Tag Archives: Saga Prjóns

Nirfilspyngjur og krónukönnur

nirfilpyngja_forsidumynd

Myndin hér að ofan er af dæmigerðri nirfilspyngju (Miser’s Purse) sem voru afar vinsælar peningabuddur á Viktoríutímunum. Talið er að nafnið sé dregið af því að það gat verið óttalegt vesen að ná aurunum úr svona pyngju.

Sé myndaleitað í Google að miser’s purse birtist fjöldi nirfilspyngja af öllum stærðum og gerðum, flestar glæsilega skreyttar enda safngripir í útlöndum. Hér eru nokkur dæmi:

Glæsilegar nirfilspyngjur

Glæsilegar nirfilspyngjur

Nirfilspyngja er í rauninni bara aflangt prjónað (eða heklað) stykki, saumað saman en skilið eftir örlítið gat í miðjunni sem hægt er að smeygja peningi inn um. Endar stykkisins eru oftast hafðir eilítið mjórri eða dregnir fast saman þegar búið er að sauma saman stykkið. Síðan er tveimur málmhringjum smokkað upp á stykkið og þá er hún tilbúin: Skreytist að vild. Hér er myndband sem sýnir hvernig nirfilspyngja er notuð.

Á Íslandi voru líka notaðar nirfilspyngjur á nítjándu öld. Mér hefur ekki tekist að hafa upp á mynd af prjónaðri nirfilspyngju en veit að þær eru til á Þjóðminjasafninu. Aftur á móti er hægt að finna myndir af tveimur hekluðum nirfilspyngjum og er önnur þeirra með elstu hekluðu munum íslenskum.

Nirfilspyngja á Byggðasafni Árnesinga, talin frá 1890. Nánari upplýsingar eru hér.

Nirfilspyngja á Byggðasafni Árnesinga, talin frá 1890. Nánari upplýsingar eru hér.

Hekluð pyngja úr dánarbúi Þóru Melsteð.

Hekluð pyngja úr dánarbúi Þóru Melsteð.

Þóra Melsteð  stofnaði Kvennaskólann í Reykjavík árið 1874 og veitti honum forstöðu til 1906. Þar var „heklan“ eða „hekling“ kennd frá upphafi, eina stund á viku í þriðja bekk. Líklega hafa námsmeyjar þaðan átt drjúgan þátt í að breiða kunnáttu í hekli út um landið.

Pyngjan hennar Þóru Melsteð er 25 cm löng. Hún var gefin Þjóðminjasafni Íslands úr dánarbúi Þóru (sem lést 1919) og var þá lýst þannig í skrá safnsins: „Peningapyngja hekluð úr móleitu garni, aðallega á þrennan hátt. Baugur úr stáli er um miðju; hafa líklega verið tveir slíkir … Sennilega eptir frú Thoru Melsteð; kann þó að vera útlend að gerð og uppruna.“

Líklega er ekki óvitlaust á þessum síðustu og verstu tímum að prjóna eða hekla sér nirfilspyngju og treysta því sem sagnir herma: Að það kosti verulega fyrirhöfn að ná hundraköllum, fimmtíuköllum og tíköllum úr henni og spara þannig nánast sjálfkrafa.

 

Krónukönnur

Krónukönnur

Önnur sparnaðargræja frá Viktoríutímunum var svokölluð „Pence Jug“, sem mætti kannski kalla Krónukönnu á íslensku. Hún var, eins og nafnið bendir til, haganlega prjónuð lítil kanna sem menn settu smápeningana sína í og notuðu um leið sem stofustáss.

Þessi mynd fylgir uppskrift í The Young Ladies Journal Complete Guide to the Work-Table, upphaflega útgefin 1884 en hér er krækt í uppskriftina í 6. útg. 1888.

Þessi mynd fylgir uppskrift í The Young Ladies Journal Complete Guide to the Work-Table, upphaflega útgefin 1884 en hér er krækt í uppskriftina í 6. útg. 1888.

Ef menn eiga erfitt með að klóra sig fram úr ensku uppskriftinni frá 1884 þá má benda á skiljanlegri  uppskrift (á ensku) af krónukönnu sem liggur frítt frammi á Ravelry en það þarf að skrá sig inn á  hannyrðavettvanginn til að nálgast hana á þessari slóð.

Uppskriftin er eftir Robert Jenkins en hann styðst við uppskrift á síðu 146 í þeirri ágætu bók Art of Knitting, sem kom út árið 1892. (Þetta er það skemmtileg bók að titillinn krækir í smámyndir af öllum síðunum og dugir að smella á smámynd til að fá síðuna í réttri stærð.)

Krónukönnur Robert Jenkins

Krónukönnur Robert Jenkins

Heimild önnur en krækt er í úr texta:

Elsa E. Guðjónsson. Um hekl á Íslandi. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 92, s. 75-85. 1995.

Kvekarar og nálapúðar

forsidumynd

 

Þessi pistill fjallar um nálapúða á átjándu öld, kvekara, geðveikrahæli og mannréttindabaráttu. Nálapúðinn sem sést hér að ofan er í safni Viktoríu og Alberts í Lundúnum (sjá hér) og er talinn með þeim elstu af mörgum svipuðum sem hafa varðveist. Hann er jafnframt sá stærsti, 18 x 11,5 cm, og ferhyrndur en hinir eru flestir kúlur eða disklaga. Nálapúðinn er prjónaður úr fínu silkigarni, prjónafesta er 9-10 lykkjur í sentimetra, framstykki og bakstykki eru saumuð saman og saumarnir huldir með snúru/borða. Í púðann er prjónað ártalið 1733 sem sjá má.

Nálapúðar voru, eins og nafnið bendir til, notaðir til að stinga títuprjónum og nálum í og geyma þannig. Sumir telja að það hafi verið ákveðin vörn gegn ryði í saggafullum húsakynnum átjándu aldar.

Þennan nálapúða má líka sjá í safni Viktoríu og Alberts (nánari uppl. hér.) Snúran, sem e.t.v. var til að binda um mitti eigandans, er mögulega spjaldofin.

Þennan nálapúða má líka sjá í safni Viktoríu og Alberts (nánari uppl. hér.) Snúran, sem e.t.v. var til að binda um mitti eigandans, er mögulega spjaldofin.

Talið er að átjándu aldar nálapúðarnir af þessu tagi hafi fyrst og fremst verið ætlaðir til gjafa. Þeir tveir til viðbótar sem til eru á V&A safninu styðja það því í annan er útprjónað „SS loveth the giver 1782“ og í hinn „SL to RL 1805‟. Þeir eru saumaðir saman úr tveimur átthyrndum stykkjum (eins og sá sem sést hér að ofan) og saumurinn síðan falinn með snúru/borða.

Þótt ekki hafi tekist að rekja elstu nálapúðana til kvekara eru munstrin dæmigerð í hannyrðum þeirra og flestir yngri nálapúðar af þessu tagi (frá því seint á 18. öld og fram á þá 19.) eru taldir handverk kvekara.

Kvekarar eru trúarsöfnuður. Opinbert heiti trúfélagsins er Religious Society of Friends og það var stofnað um 1650 á Bretlandi. Þeir hafa enga trúarjátningu en viðurkenna Biblíuna og telja að guð upplýsi trúaða með orði sínu, hinu innra ljósi. Kvekarar hafa alla tíð verið eindregnir friðarsinnar og eru ötulir talsmenn trú- og skoðanafrelsis enda hlutu bresku og bandarísku kvekarahreyfingarnar friðarverðlaun Nóbels árið 1947.

Nálapúði frá Retreat-hælinu eða eftirlíking af slíkum.

Nálapúði frá Retreat-hælinu eða eftirlíking af slíkum.

Í Kastalasafninu í Jórvík (York) á Englandi eru nokkrir nálapúðar frá þessum tíma, þar á meðal einn dökkblár með ljósu munstri, ákaflega fínt prjónaður (14 lykkjur í sentimetra) og prjónað í hann orðin „An emblem of love‟ (Tákn ástar/vinskapar). Á röndina milli tveggja disklaga stykkja er prjónað „From the Retreat, near York“.

Retreat, í nágrenni Jórvíkur, var fyrsta geðsjúkrahúsið á Englandi, þ.e.a.s. stofnun af slíku tagi sem stóð undir nafni en var ekki bara hryllings-geymsla undir hlekkjaða geðsjúklinga. Sá sem stofnaði Retreat árið 1792 var William Tuke, kvekari og te-kaupmaður. Kvekarar voru ólíkir samtímamönnum sínum að því leyti að þeir litu á geðsjúka sem veikt fólk og töldu að því gæti batnað við mannúðlega umönnun og réttar aðstæður. Barnabarn Williams, Samuel Tuke, skrifaði bók um meðferðina sem veitt var á Retreat  og þar kemur fram (á s. 100) að prjón var álitið æskilegur hluti af meðferð geðsjúkra kvenna. Kannski voru nálapúðarnir sem sjúklingarnir á Retreat prjónuðu seldir sem gjafavara?

Vegna ofsókna heimafyrir fluttust margir kvekarar vestur um haf og urðu sérstaklega áhrifamiklir í Pennsylvaníu. Þeir reistu mörg hæli fyrir geðsjúka þar vestra og þeirra er sérstaklega minnst í sögu geðlækninga fyrir mannúðlega meðferð og virðingu fyrir sjúklingunum, ólíkt því sem tíðkaðist á hælum og sjúkrahúsum á vegum hins opinbera eða undir stjórn lækna.

Nálapúði með útprjónuðu baráttumerki William Wilberforce gegn þrælahaldi. Hinum megin stendur „Pity the poor slave‟.

Nálapúði með útprjónuðu baráttumerki William Wilberforce gegn þrælahaldi. Hinum megin stendur „Pity the poor slave‟.

Kvekarar komu víðar við sögu bættra mannréttinda og sér þess einnegin stað í þeirra nálapúðum s.s. sjá má á myndinni hér að ofan. Nefndur Wilberforce var þó ekki kvekari heldur breskur stjórnmálamaður sem barðist gegn þrælahaldi og tókst ásamt fylgismönnum sínum að fá samþykkt lög sem bönnuðu að bresk skip flyttu afríska þræla til breskra nýlenda, árið 1807. Það var hins vegar ekki fyrr en mánuði eftir lát hans 1833 sem lög sem bönnuðu þrælahald með öllu voru samþykkt í breska þinginu.

Fleiri nálapúðar með þessu merki eru til og eru yfirleitt taldir verk kvekara, bæði bandarískra og breskra. Aftan á einum þeirra stendur „Am I not your Sister?“

Þessir dökkbláu nálapúðar eru í safni í Norfolk, Englandi.

Þessir dökkbláu nálapúðar eru í safni í Norfolk, Englandi.

Nú eru dagar prjónuðu nálapúðanna liðnir þótt komið sé í dálítið tísku að prjóna eftirlíkingar af þeim, á örfína prjóna og úr fínu silkigarni. Mér hefur aðeins dottið í hug hvort jólakúlurnar vinsælu (sem komu fram á sjónarsviðið á þessari öld, kannski ekki fyrr um 2010) sæki fyrirmynd sína í nálapúða kvekara. Og væri þá ekki upplagt að prjóna einhver friðarins slagorð í næstu jólakúlu?

jolakulur

 

Heimildir aðrar en krækt er í úr texta

A Modern Campain‟ á Remembering Slavery Online Exhibition. Tyne&Wear archives&museums.

Quaker Sympathy. Nilly Hall.

The Retreat – York, High Royds Hospital.

Harlow, Eve. The Art of Knitting. 1977.

Nargi, Leila. Knitting Around the World. 2011.

Rutt, Richard. A History of Hand Knitting, önnur útg. 1989.

Utenand, Erica. A Quaker Pinball to Knit. PieceWork, 17(5) 2009.

Prjón við aðra iðju

velsk_malverk

Þessi pistill fjallar um listina að prjóna á göngu eða meðfram annarri iðju. Forsíðumyndin er af frægu velsku málverki eftir William Dyce, sem var málað 1860 og heitir Welsh Landscape with Two Women Knitting. Konan sem stendur hægra megin er í velskum þjóðbúningi, pípuhatturinn er hluti hans. Þær hafa sjálfsagt tekið sér pásu á göngu sinni yfir velsku heiðina en ég efast ekki um að þær hafi prjónað alla leið. Snúum okkur að körlunum fyrst:

Þessi koparstunga er efir ítalska teiknarann Annibale Caracci (1560-1609) og koparstungumanninn Gimon Guillain (1581-1658). Myndin heitir Calsettaro (sem ég hygg að þýði sokkaprjónarinn). Takið eftir sérstökum garnspóluútbúnaðnum sem sokkaprjónarinn notar.

Þessi koparstunga er efir ítalska teiknarann Annibale Caracci (1560-1609) og koparstungumanninn Gimon Guillain (1581-1658). Myndin heitir Calsettaro (sem ég hygg að þýði sokkaprjónarinn). Takið eftir sérstökum garnspóluútbúnaðnum sem sokkaprjónarinn notar.

 Myndirnar tvær hér að ofan sýna hermenn drepa tímann í pásum frá stríðsátökum með prjóni. Þær eru báðar úrklippur úr málverkum eftir þýska listamanninn Carl Spitzweg (1808-1885). Má skoða Der strickende Soldat og Der strickende Vorposten í heild með því að smella á krækjurnar.

Myndirnar tvær hér að ofan sýna hermenn drepa tímann í pásum frá stríðsátökum með prjóni. Þær eru báðar úrklippur úr málverkum eftir þýska listamanninn Carl Spitzweg (1808-1885). Má skoða Der strickende Soldat og Der strickende Vorposten í heild með því að smella á krækjurnar.

Og úr stríði til þess að sitja yfir ánum:

 

Þetta málverk, Fårehyrde på heden, málaði danski listamaðurinn Frederik Vermehren árið 1855. Takið eftir hvernig garnið er fest á krók rétt neðan við öxlina á þessum jóska fjárhirði (heiti málverksins krækir í mjög stóra útgáfu af því).

Hér að neðan er ljósmynd af færeyskri stúlku sem er væntanlega að koma úr kvíum og hefur nýlokið við að mjólka ærnar. Hún nýtir auðvitað gönguna heim til að prjóna – og takið eftir færeysku prjónaðferðinni að bregða garninu yfir hægri vísifingurinn. Ég veit því miður ekki hve gömul þessi mynd er.

Færeysk prjónakona

Færeysk prjónakona

Á Íslandi gekk smalamennska og umhirða fjárins meðfylgjandi prjónaskap ekki alltaf jafn ljúft fyrir sig og marka má af jóska smalanum og færeysku stúlkunni:

Á þessum hraunslóðum skeði sá atburður að ung kona þar úr sveit gekk við ásauði og hóaði saman til kvía, hún hélt á prjónum eins og venja var á tímum vinnuhörkunnar og hraðaði göngunni. Þessi kona var smalavön og kunnug hrauninu en í þetta sinn kunni hún ekki fótum sínum forráð og féll í hraungjótu, líka þeirri sem faðir minn dró lambið úr. Ekki slasaðist hún í fallinu svo til baga væri en kom niður á fæturna og hélt á leist og bandi. Fljótlega hefir hún séð hvernig komið var, að engin leið var til uppgöngu þar sem hraunveggirnir voru allir innundir sig og hvelfdust yfir gjótunni sem var um tvær mannhæðir frá botni á barm og gjörsamlega ókleif. Hún reyndi af fremsta megni að róa hugsunina og hélt áfram að prjóna, að kalla á hjálp var tilgangslaust [- – -]. Eftir þrjú dægur þóttist hún heyra mannamál [- – -] Enn liðu þrjú dægur og konan var að glata síðasta vonarneistanum. Leisturinn [svo] var löngu fullprjónaður og bandið gengið til þurrðar og hungrið og kuldinn surfu að. (Tryggvi Emilsson. 1976, s. 29)

  Blessunarlega varð kraftaverk í sögunni sem Tryggvi rekur: „[…] það var á fjórða degi, og þá skeði kraftaverkið, hún vaknaði á barmi gjótunnar og komst til bæja.“

 

Prjónasmalamennska á Norðurlöndum var þó hjóm eitt hjá því sem tíðkaðist í Landes, héraði í suðvestur Frakklandi, þar sem land er mýrlent og illt yfirferðar.

Fjárhirðir í Landes að gæta sinna kinda og prjóna. Koparstungan er frá 1855. Frekari upplýsingar um myndina eru hér.

Fjárhirðir í Landes að gæta sinna kinda og prjóna. Koparstungan er frá 1855. Frekari upplýsingar um myndina eru hér.

 

Fjárhirðir í Landes, ljósmyndin er tekin 1905.

Fjárhirðir í Landes, ljósmyndin er tekin 1905.

Vilji einhver fræðast meir um hvernig menn sátu yfir ánum í Landes og um héraðið sjálft er mælt með vefsíðunni les landes—its forestry industry, life before the forest. Þar segir m.a. af honum Sylvain Dornon sem vann sér til frægðar, auk prjónasmalamennsku á stultum, að ganga upp í topp Eiffel-turnsins á sínum stultum árið 1889 og tveimur árum seinna gekk hann á stultunum frá París til Moskvu, 2.850 km leið á 58 dögum. Sagnir herma ekki hvort hann hafi prjónað á leiðinni. Meira má lesa um Sylvain Dornon og afrek hans hér , þar er meira að segja mynd af honum prjónandi á stultunum.

 

Svo vikið sé að prjónaskap karla á Íslandi þá urðu þeir allt eins fyrir óhöppum eins og íslenska smalastúlkan sem sagt var frá hér að ofan. Tvö banaslys af völdum prjónaskapar eru skráð í íslenskri sögu, í báðum tilvikum fórust karlar. Hið síðara varð einmitt út af prjónagöngu:

Árið 1833: [- – -] Nokkur urðu slysferli á ári þessu á landi hér, annars staðar en í Skagafirði. [- – -] og maður einn eystra reikaði prjónandi fram af sjóarhömrum. Fannst með lífi en dó tveimur dögum síðar. (Jón Espólín. 1978, s. 34.)

  Þessum pistli lýkur á nokkrum myndum af prjónandi konum við vinnu sína, jafnt rómantískri sýn sem raunsærri.

 

Sænsk kona, gangandi og prjónandi og berandi barn, á gömlu póstkorti.

Sænsk kona, gangandi og prjónandi og berandi barn, á gömlu póstkorti.

 

Úrklippa úr ljósmynd frá Hörðalandi, Noregi, um 1890. Alla myndina má sjá á Digitaltmuseum.no.

Úrklippa úr ljósmynd frá Hörðalandi, Noregi, um 1890. Alla myndina má sjá á Digitaltmuseum.no.

 

Vatnslitamyndin Fishergirls on Shore, Tynemouth [Bretlandi] er eftir ameríska málarann Winslow Homer, líklega máluð 1884.

Vatnslitamyndin Fishergirls on Shore, Tynemouth [Bretlandi] er eftir ameríska málarann Winslow Homer, líklega máluð 1884.

Skoskar fiskvinnslukonur, óvíst hvenær myndin var tekin en hana er að finna í ljósmyndasafni Skoska sjóminjasafnsins.

Skoskar fiskvinnslukonur, óvíst hvenær myndin var tekin en hana er að finna í ljósmyndasafni Skoska sjóminjasafnsins.

 

Ég veit ekki hvar þessi mynd af prjónandi síldarstúlkum er tekin (örugglega ekki á Raufarhöfn) en skv. upplýsingum sem henni fylgja á Vefnum er hún tekin 1932. Þær eru glaðar og hressar þessar.

Ég veit ekki hvar þessi mynd af prjónandi síldarstúlkum er tekin (örugglega ekki á Raufarhöfn) en skv. upplýsingum sem henni fylgja á Vefnum er hún tekin 1932. Þær eru glaðar og hressar þessar.

 

Þetta póstkort frá 1910 sýnir eina af fjölmörgum myndum sem finna má af hjaltlenskum konum að burðast með mó og prjóna á meðan. Margar myndir af hjaltlenskum, skoskum og írskum konum við sama þrældóm, prjónandi um leið eða ekki, má sjá hér.

Þetta póstkort frá 1910 sýnir eina af fjölmörgum myndum sem finna má af hjaltlenskum konum að burðast með mó og prjóna á meðan. Margar myndir af hjaltlenskum, skoskum og írskum konum við sama þrældóm, prjónandi um leið eða ekki, má sjá hér.

Heimildir aðrar en krækt er í úr texta:

Jón Espólín og Einar Bjarnason. Saga frá Skagfirðingum 1685-1847 (þriðja bindi). Reykjavík, Iðunn 1978.

Tryggvi Emilsson. Fátækt fólk I. Reykjavík, Mál og menning 1976.

 

Þessi pistill birtist áður í Kvennablaðinu 15. mars 2014.