Tag Archives: þríburataug

Þrenndartaugarverkur/vangahvot: Saga orðanna

Þetta er fimmta færsla í færsluflokki um þrenndartaugarverk. Hinar eru, í tímaröð:

1. Þrenndartaugabólga eða vangahvot;
2. Lyfjameðferð við þrenndartaugabólgu;
3. Þrenndartaugin og inngrip gegn þrenndartaugabólgu
4. Skurðaðgerðir og aðrar aðgerðir í eða við þrenndarhnoða

Það er rétt að geta þess að ég sé að orðið þrenndartaugabólga, sem ég hef notað í þessum færslum, er ekki heppilegt orð yfir trigeminal neuralgia, því engin er bólgan. Mér sýnist að þrenndartaugarverkur sé heppilegra orð og breyti heitunum þegar ég set færslurnar upp í vef.

Þessi færsla fjallar um þau orð sem notuð hafa verið yfir sjúkdóminn og einnig hvernig greint er milli þrenndartaugarverks og þrenndartaugarkvilla.

Latneskir og grískir stofnar

Latneska heitið á þrenndartaugarverk er neuralgia trigemini.

Þrenndartaugin sjálf heitir nervus trigeminus á latínu. Karlkyns nafnorðið nervus þýðir taug og trigeminus stendur þarna sem lýsingarorð í nefnifalli. Nafnorðið trigeminus (kk.) þýðir þríburi (en stjörnumerkjafróðir lesendur kannast sjálfsagt við geminus (gemini í ft.) sem þýðir tvíburi).

Taugin heitir því, í beinni þýðingu latínunnar, þríburataug. Það var hún og kölluð í elsta orðasafninu þar sem ég finn hana nefnda, í Fylgiriti Árbókar Háskóla Íslands, 1937, s. 92. Fylgiritið er eftir Guðmund Hannesson og heitir NOMINA ANATOMICA ISLANDICA: ÍSLENZK LIFFÆRAHEITI.

Í sjúkdómsheitinu neuralgia trigemini, sem er miðaldalatína, er búið að skeyta saman grísku orðunum neûron (νεῦρον) og algos (ἄλγος). Neuron þýðir taug og algos þýðir þjáning eða kvöl, afleidda orðið algia þýðir hið sama, stundum þó líðan og jafnvel þrá (eins og sést í orðinu nostalgía, sem þýðir bókstaflega þrá eftir að komast heim).

Bein þýðing á neuralgia trigemini væri því væntanlega þríburataugarkvöl.

Íslensk orð

Líklega hafa menn ekki haft neitt íslenskt orð yfir neuralgia trigemini fyrr en laust fyrir síðustu aldamót. Til þess bendir m.a. þýdd grein í Lesbók Morgunblaðsins 5. apríl 1959, s. 181, þar sem gamalt franskt-enskt heiti sjúkdómsins, tic douloureux, er notað. Ítarleg leit í Ritmálssafni Orðabókar Háskóla Íslands og á timarit.is hefur ekki skilað neinum gömlum dæmi um íslensk heiti á þessum kvilla.

Í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar eru gefin upp íðorðin þrenndartaugarverkur og vangahvot, sem þýðing á enska sjúkdómsheitinu trigeminal neuralgia.

Ég veit ekki hvenær þrenndartaug náði fótfestu á kostnað þríburataugar en giska á að ekki sé langt síðan. Í Nomina Anatomica: Líffæraheiti. (1996.) Ritstjóri Magnús Snædal. Reykjavík: Heimskringla. Háskólaforlag Máls og menningar, er þrenndartaug gefin sem íslensk þýðing á Nervus trigeminus. Í auglýsingu lyfjafyrirtækja, sem birtist víða haustið 2000, segir hins vegar [um Tegretol]: „1967 Nýtt lyf, karbamazepín kemur á markað. Vinnur gegn verkjum í svonefndri þríburataug og vissum tegundum flogaveiki.“ Hér er vísað í auglýsinguna í Morgunblaðinu 23. sept. 2000, s. 17.

Það kann að valda þessum ruglingi á orðanotkun kringum aldamótin síðustu að skv. fyrrnefndum Orðabanka Íslenskrar málstöðvar er orðið þrenndartaug notað í Íðorðasafni lækna en þríburataug í Líforðasafni, þ.e. orðasafni líffræðinga.

Íslenska íðorðið vangahvot hýtur að vera fremur nýtt af nálinni en virðist ryðja sér óðum til rúms sem heiti á neuralgia trigemini. Ég finn engin dæmi um orðið eldri en um síðustu aldamót og það er ekki að finna í Ritmálssafni Orðabókar Háskóla Íslands. En í  ICD-10 kóðanum, þ.e. þeim sjúkdómaflokkunarkóða sem ísl. heilbrigðiskerfi notar, er einungis vangahvot gefið sem þýðing á ensku heitinum trigeminal neuralgia eða tic doloureux. Númer sjúkdómsins er G50.0.

Vangahvot er alveg sérstaklega illa heppnað íðorð að mínu mati. Í fyrsta lagi er mörgum þrenndartaugaverkjarsjúklingi ágætlega ljóst að sársaukinn er ekki bundinn við vanga: Þeir sem eru með verki frá kjálkataug eða augntaug þrenndartaugar eru líklega ekki mjög uppteknir af kinninni á sér.

Í öðru lagi er orðið hvot hvorukynsorð. Þetta gamla orð líkist kvenkynsorðinu hvöt óþarflega mikið sem stuðlar að rangri beygingu þess. Sem dæmi má nefna klausuna:

„Í hefðbundinni (idiopathic) vangahvot er ekki um skyntap að ræða. Þegar vangahvot er orsökuð af ….“ í  Ari J. Jóhannesson o.fl. (2015). Handbók í lyflæknisfræði. 4. útg., s. 364. Reykjavík:Háskólaútgáfan og Landspítali Háskólasjúkrahús.

Orðið hvot er væntanlega tekið úr læknisfræðitextum frá því seint á 18. öld, ef marka má upplýsingar Ritmálssafns Orðabókar HÍ. Annars vegar nefnir Sveinn Pálsson hvot sem dæmi um verk í Registr yfir Íslenzk Siúkdóma nøfn. (Framhalldit.) í Riti þess (konunglega) Islendska Lærdóms-Lista Felags X, útg. 1789, s. 52: „Verkr (dolor) … hvotverkr, hvot (dol. intermittens) […]“. Dolor intermittens þýðir sársauki sem kemur og fer, með hléum.

Hins vegar er orðið að finna í Stuttu Agripi umm Icktsyke Edur Lidaveike : Hvar inne hun er wtmaalud, med fleirstum sijnum Tegundum; Þar i eru løgd […] eftir Jón Pétursson. Bókin fjallar vitaskuld um gigt (iktsýki), kom út árið 1782 og á s. 33 segir: „Þeir eð hafa Miadmaverk, finna stundum smaa-Hvøt i Lærenu eður Kálfanum, sem þar kvikade nockuð lifande, aan þess að þreyngiast þar af.“

Hvot þýddi sem sagt seint á 18. öld verkur, kannski verkur sem kemur og fer, kannski tilfinning eins og eitthvað skríði innanum mann. Málsögulega séð getur hvot þýtt stingur því orðið ku dregið af sögninni að hváta sem merkti stinga. Þeir sem líklegastir eru til að hafa yfirhöfuð heyrt þessa sögn eru væntanlega dyggir aðdáendur Egils sögu sem muna þegar Egill karlinn þurfti að stinga nefinu ofan í feld í ástarsorg, þ.e.a.s. hváta brúna miðstalli í feld.

Einhverjum sniðugum lækni hefur síðan dottið í hug að splæsa saman orðinu vanga og orðinu hvot og búa þannig til vangahvot, sem bókstaflega þýðir verkur/stingur í kinn, og nota fyrir íslenskt heiti á þeim sársaukafulla sjúkdómi trigeminal neuralgia. Sá hefur mögulega verið lesinn í Egils sögu.

Orðsins hvot verður líka vart í öðru samhengi í Íðorðasafni lækna. Þar er boðið upp á samheitin taugahvot og taugaverkur yfir neuralgia, líffræðingar hampa samheitunum taugahvot og taugapína yfir sama. Sjúklingar sem hafa talið sig þjást af úttaugaverkjum ættu því að læra, áður en þeir leita læknis, að þeir þjást af taugahvot og muna að beygja orðið í hvorukyni. Þetta staðfestir m.a. auglýsing um ágæti Gabapentíns (Neurontins) í Læknablaðinu 88(6), 2002, s. 466: „Nú hefur Neurontin frá Pfizer fengið ábendingarnar „meðferð á taugahvot í kjölfar herpessýkingar (postherpetic neuralgia) og sársaukafullum sykursýkitaugakvilla“.“ Ég vek athygli á að í auglýsingunni er greint milli taugahvots og taugakvilla þótt erfitt sé að ímynda sér ástæðuna fyrir því af samhenginu.

Myndin fylgir fyrrnefndri auglýsingu Pfizer í Læknablaðinu 15. júní 2002.

Myndin fylgir fyrrnefndri auglýsingu Pfizer í Læknablaðinu 15. júní 2002.

 

Þrenndartaugarverkur eða þrenndartaugarkvilli?

Til að flækja mál kann að vera að einhverjir læknar greini þrenndartaugarverk sem þrenndartaugarkvilla. Stundum er í erlendum heimildum greint milli trigeminal neuralgia og trigeminal neuropathy eða trigeminal neuropathic pain og er þá hið síðarnefnda notað um stöðugan sársauka sem stafar af skaða á þrenndartauginni. Því miður er næsta vonlítið að bæta trigeminal neuropathy með aðgerðum sem virka á trigeminal neuralgia (sjá t.d. lýsingu sjúklings á blogginu Theachybrain.com  eða greinar á borð við Jonathan H Smith og F Michael Cutrer. (2011.) Numbness matters: A clinical review of trigeminal neuropathy. Cephalalgia 31(10), s. 1131–1144. International Headache Society.).

Í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar er enska orðið neuropathy þýtt sem taugakvilli, skilgreiningin sem fylgir er: „Meinsemd eða sjúkdómur í taug(um)“. Enska orðið er leitt úr miðaldalatínu, neuropathia. Sú latína er samansplæsing á grísku orðunum neûron, sem þýðir eins og áður hefur komið fram taug, og paþeia, kvenkyns mynd orðsins paþos, sem þýðir pína, kvöl eða jafnvel óhapp (eitthvað sem hendir mann).

Málsögulega séð er erfitt að gera greinarmun á algia, þ.e. kvöl, og paþeia, þ.e. pína. En í læknisfræðilegum textum hefur –pathy smám saman farið að merkja sjúkdóm, tilfinningu eða jafnvel meðferð meðan –algia hélt sinni fornu merkingu.

Svoleiðis að þrenndartaugarkvilli (trigeminal neuropathy) er verkur sem rekja má til einhvers konar skaða eða meinsemdar á tauginni meðan þrenndartaugarverkur (trigeminal neuralgia) kviknar óforvarendis (jafnvel þótt vinsælasta orsakaskýringin sé sú að mýli þrenndartaugar hafi skaðast af aðliggjandi æð). Vilji menn leita sér upplýsinga á Google Scholar mæli ég með því að leita eftir báðum sjúkdómsheitunum.

Ensk heiti

Hér verður látið duga að telja upp vinsælustu önnur heitin á trigeminal neuralgia, með örlitlum skýringum ef þurfa þykir:

  • trifacial neuralgia
  • tic douloureux (svo nefnt af franska skurðlækninum Nicolaus André 1756, þýðir sársauka-kippir)
  • facial neuralgia
  • Fothergill’s disease (eftir enska lækninum John Fothergill, sem lýsti sjúkdómnum 1773)
  • prosopalgia (gríska orðið prosopo þýðir andlit)

 

Lokaorð

Upphaflega hafði ég hugsað mér að skrifa einnig um sögu sjúkdómsgreiningar og læknisráða við þrenndartaugaverk. Ég veit ekki hvort af slíku verður, það bíður a.m.k. um sinn.

Færslurnar um þrenndartaugarverk voru fyrst og fremst skrifaðar vegna þess að ég fann nánast engar upplýsingar um þetta á íslensku. Reynsla mín af læknum af ýmsu tagi, sem ég hef leitað til frá því sjúkdómurinn (þrenndartaugarverkur eða þrenndartaugarkvilli) kviknaði í apríl 2012 bendir til þess að almennt viti læknar engin deili á þessum sjúkleika og hafi flestir aldrei heyrt hann nefndan. Það stendur þá upp á sjúklinginn að afla sér upplýsinga. Ég vona að einhverjir hafi og gagn af upplýsingamiðlun minni á íslensku, með því fororði að ég er ekki læknismenntuð og því kann að vel að vera að eitthvað sé missagt í þessum færslum: Menn hafi þá það sem sannara reynist.

Þrenndartaugabólga eða vangahvot

Þetta er fyrsta færsla í færsluröð um þrenndartaugarverk (sem ranglega er kallaður þrenndartaugabólga í færslunum). Hinar eru, í tímaröð:

2. Lyfjameðferð við þrenndartaugabólgu;
3. Þrenndartaugin og inngrip gegn þrenndartaugabólgu
4. Skurðaðgerðir og aðrar aðgerðir í eða við þrenndarhnoða
5. Þrenndartaugaverkur/vangahvot: Saga orðanna.

Þrenndartaugabólga (sem einnig er kölluð vangahvot á íslensku, Trigeminal neuralgia er algengasta sjúkdómsheitið á ensku) er viðvarandi (krónískur) sársauki í 5. andlitstauginni, svokallaðri þrenndartaug/þríburataug.1 Nafnið er dregið af því að þessi taug greinist í þrennt í hvorum helmingi andlitsins, s.s. sjá má á myndinni:

Þrenndartaug

Þrenndartaugin (nervus trigeminus) er skyntaug sem tengist heilanum en liggur um andlitið. Efsta greinin, augntaug (nervus ophthalmicus), stjórnar skynjun í höfuðleðri, enni og framhluta höfuðs. Miðgreinin, kinnkjálkataug (nervus maxillaris), stjórnar skynjun í kinn, efri kjálka, efri vör, efri tanngarði og efri gómi, ásamt hálfu nefinu. Neðsta greinin, kjálkataug (nervus mandibularis) stjórnar skynjun í neðri kjálka, neðri tanngarði, neðri gómi og neðri vör.1

 

 

Dæmigerð/klassísk þrenndartaugabólga (oft skammstöfuð TN1 á ensku) veldur ofboðslegum sársaukastingjum í andlitinu, sem oft minna á raflost eða bruna. Stingirnir geta varað frá nokkrum sekúndum upp í tvær mínútur og þeir geta komið hver á fætur öðrum í allt að tvær klukkustundir samfleytt. Mislangt hlé gefst milli sársaukakastanna.1 Sársaukinn getur verið það gífurlegur að þessi gerð þrenndartaugabólgu ku hafa verið kölluð „sjálfsvígssjúkdómurinn“. 2

Tal, tygging, tannburstun, rakstur eða kaldur vindur í andlit geta útleyst verkjakast. Þó að hvert kast vari aðeins í sekúndur getur verkurinn endurtekið sig með svo stuttu millibili að köstin renni saman í eitt. Eftir mörg köst getur sjúklingur upplifað viðvarandi andlitsverk.3

Nánari lýsingu á sársaukaköstum dæmigerðrar þrenndartaugabólgu má finna í tveimur stuttum íslenskum greinum sem tengjast umfjöllun um vefjagigt. 4,5

Yfirleitt er dæmigerð þrenndartaugabólga talin stafa af skaða á mýli/taugaslíðri utan um taugina. Oftast er sá skaði talinn stafa af æð sem þrýsti stöðugt á taugina.6 Í undantekningartilvikum má rekja dæmigerða þrenndartaugabólgu til æxlis.1

 

Þrenndartaugabólga 2 (oft skammstöfuð TN2 á ensku, stundum kölluð ódæmigerð þrenndartaugabólga, þ.e. Atypical trigeminal neuralgia) veldur sleitulausum verk, þ.e. án nokkurs hlés, af svipuðu tæi og lýst var að ofan en ekki eins ofboðslegum og verkjaköstin sem einkenna klassíska þrenndartaugabólgu.1 Sumir mæla gegn því að nota heitið ódæmigerð þrenndartaugabólga með þeim rökum að sú sjúkdómsgreining sé gjarna notuð sem ruslakistugreining fyrir alls konar andlitsverki sem hafa ekkert með þrenndartaugina að gera.6

Yfirleitt verður þrenndartaugabólgu vart öðrum megin í andlitinu en þó eru sjaldgæf dæmi þess að fólk þjáist af sjúkdómnum beggja vegna. Slíkt gæti verið vísbending um heila- og mænusigg.3 Einnig eru dæmi þess að fólk sé haldið hvoru tveggju dæmigerðri þrenndartaugabólgu og þrenndartaugabólgu 2 í senn.1

 

Á síðari árum hafa menn viljað flokka þrenndartaugabólgu í fleiri undirflokka og er þá helst nefnt, auk TN1 og TN2:

Afleidd þrenndartaugabólga (Secondary Trigeminal Neuralgia, skst. STN) lýsir sér alveg eins og hinar tegundirnar en má tengja við að sjúklingurinn sé haldinn heila- og mænusiggi (multiple sclerosis).6

Einnig hefur verið bent á að þrenndartaugabólga geti verið fylgifiskur vefjagigtar en óljóst er hvernig þeim tengslum ætti að vera háttað.4, 5

Þrenndartaugabólga eftir áblásturssótt (Post-Herpetic neuralgia, skst. PHN) er eftirköst eftir ristil (herpes zoster) við þrenndartaugina.6

Þrenndartaugabólga sem stafar af starfrænni truflun (Trigeminal Neuropathic Pain, skst. TNP) er þegar rekja má kvillann til einhvers konar óviljandi skaða á tauginni. Sá skaði getur verið áverki á andliti, af munnskurðlækningum eða skurðaðgerðum sem tengjast háls-nef og eyrnalækningum, skaði á tauginni vegna skurðaðgerða í aftari kúpugróf (fossa cranii posterior) eða annars staðar neðst í höfuðkúpu, af heilablóðfalli o.fl. Sársaukinn er sagður draga úr sjúklingnum mátt, vera brennandi eða eins og borað sé í auma svæðið. Verkurinn er oftast sleitulaus vegna þess að sköðuð taugin sendir stöðugt verkjaboð til heilans. Skaðinn getur líka gert taugina ofurnæma fyrir áreiti svo svipuð sársaukaköst geta fylgt þessari gerð þrenndartaugabólgu eins og dæmigerðri þrenndartaugabólgu, sársaukinn blossar þá venjulega upp á sama stað og áreitið verður. Tilfinningaleysi og náladofi benda einnig til skaddaðrar taugar.6

Þessi gerð af þrenndartaugabólgu er hins vegar sögð heita secondary trigeminal neuralgia [sjá um afleidda þrenndartaugabólgu hér að ofan] í nýlegri íslenskri kennslubók handa lækna- eða lyfjafræðinemum. Þar segir einnig að sé „vangahvot orsökuð af ytri skaða á þrenndartauginni […] geta verið teikn um skynbrottfall á svæði hennar og jafnvel máttleysi og rýrnun tyggingarvöðva“.3

Þrenndartaugabólga eftir aðgerð á miðtaugakerfi (Trigeminal Deafferentation Pain, skst. TDP) eru verkir í andliti sem tengjast tilfinningaleysi í þrenndartaug eftir skurðaðgerð við þrenndartaugabólgu. Þessar skurðaðgerðir miða allar að því að skaða þrenndartaugina til lækninga og má aðallega nefna taugarúrnám, þ.e. brottnám hluta taugar (neurectomy), eyðileggingu taugahnoða (gangliolysis), þverskurð taugarótar (rhizotomy), þverskurð taugabrautar utan mænukylfu (nucleotomy) og brautarskurð, þ.e. þverskurð taugabrautar í mænukylfu (tractotomy). Þrátt fyrir að allar þessar aðgerðir miði að því að eyða tilfinningu/skynjun í þrenndartauginni getur fylgt í kjölfarið stöðugur sársauki í dofnum andlitshlutum, t.d. brennandi, ertandi eða nístandi sársauki.6

Loks mætti nefna að til er flokkurinn Ódæmigerðir andlitsverkir (Atypical Facial Pain (AFP), sem eru verkir í andliti án þess að orsök finnist fyrir þeim. Eitthvað af því sem fellur í þá ruslakistu gæti verið birtingarmynd þrenndartaugabólgu.

 

Algengi

Tölum um algengi þrenndartaugabólgu ber ekki alveg saman í heimildum en ljóst er að þetta er sjaldgæfur sjúkdómur. Oftast er talað um að u.þ.b. 0,005-0,01% fólks þjáist af þrenndartaugabólgu en óvíst hvort þá er eingöngu verið að tala um dæmigerða þrenndartaugabólgu eða öll afbrigði hennar.1,2,6,7 Hæsta tala sem ég fann kom fram í breskri rannsókn sem sýndi 0,026% algengi þrenndartaugabólgu meðal sjúklinga á breskum heilsugæslustöðvum.8 En bent hefur á að í þeirri rannsókn hafi e.t.v. óvart verið taldir með sjúklingar með andlitsverki af öðrum toga.9

Heimildum ber saman um að þrenndartaugabólga komi yfirleitt ekki fram fyrr en eftir fimmtugt og að hún sé algengari meðal kvenna en karla. Ég leyfi mér að setja fram þá fullyrðingu að þess vegna sé þetta sennilega vangreindur sjúkdómur og algengari en haldið er fram í heimildum sem vísað var í hér að ofan.

 

Heimildir

Trigeminal Neuralgia Fact Sheet. (2013). National Institute of Neurological Disorders and Stroke, NIH bæklingur nr. 13-5116. Síðast uppfærður á vef 27. júlí 2015. Skoðað 4. sept. 2015.

2 Trigeminal neuralgia. Wikipedia. Skoðað 4. september 2015.

3 Ari J. Jóhannesson o.fl. (2015). Handbók í lyflæknisfræði. 4. útg., s. 363-4. Reykjavík:Háskólaútgáfan og Landspítali Háskólasjúkrahús.

4 Sigrún Baldursdóttir. (2010). Andlits- og kjálkaverkir (Orofacial Pains) – II. Hluti Vangahvot -Trigeminal neuralgia Gigtin 21(1), s. 15-16. Reykjavík:Gigtarfélag Íslands. Aðgengilegt á vef.

5 Sigrún Baldursdóttir. (e.d.) Trigeminal neuralgia. Andlits- og kjálkaverkir Andlits- og kjálkaverkir (Orofacial Pains) – II. Hluti. Vefjagigt. Fræðsluvefur um vefjagigt og síþreytu. Skoðað 9. sept.2015.

6 Classifications of Neuropathic Facial Pain. (e.d.) TNA – The Facial Pain Association. Skoðað 9. sept. 2015.

7  Trigeminal Neuralgia. (2014). NORD:National Organization for Rare Disorders. Skoðað 9. sept. 2015.

8 Kenny, Tim og Colin Tidy. Who gets trigeminal neuralgia (TN)? (2014). Patient. Skoðað 9. sept. 2015.

9 Hall, Gillian C. o.fl. (2006). Epidemiology and treatment of neuropathic pain: The UK primary care perspective. Pain 122(1-2), s. 156-162. Aðgengilegt á vef. Skoðað 8. sept. 2015.

10 Zakrzewska, Joanna M. (2010). Facial Pain. Í C. Stannard, E. Kalso og J. Ballantyne (ritstjórar), Evidence-Based Chronic Pain Management, bls.134-150. Oxford:Wiley-Blackwell.