Tag Archives: Vararfeldur

Röggvar

Röggvar (kvk.ft) er gamalt orð, notað um flóka sem var ofinn í vaðmál eins og þétt kögur svo yfirborðið varð „loðið‟.

 

Röggvar þræddar í vef

Röggvar þræddar í vef

Á fyrstu öldum Íslands byggðar var vaðmál helsti gjaldeyririnn í utanlandsferðum, þ.e.a.s. menn tóku með sér heimaunnið vaðmál og seldu þegar út var komið. Nefndar eru nokkrar tegundir vaðmáls í fornum heimildum, þ.á.m. vararfeldur. Talið er að vararfeldir hafi verið röggvarfeldir, nokkurs konar „gervipelsar“ úr röggvarvefnaði. Þessi aðferð við vefnað var óþekkt í Noregi og mögulega hafa breskir (írskir, skoskir og enskir) þrælar kennt íslenskum landnámsmönnum tæknina.

Kona í endurgerðum röggvarfeldi

Kona í endurgerðum röggvarfeldi

Af markaðssetningu íslenskra röggvarfelda/vararfelda er til saga á þá leið að laust eftir miðja tíundu öld hafi átta Íslendingar komið á skipi til Harðangurs í Noregi og var skipið hlaðið slíkum feldum sem þeir hugðust selja. Hins vegar þótti Norðmönnum þetta frámunalega hallærislegur klæðnaður og enginn vildi kaupa. Sem betur var skipstjórinn málkunnugur kónginum, Haraldi Eiríkssyni, fór á hans fund og tjáði honum þessi vandræði. Konungur, sem var „maður lítillátur og gleðimaður mikill“, brá sér ofan í skip, leit á varninginn, óskaði eftir einum feldinum að gjöf og skellti sér í hann. Allir manna hans keyptu umsvifalaust alveg eins feldi og eftir það rokseldust þeir upp á örfáum dögum. (Sjá Heimskringlu Snorra Sturlusonar, hér er krækt í Netútgáfuna og sagan er í 7. kafla þessa hluta.)

Þessi litla saga er gott dæmi um hvernig koma má íslenskri hönnun á framfæri í útlöndum: Fá kóngafólk til að klæðast henni! Þetta lukkaðist; Feldirnir komust í tísku; Íslendingarnir græddu á tá og fingri og kóngurinn fékk viðurnefnið gráfeldur.

Haraldur gráfeldur ríkti í Noregi frá 961-970, að talið er. Hann var sonur Eiríks blóðaxar (Haraldssonar hárfagra) og Gunnhildar drottningar/kóngamóður. Til að þvæla umfjölluninni um víðan völl má nefna að útsaumuð rómantísk mynd af Gunnhildi þessari var vinsælt viðfangsefni á Íslandi einhvern tíma á fyrri hluta tuttugustu aldar. Er henni þó ekki borin vel sagan í íslenskum fornritum því hún þótti ansi vergjörn, illgjörn og göldrótt.

Rýjapúði

Rýjapúði

Íslendingar hættu röggvarvefnaði laust fyrir 1200 en vitaskuld hafa röggvar stungið hér upp kollinum með ýmsum hætti síðan, í vefnaði, prjóni og saumum. Af nýlegum dæmum má nefna rýjapúða/rýjamottu-tískuna sem greip um sig um miðja síðustu öld. Rýjað var með því að sauma lykkjur utan um einhvers konar lista, t.d. reglustiku, og festa með hnútum í stramma, síðan var klippt upp úr lykkjunum. (Hér má sjá myndband sem sýnir aðferðina. Síðar komu smyrnamottur og -púðar til sögunnar en þá er notuð sérstök nál, smyrnanál, til að hnýta klippta garnenda í grófan stramma. (Sjá myndband.)

Röggvað prjón

Röggvað prjón

Akkúrat núna er dálítið í tísku að prjóna vettlinga með röggvum. Þá snúa röggvarnar inn. Aðferðin felst í því að prjóna „lýs” úr óspunnum lagði, hver lús er prjónuð úr lagði og ekki gengið frá neinum endum. Vettlingurinn verður auðvitað afskaplega hlýr en kannski þarf að venjast því að klæðast svona vettlingum. Á Vefnum má líka sjá uppskriftir og myndir af sokkum, inniskóm og jafnvel húfum prjónuðum með þessari tækni. (Nota má leitarorðið „thrummed”, t.d. „thrummed mittens”, „thrummed socks” o.s.fr.)

Nútíma-vararfeldur?

Nútíma-vararfeldur?

Loks er gaman að benda á uppskrift í nýlegu (nýjasta?) Prjónablaðinu Ýr  (nr 55, útg. okt. 2013) af röggvarfeldi/röggvarfeldsjakka. Í þeirri uppskrift, sem heitir Hekluð kögurpeysa, er grunnurinn heklaðir möskvar en röggvarnar niðurklipptir þræðir sem er raðað í knippi og hnýttar/heklaðar í eftir á. Það er gaman að bera saman þessa glænýju útgáfu við endurgerða ofna röggvarfeldinn á myndinni ofar í pistlinum.

Þessi pistill birtist áður í Kvennablaðinu 20. mars 2014.