Drottning hysteríunnar

Blanche Wittmann

Þessi pistill er framhald af Eggjastokkapressa o.fl. við móðursýki og Charcot og hysterían.

Þegar Blanche Wittmann var lögð inn á Salpêtrière spítalann í París, átján ára gömul, hét hún Marie Wittmann skv. fæðingarvottorði. Hún virðist hafa fengið nafnið Blanche (sem þýðir „hvít“ á frönsku, e.t.v. vegna þess að hún var óvenju ljós yfirlitum) við innritunina á spítalann og gekk undir því nafni síðar. Eftirnafn hennar er nokkuð á reiki í mismunandi heimildum, ýmist haft Witman, Wittman, Wittmann eða Weidmann.

Blanche átti erfiða æsku; faðir hennar var ofbeldishneigður og endaði ævina á geðveikahæli, móðir hennar var sögð hafa þjáðst af taugaveiklunarköstum og tvö (af níu) systkinum hennar þjáðust af krömpum og flogaveiki. Fimm af þessum níu systkinum dóu á barnsaldri. Skráð er eftir Blanche að hún hafi fengið stöku krampa sem barn en ástandið versnaði að mun á unglingsaldri uns hún var lögð inn vegna flogakasta. Í gögnum spítalans er einnig skráð hún hafi átt kynferðislegt samneyti við vinnuveitanda sinn og hefði fengið „köst“  í miðjum samförum, eitt slíkt eftir samfarir.

Blanche Wittmann

Þessa mynd af Blanche Wittmann tók Paul Regnard. Hún birtist í 3. bindi Iconographie photographique de la Salpêtrière, 1879-1880, á s. 276, sem dæmi um hysteríusjúkling í „eðlilegu ástandi“.

Blanche er í gögnum Salpêtrière lýst sem stórri konu og tekið sérstaklega fram að hún hafi verið óvenju brjóstastór. Mælikvarði á stærð fátækra kvenna í París á þessum tíma var dálítið annar en nú því hún var 164 cm há og 70 kg að þyngd. Hún var talin meðalgreind og minnisgóð þótt sjálf segði hún minni sitt hafa skaðast mjög af ether, sem henni var óspart gefinn til að slá á hysteríuköst, allt þar til dr. Charcot hafði fundið upp eggjastokkapressuna góðu og Blanche æfst í réttum sjúklingsviðbrögðum.

Fyrst eftir innlögn voru köst Blanche óútreiknanleg og lýstu sér alla vega, frá duttlungum, frekju og óhemjugangi til krampafloga. Meintir hysteríupunktar á líkama hennar voru tilviljunakennir hér og þar og útum allt. En fljótlega lagaði krankleiki Blanche sig vísindalegri skilgreiningu dr. Charcot á hysteríu og smám saman varð Blanche Wittmann hinn fullkomni hysteríusjúklingur. Hún sýndi nánast öll einkenni sjúkdómsins eins og Charcot og samstarfsmenn hans skildu hann. Meðal þeirra voru vöðvaslappleiki/máttleysi, tilfinningaleysi í húð á ýmsum líkamshlutum, einkum kringum augu og kynfæri, staðbundin lömun sem kom og hvarf, litblinda og slæm sjón á öðru auga, hún upplifði kökk í hálsi („globus hystericus“), þreytu, höfuðverk, krampaköst og stjarfa. Við þessum kvillum voru prófaðar ýmsar lækningaraðferðir, s.s. að að láta hana eta gullduft, anda að sér ýmsum efnum, prófa ýmiss konar rafmagnsmeðferð á henni o.fl. En auðvitað virkaði eggjastokkapressan best.

Það sem skipti sköpum fyrir frægð Blanche var hve auðvelt var að dáleiða hana og hve auðvelt var að stjórna sjúkdómseinkennum hennar í dáleiðslunni: Hún gat sýnt hvað sem var!  Og hún bar óblandna virðingu fyrir og traust til dr. Charcot. Frá því snemma á níunda áratug nítjándu aldar og allt til þess að Charcot lést, árið 1893, var Blanche Wittmann því ekki venjulegur sjúklingur heldur stórstjarna í París.

Blanche Wittmann

Koparstunga gerð eftir ljósmynd, sem birtist í Les maladies épidémiques de l’esprit; sorcellerie, magnétisme, morphinisme, délire des grandeurs
eftir Paul Regnand, útg. 1887, s. 75. Myndin ber titilinn hysterískur doði og sýnir hvernig prjónn er rekinn gegnum framhandlegg Blanche, sem brosir á meðan.

Til að að breyta ástandi hennar þegar hún hafði verið dáleidd dugði að nudda hvirfilinn ofurlaust til að hún rankaði við sér úr doðaástandi í léttari dásvefn, til að vekja hana úr dásvefni dugði að blása á augu henni, til að falla í dá dugði að láta hana stara á bjartan hlut . Til að kalla fram mismunandi sjúkdómseinkenni í samræmi við „hysteríuramma“ Charcot nýttist eggjastokkapressan prýðilega. Með rafmagnsstautum mátti kalla fram hvaða svipbrigði sem var, síðar meir þurfti ekki einu sinni rafmagn heldur bara einhvern staut, og í dáleiðslunni hélst svipurinn óbreyttur svo lengi sem læknunum þóknaðist. Hægt var að láta hana eta kol ef sagt var að það væri súkkulaði, anda að sér ammoníaki af nautn ef henni var sagt að þetta væri rósailmvatn, láta hana gleðjast yfir ímynduðum fuglum, hræðast ímyndaða snáka o.s.fr. Líkama hennar og svipbrigði og viðbrögð mátti móta á hvaða vegu sem var, sem og kalla fram flog, tilfinningaleysi og hvað það annað sem Charcot hugnaðist að sýna sem dæmi um merkar vísindarannsóknir sínar á hysteríu: Blanche var hin fullkomna mennska brúða, sú langfullkomnasta sem Charcot hafði yfir að ráða.

blanche_stautur

Myndin á að sýna hvernig með léttri snertingu má kalla fram vöðvasamdrátt á kinnbeini Blanche. Hún birtist í 3. bindi
Iconographie photographique de la Salpêtrière, 1879-1880, og má sjá stóra útgáfu hennar í myndasafni á vef Yale háskóla,

Það var ekki að furða að menn flykktust á sýningar („fyrirlestra“) Charcot tvisvar í viku, og þóttu þær taka mörgum leiksýningum fram. Í frönskum dagblöðum var frammistaða Blanche iðulega borin saman við leikkonuna frægu Sarah Bernhardt og jafnvel talið að sú síðarnefnda gæti ekki leikið eftir það sem Blanche gat. Þetta varð auðvitað til þess að leikkonur sóttu líka „fyrirlestra“ Charcot og Sarah Bernhardt lagði meira að segja á sig að dvelja nokkra daga á Salpêtrière til að undirbúa sig almennilega undir dramatískt hlutverk.

Frægð Blanche einskorðaðist raunar ekki bara við sýningar á Salpêtrière, hún var líka lánuð á aðra spítala þar sem læknar voru að fást við tilraunir á hysteríu því hún var svo fullkominn hysteríusjúklingur, hún var í rauninni holdgervingur kenninga Charcot um hysteríu.Henni var leikur einn að sýna öll afbrigði hysteríunnar.

Málverk André Brouillet, Une leçon clinique à la Salpêtrière [Klínískur fyrirlestur á Salpêtrière], frá 1887 er risastórt, á því er Blanche nánast í líkamsstærð. Karlarnir sem sjást á málverkinu voru frægir á sínum tíma og eru sumir enn. Sjá má þá flesta merkta á undirsíðu baillement.com,  Stór ljósmynd af málverkinu sjálfu er á Wikipedia,

Málverk André Brouillet, Une leçon clinique à la Salpêtrière [Klínískur fyrirlestur á Salpêtrière], frá 1887 er risastórt, á því er Blanche nánast í líkamsstærð. Karlarnir sem sjást á málverkinu voru frægir á sínum tíma og eru sumir enn. Sjá má þá flesta merkta inn á málverkið á undirsíðu baillement.com.
Stór ljósmynd af málverkinu sjálfu er á Wikipedia,

Eftir lát dr. Jean-Martin Charcot fékk Blanche Wittmann ekki eitt einasta krampaflog, lömunarkast, æði eða nein þau hysteríueinkenni sem samrýmdust vísindalegri greiningu dr. Charcot á þessum sjúkdómi . Hlutverki hennar sem drottning hysteríunnar lauk með dauða kóngsins, Charcot, enda dó áhugi læknanna á Salpêtrière á hysteríu um leið, líklega einnig trú þeirra á vísindi Charcot varðandi þennan sjúkdóm.

Blanche dvaldi áfram á Salpêtrière, ekki sem sjúklingur heldur sem starfmaður. Hún vann á ljósmyndastofunni, rannsóknarstofum og loks á röngtenstofu þegar sú tækni kom til skjalanna. Fyrstu röngtentækin komu á Salpêtrière laust eftir aldamótin 1900. Menn höfðu lítinn skilning á hættunni sem fylgdi röngtengeislum og Blanche Wittmann varð eitt af fyrstu fórnarlömbum þeirra: Hún fékk óviðráðanlegt krabbamein. Það þurfti að taka af henni fingur, svo alla höndina, svo framhandlegginn, svo allan handlegginn, svo byrjaði sama sagan á hinum arminum.

Alla jafna var erfitt að fá hana til að rifja upp eða tala um stjörnuhlutverk sitt á gullöld hysteríunnar en á dánarbeði tókst þó að fá hana til að segja ofurlítið af þessu. Þá harðneitaði hún að nokkur leikaraskapur hefði verið í spilinu, hysterían eins og hún var skilin á dögum dr. Charcot hefði svo sannarlega verið raunverulegur sjúkdómur. Loks hreytti hún út úr sér að dr. Charcot hefði strax séð út sjúklinga sem hefðu reynt að gera sér upp hysteríueinkenni, það var ekki hægt að plata þann góða vísindamann.

Blanche Wittmann lést árið 1912.

 

Heimildir aðrar en krækt er úr í textanum

Alvarado, Carlos S. 2009. Nineteenth-century hysteria and hypnosis: A historical note on Blanche Wittmann. Australian Journal of Clinical and Experimental Hypnosis, 37. árg., 1. tbl., s. 21-36.

Hustvedt, Asti. 2011. Medical Muses: Hysteria in Nineteenth-Century Paris. W. W. Norton & Company, New York og London.

Marie dite “Blanche Wittman”.  Historix. Histoire de la radiologie aux hôpitaux de paris

 

Þessi pistill birtist áður í Kvennablaðinu 20. janúar 2014.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation