Tag Archives: Ritnefnd Um Sögu Akraness

Gunnlaugi greitt árið 2013

Höfrungur á Akranesi

Hér er fjallað um þær tæpu 2 milljónir sem Akraneskaupstaður greiddi Gunnlaugi Haraldssyni fyrir sagnaritun árið 2013 og bent á ótæk vinnubrögð fulltrúa Akraneskaupstaðar í miðlun upplýsinga um verkið til bæjarbúa, umfjöllun um verkið og mati á skilum sagnaritara. Því miður er þetta sleifarlag í ágætu samræmi við fyrri vinnubrögð ritnefndar og annarra fulltrúa kaupstaðarins í langri sagnaritunarsögu Gunnlaugs.

Í Samningi um ritun Sögu Akraness – III – bindi, sem Akraneskaupstaður og Gunnlaugur Haraldsson gerðu með sér þann 22. júní 2012 var kveðið á um að Gunnlaugur fengi greiddar 14.520.000 kr. sem skipt skyldi á ákveðna verkþætti og greiðslur miðuðust við skil verka á ákveðnum tímum (5. gr.). Greiðslur voru verðtryggðar miðað við þróun launavísitölu, með grunnvísitölu í maí 2012 (5. gr.).

Svo sem fjallað var um í síðustu færslu virðist  Gunnlaugur hafa fengið greiddar 2,2 milljónir árið 2012 fyrir skil á einu A-4 blaði (Frágangur á prenthandriti III. bindis Breytt kaflaskipan og verkáætlun pr. 1. október 2012), önnur gögn hef ég ekki fengið því til sönnunar að hann hafi unnið þá tveggja og hálfs mánaðar vinnu (1. verkáfanga A) sem upphæðin var greidd fyrir. Þáverandi bæjarstjóri (ég giska á að Árni Múli Jónasson hafi náð að sjá til þessa áður en hann lét óforvarendis af störfum þann 7. nóvember 2012) og Ritnefnd um sögu Akraness hljóta einhvern veginn að hafa  samþykkt að þessi tveggja og hálfs mánaðar vinna hafi verið unnin því slíkt er áskilið í samningnum (sjá 4. og 5. gr.).  Bókað er í ótölusettri og óbirtri fundargerð Ritnefndar um sögu Akraness þann 9. júlí 2013 að verkskil hafi verið um mánaðamótin nóvember/desember 2012 og greitt hafi verið að fullu fyrir skv. samningi.

„Af fjölmörgum ástæðum ástæðum [svo] hefur verkið reynst tímafrekara …“

1. verkfáfangi B er í samningnum skilgreindur sem „9 vikna verktakagreiðsla fyrir umritun og frágang á I.-IV. kafla prenthandrits á grundvelli verkáætlunar, skv. fylgiskjali samnings nr. 2 …“ (2 tl. gr. 5) og fyrir hann átti Gunnlaugur að fá allt að 1.800.000 kr. Þetta átti að vinna á árinu 2012 og var gert ráð fyrir fjárveitingu til verksins það ár skv. samningnum en næstu verkáfangar, sem átti að vinna árin 2013 og 2014, voru háðir samþykktum í fjárhagsáætlunum Akraneskaupstaðar fyrir þau ár.

Þar sem fyrsta verk Gunnlaugs var að umturna skipulaginu sem fólst í fylgiskjölum samningsins er verkáætlunin, fylgiskjal 2 með samningnum, auðvitað marklaust plagg núna. (Eins og nefnt hefur verið fékk hann 2,2 milljónir fyrir að umturna áætluninni.) Þess í stað kemur A-4 blaðið Frágangur á prenthandriti III. bindis Breytt kaflaskipan og verkáætlun pr. 1. október 2012. Í því skjali er 1. verkáfangi B orðinn 10 vikna vinna og heitir nú:

1. verkáfangi B-endurskoðun og umritun 2012:
I. kafli Byggðarþróun og búnaðarhagir.

Í fyrrnefndri ótölusettri og óbirtri fundargerð Ritnefndar um sögu Akraness, sem ber yfirskriftina Fundur ritnefndar um sögu Akraness ásamt rithöfundi  Skilafundur, 9. júlí 2013, segir um stöðu vinnunnar:

[…]
B.  Meginhluti 1. verkáfanga B er í höfn samkvæmt verksamningi og verkáætlun frá 3. október 2012. Framlagt handrit GH, þ.e. þrír af fjórum undirköflum I. kafla samtals 365 blaðsíður með tilheyrandi töflum og skrán [svo].
C.  Frágangi 4. undirkafla (um 50 blaðsíður) mun GH ljúka í ágúst nk. að loknu sumarleyfi.
D.  Af fjölmörgum ástæðum ástæðum [svo] hefur verkið reynst tímafrekara en GH og áætlanir gerðu ráð fyrir. Fyrirsjáanlegt er að fresta þarf 2. verkáfanga fram yfir áramótin þar sem GH er bundinn í öðru verki til þess tíma. (Feitletrun er mín.)
E.  Umfang verksins hefur engin áhrif á samningsbundnar greiðslur sem byggja á framvindu og skilum GH á efni og samþykkt ritnefndar og bæjarstjóra á að skil séu fullnægjandi. GH óskar eftir að fá greiðslu 1,6 mkr. af 1,8 mkr. samningsgreiðslu við fyrsta tækifæri en eftirstöðvarnar (200.000) við fullnaðarskil handrits (4. undirkafli).
F.  Ritnefnd og bæjarstjóri munu fara yfir fyrirliggjandi handrit og taka afstöðu til beiðni GH svo fljótt sem verða má sbr. 5. gr. samningsins.

SA mun framsenda efnið á nefndarmenn ásamt fundargerð til samþykktar.

Efnið, sem þarna er nefnt, var líklega þessi 365 síðna handritsbútur sem nefndur er í lið E. Um hann segir í upphafi fundargerðarinnar:

Formaður [ritnefndarinnar] … [f]ór nokkrum orðum yfir aðdragandann og ástæður þess að ekki hafi verið haldinn fundur síðan í október sl. Hann vísaði til gagna sem Gunnlaugur hafði skilað til hans deginum áður og væru til umræðu á fundinum ásamt öðrum atriðum sem fundarmenn vildu taka upp. Efninu var ekki dreift fyrir fundinn en Gunnlaugur var með það meðferðis í útprentuðu eintaki. (Feitletrun er mín.)

Þetta var rétt rúmlega klukkustundar langur fundur. Hann sátu, auk sagnaritarans, þrír af fimm fulltrúum Ritnefndar um sögu Akraness og Steinar Adolfsson, framkvæmdastjóri hjá Akraneskaupstað sem ritaði fundargerð.

 

Hefðbundin vinnubrögð í Ritnefnd um sögu Akraness og meðferð fundargerða

Það að halda skilafund án þess að fulltrúum í Ritnefnd um sögu Akraness hafi gefist kostur á að kynna sér efni sagnaritans fyrir fundinn er gamalt bragð sem Gunnlaugur hefur oft beitt áður. Að skila ókláruðu verki hálfu ári eftir að átti að skila því er líka ágætlega í takt við vinnubrögð sagnaritarans til þessa (handritinu átti að skila árið 2012, skv. verkáætlun og 2. lið 5. gr. Samnings um ritun Sögu Akraness – III – bindi).

Það að birta aldrei fundargerðina á vef bæjarins né leggja hana fram í bæjarráði eða bæjarstjórn eru heldur ekki ný vinnubrögð þegar kemur að fundargerðum Ritnefndar um sögu Akraness. Hins vegar kann það að vera nýtt verklag að ganga ekki einu sinni eftir því að fundarmenn samþykktu hana með undirritun sinni: Það dróst nefnilega í 7 vikur að skila mér afritum því efni sem ég óskaði eftir frá Akraneskaupstað snemma í október 2014 vegna þess að þá uppgötvaði fundarritari, framkvæmdastjóri bæjarins, að gleymst hafði að láta fundarmenn samþykkja og undirrita fundargerðina og sóttist honum seint að ná í allar þær undirskriftir nú.

En ekki stóð á greiðslum

Þetta verklag við svokallaðan skilafund Ritnefndar, vinnubrögð sagnaritara, ritnefndar og og framkvæmdastjóra bæjarins, kom þó alls ekki í veg fyrir að Akraneskaupstaður greiddi Gunnlaugi Haraldssyni 1.933.276 kr. árið 2013. Má ætla að þessi greiðsla sé upphaflega 1,8 milljónin sem hann átti að fá fyrir að vinna verkið 2012, með verðbótum. Kostnaður vegna Ritnefndar um sögu Akraness árið 2013 var 51.358 kr., sem rímar við að formanni og tveimur óbreyttum nefndarmönnum hafi verið greitt fyrir að sitja þennan klukkustundar og fimm-mínútna fund 9. júlí 2013. (Saga Akraness, samantekt 2012 og 2013.)

Mögulega hafa einhverjir ritnefndarmenn farið ókeypis yfir framlagðan handritsbút Gunnlaugs Haraldssonar eftir fundinn og samþykkt hann ásamt bæjarstjóra, s.s. kveðið er á um í samningi að þurfi að gera, altént fékk hann refjalaust borgaðar tæpar tvær milljónir fyrir 365+199 framlagðar blaðsíður.

 

Heimildir

Fundur ritnefndar um sögu Akraness ásamt rithöfundi  Skilafundur, 9. júlí 2013, skjal frá Akraneskaupstað afhent mér þann 1. desember 2014;
Frágangur á prenthandriti III. bindis Breytt kaflaskipan og verkáætlun pr. 1. október 2012, skjal frá Akraneskaupstað afhent mér þann 1. desember 2014.
Saga Akraness, samantekt 2012 og 2013, skjal frá Akraneskaupstað afhent mér þann 1. desember 2014;
Samningur um ritun Sögu Akraness – III. bindi-, ásamt fylgiskjölum, skjöl frá Akraneskaupstað afhent mér þann 1. desember 2014.

Myndina af Höfrungi tók Atli Harðarson 7. júní 2014, sjá nánar á Flickr.

 

Næsta færsla fjallar um hinn dýrmæta handritsbút í Sögu Akraness III, sem Gunnlaugur hefur skilað.

Greiðslur til Gunnlaugs 2012

Kútter Sigurfari eftir Víctor Bautista

Hér verður gerð grein fyrir því fé, 2,2 milljónum, sem Gunnlaugi Haraldssyni tókst að fá greitt frá Akraneskaupstað árið 2012 og fyrir hvað hann fékk greitt en af þeim gögnum sem Akraneskaupstaður afhenti mér 1. des. 2014 að ráða virðist hann hafa uppskorið þessi laun fyrir skil á einu A-4 blaði. 1)

 Skipulagið 2012

Samningi um ritun Sögu Akraness – III. bindi – sem undirritaður var 22. júní 2012 fylgir 12 blaðsíðna skjal eftir Gunnlaug Haraldsson. Skjalið er merkt Fylgiskjal 1 og titill þess er: Saga Akraness – III. bindi. Nítjánda öldin. Efnisyfirlit (drög). Skjalið hefst þannig (ath. að allt er það skáletrað):

Hér er gefið gróft efnisyfirlit yfir handrit III. bindis. Handritið er samtals 825 blaðsíður í A-4 broti. Það var skrifað á árunum 2000-2004 sem síðari hluti I. bindis (tímabilið 1801-1850) og fyrri hluti II. bindis (tímabilið 1851-1900) skv. þágildandi útgáfuplani. Við prentvinnslu á I. og II. bindi og breytta efnisskipan ritsins var ákveðið að steypa þessu efni saman í eina heild, svo að III. bindi spanni alla 19. öldina eða tímabilið 1801-1900.

Efni III. bindis er hér skipt í 20 meginkafla í stað 40 í fyrirliggjandi handriti. …

Þessir 20 meginkaflar eru svo taldir upp í skjalinu og undirkaflar þeirra rækilega tíundaðir. Á s. 9-12 eru taldar upp fyrirhugaðar rammagreinar og myndrit (töflur, gröf og skrár).

Hvar þetta 825 bls. handrit er niðurkomið hef ég ekki hugmynd um en eins og kom fram í síðustu færslu var aldrei farið yfir það til að taka út stöðu verksins, s.s. kveðið er á um í samningnum. Kannski veit enginn hvar það er.

Skipulagið 1997

Í fyrsta samningnum sem Akraneskaupstaður gerði við Gunnlaug Haraldsson og var undirritaður þann 22. apríl 1997, var kveðið á um að Gunnlaugur ritaði 3 bindi um sögu Akraness sem spönnuðu aldirnar 1700-2000. Fyrsta bindið átti að vera Byggðasaga 1700-1900 og skiptast í fimm meginkafla:

1. Staðhættir
2. Byggðaþróun og þorpsmyndun
3. Búskaparhættir og bjargræðisvegir fyrr á tíð (ca. 1700-1900)
4. Framfærslu-, skóla-, félags- og heilbrigðismál
5. Skipting Akraneshrepps 1885.

Skilgreindir undirkaflar eru frá tveimur upp í átta.

Þessu fyrsta bindi átti að skila „eigi síðar en 1. október 1999“ (3. gr. SAMNINGS UM RITUN SÖGU AKRANESS). Gunnlaugur stóð auðvitað ekki við samninginn en var samt á prýðilegum mánaðarlaunum við sagnaritunina frá 1. apríl 1997 til 1. sept. 2001, þ.e. þann tíma sem samningurinn gilti.

Á 42. fundi Ritnefndar um sögu Akraness, þann 15. október 2001, er bókað: „Gunnlaugur gerði grein fyrir stöðu mála. Efni vegna 19. aldar er nú um 5-600 síður, en vinna þarf það efni frekar og skipta því í tvö bindi og miða við 1850. Sá tími, sem gert var ráð fyrir að færi í ritunina, er að líða og var m.a. rætt um ýmis-legt því tengt.“

Á næsta fundi, 43. fundi þann 19. nóvember 2001, er bókað (feitletrun er mín):

1. Gunnlaugur lagði fram efnisyfirlit að 1. bindi ásamt 598 síðum í handriti sem nær frá 1700 til 1850.

3. Rætt var um stöðu málsins. Ritnefndin staðfesti skil á 1. bindi verksins sbr. gildandi samning. Nefndin er sammála um að það efni sem skilað hefur verið sé gott og lofi góðu um heildarverkið …

Ritnefndin staðfesti s.s. skil á á 1. bindinu skv. samningnum, byggðasögu frá 1700-1900, þótt því hefði alls ekki verið skilað heldur 598 síðum um þrjá fjórðu tímabilsins og efnisyfirliti.

Ég rek þessa sögu ekki lengra hér, hún er rakin í Sögu Sögu Akraness  enda er þetta aðeins upphafið að skollaleik Gunnlaugs og Ritnefndar um sögu Akraness, þ.e. Gunnlaugur endurraðaði efnisþáttum og tímaskiptingu trekk í trekk, sneri skipulaginu á haus, bætti inn æ smásmugulegri undirefnisflokkum og Ritnefndin beitti sér ávallt fyrir því að gerðir yrðu nýir og nýir viðbótarsamningar við hann svo hann fengi örugglega greitt þótt litlu sem engu væri skilað. (Sjá töflu yfir aðalatriði fundargerða, s.127-140 í Sögu Sögu Akraness). Ég hef ekki minnstu hugmynd um hvar þetta 598 síðna handrit frá 2001 er niðurkomið. Kannski er það í sömu glatkistu og 825 blaðsíðna handritið sem nefnt var hér að ofan.

Snilldin að snúa til upphafsins

Víkur þá aftur að nýjasta samningnum frá 22. júní 2012,  Samningi um ritun Sögu Akraness – III. bindi –.  Í Fylgiskjali 1 (Gunnlaugs) eru fyrstu meginkaflarnir (það er ástæðulaust að telja fleiri því flestum þeirra hefur ekki verið skilað):

I. Árferði og almennir hagir
II. Íbúa- og byggðaþróun
III. Jarðeignir og búnaðarþróun
IV. Útgerðarhættir á árabátaöld
V. Breskir togarar og tröllafiskur

Í Fylgiskjali 2 er kveðið á um verkáætlun þannig:

1. verkáfangi A, skilgreindur sem 10 vikna vinna, er undirbúningur og gagnaúrvinnsla 2012, þar undir taldar 3 vikur í endurröðun og uppstokkun efniskafla;
1. verkáfangi B, 9 vikna vinna, felst í endurskoðun og umritun I.-IV.kafla (meginkafla í Fylgiskjali 1)
2. verkáfangi, 19 vikna vinna, er endurskoðun og umritun á V.-XIII. köflum verksins;
3. verkáfangi, 28 vikna vinna, er endurskoðun á XIV.-XX. köflum verksins og frágangur.

Ég feitletra hér þá tvo verkáfanga sem Gunnlaugi hefur tekist að ljúka til þessa, a.m.k. hefur hann fengið greitt fyrir að ljúka þeim.

1. verkáfanga A átti að vinna í júní til september 2012. Fyrir hann átti Gunnlaugur að fá greiddar 2,2 milljónir, þ.e.a.s. hann fékk 880.000 kr. verktakagreiðslu á mánuði. Það eru afar góð laun fyrir mann með gráðu sem samsvarar íslenskri BA-gráðu í fornleifafræði.

Skv. ótölusettri og óbirtri fundargerð Ritnefndar um sögu Akraness þann 9. júlí 2013 (væntanlega er þetta 84. fundur nefndarinnar) skilaði Gunnlaugur af sér 1. verkáfanga A um mánaðamótin nóvember/desember 2012 og fékk greiddar sínar 2,2 milljónir það ár. En fyrir hvað fékk hann greitt?

Í óbirtri 83. fundargerð Ritnefndar um sögu Akraness dags. 3. október 2012 er þess getið að Gunnlaugur hafi farið yfir verkáætlun III. bindis og skv. bókun hefur hann þá bætt einni viku við 1. verkáfanga A og dregið eina viku frá 3. verkáfanga á móti. Ekki er bókað að hann hafi skilað neinu nema afhendingarskrá yfir skjöl sem afhenda eigi Héraðsskjalasafni Akraness. Skv. samningnum 2012, gr. 3, átti hann að afhenda þessi skjöl fyrir 15. ágúst 2012 en formaður Ritnefndar um sögu Akraness afhenti þau safninu, alls 8 möppur, þann 24. október 2012.2)

Í einnar síðu fylgiskjali með næstu fundargerð (óbirtri og ótölusettri en væntanlega 84. fundur ritnefndarinnar), sem heitir Frágangur á prenthandriti II. bindis. Breytt kaflaskipan og verkáætlun pr. 1. október 2012, kemur fram sú breytta kaflaskipan og verkáætlun sem taldist 3 vikna vinna í 1. verkáfanga A. Hún felst í þessu:

  • Að vikufjölda er rutlað svolítið til, þ.e. 1. verkáfangi B er nú talinn 10 vikna vinna og í staðinn er 3. verkáfangi orðinn 27 vikna vinna;
  • Að tólf kaflar eru horfnir og má ætla að þeim hafi verið steypt saman við aðra, nema kafla XX en það kaflanúmer hefur einfaldlega verið fjarlægt þótt kaflaheitið (Rammagreinar) standi áfram.
  • Að nú er einungis einn meginkafli í 1. verkáfanga B og heitir hann Byggðaþróun og búnaðarhagir;
  • Að umritun II.- IV. kafla flyst í 2. verkáfanga (enda eru þeir ekki lengur sömu meginkaflar og í Fylgiskjali 1 með samningnum).

Engum sögum fer af endurvinnslu myndrita (3 vikna vinnu) og úrvinnslu frumheimilda sem safnað var frá 2005-2011 (4 vikna vinnu) sem voru hinir verkþættirnir í þessum 1. verkáfanga A. Ég vísa enn og aftur í staðfestingu formanns Ritnefndar um sögu Akraness, Jóns Gunnlaugssonar, í tölvupósti til mín þann 8. des. 2014, um að allt starf nefndarinnar sé bókað í fundargerðum hennar. Það virðist því morgunljóst að engin gögn sem staðfesti þessa 7 vikna vinnu sagnaritarans hafi nokkru sinni verið lögð fram. Þriggja vikna vinnunni hefur hins vegar verið gerð skil á einu A-4 blaði og verður að teljast einkar hægt unnið að eyða þremur vikum í að upphugsa þá breyttu kaflaskipan og færslu um eina viku milli vinnuþátta.

Þrátt fyrir að hafa sett mig vel inn í fyrri brögð og glímur Gunnlaugs við stjórnsýslu Akraneskaupstaðar sem einatt hafa snúist um að fá greitt fyrir verk sem ekki er skilað verð ég að telja viðskiptin árið 2012 einstakt afrek, meira að segja miðað við hann. Mætti margur sagnaritarinn öfunda hann af velgreiddu einu A-4 blaði!

Endurskoðunin er og dæmigerð fyrir vinnubrögð Gunnlaugs gegnum tíðina:

Í SAMNINGI UM RITUN SÖGU AKRANESS, sem skrifað var undir 22. apríl 1997, var samið um að fyrsta bindið af þremur sem Gunnlaugur skyldi skrifa væri Byggðarsaga 1700-1900, sem skiptist í 5 meginkafla (sjá efst í þessari færslu) og átti ritun þess og myndaöflun að vera lokið eigi síðar en ágúst-september 1999. Síðan bólgnaði verkið út eftir því sem árin liðu, hluta þess taldist skilað árið 2001 en var þó eigi fullklárað og um það leyti sem Gunnlaugur gengur til samninga við Akraneskaupstað að tilstuðlan Árna Múla Jónassonar þáverandi bæjarstjóra vorið 2012 er Saga Akraness III (sem dekkar tímabilið 1801-1900) orðin að 40 meginkafla verki í 825 blaðsíðna handriti. Í Fylgiskjali 1 með samningnum sem var undirritaður 22. júní 2012 var meginköflum fækkað ofan í 20. Í endurskoðun þeirri sem taldist vinna við 1. verkáfanga A var meginköflum fækkað ofan í 8 meginkafla. Skiptingin í þá meginkafla færist nær  meginkaflaskiptingunni í samningnum 1997 og mætti  segja að nú væri verið að loka miklum skipulagshring. Fyrir þessa endurskipulagningu fékk Gunnlaugur 2,2 milljónir króna greiddar frá Akraneskaupstað.

 

Næst verður fjallað um greiðslur Akraneskaupstaðar til Gunnlaugs Haraldssonar árið 2013

 


 

1) Óskað var eftir öllum gögnum sem tengdust samningnum við Gunnlaug Haraldsson og sagnaritun hans. Það tók Akraneskaupstað 7 vikur að afgreiða erindið svo ætla má að vandað hafi verið til verksins og engin frekari gögn liggi fyrir. Formaður Ritnefndar um sögu Akraness, Jón Gunnlaugsson, staðfesti í tölvupósti til mín þann 8. desember að allt starf ritnefndarinnar væri bókað í fundargerðum sömu nefndar og þær hef ég.

2) Þau 8 bréfabindi (möppur) úr fórum Gunnlaugs sem nú er að finna á Héraðsskjalasafni Akraneskaupstaðar innihalda ljósrit af obbanum af því sem hann telur upp sem óútgefnar heimildir í heimildaskrám við Sögu Akraness I og Sögu Akraness II, auk handrits Jóns Böðvarssonar að Akranesi II og ýmiss drasls úr eigu Gunnlaugs. Magnið er ekki í neinu samræmi við fyrri yfirlýsingar sagnaritarans, sem hefur orðið tíðrætt um sína miklu og ómetanlegu heimildasöfnun og skulu hér nefnd tvö dæmi:

Heimildaöflun og úrvinnsla þeirra hefur reynst langtum tafsamari og tímafrekari en mig óraði nokkru sinni fyrir, og hafði þó talsverða reynslu að byggja á í þessum efnum. Hér er í fyrsta lagi um að ræða skjalleg gögn af öllum hugsanlegum toga sem einkum eru varðveitt í skjalasöfnum í Reykjavík og á Akranesi (t.d. gjörðabækur hreppstjóra, sveitarstjórnar, einstakra nefnda, félagasamtaka og fyrirtækja, sýslumanna og sýslunefnda, amtmanns, landshöfðingja og fleiri embætta stjórnsýslunnar, bréfabækur, bréfadagbækur, bréf og hverskyns gjörningar sömu aðila og einstaklinga, jarðaskjöl, dagbækur, örnefnalýsingar, o.s.fv., o.s.frv.). Í annan stað allt prentað og útgefið efni (bækur, skýrslur, dagblöð, tímarit o.s.frv.) þar sem Akraness er í einhverju getið, – og í þriðja lagi munnlegar heimildir og frásagnir núlifandi manna. Allar þær frumheimildir sem ég hef getað leitað uppi í skjalasöfnum, s.s. Þjóðskjalasafni, hef ég látið ljósrita til að vinna úr í starfstöð minni. Það heimildasafn telur nú um 100 bréfabindi eða tugþúsundir blaðsíðna og mun síðar varðveitast í Héraðsskjalasafni Akraness og verða aðgengilegur gagnabanki þeim sem síðar kynnu að vilja grúska í afmörkuðum viðfangsefnum.
(Gunnlaugur Haraldsson. 25. febrúar 2005. „Meint ritstífla brestur“ á spjallþræði Akraneskaupstaðar. Skoðað 15. júní 2011. Af því að Akraneskaupstaður hefur sett upp nýja heimasíðu og láðst að hafa þá eldri aðgengilega er ekki lengur hægt að skoða þennan spjallþráð.)

[Um starfsstöð sagnaritarans í Gufunesi]: Auk fjölda fræðirita er þarna til dæmis hátt í 200 bréfabindi með ljósritum skjala sem tengjast sögu Akraness, um 500 síður í hverju bréfabindi. Þessi gögn hefur söguritari leitað uppi í skjalasöfnum, pælt í gegnum þau, afritað og slegið inn í tölvu, sumt stafrétt en gert útdrátt úr öðrum, og jafnvel þýtt gömul embættisskjöl úr dönsku.
(„Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar. Spjallað við Gunnlaug Haraldsson ritara Sögu Akraness“. Skessuhorn 13. apríl 2011, s. 14. Viðtalið tók Þórhallur Ásmundsson blaðamaður.)

Myndina af Kútter Sigurfara tók Víctor Bautista 12. júní 2010. Tengt er í myndina á Flickr.

 

Þyrnirósar-ritnefndin og Saga Akraness

kindur_i_hrutatungurett

Hér er fjallað um langvarandi sofandahátt Ritnefndar um Sögu Akraness og spurt hvort þriðji grunnsamningurinn sem Akraneskaupstaður gerði við Gunnlaug Haraldsson sagnaritara teljist  gildur samningur þar sem forsendur þess að hann tæki gildi voru aldrei uppfylltar. (En, s.s. fjallað verður um síðar, kom það ekki í veg fyrir að Akranesbær greiddi sagnaritaranum vegleg laun árin 2012 og 2013.)

Í síðustu færslu var þess getið að Ritnefnd um Sögu Akraness átti að fara yfir og taka út fyrri vinnu Gunnlaugs Haraldssonar við bindi III og samningurinn sem skrifað var undir þann 22. júní 2012 ekki að „öðlast endanlega samþykkt af hálfu Akraneskaupstaðar nema ritnefnd hafi afgreitt hana með jákvæðum hætti sem grundvöll fyrir samningum í heild sinni“ (4. gr., s. 2 í Samningi um ritun Sögu Akraness – III bindi –).

Þessi fyrri vinna Gunnlaugs hafði raunar verið rækilega greidd, jafnvel metin, á sínum tíma, því í fyrsta samningnum sem gerður var við hann, 1997, var tilskilið að hann skyldi byrja á að skrifa bindi um byggðasögu Akraness 1700-1900 og því bindi átti hann að skila í síðasta lagi 1. október 1999. (Núverandi III bindi á að fjalla um sögu Akraness 1800-1900.) Ritnefnd um sögu Akraness, undir forystu Gísla Gíslasonar þáverandi bæjarstjóra, staðfesti skil á þessu bindi þann 19. nóvember 2001, svo sem segir í 3. lið þeirrar fundargerðar:

3. Rætt var um stöðu málsins. Ritnefndin staðfesti skil á 1. bindi verksins sbr. gildandi samning. Nefndin er sammála um að það efni sem skilað hefur verið sé gott og lofi góðu um heildarverkið. Nefndin telur mikilvægt að verkinu verði haldið áfram og leggur til við bæjarráð að samningur bæjarins við söguritara verði framlengdur.

Það er áhugavert í þessu sambandi að í ritnefndinni, sem staðfesti síðla árs 2001 skil á handriti að byggðasögu Akraness 1700-1900 svo Gunnlaugur Haraldsson gæti fengið vel greitt fyrir það verk og framlengdan samning um meiri greiðslur, sat einmitt Hrönn Ríkharðsdóttir, sú hin sama og samþykkti í bæjarráði snemma vors 2012 að greiða Gunnlaugi Haraldssyni 14,5 milljón fyrir að ganga frá handriti að sögu Akraness 1800-1900. Í þriggja manna bæjarráðinu sem samþykkti viðbótarsamning við Gunnlaug í samræmi við þessa hvatningu ritnefndarinnar þann 20.12. 2001 sat einmitt Guðmundur Páll Jónsson og má því ætla að honum hafi verið kunnugt um að staðfest hafi verið skil á efninu þegar hann greiddi atkvæði sitt í bæjarráði snemma vors 2012 að greiða Gunnlaugi Haraldssyni aftur fyrir að ganga frá sama handriti.

Í síðari hluta bloggfærslu minnar, Verður tilbúið næsta sumar. Ég hef alveg þokkalega samvisku.  (17. júní 2011) eru raktar misvísandi upplýsingar sagnaritarans, útgefanda Sögu Akraness I og II, formanns Ritnefndar um sögu Akraness o.fl. um hvort III bindið sé tilbúið, hversu tilbúið það sé eða hvort það sé kannski ekki tilbúið.

Fyrirskipuð úttekt Ritnefndar um Sögu Akraness 2012

Ég óskaði eftir upplýsingum frá síðasta formanni Ritnefndar um Sögu Akraness, Jóni Gunnlaugssyni, um hvort sú úttekt og mat á vinnu sagnaritara við III bindi sem kveðið er á um í Samningi um ritun Sögu Akraness – III bindi – hefði farið fram og þá með hvaða hætti. Í svari hans, tölvupósti til mín þann 8. des. 2014, staðfestir Jón einfaldlega að öllu starfi ritnefndarinnar sé lýst í fundargerðum hennar.

Til eru tvær fundargerðir Ritnefndar um sögu Akraness sem aldrei hafa birst opinberlega, önnur frá 3. október 2012 (83. fundur nefndarinnar) og hin frá 9. júlí 2013 (ótölusettur en væntanlega 84. fundur nefndarinnar). Í þessu sambandi er rétt að geta þess að allar fundargerðir nefnda Akraneskaupstaðar eiga að liggja frammi á vef bæjarins nema um trúnaðarmál sé að ræða. Fundargerðir Ritnefndar um sögu Akraness geta engan veginn fallið undir trúnaðarmál en það er svo sem ekkert nýtt að Akraneskaupstaður reyni að fela þær sjónum almennings.

Af óbirtri fundargerð ritnefndarinnar þann 3. okt. 2012 er ekki hægt að ráða að neitt starf hafi farið fram í ritnefndinni eftir að samningurinn við Gunnlaug var undirritaður þann 22. júní sama ár. Allir fimm nefndarmennirnir voru viðstaddir þennan fund, auk Árna Múla Jónassonar bæjarstjóra, Jóns Pálma Pálssonar bæjarritara og sagnaritarans Gunnlaugs Haraldssonar.

Ritnefndin kemur ekkert við sögu á þessum fundi nema formaður setti fund (liður 1 í fundargerð) og sleit honum.

Bókað er að Árni Múli hafi farið yfir „þá vinnu sem unnin hafi verið varðandi verksamning við söguritara um áframhald á Sögu Akraness“ (liður 2); Jón Pálmi útskýrði samninginn lið fyrir lið (liður 3); Gunnlaugur Haraldsson lagði fram skrá yfir gögn í átta möppum sem ætti að afhenda Héraðsskjalasafni Akraness (liður 4) og fór yfir verkáætlun III bindis (liður 5). Í lið 6 í fundargerð segir: „Ákveðið að hafa stöðufund í lok nóvember“ og svo er fundi slitið.

Nóvemberfundurinn fyrirhugaði var aldrei haldinn. Bókaður kostnaður Akraneskaupstaðar vegna Ritnefndar um sögu Akraness árið 2012 er 96.109 kr., sem passar við nefndarlaun þessara fimm sem mættu á fundinn 3. okt. 2012 og þeirra tveggja nefndarmanna sem höfðu mætt á fund 23. mars sama ár (en um hann var fjallað í síðustu færslu, þótt næsta lítið verði ráðið af ör-fundargerð hans).

Niðurstaðan er því sú að Ritnefnd um sögu Akraness hafi aldrei metið eða tekið út vinnu Gunnlaugs Haraldssonar við III bindið sem átti að vera forsenda þess að samningurinn öðlaðist gildi. Og þá vaknar auðvitað spurning um hvort samningur Akraneskaupstaðar og Gunnlaugs Haraldssonar frá 2. júní 2012 sé gildur samningur eða bara gamniplagg til að fóðra greiðslur til sagnaritarans?

Þyrnirósarsvefn Ritnefndar um sögu Akraness

Í rauninni er algerlega óskiljanlegt hvaða hlutverki Ritnefnd um sögu Akraness hefur átt að gegna í þau 26 ár sem hún hefur starfað því hún hefur aldrei axlað neina ábyrgð á verkinu né sýnt nokkurn lit á að leita eftir sérfræðiaðstoð, t.d. sagnfræðings, til að meta verk og verklag sagnaritara. Hins vegar hefur þetta löngum verið dýrasta nefnd bæjarfélagsins í þeim skilningi að hún hefur haldist fjölskipaðri en aðrar nefndir í fjölda ára.

Fyrsta áratuginn sem ritnefndin starfaði var ofurlítið líf í henni, þ.e.a.s. hún lagði sig nokkuð í líma við að vera andstyggileg við þáverandi sagnaritara. (Þetta er rakið í plagginu Sögu Sögu Akraness og verður ekki tíundað frekar hér.) Seinni sextán árin sem Ritnefnd um sögu Akraness hefur starfað virðist nefndin hafa gegnt hlutverki Þyrnirósar: Sofið og beðið eftir að prinsinn birtist (eða skilaði einhverju af sér). Þyrnirós svaf í heila öld en ritnefndin hefur eytt 70 mannárum í svipaða iðju. Þyrnirós var launalaus prinsessa en ritnefndarmenn hafa þegið prýðileg laun í 26 ár. Þyrnirós fékk prinsinn sinn að lokum en Saga Akraness er enn óskrifuð. (Þótt vissulega sé búið að framleiða mikinn glanspappír í að skrifa sögu Hvalfjarðarsveitar í annað og þriðja sinn, ævintýralegar fabúleringar um fyrsta íslenska óskráða dýrlinginn og uppruna Bresasona, sem og valda endursagnarparta úr Íslandssögunni, með samþykki sofandi ritnefndarinnar, er ekki enn komið þar sögu hjá Gunnlaugi Haraldssyni að Akranes sé annað en örfá örreytiskot sem fáum sögum fer af.)

 

Sem betur fer hefur sú bæjarstjórn sem tók við völdum hér á Skaganum sl. vor ekki skipað í Ritnefnd um sögu Akraness og má vona að ritnefndin verði ekki ræst til starfa í náinni framtíð – til þess eins að vera stungin svefnþorni á ný.

 

Óbirt gögn sem vísað er til í þessari færslu eru fengin frá Akraneskaupstað þann 1. desember 2014, þ.e. tvær fundargerðir Ritnefndar um sögu Akraness, samantekt á greiðslum vegna Sögu Akraness árin 2012 og 2013 og Samningur um ritun Sögu Akraness – III bindi -.

Myndin er af kindum í Hrútatungurétt, tekin af Atla Harðarsyni þann 8. september 2012.

Gengið til samninga við Gunnlaug

hofrungur_i_dumbungi

Hér verður fjallað um aðdraganda nýjasta samnings Akraneskaupstaðar við Gunnlaug Haraldsson um ritun þriðja bindis Sögu Akraness og örlítið um samninginn sjálfan. Í næstu færslu verður gerð grein fyrir efndunum.

Aðdragandinn

Ritnefnd um sögu Akraness kom saman þann 23. mars 2012.  Raunar er álitamál hvort ritnefndin sjálf kom saman því formaður hennar og tveir aðrir nefndarmenn boðuðuð forföll, einungis tveir óbreyttir nefndarmenn mættu á fundinn. En maður kemur í manns stað og fundurinn var ekkert sérlega fámennur þrátt fyrir fjarveru meirihluta ritnefndar. Fundinn sátu nefnilega einnig Árni Múli Jónasson bæjarstjóri (sem tók pokann sinn í nóvemberbyrjun sama ár); Jón Pálmi Pálsson bæjarritari (sem tók við af Árna Múla sem bæjarstjóri en tók pokann sinn um miðjan desember sama ár); Kristján Kristjánsson, útgefandi (en bókaforlagið hans, Uppheimar, lagði upp laupana á liðnu ári) og Gunnlaugur Haraldsson söguritari. (Gunnlaugi farnaðist að venju vel í fjárhagslegum samskiptum við Akraneskaupstað allt til þessa árs en ekki er gert ráð fyrir að spreða í hann neinum peningum í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2015.)

Fundargerð Ritnefndarinnar er vægast sagt varlega orðuð þegar þessum klukkutíma og korters langa fundi er lýst:

Fyrir tekið:
1. Saga Akraness, 3. bindi
Farið var yfir stöðu málsins, bæði út frá fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar svo og mögulegri aðkomu söguritara að verkinu á næstu mánuðum.

Aðilar málsins munu skoða málið nánar á næstu dögum.

Mér er ekki ljóst hvaða aðilar málsins skoðuðu málið nánar en ég giska á það hafi verið þeir sem mættu á þennan fund og ekki sátu í Ritnefndinni. Sú nefnd hélt ekki aftur fund fyrr en í október 2012 og í fundargerð hans er þess ekki getið að ritnefndarmeðlimir hafi innt nein störf af hendi í millitíðinni.

Líklega hefur Árni Múli Jónasson bæjarstjóri verið sá sem var mest áfram um að gera frekari samninga við Gunnlaug Haraldsson um sagnaritun. Stórkarlalegar yfirlýsingar Árna Múla um ágæti fyrri bindanna tveggja af Sögu Akraness og viðbrögð við gagnrýni á þau benda til þess að hann hafi gerst sérlegur verndari (patrón) sagnaritarans fljótlega eftir að hann tók við starfi bæjarstjóra hér.

Niðurstaðan af þessari skoðun „aðila málsins“  á málinu  varð að útbúa nýjan samning við sagnaritarann. Sá samningur var lagður fram í bæjarráði þann 22. júní 2012  og bæjarráð samþykkti hann.  Ástæða þess að það dugði að þriggja manna bæjarráð samþykkti þetta er auðvitað sú að bæjarstjórn starfaði ekki – hún fór í sumarleyfi tíu dögum fyrr.

Í bæjarráði sátu:

  • Guðmundur Páll Jónsson, formaður bæjarráðs. Guðmundur Páll hafði greitt atkvæði sitt með fyrri samningum og viðbótarsamningum við Gunnlaug Haraldsson frá upphafi, 1997, og setið í Ritnefnd um sögu Akraness um tíma. Guðmundur Páll lýsti og mikilli hrifningu á merkri uppgötvun sagnaritans á uppruna landnámsmanna hér á Skaganum, sjá bloggfærsluna glæsilegasta byggðarit og rit um sögu byggðarlags sem búið hefur verið til, 9. júní 2011.
  • Hrönn Ríkarðsdóttir, varaformaður bæjarráðs. Hrönn hafði stutt fyrri samninga og viðbótarsamninga við sagnaritarann frá því hún tók sæti í bæjarstjórn árið 2002. Hún sat í Ritnefnd um sögu Akraness frá upphafi, 1987 (en í þeirri ritnefnd sat Gunnlaugur Haraldsson einmitt til ársins 1990), til ársins 2002.
  • Þröstur Þór Ólafsson aðalmaður. Þröstur sat einungis eitt kjörtímabil í bæjarstjórn og virðist aldrei hafa gert neinar athugasemdir við greiðslur vegna sagnaritunar bæjarins ef marka má fundargerðir bæjarráðs og hljóðupptökur af bæjarstjórnarfundum.

Á þessum fundi bæjarráðs lét áheyrnarfulltrúi minnihlutans, Einar Brandsson bæjarfulltrúi sjálfstæðisflokksins, bóka þá athugasemd að vegna fjárhagsstöðu Akraneskaupstaðar væri ekki forsvaranlegt að ganga til samninga um ritun III. bindis Sögu Akraness. Sú bókun skipti auðvitað engu máli og samdægurs skrifaði Jón Pálmi Pálsson undir Samning um ritun Sögu Akraness – III bindi – fyrir hönd Akraneskaupstaðar, að fyrirmælum bæjarráðs.

Samningurinn

Þessi samningur var þriðji grunnsamningurinn sem Akraneskaupstaður hefur gert við Gunnlaug Haraldsson um sagnaritun. (Hinir eru frá 23. apríl 1997 og 30. nóvember 2006. Auk þess hafa sömu aðilar gert með sér 4 viðaukasamninga gegnum tíðina. Gunnlaugur stóð ekki við neinn þessara fyrri grunn- og viðbótarsamninga, sjá Sögu Sögu Akraness.)

Samingur um ritun Sögu Akraness – III. bindi-, undirritaður 22. júní 2012, sker sig ekki tiltakanlega úr hinum samningunum: Kveðið er á um ákveðna skiladaga verkhluta og að greiðslur fyrir verkið séu háðar skilum eins og tíðkast hefur í hinum samningunum; Launakjör Gunnlaugs eru góð, jafnvel enn betri en fyrr; Ritnefndin á að hafa eftirlit með verkinu eftir því sem því vindur fram o.s.fr. Það er bara tvennt sem má telja alger nýmæli í þessum þriðja grunnsamningi:

1. Hluti samningsins er upp á krít. Alls er samið um 14.520.000 kr. greiðslu fyrir að ganga frá III. bindi á þremur árum svo það sé tækt til útgáfu árið 2015 en sérstaklega tekið fram: „Verkþættir skv. 3. og 4. tl. og fjárveiting til þeirra árin 2013 og 2014 eru með fyrirvara um að fjárveiting til þeirra verði veitt í fjárhagsáætlun hvors árs um sig“ (5. grein, s. 3 í Samningi um ritun Sögu Akraness – III – bindi).

2. Það á að skoða og meta fyrri vinnu sagnaritara við þetta bindi og samningurinn tekur ekki gildi fyrr en þetta hefur verið gert: „Við upphaf verks skal ritnefnd um Sögu Akraness yfirfara og gera nauðsynlega úttekt á stöðu verksins í samvinnu við söguritara. Slík úttekt er forsenda samningsins og öðlast hann ekki endanlega samþykkt af hálfu Akraneskaupstaðar, nema ritnefnd hafi afgreitt hana með jákvæðum hætti sem grundvöll fyrir samningnum í heild sinni“ (4. gr., s. 2 í Samningi um ritun Sögu Akraness – III bindi –).

 

Hér verður látið staðar numið í bili en í næstu færslu fjallað nánar um launakjör, greiðslur, skil og efndir þessa samnings.

 

Samningur um ritun Sögu Akraness – III bindi er fenginn frá Akraneskaupstað þann 1. des. 2014.

Myndin sem fylgir færslunni er af Höfrungi og tekin af Atla Harðarsyni 6. ágúst 2008.