Eggjastokkapressa o.fl. við móðursýki

eggjastokkapressa

 

Þessi pistill er framhald af Charcot og hysterían

Dr. Jean-Martin Charcot fékk fljótt ómældan áhuga á hysteríu (móðursýki), sem sést m.a. á því að hann skrifaði tvöfalt fleiri greinar um hana en um nokkurt annað efni sem honum var hugleikið í taugalækningum. Eftir því sem áhugi hans jókst margfölduðust jafnframt hysteríugreiningar í sjúklingasafninu á Salpêtrière.

Hystería hafði til skamms tíma verið hálfgerð ruslakistugreining á ýmsum krankleika kvenna (sjá bloggfærsluna Hystería eða móðursýki) enda virtist sjúkdómurinn geta komið fram á ólíklegustu vegu. Einn helstu aðstoðarmanna Charcot, Bourneville, lýsti því prýðilega hvernig hystería einkenndist oft af miklum öfgum, t.d. gæti hysteríusjúklingur þjáðst samtímis af tilfinningaleysi og ofurnæmi; ofboðslegum þvaglátum og þvagteppu; svefnleysi og svefnsýki; þunglyndi og örlyndi o.s.fr. Margir hysteríusjúklingar sýndu ýmiss konar óhemjugang og fengu krampaflog í mismiklum mæli. Charcot sneri sér að því að flokka hin ólíku einkenni og koma einhverju skipulagi á óreiðuna.

Niðurstaða hans var að til væri sjúkdómurinn grand hystérie, meiriháttar móðursýki, sem væri taugasjúkdómur og ætti upptök sín í einhvers konar skemmd í heila (eða hugsanlega mænu). Charcot tóks hins vegar aldrei að finna skemmdina þá með krufningum. Hann skipti sjúkdómseinkennum grand hystérie í fjögur stig, tók þó fram að þau kæmu ekki endilega öll fram í hverju kasti, birtust ekki endilega í réttri röð og raunar gæti birtingarmynd hvers stigs verið mjög ólík eftir einstaklingum. Samt sem áður gæti nú hvaða læknir sem er greint sjúkdóminn grand hystérie eftir þessu skema sem hann hefði uppfundið:

  1. Krampar eða flog sem einkennast af vöðvakippum og vöðvaspennu. Flogboði (ára) eða einhvers konar undanfari kemur fyrst.
  2. „Grand movements‟: Hreyfingar sem líkjast fettum og brettum fimleikafólks í sirkús.
  3. „Attitudes passionnelles‟ (ástríðuþrungnar stellingar) þar sem hysteríusjúklingurinn sýndi sterkar tilfinningar á borð við ótta eða algleymi. Oftar en ekki voru þetta erótískar tilfinningar.
  4. Delirium, þ.e. óráð, æði eða rugl.

Forboði hysteríukasts

Forboði

Krampar

Krampar

Grand movements

Grand movements

Ástríðuþrungin stelling

Ástríðuþrungin stelling

Teikningarnar eru úr bók Paul Marie Louis Pierre Richer, samstarfsmann dr. Charcot, Études cliniques sur l’hystéro-épilepsie ou grande hystérie, sem kom út 1881. Hún er aðgengileg á Vefnum og titillinn krækir  í fyrri yfirlitsmyndasíðu þar sem sjá má ýmsar birtingarmyndir þessara fjögurra stiga í hysteríu-ramma Charcot – ef einhver skyldi nú vilja sjúkdómsgreina eftir þeim.

Það merkilega skeði að þegar Charcot var búinn að finna upp þennan ágæta ramma fóru hysterísku konurnar á Salpêtrière að sýna einmitt þessi einkenni og óreiðan í sjúkdómseinkennum minnkaði að mun.

 

Meðhöndlun hysteríusjúklinga

Þótt stundum sé gert mikið úr því að Charcot hafi greint hysteríu í einstaka karlmanni miðuðust öll hans fræði við kvenlíkamann og verður að álykta sem svo að hann hafi talið hysteríu aðallega kvennasjúkdóm. Þar sem fyrri tíðar læknar höfðu verið uppteknir af áhrifum legsins í hysteríu sneri Charcot sér að brjóstum og eggjastokkasvæði, sem var vissulega nýlunda. Hann uppgötvaði ákveðna bletti, hysteríupunkta, á líkamanum og að þrýstingur á þá gat ýmist stöðvað hysteríukast eða komið því af stað, jafnvel var hægt að stjórna hinum fjórum grunnstigum í sjúkdómsgreiningarramma Charcot með þéttum þrýstingi á þessa punkta.

Til að byrja með notuðu Charcot og aðstoðarmenn hans einfaldlega hnúa og hnefa til að þrýsta á þessa punkta en svo fann hann upp eggjastokkapressuna. Eggjastokkasvæðið var næmast, að mati Charcot, og með þessari græju mátti skrúfa duglegan þrýsting á þá hysteríupunkta. Titilmynd þessa pistils er einmitt af eggjastokkapressu Charcot; Móðursjúk kona íklæddist svoleiðis málmbrók og ef á þurfti að halda var skrúfan hert. (Teikningin er merkt þeim Désiré-Magloire Bourneville og Paul Regnard. Hún birtist í 3. bindi Iconographie photographique de la Salpêtrière 1878.)

 

Hysteríupunktar að framan

Hysteríupunktar að framan

Hysteríupunktar að aftan

Hysteríupunktar að aftan

Teikningarnar sem sýna hysteríupunktana eru  úr Études cliniques sur l’hystéro-épilepsie ou grande hystérie.

Charcot uppgötvaði að það væri auðvelt að dáleiða hysteríusjúklinga og í dáleiðslunni yrði sjúkdómsmyndin miklu skýrari og þ.a.l. auðrannsakanlegri. Hann taldi að einungis væri hægt að dáleiða þá sem væru haldnir hysteríu, ekki aðra, og lenti í talsverðum deilum við kollega sína á öðrum spítala í París sem héldu því fram að hægt væri að dáleiða hvern sem er.

Hægt var að gera ýmsar áhugaverðar tilraunir á hysterískum dáleiddum konum. Charcot og félagar prófuðu sig áfram með að koma inn fölskum minningum, láta þær sjá ofsjónir o.þ.h. en höfðu sérstakan áhuga á að skoða hvernig hægt væri að koma þeim fyrir í ýmsum stellingum sem fólk er alla jafna ekki í; eitt einkenni hysteríu var nefnilega stjarfi og því einkar skemmtilegt og vísindalegt að skoða hvernig stjarfur líkami hélst í undarlegri stellingu tímunum saman. Þetta var líka einkar þægilegt upp á ljósmyndun að gera því þeirra tíma ljósmyndatækni krafðist þess að viðfangið væri kjurt í talsverða stund.

Augustine Gleizes lögð yfir stólbök. Myndina tók Paul Regnard og hún birtist í ársriti Charcot, Iconographie photographique de la Salpêtrière, 3. bindi 1879-1880.

Augustine Gleizes lögð yfir stólbök. Myndina tók Paul Regnard og hún birtist í ársriti Charcot, Iconographie photographique de la Salpêtrière, 3. bindi 1879-1880.

 

Þessi mynd af Augustine Gleizes birtist í sama hefti ársritsins.

Þessi mynd af Augustine Gleizes birtist í sama hefti ársritsins.

 

Með þrotlausum tilraunum áttuðu læknarnir sig svo á því að ef líkaminn var settur í einhverja þá stellingu sem táknaði eindregna tilfinningu þá breyttist andlitssvipurinn og lýsti sömu tilfinningu. Þeir rannsökuðu þetta merkilega taugafræðilega fyrirbæri af kappi.

Stelling sem táknar ótta

Stelling sem táknar ótta

Augustine Gleizes í stellingu sem á að tákna gleði og eftirvæntingu

Augustine Gleizes í stellingu sem á að tákna gleði og eftirvæntingu

Guillaume-Benjamin-Amand Duchenne (de Boulogne) að vísindastörfum

Guillaume-Benjamin-Amand Duchenne (de Boulogne) að vísindastörfum

Charcot var svo heppinn að kynnast taugalækni, Duchenne hét sá og hélt hann bæði upp á ljósmyndun og  rafmagnstilraunir. Svo heillaðist Charcot af hinni nýju ljósmyndatækni að hann lét útbúa sérstakt stúdíó á Salpêtrière. Í samvinnu við Duchenne voru svo gerðar tilraunir með að breyta andlitssvip með rafstraumi og gá hvort stelling líkamans fylgdi á eftir. Svo varð og þótti mjög merkilegt.

Til að ganga úr skugga um að sjúklingur væri ekki að leika og ljúga upp á sig hysteríu (en leikaraskapur var einmitt eitt af einkennum hysteríu og því erfitt að þekkja þetta í sundur) voru ýmis próf. Má nefna að til að athuga hvort sjúklingurinn væri raunverulega með tilfinningalausa bletti á húð var stungið í hann nálum eða logandi eldur borinn að svæðinu. Til að athuga hvort lamaðir útlimir væru raunverulega dofnir voru reknir prjónar í gegnum þá. Rannsóknarmenn tóku og eftir því að í raunverulegum hysteríutilfellum blæddi miklu minna úr sárunum en alla jafna var raunin í sjúklingum sem ekki voru hysterískir og var veittur sams konar áverki.

Margar tilraunir voru gerðar með segulmagn og skiluðu þær merkilegum niðurstöðum. Ef segli var haldið að lamaðri hlið hysterískrar konu færðist lömunin yfir á hina hliðina; ef segull var borinn upp að blindu auga hysterískar konu fékk hún sjón á því auga en hitt augað varð blint; þannig mátti og spegla litblindu, heyrnarleysi, tilfinningaleysi í húð og margt fleira.

Eitt sterkt hysteríueinkenni var óvenju næmt húðskyn og stundum sérstök ofnæmisviðbrögð. Því gerðu menn tilraunir með dermagrafíu, þ.e. húðritun. Hægt var að skrifa á hysteríska konu með einhverju sæmilega oddhvössu verkfæri og nokkru síðar birtust skrifin upphleypt á húðinni, voru jafnvel margar vikur að hverfa. Þetta kallaði á áhugaverðar tilraunir, s.s. að kanna hvort skrift á lærum, brjóstum eða maga héldist jafn lengi, hvort skipti máli hvað var skrifað o.s.fr.

 

Húðritun

Myndin er úr grein Ernst Mesnet, “Autographisme et stigmates” í Revue de l’hypnotisme experimental et thérapeutique, 1889– 1890.

Húðritun

Titill myndarinnar er
Démence Précoce Catatonique Dermographisme og hún er merkt L Trepsat (sem gæti verið ljósmyndarinn), 1893. Myndin birtist í Nouvelle Iconographie de la Salpêtrière, 1904. Hún sýnir hvernig sjúkdómsheitið, sárasóttargeðveiki, hefur verið ritað á húð hysterískrar konu.

 

Hysteríusýningar

Það er ekkert sem bendir til þess að Charcot hafi verið umhugað um að finna lækningu við hysteríu. Meðhöndlun hans á hysterískum konum var fyrst og fremst í rannsóknarskyni, hann vildi glöggva sig á þessum merkilega taugasjúkdómi og helst að finna vefræna orsök hans.

Tvisvar í viku hélt hann opinbera „fyrirlestra‟, þar sem hann sýndi sjúkdómstilvik, þ.e.a.s. sjúklinga, og útskýrði einkennin. Hysteríusýningar hans urðu víðfrægar og gengu sögur um að umferðaröngþveiti yrði í París þegar allir vildu komast á hysteríusýningu dr. Charcot! Læknar, skáld, listamenn, heimspekingar og aðrir andans menn flykktust til Parísar til að verða vitni að þessum merkilegu læknisfræðiuppgötvunum dr. Charcot; hróður hans og fræði bárust og víða.

Nokkrar hysteríustjörnur komu fram á sjónarsviðið, þ.e.a.s. sjúklingar sem létu prýðilega að stjórn og sýndu rétt hysteríueinkenni á réttum tíma á svona sýningum. Þetta voru allt ungar konur, sumar þeirra þóttu og fagrar og föngulegar. Frægust þeirra, díva hysteríunnar, var Blanche Wittman, sem gerð verða skil í næsta pistli.

 

Heimildir aðrar en getið er í textanum

 

Alvarado, Carlos S. 2009. Nineteenth-century hysteria and hypnosis: A historical note on Blanche Wittmann.  Australian Journal of Clinical and Experimental Hypnosis, 37. árg., 1. tbl., s. 21-36.

Dysert, Anne. 2013. Iconographie photographique de la SalpêtrièreDe re medica. News from the Osler Library of the History of Medicine.

Hustvedt, Asti. 2011, Medical Muses: Hysteria in Nineteenth-Century Paris. W. W. Norton & Company, London og New York.

Shorvon, Simon. 2007. Fashion and cult in neuroscience – the case of hysteria. Brain 130. árg. 12. tbl., s. 3342-3348.

Safn mynda úr Iconographie photographique de la Salpêtrière (tímariti sem Charcot og félagar gáfu út) á í læknisfræðisafni Harvey Cuching/John Hay Whitney á vef Yale háskólans.

 

Þessi færsla birtist í Kvennablaðinu 16. janúar 2014.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation