Dr. Svanur og hinir vantrúarfélagarnir

Ég horfði á Svan Sigurbjörnsson lækni í sjónvarpsfréttum um daginn, mér til ánægju því þetta er mesti myndarmaður, og skoðaði svo glærurnar hans (krækt er í þær neðst í þessum stutta pistli hér, á skodun.is) sem fylgdu fyrirlestrinum hans á Fræðadögum heilsugæslunnar. Vennmyndirnar á glærunum eru flottar. Þótt ég sé afar ósammála málflutningi Svans nennti ég ekki að mótmæla honum … ekki fyrr en núna þegar ég sá að félagar hans í Vantrú hnykkja á málflutningnum (sjá pistilinn Kuklfrelsi á vef Vantrúar). Það er langt síðan ég hef bloggast á við vantrúarfélaga og mér finnst soldið ljótt að afrækja þá því það er eiginlega enginn sem nennir að svara þeim núorðið. Ég bæti úr þessu núna.

Í málflutningi Svans gegn kukli eru nokkrar auðsjáanlegar gloppur. Helstar eru þessar:

* Hann virðist gera ráð fyrir að fólk sé almennt fífl/óvitar sem verði að hafa vit fyrir svo það fari sér ekki að voða. Mín reynsla af fólki er að flest er það skynsamt. Ég held að það sé hið besta mál að gera fólki betur kleift að nálgast upplýsingar um óhefðbundnar lækningar (kukl og hjálækningar, sem Svanur kýs að kalla þær), þá eru meiri líkur á að menn geti tekið upplýsta ákvörðun um mögulega gagnsemi slíkra lækninga við sínum kvillum. Forsendan fyrir frjálsum vilja er þekking og ég er viss um að við Svanur erum hjartanlega sammála um að frjáls vilji er eftirsóknarverður. (Við erum hins vegar líklega ekki sammála um hvenær hann eigi við, t.d. er ég ekki sammála því að leik- og grunnskólahald á aðventunni eigi algerlega að lúta vilja þeirra örfáu sem er í nöp við jólaundirbúning kristinna manna og Svanur virðist ekki sammála því að veikt fólk fái að velja sér lækningaraðferðir.)

* Svanur (og hinir vantrúarfélagarnir) ganga út frá því að skörp skil séu milli vísinda og ekki-vísinda, þar sem læknisfræði séu vísindi. Ritstjórn Vantrúarvefjarins segist gera þá einu kröfu að vísindaleg vinnubrögð ráði för þegar komi að heilsu fólks. Nú er margt í lækningum sem ómögulega er hægt að kalla vísindi í þeim skilningi að þar hafi vísindalegar aðferðir getað greint orsakir og eðli krankleika eða að læknismeðferð byggi á einhverju sem er vísindalega sannað.

Svo ég taki dæmi af þeirri læknisfræði sem ég hef helst einhverja innsýn í, þunglyndislækningum (sem eru hluti geðlækninga) þá hefur ekki verið sýnt fram á orsakir þunglyndis (þótt settar hafi verið fram ýmsar ólíkar tilgátur út í bláinn öldum saman – tuttugasta- og tuttugastaogfyrstaöldin þar ekki undanskildar), vísindaleg rök fyrir samsetningu þunglyndislyfja eru engin (þótt settar hafi verið fram tilgátur en síðan bakkað með þær) og virkni þunglyndislyfja umfram virkni lyfleysu mælist ekki svo marktækt sé nema í örfámennum hópi allra veikustu sjúklinganna.  Rökin fyrir lyfjagjöf (oft mismunandi blönduðum lyfjakokteilum) handa þunglyndissjúklingum eru klínísk reynsla viðkomandi læknis (mögulega stéttarinnar í heild ef menn eru duglegir að bakka hver annan upp). Aðalrök þeirra sem stunda óhefðbundnar lækningar eru einmitt að reynslan sýni að þær virki. Þá vaknar auðvitað spurningin, í ljósi málflutnings Svans og félaga, hvort reynsla geðlækna hafi miklu meira vægi en reynsla annarra þeirra sem brúka aðferðir sem ekki geta kallast vísindalegar.

Næsti kostur sem geðlæknar bjóða þunglyndum upp á þegar ljóst er að lyfin virka ekki hætis hót eru endurtekin raflost. Það er nákvæmlega ekkert vitað hvað endurtekin raflost gera við heilann; aðferðin var fundin upp við allt öðrum geðsjúkdómi (geðklofa) en þykir virka illa á hann; af reynslu veit ég að sjúklingum er ekki gefinn kostur á upplýstu samþykki fyrir þessari aðferð heldur einungis samþykki á grundvelli afar takmarkaðra og fegraðra upplýsinga. Skelfilegum afleiðingum sem þessi hrossalækning (til að gæta sannmælis tek ég fram að hún var samt upphaflega prófuð á svínum en ekki hrossum) getur haft er ekki haldið á lofti í heilbrigðiskerfinu.

* Svanur virðist gera ráð fyrir að sú þekking sem er viðurkennd í læknisfræði í dag sé hin eina rétta vísindalega þekking á lækningum. Hann virðist ekki gera sér grein fyrir því að hluti vísindalegra þekkingar í læknisfræði nútímans gæti þess vegna verið álitin bölvaðar bábiljur í framtíðinni. Annað eins hefur nú gerst í sögu læknisfræðinngar. Ég minni t.d. á þá tvo sem hafa fengið Nóbelsverðlaun fyrir merkilegar uppgötvanir í geðlæknisfræðum:

Walter-Jauregg fékk sín verðlaun 1927 fyrir þá merkilegu uppgötvun að það að smita sýfilisgeðveika með malaríu og láta þá fá duglega hitatoppa í nokkurn tíma gæti lagað geðveikina tímabundið (að því tilskildu auðvitað að sjúklingurinn dræpist ekki úr malaríunni). Á Íslandi brúkuðu menn varíant af þessu, brennisteinsolíu sem var sprautað í vöðva í sama skyni, þ.e. til að láta sjúklinginn frá háan hita, og á sjötta áratugnum (þegar sýfilisgeðveiki hafði verið útrýmt með pensillíni) voru leiðinlega geðveikir sjúklingar á Kleppi enn sprautaðir með eigin blóði í vöðva til að framkalla sótthita … í lækningarskyni. Heimildir um lækningamátt aðferðanna eru hins vegar sjaldgæfar.

Hinn sem fékk Nóbelsverðlaun, árið 1949, fyrir ómetanlegt framlag sitt til geðlækninga var Egan Moniz, sem fann upp á því að hræra tilviljanakennt í hvelatengslum í heilum geðveikra og staðhæfði að þeim batnaði við það. Sú aðferð, lóbótómían, fór sigurför um heiminn og hér á Íslandi urðu harðvítugar blaðadeilur um miðja síðustu öld milli vísindalega þenkjandi lækna og yfirlæknisins á Kleppi sem ekki vildi hræra í heilum sinna sjúklinga og var þ.a.l. ásakaður (af kollegunum) um að fylgjast ekki með og vilja ekki nota vísindalegar aðferðir. Í ljósi sögunnar finnast mér því yfirlýsingar Svans um vísindi nútíma læknisfræði vera helsti hrokafullar.

* Svanur tekur öfgafullt dæmi til að sanna að kukl geti verið lífshættulegt, nefnilega ákvörðun Steve Jobs um að leita sér óhefðbundinna lækninga við sínu krabbameini. Að taka sérvitringinn Steve Jobs sem dæmi um hættu kuklisins er svona álíka og að taka Thalidomide sem dæmi um þær skelfilegur hættur sem kunna að stafa af lyflækningum almennt … Og ég vona að Svani sé kunnugt um þá staðreynd að fólk deyr stundum þrátt fyrir að það skipti við lækna, jafnvel inniliggjandi á spítölum.

Nú er ég ekki sérlega höll undir kukl, til þess er ég of vantrúuð á að margt af því virki. En ég er heldur ekki höll undir allar (meintar) vísindalegar lækningar af því ég veit að sumar eru ekki endilega til bóta og geta verið til mikils skaða. Samt veit ég um mörg dæmi þess að óhefðbundnar lækningar hafi hjálpað sjúklingum og einnig um mörg dæmi þess að hefðbundnar lækningar hafi hjálpað sjúklingum. Ég fagna samtökum á borð við Heilsufrelsi, ekki af því ég sé sammála öllu í þeirra málflutningi heldur vegna þess að ég geri þá kröfu að fólk geti nálgast upplýsingar, aflað sér þekkingar og haft frelsi til að taka ákvarðanir sem snerta þess heilsu. Síst af öllu vil ég að strangtrúarmenn á borð við Svan taki að sér skömmtun á upplýsingum um heilsutengd málefni.

19 Thoughts on “Dr. Svanur og hinir vantrúarfélagarnir

  1. Erlingur Þorsteinsson on November 12, 2013 at 01:19 said:

    Sæl Harpa,

    Nákvæmlega.

    Ég get vitnað um 2 aðila þar sem önnur hafði gengið milli lækna í 11 ár hin í 13 ár og fengið óteljandi tegundir af pillum. Sem skiluðu nákvæmlega engum árangri. Þær fengu fullan bata báðar eftir nálastungumeðferð.

    Einnig veit ég um aðila sem hafa svipaða sögu að segja með spjaldhryggsmeðferð og meðferð hjá “light clinic” það er fullur bati eftir endalaust rugl í læknum eins og Svani. (ég er afkomandi 2 fv. landlækna no 1 og 2)

    Mín skoðun er sú að Svanur og félagar eru það sem þeir virðast álíta að aðrir séu…..

    Fyrir nokkrum árum síðan skrifaðist ég á við einn af V. sá reyndist vera talsmaður V en er nú kominn í Siðmennt.

    Í ljós kom að viðkomandi aðili hafði ekki kynnt sér þau gögn sem bent var á, en eins og kunnugt er er það atriði no 1 varðandi svokölluð vísindaleg vinnubrögð.

    Hann hélt því einnig fram að viðkomandi vísindamönnum hafi verið mútað.

    Þegar síðan algjört rökþrot blasti við:

    Viðkomandi klykkti síðan út með því að drulla yfir mig með dónaskap og persónulegum ávirðingum. Bætti síðan við að Darvin hefði rétt fyrir sér. Við værum komin af öpum.

    Td.. voru síðustu Nóbels verðlaunin veitt vegna rannsóknarniðurstöðu þar sem að í sérhverri frumu er verksmiðja, sem afsannar Darwin endanlega….

    Eftir nokkra umhugsun svaraði ég ” Eftir samskipti mín við þig tel ég ekki útilokað að hluti mannkyns sé komin af öpum”.

  2. Sigurgeir on November 12, 2013 at 01:55 said:

    Það má vera að ekki sé nákvæmlega vitað hvað valdi þunglyndi. Vísindin geta ekki útskýrt allt. Lyfin sem notuð eru við þunglyndi eru samt sem áður prófuð með vísindalegum aðferðum og þau vísindi virka. Enda fá flestir þunglyndissjúklingar bót meina sinna og betri líðan þökk sé þessum lyfjum. Að halda því fram að aðeins þeim verst settu batni er annaðhvort lygi eða fávísi. Aðferðirnar sem notaðar voru fyrir mörgum áratugum eða tæplega öld síðan eiga svo ekkert sameiginlegt með nútíma geðlæknisfræði. Að bera þetta tvennt saman er fásinna. Í gamla daga vissu menn lítið en nútíma geðlæknisfræði er ekkert annað en stórkostlegt kraftaverk.

  3. Halldór Carlsson on November 12, 2013 at 12:41 said:

    Sýnist margt rétt í því sem Harpa segir um þunglyndis/ kvíðastillandi lyf (SSRI-lyf). Hef reynslu af þeim og veit ýmislegt um þau, td. hversu gríðarlega ofnotuð þau eru þar sem aðrar aðferðir myndu duga amk. jafnvel eða betur (eða amk. samhliða lyfjum), en þykja of dýrar fyrir heilbrigðiskerfið. Læknar ávísa þessu einsog brjóstsykri, vilja ekki ræða aukaverkanir eða gera lítið úr þeim (oft vegna þess að þeir hafa engin önnur ráð og vita að þessi efni hjálpa) – en það alvarlegasta eru dæmi um afar vond fráhvörf ef hætt er að nota þessi efni of hratt (sem sjúklingurinn er oft ekki meðvitaður um, vegna ónógra upplýsinga frá óbreyttum heimilislækninum sem gaf honum efnin í fyrstu). Þessar alvarlegu aukaverkanir hafa verið tengdar við ofbeldi og árásarhneigð. Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur skrifaði um þessi efni á sínum tíma á gagnrýnan hátt, en fær enga athygli.

    Dæmi eru um að þessi efni séu gefin af ísl. læknum gegn of bráðu sáðláti – það veit ég frá fyrstu hendi frá ísl. lækni.

    Soma ..

  4. Gyða Atladóttir on November 12, 2013 at 12:51 said:

    Það er svo ótrúlega fyndið þegar fólk (sem vill fá vísindalegar sannanir fyrir hlutunum) talar eins og búið sé að uppgötva ALLT. “Aðferðirnar sem notaðar voru fyrir mörgum áratugum eða tæplega öld síðan eiga svo ekkert sameiginlegt með nútíma geðlæknisfræði.” Hvað skyldum við segja um geðlæknisfræði eftir marga áratugi eða tæpa öld? Fyrir löngu, löngu var aðallækningaðferðin að taka fólki blóð, svo fattaðist að þetta var ekki að gera neitt gagn og því var hætt. Í dag finnst allavegana mér það vera alveg ótrúlegt að einhverjum hafi í alvöru dottið þetta í hug. En í morgun heyrði ég lækni tala um að nú væri hafin umræða um að reyna með öllum ráðum að styrkja ónæmiskerfið hjá sjúklingum í stað þess að lama það algerlega eins og er aðallækningaaðferðin í krabbameinslækningum nú um mundir. Ég er allavegana alveg viss um eitt: Við erum ekki búin að uppgötva allt, ég vil meira að segja ganga svo langt að fullyrða að við eigum eftir að gera alveg heilan helling af ótrúlegustu uppgötvunum í læknisfræði sem og öðrum fræðum.

  5. Pingback: Vísindi og kukl | Skoðun

  6. Ég hef sosem ekki lesið allar athugasemdirnar hér að ofan en auðvitað er rétt hjá þér að nútímavísindi byggja á kenningum og tilgátum sem í sumum tilvikum eiga eftir að falla í valinn fyrir öðrum betri.

    Þú ert samt ekki fyllilega sanngjörn í pistlinum. Auk þess er ákveðið ósamræmi milli punkta 3 og 4. Þú segir gagnrýni hans á kukl byggja á öfgafullum dæmum en notar sjálf ekki minni krassandi dæmi um malaríu og olíusprautur til að kasta rýrð á „hefðbundnar“ lækningar.

    Eftir sem áður held ég að kjarni gagnrýni þinnar sé réttur. Hefðbundin læknavísindi fara sínu fram með of mörgum upphrópunarmerkjum og of fáum spurningarmerkjum. Þau hafa verið of alhæfandi, einstrengingsleg og viss í sinni sök. Gegn því á að berjast. Og lemja í brestina.

    En ég vildi óska þess að menn hlífðu ekki kuklinu við höggum heldur.

  7. Það er gott að hér virðast allir fylgjandi vísindalegri nálgun, en bent á að kukl og ofurtrú á ágæti eigin lausna er ekki algerlega bundinn við svokallaða kuklara heldur finnst hjá hefðbundnum læknum einnig.
    Læknar og prestar voru jú eins konar hálfguðir hér a.m.k. fram á síðustu áratugi og enn mun vera til margt fólk sem telur presta hafa sérstakt samband við óskeikular ósýnilegar ofurveur og læknar séu eins konar guðir sjálfir. Ég held að nútímalegum prestum og læknum finnist nú flestum þarna heldur of mikið í lagt. Prestar í Svíþjóð og Danmörku munu nú lang flestir lausir við guðstrú og góðir læknar tala gjarnan um lækningastörf sem blöndu af vísindum og list. Árangur læknavísindinna í heild er aldeilis magnaður, en fátt er fullkomið.

  8. Halla Magnúsdóttir on November 13, 2013 at 18:14 said:

    Hroki og ofurtrú á eigið ágæti og ágæti eigin aðferða hefur alla tíð einkennt þessa umræðu hvort sem menn aðhyllast vísindi eða meint kukl. Í báðum greinum eru margir fúskarar og svo aðrir vandaðir innan um. Ekkert er eins fráhrindandi og aðilar sem þykjast hafa svörin og sannleikann ávallt á reiðum höndum. Sérstaklega sjálfskipaðir sérfræðingar fullir af forræðishyggju. Auðmýktin er lykill viskunnar. Það geta spurt spurninga og haldið áfram leitinni. En það er oft eins og ekki sé spurt réttu spurninganna. EÐA, menn telja sig ekki þurfa að spyrja. Þess vegna fást ekki “rétt” svör. Þess vegna er svo mikilvægt að hafa frelsi til að taka ákvarðanir í sínum málum.

  9. Svanur Sigurbjörnsson on November 13, 2013 at 19:51 said:

    Sæl Harpa
    Þú skrifar: “Svanur virðist ekki sammála því að veikt fólk fái að velja sér lækningaraðferðir”. Þetta eru alvarlegar ásakanir. Hvernig kemstu að þessari niðurstöðu og getur þú bent á eitthvað í mínum málflutningi í þessa átt? Það er ekki það sama og gagnrýna meðferðir sem ég tel að séu gagnslausar og að setja fólki skorður. Fólk hefur fullt frelsi til að leita til hvers sem það vill og ég stendi ekki í vegi þess. það er svo allt annað mál hvað ríkið á að taka upp sem fagaðila og meðferðarúrræði sem okkar sameiginlegu sjóðir eiga að greiða fyrir. Það getur aldrei með réttu ráði orðið bara eitthvað, eftir stjörnuspá eða læknamiðlum, bara af því að einhverjir sækjast eftir því.

  10. Harpa Hreinsdóttir on November 13, 2013 at 23:40 said:

    Sæll Svanur

    Að sjálfsögðu skal ég rökstyðja þessa niðurstöðu mína með tilvísun í málflutning þinn á síðustu árum um hættur kukls og hjálækninga. Því miður hef ég talsvert umleikis akkúrat þessa dagana svo ég kemst ekki til þess að svara þér almennilega, þ.e.a.s. fletta upp beinum tilvitnunum í þig, fyrr en kannski um helgina. Vona að það komi ekki að sök.

  11. Svanur Sigurbjörnsson on November 14, 2013 at 01:50 said:

    Sæl á ný
    Mér sýnist á öllu að þú hafir skrifað eftir því sem þú hélst að þig minnti að ég hefði skrifað eða sagt en hefur ekki tékkað á staðreyndum málsins. Eftir stendur að þú fullyrðir ranglega um afstöðu mína og þykir í lagi að láta þann ósannleika standa þar til að þú hefur tíma til að skoða málið. Hvernig væri að snúa þessu við og taka fullyrðinguna út þar til að þú hefur tíma til að leita af því sem þig minnti? Það er nefnilega betra að saka ekki fólk um eitthvað nema að hafa vissu fyrir því.
    Á sama máta er betra fyrir fólk að fullyrða ekki um lækningargetu meðferðarúrræða án þess að hafa fyrir því sannanir út frá klínískum rannsóknum. Það er betra að hafa þagað en logið.

  12. Harpa Hreinsdóttir on November 14, 2013 at 17:43 said:

    Hér er snöggsoðið svar úr því þér liggur á, Svanur:

    Þú hefur haldið því fram að viðtal við krabbameinssjúkling sé stórhættulegt af því sá krabbameinssjúklingur upplýsti sérstaklega að hann notaði óhefðbundnar lækningar (auk hefðbundinna); í því samhengi kallaðirðu kollega þinn, Hallgrím lækni í Hveragerði, lygara; þú hefur marghamrað á því á vef Vantrúar, vettvangi Siðmenntar, eigin bloggum og víðar að koma eigi böndum yfir kuklara/græðara, að stemma beri stigu við auglýsingum þeirra, að ekki megi undir neinum kringumstæðum veita sjúklingum fjárhagslegan stuðning til að skipta við slíka af hálfu opinbers heilbrigðiskerfis o.s.fr. Kannski kristallast forræðishyggja þín í leiðara Læknablaðsins 07/08. tbl. 98.árg. 2012 þar sem þú segir:

    “Hvað eiga læknar að gera? Ég legg til að þeir andmæli þessari þróun við hvert tækifæri. Þegar læknir verður var við kukl sem kemur inn á starfssvið viðkomandi ætti hann skrifa gagnrýni í prentmiðla og jafnvel koma fram í ljósvakamiðli til að láta vel í sér heyra. Þegar skjólstæðingur læknis færir í tal meðferð sem byggist á gervifræðum ætti læknirinn í flestum tilvikum að rökstyðja yfirvegað og hnitmiðað að hann telji umrædda meðferð kukl. Þó að stutt samtal sýni einungis afstöðu læknis gefur það afar mikilvæg og skýr skilaboð um að læknum sé ekki sama og að þeir láti ekki kukl viðgangast gagnrýnislaust. Skrif á bloggi leiða stundum til andmæla hjá verjendum kuklsins, en þar afhjúpast oft að rök þeirra eru fátækleg eða engin og sýnir öðrum lesendum vel um hvað ræðir.”

    Ég skil ekki lokin á seinni athugasemdum þínum – ertu að vísa í eitthvað sem ég sagði í færslunni? Ef þú ert að vísa til þess sem ég segi um þunglyndislyf þá er leitarmöguleiki á blogginu mínu og leitarorðin þunglyndislyf og geðlyf munu vísa þér á fjölda færslna um þetta, sem eru studdar fjölda heimilda, aðallega greinum í ritrýndum vísindatímaritum og bókum óumdeildra sérfræðinga. Sömuleiðis geturðu leitað að greinum um raflækningar/raflost, sögu geðlækninga o.s.fr.

  13. Svanur Sigurbjörnsson on November 14, 2013 at 18:05 said:

    Grein þín Harpa Hreinsdóttir er ótrúlega léleg.

    Það er undarlegt að kalla það forræðishyggju að vilja ekki kukl inn í heilbrigðiskerfið. Það er álíka mikil forræðishyggja að vilja ekki að bakarar sjái ekki um brúarsmíði hjá vegagerðinni (þó að þeir myndu líklega standa sig betur við að reyna það ein hómeópatar við að reyna að lækna sjúkdóma). Það er ekkert frelsi án ábyrgðar og þú hlýtur að sjá að almannafé getur ekki farið í kukl og heilsusvindl undir yfirskyni “heilsufrelsis”. Þetta með viðtalið ertu að misskilja. Þar var gefið í skyn að óhefðbundnu hlutirnir hefðu læknað krabbameinið þegar það var aðgerðin sem gerði það.

    Hér er annars gagnrýni mín á þetta ömurlega blogg þitt.

    Í henni dreifir þú þeirri lygi um mig að ég vilji hefta frelsi fólks til að velja sína eigin meðferð og svo þegar ég bið þig um að færa því stað hvar ég hafi nokkurn tíma fullyrt slíkt berðu við tímaleysi í staðinn fyrir að taka lygina út. þú segir svo hér að þú nennir ekki að ræða þetta svona lengi. Fallegt af þér að kasta rusli framan í lesendur og nenna svo ekki að taka þátt í umræðum.

    Svo til að reyna að sverta málflutning minn og Vantrúar þar sem kukl er gagnrýnt finnur þú einhver dæmi úr sögu læknisfræðinnar þar sem hlutirnir fóru ekki vel, eins og lobecetomiuna sem er sorgarsaga. Gagnrýni þín á geðlæknisfræðina er ákaflega yfirborðsleg og ódýr. Þar skellir þú fram fullyrðingum um gagnsleysi geðlyfja án góðra raka og setur upp svart-hvíta mynd af þeim flókna veruleika sem geðlæknisfræðin á við að glíma. Þú sakar geðlækna um að “gefa ekki sjúklingum kost á upplýstu samþykki” fyrir raflostsmeðferðir út frá einhverjum sögum sem þú hefur heyrt. Öllu er þessu fjálglega lýst hjá þér og það er eins og að þú haldir að geðlæknar gefi raflostsmeðferð af gamni sínu. Í þær er sérstaklega valið og rannsóknir og samantektir á þeim (meta-analysis) hafa sýnt árangur þó að ekki séu allir rannsakendur sammála (http://en.wikipedia.org/wiki/Electroconvulsive_therapy)

    Þessi mál voru ekki umfjöllunarefni mín og þú réttlætir ekki óvísindaleg vinnubrögð, gervifræði og kukl með því að vísa á það sem miður hefur farið hjá hefðbundnum heilbrigðisstéttum. Svo hnykkir þú út í grein þinni með því að halda þeirri lygi fram að ég sé að reyna að skammta fólki upplýsingar um heilbrigðismál. ” Síst af öllu vil ég að strangtrúarmenn á borð við Svan taki að sér skömmtun á upplýsingum um heilsutengd málefni.” Þetta er alveg ævintýralega vitlaus yfirlýsing. Jafnar þú gagnrýni á kukl við það að vilja hefta flæði upplýsinga? Hvernig ætti ég þá að framkvæma svo fjarstæðukenndan hlut? Klippa á internetið? Loka fjölmiðlum og símum? Skemmtilegt svo af þér að uppnefna mig “strangtrúarmann”. Svona eins konar þversögn á það sem ég stend fyrir. Það að hafa rökstuddar skoðanir á ekkert skylt við “strangtrúarmenn”. Lygar, óvandaður málflutningur og persónuárásir eru meðul þín í þessari aumu grein þinni. Þú munt líklega ekki hafa tíma eða nennu til að laga það eins og þú hefur lýst yfir. Hugsaðu bara aðeins um orð þín þurfir þúí alvarlegum veikindum að leita hjálpar hjá hefðbundnu læknunum sem þú virðist gefa svo llítið fyrir. Hverjum ætlar þú þá að treysta fyrir heilsu þinni?

  14. Atli Harðarson on November 14, 2013 at 21:08 said:

    Í ljóðabók Hannesar Péturssonar, Innlönd, sem kom út árið 1968 veltir hann fyrir sér hlutskipti þeirra sem vita sannleikann allan og sannleikann eina. Í einu ljóðinu gefur hann í skyn að þeim sem hafa sæmilega þekkingu hætti jafnvel öðrum fremur til vera dómharðir um aðra og blindir á sjálfa sig. Ljóðið er svona og svei mér þá ef það er ekki eitthvað til í þessu hjá honum.

    Ef ég vissi til hlítar að vegurinn sem ég geng
    væri sú braut er sannleikurinn ruddi
    og vörðurnar sem ég eygi og vísa mér fram á leið
    væru þau merki sem réttsýnin ein hefur hlaðið
    þá þyrfti ég engum útúrkrókum að trúa
    og áfellast mundi, án blygðunar, tíma og siði
    – læsti þeim dyrum augans sem inn á við snúa.

  15. Atli Harðarson on November 14, 2013 at 22:17 said:

    Það eru til alþýðlegar hefðir í húsagerð og það er til vísindaleg byggingaverkfræði. Það er líka til alþýðleg matargerð auk vísindalegrar matvælaframleiðslu og svo eru bæði til búvísindi og alþýðuspeki um landbúnað. Ég held að flestir séu sammála um að í öllum þessum greinum sé gott að til séu bæði vísindi og alþýðuspeki. Hvers vegna skyldi það sama ekki gilda um lækningar?

    Af hverju í ósköpunum ætti vísindaleg læknisfræði ekki að geta unnt mönnum þess að nota iljanudd við stressi, kjúklingasúpu við kvefi, hitapoka við eymslum, hvítlauk og lýsi við öllum fjandanum og bænahald til að róa taugarnar? Ég mundi frekar kalla þetta alþýðulækningar en kukl.

    Með þessu neita ég því auðvitað ekki að margvísleg hindurvitni eru mjög heimskuleg og stundum skaðleg – en ef út í það er farið hefur vísindum líka alloft verið beitt til illra verka – og sumt sem talið hefur verið til vísinda (eins og afrekin sem veitt voru Nóbelsverðlaun fyrir og Harpa nefndi í pistlinum) hefur reynst óttaleg vitleysa. Þótt vísindalegar aðferðir dugi öðum betur til að leiðrétta villur og finna hvað rétt er vantar mikið á að þær séu óskeikular.

    Sumt sem fólk hefur rambað á með óvísindalegum aðferðum (eins og að gefa börnum lýsi í skammdeginu og éta skarfakál við skyrbjúg) hefur verið ágætis heilsubót. Ég held það gæti því verið skynsamlegt fyrir þá sem stunda vísindalega læknisfræði að temja sér svipað viðhorf til alþýðlegra læknisdóma og tíðkast að hafa til alþýðlegrar matargerðar, landabúnaðar og húsbygginga.

  16. Takk fyrir þetta síðasta innslag Atli, sérstaklega skírskotunina til samlífs alþýðu- og háskólalækninga. Reyndar grunar mig að Svanur hafi lítið á móti því að menn vekji náttúrulegar varnir líkamans með hverju því móti sem ekki skaðar manninn.

    Hér í Miðevrópu greiða sjúkrasamlög fyrir lyf og meðferðir af ýmsum toga, alþýðu-, hómópatí og háskólaaðferðum, enda gera læknar sér í auknum mæli grein fyrir að betra er að dreifa eggjunum í margar körfur. Ég spyr mig hinsvegar, eftir að hafa rennt yfir grein Svans hvar rannsóknir á alþýðu- og hómópatalyfjum eru birtar, enda forsenda þess að þessir hlutir hljóti viðurkenningu.

  17. Elín Sigurðardóttir on November 15, 2013 at 12:22 said:

    “Ég spyr mig hinsvegar, eftir að hafa rennt yfir grein Svans hvar rannsóknir á alþýðu- og hómópatalyfjum eru birtar, enda forsenda þess að þessir hlutir hljóti viðurkenningu.” Viðurkenningu hverra?

  18. Harpa Hreinsdóttir on November 15, 2013 at 12:59 said:

    Hér á Íslandi geta menn fengið styrki úr sjúkrasjóðum sinna stéttarfélaga til að greiða fyrir óhefðbundna læknismeðferð, þ.á.m. margt af því sem Svanur staðhæfir að sé kukl. Má skoða úthlutunarreglur sjúkrasjóðs míns eigin stéttarfélags sem dæmi, sjá 3. gr. En þegar fólk er ekki á vinnumarkaði og þ.a.l. ekki í stéttarfélagi (t.d. vegna veikinda eða örorku) á það ekki rétt á neinum svona fjárhagsstuðningi.

    Sem sagt: Þeir sem eru enn nógu frískir til að geta unnið eru í sjálfu sér ekki háðir áliti sérsinna lækna því þeir geta fengið fjárhagslegan stuðning til óhefðbundinna lækninga frá aðilum sem eru óháðir læknum. Þeir sem eru það veikir að þeir geta ekki unnið eiga hins vegar engan kost á fjárhagsstyrk til óhefðbundinna lækninga.

  19. Sigurður Ægisson on November 15, 2013 at 21:01 said:

    Þeir sem eru blindir í aðdáun sinni á mátt vísindanna eru sama merki brenndir og ofsatrúarmenn.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation