Tag Archives: Smalastúlka

Prjón við aðra iðju

velsk_malverk

Þessi pistill fjallar um listina að prjóna á göngu eða meðfram annarri iðju. Forsíðumyndin er af frægu velsku málverki eftir William Dyce, sem var málað 1860 og heitir Welsh Landscape with Two Women Knitting. Konan sem stendur hægra megin er í velskum þjóðbúningi, pípuhatturinn er hluti hans. Þær hafa sjálfsagt tekið sér pásu á göngu sinni yfir velsku heiðina en ég efast ekki um að þær hafi prjónað alla leið. Snúum okkur að körlunum fyrst:

Þessi koparstunga er efir ítalska teiknarann Annibale Caracci (1560-1609) og koparstungumanninn Gimon Guillain (1581-1658). Myndin heitir Calsettaro (sem ég hygg að þýði sokkaprjónarinn). Takið eftir sérstökum garnspóluútbúnaðnum sem sokkaprjónarinn notar.

Þessi koparstunga er efir ítalska teiknarann Annibale Caracci (1560-1609) og koparstungumanninn Gimon Guillain (1581-1658). Myndin heitir Calsettaro (sem ég hygg að þýði sokkaprjónarinn). Takið eftir sérstökum garnspóluútbúnaðnum sem sokkaprjónarinn notar.

 Myndirnar tvær hér að ofan sýna hermenn drepa tímann í pásum frá stríðsátökum með prjóni. Þær eru báðar úrklippur úr málverkum eftir þýska listamanninn Carl Spitzweg (1808-1885). Má skoða Der strickende Soldat og Der strickende Vorposten í heild með því að smella á krækjurnar.

Myndirnar tvær hér að ofan sýna hermenn drepa tímann í pásum frá stríðsátökum með prjóni. Þær eru báðar úrklippur úr málverkum eftir þýska listamanninn Carl Spitzweg (1808-1885). Má skoða Der strickende Soldat og Der strickende Vorposten í heild með því að smella á krækjurnar.

Og úr stríði til þess að sitja yfir ánum:

 

Þetta málverk, Fårehyrde på heden, málaði danski listamaðurinn Frederik Vermehren árið 1855. Takið eftir hvernig garnið er fest á krók rétt neðan við öxlina á þessum jóska fjárhirði (heiti málverksins krækir í mjög stóra útgáfu af því).

Hér að neðan er ljósmynd af færeyskri stúlku sem er væntanlega að koma úr kvíum og hefur nýlokið við að mjólka ærnar. Hún nýtir auðvitað gönguna heim til að prjóna – og takið eftir færeysku prjónaðferðinni að bregða garninu yfir hægri vísifingurinn. Ég veit því miður ekki hve gömul þessi mynd er.

Færeysk prjónakona

Færeysk prjónakona

Á Íslandi gekk smalamennska og umhirða fjárins meðfylgjandi prjónaskap ekki alltaf jafn ljúft fyrir sig og marka má af jóska smalanum og færeysku stúlkunni:

Á þessum hraunslóðum skeði sá atburður að ung kona þar úr sveit gekk við ásauði og hóaði saman til kvía, hún hélt á prjónum eins og venja var á tímum vinnuhörkunnar og hraðaði göngunni. Þessi kona var smalavön og kunnug hrauninu en í þetta sinn kunni hún ekki fótum sínum forráð og féll í hraungjótu, líka þeirri sem faðir minn dró lambið úr. Ekki slasaðist hún í fallinu svo til baga væri en kom niður á fæturna og hélt á leist og bandi. Fljótlega hefir hún séð hvernig komið var, að engin leið var til uppgöngu þar sem hraunveggirnir voru allir innundir sig og hvelfdust yfir gjótunni sem var um tvær mannhæðir frá botni á barm og gjörsamlega ókleif. Hún reyndi af fremsta megni að róa hugsunina og hélt áfram að prjóna, að kalla á hjálp var tilgangslaust [- – -]. Eftir þrjú dægur þóttist hún heyra mannamál [- – -] Enn liðu þrjú dægur og konan var að glata síðasta vonarneistanum. Leisturinn [svo] var löngu fullprjónaður og bandið gengið til þurrðar og hungrið og kuldinn surfu að. (Tryggvi Emilsson. 1976, s. 29)

  Blessunarlega varð kraftaverk í sögunni sem Tryggvi rekur: „[…] það var á fjórða degi, og þá skeði kraftaverkið, hún vaknaði á barmi gjótunnar og komst til bæja.“

 

Prjónasmalamennska á Norðurlöndum var þó hjóm eitt hjá því sem tíðkaðist í Landes, héraði í suðvestur Frakklandi, þar sem land er mýrlent og illt yfirferðar.

Fjárhirðir í Landes að gæta sinna kinda og prjóna. Koparstungan er frá 1855. Frekari upplýsingar um myndina eru hér.

Fjárhirðir í Landes að gæta sinna kinda og prjóna. Koparstungan er frá 1855. Frekari upplýsingar um myndina eru hér.

 

Fjárhirðir í Landes, ljósmyndin er tekin 1905.

Fjárhirðir í Landes, ljósmyndin er tekin 1905.

Vilji einhver fræðast meir um hvernig menn sátu yfir ánum í Landes og um héraðið sjálft er mælt með vefsíðunni les landes—its forestry industry, life before the forest. Þar segir m.a. af honum Sylvain Dornon sem vann sér til frægðar, auk prjónasmalamennsku á stultum, að ganga upp í topp Eiffel-turnsins á sínum stultum árið 1889 og tveimur árum seinna gekk hann á stultunum frá París til Moskvu, 2.850 km leið á 58 dögum. Sagnir herma ekki hvort hann hafi prjónað á leiðinni. Meira má lesa um Sylvain Dornon og afrek hans hér , þar er meira að segja mynd af honum prjónandi á stultunum.

 

Svo vikið sé að prjónaskap karla á Íslandi þá urðu þeir allt eins fyrir óhöppum eins og íslenska smalastúlkan sem sagt var frá hér að ofan. Tvö banaslys af völdum prjónaskapar eru skráð í íslenskri sögu, í báðum tilvikum fórust karlar. Hið síðara varð einmitt út af prjónagöngu:

Árið 1833: [- – -] Nokkur urðu slysferli á ári þessu á landi hér, annars staðar en í Skagafirði. [- – -] og maður einn eystra reikaði prjónandi fram af sjóarhömrum. Fannst með lífi en dó tveimur dögum síðar. (Jón Espólín. 1978, s. 34.)

  Þessum pistli lýkur á nokkrum myndum af prjónandi konum við vinnu sína, jafnt rómantískri sýn sem raunsærri.

 

Sænsk kona, gangandi og prjónandi og berandi barn, á gömlu póstkorti.

Sænsk kona, gangandi og prjónandi og berandi barn, á gömlu póstkorti.

 

Úrklippa úr ljósmynd frá Hörðalandi, Noregi, um 1890. Alla myndina má sjá á Digitaltmuseum.no.

Úrklippa úr ljósmynd frá Hörðalandi, Noregi, um 1890. Alla myndina má sjá á Digitaltmuseum.no.

 

Vatnslitamyndin Fishergirls on Shore, Tynemouth [Bretlandi] er eftir ameríska málarann Winslow Homer, líklega máluð 1884.

Vatnslitamyndin Fishergirls on Shore, Tynemouth [Bretlandi] er eftir ameríska málarann Winslow Homer, líklega máluð 1884.

Skoskar fiskvinnslukonur, óvíst hvenær myndin var tekin en hana er að finna í ljósmyndasafni Skoska sjóminjasafnsins.

Skoskar fiskvinnslukonur, óvíst hvenær myndin var tekin en hana er að finna í ljósmyndasafni Skoska sjóminjasafnsins.

 

Ég veit ekki hvar þessi mynd af prjónandi síldarstúlkum er tekin (örugglega ekki á Raufarhöfn) en skv. upplýsingum sem henni fylgja á Vefnum er hún tekin 1932. Þær eru glaðar og hressar þessar.

Ég veit ekki hvar þessi mynd af prjónandi síldarstúlkum er tekin (örugglega ekki á Raufarhöfn) en skv. upplýsingum sem henni fylgja á Vefnum er hún tekin 1932. Þær eru glaðar og hressar þessar.

 

Þetta póstkort frá 1910 sýnir eina af fjölmörgum myndum sem finna má af hjaltlenskum konum að burðast með mó og prjóna á meðan. Margar myndir af hjaltlenskum, skoskum og írskum konum við sama þrældóm, prjónandi um leið eða ekki, má sjá hér.

Þetta póstkort frá 1910 sýnir eina af fjölmörgum myndum sem finna má af hjaltlenskum konum að burðast með mó og prjóna á meðan. Margar myndir af hjaltlenskum, skoskum og írskum konum við sama þrældóm, prjónandi um leið eða ekki, má sjá hér.

Heimildir aðrar en krækt er í úr texta:

Jón Espólín og Einar Bjarnason. Saga frá Skagfirðingum 1685-1847 (þriðja bindi). Reykjavík, Iðunn 1978.

Tryggvi Emilsson. Fátækt fólk I. Reykjavík, Mál og menning 1976.

 

Þessi pistill birtist áður í Kvennablaðinu 15. mars 2014.