Vörn Jakobs og Frjálsar hendur

Það mundi æra óstöðugan ef ég færi að skrifa um allan þann morðlitteratúr sem ég hef lesið í Kindlinum mínum í sumar! Og um einu bókina sem er ekki af þeim toga en ég las samt af miklum áhuga í sólbaði sumarsins og fannst jafnspennandi og morðbókmenntirnar, Anatomy of an Epidemic, ætla ég að blogga sérfærslu um síðar.

Defending JacobHér ætla ég aðeins að nefna Defending Jacob eftir William Landay, sem vissulega má fella undir morðbókmenntir en er mjög sérstök. Ég byrjaði að lesa hana haldandi að þetta væri eins og hvert annað lögfræðidrama, svipað og Grisham skrifar (mistækur er hann vissulega en sumar bækurnar hans eru glettilega góðar). Defending Jacob fjallar um piltinn Jacob sem er 14 ára gamall en faðir hans, saksóknari, er sögumaður. Skólabróðir Jacobs finnst myrtur og böndin berast að Jacob; hann er handtekinn fyrir morðið og réttað yfir honum. Ákveðið atvik verður til þess að réttarhöldum er hætt og málið fellt niður. En svo tekur sagan óvænta stefnu …

Defending Jacob  fjallar samt kannski að minnstu leyti um morðið og réttarhöldin, það er bara yfirborðið. Fyrst og fremst fjallar sagan um stöðu og afstöðu foreldra þegar barnið þeirra er ákært fyrir morð. Hversu vel þekkja foreldrar börnin sín? Er til sérstakt drápsgen (killer-gene /warrior-gene) og er réttlætanlegt að brúka erfðafræði í vörn í morðmáli? (Þetta eru ekkert svo vitlausar vangaveltur því þegar hefur einn amrískur morðingi sloppið við aftöku út á þetta warrior-gene.) Eru til börn og unglingar sem eru illmenni af náttúrunnar hendi? Hvað hugsar foreldri sem ber drápsgenið og veit að ákærði unglingurinn þess ber það líka? Hvernig bregðast nágrannar eða fólkið í bænum við þegar unglingur hefur verið ákærður fyrir að myrða skólafélaga sinn? Hversu langt ertu tilbúin(n) til að ganga til að verja barnið þitt og hverjar eru afleiðingarnar? 

Þetta eru aðalatriðin í  Defending Jacob. Mér finnst að það hefði vel mátt stytta bókina um svona 20-30% og viðurkenni alveg að ég rétt skannaði síðurnar um miðbik bókarinnar og nennti ekki að lesa þær frá orði til orðs. En fyrsti og síðasti hlutinn eru mjög góðir. Endirinn er óvæntur og fær lesanda til að endurmeta allt sem áður hafði verið lýst.

Þessi bók hefur fengið góða dóma, sýndist mér, og til stendur að gera kvikmynd eftir henni. Ég mæli eindregið með bókinni og ætla sko örugglega að sjá myndina!

Frjálsar hendur KennarahandbókSvo hef ég nýverið gluggað í tvær bækur á pappír sem báðar eru eftir kennara í MR; Annars vegar Óð, ljósmyndabók Davíðs Þorsteinssonar, og hins vegar Frjálsar hendur. Kennarahandbók, eftir Helga Ingólfsson. Sú síðarnefnda er kilja og mögulega hafa starfsmenn bókabúða raðað henni með skólabókunum 😉

Ég hugsa að kennurum, einkum framhaldsskólakennurum, einkum íslenskukennurum í framhaldsskóla, og ekki hvað síst íslenskukennurum í fjölbrautaskóla, finnist Frjálsar hendur. Kennarahandbók óborganlega fyndin! Aðalpersónur eru flestar kennarar í Fjölbrautaskólanum í Kringlumýri. Inn í bókina fléttast svo gamlir kunningjar úr fyrri bókum Helga, t.d. þingmaðurinn Hreggviður og skáldið Gissur Þorvaldsson. Ég veit ekki alveg hvort aðrir en þeir sem hafa reynslu af kennslu fatta húmorinn almennilega en megnið ætti nú að skila sér til hvers sem er. Skilyrðið er að finnast farsar skemmtilegir, þar sem persónurnar lenda í ótrúlegustu ógöngum og uppákomum, oft algerlega óvart. Það eina sem mér fannst leiðigjarnt í sögunni voru birtir kaflarnir úr nútímafornaldasögunni sem íslenskukennarinn var að semja … en ég hoppaði þá bara yfir þá. (Jújú, ég fattaði flestar vísanirnar en hef bara ekki húmor fyrir hugmyndinni – mér duttu samt í hug nokkrir sem fyndust þetta bestu kaflar bókarinnar svo þetta er fyrst og fremst spurning um persónulegt skopskyn.)

Ég mæli eindregið með Frjálsum höndum. Kennarahandbók, ekki hvað síst fyrir framhaldsskólakennara. Auk þess held ég að starfsmenn Menntamálaráðuneytisins hefðu voðalega gott af því að lesa bókina. Hennar stærsti ókostur er að hún er ekki fáanleg sem rafbók!
 
  

6 Thoughts on “Vörn Jakobs og Frjálsar hendur

  1. Ragna on August 27, 2012 at 21:13 said:

    Ég er einmitt nýbúin að lesa Defending Jacob og fannst hún mjög góð. Maður þarf að vera þolinmóður í byrjun þegar verið er að fara fram og til baka í tíma og þá eru réttarhöldin pínu langdregin. Ég datt líka algjörlega ofan í Columbine eftir David Cullen en í bókinni er fjallað um skotárásina í skólanum árið 1999. Höfundurinn rekur sögu drengjanna og fórnarlamba þeirra og fer yfir eftirmálin fram til dagsins í dag. Það er töluvert fjallað um siðblindu og hvað einkennir síkópata. Höfundurinn fellur ekki í þá gildru að velta sér upp úr hlutunum og t.d. eru engar myndir í bókinni. Ef maður hefur áhuga á að fræðast meira þá er hægt að gúgla það.

  2. Ég þarf að lesa Columbine (þótt mér sé meinilla við að lesa bækur um illvirki sem voru framin í raunveruleikanum). Hef lesið eitthvað um þessa stráka – mig minnir endilega að annar sé talinn hafa verið sækópat en hinn annað hvort borderline eða með narsissíska persónuleikaröskun … að þessir tveir hafi verið sams konar tvíeyki og Bonnie og Clyde svona geðlæknisfræðilega séð en man sem sagt ekki greininguna á samverkamanni sækópatans. Gæti sosum gúgglað …

    Ég held að lopinn sé teygður svo mjög í Defending Jacob til að gefa lesanda mjög rækilega innsýn í hugarheim og hugsanir föðurins, svo ekkert fari nú milli mála; einhvers konar andhverfufemínismi þarna á ferð, lesandinn skal skilja viðkvæmt tilfinningalíf matsjó karlmanns í smæstu atriðum. Kannski hafa aðrir lesendur en ég miklu meiri áhuga á því … mér þótti þetta einfaldlega leiðinlegt, jafn leiðinlegt og staglkenndar kvennabókmenntir. Sem betur fer er auðvelt að hoppa síðu af síðu í þeim góða Kindli 🙂

  3. Helgi Ingólfsson on August 28, 2012 at 14:01 said:

    Sæl, Harpa, og takk fyrir jákvæða umsögn um bók mína, Frjálsar hendur.

    Ég sá loksins í morgun hvernig rétt væri að skilgreina það bókmennta-genre, sem hún fellur undir: Farsakennd satíra með melódramatísku ívafi.

    Í morgun hitti ég einnig einn kennara, sem hafði gaman af sögunni, en sýnu helst fornsöguþættinum (sem er skrifaður að mínu mati á “alternatívri íslensku” út frá því hvernig menn tala í dag).

    Vörn Jakobs hef ég ekki lesið – hversu mikið “möst” er sú bók á (einkunna-)kvarðanum 1-10? Í dag er ég að lesa Fljótsdæla-sögu, einu fornsöguna sem ég man eftir, sem hefst á nafngreindri konu (“Þorgerður hét kona”), en ekki á karlmannsnafni. Nýbúinn að lesa Finnboga sögu ramma (sem fékk ekki Finnboga-nafnið fyrr en á unglingsárum og ramma-viðurnefnið enn síðar hjá Grikklandskonungi) og er líka langt kominn með stórmerkilega sjálfsævisögu Daníels Daníelssonar, “Í áföngum”, sem enginn þekkir og enginn hefur lesið, enda kom hún út 1937. Á ég að skipta soddan skruddum út fyrir Vörn Jakobs?

    Með bestu kveðjum, Helgi Ing

  4. Reyni nú að agítera fyrir bókinni þinni á ákveðinni kennarastofu, í kjötheimum. Fæ ég prósentur? 🙂

    Sko, karlar á mínum aldri og eldri munu fíla fornsöguþáttinn í tætur. Kvenleg og viðkvæm sem ég er hef ég önnur áhugamál. En það er alltaf gott þegar bútar úr bók höfða til mismunandi markhópa.

    Vörn Jakobs fellur því miður í skuggann af gömlu reyfurunum. Svoleiðis að þú ættir að halda áfram með Fljótsdælasögu. Hef ekki lesið hana en hef lesið söguna um Urðarkött. Segi pass við ævisögu Daníels þessa enda hef ég ekki lesið hana. Er þetta nokkuð Daníel sendiboði, þessi sem Spegillinn birti ódauðlegt kvæði um?

    Loks: Var að sjá tilkynningu á fésinu sem höfðar dálítið til viðkvæmninnar og femínítetsins í mér. Kannski eitthvað fyrir sensitívari hluta íslenskumafíunnar í þínum skóla?

    Miðvikudaginn 5. september klukkan 11:40 – 13:10 mun Keith Oatley sálfræðingur og rithöfundur halda opinn fyrirlestur í stofu 104 á Háskólatorgi, Háskóla Íslands.
    Fyrirlesturinn nefnist „Emotions in history, in relationships, and in literature“ (Geðshræringar í sögu, tengslum manna á milli og bókmenntum). Hann er á vegum Hugsýnar, félags um hugræn fræði, í samstarfi við Forlagið, Bókmennta- og listfræðastofnun og Hugvísindastofnun Háskóla Íslands. Oatley fjallar um hvernig hugmyndir og kenningar um geðshræringar hafa þróast og breyst í líffræði-, sálfræði- og bókmenntarannsóknum.

  5. Helgi Ingólfsson on August 28, 2012 at 16:48 said:

    Hæ aftur, Harpa mín.

    Ég vildi að ég gæti lofað þér prósentum, gulli og grænum skógum, en sjálfur mun ég ólíklega ná svo miklu sem einum grænum eyri af fyrirhuguðum stórgróða vegna bókarsölunnar. Ekkert frekar en af stórmyndinni “Jóhannesi”, en fyrir hana fékk ég aldrei túskilding með gati. En ég gæti gefið þér eintak af næstu bók, hvenær svo sem hún birtist á prenti. 🙂
    —–
    Bingó! Þetta er einmitt umræddur Daníel, dyravörður í stjórnarráðinu, sem reið hesti inn að Kleppi árið 1930 í þágu Hriflu-Jónasar. Sem ungur maður var Danni mágur Sigfúsar Eymundssonar og heimagangur þar á heimili 1880-90. Þar sem engin ævisaga Sigfúsar er varðveitt, þá er Daníel ein aðalheimildin um lífið þar á bæ – og á því hef ég áhuga.
    —-
    Þessi fyrirlestur um geðshræringuna virðist vera ofboðslega víðfeðmur. Ég dáist að hverjum þeim, sem getur talað átóratívt um tilfinningar, hvað þá að fornu og nýju, í gervallri sögunni og bókmenntum líka, SEM OG manna í millum. Fróðlegt væri að spyrja hann um fýlu (hugsýki) Akkillesar eftir að Agamemnon tók frá honum Bríseisdóttur. Nei, en frómt frá sagt: Interessant efni. Hins vegar býst ég fastlega við að vér galeiðuþrælar verðum róandi voru volduga fleyi á umræddum tíma – það á að minnsta kosti við mig. Viltu að ég agíteri fyrir fyrirlestrinum í mínu skipsrúmi – gæti t.d. prentað út tilkynninguna og hengt upp?

  6. Ég sé þann augljósa kost að geta innbyrt nánast “allt merkilegt” með því að hlusta á einn fyrirlestur 😉 Tja, ég kóperaði nú auglýsingu af Fésbók Samtaka móðurmálskennara (eða eitthvað svoleiðis) sem ég reikna með að íslenskumafían í þínum skóla sé öll tengd inn á svo það er örugglega óþarfi að auglýsa nánar.

    Hér og á undanfarandi síðum er kvæðið um reið Daníels og frásögnin sem skýrir það 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation