Tag Archives: íðorð í Læknisfræði

Þrenndartaugarverkur/vangahvot: Saga orðanna

Þetta er fimmta færsla í færsluflokki um þrenndartaugarverk. Hinar eru, í tímaröð:

1. Þrenndartaugabólga eða vangahvot;
2. Lyfjameðferð við þrenndartaugabólgu;
3. Þrenndartaugin og inngrip gegn þrenndartaugabólgu
4. Skurðaðgerðir og aðrar aðgerðir í eða við þrenndarhnoða

(Og ein söguleg færsla, Konustráið hans Péturs og greifynjan af Norðimbralandi.)

Það er rétt að geta þess að ég sé að orðið þrenndartaugabólga, sem ég hef notað í þessum færslum, er ekki heppilegt orð yfir trigeminal neuralgia, því engin er bólgan. Mér sýnist að þrenndartaugarverkur sé heppilegra orð og breyti heitunum þegar ég set færslurnar upp í vef. Ekki er vænlegt að breyta fyrirsögnum færsla löngu eftir að þær voru birtar því það ylli vandkvæðum í leitarvélum á Vefnum.

Þessi færsla fjallar um þau orð sem notuð hafa verið yfir sjúkdóminn og einnig hvernig greint er milli þrenndartaugarverks og þrenndartaugarkvilla.

Latneskir og grískir stofnar

Latneska heitið á þrenndartaugarverk er neuralgia trigemini.

Þrenndartaugin sjálf heitir nervus trigeminus á latínu. Karlkyns nafnorðið nervus þýðir taug og trigeminus stendur þarna sem lýsingarorð í nefnifalli. Nafnorðið trigeminus (kk.) þýðir þríburi (en stjörnumerkjafróðir lesendur kannast sjálfsagt við geminus (gemini í ft.) sem þýðir tvíburi).

Taugin heitir því, í beinni þýðingu latínunnar, þríburataug. Það var hún og kölluð í elsta orðasafninu þar sem ég finn hana nefnda, í Fylgiriti Árbókar Háskóla Íslands, 1937, s. 92. Fylgiritið er eftir Guðmund Hannesson og heitir NOMINA ANATOMICA ISLANDICA: ÍSLENZK LIFFÆRAHEITI.

Í sjúkdómsheitinu neuralgia trigemini, sem er miðaldalatína, er búið að skeyta saman grísku orðunum neûron (νεῦρον) og algos (ἄλγος). Neuron þýðir taug og algos þýðir þjáning eða kvöl, afleidda orðið algia þýðir hið sama, stundum þó líðan og jafnvel þrá (eins og sést í orðinu nostalgía, sem þýðir bókstaflega þrá eftir að komast heim).

Bein þýðing á neuralgia trigemini væri því væntanlega þríburataugarkvöl.

Íslensk orð

Líklega hafa menn ekki haft neitt íslenskt orð yfir neuralgia trigemini fyrr en laust fyrir síðustu aldamót. Til þess bendir m.a. þýdd grein í Lesbók Morgunblaðsins 5. apríl 1959, s. 181, þar sem gamalt franskt-enskt heiti sjúkdómsins, tic douloureux, er notað. Ítarleg leit í Ritmálssafni Orðabókar Háskóla Íslands og á timarit.is hefur ekki skilað neinum gömlum dæmi um íslensk heiti á þessum kvilla.

Í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar eru gefin upp íðorðin þrenndartaugarverkur og vangahvot, sem þýðing á enska sjúkdómsheitinu trigeminal neuralgia.

Ég veit ekki hvenær þrenndartaug náði fótfestu á kostnað þríburataugar en giska á að ekki sé langt síðan. Í Nomina Anatomica: Líffæraheiti. (1996.) Ritstjóri Magnús Snædal. Reykjavík: Heimskringla. Háskólaforlag Máls og menningar, er þrenndartaug gefin sem íslensk þýðing á Nervus trigeminus. Í auglýsingu lyfjafyrirtækja, sem birtist víða haustið 2000, segir hins vegar [um Tegretol]: „1967 Nýtt lyf, karbamazepín kemur á markað. Vinnur gegn verkjum í svonefndri þríburataug og vissum tegundum flogaveiki.“ Hér er vísað í auglýsinguna í Morgunblaðinu 23. sept. 2000, s. 17.

Það kann að valda þessum ruglingi á orðanotkun kringum aldamótin síðustu að skv. fyrrnefndum Orðabanka Íslenskrar málstöðvar er orðið þrenndartaug notað í Íðorðasafni lækna en þríburataug í Líforðasafni, þ.e. orðasafni líffræðinga.

Íslenska íðorðið vangahvot hýtur að vera fremur nýtt af nálinni en virðist ryðja sér óðum til rúms sem heiti á neuralgia trigemini. Ég finn engin dæmi um orðið eldri en um síðustu aldamót og það er ekki að finna í Ritmálssafni Orðabókar Háskóla Íslands. En í  ICD-10 kóðanum, þ.e. þeim sjúkdómaflokkunarkóða sem ísl. heilbrigðiskerfi notar, er einungis vangahvot gefið sem þýðing á ensku heitinum trigeminal neuralgia eða tic doloureux. Númer sjúkdómsins er G50.0.

Vangahvot er alveg sérstaklega illa heppnað íðorð að mínu mati. Í fyrsta lagi er mörgum þrenndartaugaverkjarsjúklingi ágætlega ljóst að sársaukinn er ekki bundinn við vanga: Þeir sem eru með verki frá kjálkataug eða augntaug þrenndartaugar eru líklega ekki mjög uppteknir af kinninni á sér.

Í öðru lagi er orðið hvot hvorukynsorð. Þetta gamla orð líkist kvenkynsorðinu hvöt óþarflega mikið sem stuðlar að rangri beygingu þess. Sem dæmi má nefna klausuna:

„Í hefðbundinni (idiopathic) vangahvot er ekki um skyntap að ræða. Þegar vangahvot er orsökuð af ….“ í  Ari J. Jóhannesson o.fl. (2015). Handbók í lyflæknisfræði. 4. útg., s. 364. Reykjavík:Háskólaútgáfan og Landspítali Háskólasjúkrahús.

Orðið hvot er væntanlega tekið úr læknisfræðitextum frá því seint á 18. öld, ef marka má upplýsingar Ritmálssafns Orðabókar HÍ. Annars vegar nefnir Sveinn Pálsson hvot sem dæmi um verk í Registr yfir Íslenzk Siúkdóma nøfn. (Framhalldit.) í Riti þess (konunglega) Islendska Lærdóms-Lista Felags X, útg. 1789, s. 52: „Verkr (dolor) … hvotverkr, hvot (dol. intermittens) […]“. Dolor intermittens þýðir sársauki sem kemur og fer, með hléum.

Hins vegar er orðið að finna í Stuttu Agripi umm Icktsyke Edur Lidaveike : Hvar inne hun er wtmaalud, med fleirstum sijnum Tegundum; Þar i eru løgd […] eftir Jón Pétursson. Bókin fjallar vitaskuld um gigt (iktsýki), kom út árið 1782 og á s. 33 segir: „Þeir eð hafa Miadmaverk, finna stundum smaa-Hvøt i Lærenu eður Kálfanum, sem þar kvikade nockuð lifande, aan þess að þreyngiast þar af.“

Hvot þýddi sem sagt seint á 18. öld verkur, kannski verkur sem kemur og fer, kannski tilfinning eins og eitthvað skríði innanum mann. Málsögulega séð getur hvot þýtt stingur því orðið ku dregið af sögninni að hváta sem merkti stinga. Þeir sem líklegastir eru til að hafa yfirhöfuð heyrt þessa sögn eru væntanlega dyggir aðdáendur Egils sögu sem muna þegar Egill karlinn þurfti að stinga nefinu ofan í feld í ástarsorg, þ.e.a.s. hváta brúna miðstalli í feld.

Einhverjum sniðugum lækni hefur síðan dottið í hug að splæsa saman orðinu vanga og orðinu hvot og búa þannig til vangahvot, sem bókstaflega þýðir verkur/stingur í kinn, og nota fyrir íslenskt heiti á þeim sársaukafulla sjúkdómi trigeminal neuralgia. Sá hefur mögulega verið lesinn í Egils sögu.

Orðsins hvot verður líka vart í öðru samhengi í Íðorðasafni lækna. Þar er boðið upp á samheitin taugahvot og taugaverkur yfir neuralgia, líffræðingar hampa samheitunum taugahvot og taugapína yfir sama. Sjúklingar sem hafa talið sig þjást af úttaugaverkjum ættu því að læra, áður en þeir leita læknis, að þeir þjást af taugahvot og muna að beygja orðið í hvorukyni. Þetta staðfestir m.a. auglýsing um ágæti Gabapentíns (Neurontins) í Læknablaðinu 88(6), 2002, s. 466: „Nú hefur Neurontin frá Pfizer fengið ábendingarnar „meðferð á taugahvot í kjölfar herpessýkingar (postherpetic neuralgia) og sársaukafullum sykursýkitaugakvilla“.“ Ég vek athygli á að í auglýsingunni er greint milli taugahvots og taugakvilla þótt erfitt sé að ímynda sér ástæðuna fyrir því af samhenginu.

Myndin fylgir fyrrnefndri auglýsingu Pfizer í Læknablaðinu 15. júní 2002.

Myndin fylgir fyrrnefndri auglýsingu Pfizer í Læknablaðinu 15. júní 2002.

 

Þrenndartaugarverkur eða þrenndartaugarkvilli?

Til að flækja mál kann að vera að einhverjir læknar greini ódæmigerðan þrenndartaugarverk sem þrenndartaugarkvilla. Stundum er í erlendum heimildum greint milli trigeminal neuralgia og trigeminal neuropathy eða trigeminal neuropathic pain og er þá hið síðarnefnda notað um stöðugan sársauka sem stafar af skaða á þrenndartauginni. Því miður er næsta vonlítið að bæta trigeminal neuropathy með aðgerðum sem virka á trigeminal neuralgia (sjá t.d. lýsingu sjúklings á blogginu Theachybrain.com  eða greinar á borð við Jonathan H Smith og F Michael Cutrer. (2011.) Numbness matters: A clinical review of trigeminal neuropathy. Cephalalgia 31(10), s. 1131–1144. International Headache Society.).

Í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar er enska orðið neuropathy þýtt sem taugakvilli, skilgreiningin sem fylgir er: „Meinsemd eða sjúkdómur í taug(um)“. Enska orðið er leitt úr miðaldalatínu, neuropathia. Sú latína er samansplæsing á grísku orðunum neûron, sem þýðir eins og áður hefur komið fram taug, og paþeia, kvenkyns mynd orðsins paþos, sem þýðir pína, kvöl eða jafnvel óhapp (eitthvað sem hendir mann).

Málsögulega séð er erfitt að gera greinarmun á algia, þ.e. kvöl, og paþeia, þ.e. pína. En í læknisfræðilegum textum hefur –pathy smám saman farið að merkja sjúkdóm, tilfinningu eða jafnvel meðferð meðan –algia hélt sinni fornu merkingu.

Svoleiðis að þrenndartaugarkvilli (trigeminal neuropathy) er verkur sem rekja má til einhvers konar skaða eða meinsemdar á tauginni meðan þrenndartaugarverkur (trigeminal neuralgia) kviknar óforvarendis (jafnvel þótt vinsælasta orsakaskýringin sé sú að mýli þrenndartaugar hafi skaðast af aðliggjandi æð). Vilji menn leita sér upplýsinga á Google Scholar mæli ég með því að leita eftir báðum sjúkdómsheitunum.

Ensk heiti

Hér verður látið duga að telja upp vinsælustu önnur heitin á trigeminal neuralgia, með örlitlum skýringum ef þurfa þykir:

  • trifacial neuralgia
  • tic douloureux (svo nefnt af franska skurðlækninum Nicolaus André 1756, þýðir sársauka-kippir)
  • facial neuralgia
  • Fothergill’s disease (eftir enska lækninum John Fothergill, sem lýsti sjúkdómnum 1773)
  • prosopalgia (gríska orðið prosopo þýðir andlit)

 

Lokaorð

Upphaflega hafði ég hugsað mér að skrifa einnig um sögu sjúkdómsgreiningar og læknisráða við þrenndartaugaverk. Ég veit ekki hvort af slíku verður, það bíður a.m.k. um sinn.

Færslurnar um þrenndartaugarverk voru fyrst og fremst skrifaðar vegna þess að ég fann nánast engar upplýsingar um þetta á íslensku. Reynsla mín af læknum af ýmsu tagi, sem ég hef leitað til frá því sjúkdómurinn (þrenndartaugarverkur eða þrenndartaugarkvilli) kviknaði í apríl 2012 bendir til þess að almennt viti læknar engin deili á þessum sjúkleika og hafi flestir aldrei heyrt hann nefndan. Það stendur þá upp á sjúklinginn að afla sér upplýsinga. Ég vona að einhverjir hafi og gagn af upplýsingamiðlun minni á íslensku, með því fororði að ég er ekki læknismenntuð og því kann að vel að vera að eitthvað sé missagt í þessum færslum: Menn hafi þá það sem sannara reynist.