Tag Archives: Félag Framhaldsskólakennara

Vinnumatið sem var fellt

omg

Í þessari og næstu færslum ætla að ég að fjalla um sögu vinnumatssamningsins, sem felldur var í atkvæðagreiðslu FF (Félags framhaldsskólakennara) og FS (Félags stjórnenda í framhaldsskólum og Tækniskóla Íslands þann 27. febrúar sl. en samþykktur í ríkisreknu einkaskólunum MB og Verzlunarskóla Íslands.

Ég ætla að byrja á öfugum enda, þ.e.a.s. rekja söguna aftur á bak, frá viðbrögðum eftir að vinnumatið var fellt. Niðurstöðufærsla verður samin eftir að sagan hefur verið rakin.

Almennur félagsfundur FF þann 25. mars 2015

Í gær var haldinn almennur félagsfundur FF, sem knúinn var fram með undirskriftum kennara 197 FF-félaga í Tækniskólanum, Menntaskólanum í Reykjavík, Fjölbrautaskóla Suðurlands, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Menntaskólanum á Laugarvatni en skv. lögum FF ber stjórn félagsins að boða til slíks fundar ef 10% félagsmanna krefjast þess. Fundurinn var sendur út á netinu og er aðgengilegur á þessari slóð.

Þetta var að mörgu leyti upplýsandi fundur og komu þar fram hvoru tveggja skoðanirnar, þ.e. þeirra sem lýstu yfir stuðningi við vinnumatið sem kennarar felldu og þeirra sem lýstu yfir megnri óánægju með það vinnumat. Raunar var fundarfyrirkomulagið nokkuð óvenjulegt þar sem fundarstjóri var einn frummælenda og fundarritari skráði sig á mælendaskrá og vitnaði síðan um sín skoðunarskipti. Ég minnist þess ekki að hafa séð fundarstjóra og fundarritara leika svo mörgum skjöldum á formlegum fundi áður.

Helstu tíðindi voru upplýsingar um hvað stjórn og samninganefnd væri að bardúsa þessa dagana en mikill misbrestur hefur verið á því að félagar í FF fái upplýsingar um slíkt. (Má sem dæmi nefna að síðustu tvær fundargerðir stjórnar FF hafa ekki enn ratað inn á fundargerðavefsíðu KÍ og engin hefur birst fundargerðin af Fulltrúafundi FF sem haldinn var fyrir viku síðan.)

Í máli Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur (01:03:14, talan vísar til tímasetningar upptöku af fundinum), sem titlar sig varaforkonu FF, kom fram að meðal þess sem FF reyndi nú að brúka til að stoppa í götótt vinnumatið væri að tryggja svokölluð sýnidæmi þannig að ekki væri mögulegt „að fara undir“ vinnumat í tilteknum áföngum og að tryggja ráðningarhlutfall kennara þannig að „stjórnendur geti ekki lækkað starfshlutfall kennara komi vinnumat út þannig að þeir nái ekki fullu starfshlutfalli með kennslunni. “ Svo fullvissaði hún fundargesti um að ekki væri verið að höggva [svo] kjarasamning í stein heldur gilti hann til október 2016 og þá yrði allt tekið aftur upp og rætt. Hanna Björg nefndi ennfremur prósentutölur í könnun Félagsvísindastofnunar HÍ sem sýndu eindreginn stuðning almennra félagsmanna í FF og félagsmanna í Tækniskólanum við að samninganefnd ynni áfram að útfærslu vinnumats.

Helga Helena Sturlaugsdóttir, fundarritari og varamaður í stjórn FF, vitnaði um að hún hefði fellt vinnumatið! Það hefði hún gert af því henni fannst það ekki nógu tryggt í hendi því óvissa var um hvort hægt væri að fara undir lágmarkið í sýnidæmunum og hún hefði haft áhyggjur af festu ráðningarhlutfalls kennara. Þar sem nú væri verið að festa þetta inni í samningnum hefði hún skipt um skoðun og styddi nú samninganefnd FF (01.12:40).

Í máli Guðríðar Arnardóttur, formanns FF (nema í munni Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur en hún kallar hana forkonu FF), sem tók til máls 01:19:24, kom fram að fyrstu viðbrögð FF við felldu vinnumati hefði verið að halda vinnufund. Afrakstur hans var að samninganefnd FF hefur sett fram níu atriði sem „okkur þótti að helst þyrfti að bæta í nýja vinnumatinu“ og síðan var óskað eftir fundi með viðsemjendum hið fyrsta. Tvö þessara atriða höfðu komið fram í máli Hönnu Bjargar en ekki var upplýst um hver hin sjö atriðin væru.

Guðríður sagði að hún vildi enn einu sinni leiðrétta þá rangtúlkun að verið sé að tala um mismunandi laun eftir mismunandi greinum eða mismunandi fjölda nemenda, í því fellda vinnumati:

Við erum að tala um það að allir fái sömu laun fyrir sömu vinnu og við erum að tala um að það býður allra sama launahækkun sama hvaða kerfi verður samþykkt, hvort sem þeir kenna verknám eða bóknám.

Tímatalning er aftur á móti mismunandi, sem gerir það að verkum að í nýju kerfi þá geta verkefni manna verið mismunandi [… Til skýringar nefndi Guðríður dæmi af tveimur endurskoðendum sem ynnu að mismunandi verkefnum á endurskoðunarskrifstofu. Báðir vinna frá átta á morgnana til fjögur á daginn]

Vinnumatið snýst um þetta. Það er enginn að fara fram á það að neinn vinni meira en hann er ráðinn til. Við viljum heldur ekkert vinna minna en við erum ráðin til.

Það er enginn að fara að binda vinnutímann okkar á stimpilklukku, við getum áfram tekið verkefnabunkana með okkur heim og setið yfir þeim á kvöldin.

Það er ekki að breytast neitt. Við erum að breyta tímatalningunni og vandinn okkar hefur verið sá, í umræðunni, af því við erum að horfa í baksýnisspegilinn, að við erum … næmið í vinnumatinu snýst um fjölda nemenda. Og þar af leiðandi þá telja þeir sig bera skarðan hlut frá borði sem kenna að jafnaði færri nemendum. En ef þið skoðið sýnidæmin, sem liggja til grundvallar, þá er enginn mismunur falinn í því á milli greina.

Hvort sem við erum að skoða verknám eða bóknám … það eru áfram, svo ég tali nú bara um í bóknáminu, það eru 110 mínútur á önn á hvern nemanda vegna yfirferðar verkefna, tími vegna vinnu … við vinnu óháð nemendafjölda. Það er meira að segja hærri [svo ] í verknámsgreinunum.

Reynum að tala um vinnumatið a.m.k. út frá staðreyndum […].

Þótt ég hafi einbeitt mér að því til þessa að endursegja einungis orð fundarmanna úr röðum stjórnar FF eða vitna beint í þau þá hlýt ég að benda á að það er ekki heil brú í málflutningi Guðríðar, þ.e.a.s. að staðhæfingar um að mismunandi laun eftir mismunandi greinum og mismunandi fjölda nemenda sé rangtúlkun en mismunandi tímatalning sé eitthvað allt annað og hin sanna rétttúlkun. Þetta skýrist betur síðar í færslu um hvað fólst í fellda vinnumatinu.

Þeir sem hafa áhuga á víðtækari umfjöllun um þennan fund er bent á færslu Gylfa Þorkelssonar, Af almennum félagsfundi á blogginu Ganglera. Færslan er skrifuð í dag, 26. mars 2015.

Könnun FF á vilja félagsmanna

Föstudaginn 20. mars barst félagsmönnum í FF bréf frá Félagsvísindastofnun HÍ þar sem þeir voru beðnir að svara spurningu stjórnar FF. Könnunin var svona:

Félagsmenn í Félagi framhaldsskólakennara í ríkisskólum og Félagi stjórnenda í framhaldsskólum felldu nýlega kjarasamninga sem fólu í sér breytingar á vinnutímaskilgreingu (vinnumati) kennara. Um þessar mundir vinnur félagið að endurskoðun á vinnutímaskilgreingu kennara sem felld var í febrúar síðastliðnum.

Vilt þú eða vilt þú ekki að samninganefnd Félags framhaldsskólakennara gangi til samningaviðræðna um endurskoðun vinnumats verði það til þess að félagsmenn fái 11,3% launahækkun á samningstímanum?

o – Já, ég vil að samninganefnd Félags framhaldsskólakennara gangi til samningaviðræðna um endurskoðun vinnumats
o – Nei, ég vil ekki að samninganefnd Félags framhaldsskólakennara gangi til samningaviðræðna um endurskoðun vinnumats
o – Vil ekki svara

Í tölvupósti frá Reyni Þór Eggertssyni, ritara stjórnar FF, til mín í dag kemur fram að stjórn FF er ekki búin að fá lokaskýrslu frá Félagsvísindastofnun „heldur fékk formaður frumniðurstöður í gær. U.þ.b. 1050 manns greiddu atkvæði, en allt félagsfólk FF á að hafa fengið könnunina senda. Félagsvísindastofnun fékk að auki fyrirmæli um að halda félagsfólki í Tækniskólanum aðskildu þar sem um tvo samninga er að ræða. Niðurstöður er ekki þó ekki persónugreinanlegar. Um 78% félaga í ríkisskólum sagði já og um 58% í Tækniskólanum.“

Mér tekst ekki að finna upplýsingar um nákvæman fjölda félaga í FF eða kennara í Tækniskólanum en giska á að um 2/3 félagsmanna hafi greitt atkvæði skv. þessum tölum. Raunar kom fram í bréfi frá Félagsvísindastofnun í dag að sumum hefði ekki tekist að greiða atkvæði vegna tæknilegra örðugleika og því er könnuninni ekki lokið. Að mínu mati er það  frumhlaup varaforkonu FF að tilkynna niðurstöður úr könnun áður en henni er lokið stjórn félagsins til vansa.

Síðustu fundargerðir stjórnar FF

Sleifarlag í birtingu fundargerða hefur lengi einkennt Félag framhaldsskólakennara og hefur engin breyting orðið á því með núverandi stjórn. Haldnir hafa verið tveir stjórnarfundir sem engin merki sjást um á fundargerðasíðu KÍ  en ég fékk þær sendar í dag skv. beiðni. Í hvorugri er vikið orði að þeirri skoðanakönnun sem stjórn FF ákvað að fá Félagsvísindastofnun HÍ til að vinna fyrir sig.

Á fundi stjórnar FF þann 4. mars var greinilega ákveðið að tugta til þann minnihluta stjórnar sem lýst hafði andstöðu gegn vinnumatinu áður en gengið var til kosninga um það. Varamenn höfðu líka lýst andstöðu sinni en þeir voru ekki boðaðir á þennan fund. Bókað er:

2) Trúnaðarbrestur í stjórn FF – Guðríður

Umræður um trúnaðarbrest vegna bréfs tveggja aðalmanna og tveggja varamanna í stjórn, sem sent var félagsfólki aðfararnótt mánudagsins 23. febrúar sl. [Þessa yfirlýsingu má sjá í dropboxi Baldurs J. Baldurssonar. Hún var send sumum félagsmönnum, formönnum kennarafélaga og trúnaðarmönnum. Var allur gangur á hvort formenn kennarafélaga og trúnaðarmenn framsendu bréfið á sitt fólk.]

Þessar umræður virðast hafa lukkast ljómandi vel því sagnir herma að enginn stjórnarmanna hafi hlaupið útundan sér á Fulltrúafundinum 19. mars (en fundargerð hans er hvorki tilbúin né birt opinberlega enn).

Á næsta fundi stjórnar, þann 17. mars sl., voru varamennirnir teknir í sátt og bókað:

3) Boðun varamanna á stjórnarfundi – Guðríður

Í framhaldi af síðasta stjórnarfundi þar sem einungis aðalmenn voru boðaðir til að ræða trúnaðarbrest, þurfti að ræða stöðuna í stjórninni.

Formaður leggur til að haldið verði áfram með [svo] að boða varamenn á stjórnarfundi, en ekki á samninganefndarfundi, nema sóst sé eftir breiðara [svo] umboði. Samþykkt samhljóða.

Þetta virðist einnig hafa skilað prýðilegum árangri, a.m.k. hafði annar hinn óhlýðnu varamanna, Helga Helena Sturlaugsdóttir, séð að sér og lagt af alla óþekkt ef marka má vitnisburð hennar á almenna félagsfundinum í gær. Vonandi fær hún aflausn forkonunnar.

 

Í næstu færslu verður fjallað um hvað fólst í því fellda vinnumati.