Tag Archives: Aðgerðir Við þrenndartaugabólgu

Þrenndartaugin og inngrip gegn þrenndartaugabólgu

Þetta er þriðja færsla í færsluflokki um þrenndartaugarverk (sem ranglega er kallaður þrenndartaugabólga í fyrirsögnum færsla). Hinar eru, í tímaröð:
1. Þrenndartaugabólga eða vangahvot
2. Lyfjameðferð við þrenndartaugabólgu
4. Skurðaðgerðir og aðrar aðgerðir í eða við þrenndarhnoða
5. Þrenndartaugaverkur/vangahvot: Saga orðanna.

Áður en gerð er grein fyrir inngripum við þrenndartaugarverk er rétt að fara nokkrum orðum um þrenndartaugina (nervus trigeminus) og mismunandi hluta hennar. Íslensk heiti hér og í annarri umfjöllun um þrenndartaugarverk á þessu bloggi eru ýmist fengin úr Orðabanka Íslenskrar málstöðvar eða úr Nomina Anatomica: Líffæraheiti. (1996). Ritstjóri Magnús Snædal. Reykjavík: Heimskringla Háskólaforlag Máls og menningar.

Heilastofn

Hlutar heilastofns

Þrenndartaugin er stærst heilatauga (nervi craniales, þ.e. þeirra tauga sem tengjast heila eða heilastofni). Hvoru megin höfuðs gengur þrenndartaugin úr miðri heilabrú (pons)og greinist í þar í tvennt; Hreyfirót (radix motoria) og skynrót (radix sensoria). Hreyfirótin tengist gagnaugavöðva (Musculus temporalis); miðlægum vængklakksvöðva (musculus pterygoideus medialis) sem er vöðvi hliðlægt á höfði og hreyfir liðamót neðri kjálka, lyftir kjálka og hreyfir til hliðar; spennivöðva hljóðhimnu (Musculus tensor tympani); spennivöðva gómtjalds/holdgóms (Musculus tensor veli palatini); jaxla- og málbeinsvöðva (Musculus mylohyoideus) og fremri búk tvíbúkavöðva (musculus digastricus) en hann er vöðvi í hálsi ofan málbeins sem dregur neðri kjálka niður, lyftir málbeini og dregur það aftur. Í hreyfirótinni eru einnig aðfærslutaugaþræðir sem einkum miðla sársaukatilfinningu.1

Þótt þrenndartaugin gangi út úr heilabrú dreifist hún um allan heilastofninn því inni í honum eru þrír þrenndartaugakjarnar, hver í sínum hluta heilastofns, þ.e.a.s. miðheilabrautarkjarni (Nucleus tractus mesencephalici nervi trigemini), mænukjarni (Nucleus spinalis nervi trigemini) og brúarkjarni (Nucleus pontinus nervi trigemini). Kjarnar gegna svipuðu hlutverki og taugahnoðu sem ber á góma hér á eftir en ég hef hvergi séð minnst á að þeir gætu skipt máli í þrenndartaugarverk. Mér dettur þó í hug að mögulegt sé að rekja ástæður verkja til þrýstings á þrenndartaugakjarna í þeim sárasjaldgæfu tilvikum þegar æxli í heilastofni er talin orsök verkja frá þrenndartaug.

Skynrót þrenndartaugarinnar er stærri en hreyfirótin og áhugi þrenndartaugasjúklinga beinist líklega meir að henni.

Báðar ræturnar liggja í þrenndarhnoða (ganglion trigeminale, ganglion semilunare (Gasseri)). Þrenndarhnoðað er skyntaugahnoða, þ.e.a.s. „svæði í útttaugakerfinu þar sem taugabolir og stundum stuttir taugaþræðir liggja þétt saman.“2 Þrenndarhnoðað er sem sagt milliliður milli útttaugakerfis (kvísla þrenndartaugarinnar) og heilans.

Þrenndarhnoðað (ganglion trigeminale, ganglion semilunare (Gasseri)) er í þrenndarholi (cavitas trigeminalis/cavum trigeminale) í kletthluta gagnaugabeins (pars petrosa ossis temporalis) í miðkúpugróf (fossa cranii media). Þrenndarhnoðað samanstendur af aðfærslutaugaþráðum sem flytja boð um sársauka, hitastig og snertingu.  Úr því ganga aðaltaugarnar þrjár, sem tilheyra úttaugakerfinu, þ.e.a.s. augntaugin, kinnkjálkataugin og kjálkataugin. Augntaugin gengur úr höfuðkúpunni um efri augntóttarglufu (fissura orbitalis superior), kinnkjálkataugin um hringgat (foramen rotundum) og kjálkataugin um sporgat fleygbeins (foramen ovale ossis sphenoidalis). Augntaugin og kinnkjálkataugin eru eingöngu skyntaugar en kjálkataugin gegnir bæði hlutverki skynjunar og hreyfingar. Ég reikna með að það sé þess vegna sem skaði á kjálkataug getur valdið máttleysi og rýrnun tyggingarvöðva, auk sársaukans, s.s. minnst var á í fyrstu færslu um þrenndartaugabólgu.

Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig þrenndartaugin liggur (nema lítið er sýnt af augntauginni) og helstu taugar/greinar sem kvíslast úr aðaltaugunum þremur.3

þrenndartaug

Greinar og kvíslar þrenndartaugar

Í síðustu færslu fjallaði ég um helstu lyfjategundir sem þrenndartaugarverkjasjúklingum eru gefnar. Hér verður fjallað um önnur inngrip, að undanskilinni deyfingu hjá tannlækni (með lidocaini) sem getur stöðvað sársaukann umsvifalaust en endist því miður stutt.4

Inngrip og skurðaðgerð

Í grófum dráttum má skipta þessum inngripum í þrennt eftir því að hvaða svæði þrenndartaugar þau beinast. Allar aðgerðir nema skurðaðgerðin sem fjallað verður um síðar beinast að því að eyðileggja eða skaða hluta þrenndartaugar.

1. Jaðaraðgerðir eru aðgerðir sem eru gerðar fjarri þrenndarhnoða, oft á einhverjum meintum „ræsipunktum“/„kveikjupunktum“ (trigger points) þaðan sem sársaukinn kann að kvikna.
2. Aðgerðir í eða við þrenndarhnoða.
3. Skurðaðgerð gegnum aftari kúpugróf (fossa cranii posterior).

Í þessari bloggfærslu verður einungis fjallað um jaðaraðgerðir, hinar tegundirnar bíða næstu færslu.

 

Jaðaraðgerðir

Þessar aðgerðir eru af ýmsu tæi en hér er gerð grein fyrir þeim helstu.

Frystimeðferð (cryotherapy) er meðferð sem sumir kannast við til að losna við vörtur. Sé henni beitt við þrenndartaugarverk þá er reynt að finna kveikjupunkt (trigger point) með áreiti, síðan farið um munn eða stungið gegnum húð með sérstöku tæki að tauginni, taugin fryst í -120 gráður í 2 mínútur, leyft að þiðna í 5 mín. og þetta endurtekið tvisvar í viðbót.5

Hitameðferð (thermocoagulation) er andstæð frystimeðferð því þá er reynt að skaða taugarbút með rafmagnstæki sem hitar taugina við kveikjupunkt (trigger point) upp í 60-70° í tvær mínútur. Þetta er endurtekið ef þurfa þarf, þ.e.a.s. ef tilfinningaleysi/dofi finnst ekki strax.6

Bæði frystimeðferð og hitameðferð eru oftast gerðar í staðdeyfingu.

