Störf ad hoc siðanefndar í máli Bjarna Randvers og inngrip Háskólaráðs

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Þann 28. júní 2010 skipaði rektor Ingvar Sigurgeirsson ad hoc [þ.e. sérstakan] formann siðanefndar í máli nr. 1/2010. Skv. lögum Háskóla Íslands á Háskólaráð að staðfesta skipun rektors á formanni siðanefndar en það var ekki gert í tilviki Ingvars. Á fimmta fundi siðanefndar HÍ, þann 9. júlí 2010, var ákveðið að nýta heimild í starfsreglum siðanefndar til að skipa tvo fulltrúa til viðbótar við þau Þorstein Vilhjálmsson og Sigríði Þorgeirsdóttur, sem áfram sátu í nefndinni auk hins nýja formanns. Viðbótarfulltrúarnir voru valdir að ósk Ingvars, þau Gerður G. Óskarsdóttir, kennari í uppeldis-og kennslufræði í HÍ um langt skeið á árum áður, og Guðmundur Heiðar Frímannsson heimspekingur, prófessor í kennaradeild Háskólans á Akureyri.
 

Á fimmta fundi nefndarinnar, fyrsta fundinum undir forsæti Ingvars, var farið yfir málið, greinargerð Bjarna Randvers Sigurvinssonar, Svar við kæru Vantrúar, skoðuð og bókuð ábending um að svör Bjarna miðaðist ekki við kæru og væri ekki að öllu leyti beint til siðanefndar. „Ákveðið að kanna hvort. Bjarni vildi stytta svör sín og afmarka þau betur við hvern kærulið áður en lengra er haldið.“
 

Í ljósi þess að siðanefnd HÍ hafði ekki sjálf afmarkað kæruliði Vantrúar enda afar erfitt miðað við kærubréfið sjálft, meðfylgjandi feitetraða og undirstrikaða búta úr siðareglum HÍ og greinargerðinni sem fylgdi er undarlegt að hinum kærða, Bjarna Randver Sigurvinssyni, skuli vera falið að afmarka þessa kæruliði og miða svör sín við þau. Auk þess hefur siðanefnd ævinlega haldið því fram að enginn hafi myndað sér efnislega skoðun á kæru Vantrúar, hvorki fyrir þennan tíma né í það tæpa ár sem hún starfaði eftir þetta, undir stjórn Ingvars Sigurgeirssonar. Hvernig er hægt að afmarka kæruliði í óljósu plaggi og máta við siðareglur HÍ án þess að efnisleg skoðun liggi þar að baki?
 

Eftir að Bjarni Randver Sigurvinsson fékk sér lögmann, Ragnar Aðalsteinsson, til að gæta réttar síns haustið 2010, fór lögmaðurinn fram á að þau Þorsteinn Vilhjálmsson og Sigríður Þorgeirsdóttir vikju sæti úr þessari sérstöku (ad hoc) siðanefnd. Því hafnaði siðanefnd HÍ en svaraði ekki formlega fyrr en eftir dúk og disk, í bréfi dags. 11. mars 2011: 
 

 Rangt er að á framangreindu tímabili sáttaviðræðna [mars og apríl 2010] hafi afstaða siðanefndar til málsins mótast. Siðanefnd hafði ekki aflað gagna í málinu og því voru engar forsendur til að taka afstöðu til kæruefnisins af hálfu nefndarinnar. Liður í sáttatillögu þeirri sem lögð var fram var að kæran til siðanefndarinnar yrði dregin til baka og þótti af þeim sökum eðlilegt að beðið væri með efnislega meðferð málsins þar til niðurstaða sáttaviðræðna lægi fyrir. Í sáttatillögunni kemur ekki fram hvort Bjarni hafi brotið siðareglur háskólans, en það á samkvæmt starfsreglum nefndarinnar að koma fram í áliti hennar ef til þess kemur. Siðanefnd áréttar að hugsanlegar ályktanir félagsmanna Vantrúar um stöðu sáttatillögunnar eða afstöðu siðanefndar til hennar hafa enga þýðingu í málinu.
 

