjöllun um vefjagigt. 4,5

Yfirleitt er dæmigerð þrenndartaugabólga talin stafa af skaða á mýli/taugaslíðri utan um taugina. Oftast er sá skaði talinn stafa af æð sem þrýsti stöðugt á taugina.6 Í undantekningartilvikum má rekja dæmigerða þrenndartaugabólgu til æxlis.1

 

Þrenndartaugabólga 2 (oft skammstöfuð TN2 á ensku, stundum kölluð ódæmigerð þrenndartaugabólga, þ.e. Atypical trigeminal neuralgia) veldur sleitulausum verk, þ.e. án nokkurs hlés, af svipuðu tæi og lýst var að ofan en ekki eins ofboðslegum og verkjaköstin sem einkenna klassíska þrenndartaugabólgu.1 Sumir mæla gegn því að nota heitið ódæmigerð þrenndartaugabólga með þeim rökum að sú sjúkdómsgreining sé gjarna notuð sem ruslakistugreining fyrir alls konar andlitsverki sem hafa ekkert með þrenndartaugina að gera.6

Yfirleitt verður þrenndartaugabólgu vart öðrum megin í andlitinu en þó eru sjaldgæf dæmi þess að fólk þjáist af sjúkdómnum beggja vegna. Slíkt gæti verið vísbending um heila- og mænusigg.3 Einnig eru dæmi þess að fólk sé haldið hvoru tveggju dæmigerðri þrenndartaugabólgu og þrenndartaugabólgu 2 í senn.1

 

Á síðari árum hafa menn viljað flokka þrenndartaugabólgu í fleiri undirflokka og er þá helst nefnt, auk TN1 og TN2:

Afleidd þrenndartaugabólga (Secondary Trigeminal Neuralgia, skst. STN) lýsir sér alveg eins og hinar tegundirnar en má tengja við að sjúklingurinn sé haldinn heila- og mænusiggi (multiple sclerosis).6

Einnig hefur verið bent á að þrenndartaugabólga geti verið fylgifiskur vefjagigtar en óljóst er hvernig þeim tengslum ætti að vera háttað.4, 5

Þrenndartaugabólga eftir áblásturssótt (Post-Herpetic neuralgia, skst. PHN) er eftirköst eftir ristil (herpes zoster) við þrenndartaugina.6

Þrenndartaugabólga sem stafar af starfrænni truflun (Trigeminal Neuropathic Pain, skst. TNP) er þegar rekja má kvillann til einhvers konar óviljandi skaða á tauginni. Sá skaði getur verið áverki á andliti, af munnskurðlækningum eða skurðaðgerðum sem tengjast háls-nef og eyrnalækningum, skaði á tauginni vegna skurðaðgerða í aftari kúpugróf (fossa cranii posterior) eða annars staðar neðst í höfuðkúpu, af heilablóðfalli o.fl. Sársaukinn er sagður draga úr sjúklingnum mátt, vera brennandi eða eins og borað sé í auma svæðið. Verkurinn er oftast sleitulaus vegna þess að sköðuð taugin sendir stöðugt verkjaboð til heilans. Skaðinn getur líka gert taugina ofurnæma fyrir áreiti svo svipuð sársaukaköst geta fylgt þessari gerð þrenndartaugabólgu eins og dæmigerðri þrenndartaugabólgu, sársaukinn blossar þá venjulega upp á sama stað og áreitið verður. Tilfinningaleysi og náladofi benda einnig til skaddaðrar taugar.6

Þessi gerð af þrenndartaugabólgu er hins vegar sögð heita secondary trigeminal neuralgia [sjá um afleidda þrenndartaugabólgu hér að ofan] í nýlegri íslenskri kennslubók handa lækna- eða lyfjafræðinemum. Þar segir einnig að sé „vangahvot orsökuð af ytri skaða á þrenndartauginni […] geta verið teikn um skynbrottfall á svæði hennar og jafnvel máttleysi og rýrnun tyggingarvöðva“.3

Þrenndartaugabólga eftir aðgerð á miðtaugakerfi (Trigeminal Deafferentation Pain, skst. TDP) eru verkir í andliti sem tengjast tilfinningaleysi í þrenndartaug eftir skurðaðgerð við þrenndartaugabólgu. Þessar skurðaðgerðir miða allar að því að skaða þrenndartaugina til lækninga og má aðallega nefna taugarúrnám, þ.e. brottnám hluta taugar (neurectomy), eyðileggingu taugahnoða (gangliolysis), þverskurð taugarótar (rhizotomy), þverskurð taugabrautar utan mænukylfu (nucleotomy) og brautarskurð, þ.e. þverskurð taugabrautar í mænukylfu (tractotomy). Þrátt fyrir að allar þessar aðgerðir miði að því að eyða tilfinningu/skynjun í þrenndartauginni getur fylgt í kjölfarið stöðugur sársauki í dofnum andlitshlutum, t.d. brennandi, ertandi eða nístandi sársauki.6

Loks mætti nefna að til er flokkurinn Ódæmigerðir andlitsverkir (Atypical Facial Pain (AFP), sem eru verkir í andliti án þess að orsök finnist fyrir þeim. Eitthvað af því sem fellur í þá ruslakistu gæti verið birtingarmynd þrenndartaugabólgu.

 

Algengi

Tölum um algengi þrenndartaugabólgu ber ekki alveg saman í heimildum en ljóst er að þetta er sjaldgæfur sjúkdómur. Oftast er talað um að u.þ.b. 0,005-0,01% fólks þjáist af þrenndartaugabólgu en óvíst hvort þá er eingöngu verið að tala um dæmigerða þrenndartaugabólgu eða öll afbrigði hennar.1,2,6,7 Hæsta tala sem ég fann kom fram í breskri rannsókn sem sýndi 0,026% algengi þrenndartaugabólgu meðal sjúklinga á breskum heilsugæslustöðvum.8 En bent hefur á að í þeirri rannsókn hafi e.t.v. óvart verið taldir með sjúklingar með andlitsverki af öðrum toga.9

Heimildum ber saman um að þrenndartaugabólga komi yfirleitt ekki fram fyrr en eftir fimmtugt og að hún sé algengari meðal kvenna en karla. Ég leyfi mér að setja fram þá fullyrðingu að þess vegna sé þetta sennilega vangreindur sjúkdómur og algengari en haldið er fram í heimildum sem vísað var í hér að ofan.

 

Heimildir

Trigeminal Neuralgia Fact Sheet. (2013). National Institute of Neurological Disorders and Stroke, NIH bæklingur nr. 13-5116. Síðast uppfærður á vef 27. júlí 2015. Skoðað 4. sept. 2015.

2 Trigeminal neuralgia. Wikipedia. Skoðað 4. september 2015.

3 Ari J. Jóhannesson o.fl. (2015). Handbók í lyflæknisfræði. 4. útg., s. 363-4. Reykjavík:Háskólaútgáfan og Landspítali Háskólasjúkrahús.

4 Sigrún Baldursdóttir. (2010). Andlits- og kjálkaverkir (Orofacial Pains) – II. Hluti Vangahvot -Trigeminal neuralgia Gigtin 21(1), s. 15-16. Reykjavík:Gigtarfélag Íslands. Aðgengilegt á vef.

5 Sigrún Baldursdóttir. (e.d.) Trigeminal neuralgia. Andlits- og kjálkaverkir Andlits- og kjálkaverkir (Orofacial Pains) – II. Hluti. Vefjagigt. Fræðsluvefur um vefjagigt og síþreytu. Skoðað 9. sept.2015.

6 Classifications of Neuropathic Facial Pain. (e.d.) TNA – The Facial Pain Association. Skoðað 9. sept. 2015.

7  Trigeminal Neuralgia. (2014). NORD:National Organization for Rare Disorders. Skoðað 9. sept. 2015.

8 Kenny, Tim og Colin Tidy. Who gets trigeminal neuralgia (TN)? (2014). Patient. Skoðað 9. sept. 2015.

9 Hall, Gillian C. o.fl. (2006). Epidemiology and treatment of neuropathic pain: The UK primary care perspective. Pain 122(1-2), s. 156-162. Aðgengilegt á vef. Skoðað 8. sept. 2015.

10 Zakrzewska, Joanna M. (2010). Facial Pain. Í C. Stannard, E. Kalso og J. Ballantyne (ritstjórar), Evidence-Based Chronic Pain Management, bls.134-150. Oxford:Wiley-Blackwell.

20 Thoughts on “Þrenndartaugabólga eða vangahvot

 1. Guðrún Ægisdóttir on September 13, 2015 at 17:19 said:

  Ja – fegin er ég að vera laus við þetta. Þakka greinina, Harpa.

 2. johannakristinsdottir on September 14, 2015 at 03:19 said:

  Ég er buin að vera svona í mörg ár í andliti ,óbærilegur sjukdómur sem engin sér og til þsess að hafa hugsað um sjálfvig 2 á siðasta ári,en nu er ég hjá góðum taugalækni se er að jálpa ,mikið vildi eg að fólk skildi þetta betur þa þenna sjukdóm,sem skriður ur einu satað á annan,og eg skal ítrka að þetta er sjukdómur sem egin vill fá.Kveðja Jóhanna.

 3. Halla Magnusdottir on September 14, 2015 at 06:55 said:

  Sael min kaera.
  Modir min hefur verid illa haldin I morg ar vegna einhvers sem laeknar hafa nefnt eftirkost ristils. Mer synist thetta vera lysing hennar kvala. Viltu vera svo gog og benda mer a laekninn sem du ert hja. Vid erum buin ad leita vida um heim eftir hjalp.Med fyrirfram thokk.
  Kvedja Halla.
  Simi minn er 891_6051

 4. unnur Fríða Halldórsdóttir on September 14, 2015 at 08:44 said:

  Sæl, Harpa, snilldarlega gert og ég mun lesa og fræðast víðar, nei það er hægt , svo takk 100 x sinnum þú ert mögnuð manneskja, algjörlega, hafðu það gott Uf

 5. Heiðrún on September 14, 2015 at 21:59 said:

  Hæhæ og takk fyrir þessa grein. Veistu hvernig er hægt að greina þetta og hjá hvaða læknum.

 6. Ég reikna með að það sé á könnu taugalækna að greina þrenndartaugabólgu en raunar getur hvaða læknir sem er gert það hafi hann yfirleitt lært eitthvað um sjúkdóminn. Greiningin byggist fyrst og fremst á lýsingu sjúklingsins sjálfs. Ég held að það sé hægt að sjá í segulómtæki ef æð/æðaflækja liggur ofan á tauginni og ertir hana, það á einungis við um sum tilvik af dæmigerðri þrenndartaugabólgu, ekki önnur. Í BNA eru menn duglegir að gera skurðaðgerðir við akkúrat þessu en ég veit ekki hvort svo er gert á Íslandi. (Næsta færsla mun fjalla um tilraunir til lækninga á þrenndartaugabólgu.)

  Mín eigin reynsla var sú að ég gekk milli hátt í tug sérfræðilækna af ýmsum toga án þess að neinn þeirra kveikti á sjúkdómsgreiningunni (hvað þá heimilislæknar) þangað til í vor að sérfræðingur í kjálkasjúkdómum og sársauka (tannlæknir) greindi mig með þrenndartaugabólgu. Þá var ég sjálf löngu búin að greina sjálfa mig, með lestri fræðigreina, og þessi sami læknir greindi mig 2012 með sinaskeiðabólgu innan í munni og árið 2013 með festumein (sem er óljós ruslakistugreining en vinsæl meðal margra lækna ef þeir vita ekki alveg hvað er að sjúklingi með verk einhvers staðar). Svoleiðis að ég get ómögulega haldið því fram að þessi tannlæknir/kjálkasérfræðingur hafi yfirleitt nennt að nefna þrenndartaugabólgu fyrr en hann var kominn út í horn og átti ekki fleiri skemmtilegar (en fáránlegar) hugmyndir til skýringar á því hvernig mér hefur liðið síðan í apríl 2012.

  Ég fékk fullt af sjúkdómsgreiningum í þessu ferli (læknarúnti), hver annarri heimskulegri, og fékk einnig staðfest að ég er ekki haldin fjölda sjúkdóma sem hafa ekkert með verk í kjálka að gera; Það er í sjálfu sér ágætt að vita að ég er ekki með stíflaðar kransæðar, gigt eða hef fengið heilablóðfall án þess að taka eftir því en ég hefði svo sem lifað sátt án þeirrar vitneskju :)

  Sem sagt: Þeir læknar sem ég hitti stóðu algerlega á gati og það var ekkert gagn að þeim flestum. (Til að gæta sanngirni tek ég fram að sérfræðilæknir minn í allt öðrum sjúkdómi hefur virkilega lagt sig fram um að hjálpa mér og setja sig inn í þrenndartaugabólgu svo þetta sleifarlag á ekki við stéttina alla).

  Í sumum tilvikum verður sjúklingur að treysta á sjálfan sig og lesa sér til sjálfur. Og af því nánast ekkert er til um þrenndartaugabólgu á íslensku ákvað ég að skrifa þá bara sjálf um efnið, sem gúgglast vonandi einhverjum til hjálpar í framtíðinni.

