Tag Archives: Melankólía

Sjö melankólískir Suðurnesjamenn?

Þessi færsla er framhald af Vísindaleg rannsókn á þunglyndi karla. Hér verður fjallað örlítið um kortisólpróf/greiningu til að mæla m.a. þunglyndi, sögu þess og af hverju aðferðin var þögguð niður.

Melankoli eftir Edvard Munch, málið 1894

Melankoli eftir Edvard Munch, málið 1894

Kortisól, DST-próf og mæling kortisóls í munnvatnssýnum

Kortisól er sterahormón sem er framleitt í berki nýrnahettanna. Það er oft kallað „stress-hormónið“ því framleiðsla þess eykst við álag og dægursveiflur þess í blóði geta verið miklar. Áhrif kortisóls eru margvísleg, m.a. hefur það áhrif á blóðþrýsting og efnaskipti.

Til er alvarlegur krankleiki sem nefnist heilkenni Cushings og stafar af ofgnótt kortisóls. Ein aðferðin til að greina þetta heilkenni með vissu er að sprauta 1 mg af dexametasóni (sykurstera) í sjúkling seint að kvöldi og mæla kortisól í blóði morguninn eftir. Ef kortisólið mælist hátt eru yfirgnæfandi líkur á að hann sé haldinn Cushings heilkenni. Þessi prófun kallast dexamethasone suppression test (DST). Flestir aðrir mælast nefnilega með lágt kortisól að morgni, líka eftir svona DST próf. (Rafn Benediktsson, án ártals).

Nýleg aðferð til hins sama er að safna munnvatnssýnum í sólarhring og greina í þeim kortisólið: Um miðnætti eru kortisól-gildi í sjúklingum með Cushing heilkenni marktækt hærri en í heilbrigðu fólki (Diagnosis and Treatment of Cushing’s syndrome, án ártals).

Caroll og kortisólmæling til að greina melankólíu

Árið 1968 komst ástralski geðlæknirinn Barney Carroll að því að DST-prófið væri örugg mæling á ákveðinni gerð þunglyndis, þess þunglyndis sem öldum saman var kallað melankólía. Hann birti niðurstöður sínar í British Medical Journal (Caroll 1968). Þessar niðurstöður vöktu nokkra athygli á áttunda áratug síðustu aldar en svo fjaraði áhuginn út, af ástæðum sem tengjast þróun Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders (DSM). Samt var þetta öruggt próf og sýndi með óyggjandi hætti að líffræðilega stafar melankólía af öðru en annars konar þunglyndi því prófið virkaði ekki á neitt annars konar þunglyndi eða sjúkdóma sem líktust þunglyndi (Shorter 2012).

Í greininni Saliva cortisol and male depressive syndrome in a community study. The Sudurnesjamenn study (Sigurdsson o.fl. 2013) er ein tilvísun í Carroll 1976 og vitnað er með óbeinum hætti í gagnsemi uppgötvunar hans í yfirlitsgrein (Christensen og Kessing 2001) þar sem því er haldið fram að DST próf Carroll hafi ekki virkað sem skyldi. Höfundar yfirlitgreinarinnar vitna máli sínu til stuðnings í Carroll o.fl. 1981 en hafa misskilið textann því skv. útdráttum úr þeirri grein (ég hef ekki aðgang að greininni í heild) virkaði prófið ágætlega til að greina melankólíu, sem á þeim tíma var oftast innifalin í safni þeirra þunglyndissjúkdóma sem kölluðust innlæg geðlægð. Að mínu mati hefði verið skynsamlegt fyrir íslensku höfundana að skoða frumheimild í stað þess að taka athugasemdalaust upp misskilning Christensen og Kessing í yfirlitsgreininni.

Áhrif DSM

Ástæða þess að uppgötvun Carroll féll nánast í gleymskunnar dá var að það var ekki hagkvæmt og heppilegt fyrir geðlæknisfræði og geðlækna að horfast í augu við að til væri afmörkuð tegund þunglyndis, sem hefði líffræðileg sérkenni, þ.e.a.s. að hægt væri að greina sjúkdóminn með líffræðilegum aðferðum á nánast óyggjandi hátt. Melankólía hefur um aldir verið talin grafalvarlegur sjúkdómur en „því miður“ er hún ekki algengur sjúkdómur. „Því miður“ er í þessu samhengi séð frá sjónarhóli lyfjafyrirtækja sem hafa haft beinan hag af því að sem flestir væru greindir þunglyndir og hafa haft ómæld áhrif á skilgreiningar alls konar þunglyndis sem einungis verður greint með huglægum hætti, stundum dulbúnum sem mælikvörðum en jafn huglægt fyrir því. Þessi áhrif hefur lyfjaiðnaðurinn einkum haft gegnum DSM (Shorter 2012). Þau rit, einkum DSM-IV og DSM-5, eru biblíur og guðspjöll geðlækna um allan heim, þar á meðal íslenskra. Um þetta sameiginlega afrek lyfjaiðnaðarins og geðlækna verður fjallað í næstu færslu.

 

En það hvarflar svona aðeins að mér að hinir sjö þunglyndu lyfjalausu Suðurnesjamenn sem skiluðu munnvatnssýnum með vel háu kortisóli undir kvöld og síðla kvölds (Sigurdsson o.fl. 2013), hafi, þegar allt kemur til alls, ekki þjáðst af sérstöku nýuppgötvuðu karlaþunglyndi heldur af gamaldags velþekktri melankólíu. Það væri í fullu samræmi við uppgötvun Carroll árið 1968 og kæmi kyni ekkert við.

Heimildir

Diagnosis and Treatment of Cushing’s syndrome, án ártals. Stanford School of Medicine.

Carroll, B. J., Martin, F. I. R., & Davies, B. 1968. Resistance to suppression by dexamethasone of plasma 11-OHCS levels in severe depressive illness. British Medical Journal 3(5613), s. 285-297.

Carroll, Bernard J; Feinberg, Michael; Greden, John F.; Tarika, Janet; Albala, A. Ariav; Haskett, Roger F.; James, Norman; Kronfol, Ziad; Lohr, Naomi; Steiner, Meir; De Vigne, Jean Paul; Young, Elizabeth. 1981. A specific laboratory test for the diagnosis of melancholia: Standardization, validation, and clinical utility. Archives of General Psychiatry 38(1), s. 15-22.
Útdrætti úr greininni má sjá hér og hér .

Christensen MV, Kessing LV. 2001. The hypothalamo-pituitary-adrenal axis in major affective disorder: a review. Nordic journal of psychiatry 55(5), s. 359–363.

Rafn Benediktsson. Nýrnahettur. Innkirtlasjúkdómar: vefsíða fyrir læknanema. Án ártals.

Shorter, Edward. 2013. How Everyone Became Depressed: the Rise and Fall of the Nervous Breakdown. New York, Oxford University Press.

Sigurdsson, B., Palsson, S. P., Johannsson, M., Olafsdottir, M., & Aevarsson, O. 2013. Saliva cortisol and male depressive syndrome in a community study. The Sudurnesjamenn study. Nordic journal of psychiatry, 67(3), s. 145-152.