Kostir, gallar og aðgengi að rafrettum

Þessi pistill er framhald af Rafrettur, Lyfjastofnun og nikótínlyf.

Rafrettur komu fyrst á markað í Evrópu og Bandaríkjunum árið 2006. Vinsældir þeirra hafa vaxið hröðum skrefum, ekki vegna markvissrar markaðssetningar heldur vegna Netsins: Notendur stofna hópa og umræðuborð og segja af reynslu sinni; umræðan berst hratt í gegnum samskiptamiðla; smáfyrirtæki/vefsíður sem selja rafrettur, íhluti og vökva spretta upp eins og gorkúlur. Vegna þessarar hröðu útbreiðslu hafa ekki verið gerðar margar almennilegar rannsóknir á rafrettum. En nú hafa tröllin tvö í viðskiptaheimi Vesturlanda áttað sig og bítast um bitann: Tóbaksframleiðendur og lyfjaframleiðendur. Því miður er útlit fyrir að þessi ágæta uppfinning falli í þeirra hendur með dyggri aðstoð stjórnvalda sem fóðra gjörninga sína með því að verið sé að gæta hagmuna notenda, þ.e. passa þá eins og óvita.

 

Geta rafrettur verið hættulegar?

Græjan sjálf er ekki hættuleg nema lithium-rafhlöðurnar geta sprungið eins og allar slíkar rafhlöður. Það hefur gerst einstaka sinnum ef marka má fréttir sem birst hafa í misáreiðanlegum fjölmiðlum en yfirleitt var þá einhver vitleysingur að hlaða rafhlöðuna rangt. (Sams konar sögur má finna um tölvur, farsíma og fleira dót með endurhlaðanlegri lithium-rafhlöðu.)

Vökvinn sem er í tönkum (eða geymum) rafretta getur innihaldið ýmis óholl aukaefni önnur en glycerol og nikótín og sömuleiðis geta orðið óæskileg efnahvörf við hitun hans. Þessi aukaefni eru í álíka litlum mæli og í nikótínúða þeim sem lyfjafyrirtæki framleiða og margfalt minni en mælast í sígarettureyk. Málmagnir sem mælast í gufunni (t.d. kadmín, nikkel og blý) eru í álíka magni og mælist í nikótínúða. Væri áhugavert að sjá samanburðartölur við gufu úr hraðsuðukatli, útblástur bíla o.fl. en þær liggja ekki á lausu. Mögulega gæti einhver haft ofnæmi fyrir þessum málmögnum eða efnum sem myndast við hitun glycerols.

Nikótín er ekki sérlega hættulegt efni. Vísindaþjóðsaga frá lokum nítjándu aldar hefur hermt að 30-60 mg af nikótíni væri banvænt inntöku en til eru nýleg staðfest dæmi um sjálfsvígstilraunir þar sem fólk drakk nikótínvökva með allt upp í 1500 mg af nikótíni án þess að takast ætlunarverk sitt.

Niðurstaðan hlýtur því að vera sú að rafrettugufun sé ekki hættuleg  manni. En auðvitað má fara að dæmi fillifjonkunnar í sögu Tove Jansson og eyða orku sinni í að óttast allar mögulegar hörmungar sem gætu dunið yfir, í þessu tilviki komið í ljós löngu seinna.

 

Lítið nikótín

Kannski er stærsti gallinn við rafrettur, frá sjónarhóli notenda, að það er erfitt að gufa nikótíni í sæmilegu magni úr þeim. Í nýlegri tilraun Maciej L. o.fl., sem segir frá í vísindaritinu Addiction árið 2013  kom í ljós að uppgefið nikótínmagn í vökva í geymum stóðst ekki nærri alltaf. En öllu merkilegri var þó sú uppgötvun að samhengi milli nikótínmagns í vökvanum og nikótínmagns í gufunni var ótrúlega lítið. Í þessari tilraun var notuð reykvél og kom í ljós að gufað nikótín í 300 „smókum“ (sem hver stóð í 1,8 sekúndu) mældist á bilinu 2 mg – 15 mg. Í grein Hajek o.fl. sem birtist í sama tímariti nú í júlí og vísað er til neðst í þessum pistli var niðurstaða rannsókna á raunverulegum gufurum sú að reyndur gufari sem gufaði að vild í klukkustund gæti náð sama magni nikótíns í innöndun og er í einni sígarettu!

 

Kostir rafretta

Stærsti kosturinn er væntanlega sá að með því að nota rafrettu má draga úr reykingum eða jafnvel hætta þeim alveg. Og eins og rakið hefur verið eru rafrettur ólíklegar til að valda skaða á heilsu manns en allir ættu að vita að það er hreint ekki raunin með sígarettur, raunar allt tóbak.

Engin stór og rétt framkvæmd klínísk rannsókn hefur verið gerð á því hvort rafrettur nýtist betur eða verr en hefðbundin nikótínlyf til að hætta að reykja. Raunar sé ég ekki ástæðu til að efna til klínískrar rannsóknar á þessu því þá er um leið búið að gefa ádrátt lyfjaframleiðendum og áhangendum þeirrar skoðunar að rafretta sé einhvers konar lækningatæki.

Skv. grein Hajek o.fl. í Addiction í júlí sl. nota mjög margir rafrettur meðfram sígarettum og hefur tekist að draga umtalsvert úr reykingum með hjálp þeirra. Þetta eru „tví-notendur“ (dual users) og telja höfundar þessarar greinar að það sé ekki slæmt í sjálfu sér því það hljóti að vera til bóta að draga úr reykingum. Grana o.fl. sem skrifuðu grein í Circulation 2014 (sjá tilvísun neðst i pistlinum) halda því hins vegar fram að það þýði ekkert að minnka reykingar, þeim verði að hætta algerlega. Rökin eru þau að hætta á lungnakrabba og fleiri tegundum krabbameina ráðist af hve lengi hefur verið reykt og skipti engu máli hvort reykt sé lítið eða mikið þann tíma. (Ég ákvað umsvifalaust að hætta við að hætta nokkurn tíma að reykja þegar ég las þetta, það tekur því ekki úr þessu.)

 

Aðgengi að rafsígarettum og nikótíntönkum/geymum

Sem fram kom í síðast pistli flokkar Lyfjastofnun hérlendis nikótínvökva sem lyf og fylgir þar fordæmi Svía , Dana og Norðmanna, auk fleiri þjóða innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Í læknatímaritinu Lancet  var nokkur umræða í fyrra um hvernig skyldi flokka rafrettur og nikótínvökva og hafa eftirlit með þeim. Þar má t.d. lesa greinina Regulation of e-cigarettes: the users’ perspective eftir Ricardo Polosa og Pasquale Caponnetto, sem talsvert hafa tjáð sig um rafrettur. Í henni kemur fram að líklega félli nikótínvökvi ágætlega undir lög og reglugerðir í Evrópusambandsríkjum um fæðubótarefni en: „The rapidly expanding popularity of e-cigarettes is a threat to the interests of both the tobacco and pharmaceutical industry and to their associated stakeholders.” Ætli þetta sé ekki mergurinn málsins fremur en umhyggja fyrir heilsu gufara?

Evrópusambandið setti nýlega reglugerð  þar sem nikótínvökvi í rafrettur sem inniheldur 20 mg eða minna er flokkaður sem tóbaksvara, yfir 20 mg vökvi er flokkaður sem lyf (krækt er í fréttatilkynningu frá 24. febrúar 2014). Skoða má sérstakt áróðursplagg Evrópusambandins „til að slá á kjaftasögur” af þessu tilefni  (sem að mínu mati er ágætt dæmi um algert kjaftæði).

Evrópusambandið hefur sem sagt fellt sinn Salómónsdóm: Gefið tóbakströllinu helminginn af nikótínvökvagróða og lyfjaframleiðströllinu hinn helminginn. Auðvaldið ætti að vera hamingjusamt.

 

Delluverk dauðans

Sem betur fer hefur þessi ákvörðun Evrópusambandsins ekki orðið að veruleika ennþá. Hins vegar er innflutningur á nikótínvökvum núna gott dæmi um Catch-22 aðstæður því rétt í þessu fékk ég svar við fyrirspurn minni um hvort mætti flytja inn nikótínvökva til eigin nota  frá þjónustufulltrúa Tollstjóraembættisins:

„Nei það er ekki leyfilegt. Nikótín skilgreinist sem lyf og er því í höndum Lyfjastofnunar að veita leyfi fyrir slíku. Þar sem varan er markaðssett sem almenn vara fær hún ekki markaðsleyfi þar sem almennar vörur mega ekki innihalda lyf.“

Lyfjastofnun hér (og sums staðar annars staðar) skilgreinir nikótínvökva sem lyf. Ekkert apótek í þessum löndum selur nikótínvökva sem lyf því enginn hefur sótt um markaðsleyfi á því. Fullt af netverslunum selja nikótinvökva sem venjulega vöru en „almennar vörur mega ekki innihalda lyf“ og því er ekki hægt að vísa í reglugerðina um að sjúklingur geti flutt inn lyf til eigin nota. Ef þetta er ekki della dauðans þá veit ég ekki hvað!

 

Svo líklega sný ég mér aftur að keðjureykingum á Winston long úr því Lyfjastofnun er svo umhugað um heilsu mína og Tollurinn svona löghlýðinn.

 

En … ef einhver vill prófa þá lýk ég þessum pistli á krækjum í nokkrar vefsíður þar sem kaupa má rafsígarettur og nikótínvökva.

 

Íslenskar síður þar sem kaupa má rafrettur og íhluti:

Gaxa  (Ég hef ágæta reynslu af viðskiptum við þennan aðila en ég er svo sem óttalegur græningi í gufun.)

Rafreykur 

eLife

 

Evrópskar síður sem hafa verið vinsælar til að panta nikótínvökva:

The Pink Mule á Spáni

eShop á Írlandi

Digbys á Bretlandi

 

Aðalheimildir fyrir utan þær sem krækt er í úr texta:

Grana, R., Benowitz, N., & Glantz, S. A. (2014). E-Cigarettes A Scientific Review. Circulation, 129(19), 1972-1986.

Hajek, P., Etter, J. F., Benowitz, N., Eissenberg, T., & McRobbie, H. (2014). Electronic cigarettes: review of use, content, safety, effects on smokers and potential for harm and benefit. Addiction.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation