Tag Archives: þrenndartaug

Þrenndartaugarverkur/vangahvot: Saga orðanna

Þetta er fimmta færsla í færsluflokki um þrenndartaugarverk. Hinar eru, í tímaröð:

1. Þrenndartaugabólga eða vangahvot;
2. Lyfjameðferð við þrenndartaugabólgu;
3. Þrenndartaugin og inngrip gegn þrenndartaugabólgu
4. Skurðaðgerðir og aðrar aðgerðir í eða við þrenndarhnoða

Það er rétt að geta þess að ég sé að orðið þrenndartaugabólga, sem ég hef notað í þessum færslum, er ekki heppilegt orð yfir trigeminal neuralgia, því engin er bólgan. Mér sýnist að þrenndartaugarverkur sé heppilegra orð og breyti heitunum þegar ég set færslurnar upp í vef.

Þessi færsla fjallar um þau orð sem notuð hafa verið yfir sjúkdóminn og einnig hvernig greint er milli þrenndartaugarverks og þrenndartaugarkvilla.

Latneskir og grískir stofnar

Latneska heitið á þrenndartaugarverk er neuralgia trigemini.

Þrenndartaugin sjálf heitir nervus trigeminus á latínu. Karlkyns nafnorðið nervus þýðir taug og trigeminus stendur þarna sem lýsingarorð í nefnifalli. Nafnorðið trigeminus (kk.) þýðir þríburi (en stjörnumerkjafróðir lesendur kannast sjálfsagt við geminus (gemini í ft.) sem þýðir tvíburi).

Taugin heitir því, í beinni þýðingu latínunnar, þríburataug. Það var hún og kölluð í elsta orðasafninu þar sem ég finn hana nefnda, í Fylgiriti Árbókar Háskóla Íslands, 1937, s. 92. Fylgiritið er eftir Guðmund Hannesson og heitir NOMINA ANATOMICA ISLANDICA: ÍSLENZK LIFFÆRAHEITI.

Í sjúkdómsheitinu neuralgia trigemini, sem er miðaldalatína, er búið að skeyta saman grísku orðunum neûron (νεῦρον) og algos (ἄλγος). Neuron þýðir taug og algos þýðir þjáning eða kvöl, afleidda orðið algia þýðir hið sama, stundum þó líðan og jafnvel þrá (eins og sést í orðinu nostalgía, sem þýðir bókstaflega þrá eftir að komast heim).

Bein þýðing á neuralgia trigemini væri því væntanlega þríburataugarkvöl.

Íslensk orð

Líklega hafa menn ekki haft neitt íslenskt orð yfir neuralgia trigemini fyrr en laust fyrir síðustu aldamót. Til þess bendir m.a. þýdd grein í Lesbók Morgunblaðsins 5. apríl 1959, s. 181, þar sem gamalt franskt-enskt heiti sjúkdómsins, tic douloureux, er notað. Ítarleg leit í Ritmálssafni Orðabókar Háskóla Íslands og á timarit.is hefur ekki skilað neinum gömlum dæmi um íslensk heiti á þessum kvilla.

Í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar eru gefin upp íðorðin þrenndartaugarverkur og vangahvot, sem þýðing á enska sjúkdómsheitinu trigeminal neuralgia.

Ég veit ekki hvenær þrenndartaug náði fótfestu á kostnað þríburataugar en giska á að ekki sé langt síðan. Í Nomina Anatomica: Líffæraheiti. (1996.) Ritstjóri Magnús Snædal. Reykjavík: Heimskringla. Háskólaforlag Máls og menningar, er þrenndartaug gefin sem íslensk þýðing á Nervus trigeminus. Í auglýsingu lyfjafyrirtækja, sem birtist víða haustið 2000, segir hins vegar [um Tegretol]: „1967 Nýtt lyf, karbamazepín kemur á markað. Vinnur gegn verkjum í svonefndri þríburataug og vissum tegundum flogaveiki.“ Hér er vísað í auglýsinguna í Morgunblaðinu 23. sept. 2000, s. 17.

Það kann að valda þessum ruglingi á orðanotkun kringum aldamótin síðustu að skv. fyrrnefndum Orðabanka Íslenskrar málstöðvar er orðið þrenndartaug notað í Íðorðasafni lækna en þríburataug í Líforðasafni, þ.e. orðasafni líffræðinga.

Íslenska íðorðið vangahvot hýtur að vera fremur nýtt af nálinni en virðist ryðja sér óðum til rúms sem heiti á neuralgia trigemini. Ég finn engin dæmi um orðið eldri en um síðustu aldamót og það er ekki að finna í Ritmálssafni Orðabókar Háskóla Íslands. En í  ICD-10 kóðanum, þ.e. þeim sjúkdómaflokkunarkóða sem ísl. heilbrigðiskerfi notar, er einungis vangahvot gefið sem þýðing á ensku heitinum trigeminal neuralgia eða tic doloureux. Númer sjúkdómsins er G50.0.

Vangahvot er alveg sérstaklega illa heppnað íðorð að mínu mati. Í fyrsta lagi er mörgum þrenndartaugaverkjarsjúklingi ágætlega ljóst að sársaukinn er ekki bundinn við vanga: Þeir sem eru með verki frá kjálkataug eða augntaug þrenndartaugar eru líklega ekki mjög uppteknir af kinninni á sér.

Í öðru lagi er orðið hvot hvorukynsorð. Þetta gamla orð líkist kvenkynsorðinu hvöt óþarflega mikið sem stuðlar að rangri beygingu þess. Sem dæmi má nefna klausuna:

„Í hefðbundinni (idiopathic) vangahvot er ekki um skyntap að ræða. Þegar vangahvot er orsökuð af ….“ í  Ari J. Jóhannesson o.fl. (2015). Handbók í lyflæknisfræði. 4. útg., s. 364. Reykjavík:Háskólaútgáfan og Landspítali Háskólasjúkrahús.

Orðið hvot er væntanlega tekið úr læknisfræðitextum frá því seint á 18. öld, ef marka má upplýsingar Ritmálssafns Orðabókar HÍ. Annars vegar nefnir Sveinn Pálsson hvot sem dæmi um verk í Registr yfir Íslenzk Siúkdóma nøfn. (Framhalldit.) í Riti þess (konunglega) Islendska Lærdóms-Lista Felags X, útg. 1789, s. 52: „Verkr (dolor) … hvotverkr, hvot (dol. intermittens) […]“. Dolor intermittens þýðir sársauki sem kemur og fer, með hléum.

Hins vegar er orðið að finna í Stuttu Agripi umm Icktsyke Edur Lidaveike : Hvar inne hun er wtmaalud, med fleirstum sijnum Tegundum; Þar i eru løgd […] eftir Jón Pétursson. Bókin fjallar vitaskuld um gigt (iktsýki), kom út árið 1782 og á s. 33 segir: „Þeir eð hafa Miadmaverk, finna stundum smaa-Hvøt i Lærenu eður Kálfanum, sem þar kvikade nockuð lifande, aan þess að þreyngiast þar af.“

Hvot þýddi sem sagt seint á 18. öld verkur, kannski verkur sem kemur og fer, kannski tilfinning eins og eitthvað skríði innanum mann. Málsögulega séð getur hvot þýtt stingur því orðið ku dregið af sögninni að hváta sem merkti stinga. Þeir sem líklegastir eru til að hafa yfirhöfuð heyrt þessa sögn eru væntanlega dyggir aðdáendur Egils sögu sem muna þegar Egill karlinn þurfti að stinga nefinu ofan í feld í ástarsorg, þ.e.a.s. hváta brúna miðstalli í feld.

