Sagan endalausa: Einkaflipp bæjarstjórans og vasapeningar handa ritnefndinni

Nokkuð kyrrt hefur verið um Sögu Akraness undanfarið, a.m.k. opinberlega. En því fer fjarri að ævintýrinu sé lokið. Og áfram borgum við Skagamenn brúsann, bæði af einkaútspili móðgaðs bæjarstjóra og væntanlega af huggulegum fundarhöldum hinnar eilífu fimm manna ritnefndar – í bæ þar sem allt er skorið við nögl, allar gjaldskrár hækkaðar í botn núna um áramótin, öllum stofnunum gert að spara sem mest …  og heyra má þær raddir að endar nái samt ekki saman.
 

Örlítil upprifjun

ReiðurSvo sem unnendur Sögu Sögu Akraness kannast við hótaði okkar góði bæjarstjóri, Árni Múli Jónasson, ritdómararnum Páli Baldvini Baldvinssyni lögsókn vegna ritdóms sem hinn síðarnefndi skrifaði um Sögu Akraness I eftir Gunnlaug Haraldsson. Árni Múli sagði að sér fyndist þessi bók „bullandi fín“ og „þrælgóð“ og í kompaníi við Kristján Kristjánsson, útgefanda bókarinnar, og Gunnlaug sagnaritara lét Árni Múli einn lögfræðing Akraneskaupstaðar skrifa Páli Baldvini bréf þar sem þess var krafist að hann leiðrétti og bæðist afsökunar á fimmtán ummælum í ritdómnum.(Sjá Kaupstaður, höfundur og útgefandi vilja leiðréttingu og afsökunarbeiðni í Fréttatímanum 19. ágúst 2011. Neðst í þessari frétt er krækt í ritdóminn sem fór svo fyrir brjóstið á mínum góða bæjarstóra. Bæjarstjórinn hafði svo sem ekki sparað stóru orðin frá því ritdómurinn hans Páls Baldvins birtist, sjá t.d. Segir ritdóm bera með sér einkenni fúllyndis og lítilmennsku í Skessuhorni 14. júlí 2011. Á  því skemmtilega Islandsbloggen. Nyheter og nedslag från ett afläggset grannland er sagan endalausa í hópi endalausra frétta, sjá Praktverk om Akranes sågas – kommun hotar stämma, 30. júlí 2011, þaðan er linkað í fyrri fréttir af stórmerkilegri sagnaritun á vegum Akraneskaupstaðar.)

Páll Baldvin Baldvinsson svaraði í sömu mynt og hótaði Árna Múla Jónassyni lögsókn því hann hefði vegið að æru sinni og starfsheiðri. (Sjá Páll Baldvin í hart vegna Sögu Akraness. Stendur við hvert orð í bókardómi sínum á Eyjunni 23. september 2011.)

Páll Baldvin tók síðan saman langt varnarskjal, öllu heldur upptalningu á staðreyndum sem rökstuddu hverja einustu staðhæfingu sem hann hafði haldið fram í ritdómnum. Þetta er ekki fögur lesning, öllu heldur mjög ófagur vitnisburður um óhóflegan myndastuld og subbuleg vinnubrögð sagnaritara Akraneskaupstaðar. (Sjá Skýtur fyrst og spyr svo, Fréttatímanum 30. september 2011, sem hefst raunar með nokkrum (venjubundnum) mergjuðum upphrópunum bæjarstjórans okkar og ljómandi fallegri mynd af sama bæjarstjóra, en greinargerð Páls Baldvins fylgir í kjölfarið.  Þeir sem eiga bágt með að lesa langa texta ættu kannski að láta greinargerðina eiga sig).

Þann 4. janúar 2012 sendi Árni Múli Jónasson frá sér yfirlýsingu í nafni Akraneskaupstaðar um að fallið væri frá málsókn á hendur Páli Baldvini Baldvinssyni vegna ritdómsins: 

Að vandlega íhuguðu máli er það því þeirra ákvörðun að eyða ekki frekari tíma, orku eða fé til að elta ólar um þessi mál við Pál Baldvin. Sú ákvörðun byggist meðal annars á því að frá því að Páll Baldvin birti umræddan ritdóm sinn í Fréttatímanum hafa virtir menn á þessu sviði, Guðmundur Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, Jón Torfason, skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands og Jón Þ. Þór, sagnfræðingur og sagnaritari birt ritdóma sína um Sögu Akraness og farið mjög lofsamlegum orðum um hana,“ segir í yfirlýsingu Árna Múla. (Sjá Elta ekki ólar við Pál Baldvin, Fréttatímanum 5. janúar 2012.)

Það má náttúrlega spyrja sig hvað hefði gerst ef þessir „virtu menn á þessu sviði“ hefðu ekki farið lofsamlegum orðum um bókina? Hefði Árni Múli þá kært? Jóns Torfasonar er reyndar sérstaklega getið í fámennum kreditlista Gunnlaugs Haraldssonar í formála að Sögu Akraness I og þökkuð aðstoðin við efnisöflun svo hann er nú kannski ekki alveg hlutlaus aðili. (Hér er krækt er í þennan lofsamlega dóm Jóns Torfasonar, sem birtist í Skessuhorni 10. ágúst 2011.) Dómur Jóns Þ. Þór var afar stuttur, megnið af honum greinargerð fyrir efnisyfirliti bókarinnar og ég held að hann hafi aldrei ratað á vef DV þótt aðrir bókardómar fyrir jólin birtust þar einnig. Þær örfáu málsgreinar sem ekki voru um efnisskiptingu voru lofsamlegar. Ritdómur Guðmundar Magnússonar, fyrrverandi forstöðumanns Þjóðmenningarhúss, birtist í Þjóðmálum, sömuleiðis stuttur og talsverðum hluta eytt í að rekja efnisþætti en vissulega var hann lofsamlegur.

 

 
Við borgum móðgelsi bæjastjórans

 

Bæjarbúar borga lögfræðikostnað Árna MúlaÞegar Árni Múli Jónasson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, leitaði til lögfræðings til að kanna grundvöll fyrir meiðyrðamáli og fékk aðstoð hans við að semja hótanirnar gegn Páli Baldvini gerði hann það að eigin frumkvæði og án þess að fá leyfi bæjaryfirvalda. Þessi „tími, orka og fé“  sem fór í að reyna að hanka ritdómararann er hins vegar ekki tekinn af vinnustundum, brennslu eða úr vasa bæjarstjórans heldur erum við íbúar Akraness látnir borga þetta uppistand. Og það var ekki eins og Árni Múli (sem er vel að merkja sjálfur lögfræðingur að mennt) hefði svona rétt látið skanna þennan 550 orða ritdóm Páls Baldvins til að meta mögulegar forsendur fyrir meiðyrðamáli. Nei, keypt var 28,25 klst. vinna lögmanns til verksins. Hún kostaði 484.487 kr. með virðisaukaskatti en við íbúarnir, sem borgum, getum glaðst yfir að Akraneskaupstaður fær endurgreiddan virðisaukaskattinn svo heildarkostnaðurinn er 385.452 kr. Kannski ekki svo há tala í bæjarhítinni en mér finnst nokkuð mikið að punga út slíkri upphæð bara út af móðgelsi bæjarstjórans enda finnst mér, af fréttum og hljóðritunum af bæjarstjórnarfundum, að hann sé svona heldur móðgunargjarn. Vonandi fer hann ekki að stunda það að rjúka í lögfræðing í hvert sinn sem honum rennur í skap, það gæti orðið ansi dýrt fyrir þá sem borga. Og það er ekki hann.

Varla þarf að taka fram að þetta framtak okkar ágæta bæjarstjóra hefur hvergi verið rætt á opinberum fundum í stjórnsýslu bæjarins, ef marka má fundargerðir.

  

 
Karlarnir í ritnefndinni þurfa náttúrlega áfram að geta hist og spjallað um stórvirkið sem þeir sjá í ævarandi í hillingum

 

Það hefur heldur ekki verið bókað neins staðar sérstaklega að bæjarstjórn hefur samþykkt að gera ráð fyrir „kaupum á sérfræðiþjónustu“ vegna vinnu við Sögu Akraness á árinu 2012 fyrir rúmlega 4 milljónir króna. „Þeirri fjárhæð hefur ekki verið ráðstafað að neinu leyti ennþá, en gert er ráð fyrir að ritnefnd um Sögu Akraness fjalli um áframhald og geri tillögur til bæjarstjórnar um ráðstöfun þess fjár í samráði við bæjarstjóra“ segir í svari Akraneskaupstaðar við fyrirspurn minni nú seint í febrúar. Líklega er þessi upphæð falin einhvers staðar í fjárhagsáætlun bæjarins en ef einhver veit hvar sjá má hana opinberlega og sundurliðaða á vef bæjarins fagna ég ábendingu þar um.
  
 

Leikskólabörn geta snapað gams en Saga Akraness blívur

 

Svoleiðis að í bæjarfélagi sem er á kúpunni (núna í kvöld voru foreldrar einmitt að funda um fjórar niðurskurðartillögur og gjaldskrárhækkanir á leikskólum bæjarins, en hver þeirra er talin spara um 3-4 milljónir) eru samt til fjórar milljónir handa ritnefnd um sögu Akraness til að leika sér með ásamt bæjarstjóranum. Sú ritnefnd er fimm manna þannig að fundirnir eru dýrir.

Í samanburði má nefna að þetta vesalings bæjarfélag, Akraneskaupstaður, hefur ekki efni á nema þriggja manna fjölskylduráði, sem fer með alla málaflokka sem snerta leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla, félagsmál, félagslega aðstoð og íþróttamál.

 

Móðguð ritnefnd um sögu AkranessRitnefndin margmenna hefur ekki fundað síðan í júníbyrjun en þá hittust karlarnir fimm og sömdu yfirlýsingu þar þeir hörmuðu hvað ég hefði skrifað illa um tæpan fjórðung þeirrar góðu bókar, Sögu Akraness I, í Skessuhorni (tæpa eina A-4 síðu langa aðsenda grein), lýstu því yfir að þetta væri „stórt og glæsilegt verk“ og luku sinni ritsmíð þannig: „Nefndin lýsir yfir fullu trausti á verðleika höfundar til fræðistarfa og hvetur bæði hann og bæjaryfirvöld til að halda verki áfram.“  Þessi fundur karlanna kostaði bæinn, þ.e.a.s. okkur útsvarsgreiðendur, 64.000 krónur. Líklega hafa nefndarlaunin hækkað eitthvað síðan.

 

Ég er sammála ritnefndinni um að þetta eru stór verk og þung eru þau. En Saga Akraness I og II fékkst á tæpar 16.000 krónur (bæði bindin saman) í okkar góðu bókabúð, Pennanum, fyrir jólin, sem verður að teljast ódýrt per kíló (sambanborið við t.d. sæmilegt kjöt).

 

 
  
  
 

2 Thoughts on “Sagan endalausa: Einkaflipp bæjarstjórans og vasapeningar handa ritnefndinni

  1. Kílóverð bóka ku vera mjög hagstætt á bókamarkaðinum í Perlunni. Svona bækur enda yfirleitt þar. Vonandi tekst þér að fella þessa ritnefnd með skrifum þínum og þá hefurðu afrekað þrennt í vetur. Gengið á milli bols og höfuð á Vantrú, feministum og sjálftökuliðinu í bæjarstjórn Akraness 🙂

  2. Hm … barðist ein við átta og ellefu tvisvar – fílingurinn? Nei, ég held að hvarfli ekki að ritnefndinni að segja af sér enda eru þetta ágætis vasapeningar fyrir létta vinnu og uppsprettan þverr ekki. Þótt ég myndi sjálf frekar ganga í stórusystur-búrku en láta bendla mig við ritnefndina sjá þessir karlar enga ástæðu til að segja af sér. Þeir eru “staðfastari” en vantrú og femínistarnir samanlagt. Enda karlar með sjálfsálitið í lagi (jafnvel aðeins of mikið í lagi).

    Aftur á móti sá ég að Eyfirðingar fylgjast með nýjasta móð og eru auk þess sparsamir, sjá Leggur til að Sögufélag Eyfirðinga gefi jarða- og ábúendatal út á vefnum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation