Tag Archives: Saga Akraness Iii

Handritsbútur að Sögu Akraness III

Gamli vitinn

Hér er fjallað um þann pappír sem Akraneskaupstaður greiddi Gunnlaugi Haraldssyni 1.933.276 kr. fyrir árið 2013. Ég skoðaði handritið á bókasafni bæjarins, með leyfi Akraneskaupstaðar, dagana 28. og 29. janúar og 4. febrúar 2015. Handritið er dagsett 9. júlí 2013, þ.e. sama dag og haldinn var sá „skilafundur“ Ritnefndar um sögu Akraness, sem fjallað var um í síðustu færslu.

Sögu þessa handritsbúts má rekja allt aftur til 1997 en sú verður ekki rakin hér né reynt að leggja saman og umreikna til núvirðis það fé sem áður hefur verið greitt fyrir að skrifa um þetta tímabil í sögu Akraness.

Efni og umfang

Þessi hluti handritsins ber yfirskriftina Byggðaþróun og búnaðarhagir og telst fyrsti kafli af átta meginköflum Sögu Akraness III, Nítjándu aldarinnar, skv. núverandi skipulagi. Hann skiptist í fjóra undirkafla (sem síðan skipast í marga undir-undirkafla) og eru þeir þessir:

1. Íbúaþróun á Akranesi
2. Jarðeignir og búnaðarhagir
3. Byggðin utan Skagans 1801-1885
4. Skipaskagi og Ytri-Akraneshreppur 1801-1901

Fyrstu þrír undirkaflarnir eru 345 s. af texta, síðan fylgja 4 s. af töflum með upplýsingum um jarðamat, landskuldir og leigur, svo smáletraður 16 s. listi yfir bændur og húsfólk í dreifbýlinu 1801-1885. Fjórði undirkaflinn, þegar sögunni víkur loks að Skaganum sjálfum, er 172 s. af texta og 27 s. smáletraður listi yfir húsráðendur og húsfólk í Skipaskaga og Ytri-Akraneshreppi 1801-1901. Að auki fylgir 1. s. efnisyfirlit fremst (yfir 1.-3. kafla) og 1. s. efnisyfirlit aftast (yfir 4. kafla).

Útlit og stíll

Það er greinilegt að stefnt er að sama útliti og á Sögu Akraness I og II, þ.e.a.s. notaðir eru sömu litir í fyrirsögnum og sama æpandi sundurgerðin ríkir í stafagerð í þeim.

Það sem sagnaritarinn kallar jafnan myndrit ber textann algerlega ofurliði í upphafskafla og litagleðin, væntanlega sömu pastellitir og eru í útgefnu bindunum, er mikil. Afleiðingin er sú að fyrsti kaflinn er álíka spennandi aflestrar og Hagtölur mánaðarins! Sem dæmi nefni ég undirkaflann 1.1. Íbúaþróun í Borgarfjarðarsýslu, s. 5-13, og set fyrirsagnir í sviga:

Stöplarit inni í gulum ramma (Íbúaþróun í Borgarfjarðarsýslu 1801-1850), s. 6;
Skífurit á ljósbláum bakgrunni (Skipting íbúa Borgarfjarðarsýslu á sóknir 1801 (%)), s. 7;
Myntugræn tafla (Skipting íbúa Borgarfjarðarsýslu á sóknir 1801-1850), s. 7;
Blá tafla (Skipting íbúa Borgarfjarðarsýslu á sóknir 1850-1901), s. 9;
Skífurit á bláum grunni (Íbúar Borgarfjarðarsýslu 1901 (%) [taflan sýnir skiptingu eftir sóknum]), s. 9;
Línurit á ljósgulum grunni (Íbúaþróun í Borgarfjarðarsýslu og á Akranesi 1850-1901), s. 10;
Stöplarit á ljósgulum grunni (Ameríkufarar úr Borgarfjarðarsýslu 1876-1901), s. 11;
Súlurit með þrívíddaráferð á ljósgulum grunni (Þjóðfélagsstaða borgfirskra vesturfara 1876-1901), s. 12.

Sama litagleði, súlur, stólpar, línur, stöplar o.þ.h. halda áfram í næsta undirkafla, 1.2. Íbúaþróun á Akranesi. Stuttir textar í samfelldu máli á milli myndritanna eru orðaðar tölulegar upplýsingar með tilvísun í töflur, skífur, súlur, línur o.þ.h.