Einhverjum sniðugum lækni hefur síðan dottið í hug að splæsa saman orðinu vanga og orðinu hvot og búa þannig til vangahvot, sem bókstaflega þýðir verkur/stingur í kinn, og nota fyrir íslenskt heiti á þeim sársaukafulla sjúkdómi trigeminal neuralgia. Sá hefur mögulega verið lesinn í Egils sögu.

Orðsins hvot verður líka vart í öðru samhengi í Íðorðasafni lækna. Þar er boðið upp á samheitin taugahvot og taugaverkur yfir neuralgia, líffræðingar hampa samheitunum taugahvot og taugapína yfir sama. Sjúklingar sem hafa talið sig þjást af úttaugaverkjum ættu því að læra, áður en þeir leita læknis, að þeir þjást af taugahvot og muna að beygja orðið í hvorukyni. Þetta staðfestir m.a. auglýsing um ágæti Gabapentíns (Neurontins) í Læknablaðinu 88(6), 2002, s. 466: „Nú hefur Neurontin frá Pfizer fengið ábendingarnar „meðferð á taugahvot í kjölfar herpessýkingar (postherpetic neuralgia) og sársaukafullum sykursýkitaugakvilla“.“ Ég vek athygli á að í auglýsingunni er greint milli taugahvots og taugakvilla þótt erfitt sé að ímynda sér ástæðuna fyrir því af samhenginu.

Myndin fylgir fyrrnefndri auglýsingu Pfizer í Læknablaðinu 15. júní 2002.

Myndin fylgir fyrrnefndri auglýsingu Pfizer í Læknablaðinu 15. júní 2002.

 

Þrenndartaugarverkur eða þrenndartaugarkvilli?

Til að flækja mál kann að vera að einhverjir læknar greini þrenndartaugarverk sem þrenndartaugarkvilla. Stundum er í erlendum heimildum greint milli trigeminal neuralgia og trigeminal neuropathy eða trigeminal neuropathic pain og er þá hið síðarnefnda notað um stöðugan sársauka sem stafar af skaða á þrenndartauginni. Því miður er næsta vonlítið að bæta trigeminal neuropathy með aðgerðum sem virka á trigeminal neuralgia (sjá t.d. lýsingu sjúklings á blogginu Theachybrain.com  eða greinar á borð við Jonathan H Smith og F Michael Cutrer. (2011.) Numbness matters: A clinical review of trigeminal neuropathy. Cephalalgia 31(10), s. 1131–1144. International Headache Society.).

Í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar er enska orðið neuropathy þýtt sem taugakvilli, skilgreiningin sem fylgir er: „Meinsemd eða sjúkdómur í taug(um)“. Enska orðið er leitt úr miðaldalatínu, neuropathia. Sú latína er samansplæsing á grísku orðunum neûron, sem þýðir eins og áður hefur komið fram taug, og paþeia, kvenkyns mynd orðsins paþos, sem þýðir pína, kvöl eða jafnvel óhapp (eitthvað sem hendir mann).

Málsögulega séð er erfitt að gera greinarmun á algia, þ.e. kvöl, og paþeia, þ.e. pína. En í læknisfræðilegum textum hefur –pathy smám saman farið að merkja sjúkdóm, tilfinningu eða jafnvel meðferð meðan –algia hélt sinni fornu merkingu.

Svoleiðis að þrenndartaugarkvilli (trigeminal neuropathy) er verkur sem rekja má til einhvers konar skaða eða meinsemdar á tauginni meðan þrenndartaugarverkur (trigeminal neuralgia) kviknar óforvarendis (jafnvel þótt vinsælasta orsakaskýringin sé sú að mýli þrenndartaugar hafi skaðast af aðliggjandi æð). Vilji menn leita sér upplýsinga á Google Scholar mæli ég með því að leita eftir báðum sjúkdómsheitunum.

Ensk heiti

Hér verður látið duga að telja upp vinsælustu önnur heitin á trigeminal neuralgia, með örlitlum skýringum ef þurfa þykir:

  • trifacial neuralgia
  • tic douloureux (svo nefnt af franska skurðlækninum Nicolaus André 1756, þýðir sársauka-kippir)
  • facial neuralgia
  • Fothergill’s disease (eftir enska lækninum John Fothergill, sem lýsti sjúkdómnum 1773)
  • prosopalgia (gríska orðið prosopo þýðir andlit)

 

Lokaorð

Upphaflega hafði ég hugsað mér að skrifa einnig um sögu sjúkdómsgreiningar og læknisráða við þrenndartaugaverk. Ég veit ekki hvort af slíku verður, það bíður a.m.k. um sinn.

Færslurnar um þrenndartaugarverk voru fyrst og fremst skrifaðar vegna þess að ég fann nánast engar upplýsingar um þetta á íslensku. Reynsla mín af læknum af ýmsu tagi, sem ég hef leitað til frá því sjúkdómurinn (þrenndartaugarverkur eða þrenndartaugarkvilli) kviknaði í apríl 2012 bendir til þess að almennt viti læknar engin deili á þessum sjúkleika og hafi flestir aldrei heyrt hann nefndan. Það stendur þá upp á sjúklinginn að afla sér upplýsinga. Ég vona að einhverjir hafi og gagn af upplýsingamiðlun minni á íslensku, með því fororði að ég er ekki læknismenntuð og því kann að vel að vera að eitthvað sé missagt í þessum færslum: Menn hafi þá það sem sannara reynist.

Skurðaðgerðir og aðrar aðgerðir í eða við þrenndarhnoða

Þetta er 4. færsla í færsluröð um þrenndartaugabólgu/vangahvot. Fyrri færslur eru, í tímaröð:

1. Þrenndartaugabólga eða vangahvot;
2. Lyfjameðferð við þrenndartaugabólgu;
3. Þrenndartaugin og inngrip gegn þrenndartaugabólgu

5. Þrenndartaugarverkur/vangahvot: Saga orðanna

 

og ein söguleg færsla, Konustráið hans Péturs og greifynjan af Norðimbralandi

Aðgerðir í eða við þrenndarhnoða

Aðgerðir í eða við þrenndarhnoða eru oftast kallaðar percutaneous procedures á ensku því percutaneous þýðir að stungið er gegnum húð.

Sporgat fleygbeinsÞessar aðgerðir eiga að það sammerkt að stungið er nál um vanga nálægt munnviki, gegnum sporgat fleygbeins (foramen ovale ossis sphenoidalis) og allt upp í þrenndarhol, þar sem þrenndarhnoðað er. Síðan er hnoðað skaðað. Sjúklingurinn er ýmist deyfður eða svæfður, í sumum tilvikum vakinn öðru hvoru meðan á aðgerð stendur. Stundum geta sjúklingar farið heim samdægurs, stundum dvelja þeir yfir nótt á spítala.

Myndin hér til hliðar er tekin úr Anthonty H Wheeler o.fl. (2015.) Therapeutic Injections for Pain Management. Medscape.

Á myndinni fyrir neðan sést kannski betur hvernig farið er að því að komast að þrenndarhnoðanu og skaða það. Hún er tekin úr A Review of Percutaneous Treatments for Trigeminal Neuralgia (3. mars 2014.) NEUROSURGERY BLOG. Neurosurgery Department. La Fe University Hospital. Valencia, Spain.

Þrenndartaugastungur

Aðferðir til að skaða þrenndarhnoðað eru ýmiss konar. Nefna má:

* Innsprautun eimaðs glýseríns í hnoðað (percutaneous retrogasserian glycerol rhizotomy, oft skammstafað PRGR eða bara GR): Sprautunál er stungið gegnum vanga upp í þrenndarhol og það fyllt af vatnsleysanlegu skuggaefni, síðan er tekin nákvæm röngtenmynd. Skuggaefnið er sogað aftur upp og glýseríninu sprautað á réttan stað meðan fylgst er með í skanna. Sjúklingurinn situr uppréttur í þessari aðgerð og þarf sitja kyrr í tvær klukkustundir meðan glýserínið etur sundur þann hluta taugarinnar eða þrenndarhnoðans sem á að eyðileggja.1 Minnkun sársauka verður hraðast vart sé þessari aðferð beitt.2

*Sköddun hnoðans með brennslu (radiofrequency rhizotomy er þessi aðgerð kölluð á ensku, oft skammstöfuð PRFT eða RFT): Stungið er gegnum vanga upp í þrenndarhol á sama hátt og lýst var hér að ofan en í þessari aðgerð eru rafsegulbylgjur notaðar til að brenna og skaða þann hluta þrenndarhnoðans sem þurfa þykir. Sams konar aðgerð með notkun línuhraðals í stað rafsegulbylgja þykir lofa góðu.

Af þeim aðgerðum sem gerð er með stungu gegnum húð er sköðun með rafsegulbylgjum talin skila minnstum árangri, þ.e.a.s. sársauki hverfur, að meðaltali, einungis í 3 ár.3

*Sköddun hnoðans með blöðru (Percutaneous balloon microcompression, PBM): Stungið er um vanga með sérstöku áhaldi í nálinni og allt upp í þrenndarhol. Síðan er blásin upp blaðra sem falin er í áhaldinu og hún látin falla að þeim hluta þrenndarhnoðans sem skaða á. Blaðran þrýstir stöðugt á þrenndarhnoðað og veldur á því skemmdum.3

Í löngu myndbandi sem krækt er í hér að neðan má sjá seinni tvær aðgerðirnar framkvæmdar og hlusta á spjall taugaskurðlækna um kosti og galla hvorrar um sig. Krækt er í myndbandið á YouTube en þar verður það einungis aðgengilegt tímabundið. Hægt verður að horfa á það áfram á vef Aaron Cohen-Gadol, The Neurosurgical Atlas, en til þess þarf að skrá sig inn á vefinn (sem er ókeypis). Hér er bein slóð á myndbandið þar.

Myndband sem sýnir sköddun þrenndarhnoða með brennslu og með blöðru, á YouTube.

Rannsóknir á þessum aðferðum hafa nær eingöngu mælt minnkun sársauka en ekki tekið til lífsgæða sjúklinga eftir aðgerð. Svo virðist sem allt að 90% þeirra losni strax við sársauka en það er skammgóður vermir því að 5 árum eftir aðgerð eru um 50% sjúklinga í sömu sporum og fyrir aðgerð. Þessar aðgerðir má þó endurtaka.

Af því allar miða þær að því að skaða þrenndarhnoðað eða aðalgreinar þrenndartaugar við þrenndarhnoða fylgja þeim óhjákvæmilega talsverðar aukaverkanir, aðallega tilfinningaleysi í andlitinu í misjöfnum mæli. Allt að 4% sjúklinga fá alvarlega aukaverkun sem kölluð er anesthesia dolorosa; hún lýsir sér þannig að hluti andlits verður algerlega dofinn en jafnframt fylgir mikill sársauki í dofna hlutanum. Ef aðgerðin miðar að því að skaða augntaugina getur hún haft í för með sér dofa á hornhimnu auga og hornhimnubólgu.4

Skurðaðgerðir

*Skurðaðgerð með Gamma-hníf (Gamma knife surgery, einnig nefnd stereotactic radio-surgery á ensku, oft skammstafað GKS):
Þetta er í rauninni ekki skurðaðgerð því ekkert er skorið í sjúklinginn heldur er svæði við heilastofn skaðað með geislun. Sjúklingar geta farið heim strax eftir aðgerðina eða samdægurs. Í gammahnífs-aðgerð er festur hjálmur eða grind á höfuð sjúklings sem nýtist bæði sem hnitakerfi og festing meðan geislað er. Gammageislum er beint að rót þrenndartaugar þar sem hún gengur úr heilbrú í aftari kúpugróf og ákv. hluti hennar eyðilagður. Geislun með gamma hníf er unnt að beina með mikilli nákvæmni.

Traustar rannsóknir á gagnsemi liggja ekki fyrir. Sjúklingar finna ekki strax bata heldur líða vikur eða mánuðir uns áhrif koma í ljós. Sama gildir um aukaverkanir, sem eru aðallega dofi í andlitshlutum. Þær eru því miður algengar; á bilinu 9-20% sjúklinga finna verulega fyrir aukaverkunum ári eftir aðgerðina. 5, 6

Gamma hnífur við vangahvot
Á myndinni hér að ofan sést sjúklingur á leið í gamma-hnífs aðgerð. Honum er síðan rennt inn í tæki sem beinir gammageislunum eftir hnitum í hjálmi á réttan stað. Myndin er tekin af  Trigeminal neuralgia & Acoustic neuroma. (e.d.) Rancan: Gamma Knife.

*Þrýstingsminnkun æða(r) (Microvascular decompression, skammstafað MVD, stundum kölluð Jannetta procedure) er meiri háttar skurðaaðgerð sem ólíkt hinum aðgerðunum sem upp hafa verið taldar miðar ekki að því að skaða þrenndartaugina. Þessi aðgerð skilar langbestum árangri, um 75% sjúklinga finna ekki fyrir neinum sársauka 5 árum eftir aðgerðina, að sögn, 7 og um helmingur þeirra sem skornir hafa verið upp eru einkennalausir í 12-15 ár.8

Þetta er smásjáraðgerð sem er þannig gerð að höfuðkúpan er opnuð með því að saga lítið gat (u.þ.b. 3 cm í ummál) í stikilsbein (aftari hluta gagnaugabeins aftan við eyra, pars mastoidea ossis temporalis). Heilabastið (dura mater, ysta himna heilans) er dregið frá svo þrenndartaugin blasir við og hægt er að sjá hvort æð eða æðaflækja þrýstir á taugina þar sem hún gengur úr heilabrú. Æðarnar eru ýmist slagæðar eða bláæðar og þrýstingur frá æð getur valdið því að mýli (taugaslíður) þrenndartaugar slitnar, sem er þá talið orsök sársaukans. Ef kemur í ljós að sú er raunin er trefjapúða úr tefloni komið fyrir milli taugar og æða(r).9 Smám saman mun taugin jafna sig, þ.e.a.s. nýtt mýli vex og sársaukinn hverfur. Gatinu á höfuðkúpunni er lokað með titanium-stykki.

Að sjálfsögðu er þessi aðgerð gerð í svæfingu og sjúklingur dvelur nokkra daga á sjúkrahúsi. Verkir vegna skurðsins sjálfs geta varað lengi.

MVD skurðaðgerð við vangahvot

Skurðsár eftir MVD-aðgerð

Að sögn fæst bestur bati með þessari aðgerð, þ.e. að meðaltali voru 73% sjúklinga einkennalausir í 5 ár. Eins og aðrar meiriháttar skurðaðgerðir getur þessi haft bana í för með sér. Dánartíðni af völdum hennar er áætluð 0,2-0,5%. Alvarlegar aukaverkanir geta verið blæðingar, leki heila-og mænuvökva, heilahimnubólga af völdum veira, meiriháttar sýkingar í kjölfar aðgerðar, varanlegt heyrnarleysi þeim megin sem aðgerðin var gerð (í um 4% tilvika) og tvísýni (að sjá tvöfalt) sem gengur til baka (í um 10% tilvika).10

Bent hefur verið á að rannsóknum á bata sem hlýst af þessari aðgerð sé talsvert ábótavant svo e.t.v. ætti að taka tölum um ágætan árangur með fyrirvara.11

Á upplýsingasíðu fyrir sjúklinga, microvascular decompression (mvd) (2.2013.) Mayfield Clinic & Spine Institute. Cinnciati, Ohio, má sjá aðgerðina útskýrða í huggulegum teiknuðum myndum.

En einnig eru til myndbönd af aðgerðinni, sem viðkvæmir ættu að sleppa því að horfa á. Hér er bent á tvö slík á YouTube:

Operacion del Trigemino (Perú) por Dr Mauro Segura (24. júní 2014.)

Þetta myndband er vandlega klippt og einkennilegur tónlistarsmekkur miðað við efni myndbandsins er áberandi. En hér má sjá hvernig aðgerðin er framkvæmd, frá upphafi til enda.

Right Trigeminal Neuralgia M V D unedited clip by Prof Aadil Chagla Transposition of the SCA loop (13. júní 2015.)

Þetta myndband er óklippt og sýnir hvernig mið-hjarnaslagæð (arteria cerebri media) er hnikað til svo hún liggi ekki ofan á þrenndartauginni og síðan hvernig teflon-púða er komið fyrir ofan á þrenndartauginni til að koma í veg fyrir að allt fari í sama far aftur. Myndbandið er frekar langt enda sýnir það þennan hluta aðgerðar á rauntíma.

Því hefur verið haldið fram til þessa að dæmigerð þrenndartaugabólga (TN1) stafi oftast (jafnvel í allt að 95% tilvika) af þrýstingi á þrenndartaug þar sem hún gengur úr heilabrú (heilastofni) eða þar í grennd. Ennfremur hefur því verið haldið fram að í flestum tilvikum sé þessi þrýstingur vegna æða(r) sem liggi þétt að tauginni og þrýsti á hana.12 Þetta hafa einmitt verið meginrökin fyrir að beita skurðaðgerðinni þrýstingsminnkun æða(r) (MVD).

En nú hefur komið á daginn að æða(r)skýringin er alls ekki eins afdráttarlaus og haldið hefur verið fram. Skv. nýrri danskri rannsókn kom í ljós að í einungis helmingi úrtaks sjúklinga sem Dansk Hovedpinecenter hafði greint með dæmigerða þrenndartaugabólgu sást æð þrýsta verulega á þrenndartaug þeim megin sem verkurinn var, í háþróuðu segulómtæki (MRI). Í sömu rannsókn kom og fram að mjög oft þrýsti æð á þrenndartaug þeim megin andlits sem var einkennalaus. Ályktunin sem dönsku fræðimennirnir draga af þessu er að æð sem þrýstir lítillega á þrenndartaug sé líklega líffræðilegt afbrigði sem hvorki valdi né segi fyrir um sjúkdóminn dæmigerða þrenndartaugabólgu nema í undantekningartilvikum.

Að vísu mátti stundum greina miklu þyngri þrýsting æðar (oftast slagæðar) þeim megin sem þrenndartaugabólgan var, í þeim helmingi sjúklinga þar sem æð sást þrýsta á þrenndartaugina.Og Danirnir telja að þegar svo háttar til muni skurðaðgerðin þrýstingsminnkun æðar örugglega bæta dæmigerða þrenndartaugabólgu mjög.

Gallinn er sá, að þeirra mati, að þótt æð sjáist á segulómmynd (MRI scan) þrýsta á þrenndartaug, sama hvar eða hvers konar æð það er, sé ekki hægt að nota slíkt sem sjúkdómsgreiningartæki fyrir dæmigerðar þrenndartaugabólgu. Segulómmynd getur einungis komið að gagni til að útiloka þrenndartaugabólgu 2 (symtomatic trigemingal neuralgia).13

Þessi niðurstaða Dananna kann að skýra að í stöku tilvikum er gert taugarúrnám (neurectomy) í svona skurðgerð ef kemur í ljós að engin æð þrýsti á þrenndartaugina. Úrnámið er gert nálægt heilastofni og veldur meira og langvarandi (jafnvel eilífu) tilfinningaleysi í andliti en taugarúrnám úr taugagrein þrenndartaugar (sjá um jaðaraðgerðir í síðast í færslunni Þrenndartaugin og inngrip við þrenndartaugabólgu).14

Að lokum er rétt að geta þess að skurðaðgerðir á borð við þrýstingsminnkun æða(r) (MVD) er talin gagnast helst þeim sjúklingum með dæmigerða þrenndartaugabólgu sem fá sársaukaköst með hléum á milli en eru ekki haldnir stöðugan sársauka. Sömuleiðis gagnast hún betur þeim sem eru með skýr einkenni frá aðalgreinum þrenndartaugar en ekki dreifðan sársauka um andlitið.15

Yfirleitt er talið að skurðlækning (MVD eða þverskurður taugarótar) gagnist ekki sjúklingum með þrenndartaugabólgu 2 (TN2).16


 

Ég reikna með að skrifa eina færslu enn um þrenndartaugabólgu. Sú færsla verður um orð og orðanotkun um sjúkdóminn á íslensku og ensku í sögulegu samhengi. Þrenndartaugabólga, sem ég hef notað í þessum færslum, er t.d. ekki gott orð því engin er bólgan, fremur en í vöðvabólgu.


 

Heimildir sem vísað er til

1 Burchiel, K. J. o.fl. (2014). Trigeminal Neuralgia Surgery: Overview, Preparation, Technique. Medscape.

2 Zakrzewska, Joanna M. og Roddy McMillan. (2011). Trigeminal neuralgia: the diagnosis and management of this excruciating and poorly understood facial pain. Postgraduate Medical Journal, 87, s. 410-416. Aðgengilegt á vef.

3 Burchiel, K. J. o.fl. (2014). Trigeminal Neuralgia Surgery: Overview, Preparation, Technique. Medscape.

4 Zakrzewska, Joanna M. og Roddy McMillan. (2011). Trigeminal neuralgia: the diagnosis and management of this excruciating and poorly understood facial pain. Postgraduate Medical Journal, 87, s. 410-416. Aðgengilegt á vef.

5 Burchiel, K. J. o.fl. (2014). Trigeminal Neuralgia Surgery: Overview, Preparation, Technique. Medscape.

6 Zakrzewska, Joanna M. og Roddy McMillan. (2011). Trigeminal neuralgia: the diagnosis and management of this excruciating and poorly understood facial pain. Postgraduate Medical Journal, 87, s. 410-416. Aðgengilegt á vef.

7  Zakrzewska, Joanna M. og Roddy McMillan. (2011). Trigeminal neuralgia: the diagnosis and management of this excruciating and poorly understood facial pain. Postgraduate Medical Journal, 87, s. 410-416. Aðgengilegt á vef.

8 Trigeminal Neuralgia Fact Sheet. (2013). National Institute of Neurological Disorders and Stroke, NIH bæklingur nr. 13-5116. Síðast uppfærður á vef 27. júlí 2015.

9 Burchiel, K. J. o.fl. (2014). Trigeminal Neuralgia Surgery: Overview, Preparation, Technique. Medscape.

10 Zakrzewska, Joanna M. og Roddy McMillan. (2011). Trigeminal neuralgia: the diagnosis and management of this excruciating and poorly understood facial pain. Postgraduate Medical Journal, 87, s. 410-416. Aðgengilegt á vef.

11. Zakrzewska JM, og Lopez BC. (2003.) Quality of reporting in evaluations of surgical treatment of trigeminal neuralgia: recommendations for future reports. Neurosurgery 53, s. 110-20. Aðgengilegt á vef TNA í Bretlandi.
og
Akram H o.fl. (2013.) Proposal for evaluating the quality of reports of surgical interventions in the treatment of trigeminal neuralgia: the Surgical Trigeminal Neuralgia Score. Neurosurgical Focus. Journal of Neurosurgery 35(3), s. 1-9. Aðgengilegt á vef.

12 Causes of trigeminal neuralgia. (2014.) NHS choices. NHS.uk.

13 Maarbjerg, Stine o.fl. (2015.) Significance of neurovascular contact in classical trigeminal neuralgia. Brain: A Journal of Neurology 138(2), s. 311-319. Aðgengilegt á vef

14 Trigeminal Neuralgia Fact Sheet. (2013.) National Institute of Neurological Disorders and Stroke, NIH bæklingur nr. 13-5116. Síðast uppfærður á vef 27. júlí 2015.

15 Burchiel, K. J. o.fl. (2014.) Trigeminal Neuralgia Surgery: Overview, Preparation, Technique. Medscape.

16 Trigeminal Neuralgia Fact Sheet. (2013.) National Institute of Neurological Disorders and Stroke, NIH bæklingur nr. 13-5116. Síðast uppfærður á vef 27. júlí 2015.

Þrenndartaugin og inngrip gegn þrenndartaugabólgu

Þetta er þriðja færsla í færsluflokki um þrenndartaugarverk (sem ranglega er kallaður þrenndartaugabólga í færslunum). Hinar eru, í tímaröð:
1. Þrenndartaugabólga eða vangahvot
2. Lyfjameðferð við þrenndartaugabólgu
4. Skurðaðgerðir og aðrar aðgerðir í eða við þrenndarhnoða
5. Þrenndartaugaverkur/vangahvot: Saga orðanna.

Áður en gerð er grein fyrir inngripum við þrenndartaugabólgu er rétt að fara nokkrum orðum um þrenndartaugina (nervus trigeminus) og mismunandi hluta hennar. Íslensk heiti hér og í annarri umfjöllun um þrenndartaugabólgu á þessu bloggi eru ýmist fengin úr Orðabanka Íslenskrar málstöðvar eða úr Nomina Anatomica: Líffæraheiti. (1996). Ritstjóri Magnús Snædal. Reykjavík: Heimskringla Háskólaforlag Máls og menningar.

Heilastofn

Hlutar heilastofns

Þrenndartaugin er stærst heilatauga (nervi craniales, þ.e. þeirra tauga sem tengjast heila eða heilastofni). Hvoru megin höfuðs gengur þrenndartaugin úr miðri heilabrú og greinist í þar í tvennt; Hreyfirót (radix motoria) og skynrót (radix sensoria). Hreyfirótin tengist gagnaugavöðva (Musculus temporalis); miðlægum vængklakksvöðva (musculus pterygoideus medialis) sem er vöðvi hliðlægt á höfði og hreyfir liðamót neðri kjálka, lyftir kjálka og hreyfir til hliðar; spennivöðva hljóðhimnu (Musculus tensor tympani); spennivöðva gómtjalds/holdgóms (Musculus tensor veli palatini); jaxla- og málbeinsvöðva (Musculus mylohyoideus) og fremri búk tvíbúkavöðva (musculus digastricus) en hann er vöðvi í hálsi ofan málbeins sem dregur neðri kjálka niður, lyftir málbeini og dregur það aftur. Í hreyfirótinni eru einnig aðfærslutaugaþræðir sem einkum miðla sársaukatilfinningu.1

Þótt þrenndartaugin gangi út úr heilabrú dreifist hún um allan heilastofninn því inni í honum eru þrír þrenndartaugakjarnar, hver í sínum hluta heilastofns, þ.e.a.s. miðheilabrautarkjarni (Nucleus tractus mesencephalici nervi trigemini), mænukjarni (Nucleus spinalis nervi trigemini) og brúarkjarni (Nucleus pontinus nervi trigemini). Kjarnar gegna svipuðu hlutverki og taugahnoðu sem ber á góma hér á eftir en ég hef hvergi séð minnst á að þeir gætu skipt máli í þrenndartaugabólgu. Mér dettur þó í hug að mögulegt sé að rekja ástæður verkja til þrýstings á þrenndartaugakjarna í þeim sárasjaldgæfu tilvikum sem æxli í heilastofni er talin orsök verkja frá þrenndartaug.

Skynrót þrenndartaugarinnar er stærri en hreyfirótin og áhugi þrenndartaugasjúklinga beinist líklega meir að henni.

Báðar ræturnar liggja í þrenndarhnoða (ganglion trigeminale, ganglion semilunare (Gasseri)). Þrenndarhnoðað er skyntaugahnoða, þ.e.a.s. „svæði í útttaugakerfinu þar sem taugabolir og stundum stuttir taugaþræðir liggja þétt saman.“2 Þrenndarhnoðað er sem sagt milliliður milli útttaugakerfis (kvísla þrenndartaugarinnar) og heilans.

Þrenndarhnoðað (ganglion trigeminale, ganglion semilunare (Gasseri)) er í þrenndarholi (cavitas trigeminalis/cavum trigeminale) í kletthluta gagnaugabeins (pars petrosa ossis temporalis) í miðkúpugróf (fossa cranii media). Þrenndarhnoðað samanstendur af aðfærslutaugaþráðum sem flytja boð um sársauka, hitastig og snertingu.  Úr því ganga aðaltaugarnar þrjár, sem tilheyra úttaugakerfinu, þ.e.a.s. augntaugin, kinnkjálkataugin og kjálkataugin. Augntaugin gengur úr höfuðkúpunni um efri augntóttarglufu (fissura orbitalis superior), kinnkjálkataugin um hringgat (foramen rotundum) og kjálkataugin um sporgat fleygbeins (foramen ovale ossis sphenoidalis). Augntaugin og kinnkjálkataugin eru eingöngu skyntaugar en kjálkataugin gegnir bæði hlutverki skynjunar og hreyfingar. Ég reikna með að það sé þess vegna sem skaði á kjálkataug getur valdið máttleysi og rýrnun tyggingarvöðva, auk sársaukans, s.s. minnst var á í fyrstu færslu um þrenndartaugabólgu.

Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig þrenndartaugin liggur (nema lítið er sýnt af augntauginni) og helstu taugar/greinar sem kvíslast úr aðaltaugunum þremur.3

þrenndartaug

Greinar og kvíslar þrenndartaugar

Í síðustu færslu fjallaði ég um helstu lyfjategundir sem þrenndartaugabólgusjúklingum eru gefnar. Hér verður fjallað um önnur inngrip, að undanskilinni deyfingu hjá tannlækni (með lidokaini) sem getur stöðvað sársaukann umsvifalaust en endist því miður stutt.4

Inngrip og skurðaðgerð

Í grófum dráttum má skipta þessum inngripum í þrennt eftir því að hvaða svæði þrenndartaugar þau beinast. Allar aðgerðir nema skurðaðgerðin sem fjallað verður um síðar beinast að því að eyðileggja eða skaða hluta þrenndartaugar.

1. Jaðaraðgerðir eru aðgerðir sem eru gerðar fjarri þrenndarhnoða, oft á einhverjum meintum „ræsipunktum“/„kveikjupunktum“ (trigger points) þaðan sem sársaukinn kann að kvikna.
2. Aðgerðir í eða við þrenndarhnoða.
3. Skurðaðgerð gegnum aftari kúpugróf (fossa cranii posterior).

Í þessari bloggfærslu verður einungis fjallað um jaðaraðgerðir, hinar tegundirnar bíða næstu færslu.

 

Jaðaraðgerðir

Þessar aðgerðir eru af ýmsu tæi en hér er gerð grein fyrir þeim helstu.

Frystimeðferð (cryotherapy) er meðferð sem sumir kannast við til að losna við vörtur. Sé henni beitt við þrenndartaugabólgu þá er reynt að finna kveikjupunkt (trigger point) með áreiti, síðan farið um munn eða stungið gegnum húð með sérstöku tæki að tauginni, taugin fryst í -120 gráður í 2 mínútur, leyft að þiðna í 5 mín. og þetta endurtekið tvisvar í viðbót.5

Hitameðferð (thermocoagulation) er andstæð frystimeðferð því þá er reynt að skaða taugarbút með rafmagnstæki sem hitar taugina við kveikjupunkt (trigger point) upp í 60-70° í tvær mínútur. Þetta er endurtekið ef þurfa þarf, þ.e.a.s. ef tilfinningaleysi/dofi finnst ekki strax.6

Bæði frystimeðferð og hitameðferð eru oftast gerðar í staðdeyfingu.

Þverskurður taugarótar með hitameðferð (Percutaneuous Stereotactic Rhizotomy) er gerð þannig að holri nál með rafskauti og leiðslu er stungið gegnum vanga að tauginni sem á að skaða, við við kúpubotn. Hitastraumur er leiddur um rafskautið og hluti taugar eyðilagður.7

Innsprautun efna í kveikjupunkta (trigger punkta), s.s. alkóhóli, karbólsýru (fenól) og streptomycin (gömlu fúkkalyfi sem fundið var upp við berklum).

Þrenndartaugabólga - sprauta

Innsprautun streptomycin og likódain í kveikjupunkt við þrenndartaugabólgu

Hér að ofan sést Streptomycin- og lidokain-lausn sprautað í neðri tanngarðstaug.8

Taugarúrnám (neurectomy) er þegar hluti taugar er skorinn brott. Á myndinni hér að neðan er verið að undirbúa úrnám úr hökutaug (sem gengur úr kjálkataug þrenndartaugar).9

þrenndartaugabólga úrnám

Úrnám hökutaugar undirbúið

Taugarúrnám þykir heldur gamaldags núna en er þó stöku sinnum beitt.10

Á þeim jaðaraðgerðum sem taldar hafa verið hafa einungis tvær rannsóknir verið gerðar sem standast mál (þ.e. slemiraðaðar, tvíblindar, fastskammta samanburðarrannsóknir við lyfleysu), báðar á innsprautun með streptomycini. Þær sýndu fram á gagnsleysi streptomycins við þrenndartaugabólgu. Fyrir hinum aðferðunum hafa ekki verið færð gagnreynd vísindaleg rök sem styðja notkun þeirra.11

Sumar aðferðirnar hafa þó skilað árangri skv. annars konar rannsóknum. Að meðaltali er árangur af jaðaraðgerðum talinn um 50% minnkun sársauka í u.þ.b. 10 mánuði eftir aðgerð. Helstu slæmar aukaverkanir þeirra geta verið missir tilfinninganæmis, margúlar (blóðgúlar) og sýkingar.12

Undir jaðaraðgerðir fellur líka ýmislegt sem einnig mætti telja til óhefðbundinna læknisráða við þrenndartaugabólgu. Þar er átt við nálastungumeðferð, leisimeðferð (með „köldum leisi“) og innsprautun efna annars staðar en í námunda við þrenndartaug, s.s. sterasprautur og bótox.

þrenndartaugabólga leisir

Kaldur leisir

Á myndinni hér að ofan sést meðferð með köldum leisi. Leisinum er beint að sama stað við kúpubotn og þar sem skurðaðgerð við þrenndartaugabólgu hefst.13

Ég hef fátæklega reynslu af þessum jaðaraðgerðum, þ.e.a.s. reynt hefur verið að sprauta sterum og deyfiefni í hnakkagróf, í höfuð aftan við eyru og við kúpubotn, þar sem þótti líklegt að finna mætti kveikjupunkta þess verks sem mig hrjáir. Því miður var árangurinn enginn. Mér er kunnugt um sjúkling sem fær bótox-sprautur í háls og herðar, til að minnka áreiti á andlitið, en hef ekki haft spurnir af því að bótoxi sé beinlínis sprautað í kveikjupunkta við þrenndartaugagreinarnar sjálfar.

Loks læt ég þess getið að í Facebook hópi þrenndartaugasjúklinga sem ég er í, Trigeminal Neuralgia Family, kemur fram að sumum sjúklingum erlendis er ávísað plástrum með ýmsum efnum, t.d. morfíni, til að setja á andlitið. Yfirleitt telja þessir sjúklingar lítið gagn af svoleiðis plástrum en þó mögulega eitthvert.

 

Í næstu færslu geri ég grein fyrir aðgerðum í eða við þrenndarhnoða og skurðaðgerð gegnum aftari kúpugróf (Microvascular decompression, MVD).

 

Tilvísanir í heimildir

1 Burchiel, K. J. o.fl. (2014). Trigeminal Neuralgia Surgery: Overview, Preparation, Technique. Medscape.

2 Þuríður Þorbjarnardóttir. (2014). „Hvað er taugahnoða?“ Vísindavefurinn.

3 Þetta er mynd 1 í Burchiel, K. J. o.fl. (2014). Trigeminal Neuralgia Sugery: Overview, Preparation, Technique. Medscape. Ég hef sett inn íslensk heiti í stað þeirra ensku.

4 Zakrzewska, Joanna M. og Roddy McMillan. (2011). Trigeminal neuralgia: the diagnosis and management of this excruciating and poorly understood facial pain. Postgraduate Medical Journal, 87, s. 410-416. Aðgengilegt á vef.

5 Sjá má lýsingu á þessari aðferð í gamalli grein Zakrzewska, Joanna M. (1987). Cryotherapy in the management of paroxysmal trigeminal neuralgia. Journal of Neurology, Neurosurgery & Psychiatry, 50(4), s. 485–487. Aðgengilegt á vef.

6 Sjá lýsingu í Wael Fouad. (2011). Management of trigeminal neuralgia by radiofrequency thermocoagulation. Alexandria Journal of Medicine, 47(1), s. 79-86. Aðgengilegt á vef.

7 Trigeminal Neuralgia or Prosopalgia or Fothergill’s Disease: Causes, Treatment- Surgery. (e.d.). ePainAssist.com.

8 Myndin er tekin úr Shefali Waghray o.fl. (2013). Streptomycin-lidocaine injections for the treatment of postherpetic neuralgia: Report of three cases with literature review. European Journal of Dentistry, 7(5), s. 105-110. Aðgengilegt á vef.

9 Fleiri myndir af taugarúrnámi og umfjöllun um þá aðferð má sjá í greininni sem þessi var tekin úr: Fareedi Mukram Ali o.fl. (2012). Peripheral neurectomies: A treatment option for trigeminal neuralgia in rural practice. Journal of Neurosciences in Rural Practice, 3(2), s. 152-157. Aðgengilegt á vef.

10 Trigeminal Neuralgia or Prosopalgia or Fothergill’s Disease: Causes, Treatment- Surgery. (e.d.). ePainAssist.com.

11 Zakrzewska, Joanna M. og Roddy McMillan. (2011). Trigeminal neuralgia: the diagnosis and management of this excruciating and poorly understood facial pain. Postgraduate Medical Journal, 87, s. 410-416. Aðgengilegt á vef. Í þessum tveimur fámennu rannsóknum var kannað hvort streptomycin+lidokain minnkaði sársauka meir en lidokain eitt og sér. Svo reyndist ekki vera.

12 Zakrzewska, Joanna M. og Roddy McMillan. (2011). Trigeminal neuralgia: the diagnosis and management of this excruciating and poorly understood facial pain. Postgraduate Medical Journal, 87, s. 410-416. Aðgengilegt á vef.

13 Myndin sýnir hvernig köldum leisi er beint að sama stað og þar sem upphaf skurðaðgerðar við þrenndartaugabólgu er. Myndin er tekin úr Vernon, Leonard F. o.fl. (2008. Uppfært á vef 2014.). Low-level Laser Therapy for Trigeminal Neuralgia:Case reports on two patients whose unrelenting facial pain and hypersensitivity from their diagnosed trigeminal neuralgia resolved with low-level laser therapy. Practical Pain Management, 8(6). Aðgengilegt á vef.

 

 

Þrenndartaugabólga eða vangahvot

Þetta er fyrsta færsla í færsluröð um þrenndartaugarverk (sem ranglega er kallaður þrenndartaugabólga í færslunum). Hinar eru, í tímaröð:

2. Lyfjameðferð við þrenndartaugabólgu;
3. Þrenndartaugin og inngrip gegn þrenndartaugabólgu
4. Skurðaðgerðir og aðrar aðgerðir í eða við þrenndarhnoða
5. Þrenndartaugaverkur/vangahvot: Saga orðanna.

Þrenndartaugabólga (sem einnig er kölluð vangahvot á íslensku, Trigeminal neuralgia er algengasta sjúkdómsheitið á ensku) er viðvarandi (krónískur) sársauki í 5. andlitstauginni, svokallaðri þrenndartaug/þríburataug.1 Nafnið er dregið af því að þessi taug greinist í þrennt í hvorum helmingi andlitsins, s.s. sjá má á myndinni:

Þrenndartaug

Þrenndartaugin (nervus trigeminus) er skyntaug sem tengist heilanum en liggur um andlitið. Efsta greinin, augntaug (nervus ophthalmicus), stjórnar skynjun í höfuðleðri, enni og framhluta höfuðs. Miðgreinin, kinnkjálkataug (nervus maxillaris), stjórnar skynjun í kinn, efri kjálka, efri vör, efri tanngarði og efri gómi, ásamt hálfu nefinu. Neðsta greinin, kjálkataug (nervus mandibularis) stjórnar skynjun í neðri kjálka, neðri tanngarði, neðri gómi og neðri vör.1

 

 

Dæmigerð/klassísk þrenndartaugabólga (oft skammstöfuð TN1 á ensku) veldur ofboðslegum sársaukastingjum í andlitinu, sem oft minna á raflost eða bruna. Stingirnir geta varað frá nokkrum sekúndum upp í tvær mínútur og þeir geta komið hver á fætur öðrum í allt að tvær klukkustundir samfleytt. Mislangt hlé gefst milli sársaukakastanna.1 Sársaukinn getur verið það gífurlegur að þessi gerð þrenndartaugabólgu ku hafa verið kölluð „sjálfsvígssjúkdómurinn“. 2

Tal, tygging, tannburstun, rakstur eða kaldur vindur í andlit geta útleyst verkjakast. Þó að hvert kast vari aðeins í sekúndur getur verkurinn endurtekið sig með svo stuttu millibili að köstin renni saman í eitt. Eftir mörg köst getur sjúklingur upplifað viðvarandi andlitsverk.3

Nánari lýsingu á sársaukaköstum dæmigerðrar þrenndartaugabólgu má finna í tveimur stuttum íslenskum greinum sem tengjast umfjöllun um vefjagigt. 4,5

Yfirleitt er dæmigerð þrenndartaugabólga talin stafa af skaða á mýli/taugaslíðri utan um taugina. Oftast er sá skaði talinn stafa af æð sem þrýsti stöðugt á taugina.6 Í undantekningartilvikum má rekja dæmigerða þrenndartaugabólgu til æxlis.1

 

Þrenndartaugabólga 2 (oft skammstöfuð TN2 á ensku, stundum kölluð ódæmigerð þrenndartaugabólga, þ.e. Atypical trigeminal neuralgia) veldur sleitulausum verk, þ.e. án nokkurs hlés, af svipuðu tæi og lýst var að ofan en ekki eins ofboðslegum og verkjaköstin sem einkenna klassíska þrenndartaugabólgu.1 Sumir mæla gegn því að nota heitið ódæmigerð þrenndartaugabólga með þeim rökum að sú sjúkdómsgreining sé gjarna notuð sem ruslakistugreining fyrir alls konar andlitsverki sem hafa ekkert með þrenndartaugina að gera.6