Þverskurður taugarótar með hitameðferð (Percutaneuous Stereotactic Rhizotomy) er gerð þannig að holri nál með rafskauti og leiðslu er stungið gegnum vanga að tauginni sem á að skaða, við við kúpubotn. Hitastraumur er leiddur um rafskautið og hluti taugar eyðilagður.7

Innsprautun efna í kveikjupunkta (trigger punkta), s.s. alkóhóli, karbólsýru (fenól) og streptomycin (gömlu fúkkalyfi sem fundið var upp við berklum).

Þrenndartaugabólga - sprauta

Innsprautun streptomycin og likódain í kveikjupunkt við þrenndartaugabólgu

Hér að ofan sést Streptomycin- og lidokain-lausn sprautað í neðri tanngarðstaug.8

Taugarúrnám (neurectomy) er þegar hluti taugar er skorinn brott. Á myndinni hér að neðan er verið að undirbúa úrnám úr hökutaug (sem gengur úr kjálkataug þrenndartaugar).9

þrenndartaugabólga úrnám

Úrnám hökutaugar undirbúið

Taugarúrnám þykir heldur gamaldags núna en er þó stöku sinnum beitt.10

Á þeim jaðaraðgerðum sem taldar hafa verið hafa einungis tvær rannsóknir verið gerðar sem standast mál (þ.e. slemiraðaðar, tvíblindar, fastskammta samanburðarrannsóknir við lyfleysu), báðar á innsprautun með streptomycini. Þær sýndu fram á gagnsleysi streptomycins við þrenndartaugabólgu. Fyrir hinum aðferðunum hafa ekki verið færð gagnreynd vísindaleg rök sem styðja notkun þeirra.11

Sumar aðferðirnar hafa þó skilað árangri skv. annars konar rannsóknum. Að meðaltali er árangur af jaðaraðgerðum talinn um 50% minnkun sársauka í u.þ.b. 10 mánuði eftir aðgerð. Helstu slæmar aukaverkanir þeirra geta verið missir tilfinninganæmis, margúlar (blóðgúlar) og sýkingar.12

Undir jaðaraðgerðir fellur líka ýmislegt sem einnig mætti telja til óhefðbundinna læknisráða við þrenndartaugabólgu. Þar er átt við nálastungumeðferð, leisimeðferð (með „köldum leisi“) og innsprautun efna annars staðar en í námunda við þrenndartaug, s.s. sterasprautur og bótox. Einnig mætti telja inndælingu ketamíns + lidocains, sem verkjateymi Landspítala Háskólasjúkrahúss reynir stundum við verkjum, til óhefðbundinna læknisráða, a.m.k. fann ég enga vísindagrein sem fjallaði um að inndæling þessara tveggja efna saman (í u.þ.b. 75 mínútur) skilaði árangri við útttaugaverkjum.

þrenndartaugabólga leisir

Kaldur leisir

Á myndinni hér að ofan sést meðferð með köldum leisi. Leisinum er beint að sama stað við kúpubotn og þar sem skurðaðgerð við þrenndartaugabólgu hefst.13

Ég hef nokkra reynslu af þessum jaðaraðgerðum, þ.e.a.s. reynt hefur verið að sprauta sterum og deyfiefni í hnakkagróf, í höfuð aftan við eyru og við kúpubotn, þar sem þótti líklegt að finna mætti kveikjupunkta þess verks sem mig hrjáir. Því miður var árangurinn enginn. Mér er kunnugt um sjúkling sem fær bótox-sprautur í háls og herðar, til að minnka áreiti á andlitið, en veit að einungis mjög miklir sérfræðingar sprauta bótoxi beinlínis  í kveikjupunkta við þrenndartaugagreinarnar sjálfar. Ég hef reynt ketamín + lidocain inndælingu tvisvar, án árangurs.

Loks læt ég þess getið að í einum Facebook hópi þrenndartaugasjúklinga sem ég er í, Trigeminal Neuralgia Family, hefur komið fram að sumum sjúklingum erlendis er ávísað plástrum með ýmsum efnum, t.d. morfíni, til að setja á andlitið. Yfirleitt telja þessir sjúklingar lítið gagn af svoleiðis plástrum en þó mögulega eitthvert.

 

Í næstu færslu geri ég grein fyrir aðgerðum í eða við þrenndarhnoða og skurðaðgerð gegnum aftari kúpugróf (Microvascular decompression, MVD).

 

Tilvísanir í heimildir

1 Burchiel, K. J. o.fl. (2014). Trigeminal Neuralgia Surgery: Overview, Preparation, Technique. Medscape.

2 Þuríður Þorbjarnardóttir. (2014). „Hvað er taugahnoða?“ Vísindavefurinn.

3 Þetta er mynd 1 í Burchiel, K. J. o.fl. (2014). Trigeminal Neuralgia Sugery: Overview, Preparation, Technique. Medscape. Ég hef sett inn íslensk heiti í stað þeirra ensku.

4 Zakrzewska, Joanna M. og Roddy McMillan. (2011). Trigeminal neuralgia: the diagnosis and management of this excruciating and poorly understood facial pain. Postgraduate Medical Journal, 87, s. 410-416. Aðgengilegt á vef.

5 Sjá má lýsingu á þessari aðferð í gamalli grein Zakrzewska, Joanna M. (1987). Cryotherapy in the management of paroxysmal trigeminal neuralgia. Journal of Neurology, Neurosurgery & Psychiatry, 50(4), s. 485–487. Aðgengilegt á vef.

6 Sjá lýsingu í Wael Fouad. (2011). Management of trigeminal neuralgia by radiofrequency thermocoagulation. Alexandria Journal of Medicine, 47(1), s. 79-86. Aðgengilegt á vef.

7 Trigeminal Neuralgia or Prosopalgia or Fothergill’s Disease: Causes, Treatment- Surgery. (e.d.). ePainAssist.com.

8 Myndin er tekin úr Shefali Waghray o.fl. (2013). Streptomycin-lidocaine injections for the treatment of postherpetic neuralgia: Report of three cases with literature review. European Journal of Dentistry, 7(5), s. 105-110. Aðgengilegt á vef.

9 Fleiri myndir af taugarúrnámi og umfjöllun um þá aðferð má sjá í greininni sem þessi var tekin úr: Fareedi Mukram Ali o.fl. (2012). Peripheral neurectomies: A treatment option for trigeminal neuralgia in rural practice. Journal of Neurosciences in Rural Practice, 3(2), s. 152-157. Aðgengilegt á vef.

10 Trigeminal Neuralgia or Prosopalgia or Fothergill’s Disease: Causes, Treatment- Surgery. (e.d.). ePainAssist.com.

11 Zakrzewska, Joanna M. og Roddy McMillan. (2011). Trigeminal neuralgia: the diagnosis and management of this excruciating and poorly understood facial pain. Postgraduate Medical Journal, 87, s. 410-416. Aðgengilegt á vef. Í þessum tveimur fámennu rannsóknum var kannað hvort streptomycin+lidokain minnkaði sársauka meir en lidokain eitt og sér. Svo reyndist ekki vera.

12 Zakrzewska, Joanna M. og Roddy McMillan. (2011). Trigeminal neuralgia: the diagnosis and management of this excruciating and poorly understood facial pain. Postgraduate Medical Journal, 87, s. 410-416. Aðgengilegt á vef.

13 Myndin sýnir hvernig köldum leisi er beint að sama stað og þar sem upphaf skurðaðgerðar við þrenndartaugabólgu er. Myndin er tekin úr Vernon, Leonard F. o.fl. (2008. Uppfært á vef 2014.). Low-level Laser Therapy for Trigeminal Neuralgia:Case reports on two patients whose unrelenting facial pain and hypersensitivity from their diagnosed trigeminal neuralgia resolved with low-level laser therapy. Practical Pain Management, 8(6). Aðgengilegt á vef.