  • heiðrún on September 15, 2015 at 11:55 said:

   ja ég þakka þér kærlega vel fyrir það eg er einmitt núna í sömu sporum og fæ engin svör. ég var lögð inn í sumar og fékk þar morfin og bólgueiðani í æð og það var það eina sem hefur virkað á þennan sársauka en þetta lísir sér eins og þrenndartaugabólga og einn læknirinn minn var búinn að segja mér frá þessu að þetta væri líklegast þetta en nú er hann hættur og maður stendur bara á gati og veit ekkert hvert maður á að leita.
   ég fór til taugalæknis og sagði henni að að tyggja, tannbursta og þegar kaldur vindur fer á vinstir hliðina þá kæmi þessi sársauki og hún sagði að það væri af því að ég væri feit en ekki að þetta væru taugarnar og aðrir taugasérfræðingar taka ekki nýja inn… vildi að óska að sumir læknar mundu líta út fyrir rammann.
   allavega takk fyrir þessa frábæru grein hun hjálpar mér mikið. nú veit ég fyrir víst hvað er að mér og þá er bara að googla hvað er hægt að gera við því =)

 7. Aðalheiður H. on September 15, 2015 at 15:01 said:

  Frábær grein hjá þér, takk kærlega.

 8. Guðbjörg on September 16, 2015 at 19:18 said:

  Sæl Harpa. Frábært framtak hjá þér að setja þetta yfir á íslensku . það hefur ekki verið hægt að finna mikið um TN á íslensku hingað til. Þetta hefur verið mikil vinna.
  Mig langar aðeins til að segja ykkur ferlið sem ég er búin að fara í gegnum vegna TN.
  Fyrir ca 12 árum síðan fór ég að fá hrottalega ” rafstrauma ” sem leiddu í tennurnar. Ég fór auðvitað til tannlæknis viss um að nú væri ég örugglega með tannrótarbólgu eða eitthvað álíka . ( hef aldrei fengið svoleiðis og veit ekki hvernig það er ) en svarið hjá tannsa var að ekkert væri að tönnunum. Ég fór þá á heilsugæsluna og var greind með kinnholubólgu. Var sett á pensilin í kjölfarið. Á ca einu ári var ég sett á 3 pensilinkúra . þegar ég fer í 4. sinn á heilsugæsluna vegna þessara sársaukafullu strauma, lenti ég á öðrum heilsugæslulækni vegna þess að minn var í fríi. Sá læknir vissi strax hvað var að. Hún sagðist hafa unnið mikið á taugadeild og þetta væri lýsandi dæmi um Trigiminal neurolgiu.Hún skrifaði uppá flogaveikislyf og benti mér á að fara til Heila og taugalæknis sem ég og gerði. Hann staðfesti að ég væri með TN. Hann hélt einna helst að eitthvað væri að rót taugarinnar þar sem ég væri með einkenni frá öllum öngunum þrem.Þetta var vinstra megin í andlitinu. Ég var send í segulómun en ekkert fannst. Ég held að ég sé búin að fara 5 sinnum í segulómun á höfði á 10 ára tímabili. Fyrir ca 2 árum fer ég svo að finna væga rafstrauma á einum stað hægra megin í andlitinu. Í segulómun kom þá í ljós að slagæðin liggur utan í tauginni og ertir hana. Verkirnir voru vægir enda ég þá búin að vera á lyfjum í mörg ár. Nú er svo komið að ég er með stanslausa verki í andlitinu vinstra megin . Rafstraumarnir koma stundum en það er eins og ég sé með grjót í andlitinu sem ég þarf að halda uppi. Ég er með stanslausa verki í eyranu sem eru þó verstir á nóttunni. Ég er með brjósklos í hnakkanum sem hefur áhrif á andlitið. Ef ég er slæm í hnakkanum er ég verri í andlitinu. Allt áreiti hefur áhrif á andlitsverkina. Taugalæknirinn minn hefur verið að sprauta bótoxi í hnakkann og herðarnar til þess að reyna að minnka áreitið á andlitið. Núna síðast setti hún meira magn í einhvern vöðva bak við eyrað til að sjá hvort það gæti haft áhrif á eyrnaverkinn. Ég tek það fram að ég fór til háls nef og eyrnalæknis til að fá það staðfest að ekkert væri að eyranu