Tag Archives: Suðurnesjamenn

Vísindaleg rannsókn á þunglyndi karla

Í þessari færslu er rakið hvernig aðferðafræði getur borið vísindamenn ofurliði svo ómældum tíma, fé og fyrirhöfn er eytt í verk sem varla er fyrirhafnarinnar virði.

Gagnrýni á rannsóknir á sviði hugvísinda, félagsvísinda, ekki hvað síst kynjafræði, eða menntavísinda byggist oftar en ekki á því að úrtakið sem niðurstöðurnar eru byggðar á sé alltof lítið til að draga megi af því ályktanir sem eru einhvers virði eða að verið sé að klæða augljós sannindi í fræðilegan búning. Gjarna er bent á rannsóknir á sviði raunvísinda til hliðsjónar og því haldið fram að þar séu sko stunduð betri vinnubrögð (sem þá eru kölluð „vísindaleg vinnubrögð“).

Fyrir nokkru birtust fréttir af íslenskum lyfjafræðingi, Bjarna Sigurðssyni, sem hefði, ásamt samstarfsmönnum, þróað nýja aðferð til að greina þunglyndi karla (RÚV 10. 6. 2014). Í fréttinni segir að Bjarni og félagar hafi fylgt hugmyndum sínum eftir með rannsókn á Suðurnesjum:

Fimmhundruð þrjátíu og fjórir karlar, af 2000 manna úrtaki, tóku þátt í henni. …
Mæld voru hormónin cortisol og testosterone hjá körlunum. Hormónin tengjast hvatvísi og örlyndi sem ekki eru dæmigerð þunglyndiseinkenni. „Niðurstöðurnar eru þær að við sjáum það að þeir sem eru með þunglyndi eru líklegri til að vera með hækkað cortisole og testosteron á kvöldin. Þetta eru hormón sem eru svona frá náttúrunnar hendi eru svona frekar virkjandi og þau eiga að vera mjög lág á kvöldin.“
(RÚV 10. 6. 2014.)

Ennfremur kemur fram í fréttinni að tvær greinar hafa verið birtar um niðurstöðurnar í vísindatímaritinu Nordic Journal of Psychiatry.

Mér tókst einungis að komast yfir aðra greinina, Saliva cortisol and male depressive syndrome in a community study. The Sudurnesjamenn study, sem birtist í þessu tímariti árið 2013. Þessi grein var afar áhugaverð fyrir margra hluta sakir og verður byrjað að fjalla um hana í þessari færslu.

Hin greinin heitir Saliva testosterone and cortisol in male depressive syndrome, a community study: The Sudurnesjamenn Study, og birtist 2014.

Höfundar beggja greinanna eru lyfjafræðingurinn Bjarni Sigurðsson, lyflæknirinn Magnús Jóhannsson, geðlæknarnir Sigurður Páll Pálsson og Ólafur Ævarsson og María Ólafsdóttir heimilislæknir.

Hvorug greinin hefur vakið sérstaka athygli í vísindaheimum enn sem komið er því einungis einn vísindamaður hefur vitnað í greinina frá 2014 og eina tilvitnunin í greinina sem ég las er hjá höfundunum sjálfum sem vitna í hana í seinni greininni sinni. Tilvitnanir eru góður mælikvarði á hvort grein/rannsókn teljist einhvers virði og því tek ég þetta fram. Raunar reikna ég með að efnislega séu þessar greinar náskyldar en oft er ástæðan fyrir að efni er margbirt með smávegis tilbrigðum í ritrýndu(m) tímariti/tímaritum sú að þá fá höfundarnir margfalt fleiri punkta fyrir greinaskrif í slík tímarit, sem skiptir miklu máli þegar frammistaða í starfi eða námi er metin.

Tíu litlir negrastrákar

… en eftir urðu níu /… og þá voru eftir átta. O.s.fr.

Hvernig urðu fimmhundruð þrjátíu og fjórir karlar að sjö körlum?

Hér verður gerð grein fyrir hvernig rúmlega 2.500 karla slembiúrtak verður að 534 körlum í rannsókn, sem síðan urðu að 134 körlum í rannsókn sem loks urðu 38 karlar í undirrrannsókn sem endaði með því að ályktanir voru dregnar af svörun 7 karla í undirrannsókninni sem er aðalefni greinarinnar.

Rannsóknin á Suðurnesjamönnum hófst laust eftir áramót 2004. Upphaflega var tekið slembiúrtak úr þjóðskrá 2003 þar sem þess var gætt að úrtakið endurspeglaði aldursdreifingu karla á aldrinum 18-80 ára á svæðinu. Það reyndust 2.512 karlar. Síðan voru dregnir frá dánir, brottfluttir, fjarverandi, útlendingar o.fl. og þá endað í 2.148 körlum.

Þessum 2.148 körlum var sent bréf með beiðni um þátttöku í rannsókn. Bréfinu fylgdu spurningalistar, þ.e. Beck þunglyndismælirinn og annar mælingarlisti, GMDS (Gotland Male Depression Scale), sem menn voru beðnir að fylla út. Upphaflegur tilgangur rannsóknarinnar var nefnilega að kanna hversu góð fylgni væri milli niðurstaðna þessara spurningalista/mælistika og niðurstaðna geðlæknisviðtala þar sem geðlæknar byggðu á DSM-IV (greiningarlykli Amerísku geðlæknasamtakanna) í karlahópi.

Þrátt fyrir tvær skriflegar ítrekanir bárust einungis svör frá fjórðungi þeirra sem fengu bréfin. Það voru fimmhundruð þrjátíu og fjórir karlar. (Raunar mætti í þessu sambandi velta fyrir sér hvort þeir þunglyndustu séu ekki einmitt líklegir til að sleppa því að svara og það vekur efasemdir um að sá hluti úrtaksins sem náðist í hafi verið besti hópurinn til að rannsaka … en látum svo vera.)

Sextíu og fimm þessara karla sýndu einhver merki um þunglyndi, skv. spurningalistunum sem þeir fylltu út. Svo geðlæknarnir tveir tóku viðtöl við þá. Jafnframt var búinn til sextíu og níu manna viðmiðunarhópur með slembiúrtaki úr þeim fjölda sem sýndi engin merki þunglyndis. Geðlæknarnir töluðu líka við þá (en einhverra hluta vegna skortir á rannsóknarupplýsingar um þrjá þeirra. Það er ekki skýrt nánar í greininni sem ég las enda ætla höfundarnir að skrifa fleiri greinar um þessa rannsókn).

Þegar kom að því að rannsaka kortisól og þunglyndi sérstaklega var 51 karli boðin þátttaka. Hún fólst í því að taka munnvatnssýni fimm sinnum frá morgni til kvölds á einum degi (kl. 7, 10, 12, 18 og 22), skila sýnunum og „ljúka geðlæknisviðtali“. Það er engin skýring á því af hverju akkúrat þessum 51 karli var boðin þátttaka öðrum fremur en af því enn vantar á rannsóknargögn um þrjá þeirra óþunglyndu hljóta þeir að vera úr af þessum 134 (65+69) körlum sem var væntanlega boðin þátttaka í aðalrannsókninni.

Fjörtíu karlar sinntu þessu hvoru tveggja: Skiluðu munnvatnssýnum og mættu í viðtal við geðlæknana. Þegar öll gögn höfðu verið greind var tveimur úr hópnum úthýst, öðrum vegna þess að hann notaði lyf sem innhélt prednisólón, hinum vegna þess að tölfræðiprófun (Grubbs-próf) greindi hann sem jaðartilvik.

Þá voru eftir 38 karlar sem rannsóknarniðurstöður þessarar undirrannsóknar byggja á. Þeir skiptust í tvo hópa, 14 þeirra töldu geðlæknarnir vera þunglynda (nánar tiltekið voru 12 haldnir alvarlegu þunglyndi/geðlægð og 2 haldnir óyndi). 24 karlar voru að mati geðlæknanna lausir við þunglyndi og því heppilegir í samanburðarhóp.

Engin tölfræðilega marktækur munur reyndist á magni kortisóls í munnvatnssýnum þessara 38 karla nema í sýnum sem tekin voru kl. 18 og kl. 22. Sá tölfræðilega marktæki munur sást aðeins hjá þeim sem geðlæknarnir höfðu greint þunglynda (eða með óyndi) og ekki tóku nein geðlyf (skv. töflu 1 í greininni voru geðlyfin þunglyndislyf í öllum tilvikum nema einu). Þeir sem þetta átti við voru nákvæmlega 7 karlar.

Svoleiðis að hinar merku niðurstöður greinarinnar um að hækkað kortisól í munnvatnssýni sem tekið er að kvöldi sé betri mælikvarði en hefðbundnar aðferðir til þess að mæla þunglyndi karla eru reistar á nákvæmlega 7 körlum á Suðurnesjum sem tveir geðlæknar mátu þunglynda á huglægan hátt, þ.e. með viðtölum. Sjálfsagt skiptir fjöldinn (öllu heldur fámennið) ekki máli í að niðurstaðan sé rétt en:

 

Aðferðin virðist vera í stuttu máli: Finnum nokkra þunglynda karla og gáum hvort munnvatnið í þeim er öðru vísi en í öðrum körlum. Þessi aðferð er varla slæm í sjálfri sér – en sennilega hefði verið hægt að finna 7 þunglynda geðlyfjalausa karla á Suðurnesjum og nokkra glaðlynda til hliðsjónar með minni fyrirhöfn og kostnaði. Spurning hvort Mjallhvít hefði ekki klórað sig fram úr því án neinna styrkja …

Og auk þess eru það ekki nýmæli að rugl á kortisólbúskap sé skýr og vel nothæf greining á melankólíu. Sú uppgötvun var gerð 1968.

 

Viðtöl geðlæknanna voru „semi-structured interview“ sem byggði á viðtalstækni sem notuð var til að greina geðræna sjúkdóma og geðlyfjanotkun meðal Gautaborgarbúa á níræðisaldri á níunda áratug síðustu aldar. Um þau, niðurstöður þeirra og tengsl niðurstaðnanna við algeng mælitæki á þunglyndi (spurningalista) verður fjallað í næstu færslu(m). Sömuleiðis verður eilítið fjallað um fyrri rannsóknir á tengslum kortisóls við eina ákveðna tegund þunglyndis og velt upp ýmsum spurningum, t.d. af hverju það tekur níu ár og lengur að vinna úr rannsókn á borð við The Sudurnesjamenn Study og hvaða áhrif þessi langi tími hefur á gildi/mikilvægi niðurstaðna þá loksins þær birtast. Loks verður bent á hvernig villa virðist hafa ratað í greinina af því höfundar hafa ekki haft sinnu á að lesa frumheimild.

Það kemur ekki fram hvað The Sudurnesjamenn study kostaði en hún var styrkt úr þremur sjóðum: The Landakot Medical Foundation (sem ég giska á að sé Styrktarsjóður Sjálfseignarstofnunar St. Jósefsspítala); Vísindasjóði Félags íslenskra heimilislækna og Minningarsjóði Helgu Jónsdóttur og Sigurliða Kristjánssonar.

 

Heimild:

Sigurdsson, B., Palsson, S. P., Johannsson, M., Olafsdottir, M., & Aevarsson, O. (2013). Saliva cortisol and male depressive syndrome in a community study. The Sudurnesjamenn study. Nordic journal of psychiatry, 67(3), 145-152.