 Með vísan til framanritaðs er það álit siðanefndar að þau Sigríður Þorgeirsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson hafi ekki tekið afstöðu til kæru Vantrúar áður en Bjarna gafst kostur á að skýra sína hlið málsins. Sáttatillagan fól að engu leyti í sér álit siðanefndar eða einstakra siðanefndarmanna í málinu.
 (Skýrsla óháðrar nefndar um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð. September 2011, s. 48-49. Feitletrun mín. Hér eftir verður vísað í þetta plagg sem Skýrslu óháðu nefndarinnar.)
 

Í síðustu færslu var gerð grein fyrir sáttatillögunni sem ber á góma í þessu bréfi Ingvars Sigurgeirssonar. Vissulega kemur ekki fram í henni hvort Bjarni Randver hefði brotið siðareglur HÍ enda átti guðfræði- og trúarbragðafræðideild að sakfella Bjarna Randver í þessari sáttatillögu sem Þórður Harðarson, formaður siðanefndar HÍ, samdi. Siðanefnd hefði þannig orðið stikkfrí málinu en sök staðfest hjá guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Sú deild var þó aldrei kærð til siðanefndar HÍ.

Bjarna Randveri bauðst ekki að skýra sína hlið á málinu fyrr en laust fyrir miðjan maí 2010. Þegar siðanefnd HÍ skrifar bréfið 11. mars 2011 voru fulltrúar siðanefndar búnir að skoða spjallþráðinn „Söguskoðun Bjarna Randvers“ í boði Vantrúar og hefði mátt ætla að siðanefndarmenn gerðu sér sjálfirmætavel grein fyrir „hugsanlegum ályktunum félagsmanna Vantrúar um stöðu sáttatillögunnar eða afstöðu siðanefndar til hennar“ þótt þeir kysu nú að telja slíkt engu skipta. Siðanefnd HÍ virðist alfarið hafa litið  fram hjá verulega miklum samskiptum Þórðar Harðarsonar og Reynis Harðarsonar, sem kemur rækilega fram á þessum spjallvef, og hvernig Þórður bar upplýsingar í Reyni og útskýrði fyrir honum hvernig t.d. sáttatillagan sem átti að þvinga guðfræði- og trúarbragðafræðideild til að skrifa undir myndi nýtast félaginu Vantrú í frekari málflutningi þess.
 

Þann 1. september 2010, á sjötta fundi nefndarinnar er hún enn við sama heygarðshornið: 

 Nefndarmenn voru á einu máli um að kæruliðir séu ekki nægilega afmarkaðir með vísun til greina siðareglnanna svo og að skil í svörum Bjarna við hverjum lið kærunnar séu óljós. Siðanefnd heldur sig eingöngu við kæruna og þarf að meta hvort og/eða hvaða greinar siðareglnanna eigi við efni hverrar glæru og hvort um brot sé að ræða í hverju tilviki.

 Guðmundi Heiðari og Ingibjörgu [Haraldsdóttur lögfræðingi HÍ) falið að lista upp öll kæruatriði Vantrúar og svör við þeim í greinargerð Bjarna.

Á sjöunda fund siðanefndar, 24. september 2010, mættu fulltrúar Vantrúar, þeir Reynir Harðarson, Matthías Ásgeirsson og Birkir Baldurson. Þeir gerðu grein fyrir því hvaða ákvæði siðareglna HÍ þeir töldu að hefðu verið brotnar og hvernig.

Á tíunda fund nefndarinnar þann 13. janúar 2011 mættu, að eigin ósk, Reynir Harðarson og Matthías Ásgeirsson, fulltrúar Vantrúar og gerðu grein fyrir skriflegum svörum sínum við greinargerð lögmanns Bjarna Randvers frá 16. desember 2010. Í kjölfarið buðu þeir siðanefnd til sín að skoða gögn á innri vef Vantrúar.
 