sjálfu. Maður einhvernveginn trúir því ekki að þessi taug geti haft svona mikil áhrif. Bótoxsprauturnar fæ ég á þriggja mánaðar fresti. Og ég hlakka til í hvert skipti því þær hjálpa. Læknirinn minn veit um 2 sjúklinga sem fengu bótox í andlitsvöðvana og það hjálpaði þeim víst mikið. Hún treystir sér ekki til þess að sprauta þar sjálf og er að reyna að koma mér til læknisins sem sá um þetta. Hún sagði að það væri mjög vandasamt að sprauta í andlitið og ef að sprautan fer ekki á hárréttan stað getur maður lent í vanda. En ég bíð spennt eftir að heyra í hinum lækninum af því að nú er svo komið hjá mér að ég er til í að prófa allt.
  Flogaveikislyf eru einu lyfin sem geta haldið þessum verkjum í skefjum. Verkjalyf hafa ekkert að segja við svona taugaverkjum. Tegradol var mikið notað við taugaverkjum hérna áðurfyrr og er enn talið eitt besta lyfið. Gabapentin virðist þó vera að taka við. Ég hef prófað bæði þessi lyf en þau eru ekki að virka fyrir mig. Ég er að taka Lyrica. Flogaveikislyfin halda rafstraumunum í skefjum en ég þarf svo að taka vöðvaslakandi og sterk verkjalyf við spennunni sem er að hrjá mig vinstra megin. Taugaskurðlæknar geta í sumum tilfellum gert aðgerð á fólki með TN en það er þá helst í tilfellum þar sem slagæðin ertir taugina. Þeir fara þá í gegn um höfuðkúpuna og setja einverja fóðringu. Ég veit ekki hvort þeir setja fóðringu á milli eða á æðina eða taugina sjálfa. Ég hef lesið á erlendum síðum að þetta virki ekki alltaf en í sumum tilfellum eignast fólk nýtt líf. Þessi fóðring getur virkað í ca 7 ár. ( las ég einhversstaðar ) Aron Björnsson heila og tauga skurðlæknir hefur framkvæmt einhverjar svona aðgerðir með góðum árangri hef ég heyrt. Ég veit um eitt tilfelli þar sem hann opnaði höfuðkúpu á manni þar sem ekkert var vitað hvað olli verkjunum . Hann fann meinið ( sem ég veit ekki hvert var ) og gat lagað það. Læknirinn minn sendi mig til HT skurðlæknis vegna brjósklosins sem heitir Ingvar. Ég spurði hann hvort hann teldi að hægt væri að gera aðgerð í mínu tilfelli vegna TN. Hann sagði það útilokað ,sérstaklega þar sem þetta væri komið beggja vegna . Eina sem væri hægt að gera fyrir mig væri lyfjameðferð. Ég er nú samt að spá í að reyna að komast til Arons og heyra hanns álit.Ég yrði ánægð þó að vinstri hliðin væri bara löguð og ég gæti minkað lyfjaskamtinn eitthvað .Taugalæknarnir sem ég hef verið hjá ( 3 í allt ) hafa aldrei talað um TN 1 og TN 2. það er bara eitthvað sem maður hefur lesið á erlendum síðum. Ég veit því ekki nákvæmlega hvar ég fell undir það. Ég vil benda ykkur á síðu á Facebook sem heitir….. end trigeminal neurolgia. Þar er fólk frá öllum löndum sem eru að kljást við TN . Stundum er gott að tala við fólk sem er að kljást við sama vandamál. Heilsugæslulæknar vita takmarkað um TN og ekki hægt að ætlast til þess að þeir viti allt .En við getum fræðst sjálf og þá af hvoru öðru, Við erum tvær íslenskar konur á þessari erlendu síðu. Ég hef þráð það að hitta íslendinga sem hægt er að tala við um þennan sjúkdóm. Ég skil enskuna ágætlega en er ekkert sérlega góð að eiga mikil samskipti við fólk á ritaðri ensku. Ég þakka þér svo kærlega fyrir þetta framtak hjá þér Harpa. Umræðan má nefnilega vera meiri um TN og ég vona að þetta framtak hjá þér komi henni kannski aðeins af stað. Nú í oktobrer er alþjóða TN dagurinn .

  Ég vona að ég hafi náð að miðla til ykkar einhverju sem gæti komið ykkur að gagni sem eru að berjast við TN.
  kær kveðja til ykkar
  Guðbjörg.

 9. Sæl Guðbjörg
  Það var áhugavert (en sorglegt) að lesa sögu þína. Ég byrjaði nákvæmlega eins, þ.e.a.s. fór til tannlæknis, sem myndaði allt sundur og saman og ekkert sást, næsta stopp var heimilislæknir sem greindi mig með skútabólgu (kinnholubólgur) og setti mig umsvifalaust á pensillín. Sem betur fer lét sá líka bóka myndatöku og í sneiðmynd blöstu við tandurhreinar og fínar kinnholur 😉 Síðan tók við rúnturinn mikli, næst háls- nef- og eyrnalæknir o.s.fr.

  Ég er búin að semja “hráan” texta um lyflækningar við þrenndartaugabólgu, næ vonandi að ganga frá honum og birta sem fyrst. Eftir það sem ég færslu um skurðlækningar við vandanum.

  Af viðbrögðum sem ég hef fengið við þessari færslu (í tölvupósti og á Fb. grúppu um vefjagigt) sýnist mér að þrenndartaugabólga sé stórlega vangreind og fólk heppið að lenda hjá lækni sem þekkir sjúkdóminn.

  • Svanfríður Þórðardóttir on December 16, 2015 at 00:33 said:

   Takk kærlega fyrir þessa grein Harpa. það skiptir máli að geta lesið um þetta á íslensku.
   Ég var að greinast með þennan ógeðissjúkdóm, ég get ekki notað annað orð.
   Fór eins og þið fyrst til tannlæknis sem kallaði til Háls nef og eyrnalækni sem var staddur á heilsugæslustöðinni og hann skoðaði mig og kom strax með þessa greiningu. Ég fæ einkenni í vinstri hlið í efri og neðri kjálka eins og verið sé að sprengja úr mér tennurnar, fram í nefið upp í auga og upp í höfuð. Oft mikla verki við eyrað. Ég fékk Tegradol og er búin að taka það í rúmar tvær vikur og hef fengið miklar aukaverkanir, ekki haldið haus og sjónin alveg ómöguleg. Núna er ég að jafna mig en er mjög slæm í augunum og sjónin mjög slæm. Eins og horfi út um blauta rúðu. Kannist þið við þetta sem aukaverkun af lyfinu ?
   Mér finnst skelfilegt til þess að hugsa að fólk sé ekki að læknast af þessu. Núna hefur verkurinn mikað mikið í kjálkanum en er slæm upp í auga og upp í höfuð.
   Ég þakka enn og aftur fyrir þessar upplýsingar og eins þeim sem hafa sagt sína reynslu af þessu.
   kveðja Svanfríður

 10. Pingback: Þrenndartaugin og inngrip gegn þrenndartaugabólgu | Blogg Hörpu Hreinsdóttur

 11. Pingback: Skurðaðgerðir og aðrar aðgerðir í eða við þrenndarhnoða | Blogg Hörpu Hreinsdóttur

 12. Pingback: Lyfjameðferð við þrenndartaugabólgu | Blogg Hörpu Hreinsdóttur

 13. Sverrir Steindórsson on April 5, 2017 at 12:27 said:

  Takk kjærlega fyrir þessar skriftir um þetta, ég er þjáður af þessu en er á lyfjum sem halda þessu að mestu niðri.

  Kveðja Sverrir

 14. Pingback: Reynsla TN-sjúklings af „þjónustu“ Landspítala-Háskólasjúkrahúss | Blogg Hörpu Hreinsdóttur

 15. Pingback: Eftirmál af reynslu TN-sjúklings af „þjónustu“ Landspítala-Háskólasjúkrahúss | Blogg Hörpu Hreinsdóttur

 16. Svala Sigurgerisdóttir on May 17, 2017 at 22:19 said:

  Þakka þér fræðsluna Harpa mjög fræðandi. Sjálf hef ég átt við þetta að stríða og eins og fleiri farið til nokkurra sérfræðinga, en köstin hafa legið niðri nú um hríð. Óska engum að fá TN, get frekar fætt öll 4 börnin mín í einu en að fá þessa lamandi verki. Skríð út í horn og slefa þegar hviðurnar koma. Lyf hafa hjálpað mér t.d. Gabapentin. Gangi okkur öllum vel, eins og kostur er að lifa með TN.
  Gott niðurlag á greininni Harpa!
  kv.Svala

 17. Pingback: Þrenndartaugarverkur (trigeminal neuralgia) | Blogg Hörpu Hreinsdóttur

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation