Söngvar ástsjúkra karlmanna og annar kveðskapur

Ég les alltof lítið af ljóðum síðan ég komst á fullorðinsaldur. En hlusta þess meira á tónlist og langar stundum til að vita hvað textarnir þýða, sé sungið á málum sem ég skil ekki. Undanfarið hef ég dálítið verið að hlusta á lög Mikis Þeodórakis og held í augnablikinu upp á þau tvö lög sem tengt er í hér að neðan. (Þau má bæði finna í flutningi ólíkra listamanna á YouTube.)

Eitt af skáldum heimilisins snaraði fyrir mig textunum. Verður að segjast eins og er að þeir eru skýr dæmi um söngva ástsjúkra karlmanna, svo sem Hundur í óskilum kallaði slíka texta í ágætum útvarpsþætti fyrir löngu (gott ef þátturinn var ekki meira að segja á Rás 1). Söngvar ástsjúkra karlmanna eru afar algengir textar í íslenskum einsöngs- og dægurlögum svo efnistök koma ekki beinlínis á óvart.

Fyrra dæmið reyndist vera um söknuð og svala lind og fjöll sem eru eins og fjólubláir draumar og fleira svoleiðis ástsjúkt. Þó er þetta ljómandi fallegur texti og ekki spillir gullfallegt lagið Hér syngur Margarita Zorbala lagið Fjólublá fjöll (Μενεξεδένια τα βουνά) eftir Mikis Þeodórakis. Textann gerði Jannis Þeódórakis (bróðir tónskáldsins).

Íslensk þýðing á ljóðinu (athugið að þýðingin fellur ekki að laginu):

Fjöllin voru fjólublá
fjólubláir kossarnir
eins á lit og augun þín
einsemd mín er niðadimm.

Raunalest sem reif þig burt
ristir sundur hjarta mitt
hennar braut er sviði sár
sorg og grát hún flautar mér.

Vegfarandi var ég þér,
þú mér ljós og lindin svöl.

Hélt ég þér í höndum tveim
hafði fyrir lítinn fugl
hófst að morgni sætan söng
sást um kvöldið aldrei meir.

Flakkandi ég fer um skóg
fölar greinar allt í kring
mér er auðnin endalaus
ekkert nema sölnuð lauf.

Annað uppáhaldslag þessa dagana er Mana mou kai Panagia (Μάνα μου και Παναγιά), þar af skildi ég einungis að María guðsmóðir (Panagia) væri eitthvað nefnd í textanum. Eftir snörun texta veit ég að söngvarinn, sem er mikið niðri fyrir, er óheyrilega ástsjúkur! Mér finnst Yorgos Dalaras gera þessu lagi góð skil, á YouTube eru nokkrar útgáfur af söng hans en mér finnst sú elsta, tekin upp 1984, langskemmtilegust. Lagið er eftir Mikis Þeodórakis en textinn eftir Tasos Livaditis.

Textinn er á þessa leið (mismunandi vendilega þýddur):

Björtust sól og bjarmi dags, blessað næturljósið skýra
Máríu þú meyjar varst, móðurbæn og óskin dýra.

Þú ert farin og vindarnir og öldurnar gráta,
stjörnurnar gráta og nóttin grætur
mamma mín grætur líka við leiðið
og auk þess er María mey grátandi.

Svölun varst í kófi kær, kertaljós í myrkum geimi
leiðarstjarna um logafár, lausnarinn í vítisheimi

Þú ert farin og vindarnir og öldurnar gráta,
stjörnurnar gráta og nóttin grætur
mamma mín grætur líka við leiðið
og auk þess er María mey grátandi.

Það er spurning hvort kona er betur sett með að skilja hvað um er sungið hér?

En svo að allt öðru:

Skáld heimilisins eru meðlimir í einhverjum skáldskaparkreðsum og sé ég stundum bragfræðiæfingar og skondnar lausavísur á þeirra fésbókarveggjum. Ég hef þó ekki mikinn áhuga á þess lags og vísnahorn og vísnaþættir í prentmiðlum fara inn um annað eyrað (augað?) og út um hitt, alla jafna. En á miðvikudaginn brá svo við að ég sá helv. skondna og skemmtilega vísu í Vísnahorni Skessuhornsins (s. 26), sem Dagbjartur Dagbjartsson heldur úti af myndarskap og hef ég heyrt því fleygt að sá sé sonur múrarans „sem eignaðist dreng í gær“ í frægu ljóði en það kemur þessu máli samt ekkert við …

Vísan er eftir Þórarin Eldjárn og sagt er að hann hafi lagt hana til á hagyrðingamóti á Borgarfirði eystri:

Með því hiklaust mæla þor’eg
sem mikið þjóðráð gæti virst
að Gunnar Smári gangi í Noreg;
og gjarnan bara sem allra fyrst.
Einnig teldi ég tilvaleð;
að taka Jónas Kristjáns með
með allt sitt prúða og góða geð.

Vissulega fellur þessi vísa ekki undir söngva ástsjúkra karlmanna … en hún er bara svo sönn, svo sönn …

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation