Category Archives: Uncategorized

Ný-ný rómantík og rasismi

Undanfarið hef ég aðeins fylgst með athugasemdum við fréttir af því að kínverskur auðmaður hafi keypt Grímsstaði á Fjöllum og Grímstungu að hluta og hyggist byggja þar hótel. (Líklega er þó réttara að umræddur Kínverji ætli að kaupa þessar jarðir og landeigenda vegna vona ég að kaupin gerist.) Umræðan hefur einnig borist inn á Facebook. Að stærstum hluta virðist þessi umræða litast af tvennu: Annars vegar botnlausri þjóðernisrómantík og hins vegar andúð á fólki utan Evrópu, í þessu tilviki fólki með skásett augu og annan húðlit.

Satt best að segja efast ég um að margir þeirra sem tjá sig um að búið sé að selja Landið hafi mikið lagt leið sína út fyrir þjóðveg 1. Samt grípur þetta fólk klisjur á lofti og gott ef er ekki bara talað um landráðamenn, a.m.k. hafa einhverjir áhyggjur af því að þetta sé bara byrjunin: Nú verði Ísland allt selt útlendingum! Mér þætti raunar gaman að sjá hvort fáist einhverjir kaupendur að Íslandi 😉

Í umræðuna fléttast saman gamaldags rómantík (Hver á sér fegra föðurland-klisjur), ný-ný rómantík vinstrigræningja, einkum af höfuðborgarsvæðinu, (Draumalands-klisjur, sem m.a. birtast í fótósjoppuðum náttúru-myndböndum undir söng Diddúar og Egils), Geysir, Sigríður í Brattholti og Fossamálin. Hvernig menn tengja þetta Grímsstöðum á Fjöllum er frekar óskiljanlegt. (Ég hvet fólk eindregið til að skoða loftmynd af staðnum, einfalt mál að nota map.google.com. Þar sést ekkertið prýðilega.)

Tilraun til að koma nokkrum (óskyldum) staðreyndum á hreint

Geysir var seldur írskum manni á sínum tíma, og vonuðust menn meira að segja til þess að hann sýndi staðnum meiri sóma en Íslendingar höfðu gert til þessa. Málið var bara það að fjölskyldu og vinum þess írska þótti lítið til staðarins koma og á endanum var hann keyptur aftur (væntanlega fyrir slikk) og gefinn íslenska ríkinu. Gullfoss var líka leigður íslenskum bissnissmönnum, af ábúandanum í Brattholti. Hinn 20. febrúar 1909 gerðu Tómas í Brattholti og Halldór á Vatnsleysu samning við Þorleif um leigu á Gullfossi til iðnreksturs. Samningurinn, sem var til 150 ára, gilti frá 1. september 1912. (Sjá Eyrún Ingadóttir. 1994. Sigríður í Brattholti og Gullfoss. Mbl. 21. des. 1994.) Málaferlin í kjölfarið voru ekki út af samningnum sjálfum heldur út af því að Þorleifur [Guðmundsson] framseldi samninginn og fékk Tómas í Brattholti til að skrifa undir samning sem heimilaði það – Tómas hélt því fram að sá samningur væri ógildur því hann hefði ekki lesið hann yfir áður en hann skrifaði undir. Að sjálfsögðu tapaði hann málinu. Og Tómas var ekki of góður til að þiggja leiguna; hann notaði féð m.a. til að greiða málskostnað sinn.

Sigríður Tómasdóttir í Brattholti virðist hafa verið afar sérsinna kona. Að sumu leyti minnir hún á fyrrverandi lögreglumann í Vík, þ.e. bæði hafa ríslað sér við að eyðileggja girðingar. En þar sem ég hygg að hinn núlifandi lögreglumaður sé heill heilsu og aðgerðir hans og fleiri séu fyrst og fremst andspyrna við frekju eins eða tveggja landeigenda þá held ég að hún Sigríður blessunin hafi ekki verið algerlega andlega heilbrigð og í dag hefði hún jafnvel verið látin taka pillur (sem er æðislega ógrænt og ónáttúrulegt, eins og allir vita). Ég vísa í hina ágætu grein Eyrúnar Ingadóttur um Sigríði þessu til rökstuðnings. (Og sagnir um að Sigríður hafi hótað að henda sér í Gullfoss væri hann virkjaður eru þjóðsagnir úr Tungunum. Þjóðsagnir eru stundum sannar og stundum ekki. Það getur sosum vel verið að kona sem líklega var ekki heil á geði hafi verið með einhverjar munnlegar yfirlýsingar um sjálfsvíg en engar heimildir eru fyrir þessari hótun Sigríðar, bara óstaðfestur orðrómur síðari tíma manna.)

Og af því núna seinnipartinn eru menn farnir að splæsa honum Þórarni Nefjólfssyni og Grímsey inn í fyrirhuguð jarðarkaup er rétt að upplýsa: A) Þórarinn er frægastur fyrir afspyrnu ljótar tær og B) Grímsey er, þrátt fyrir nafnið, ansi langt frá Grímsstöðum.

Almennt um friðunarkjaftæði

Friðun landsins er tískufrasi þessara ára. Rökin fyrir friðun eru einkum að afhenda beri næstu kynslóðum ósnortið land. Ef helvítis friðunin næst í gegn, í þeim mæli sem hún virðist fyrirhuguð, gengur þetta örugglega eftir. Raunar má reikna með að stór hluti landsins verði óbyggilegur og þ.a.l. í hinu æskilega eyði eftir nokkra áratugi. Þegar heimamenn andmæla algerri friðun eru þeir snöggafgreiddir með að hagsmunir þjóðarinnar vegi þyngra en hagsmunir þeirra sem byggja eða eiga landið sem um er rætt. Nærtækt dæmi er Gjástykki, þar sem bæði hefur verið bent á að talsverður hluti þess fyrirhugaða gjörfriðaða lands er í eigu Reykjahlíðar í Mývatnssveit og að umhverfisráðherra viti ekki einu sinni hvaða sveitarfélagi stærstur hluti Gjástykkis tilheyri en er þó alveg gasalega til í að gjörfriða það, skv. yfirlýsingum hennar. Klisjan um að hagsmunir þjóðarinnar núlli út réttinda eigenda datt út úr iðnaðarráðherra í Kastljósi á dögunum, einmitt þegar verið var að ræða Gjástykki. Í beggja augum eru þetta hvort sem er staðir út á landi og þar með sjálfkrafa „eign þjóðarinnar”.

Nú er ég svo heppin að eytt blauta barnsbeininu og æskunni í sveitum sem að vísu hafa ekki verið formlega friðaðar en eru að friðast nokkuð vel af sjálfu sér því nær enga atvinnu er þar að hafa og atvinnurekstur í nágrannasveitum er jafnóðum sleginn af, af umhverfis- og verndarsjónarmiðum. Ef fólk ætlar að senda börnin sín í framhaldsskóla er hyggilegast að flytja. Hinn ágæti fæðingarstaður minn þar sem ég sleit bernskuskónum, Raufarhöfn, er einmitt á Sléttunni, þeirri Sléttu sem Andri Snær sækir heim á sumrum, á eyðibýlið sem ættin hans á, og fyllist innblæstri sem skilar sér í nýnýrómantískri náttúrulýrík. Nú er meira að segja búið að leggja nýjan veg svo Sléttan fer örugglega algerlega í eyði og ný-ný rómantískar listaspírur úr Reykjavík geta unað sér í kyrrðinni (sem er raunar ekki rétt því þar heyrist alla jafna ekki mannsins mál fyrir kríugargi) og miðnætursólinni sem skín svo fallega á ísaldarjökulsruðninginn. Meira að segja andskotans lúpínan, sem er réttdræp því hún er útlend og auk þess blá (himinbláar plöntur eru einungis gjaldgengar í íslenskri náttúru séu þær örsmáar, t.d. dýragras) vex ekki á Sléttunni. Þó kann að vera að helvítið hafi tekið sér þar bólfestu á síðustu árum, ég hef ekki komið til Raufarhafnar síðan 2005 enda fátt þar að heimsækja nema leiðin í kirkjugarðinum. Þrífist lúpína í þorpinu er það í rauninni guðsþakkarvert (en auðvitað afar ónáttúrlegt og óumhverfisvænt) – þessi staðhæfing styðst við áratugatilraunir ömmu minnar til að rækta garð á grjótmulningnum þar nyrðra, með afar lélegum árangri.

Þorpið Raufarhöfn, sem upphaflega byggðist af umsvifum illra útlendinga (norskra, í þessu tilviki, hér er ekki ráðrúm til að tala um eldri hollenskar vindmyllur eða umsvif annarra þjóða) en síðan góðra íslenskra bissnissmanna (t.d. Óskars Halldórssonar, þess fræga útrásarvíkings sem HKL gerði ódauðlegan í Guðsgjafarþulu), er á góðri leið með að fara í eyði. Ekki einu sinni Pólverjarnir tolla. Eftir nokkra áratugi verður Raufarhöfn eitt af þessum smart eyðiþorpum, svipað og Hesteyri og Aðalvík, sem er svo gaman að heimsækja. Það verður meira að segja hægt að skrönglast þetta á fínum áljeppa! Húsin eru óseljanleg, í skólanum fækkar ár frá ári, búið er að loka pósthúsinu og bankanum, næsti læknir er í tuga kílómetra fjarlægð (ef hann þá er til staðar, það hefur verið upp og ofan hvernig gengur að fá lækna á norðausturhornið), prestar tolla misvel svo það er stundum vesen að jarða þessar fáu hræður sem enn tóra á staðnum þá þær hrökkva upp af.

Lausnin á vanda Raufarhafnar er auðvitað umhverfisvæn ferðamennska, en ekki hvað! Þess vegna hefur verið reistur blóthringur til að lokka ferðamenn í einhverja heimatilbúna athöfn í miðnætursólinni. Svoleiðis á þetta að vera: Efla tengslin við náttúruna, móður jörð, söguna (hvaða andskotans sögu er mér ekki ljóst en líklega mun átt við jarðsögu) o.s.fr. Og passa að tengja við norrænan arískan arf. Ég legg til að Svandís og vinstri græningjarnir friði Sléttuna næst. Þar er ómetanlegt fuglalíf og gott ef ekki stærsta kríuvarp í heimi!

Í rauninni vil ég ganga enn lengra og skora á vinstrigræna ráðherra að friða allt Ísland nema Stór-Reykjavíkursvæðið fyrir lúpínu og óarísku fólki og friða Ómar Ragnarsson í leiðinni! Líklega er best að setja friðunarákvæðin í hina nýju stjórnarskrá.

P.S. Af því þetta er bloggfærsla er vaðið úr einu í annað og lítt- eða óskyldum efnum blandað og þau hrist í blogg-kokteil, alveg eins og tíðkast í umræðunni á Netinu, sem ég vísaði í fremst í færslunni.

Tvær ólíkar bækur

Fyrir hálfum mánuði þurfti ég að fara til borgar óttans og til að gera ferðina álitlegri og skaffa góða dúsu fyrir svo leiðinlega ferð setti ég Bókasafn Norræna hússins á planið: Kom heim með tvo poka af bókum, álíka þunga og 2 eintök af fyrra bindinu í Sögu Akraness … Og síðan hef ég verið að lesa gegnum staflann. Þetta eru að sjálfsögðu mikið til morðbókmenntir (nema kannski eru algerlega laus við morð bækurnar Fra fiber til tøy og Norsk folkekunst … raunar tók ég einnig Folkekunst i Norge en fattaði þegar heim var komið að þetta var sama bókin, endurútgefin). Ég er einstaklega heilluð af tveimur bókanna sem ég hef lesið / er langt komin með að lesa og ákvað að blogga um þær. Í leiðinni ætti ég kannski að vara við Fra fiber til tøy því hún er æðislega leiðinleg 😉  Þótt maður hafi vissan fyrirframáhuga á ullar-, hör-, lín- og netluvinnslu og hafi alltaf langað að vita hvað er strý.

Önnur bókanna sem ég er svo hrifin af er Kongemordet eftir Hanne-Vibeke Holst. Ég man eftir að hafa oft séð bækur eftir þennan höfund, hún raðast nefnilega í nágrenni við Anne Holt og Kirsten Holst á bókasöfnum, en hafði, einhverra hluta vegna, ákveðið að Hanne-Vibeke Holst væri leiðinlegur höfundur. Man ekki hvers vegna. En fyrir tilviljun horfði ég á Drottningarfórnina á RÚV nú í sumar og skömmu síðar Kronprinsessen á DR 1. Röðin í þessum þríleik er: Krónprinsessan (hefur verið þýdd á íslensku) – KongemordetDronningeofret svo ég komst inn í hann í kolvitlausri röð en það kemur svo sem ekki að sök. Og sjónvarpsþættirnir eru sænskir og snúast þ.a.l. um sænska pólitík þótt bækurnar séu danskar … pínulítið ruglandi en kemur svo sem heldur ekki að sök.

KongemordetMér fannst Kongemordet bera af hinum en það er kannski af því ég las ekki þær bækur heldur horfði á sjónvarpsseríur gerðar eftir þeim. Hún fjallar um sömu persónurnar en í bókinni kemur skýrt fram hve siðblindur Gert Jacobsen, sem rær að því öllum árum að verða forsætisráðherra Danmerkur, er. Þeir sem hafa áhuga á því hvernig siðblindir akta í pólitík, taka þátt í pólitískri refskák og standa sig vel í valdataflinu, með gersamlega innantómu orðagjálfri því þeim er vitaskuld sama um alla aðra en sjálfa sig, ættu að lesa þessa bók. Og auðvitað lítur lengst af út fyrir að kvikindinu Gert takist það sem hann ætlar sér. Hann er háttsettur í det socialdemokratiske parti en en eins og gefur að skilja er allur hans sósíalismi utanaðbókarlærðir frasar og hugsjónir hefur hann engar, nema ná sem mestum völdum. En hann leikur vin alþýðunnar alveg glettilega vel og slær ryki í augu stuðningsmanna og flokksmanna.

Kvennamál Gerts koma nokkuð við sögu og ofbeldið sem hann beitir þegar enginn sér til. Aðalfórnarlambið er eiginkona hans, Linda. Eftir því sem lesandanum verður ljósar hve innantóm skel þessi Gert er og hvers lags bölvað kvikindi hann geymir skilur maður Lindu æ betur. Öfugt við Gert er heilmikið í hana spunnið. En Kongemordet er breið saga með fjölda persóna, þ.á.m. fær Charlotte Damgaard heilmikið rými (hún er krónprinsessa flokksins, heitir Charlotte Ekeblad í sænsku sjónvarpsgerðinni af hinum tveimur bókunum). Þó mætti segja að Linda og Gert séu aðalpersónur. Á myndinni er Gert fremstur og Linda í rauðum kjól.

Ég fer auðvitað ekki að skemma fyrir þeim sem ekki hafa lesið þessa bók með því að rekja söguþráðinn – lofa þó að endirinn kemur á óvart og gleður lesandann mjög! Og get þess að fremst í Kongemordet er tilvitnunin: Politics gives guys so much power that they tend to behave badly around women. And I hope I never get into that.” – Bill Clinton, amerikansk præsident.

Það er ljóst að í næstu heimsókn á Bókasafn Norræna hússins tek ég góðan stafla af bókum Hanne-Vibeke Holst! Og krossa fingur fyrir því að RÚV eða DR 1 sýni seríuna Kongemordet fljótlega (hún var gerð árið 2008). Hafa þessir þættir kannski verið sýndir hér á landi? (Óminnishegrinn tekur æ stærri toll af minningum eftir því sem veikindi mín ná yfir stærri hluta ársins.)

Hin bókin er af allt öðrum meiði. Hún er eftir Arnfinn Kolerud (sem ég veit hvorki haus né sporð á en virðist vera margverðlaunaður norskur barnabókahöfundur sem einnig skrifar fullorðinsbækur – eða er ég kannski að lesa barnabók eftir hann?) og heitir Når ein først skal skyte nokon. Ég er varla hálfnuð með hana, hef hana meðfram Kurt Wallander sögu sem er svo langdregin að ég er við það að gefast upp …

Når ein først skal skyte nokonNår ein først skal skyte nokon er ekki morðsaga þótt nafnið gæti bent til þess heldur er þetta skáldsaga um málvernd og málvöndun. Ég gæti trúað að Eiður Svanberg hefði gaman af henni 😉  Sagan gerist í Vassbygda, eða Vassbygdi (íbúarnir eru ekki sammála um nafnið), litlu þorpi þar sem sumir vilja halda dauðahaldi í nýnorsku og útrýma helvítis bókmálinu. Alharðasti málverndunarsinninn heitir Bendik Uføre. Hann stundar það að leggja upplýsingablað um nýnorsku í póstkassann hjá öllum nýjum íbúum og notar hvert tækifæri til að fá menn til að brúka fornar beygingar og endingar. Eins og segir í bókinni:

Ein måtte passe på heila tida. Det var det Uføre gjorde. Passa på nynorsken, og særleg i-målet. Han kvilte ikkje ofte. Han sette seg i bilen og køyrte til Volda og Ulsteinvik, Byrkjelo og Sykkylven og Stryn, Fjærland og Florø og Førde. Det var arbeid å gjere overalt. Hann stoppa der to ungar sat i ei busslomme og selde jordbær for “25 kr pr korg”. Da han reiste derifrå, stod det i staden “25 kr korgi”.

Bendik Uføre hefur tekist að koma því í kring að í skólanum í Vassbygdi (eða Vassbygda) eru ekki a- og b- bekkir eins og annars staðar heldur a- og i-bekkur. Og hann lagði það á sig að líma yfir merkið á bílnum sínum svo hann ekur ekki um á Toyota heldur Toyoti! Raunar held ég að málfarsleiðréttingar Bendiks séu sumar kannski á misskilningi byggðar (eins og stundum verður einnig í leiðréttingum mjög ákafra málfarsfasista íslenskra) en kann ekki nóg í nýnorsku til að fatta alla svoleiðis brandara. Þó má nefna að í munni Bendiks heitir landið hans Norike, sem mér finnst afskaplega hæpið að nokkru sinni hafi verið notað yfir Norge. (Ég var samt soldið skúffuð yfir að það skyldi ekki heita Noriki …)

Söguþráðurinn er vægast sagt absúrd; ótrúlega undarleg atvik henda en gjörðir manna eru ævinlega sprottnar af ást á tungunni, þ.e. nýnorsku, hvort sem um er að ræða að stela póstbílnum og aka honum í höfnina eða vera tekinn í búningsklefa í kvennærfatabúð lesandi hástöfum kvæði á nýnorsku … Og sagan er brjálæðislega fyndin!

Skv. því sem stendur fremst í bókinni er þetta fyrsta bók í þríleik og ég sé að ég verð að lesa þær allar og mun þá skilja öfga-málverndunarsinna miklu betur, auk þess að læra alveg helling í nýnorsku (sem mér hefur nú alltaf þótt gaman að lesa). Vonandi læri ég ekki of mikið í i-málinu í leiðinni 🙂

Bókmenntablogg fyrir bæjarstjórann

Enn eitt innleggið í Sögu Sögu Akraness

Þá ber svo til að sveinn kemur að Reini velríðandi með töluverðu fasi, og flytur Jóni Hreggviðssyni þau boð að mæta fyrir rétti útá Skaga hjá sýslumanni að viku liðinni. […] Réttur var settur í stofu sýslumanns og Jón Hreggviðsson ákærður um að hafa á Þíngvöllum við Öxará móðgað vora allrahæstu tign og majestet og greifa útí Holstinn, vorn allranáðugasta arfakóng og herra, með ósæmilegu orðaspjátri í þá veru að þessi vor herra hafi nú tekið sér þrjár frillur fyrir utan hans ektaskap. […] Síðan var réttinum slitið og uppkveðinn dómur í málinu á þá leið að Jón Hreggviðsson skyldi greiða konúnginum þrjá ríxdali innan mánaðar, en koma húð fyrir þar gjald þryti.
(Halldór Laxness. Íslandsklukkan, þriðja útg. Helgafell 1969, s. 13-14.)

Hér á Skaganum er Jóni Hreggviðssyni, „afrekum“ hans og lífssögu gjarna hampað, sbr. þennan fróðleiksmola á síðu Akraneskaupstaðar, þar sem Jón Hreggviðsson er kallaður „einn frægasti sonur Akraness“ (orðalag sem raunar minnir óþægilega á Öldurdals frægasti sonur en sjálfsagt er ekki hægt að gera þá kröfu til þeirra sem skrifa á vef bæjarins að þeir hafi lesið Bör Börsson).

Nú höfum við Skagamenn eignast annan okkar frægastan son, að vísu tvímælalaust ættleiddan, af hvurjum? Líklega af bæjarstjórnarmönnum, ekki hvað síst okkar ágæta bæjarstjóra, Árna Múla Jónassyni. Nútímaútgáfan af Íslandsklukkunni er skrifuð svona:

Það er vegið þannig að æru fólks að okkur fannst fullt erindi til að skoða þetta. Einstaklingar eru þjófkenndir og sakaðir um sögufals og við vonum að Páll Baldvin sé maður að meiri, viðurkenni mistök sín og biðjist afsökunar,“ segir Árni Múli Jónasson, bæjarstjóri á Akranesi, um bréf sem lögmaður bæjarins og tveggja einstaklinga, þeirra Gunnlaugs Haraldssonar, höfundar Sögu Akraness, og Kristjáns Kristjánssonar, útgefanda bókarinnar, sendi Páli Baldvini Baldvinssyni, bókagagnrýnanda Fréttatímans, þar sem krafist er leiðréttingar og afsökunarbeiðni á fimmtán ummælum Páls í bókadómi hans um fyrsta bindi Sögu Akraness sem birtist í Fréttatímanum 8. júlí síðastliðinn. […]  Í bréfinu fær Páll Baldvin tvær vikur til að verða við beiðni lögmannsins um leiðréttingu og afsökunarbeiðni, ellegar verði leitað annarra leiða til að rétta hlut þremenninganna, til að mynda fyrir dómstólum.
(„Kaupstaður, höfundur og útgefandi vilja leiðréttingu og afsökunarbeiðni“. Fréttatíminn 19.08 2011.)

Blessunarlega fara Árni Múli og félagar ekki fram á að komi húð fyrir þar afsökunarbeiðni þryti svo að því leytinu er hinn yfirlýsingaglaði og ofursómakæri bæjarstjóri okkar aðeins í takt við nútímann.

Eins og aðrir áhugamenn um Sögu Sögu Akraness fylgist ég spennt með framhaldinu og hef raunar þegar óskað upplýsinga frá Akraneskaupstað um hvur hafi og muni borga þjónustu lögmannsins, sem og í hvers umboði okkar ágæti bæjarstjóri akti því bæjarstjórn er í fríi og ekki þykir mér líklegt að þorri Skagamanna styðji yfirlýsingar og hótanir bæjarstjórans um lögsókn. (Þó gætu einhverjir eflaust sætt sig við einhvern hluta nýjustu yfirlýsingar Árna Múla um ágæti Sögu Akraness, þ.e. að hún sé „bullandi fín“.)

Af því þetta er bókmenntafærsla er við hæfi að ljúka henni á kvæðisbroti eftir föður bæjarstjórans okkar, með vinsamlegri ábendingu um að í vísunni er rætt um sýslumenn en ekki gagnrýnendur:

Og sýslumenn tók hann ef gleiðir þeir gerðust
og gaf þeim að líta pístólur
og skjálfandi lét þá að fótum sér falla
en fátækum gaf hann rúsínur.

(Úr „Landsreisu Jörundar“ eftir Jónas Árnason.)
 
 
 
 
 
 

Fleiri kenningar um orð og annað

„Þorvaldur Friðriksson ber saman íslensku og gelísku: Mörg orð og nöfn í íslensku eiga sér enga hliðstæðu í norrænum málun [svo] en finnast í gelísku“ heitir viðtal í Skessuhorni 10. ágúst 2011, s. 22. Þorvaldur þessi er fjölhæfur maður en líklega þekktastur fyrir að vera aðalskrímslafræðingur Íslands, að Þórbergi Þórðarsyni gengnum.

Kenningar Þorvalds eru, eins og kenningar Þórbergs sem lýst var í síðustu færslu, ákaflega skemmtilegar og sniðugar. Má sem dæmi nefna „orð eins og hrútur, sem ekki er til í hinum norrænu málunum, en hrútur þýðir hrútur á gelísku. Svo má nefna gemling, sem er óútskýranlegt orð út frá norrænum málum en auðskýrt með gelísku því gem þýðir vetur og þess vegna kemur þetta orð yfir vetrung á íslensku.“ Gemlufallsheiði heitir og svo af því gem þýðir vetur á gelísku. Sem dæmi um örnefnaskýringar aðrar má taka:

Súðavík er enn eitt dæmið en fjallið þar ofan við heitir kofri [svo]. Megineinkenni þess fjalls er eins konar kassi uppi á fjallinu. Kofer þýðir koffort og súð þýður örlátur eða gjafmildur maður og þaðan kemur Súðavíkurnafnið.

Írskur dans(Raunar næ ég ekki alveg hvort kofer sé gelískt orð en reikna með því, miðað við samhengið í viðtalinu.) Þorvaldur telur þvílíkan fjölda gelískra orða í íslensku, ekki hvað síst í örnefnum, að ég verð bara að benda fólki á að reyna að nálgast Skessuhorn til að lesa allt viðtalið. Hann vitnar til skýringar á gelískumekkinum í niðurstöður dr. Agnars Helgasonar um hátt hlutfall kvenna frá Bretlandseyjum í hópi landsnámsmanna en þær rannsóknarniðurstöður vöktu mikla athygli fyrir nokkrum árum. (Að vísu er keltneska hvatbera-erfðaefnið farið veg allrar veraldar vegna genaflökts og nútíma Íslendingar því ekki skyldari gelískumælandi fólki en hvaða Norður-Evrópubúum sem er … og að vísu voru tennurnar sem dr. Agnar skoðaði nánast allar af miðju Norðurlandi og miðju Suðurlandi … en hengjum okkur ekki í smáatriði hér.) Og ég hefði virkilega notið þessara skemmtilegu kenninga um óhóflegar gelískuslettur í íslensku ef viðtalið endaði ekki svona:

Akraneskaupstaður íhugar nú að koma upp setri í keltneskum fræðum og Þorvaldur fagnar því. Hann segir að ekkert þurfi að deila um þessi mál, aðeins að velta þeim fyrir sér og velta upp hlutum. „Í nýútkominni  Sögu Akraness eftir Gunnlaug Haraldsson er góð undirstaða fyrir örnefnarannsóknir því þar er mjög ítarlega farið í örnefni á þessu svæði. Þetta er mjög þakkarvert og öflugt framtak að semja það rit og gefa út. Á þessu er hægt að byggja áframhaldandi rannsóknir. Í örnefnunum er gríðarlega mikil saga og meiri en við höfum notfært okkur hingað til ef við notum gelískuna til að þýða þau.“

Það er alveg rétt hjá Þorvaldi að Akraneskaupstaður ætlar sér greinilega að koma upp „setri í keltneskum fræðum“ því í fundargerð bæjarráðs frá 7. júlí 2011 segir:

14.  1106156 – Keltneskt fræðasetur á Akranesi
 Tillaga stjórnar Akranesstofu frá 27. júní 2011 þar sem lagt er til við bæjarráð að stofnað verði keltneskt fræðasetur á Akranesi, sem byggir m.a. á þeim hugmyndum sem Þorvaldur Friðriksson, fornleifafræðingur hefur lagt fram um starfsemi, markmið og áherslur slíks fræðaseturs. Horft verði til gömlu húsanna á Safnasvæðinu sem ákjósanlega staðsetningu.
 Bæjarráð samþykkir tillöguna og felur stjórn og verkefnastjóra Akranesstofu að vinna áfram að málinu.

Í sömu fundargerð kemur og fram að nýr formaður stjórnar Akranesstofu er Sveinn Kristinsson, forseti bæjarstjórnar, sá hinn sami og jafnaði ritun Sögu Akraness við Versali og Kölnardómkirkju sem frægt er orðið.

Þorvaldur segir í viðtalinu að hann sé „kominn með mikla bók um þetta“ (væntanlega kenningar sínar um gelísk örnefni). Verður spennandi að sjá hver gefur út svoleiðis bók.  

Egifskur faraóSvoleiðis að þegar saman blandast fræði Gunnlaugs Haraldssonar og áhrif Sveins Kristinssonar við hugmyndir Þorvalds Friðrikssonar er ekki von á góðu því þetta ævintýri verður náttúrlega að stórum hluta fjármagnað af útsvari okkar bæjarbúa eins og hið fyrra ævintýri. Þannig að sniðugheitin og skemmtunin verða dálítið galli blandin í mínum huga. Svo hugsa ég til þess með hryllingi að einhverjir alvöru gelískufræðingar gætu glapst til að dúkka upp á Hinu keltneska fræðasetri á Akranesi, út á nafnið. Eiginlega liggur við að ég hugsi: Fari það í hurðarlaust helvíti! En það er væntanlega af því að í viðtalinu við Þorvald heldur hann því fram að þetta sé gelískuskotið orðtak; „hurð“ er nefnilega gelískt orð 😉

Í rauninni er miklu meiri ástæða til að koma á fót Egifsku fræðasetri eða Koptísku fræðasetri hér á Skaganum, í samræmi við kenningar mannfræðingsins Fräulein Jósefínu Dietrich. Hún hefur í mannfræðirannsóknum sínum fundið merkilegar heimildir á Netinu um að Íslendingar séu að hálfu leyti komnir af Egiftum! Að vísu eru heimildir þær kannski ekki alveg jafn óumdeildar og fræðilegar og sjálf Wikipedia en slaga þó hátt upp það fræðasetur. Og ekki er hægt að saka Fr. Dietrich um að velta ekki fyrir sér, velta við og velta upp hlutum … stundum kútveltist þessi ágæti mannfræðingur sjálfur, af ánægju yfir fræðistörfum. Heimildir hennar eru einkum  Selshamurinn í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (hér krækt í Netútgáfuna) og Símon Jón Jóhannsson. „Hvað má segja um seli sem eru menn í álögum?“. Vísindavefurinn 14.11.2006. (Skoðað 17.8.2011).

 Er ekki kominn tími til að rannsaka koptískuslettur í íslensku?
 
 
 
 
 

Orð og kenningar

Í gær byrjuðu vangaveltur um orðið tvískynjungur á þræði eins FB-vinar míns. Ýmsar uppástungur að merkingu hafa borist enda er orðið munaðarlaus ómagi svo að segja og sárvantar merkingu! Tvískynjungur er einmitt orð sem manni finnst að ætti að vera til í íslensku. Nú þarf bara að finna því stað og skýringu.

Umræðan á FB-þræðinum minnti mig svolítið á bók sem fékkst í bókabúðinni sem ég vann einu sinni í, The Meaning of Liff eftir Douglas Adams. Þar var ágætum munaðarlausum orðum fundin merking og rökstutt að akkúrat þessi orð vantaði í ensku (þrátt fyrir að það tungumál búi reyndar ljómandi vel að orðum miðað við orðsnauð tungumál eins og íslensku). Í Wikipedia-síðunni sem titillinn krækir í er m.a. tekið dæmið Abinger sem nota á um „þann sem vaskar upp allt nema steikarpönnuna, osta-rasparann og pottinn sem súkkulaðisósan var búin til í.“ Ég reikna með að orðið Abinger gæti komið sér vel einhvern tíma í ensku heimilishaldi og vona að það og fleiri orð Douglas Adams hafi náð fótfestu í engilsaxneskri tungu.

Margir íslenskufræðingar kannast við skinnsemiskenninguna sem sett var fram í Skinnduldarbréfi. Ég hef bréfið ekki við hendina en man að í því voru ágætis útskýringar á orðatiltækjum eins og flýgur fiskisagan eða að lesa langa rollu og af hverju Grágás heitir Grágás, hvað er langhundur og tengsl þessi við hundleiðinlegur og uppruna orðsins lesbía (sem upphaflega var lespía, lespíur sátu á réttaveggjum þá réttað var á haustin). Meira að segja örnefnið Launrétt (í Laugarási) er prýðilega útskýrt í þessari grein. Skinnsemiskenningin er rökstudd með pottþéttum orðsifjafræðilegum og sögulegum rökum.

Þjóðsögulegar skýringar á orðum og orðatiltækjum hafa löngum tíðkast. Má nefna hið dularfulla örnefni Tintron en því hefur verið haldið fram að sé kallað hástöfum tin ofan í Tintron svari bergmálið tron. Ég hef ekki prófað en þykir þetta sosum ekkert ólíklegt. (Og af því ég hef búið árum saman nálægt Tintron og margoft komið að staðnum, meira að segja kíkt oní’ann telst ég fullgild örnefnaheimild, sé miðað við staðal Sagnaritans Okkar.)

HundurAðra áhugaverða skýringu las ég fyrir löngu, man ég því miður ekki hvar, á því hvernig orðalagið að rísa upp við dogg hefði orðið til í íslensku. Þetta má rekja til þess að ensk skip fórust býsna oft við Íslandsstrendur í ólgusjó fyrri tíma. Hálfdrukknuðum reknum breskum sjómönnum var bjargað heim á bæi og þeir háttaðir ofan í ylvolg rúm (stundum með heimasæturnar til að hlýja sér, alveg eins og þeim hálfdrukknuðu reknu frönsku sjómönnum eða hálfdrukknuðu reknu basknesku sjómönnum o.s.fr. enda ekki búið að finna upp hitapokann … en það er önnur saga). Þegar svoleiðis hálfdrukknaður breskur sjómaður rankaði við sér var hundgá gjarna hið fyrsta sem hann heyrði (í gamla daga var ekki búið að finna upp geltsnauða hunda, eins og allir vita). Sjómaðurinn reisti þá höfuð frá kodda og stundi: „A dog!” Kættist þá heimilisfólkið mjög enda ljóst að sjóarinn myndi hafa það af og lauk upp einum rómi: „Nú er hann risinn upp við dogg!“ Og þetta festist í málinu (af því ekki var búið að finna upp „málhreinsun“ í gamla daga, eins og allir vita).

Þórbergur Þórðarson hafði mikinn áhuga á orðum. Í greininni „Tumma Kukka“ (sem finna má í Eddu Þórbergs Þórðarsonar, fyrst útgefinni 1941 og ég fann ekki upplýsingar um hvort eða hvar greinin hefði birst áður) eru ýmsar frábærar skýringar á finnskum orðum. Einna fyrst reynir hann að greina orðið ravintola:

Afþvíað ég hef gugtað við málfræðiiðkanir í hartnær þrjá áratugi hefur smámasaman vaxið innra með mér óviðráðanleg ástríða til að gera mér grein fyrir, hvernig orðin í tungum þjóðanna séu hugsuð. Rafintóla! endurtók ég nú með sjálfum mér, – það hlýtur að vera hús, sem eitthvað er gert í með rafmagni og tólum, líklega hóruhús með rafmagnsaðgerðum á eftir. En þegar ég mjakast nær þessari kitlandi byggingu, sé ég, að undir Rafintola stendur með miklu smærra letri: Restaurant. Þetta fannst mér fyndið: Rafintóla – Restaurant! Bara að Restaurant sé nú ekki veiðibrella til að narra mann inn til að gera hitt fyrir peninga einsog á sæluhúsunum í París.

Svartleitt blómOg þegar „ef til vill dularfyllsta og furðulegasta atvikið í lífi“ Þórbergs henti, þegar hann leit í glugga bókabúðar og sá „skruddudjöful“ með titlinum Tumma Kukka skáldaði Þórbergur afar sorglega sögu um stúlkuna Tummu Kukku, sem var „borin og barnfædd í Norður-Finnlandi, útivið hafið, þar sem miðsumarsólin sezt ekki á næturnar og karlmennirnir berjast með rýtingum.“ Og orti um sorgleg örlög hennar vísukorn sem löngum hefur verið sungið á samkomum íslenskunema undir lagi eftir Bellmann, mætti jafnvel kalla einkennissöng íslenskudeildar HÍ (a.m.k. til skamms tíma):
 

Hún trausta Tumma Kukka,
hún tók uppá þeim fjanda’að sukka.
En lægst komst hennar lukka,
er lagðist hún með Kristófer.
Þau sváfu þar á sænum
og sungu’um ást í morgunblænum.
Á grundarmöttli grænum
nú grætur hún það, sem liðið er.
Sem liðið er,
sem löngu liðið er.

Sorglegt ;(  Ævisögu Tummu Kukku má annars lesa í smáatriðum í samnefndri grein í Eddu Þórbergs Þórðarsonar og ekki vil ég spilla fyrir rómantískum orðsifjafræðingum með frekari upplýsingum um hana.

Þórbergur var raunar ekki bara lunkinn í að finna út hvað finnsk orð merktu, með samanburðarmálfræði að vopni, heldur áttaði hann sig einnig á gífurlegum áhrifum íslensku á önnur mál. Þetta er rakið í neðanmálsgrein í „Tummu Kukku“:

Ég hef lengi furðað mig á því, að fræðimenn og ættjarðarelskendur, sem haldið hafa og halda á lofti mikilleik norrænnar menningar, skuli ekki hafa komið auga á það, hvernig áhrif hennar hafa fyrr á öldum teygt sig svo að segja útyfir allan heim. Ég hef t.d. fundið fornnorræna orðstofna í japanskri tungu. Læt ég mér í þetta sinn nægja að benda þar á sem dæmi nafnið á hinum nýfráfarna utanríkismálaráðherra japana: Matzouka. Þetta er æfagamalt, norrænt viðurnefni á kvenmanni, matsújoka = mat sú jóka(t) = sú sem jók ekki mat, matarspillir, eyðsluhít. Slíkt heiti virðist og hæfa sæmilega ráðherra í morð-og tortímingar-ráðuneyti. […] Dálítið öðru vísi er hugsað íslenzka orðið Bak kú, sbr. (Rekavík) bak Látur, sem geymzt hefur í nafni rússneska héraðsins Bakú (annað k-ið fallið burt vegna samruna orðanna).

Í meginmáli rökstyður Þórbergur að bærinnn og héraðið Guadalajara á Spáni, sé að öllum líkindum „forníslenzkt kvenmannsheiti, lagað að stafsetningu og framburði eftir spænskri tungu úr Godala-Jara, þ.e. Jarþrúður frá Goðdölum (í Skagafirði), sem einhvern tíma í fyrndinni hefur flutzt til Spánar og setzt að í umræddu héraði, reist sér þar bæ, sem fengið hefur nafn hennar og síðar einnig orðið heiti héraðsins.“

*

Þessar skemmtilegu kenningar um orð og orðsifjar hafa smám saman verið að rifjast upp fyrir mér undanfarið, síðan ég las síðuviðtal við Þorvald Friðriksson í síðasta Skessuhorni. En ég fjalla um hans kenningar og möguleg áhrif þeirra á hvernig útsvarinu okkar Skagamanna verður ráðstafað næstu árin í næstu færslu.

  
  
 

Hvernig eiga miðaldra konur að haga sér á netinu?

Sumir segja að það sé vandlifað í þessum heimi. Það kann að vera rétt en ég get einnegin staðfest að það er vandbloggað! Hvað er við hæfi að kona á mínum aldri tjái sig um? Hvað má kona á mínum aldri segja á facebook og bloggi? Hver eru “takt og tone” í lífi ánetjaðra miðaldra kvenna? (Hér vantar átakanlega lífsstílsbók sem kona eins og ég gæti farið eftir. Það er ekki nóg að hafa einungis aðgang að bókum sem segja manni hvernig hægt sé að horast, forðast kolvetni, hætta að reykja, velja réttu klæðin og meiköppið, yngjastumtíuáránskurðaðgerðar o.s.fr.)

TatrabusÉg á núna tvær hálfar færslur sem stuða. Þær tengjast dálítið: Önnur er um bókina Þeir tóku allt – meira að segja nafnið mitt eftir Theu Halo. Hin er um að það sem haldið er fram í bókinni, sumsé að ákveðin þjóð endurskrifi sögu sína og þurrki út nokkur þjóðarmorð, jafnt úr eigin sögukennslu sem sögukennslu í útlöndum (aðallega BNA) sé faktískt rétt. Ég hélt að þessar staðhæfingar hlytu að vera orðum auknar en við uppflettingar á þeirri ágætu Wikipediu komst ég að því að þær standast. Hefði haft gaman af því að skoða þetta betur.

En … birti ég þessar færslur er ég víst rasisti. Svo ég ákvað að birta þær ekki.

Þá datt mér í hug að fjalla um aðra endurskrifaða sögu, nefnilega sögu Tatratröllsins á Íslandi enda tengist það (vonandi sáluga tröll) fjölskyldu minni. Ella hefði ég tæplega haft áhuga á því. Einn FB-vinur kom með hvatningu í gær eða fyrradag um að sem flestir skrifuðu inn á FB-síðu Tatrabus því athugasemdum Íslendinga væri eytt jafnóðum og því rétt að leyfa stjórnendum síðunnar að hafa eitthvað að gera. Þessari hvatningu fylgdi tengill á 6 – 8 skjámyndir af athugasemdum á https://www.facebook.com/#!/tatrabus sem öllum hafði verið eytt. Ég einhenti mér auðvitað í athugasemdir og einhverra hluta vegna hafa tatratröllin leyft mínum að standa … Kannski kunna Tékkar einkar vel við nafnið Harpa? E.t.v. hljómar fullt nafn mitt vel í eyrum stjórnenda síðunnar (nóg er af errum og errpé og hrei og e.t.v. öðru sem gleður tékknesk eyru … hvað veit ég  … nema ég gladdist auðvitað yfir að sleppa gegnum tékkið).

TatrabusSvo fékk ég bráðfyndið bréf í dag gegnum síðuna þar sem Filip nokkur Kadlec heldur því blákalt fram að bróðir minn hefði ekið á meir en 100 km hraða í veg fyrir saklausa gula Tatratröllið, á moldaslóða á Dómadalsleið, hefði svo játað að vera alger auli að keyra jeppa enda ætti hann bara Toyotu Corollu, að þeir góðu Tékkar í rútunni hefðu veitt honum áfallahjálp og læknishjálp og guðmávitahvað … og að þetta væri þvílíkur drulludeli að yrði hann á vegi Filips ætlaði hann sko að spýta á veginn fyrir framan hann (bróður minn)! Filip þessi kvaðst hafa verið farþegi í gula Tatratröllinu þegar þessi íslenski ónytjungur svínaði fyrir tröllið. (Bróðir minn svaraði bréfinu, því svari var náttúrlega umsvifalaust hent út en önnur tilraun virðist hafa tekist í bili því svarbréfið hangir enn inni. Kannski eru stjórnendur síðunnar í pásu? Altént geta áhugasamir farið á FB síðu tatratröllsins sem krækt er í hér að ofan og fundið hann Filip, frekar ofarlega á síðunni, og svar bróður míns, sparslað inn í langa bréfið Filips, er í athugasemd. Hann bað Filip vinsamlegast um að miða vinstra megin á veginn ef til þess kæmi að hann spýtti …)

TatrabusEn … nei … bloggi ég um þróun afsökunarbeiðni Tatrabus (sem er nú einkar áhugavert að skoða) eða þegar gula skrímslið var næstum búið að drepa bróður minn í fyrrasumar eða fetti fingur út í versjón Filips telst ég víst komin í stríð við tékkneska ferðaskrifstofu! Og athugasemdirnar á FB-síðunni teljast víst aggressívar. Þær eru náttúrlega frekar áberandi enda búið að henda athugasemdum frá flestum öðrum … en árásargjarnar? Tja, miðað við FB-umræðu almennt myndi ég nú ekki telja það. En sumir eru viðkvæmari en aðrir …

Svoleiðis að ég lagði frá mér byrjun á bloggi um Tatratröllin (og upprifjun á svarthvítri auglýsingu í RÚV í gamla daga og pælingar um góða kynningu á Grieg í þeirri auglýsingu og …)

Svo um hvern fjandann má kona öfugu megin við fimmtugt blogga? Væntanlega eitthvað kvenlegt og sætt og jákvætt svo viðkvæmar sálir fái ekki hland fyrir hjartað, skyldi maður ætla. Og vissulega hef ég bloggað svolítið um hannyrðir, sem hljóta andskotakornið að teljast kvenlegt og ásættanlegt bloggefni. Á hinn bóginn er ég löngu búin að sjá að vefur hentar miklu betur fyrir svoleiðis umfjöllun og er sosum með vef í bígerð – en vefur er ekki blogg.

Neyðin kennir naktri konu að spinna (að vísu kann ég ekki að spinna en ég er líka yfirleitt í fötum) og blessunarlega var því einmitt slegið föstu í dag, loksins, hver væru áhugamál kvenna! Svo nú veit ég það og ætti náttúrlega að skipuleggja næstu færslur með hin PC-réttu kvenlegu áhugamál í huga. Þau eru: Snyrtivörur, útlit, líkamsrækt og kynlíf. (Heimild: “Það eina sem konur hafa áhuga á“, Pressan.is 12. ágúst.)

Að vísu lýst mér bölvanlega á flest þessara blogg-efna svo ef lesendur geta bent mér á einhver fleiri bloggefni sem mættu teljast við hæfi miðaldra bloggynju eru tillögur vel þegnar. Ég set mörkin við bakstur og eldamennsku – það eru takmörk fyrir öllu, meira að segja hversu langt er gengið í þóknast þeim sem vita svo ofsalega vel hvernig aðrir eiga að haga sér, hugsa og tjá sig á netinu 😉

Svo reikna ég fastlega með því að þessi færsla teljist ekki pólitískt rétt og falli ekki í kramið í hjá öllum …

  

Sagan umfjallaða?

Enn heldur umfjöllun um Sögu Akraness áfram í Skessuhorni í dag (s. 19)!  Þar birtist aðsend grein Jóns Torfasonar, skjalavarðar á Þjóðskjalsasafni Íslands, þar sem hann tekur upp hanskann fyrir Gunnlaug Haraldsson. Greinin heitir „Saga Akraness“, ég kræki í hana á vef Skessuhorns og hvet lesendur míns bloggs til að renna yfir hana. Í grein sinni er Jón Torfason einungis að svara mér því: „Ekki er þörf á að taka tillit til geðvonskulegs nöldurs Páls Baldvins Baldvinssonar í Fréttatímanum 8. júlí síðastliðinn.“

Ég  skil ekki alveg af hverju Jón Torfason vill vera í kompaníi þeirra sem róma Gunnlaug Haraldsson en e.t.v. hefur honum runnið blóðið til skyldunnar því hans er sérstaklega getið í þakkarorðum í formála Gunnlaugs að Sögu Akraness I, e.t.v. einnig í II. bindinu en ég hef ekki opnað það.

Nú hefur Jón Torfason flett upp í ritum sem Gunnlaugur vísar til og finnur ekki annars staðar farið rangt með en þá villu sem ég benti á (um Kjarrá, í Landnámu). Sjálf fletti ég bara upp þremur tilvitnunum og því fer fjarri að ég rengi Jón Torfason í að mjög víða (þ.e. í því efni sem Jón bar saman) fari Gunnlaugur rétt með.

Jón Torfason segir: „Þá er að nefna þá skoðun að jafnan skuli nota samræmda stafsetningu forna, þegar vísað er í fornritin. Það er heldur einstrengislegt viðhorf enda sú stafsetning að mestu leyti nítjándu aldar manna verk.“ Ég er alveg sammála Jóni um þetta og mér er auðvitað kunnugt um hvernig samræmd stafsetning forn kom til skjalanna. Ég er hins vegar dálítið hissa á af hverju hann dregur þetta fram í sinni grein því sé hann að svara mér hef ég hvergi nokkurs staðar haldið því fram að nota eigi þessa stafsetningu öðrum fremur, er raunar fremur í nöp við hana.

Vitarnir á BreiðinniAftur á móti var síðast þegar ég vissi enn gerð sú krafa í framhaldsskólaritgerðum að nemendur vitnuðu stafrétt í heimildir. Hefur það breyst á háskólastigi eða í akademískum skrifum / meintum akademískum skrifum? Ef Gunnlaugur Haraldsson kýs að vitna í Íslenzk fornrit á hann að hafa beinar tilvitnanir stafrétt eftir. (Eða er Gunnlaugur á sérstakri undanþágu hvað þetta og ótal margt annað sem snertir höfundarétt varðar?) Ef Gunnlaug Haraldsson hefði langað til að hafa beinu tilvitnanirnar með nútímastafsetningu hefði honum einnegin verið í lófa lagið að brúka slíkar heimildir, t.d. útgáfu MM (fyrrum Svarts á hvítu, sem Jón Torfason átti einmitt aðild að) eða bara Netútgáfuna, sem er byggð á útgáfu Guðna Jónssonar. En það gerði hann sem sagt ekki, skv. tilvísunum í heimildir.

„Þá hefur verið bent á ónákvæma tilvísun í netmiðla.“ Þetta er stórkostlegur úrdráttur og ég vísa í dæmin sem ég tel upp í Fjórðungsdómnum. Tilvísanir í netmiðla eru hörmung, ekki hvað síst í myndaskrá. Og Jón Torfason hlýtur að vera að grínast þegar hann segir: „Um staðarnafnið Aiginis nálægt Ljóðhúsum í Skotlandi er t.d. tvisvar vitnað í wikipedia.org og þótt viðkomandi slóð vanti þá kemur öll færslan upp þegar örnefnið er slegið inn. Sama á við um tilvísanir í geograph.org.“ Ég reikna með að þessar síður komi líka upp ef maður slær örnefnið inn í Google svo google.com / google.is er þá væntanlega einnig tæk heimildaskráning skv. fræðum Jóns Torfasonar eða hvað? Og gerir Jón Torfason sér enga grein fyrir hve hvikular vefsíður eru og hvers vegna menn vitna í rétta slóð með dagsetningunni þegar síðan var skoðuð? Nú get ég ekki annað en vísað Jóni á einhverja framhaldsskólakennslubók í ritun til að kynna sér hvernig vitna skal í efni á netinu og það hið fyrsta.

„Prentvillu fann ég enga í bókinni …“ Ekki ég heldur enda tók ég það sérstaklega fram. Ég er sammála Jóni Torfasyni að það er gleðilegt en raunar skoðaði ég miklu minni hluta bókarinnar en hann, var heldur ekki Gunnlaugi Haraldssyni innan handar þau 14 ár sem það tók hann að klambra saman þessum bindum (frá snemma árs 1997 til snemma árs 2011) eins og Jón Torfason, sem er hlýlega þakkað fyrir það í formála Gunnlaugs. Af þakkarlistanum í formála er ég þess fullviss að prófarkalesarar eiga hrósið fullkomlega skilið.

Það getur vel verið að Gunnlaugur „hafi dregið fram marga fróðlega hluti“ með elju sinni í að kanna óprentaðar heimildir um 17. og 18. öld eins og Jón staðhæfir. Við skulum vona það. Og við skulum vona að þessir „fróðlegu hlutir“ drukkni ekki í mælginni en vaðall og vanmáttur í að greina milli aðal- og aukaatriða einkennir mjög örnefnahluta I. bindis og hlutann um landnám, sem ég skoðaði. En ég skoðaði ekki meir en það, gafst hreinlega upp á lestrinum og blöskraði meðferð á myndum, heimildum o.fl. Ég hef ekki séð öndvegisritin um byggðasögu Skagafjarðar sem Jón tekur til samanburðar en þætti gaman að vita hvort hafi kostað 110 milljónir að láta rita hálfa sögu Skagafjarðar og gefa hana út. Kannski Jón Torfason geti svarað því næst þegar hann gengur fram fyrir skjöldu Gunnlaugi.

Ég er algerlega ósammála niðurstöðu Jóns Torfasonar: „Það er óhætt að skipa Sögu Akraness í flokk með alfróðlegustu og merkustu verkum á sviði byggðasögu.“ En fúslega má skipa Jóni Torfasyni í flokk karlanna sem rómað hafa verkið allra hæst (yfirleitt án þess að hafa lesið það), það er ekki spurning. Sagnaritaranum veitir ekki af skjaldsveinum og Jón Torfason hefur þó lesið talsvert af því sem hann hefur skrifað.

Satt best að segja hélt ég að Sögu Sögu Akraness væri lokið. (Titillinn vísar í pdf-skjal með samanlímdum bloggfærslum til þessa, heldur handhægara til lestrar en einstakar færslur í þessu bloggumhverfi.) En ef fleiri karlar ætla að leggja undir sig misstóra hluta af Skessuhorni hvað eftir annað til að „verja sinn mann“ þá stefnir í II bindi af Sögu Sögu Akraness.
 

VerksmiðjaLoks má nefna að nú er að verða til nýtt skemmtiefni í bænum okkar sem þarf helst að byggja á kenningum Gunnlaugs Haraldssonar um hið mikla gelíska (nánar tiltekið suðureyska, nánar tiltekið upprunnið úr Ljóðhúsum) landnám hér á Skaga og þess vegna þarf Saga Akraness að vera „með alfróðlegustu og merkustu verkum á sviði byggðasögu“. Þetta sé ég á annarri grein í Skessuhorni. Stjórnandi þess skemmtiverkefnis verður væntanlega Sveinn Kristinsson, forseti bæjarstjórnar og nýorðinn formaður stjórnar Akranesstofu. Verður spennandi að fylgjast með hve háar upphæðir rata úr sjóðum bæjarins í það nýja gæluverkefni og hvort Gunnlaugur Haraldsson verði kannski ráðinn til að stjórna því. Ég kynni þessar spennandi hugmyndir í næstu færslu og felli hana væntanlega undir Sögu Sögu Akraness.

Sagnfræðingar og áhugamenn um byggðasögu ættu endilega að gerast áskrifendur að Skessuhorni til að fylgjast með nýjungum í mati á byggðasögu! Og það er varla tilviljun að stjórnsýsluvefur Akraneskaupstaðar, akranes.is, er í 17. sæti á topp-25 lista Blogggáttarinnar yfir vinsælustu vefritin. Enda eru hér í bæ ritaðar ákaflega merkilegar fundargerðir.
 
 

P.s. Titillinn á þessari færslu er kannski ekki heppilegur því raunverulegir ritdómar eða umfjöllun um Sögu Akraness I og II sem sagnfræðiverks eru mjög af skornum skammti. Þetta geta menn t.d. séð með því að slá inn „Saga Akraness“ í Google. Páll Baldvin skrifaði ritdóm um verkið þar sem hann gaf því eina stjörnu, s.s. Jón Torfason nefnir en kýs að afgreiða sem „geðvonskulegt nöldur“, örstuttur ritdómur birtist í Morgunblaðinu (þar fékk verkið tvær og hálfa stjörnu) en annað er það nú ekki. Fjórðungsdómurinn minn fjallaði einungis um einn fjórða af fyrra bindinu. Grein Jóns Torfasonar er fremur varnarræða fyrir höfundinn en ritdómur. Þannig að þegar allt kemur til alls hafa afar fáir séð ástæðu til að fjalla um þetta meinta stórvirki, þ.e. bindin tvö í Sögu Akraness. Af hverju ætli það sé?
 
 
 
 

Vandinn að vinna í sjoppu

Í rauninni fjallar þessi færsla um málfar og málfarsfasisma en þó einnig um sjoppur … eða ætti ég að segja „söluturna“? Það er að því leytinu ankannalegt að sjaldnast er um turna að ræða …

Flestar konur á mínum aldri hafa reynslu af sjoppuvinnu og afgreiðslustörfum ýmiss konar. Í sólbaðinu áðan reyndi ég að rifja upp hvort ég hefði einhvern tíma lent í vandræðum í svoleiðis vinnu og mundi eftir tvennu.

Fyrra dæmið var snemma á vinnumarkaðsferlinum, líklega hef ég verið á fjórtánda ári, þegar ég vann í svokallaðri „kaupfélagssjoppu“ á Laugarvatni. Starfið var fjölþætt í meira lagi: Dæla bensíni, selja olíu, pulsur, mjólkurvörur, sælgæti, þrífa klósett, taka við tómum gaskútum o.fl.  Kúnnarnir voru miskurteisir eins og gengur en yfirleitt allt í lagi … nema Ólafur gamli Ketilsson. Feimin og óframfærin sem ég var hrökk ég í kút þegar hann hreytti í mig: „Skelerð’ekki mælt mál, stelpa?!“ eftir að ég hafði hváð oftar en honum þótti góðu hófi gegna. Karlinn bað um „sker“. Mér var lífsins ómögulegt að reikna út hvað „sker“ gæti mögulega verið. Mig minnir að vinnufélagi minn hafi loks hvíslað að mér að geðvonda gamalmennið ætlaði að kaupa skyr. Mér til málsbóta var að ég hafði aldrei fyrr á ævinni heyrt flámæli. Síðar lærði ég að meta flámæli og fannst unun að hlusta á ekta flámæltan eldri mann hér í bæ en hann er því miður dáinn fyrir mörgum árum. Þetta er svo sjaldgæfur framburður núorðið að það er ómetanlegt að hafa heyrt hann ómengaðan.

Góða helgiHitt dæmið var á háskólaárum mínum, þegar einhverri mömmunni datt í hug að senda krakkann sinn með þúsundkall í Breiðholtssjoppuna á laugardagskvöldi og átti barnið að kaupa „50 aura möndlur“ fyrir féð. Af því það var brjálað að gera á laugardagskvöldum datt mér ekki í hug að telja 2000 rauðar möndlur með matskeið ofaní poka heldur afhenti krakkanum nokkra möndlupoka og handtaldar möndlur sem stemmdu upphæðina af. Móðirin hringdi síðan gersamlega spinnegal yfir þessari leti og ómennsku afgreiðslustúlkunnar. En þessi uppákoma kemur þó efni færslunnar ekkert við, flýtur með af því þetta er blogg og blogg mega vera óskipuleg. Það er þeirra eðli.

Mér varð hugsað til afgreiðsluáranna í dag af því ég las pistilinn „Að heilsast og kveðjast“ eftir Þórð Helgason (í mogga mannsins). Mogginn býður upp á greinarstubba um íslenskt mál á sunnudagskálfinum og yfirleitt finnast mér þeir stubbar mjög fyndnir, t.d. nöldur út í hve íslenska er ófeminísk eða hve mikil spellvirki séu framin á tunguræflinum þegar fólk brúkar ekki ufsilon rétt og fleira í svoleiðis dúr. Mér fannst pistill Þórðar Helgasonar hins vegar ekkert fyndinn enda sá ég fyrir mér vesalings afgreiðslufólkið sem lenti í að afgreiða manninn, heltekinn af rétthugsun um íslenskt mál. Líklega lítið skárra að afgreiða Þórð en Óla gamla Ket (en eins og allir Laugvetningar komnir til vits og ára muna var karlinn hroðalega geðstirður).

Þórður tók sig til og settist niður með afgreiðslumanni sem vogaði sér að segja „og eigðu góða helgi“ við hann. En í gegnum textann skín þó gleði Þórðar yfir að afgreiðslumaðurinn sagðist „finna fyrir óbragði í hvert sinn sem þessi orð hrytu honum af munni“ og „var greinilega feginn að finna í mér bandamann …“ Fyrr má nú vera andskotans viðkvæmnin! Mér finnst „góða helgi“ vera ósköp sæt kveðja og sé ekki að hún sé neitt verri en „góða nótt“, ef út í það er farið, þótt hún sé vissulega yngri. Og að viðskiptavinur sjái ástæðu til að setjast niður með afgreiðslufólki sem óvart hefur ekki alveg sama orðaforða og íslenskukennari á sjötugsaldri finnst mér algerlega út úr kú. (Hér geta málhörundsárir skipt út orðtaki og sett „út í hött“ í staðinn ef þeim líður þá betur.)

Nokkrum árum síðar fór Þórður „síðla kvölds í mikilli súkkulaðiþörf inn í sjoppu eina í Kópavogi.“ Þar bauð hann gott kvöld en unglingsstúlkan sem afgreiddi tók ekki undir svo Þórður greip til eftirfarandi ráðs: „… benti henni á að ég hefði boðið gott kvöld. Stúlkan starði á mig og átti ekki orð.“ Ég er ekki hissa á því! Og það hlakkar í Þórði þegar hann lýsir því hvernig hann margþakkaði fyrir sig, án þess að fá rétt viðbrögð að eigin mati og staldraði síðan við í dyrunum og bauð góða nótt: „Við þessa óvæntu atlögu mátti glöggt sjá að stúlkan fór úr þessu litla jafnvægi sem eftir var.“ Þórði finnst þetta greinilega hafa verið ansi gott hjá sér og voða gaman, hefur líklega haft af þessu Þórðargleði. Ef ég set mig í spor afgreiðslustúlkunnar þá hefði ég væntanlega talið að maður sem léti svona væri ekki með öllum mjalla og haft örlitlar áhyggjur af því upp á hverju viðkomandi tæki næst.

Kannski má allt eins lesa pistil Þórðar Helgasonar frá sjónarhóli afgreiðslufólks: Til að róa manninn sest afgreiðslumaðurinn niður með honum og samsinnir öllu sem hann segir eða afgreiðslumaður reynir að leiða svona kúnna hjá sér og segja ekki neitt. Þannig séð er þetta góður greinarstubbur moggans sem kennir fólki í verslunum eða þjónustufyrirtækjum að fást við erfiða viðskiptavini sem fá útrás fyrir geðvonsku sína með því að hanka mann og annan á málfari eða orðanotkun.
 
 

Saga Sögu Akraness

Ég er að ganga frá ýmsu efni þessa dagana, frá útsaumsstykkjum til stafrænna hannyrða. Þar á meðal hef ég raðað saman bloggfærslum í færsluflokknum Saga Sögu Akraness og sett upp í pdf-skjal, sem vitaskuld er mun læsilegra en í þessu bloggumhverfi. Augljósar villur voru leiðréttar og fyrstu tvær færslurnar felldar betur saman en að öðru leyti var færslunum ekki breytt. Þeim fylgja svo langar og leiðinlegar töflur unnar upp úr fundargerðum ritnefndar um sögu Akraness. Pdf-skjalið er því ekki ritgerð um efnið heldur sést greinilega að ég var að kynna mér það jafnóðum og ég samdi bloggfærslurnar … aftur á móti gæti þessi texti orðið góður grunnur að grein, ritgerð eða fréttaskýringu, tel ég. Og væri þetta ekki upplögð jólagjöf, útprentuð og bundin saman með rauðum slaufum?

Plaggið má nálgast á http://harpahreins.com/Saga_Sogu_Akraness.pdf

Fréttir af Sögu Akraness eru engar ennþá en ekki er óhugsandi að gefist tækifæri til að skrifa 2. bindi Sögu Sögu Akraness einhvern tíma 😉  Bæjarstjórinn þagði þunnu hljóði í því Skessuhorni sem ég bjóst við að hann notaði til að biðja mig afsökunar, sérstaklega af því hann hélt því fram í útvarpsþætti að hann hefði alls ekki lesið bloggfærslurnar mínar sem hann þó lýsti yfir að væru þrugl, hefði einungis lesið Fjórðungsdóminn, en í honum hefur hann ekki hrakið eitt einasta atriði. Það er merkilegt hve framámenn í bæjarpólitíkinni eru duglegir að ýmist róma eða tæta niður texta sem þeir hafa alls ekki lesið … er þetta eitthvert nýtt trend? 

Það verður gaman að taka upp léttara og ábyrgðarlausara hjal á þessu bloggi nú síðsumars og ég stefni á að hvíla heimildablogg um sinn.

Nú skaltu rökstyðja eða biðjast afsökunar!

Ég er orðin þreytt á að sitja undir órökstuddum blammeringum Árna Múla Jónassonar bæjarstjóra Akraneskaupstaðar og finnst engan veginn við hæfi hvað hann segir í nafni síns embættis!  Þessi grein mín birtist í Skessuhorni í dag:

Árni Múli Jónasson bæjarstjóri:  Bentu á þruglið eða biðstu afsökunar!

Í Skessuhorni 13. júlí sl. fjallar Árni Múli Jónasson bæjarstjóri Akraneskaupstaðar um ritdóm Páls Baldvins Baldvinssonar um Sögu Akraness. Orðrétt er þar haft eftir bæjarstjóranum: „Mér sýnist Páll af einhverjum óútskýrðum ástæðum hafa ákveðið að éta gagnrýnislaust upp þruglið sem bloggari einn hér í kaupstaðnum hefur staðið fyrir linnulítið undanfarnar vikur.“

Ég geri ráð fyrir að umræddur bloggari sé ég sjálf því ég hef rakið sögu sagnaritunar um Akranes, aðallega frá 1956 til dagsins í dag, í 15 tölusettum bloggfærslum og byggt á rituðum heimildum sem flestar eru opinber gögn Akraneskaupstaðar. Einnig hef ég skrifað yfirlitsfærslu yfir sagnaritunina 1987-2011, skrifað eina færslu um hluta Sögu Akraness I eftir Gunnlaug Haraldsson og eina færslu til að svara hörðum viðbrögðum við þeirri færslu, þ.á.m. orðum Árna Múla Jónassonar bæjarstjóra sem voru algerlega órökstudd. Þessar 18 færslur í færsluflokknum Saga Sögu Akraness birtust frá apríllokum til júníloka nú í ár.

Fundargerðir ritnefndar, bæjarstjórnar og bæjarráðs eru vissulega oft illa orðaðar og má stundum finna í þeim mál- og stafsetningarvillur en mér finnst nokkuð langt gengið að kalla þær þrugl. Sama gildir um aðrar beinar tilvitnanir í færsluflokknum Saga Sögu Akraness á harpa.blogg.is, t.d. í bæjarstjórnarmenn og Árna Múla sjálfan. Ég reikna með að Árni Múli bæjarstjóri eigi við færsluflokkinn í heild úr því hann talar um „þruglið … linnulítið undanfarnar vikur.“

Bæjarstjóri Akraneskaupstaðar getur ekki verið þekktur fyrir að fara með fleipur og vega að mannorði mínu.

Þess vegna á Árni Múli Jónasson bæjarstjóri að rökstyðja með dæmum að bloggfærslur mínar séu þrugl.  Geti hann ekki gert það ætti hann að biðja mig afsökunar á orðum sínum á síðum Skessuhorns, sem er miðillinn sem hann hefur sjálfur kosið að tjá sig í.