Þótt þessir fyrstu kaflar séu einna hryllilegastir er mýgrútur af öðrum myndritum í handritinu. Skv. upphaflegu efnisskipulagi Gunnlaugs (s. 10-12 í Fylgiskjali 1 með Samningi um ritun Sögu Akraness – III – bindi) er gert ráð fyrir 146 myndritum (töflum, gröfum og skrám) í þessu bindi.

Nú er ekki svo að mér sé sérstaklega í nöp við myndræna framsetningu tölulegra upplýsinga en menn verða að gæta hófs og leiða hugann að ætluðum lesendahópi. Slíkt er alls ekki gert hér heldur bendir fjöldi og sundurgerð í myndritum aðallega til þess að sagnaritarinn sé dálítið upp með sér yfir að hafa lært nokkra fídusa í Excel á sínum tíma!

Ég greip ofan í nokkrar efnisgreinar og undirkafla í þessu handriti. Gunnlaugur skrifar sem fyrr afar þunglamalegan og stirðan stíl. Það er og ekki til bóta að upplýsingum er hrúgað saman úr ýmsum áttum og lesandi þarf sífellt að líta eftir tilvísunum í heimildir til að henda reiður á hvaða upplýsingar eru fengnar úr frumskjölum og hvaða upplýsingar úr eftirprentunum eða ýmsum neftóbaksfræðum. Afar illa er greint milli aðal- og aukaatriða í umfjöllun og raunar má af textanum ráða að  höfundur gangi út frá því að magn sé ávallt meira virði en gæði. Þetta kann að vera skýringin á því að verk hans lengjast við hverja umritun/nýja samninga. Kannski á Gunnlaugur Haraldsson erfitt með að stroka út það sem hann hefur einu sinni sett á blað?

Hér er og rétt að taka fram að ég get ekki birt afritaða búta úr texta sem ætla má að Gunnlaugur hafi samið sjálfur því þetta er hluti af óútgefnu handriti.

Rammagreinar

Það eru ekki nema fjórar rammagreinar, allar útklipptur texti eftir aðra en sagnaritarann,  í þessu handriti enda gerði hann líklega ráð fyrir að fá greitt sérstaklega fyrir rammagreinar síðar, s.s. kveðið er á um í samningnum. Í Fylgiskjali 1 með þessum samningi, s. 9-10, eru taldar upp 102 rammagreinar sem eiga að vera í Sögu Akraness III.

Það er vandséð hverju þessar fjórar rammagreinar eiga að bæta við textann nema sú síðasta sem er greinlega hugsuð sem einhvers konar upplyfting fyrir lesandann, í anda Íslenzkrar fyndni. Hinar eru líklega eitthvert gamalt dót sem hefur verið höfundi við höndina þegar hann sauð saman handritið einu sinni enn.

Rammagreinarnar eru:

1839
Aflagðar selfarir
[stuttur texti úr sóknarlýsingu sr. Hannesar Stephensen 1839], s. 224

1839
Afréttarlönd Akurnesinga
[stuttur texti úr sóknarlýsingu sr. Hannesar Stephensen 1839], s. 239

29. mars 1886
Reglur um skepnubeit og annan átroðning á Skipaskaga
[taldar upp 1.-4. grein um þetta úr Gjörðabók Æfingafélagsins á Akranesi 1882-1889], s.247

Kuldaleg tilsvör Ólafs Péturssonar
„Ólafur smiður í Kalastaðakoti þótti kaldur í tilsvörum …“

Þessi síðasta rammagrein er á s. 300, í kafla um Kúludalsá. Hana tekur Gunnlaugur úr Blöndu I, s. 236, og af því öll er hún höfð innan gæsalappa ætti tilvitnunin að vera orðrétt og stafrétt. Það er hún hins vegar ekki því Gunnlaugur hefur sleppt þankastriki og leiðrétt „Alt“ í „Allt“. (Þetta kann einhverjum að þykja smáatriði en ég bendi á þessi glöp í örstuttum textanum vegna þess að sagnaritaranum sjálfum hefur orðið tíðrætt um hve fræðileg vinnubrögð sín séu.) Menn geta svo lesið frumtextann sem krækt er í og dæmt hver fyrir sig um hversu fyndinn þessi texti er og hve mikið rammagreinin muni létta umfjöllun um Kúludalsá á 19. öld.

Loks má nefna innskotsgrein á gulum bakgrunni, sem kann að eiga að verða rammagrein, á s. 11 í viðbótinni, þ.e. 4. undirkafla. Í henni er kvæði eftir Símon Dalaskáld með yfirskriftinni Skipaskagi? Í tilvísun til heimildar segir: „Ath. hvar birt og hvenær ort.“

Kvæðið er skáletrað og miðjað í þessari innskotsgrein. Ég tel líklegast að það sé tekið úr tímaritinu Akranes, sem er ein aðalheimilda í þessum hluta af handritinu. Þar birtist kvæðið með venjulegu letri og hefðbundinni uppsetningu ljóða en án titils í 9. tbl. 1944, s. 114.

Akranes heimild Gunnlaugs hefur hann tekið sér það bessaleyfi að breyta stafsetningu; breytir Ránarslóð í ránarslóð (sem er óskiljanleg breyting), bætir inn punkti og eftirfarandi hástaf í síðustu braglínum fyrsta erindis, leiðréttir ísafrón í Ísafrón og bætir inn kommu í síðustu braglínum seinna erindis.

Ég held að engar stórkostlegar fílólógískar pælingar liggi þessu að baki heldur hafi Gunnlaugur einfaldlega skrifað kvæðið rangt upp þegar hann var að fletta gegnum öll tölublöð Akraness fyrir fimmtán árum og svo ekki nennt að athuga hvort rétt hafi verið ritað í þessari síðustu endurritun (eða endurröðun) hins margritaða texta. (Sjá einnig kafla um heimildir og heimildanotkun hér að neðan.) Raunar tel ég að það þurfi að fara yfir hverja einustu beinu tilvitnun í handritinu, þær stikkprufur sem ég gerði benda til þess. Kvæðið er auk þess rangt eftir haft í tímaritinu Akranesi, sérstaklega er seinni hluti þess brogaður. 1)

Í þessu sambandi má og nefna að Gunnlaugur Haraldsson virðist halda að kvæði séu ávallt skáletruð og miðjuð þótt þau séu það alls ekki í heimildunum sem hann tekur þau úr. Má nefna dróttkvæða minningarvísu um Árna Vigfússon í Heimaskaga (s. 74 í kafla 4.2. í handriti Gunnlaugs), sem hann tekur upp úr Sögu Akraness I. bindi eftir Ólaf B. Björnsson (1957, s. 80-81) eða dróttkvæða minningarvísu um Björn Ólafsson (s. 127 í 4.2. í handriti Gunnlaugs) sem tekin er úr tímaritinu Akranesi, sept. 1950, s. 113. Í fyrstu braglínu stafsetur hann auk þess rangt: „Nú er fallin Fróns að velli“ (feitletrun mín á stafsetningarvillu).

Myndefni

Ég sá einungis á þremur stöðum gert ráð fyrir myndefni í þessu handriti. Skýringin er væntanlega sú að sagnaritarinn hefur hugsað sér að gera nýjan samning með enn meiri greiðslum fyrir umbrotsvinnu og myndaöflun, eins og síðast. En þær myndir sem nefndar eru í handritinu eru:

  • Uppdráttur Ólafs Jónssonar búfræðings af Garðalandi frá 1897 (s. 289), sami uppdráttur hefur þegar þegar birst í Sögu Akraness I, s. 82;
  • Teikning Tryggva Magnússonar af Ytra-Hólmsbæ (s. 329). Vísað er í heimildina Ólafur B. Björnsson 1942, 10.-12. tbl., s. 8. Þetta er röng heimildatilvísun því myndina er að finna í jólablaði tímaritsins Akraness sem er rækilega merkt 10.-11. tbl.
  • Mynd af Kristófer Finnbogasyni bókbindara (s. 329). Myndin fylgir langri umfjöllun um Kristófer þennan, í kaflanum Hjáleigur Ytra-Hólms, sem er undirkafli 3.1.með yfirskriftina Lögbýli, hjáleigur og tómthús, sem er undirkafli 3. Byggðin utan Skagans 1801-1885.

Ég átta mig engan veginn á því af hverju sagnaritara þykir Kristófer svo merkilegur í umfjöllun um sögu Akraness að á hann skuli bæði splæst löngum texta og ráðgerð mynd: Kristófer var alinn upp í Viðey, hjá Magnúsi Stephensen og lærði bókband í útlöndum að tilstuðlan hans. Eftir lát Magnúsar dvaldi hann á Ytra-Hólmi hjá Hannesi prófasti Stephensen, líklega í fimm ár, kvæntist og bjó svo í þrjú ár á Háuhjáleigu, stundaði þaðan sjómennsku og þótti góður fiskimaður, fluttist síðan upp í Borgarfjörð og bjó þar til hárrar elli. (Sjá Ísafold, 99. tölublað, 24.12.1892, blaðsíða 394.)

En þetta er ágætt dæmi um það að sagnaritara er um megn að henda textabrotum sem hann hefur einu sinni soðið saman (úr allra handa heimildum). Og sjálfsagt hefur Kristófer bundið inn nokkrar bækur fyrir Hannes prófast Stephensen, milli róðra.

Heimildir og meðferð þeirra

Það er ekki mitt að gaumgæfa heimildir Gunnlaugs fyrir textanum í handritinu: Hvort hann hefur alls staðar rétt eftir eða hvort hann gætir að reglum um heimildanotkun og höfundarétt. Það verk hefur væntanlega átt að vera á könnu ritnefndarmanna sem hafa væntanlega átt að lesa allan textann. En ég tók stikkprufur, eins og fyrrnefnt kvæði Símonar Dalaskálds, tók eftir því að enn tekur Gunnlaugur langar beinar tilvitnanir úr fyrirlestri Hallgríms hreppstjóra Jónssonar, Lífið í Skaganum, upp úr Borgfirskri blöndu útg. 1977 (sjá t.d. 1.2. kafla, Íbúaþróun á Akranesi, í handriti Gunnlaugs) þótt frumritið af þessum fyrirlestri sé varðveitt á Héraðsskjalasafni Akraness, og vitnar jöfnum höndum í óprentuð frumskjöl, dagblöð, tímarit og neftóbaksfræði.

Ég sé ekki betur en Gunnlaugur umgangist heimildir af stöku kæruleysi eins og sjá má á beinum tilvitnunum í texta annarra. Víða vantar kommur eða önnur greinarmerki, z í frumtexta er ævinlega látin lönd og leið og breytt í s, annarri stafsetningu hróflað eftir smekk, án þess að láta þess getið, og stundum er ekki einu sinni haft orðrétt eftir. Hér eru nokkur dæmi úr kafla 4.2.:

Í texta um Akur, s.15, tekur Gunnlaugur upp nokkrar beinar tilvitnanir í Ólaf B. Björnsson, 1945, IV. árg., s. 79, þ.á.m. um Þóru Jónsdóttur sem „var hin mesta myndarkona, stillt og prúð.“ en í frumtexta stendur „var hin mesta myndar kona, stillt og prúð.“ Í beinni tilvitnun í sömu heimild um manninn hennar Þóru, Kristján, sem var „hinn bezti drengur“, verður hann „hinn besti drengur“ í meðförum Gunnlaugs á heimildinni.

Annað dæmi um „leiðrétta“ stafsetningu í beinni tilvitnun er úr kafla um Vesturbæ Bræðraparts, þar sem segir í langri beinni tilvitnun í minningargrein um Guðrúnu Sigurðardóttur að hún hafi verið „mikil merkiskona … og atorku- og framkvæmdarsöm, … einnig eftir að hún missti hinn einkar duglega og ráðdeildarsama eiginmann sinn.“  Í heimildinni sem vísað er til, Ísafold 6. maí 1916, s. 3, segir: „mikil merkiskona … og atorku- og framkvæmdar-söm … einnig eftir að hún missti hinn einkarduglega og ráðdeildarsama eiginmann sinn.“ (Úrfellingar og feitletranir eru mínar.)

Dæmi um þar sem rangt er haft eftir í beinni tilvitnun er í kafla um Breið, s. 34, en þar segir inni í langri beinni inndreginn tilvitnun í Sögu Akraness I. bindi eftir Ólaf B. Björnsson, 1957, s. 143:

„Þegar vindur gnauðaði freklega á vetrum og brimið svarraði stórfenglega og teygði hramm sinn svo langt á land sem það náði, var þar ekki næðissamt aukvisum.“ (Feitletrun mín.)

Í frumheimild segir:

„Þegar vindur gnauðaði freklega á vetrum og brimið svarraði stórfenglegt og teygði hramm sinn svo langt á land sem það mátti, var þar ekki næðissamt aukvisum.“ (Feitletrun mín.)

Annað dæmi um að rangt sé haft eftir og raunar líka stafsetningarbreytingu er í umfjöllun um Gísla Daníelsson í kafla um Kárabæ-Bjarnabúð í handriti Gunnlaugs. Þar er tekin löng bein inndregin tilvitnun í 5.-6. tbl. Akraness, maí 1949. s. 65. Í meðförum Gunnlaugs segir í tilvitnuninni:

„Ekki lánaði hann fé með okurvöxtum og var ekki eftirgangssamur um innheimtur, sérstaklega ef þröng var fyrir dyrum. … Yfirleitt var hann kátur og smákíminn, …“

En í frumheimild segir: „Ekki lánaði hann fé með okurvöxtum og var ekki eftirgangssamur um innheimtur, sérstaklega ef þröngt var fyrir dyrum. … Yfirleitt var hann kátur og smá- kýminn, …“ (Úrfellingar og feitletranir eru mínar.)

Kann sagnaritarinn sjálfur skil á heimildum sínum?

Ég skoðaði sérstaklega hvaða heimildir Gunnlaugur Haraldsson segist nota fyrir afar smásmuglegri og leiðinlegri umfjöllun sinni um býli á Skaganum, þ.e. 4.2. Grasbýli og tómthús í Skaganum, s. 13-151, í 4. kafla handritsins.

Um þessar heimildir segir í nrmg. nr. 35, s. 13:

Auk hrepps- og kirkjubóka er hér einkum stuðst við þessar heimildir: Jarðaúttekta- og húsvirðingabækur hreppstjóra 1851-1926 (HA. O.2/E.4. 3-5); Borgfirzkar æviskrár I-XIII; Ólafur B. Björnsson 1957, s. 52-194, Ólafur B. Björnsson 1945-1959, þ.e. 123. [svo] þættir um hús og býli í Skipaskaga, sem birtust í tímaritinu Akranes á árunum 1945-1959 undir heitinu: “Hversu Akranes byggðist”, Gísli S. Sigurðsson, 2003-2011, þ.e. greinasafn í Árbókum Akurnesinga 2003-2011 um hús við Bakktún, Suðurgötu og Vesturgötu, og Þorsteinn Jónsson: Hús og býli á Akranesi (óársett handrit).

Við þessa upptalningu hef ég eftirfarandi að athuga:

Gísli S. Sigurðsson húsasmíðameistari birti vissulega greinasafn um hús við þessar götur í þeim ágætu Árbókum Akurnesinga árin 2003-2005 og 2007-2011. Í Árbók Akurnesinga árið 2006 er engin grein eftir Gísla en sagnaritara hefur yfirsést það.

Ólafur B. Björnsson, verslunareigandi með meiru, gaf út tímaritið Akranes á árunum 1942-1959 og skrifaði þætti úr sögu Akraness frá upphafi útgáfunnar. Frá miðju ári 1945 til ársins 1959 birtust alls 63 þættir undir heitinu „Hversu Akranes byggðist“. Þessir þættir eru tölusettir og vandalaust að sjá að sá 63. þeirra birtist í því eina tölublaði sem kom út árið 1959 – fleiri urðu þau ekki því Ólafur missti heilsuna og lést þann 15. maí sama ár.

Mig grunar að skýringin á því að Gunnlaugur Haraldsson heldur að þessir þættir sem hann segir vera einar af aðalheimildum sínum séu 123 talsins sé einfaldlega sú að sé sleginn inn leitarstrengurinn “Hversu Akranes byggðist” á timarit.is koma upp 122 færslur. Nenni lesandi að lesa færslurnar verður honum strax ljóst að hluti þeirra vísar í ýmis dagblöð sem birtu fréttatilkynningar um að tímaritið Akranes væri komið út og töldu upp helstu efnisþætti þess. 122 ólesnar færslur með þessum leitarstreng verða kannski að 123 þáttum með raðtölupunkti því sagnaritarinn er annars hugar? Má velta fyrir sér hve mikla alúð Gunnlaugur Haraldsson hefur lagt í verkið miðað við skráningu hans á sínum aðalheimildum!

Vel að merkja notar Ólafur B. Björnsson heilmikið af frumgögnum í sínum texta, bæði í greinaflokknum sem hann skrifaði í tímaritið Akranes og í 2. bindi Sögu Akraness sem hann skrifaði og kom út árið 1957. Sú bók er einmitt einnig meðal aðalheimilda Gunnlaugs Haraldssonar í hinum viðamikla 4. kafla, þegar sögunni víkur loksins að Akranesi sjálfu. En það var allur gangur á hvort Ólafur vísaði í heimildir þótt hann tæki orðrétt upp úr hreppsbókum, kirkjubókum o.fl. skjölum. Og raunar eru að hluta til sömu textarnir í greinaflokknum í Akranesi og í bókinni.

Þorsteinn Jónsson notar aðallega húsvirðingabækur (líklega hreppsbækur einnig) í sínu óprentaða riti Hús og býli á Akranesi, sem er óársett en skráð frá árinu 1978 í Gegni. Þetta er rit upp á 147 síður og stór hluti þess fjallar einmitt um húsakost á Akranesi á nítjándu öld. Textinn er mjög viðamikil upptalning á stærðarmálum (álnum), fjölda herbergja á ýmsum tímum o.þ.h. En Þorsteinn vísar ekki nákvæmlega í heimildir sínar. Gunnlaugur Haraldsson hefur gjarna flett upp í sömu heimildum og Þorsteinn og vísar oftast til þeirra, stundum virðist hann þó ekki hafa nennt að finna frumskjölin og vísar þá beint í Þorstein.

Stóra spurningin er: Er eitthvað nýtt í þessum fjórða kafla handritsins, þegar höfundi tekst loksins að hefja umfjöllun um sögu Akraness? Eða er hann fyrst og fremst samansuða úr öðrum áður skrifuðum sögum og sagnaþáttum af húsakosti á Akranesi á nítjándu öld, sérstaklega efni Ólafs B. Björnssonar?

Niðurstaða

Það er morgunljóst að einhver þarf að fara yfir handrit Gunnlaugs að Sögu Akraness III, stytta texta, umrita texta, bera saman við heimildir og betrumbæta mjög ef menn ætla sér í alvörunni að gefa þetta út! Nema verkkaupa, þ.e. Akraneskaupstað, langi til að fá enn og aftur ritdóminn „Hér hefur tekist herfilega til um framkvæmd og hafi þeir skömm fyrir sem að stóðu“ og verða áfram aðhlátursefni vegna sagnaritunar.

 

1) Það tók mig um fimm mínútur að fá lánaða bók og finna uppruna kvæðisins Skipaskaga: Þetta kvæði birtist upphaflega í kvæðakverinu Starkaði (undirtitill er ýmisleg ljóðmæli / eptir Símon Bjarnason Dalaskáld), útg. á Akureyri 1877. Ég hef ekki aðgang að frumheimildinni en af því þetta er svo fallegt kvæði birti ég hér útgáfu þess í Ljóðmælum eftir Símon Dalaskáld sem Rímnafélagið, Reykjavík, gaf út árið 1950. Kvæðið er á s. 186:

SKIPASKAGI

Tel ég fríðan Skipaskaga
skínandi við Ránar hvel:
drottins mundin hefir haga
hann í öllu skaptan vel.

Rennslétt mót röðli blika
rósafögur túnin þar.
Bláar hafsins kólgur kvika
kátar viður fjörurnar.

Bænda þar og bygging fögur
brosir fyrir sjónum manns.
Gnægð af fiski gefur lögur.
Grænar eru byggðir lands.

Grund á suður-fróni fegri
finnur ekki þjóðin slyng
eður mönnum yndislegri
út við breiðan foldar hring.

 

Myndina af Gamla vitanum á Skagatá tók Atli Harðarson 7. desember 2008, sjá nánar á Flickr.