Samt höfðu siðanefndarfulltrúar alls ekki tekið neina efnislega afstöðu til kæruefnisins ennþá.
 

Siðanefndin ákvað að einbeita sér að frekari upplýsingaöflun, kannski til að geta einhvern tíma tekið efnislega afstöðu til kæru Vantrúar?  Fyrri siðanefnd hafði unnið að slíku einnig, þ.e.a.s. Þorsteinn Vilhjálmsson hafði kynnt sér félagsskapinn Vantrú og Sigríður Þorgeirsdóttir hafði kynnt sér fyrri mál siðanefndar til að leita að mögulegum fordæmum (ég reikna hér með að þau hafi farið eftir því sem þeim var sett fyrir að gera á fyrsta fundi nefndarinnar). Bjarni Randver Sigurvinsson hafði afhenti sína greinargerð, Svar við kæru Vantrúar, í maí 2010. Siðanefndinni undir stjórn Þórðar Harðarsonar hafði ekki dottið í hug að skoða námskeiðsgögn en Ingvar Sigurgeirsson bætti úr því og á fundi siðanefndar fyrsta september 2010 kemur fram að nefndarmenn hafi fengið kennsluáætlun, próf og önnur gögn af vefsvæði námskeiðsins Nýtrúarhreyfingar með leyfi Bjarna Randvers. Sömuleiðis höfðu siðanefndarfulltrúar fengið niðurstöður kennsluskönnunar (sem er staðlað mat nemenda á kennslu í háskólanámskeiðum) í Nýtrúarhreyfingum.
 

Þetta þótti siðanefndinni ekki nóg. Í bréfi þann 17. nóvember 2010 til kennslustjóra Hugvísindasviðs, óskaði siðanefnd eftir aðgangi að prófúrlausnum nemenda í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar. Í kjölfarið krafðist lögmaður Bjarna Randvers rökstuðnings fyrir nauðsyn aðgangs að prófúrlausnunum. Svaraði formaður nefndarinnar, Ingvar Sigurgeirsson, því m.a. með tölvupósti til lögmanns Bjarna Randvers þann 26. nóvember 2010 og sagði: „Meginrök fyrir þessari beiðni eru þau að svör nemenda við umræddri spurningu (og mat kennara á þeim) kunna að varpa ljósi á umfjöllun um það efni sem kært hefur verið (efnistök, áherslur, heimildir).“
 

 ——————————————————————————————————

Innskot: Um prófúrlausnir og prófspurningu

Af því í umræðuþráðum við fyrri bloggfærslur mínar um þetta mál hefur verið talsvert minnst á þessar prófúrlausnir er rétt að geta eftirfarandi staðreynda um þær:

Nemendur svörðuð lokaprófinu í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar undir nafni og kennitölu en ekki prófnúmerum. Spurning 4 á lokaprófinu (en ekki í sjúkraprófi) var þannig:
 

 Veldu annað hvort ritgerðarverkefni A eða B. (30%)
 A) Gerðu grein fyrir Madame Blavatsky, ævi hennar, starfi og kenningum og rökstyddu mat þitt á þeim áhrifum sem hún hefur haft á ýmsar trúarhreyfingar og þeirri gagnrýni sem hún hefur helst sætt. Færðu rök fyrir því hvernig trúarlífsfélagsfræðingar myndu skilgreina þessar trúarhreyfingar félagslega.

 B) Gerðu grein fyrir félögunum Siðmennt og Vantrú, sögu þeirra, skoðunum og starfsháttum og færðu rök bæði með og á móti því að þau geti talist trúarhópar. Rökstyddu mat þitt á því hvort trúarlífsfélagsfræði geti nýst til skilnings á þessum félögum.

Alls tóku 20 nemendur aðalprófið. Þar af völdu 13 eða rétt um 2/3 nemenda ritgerðarverkefnið um Madame Blavatsky og guðspeki en aðeins 7 eða rétt um 1/3 nemenda völdu ritgerðarverkefni um Siðmennt og Vantrú og ólíkar skilgreiningar á trúarhugtakinu.

Kennarinn, Bjarni Randver Sigurvinsson, var algerlega andvígur því að afhenda siðanefnd HÍ úrlausnirnar því þær kæmu kæru Vantrúar á hendur sér ekki við enda kærði Vantrú hvorki próf né yfirferð. Hann benti á að með því að krefjast prófúrlausna að hluta eða í heild væri siðanefnd í raun að brjóta eigin starfsreglur þar sem kveðið er á um að hún megi ekki taka upp mál að eigin frumkvæði. Einnig leit Bjarni Randver svo á brotið væri á friðhelgi einkalífs nemenda með því að framvísa prófúrlausnum þeirra til óviðkomandi.

En Bjarni Randver hafnaði beiðni siðanefndar þó ekki með öllu. Hann setti það skilyrði að: „[…] hver og einn nemandi [verði] að veita skriflegt leyfi fyrir því að prófúrlausnunum sé framvísað til utanaðkomandi starfsmanna háskólans og þá því aðeins eftir að sérhver nemandi hefur kynnt sér sjónarmið siðanefndarinnar og sjónarmið mín þar sem ég mæli gegn því að þær séu afhendar.“
(Ýmis skjöl frá hinum kærða. Vegna kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (kærumál nr. 1/2010). Þetta er óopinbert skjal í vinnslu sem ég hef leyfi Bjarna Randvers til að vitna í).

Siðanefnd fylgdi málinu ekki frekar eftir og skoðaði ekki svör þessara sjö nemenda við B-möguleikanum í valspurningu nr. 4 í prófinu. Enda vandséð hvernig í ósköpunum þau svör hefði átt að nýtast siðanefnd í að taka efnislega afstöðu til kæru Vantrúar vegna glæra í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar.

 —————————————————————————————————————————-

Hin sérstaka siðanefnd í þessu máli hélt áfram að halda fundi en komst ekkert áfram. Hún fór í sama farveg og siðanefndin undir stjórn Þórðar Harðarsonar og vildi afgreiða málið með með því að afgreiða það ekki, þ.e.a.s. koma á einhvers konar sættum milli guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, sem var ekki kærð til siðanefndar, og félagsins Vantrúar. Á tímabili var reynt að sansa Vantrú (og koma í veg fyrir kæra Ragnars Aðalsteinssonar yfir vanhæfi siðanefndar væri tekin fyrir í Háskólaráði) með því að bjóða 750.000 kr. í einhvers konar útgáfu fræðilegs rits um trú- og guðleysi sem og samtök er tengjast slíkri afstöðu í samvinnu við Vantrú. Umræður um þetta fóru fram með vitund og vilja stjórnsýslu HÍ og Ingvars Sigurgeirssonar formanns siðanefndar. (Sjá Börkur Gunnarsson. Heilagt stríð Vantrúar. Morgunblaðið 4. desember 2011, s. 20. Hér er krækt í fréttaskýringu Barkar á mbl.is.) Þegar stjórn Hugvísindasviðs varð þessara áforma áskynja voru þau slegin af.
 

Eftir tólfta fund nefndarinnar, sem haldinn var 21. mars 2011 og framhaldið 23. mars var mesti vindurinn úr siðanefnd. Ingvar Sigurgeirsson var að því kominn segja af sér störfum: „Rétt er að taka fram að ég hefði einnig sagt af mér formennsku ef Vantrú hefði ekki dregið kæru sína til baka á fundi með rektor Háskólans fimmtudaginn 28. apríl sl.“ (Skýrsla óháðu nefndarinnar, s. 64).

Siðanefnd undir forsæti Þórðar Harðarsonar hafði unnið ötullega að því að draga guðfræði- og trúarbragðafræðideild inn í kærumál Vantrúar gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni. Sérstök siðanefnd undir forsæti Ingvars Sigurgeirssonar þurfti að kljást við ýmsar óþægilegar spurningar og kvartanir æ fleiri kennara og fræðimanna innan HÍ og annarra háskóla. Félagið Vantrú hélt uppiteknum hætti í greinarskrifum gegn Bjarna Randveri og guðfræði- og trúarbragðafræðideild, einkum á Vefnum. Þessi greinarskrif beindust svo gegn stuðningsmönnum Bjarna Randvers í hópi háskólamanna. En félaginu Vantrú ætíð hefur legið gott orð til beggja siðanefndarformanna.

Á fundi rektors með Ingvari og fulltrúum Vantrúar þann 28. apríl 2011 dró Vantrú kæru sína til baka og aðkomu siðanefndar lauk þá sjálfkrafa. Félagið Vantrú hefur haldið því fram að þetta hafi það gert vegna þess að Vantrú hafi verið lofað að óháð nefnd tæki út störf siðanefndar: „Ein af forsendum þess að Vantrú dró erindið til baka var að stofnuð yrði óháð nefnd til að rannsaka sögu málsins, þar með talið tilraunir utanaðkomandi aðila til að hafa áhrif á störf siðanefndar. Því til staðfestingar má benda á minnisblað rektors frá 28. apríl, fyrir fund háskólaráðs og sama dag og Vantrú dró erindið til baka“ í Aðför Guðna Elíssonar að siðanefnd HÍ og Vantrú á vef Vantrúar 11. maí 2011 og athugasemd Baldvins (líklega Baldvins Arnar Einarssonar, varaformaður Vantrúar) við sömu grein: „Málið var komið í algjöran hnút og við ákváðum að skera á hann með þessum hætti gegn því m.a. að ferill málsins yrði skoðaður af óháðum aðilum.“ (Krækt er í greinina og athugasemdahalann á Vefsafninu því Vantrú hefur lokað á aðgang á sinn vef af bloggsíðum mínum. Feitletrun mín.)

Þessa minnisblaðs er ekki getið í fundargerð Háskólaráðs þann 17. maí þar sem talin eru upp gögn og ákveðið að setja á stofn óháða nefnd sem fari ofan í saumana á gangi málsins innan Háskóla Íslands
 
 

Afskipti háskólakennara af höndlun kærumáls Vantrúar gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni hjá siðanefnd HÍ

Þann 30. apríl 2010 héldu kennarar og doktorsnemar við Hugvísindasvið fund þar sem fjallað er um kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni. Í kjölfarið var sent bréf til siðanefndar undirritað af 22 af þeim 23 sem voru á fundinum. Þórður Harðarson þáverandi formaður siðanefndar svaraði bréfinu en bréfriturum hugnaðist illa svarið.

Í september og október 2010 rituðu ellefu einstaklingar greinargerðir til stuðnings Bjarna Randveri Sigurvinssyni, þar af voru átta kennarar við Hugvísindasvið HÍ, forseti félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst, rektor í Skálholti og einn nemenda Bjarna Randvers (að eigin frumkvæði). Sumar þessara greinagerða voru sendar til siðanefndar í september og október en lögmaður Bjarna Randvers sendi þær síðan allar formlega til siðanefndar með tölvupósti þann 7. desember 2010. Niðurstaða allra greinargerðanna er að Bjarni Randver hafi ekki gerst brotlegur við siðareglur með kennslu sinni.

Þann 15. desember 2010 mótmæltu 10 kennarar við Háskóla Íslands og Háskólann á Bifröst skriflega ósk siðanefndar um að fá að kynna sér prófúrlausnir úr námskeiði Bjarna Randvers „Nýtrúarhreyfingar“. Þeir hvöttu líka siðanefnd til að kalla eftir umsögnum nemenda úr námskeiðinu „telji hún nauðsynlegt að afla frekari gagna í málinu.“

Þann 23. mars 2011 rituðu 12 háskólakennarar Háskólaráði Háskóla Íslands bréf út af meðferð á kæru Vantrúar til siðanefndar Háskóla Íslands, en þar segir m.a.:

 Við undirritaðir kennarar við Háskóla Íslands lýsum þungum áhyggjum af því hvernig unnið hefur verið úr kæru Vantrúar til Siðanefndar Háskóla Íslands vegna umfjöllunar um félagið í kennslu Bjarna Randvers Sigurvinssonar, stundakennara í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, [- – -] Við skorum á Háskólaráð að skipa óháða rannsóknarnefnd um málið, aðdraganda þess og málsmeðferð alla, þar sem ekkert verði dregið undan. Fulltrúar þessarar nefndar eiga ekki að vera starfsmenn við Háskóla Íslands og án tengsla við alla málsaðila, svo að tryggja megi að fullu sjálfstæði hennar.
 (Skýrsla óháðu nefndarinnar, s. 66- 67.)

Þann 28 apríl 2011 rituðu 40 akademískir starfsmenn bréf til Háskólaráðs um meðferð á kæru Vantrúar til Siðanefndar Háskóla Íslands. Þar segir m.a.:
 

 Undirritaðir akademískir starfsmenn við íslenskar Háskóla- og rannsóknarstofnanir ítreka efnisatriði þau sem rakin voru í bréfi 12 háskólakennara til háskólaráðs HÍ dags 23. mars 2011.
 [- – -]
 Við skorum á Háskólaráð að skipa óháða rannsóknarnefnd um málið […]

 Ljóst er að þetta mál hefur vegna mistaka Siðanefndar HÍ farið í óæskilegan farveg sem ekki verðu hjá komist að háskólayfirvöld bregðist við. Ekki nægir að vísa málinu frá á tæknilegum forsendum úr því sem komið er. Þess vegna ítrekum við nauðsyn þess að skipuð verði óháð rannsóknarnefnd um meðferðina á kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni, en mikilvægt er að í henni sitji einstaklingar sem engin tengsl hafa við málið.
 (Skýrsla óháðu nefndarinnar s. 63.)
 
 

Ákvörðun Háskólaráðs

Á fundi Háskólaráðs þann 5. maí 2011 voru tekin til umfjöllunar erindi er höfðu borist háskólaráði vegna máls nr. 1/2010 hjá siðanefnd Háskóla Íslands. Á fundinum var eftirfarandi bókað um dagskrárliðinn:

 Erindi til háskólaráðs vegna máls 1/2010 hjá siðanefnd Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
 Fyrir fundinum lágu eftirfarandi gögn: Bréf prófessors við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, dags. 21. mars sl., þrjú bréf hóps [svo] kennara Háskóla Íslands, dags. 23. mars sl., 28. apríl sl. og 3. maí sl., og bréf formanns siðanefndar Háskóla Íslands, dags. 3. maí sl. Inn á fundinn kom Ingibjörg Halldórsdóttir, lögfræðingur Háskóla Íslands, og gerði grein fyrir málinu. Málið var rætt ítarlega og svaraði Ingibjörg spurningum ráðsmanna.

 – Háskólaráð samþykkir að skipa nefnd óháðra aðila um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð. Nefndin fari yfir alla meðferð málsins innan háskólans frá því það hófst, meðferð siðanefndar Háskóla Íslands, vinnubrögð og samskipti við aðila máls og aðra innan háskólans og utan, sem og afskipti annarra af meðferð málsins. Hlutverk nefndarinnar verði að lýsa atvikum á hlutlægan hátt og meta hvort eðlilega hafi verið staðið að meðferð málsins. Nefndinni er ekki ætlað að taka efnislega afstöðu til kæruefnisins. Nefndinni verði jafnframt falið að fara yfir starfsreglur siðanefndar Háskóla Íslands og eftir atvikum að gera tillögur til úrbóta. Nefndin verði skipuð þeim Þórhalli Vilhjálmssyni, aðallögfræðingi Alþingis, Sigurði Þórðarsyni, fyrrverandi ríkisendurskoðanda og Elínu Díönnu Gunnarsdóttur, dósent við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.
 
