Category Archives: Tónlist

Það er ei kvöldsett enn (Ой, да не вечер)

Þessi færsla er um enn eitt uppáhaldslagið mitt, sem hefur haldist í uppáhaldi í meir en ár. Skil ég þó ekki textann og má ætla að texti sé aukaatriði í góðum og velfluttum lögum.

Lagið syngur rússneska söngkonan Pelageya Sergeyevna Khanova (Пелагея Серге́евна Ханова). Pelageya var undrabarn í tónlist og nýtur mikillar hylli sem þjóðlagasöngkona í Rússlandi. Hún stjórnar eigin hljómsveit og satt best að segja minna útsetningarnar hennar mig svolítið á þá ágætu færeysku þjóðlagasveit Týr.

Ótal útgáfur af Oy, to ne vecher (Ой, да не вечер) er að finna í flutningi Pelageyu á YouTube en þessi, tekin upp á tónleikum 2009, finnst mér sérstaklega góð:


Á YouTube síðunni fylgir textinn, á rússnesku og í enskri þýðingu.

Oy, to ne vecher er annars upphafið á löngu rússnesku þjóðlagi, segir sjálf Wikipedia, sem er ýmist kallað Dæmisagan um kósakkana eða Draumur Sténka Rasin.

Í upphaflegu útgáfunni dreymir Sténka Rasin draum sem túlkaður er sem fyrirboði ósigurs hans og liðsmanna. Efni textans er eitthvað á þessa leið:

Það er ei kvöldsett enn en ég lagði mig örstutt og dreymdi að svarti hesturinn minn ólmaðist, að hvassir vindar úr austri blésu af mér svartri húfunni, að boginn minn sviptist af öxl mér og örvarnar dreifðust um rakan svörðinn. Herforingi minn túlkaði drauminn: Sténka Timofeyevich, sem menn kalla Rasin: Af höfði þér fauk svarta húfan og af þér mun fjúka villt höfuðið; Boginn sem sviptist af þér þýðir að ég sjálfur mun dingla í snörunni; Örvarnar sem dreifðust eru Kósakkarnir okkar sem allir munu flýja.

Textinn hefur verið fluttur með ýmsu móti en núorðið er algengast að syngja einungis fjögur erindi, búið er að fella Sténka Rasin brott, fyrirboðunum í draumnum hefur fækkað og tákna einungis eitt.

Textinn sem Pelagya syngur er á þessa leið:

Það er ei kvöldsett enn en ég lagði mig örskotsstund og dreymdi;
Í draumnum var sem svarti hesturinn minn væri óður og ólmaðist undir mér;
Og illir vindar blésu úr austri og þeir sviptu svörtu húfunni af villtu höfði mér;
Og herforinginn var vitur, hann gat þýtt draum minn: Ó, það mun vissulega fjúka af, sagði hann, hið villta höfuð þitt.

 

Það er auðvitað dálítið leiðinlegt að Sténka Rasin skuli horfinn úr textanum því margir Íslendingar sem komnir eru til vits og ára kannast við annað rússneskt þjóðlag um hann, sem í íslenskri þýðingu Jóns Pálssonar frá Hlíð hefst svo:

Norður breiða Volguvegu
veglegt fer með þungum skrið
skipaval mót stríðum straumi
Sténka Rasins hetjulið.

(Framhaldið má lesa í Æskunni, 75(5-8) s. 51-52  – raunar er svo til önnur þýðing á þessu kvæði eftir Jochum M. Eggertsson sem birtist í Eimreiðinni, 39(4) s. 386-388.)

En frá Sténka Rasin til hennar Pelageyu: Hér er önnur útgáfa þar sem hún syngur lagið ásamt leikkonunni Daryu Moroz :

Í lokin finnst mér rétt að benda á nótur af píanóútsetningu Oy, to ne vecher ásamt tilbrigðum , fyrir þá lesendur sem langar að spila lagið í stað þess að syngja með.

Söngvar ástsjúkra karlmanna og annar kveðskapur

Ég les alltof lítið af ljóðum síðan ég komst á fullorðinsaldur. En hlusta þess meira á tónlist og langar stundum til að vita hvað textarnir þýða, sé sungið á málum sem ég skil ekki. Undanfarið hef ég dálítið verið að hlusta á lög Mikis Þeodórakis og held í augnablikinu upp á þau tvö lög sem tengt er í hér að neðan. (Þau má bæði finna í flutningi ólíkra listamanna á YouTube.)

Eitt af skáldum heimilisins snaraði fyrir mig textunum. Verður að segjast eins og er að þeir eru skýr dæmi um söngva ástsjúkra karlmanna, svo sem Hundur í óskilum kallaði slíka texta í ágætum útvarpsþætti fyrir löngu (gott ef þátturinn var ekki meira að segja á Rás 1). Söngvar ástsjúkra karlmanna eru afar algengir textar í íslenskum einsöngs- og dægurlögum svo efnistök koma ekki beinlínis á óvart.

Fyrra dæmið reyndist vera um söknuð og svala lind og fjöll sem eru eins og fjólubláir draumar og fleira svoleiðis ástsjúkt. Þó er þetta ljómandi fallegur texti og ekki spillir gullfallegt lagið Hér syngur Margarita Zorbala lagið Fjólublá fjöll (Μενεξεδένια τα βουνά) eftir Mikis Þeodórakis. Textann gerði Jannis Þeódórakis (bróðir tónskáldsins).

Íslensk þýðing á ljóðinu (athugið að þýðingin fellur ekki að laginu):

Fjöllin voru fjólublá
fjólubláir kossarnir
eins á lit og augun þín
einsemd mín er niðadimm.

Raunalest sem reif þig burt
ristir sundur hjarta mitt
hennar braut er sviði sár
sorg og grát hún flautar mér.

Vegfarandi var ég þér,
þú mér ljós og lindin svöl.

Hélt ég þér í höndum tveim
hafði fyrir lítinn fugl
hófst að morgni sætan söng
sást um kvöldið aldrei meir.

Flakkandi ég fer um skóg
fölar greinar allt í kring
mér er auðnin endalaus
ekkert nema sölnuð lauf.

Annað uppáhaldslag þessa dagana er Mana mou kai Panagia (Μάνα μου και Παναγιά), þar af skildi ég einungis að María guðsmóðir (Panagia) væri eitthvað nefnd í textanum. Eftir snörun texta veit ég að söngvarinn, sem er mikið niðri fyrir, er óheyrilega ástsjúkur! Mér finnst Yorgos Dalaras gera þessu lagi góð skil, á YouTube eru nokkrar útgáfur af söng hans en mér finnst sú elsta, tekin upp 1984, langskemmtilegust. Lagið er eftir Mikis Þeodórakis en textinn eftir Tasos Livaditis.

Textinn er á þessa leið (mismunandi vendilega þýddur):

Björtust sól og bjarmi dags, blessað næturljósið skýra
Máríu þú meyjar varst, móðurbæn og óskin dýra.

Þú ert farin og vindarnir og öldurnar gráta,
stjörnurnar gráta og nóttin grætur
mamma mín grætur líka við leiðið
og auk þess er María mey grátandi.

Svölun varst í kófi kær, kertaljós í myrkum geimi
leiðarstjarna um logafár, lausnarinn í vítisheimi

Þú ert farin og vindarnir og öldurnar gráta,
stjörnurnar gráta og nóttin grætur
mamma mín grætur líka við leiðið
og auk þess er María mey grátandi.

Það er spurning hvort kona er betur sett með að skilja hvað um er sungið hér?

En svo að allt öðru:

Skáld heimilisins eru meðlimir í einhverjum skáldskaparkreðsum og sé ég stundum bragfræðiæfingar og skondnar lausavísur á þeirra fésbókarveggjum. Ég hef þó ekki mikinn áhuga á þess lags og vísnahorn og vísnaþættir í prentmiðlum fara inn um annað eyrað (augað?) og út um hitt, alla jafna. En á miðvikudaginn brá svo við að ég sá helv. skondna og skemmtilega vísu í Vísnahorni Skessuhornsins (s. 26), sem Dagbjartur Dagbjartsson heldur úti af myndarskap og hef ég heyrt því fleygt að sá sé sonur múrarans „sem eignaðist dreng í gær“ í frægu ljóði en það kemur þessu máli samt ekkert við …

Vísan er eftir Þórarin Eldjárn og sagt er að hann hafi lagt hana til á hagyrðingamóti á Borgarfirði eystri:

Með því hiklaust mæla þor’eg
sem mikið þjóðráð gæti virst
að Gunnar Smári gangi í Noreg;
og gjarnan bara sem allra fyrst.
Einnig teldi ég tilvaleð;
að taka Jónas Kristjáns með
með allt sitt prúða og góða geð.

Vissulega fellur þessi vísa ekki undir söngva ástsjúkra karlmanna … en hún er bara svo sönn, svo sönn …

Litla stúlkan og sjálfsvígslagið

Undanfarið hafa margir deilt myndbandi af henni Angelinu Jordan (Astar) syngjandi Gloomy Sunday á  Facebook. Þetta er lag sem fjöldi tónlistarmanna hefur spreytt sig á en er einna þekktast í flutningi Billie Holiday og það er túlkunin sem Angelina tekur sér til fyrirmyndar. Aðdáun manna á söng Angelinu stafar ekki hvað síst af því að hún var bara sjö ára þegar myndbandið var tekið upp í Norske talenter keppninni (sem er sams konar og  Ísland Got Talent) snemma í þessum mánuði. Það er satt að segja ótrúlegt að heyra sjö ára barn syngja svona:

 

Lagið og textinn á sér ekki síður ótrúlega sögu. Það er dálítið snúið að greina milli þjóðsagna og þess sem satt kann að vera þegar leitað er upplýsinga um þetta lag á Vefnum. Helstu staðreyndir virðast þó þessar:

Lagið var samið af ungverska gyðingnum og píanóleikaranum Rezső Seress þá hann bjó í París 1932. Hann gerði sjálfur texta við lagið en þegar það birtist fyrst (útg. í nótnahefti) árið 1933 var það með texta ljóðskáldsins László Jávor og hét Szomorú vasárnap, þ.e. Sorglegur sunnudagur.

Texti Jávor hefst á lýsingu á sorglegum sunnudegi þegar mælandinn beið eftir ástinni sinni sem aldrei kom, beið með hundrað hvítra blóma. Síðan þá hafa allir sunnudagar verið sorglegir, tárin eru drykkur minn og sorgin brauð mitt, segir mælandinn og heldur svo áfram á þessa leið: Fylgdu mér á þeim hinsta sunnudegi. Þar bíða þín blóm, líkkista og prestur því þetta verður mín hinsta för. Augu mín verða opin svo ég get séð þig hinsta sinni, ekki hræðast augnaráð mitt því ég blessa þig jafnvel í dauða mínum, hinn hinsta sunnudag.

Fyrst heyrðist lag og texti á upptöku frá 1935 þar sem ungverski söngvarinn Pál Kalmár söng það og sló strax í gegn. (Krækt er í söng hans á Youtube.) Það varð einnig vinsælt víða annars staðar; Var hljóðritað á frönsku, japönsku og ensku (amerísku) strax árið 1936.

Í ameríska textanum eftir Sam M. Lewis er sjálfsvíg bókstaflega nefnt: „My heart and I have decided to end it all‟ en síðan dregið úr alvöru málsins með því að frumsemja viðbótarvers þar sem kemur fram að örvænting mælandans var draumur einn. Þetta er sá texti sem Billie Holiday gerði frægan 1941 og sá sami og Angelina litla syngur.

 

 

Hins vegar er texti Bretans Desmond Carter, sem Paul Robeson söng 1936, miklu nær frumtextanum og þar er engin viðbót sem gerir þetta allt að draumi einum:

 

Allar götur síðan 1935/36 hefur lagið verið vinsælt og fjöldi tónlistarmanna haft það á sinni efnisskrá, þar á meðal Björk (hér er ein útgáfan hennar á Youtube).

Ungverska sjálfsvígslagið

Meðal enskumælandi þjóða gengur lagið stundum undir nafninu „ungverska sjálfsvígslagið“ sem tengist nútímaþjóðsögum um hve mjög þetta lag og þessi texti hvetji til sjálfsvígs. Þær þjóðsögur hafa blómstrað frá því lagið varð vinsælt. Við hraðskoðun heimilda á Vefnum mátti finna allt frá pistlum um einhvers konar töframátt sem byggi í laginu sjálfu og fengi fólk með yfirnáttúrulegum hætti til að vilja kála sér, til lærðra greina um áhrifamátt skáldskapar og tónlistar til að hvetja til sjálfsvíga. Af þessari ástæðu, hermir sumstaðar á Vefnum, hefur söngur lagsins verið sums staðar bannaður til skamms tíma, t.d. í BBC, en leyft að flytja það í instrúmental-útgáfu.

Þeir sem þessari yfirnáttúru trúa vísa gjarna til hárrar sjálfsvígstíðni í Ungverjalandi á fjórða áratug síðustu aldar og sögum af því að hinir látnu hafi ýmist tengst laginu (t.d. vélritað textann) eða skilið eftir sig eitthvað sem tengdist því. Í þessum sögum er auðvitað litið framhjá því að lag og texti varð vinsælt á tímum heimskreppunnar miklu og að sjálfsvígstíðni í Ungverjalandi hefur lengstum verið með þeirri hæstu í Evrópu.

Svo breiddist þessi nútímaþjóðsaga út eins allar góðar þjóðsögur og má nefna sem dæmi frétt New York Times þann 6. apríl 1936 af þrettán ára pilti í Michigan sem hengdi sig með textann í buxnavasanum eða frétt Time Magazine 25. jan. 1937 um 24 ára mann í Indianapolis sem greiddi söngvara til syngja fyrir sig lagið á skemmtistað og bjóst þar næst til að drekka fullt glas af eitruðum bjór en var stöðvaður á síðustu stundu. (Má þakka fyrir að textinn hefur aldrei verið þýddur á íslensku.)

Og höfundur lagsins, Rezső Seress, framdi vissulega sjálfsmorð. En það var ekki fyrr en rúmum 35 árum eftir að hann samdi það; Árið 1968 fleygði hann sér útum glugga á háhýsi í Búdapest, lifði fallið af en kláraði verkið með að kyrkja sjálfan sig með vír á sjúkrahúsinu. (Öllu sennilegra er að vist í fangabúðum nasista og slæmt þunglyndi hafi valdið því að Rezső Seress tók þennan kost en það er svo sem óþarfi að spilla góðri þjóðsögu með svoleiðis upplýsingum.) Textahöfundurinn, László Jávor, lést hins vegar af hjartaslagi árið 1956 svo textinn hefur væntanlega ekki jafn uggvænleg áhrif og lagið.

Það þarf varla að taka fram að bent hefur verið á líkindi Angelinu litlu Jordan og og Amy Winehouse, bæði í útliti og tónlistarsmekk, og fylgja þeim ábendingum jafnvel illspár. Svo ekki sé minnst á að lagið sem Angelina valdi til að slá í gegn lofar ekki góðu … trúi menn þjóðsögum.

 

Heimildir og frekari upplýsingar

Angelina Jordan

Gloomy Sunday. Snopes.com

Gloomy Sunday. Wikipedia.org

Stack S, Krysinska K, Lester D. Gloomy Sunday: did the “Hungarian suicide song” really create a suicide epidemic? Omega (Westport) 56(4), s. 349-358. 2007-2008

 

Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu, 27. mars 2014.