Yfirleitt verður þrenndartaugabólgu vart öðrum megin í andlitinu en þó eru sjaldgæf dæmi þess að fólk þjáist af sjúkdómnum beggja vegna. Slíkt gæti verið vísbending um heila- og mænusigg.3 Einnig eru dæmi þess að fólk sé haldið hvoru tveggju dæmigerðri þrenndartaugabólgu og þrenndartaugabólgu 2 í senn.1

 

Á síðari árum hafa menn viljað flokka þrenndartaugabólgu í fleiri undirflokka og er þá helst nefnt, auk TN1 og TN2:

Afleidd þrenndartaugabólga (Secondary Trigeminal Neuralgia, skst. STN) lýsir sér alveg eins og hinar tegundirnar en má tengja við að sjúklingurinn sé haldinn heila- og mænusiggi (multiple sclerosis).6

Einnig hefur verið bent á að þrenndartaugabólga geti verið fylgifiskur vefjagigtar en óljóst er hvernig þeim tengslum ætti að vera háttað.4, 5

Þrenndartaugabólga eftir áblásturssótt (Post-Herpetic neuralgia, skst. PHN) er eftirköst eftir ristil (herpes zoster) við þrenndartaugina.6

Þrenndartaugabólga sem stafar af starfrænni truflun (Trigeminal Neuropathic Pain, skst. TNP) er þegar rekja má kvillann til einhvers konar óviljandi skaða á tauginni. Sá skaði getur verið áverki á andliti, af munnskurðlækningum eða skurðaðgerðum sem tengjast háls-nef og eyrnalækningum, skaði á tauginni vegna skurðaðgerða í aftari kúpugróf (fossa cranii posterior) eða annars staðar neðst í höfuðkúpu, af heilablóðfalli o.fl. Sársaukinn er sagður draga úr sjúklingnum mátt, vera brennandi eða eins og borað sé í auma svæðið. Verkurinn er oftast sleitulaus vegna þess að sköðuð taugin sendir stöðugt verkjaboð til heilans. Skaðinn getur líka gert taugina ofurnæma fyrir áreiti svo svipuð sársaukaköst geta fylgt þessari gerð þrenndartaugabólgu eins og dæmigerðri þrenndartaugabólgu, sársaukinn blossar þá venjulega upp á sama stað og áreitið verður. Tilfinningaleysi og náladofi benda einnig til skaddaðrar taugar.6

Þessi gerð af þrenndartaugabólgu er hins vegar sögð heita secondary trigeminal neuralgia [sjá um afleidda þrenndartaugabólgu hér að ofan] í nýlegri íslenskri kennslubók handa lækna- eða lyfjafræðinemum. Þar segir einnig að sé „vangahvot orsökuð af ytri skaða á þrenndartauginni […] geta verið teikn um skynbrottfall á svæði hennar og jafnvel máttleysi og rýrnun tyggingarvöðva“.3

Þrenndartaugabólga eftir aðgerð á miðtaugakerfi (Trigeminal Deafferentation Pain, skst. TDP) eru verkir í andliti sem tengjast tilfinningaleysi í þrenndartaug eftir skurðaðgerð við þrenndartaugabólgu. Þessar skurðaðgerðir miða allar að því að skaða þrenndartaugina til lækninga og má aðallega nefna taugarúrnám, þ.e. brottnám hluta taugar (neurectomy), eyðileggingu taugahnoða (gangliolysis), þverskurð taugarótar (rhizotomy), þverskurð taugabrautar utan mænukylfu (nucleotomy) og brautarskurð, þ.e. þverskurð taugabrautar í mænukylfu (tractotomy). Þrátt fyrir að allar þessar aðgerðir miði að því að eyða tilfinningu/skynjun í þrenndartauginni getur fylgt í kjölfarið stöðugur sársauki í dofnum andlitshlutum, t.d. brennandi, ertandi eða nístandi sársauki.6

Loks mætti nefna að til er flokkurinn Ódæmigerðir andlitsverkir (Atypical Facial Pain (AFP), sem eru verkir í andliti án þess að orsök finnist fyrir þeim. Eitthvað af því sem fellur í þá ruslakistu gæti verið birtingarmynd þrenndartaugabólgu.

 

Algengi

Tölum um algengi þrenndartaugabólgu ber ekki alveg saman í heimildum en ljóst er að þetta er sjaldgæfur sjúkdómur. Oftast er talað um að u.þ.b. 0,005-0,01% fólks þjáist af þrenndartaugabólgu en óvíst hvort þá er eingöngu verið að tala um dæmigerða þrenndartaugabólgu eða öll afbrigði hennar.1,2,6,7 Hæsta tala sem ég fann kom fram í breskri rannsókn sem sýndi 0,026% algengi þrenndartaugabólgu meðal sjúklinga á breskum heilsugæslustöðvum.8 En bent hefur á að í þeirri rannsókn hafi e.t.v. óvart verið taldir með sjúklingar með andlitsverki af öðrum toga.9

Heimildum ber saman um að þrenndartaugabólga komi yfirleitt ekki fram fyrr en eftir fimmtugt og að hún sé algengari meðal kvenna en karla. Ég leyfi mér að setja fram þá fullyrðingu að þess vegna sé þetta sennilega vangreindur sjúkdómur og algengari en haldið er fram í heimildum sem vísað var í hér að ofan.

 

Heimildir

Trigeminal Neuralgia Fact Sheet. (2013). National Institute of Neurological Disorders and Stroke, NIH bæklingur nr. 13-5116. Síðast uppfærður á vef 27. júlí 2015. Skoðað 4. sept. 2015.

2 Trigeminal neuralgia. Wikipedia. Skoðað 4. september 2015.

3 Ari J. Jóhannesson o.fl. (2015). Handbók í lyflæknisfræði. 4. útg., s. 363-4. Reykjavík:Háskólaútgáfan og Landspítali Háskólasjúkrahús.

4 Sigrún Baldursdóttir. (2010). Andlits- og kjálkaverkir (Orofacial Pains) – II. Hluti Vangahvot -Trigeminal neuralgia Gigtin 21(1), s. 15-16. Reykjavík:Gigtarfélag Íslands. Aðgengilegt á vef.

5 Sigrún Baldursdóttir. (e.d.) Trigeminal neuralgia. Andlits- og kjálkaverkir Andlits- og kjálkaverkir (Orofacial Pains) – II. Hluti. Vefjagigt. Fræðsluvefur um vefjagigt og síþreytu. Skoðað 9. sept.2015.

6 Classifications of Neuropathic Facial Pain. (e.d.) TNA – The Facial Pain Association. Skoðað 9. sept. 2015.

7  Trigeminal Neuralgia. (2014). NORD:National Organization for Rare Disorders. Skoðað 9. sept. 2015.

8 Kenny, Tim og Colin Tidy. Who gets trigeminal neuralgia (TN)? (2014). Patient. Skoðað 9. sept. 2015.

9 Hall, Gillian C. o.fl. (2006). Epidemiology and treatment of neuropathic pain: The UK primary care perspective. Pain 122(1-2), s. 156-162. Aðgengilegt á vef. Skoðað 8. sept. 2015.

10 Zakrzewska, Joanna M. (2010). Facial Pain. Í C. Stannard, E. Kalso og J. Ballantyne (ritstjórar), Evidence-Based Chronic Pain Management, bls.134-150. Oxford:Wiley-Blackwell.