 

Þann 17. maí 2011 ritaði Ingvar Sigurgeirssonar prófessor bréf til rektors Háskóla Íslands en þar kemur fram m.a.: 

 Ég leyfi mér að árétta að ég lagði mig í framkróka við að stýra þessu máli í samræmi við starfsreglur siðanefndar og stjórnsýslulög og af virðingu við alla másaðila [svo]. Áhersla var lögð á að rannsaka þetta mál til hlítar með því að ræða við alla málsaðila og skoða rækilega þau gögn sem varpað gætu ljósi á málið. Þetta reyndist ekki unnt, m.a. af ástæðum sem ég hef áður gert þér og háskólaráði grein fyrir. Málinu var spillt.
 […]
 Ég hafði kosið að halda mér [svo] til hlés í þessu máli meðan það er til rannsóknar af nefnd þeirri sem skipuð hefur verið af háskólaráði til að fara yfir það, en neyðist nú til að halda uppi vörnum. Ég hlýt að mælst [svo] eindregið til þess að þú hlutist til um að nefndinni verði tryggður nauðsynlegur starfsfriður, um leið og ég átel og harma að starfsmenn Háskólans komi fram með þessum hætti á opinberum vettvangi.
 (Skýrsla óháðu nefndarinnar s. 73. Feitletrun mín.)
 
 
 

Í næstu færslu verður gerð grein fyrir meginniðurstöðu óháðu nefndarinnar (helstu niðurstöður hennar varðandi störf siðanefnda(r) HÍ voru raktar í færslunni Ekki-málið sem Siðanefnd HÍ tókst Ekki að leysa) og eftirmálum sem fylgdu í kjölfar þess að skýrslan varð opinber. Jafnframt verður gerð grein fyrir núverandi siðanefnd HÍ. Síðan verður skrifuð lokafærsla þar sem reynt verður að draga helstu þætti þessa undarlega máls saman.
 
 

6 Thoughts on “Störf ad hoc siðanefndar í máli Bjarna Randvers og inngrip Háskólaráðs

  1. Þorvaldur lyftustjóri on February 21, 2012 at 08:39 said:

    Nýtt útlit?

  2. Andrés B. Böðvarsson on February 21, 2012 at 08:53 said:

    Einhver Vantrúarfélagi/-aðdáandi kvartaði undan því að gamla útlitið gerði textann illlæsilegan. Ætli Harpa sé kannski að koma til móts við þá kvörtun?

  3. Helgi Ingólfsson on February 21, 2012 at 11:28 said:

    Er alveg örugglega í lagi, svona út frá kynjafræðinni, að vera með allt “bleikt og blátt” um kring?;-) Verður fólk nútildags ekki að nota pólitískt réttþenkjandi “hlutlausa” liti? Ég kunni svo vel við gamla útlitið – þar var allt gult og grænt. Og er í lagi að bleiku fiðrildin hér séu miklu stærri en þau bláu – þurfa þau ekki að vera jafnstór til að ekki myndist kynjaslagsíða?;-)

  4. Þetta er öllu heldur gamalt útlit 🙂 Ég setti aftur inn útlit sem ég möndlaði úr öðru “leyouti” fyrir mörgum árum … er ekki viss hvenær en gæti verið frá því um 2008 eða fyrr. Og já, ég var sammála vantrúaraðdáandunum um að textinn væri illlæsilegur í gamla útlitinu, altso skoðaður í Google Chrome, hann var í fínu lagi í IE og öðrum vöfrum. (Raunar er flest frekar ljótt í Chrome, ástæða þess hve vafrinn er fljótvirkur er að hann fækkar litum.)

    Auðvitað eru bleiku fiðrildin stærri, Helgi, en ekki hvað! Vér nýfemínistar (þ.e. fylgismenn Fr. Dietrich) hömpum öllu sem mögulega má tengja kvenleika á kostnað hins karllæga – allstaðar og ævinlega. En vissulega er eftirsjá af því gula …

  5. Andrés B. Böðvarsson on February 21, 2012 at 13:40 said:

    Er enginn sem vill taka málstað gráu fiðrildanna, þessara litlu?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation