Category Archives: Saga Prjóns

Sjöl, giftingarhringir og álfadrottningar

Hér er fjallað um fræg prjónuð sjöl og síður fræg, bent á hve kóngafólk er áhrifaríkt í markaðssetningu, tengsl sjala við giftingarhringi og spurt hversu vel megi treysta umfjöllun prjónafræðibókmennta þegar kemur að sjalprjóni álfa.

Orenburg sjal

Giftingarhringspróf á Orenburg sjali

Hjaltlandseyjasjölin

Saga prjóns á Hjaltlandi er svipuð sögunni á Íslandi, Færeyjum og víðar: Allir sem vettlingi gátu valdið prjónuðu, lögðu inn prjónles hjá kaupmanninum og tóku út nauðsynjavörur í staðinn. En laust fyrir miðja nítjándu öld bættist fíngert „knipplingaprjón“ (gataprjónsmunstur) við flóru prjónless á eyjunum.

Hjaltlandseyja-sjal

Hjaltlandseyja-sjal

Upphafið er oft rakið til gataprjónsmunstraðrar skírnarhúfu sem barst einum eyjaskeggja að gjöf árið 1833. (Black, 2012, s. 56 og Rutt, 1989, s. 173-4). Önnur saga segir að sokkakaupmaður sem staddur var í Leirvík hafi kennt kvinnum þar gataprjón því allt útlit var fyrir að sokkaprjón væri dauðadæmt í samkeppni við vélprjónaða sokka. (Nielsen, 1988, s. 58). Fleiri upprunasögur eru til en þær verða ekki raktar hér.

Íbúar eyjanna tóku fljótt við sér og hófu að framleiða fíngerð sjöl með miklu gataprjónsmunstri og selja til Lundúna þar sem slíkar flíkur urðu hátíska. Þau allra fínustu og flóknustu voru prjónuð á nyrstu eyjunni, Unst.

Garnið var spunnið úr fínasta handrúna (‘roo’d’) þelinu [framan] á hálsi fjárins og hin frægu „giftingarhrings“-sjöl prjónuð úr því, í hvert sjal fóru um 120 gr af ull og þau voru nóg fíngerð til að hægt var að smeygja slíku sjali gegnum hring. (Black, 2012, s. 57).

Raunar var giftingarhringsaðferðin til að mæla fínleika sjala ekki fundin upp í sambandi við Hjaltlandseyjasjölin því Feneyjabúinn Niccolo Manucci lýsti því hve fíngerð ofin Kashmir-sjölin við Mughal-hirðina á Indlandi voru á sautjándu öld einmitt með því að nefna að þau mætti draga gegnum þumal-hring. (Rutt, 1989, s. 175.)

Sjal Alexöndru af Wales

Sjalið er talið prjónað 1866 og er eftirlíking af því sjali sem Hjaltlendingar gáfu Alexöndru prinsessu af Wales árið 1863. Það er nú varðveitt á Victoria and Albert’s Museum í London.

Hjaltlendingar gáfu hinni ungu Bretlandsdrottningu Victoriu knipplingaprjónað sjal krýningarárið 1837 sem varð auðvitað til að vekja athygli á sjölunum og þau nutu í kjölfarið mikillar eftirtektar á Heimssýningunni í London 1851. (Black, 2012.) Svo gáfu þeir henni fleiri sjöl síðar og einnig Alexöndru prinsessu af Wales sem gift var krónprinsinum. (Síðar meir léku eyjaskeggjar sama leikinn með símunstraðar hjaltlenskar peysur sem enn eru velþekktar; gáfu Játvarði prins af Wales – síðar konungi Bretlands um skeið – svoleiðis peysu; hann notaði hana þegar hann spilaði golf og peysurnar komust umsvifalaust í tísku. Má og skjóta því að að það var svo sem ekkert vitlaust af Sigríði Magnússon að reyna að tengja íslenskt prjónles við Victoriu drottningu á sínum tíma,  til öflugrar markaðssetningar.)

En aftur að hjaltlensku sjölunum sem Bretadrottningu var gefið: Victoriu líkaði sjalið svo vel að Hunter fjölskyldan á Unst var útnefnd sérlegur konunglegur söluaðili til konungsfjölskyldunnar, ekki bara á sjölum heldur einnig sokkum og undirfötum.

Ekta Hjaltlandeyjasjal er ferhyrnt og var brotið horn í horn þannig að myndaðist tvöföld þríhyrna, allt fram yfir aldamótin 1900 en eftir það urðu þetta langsjöl því tískan breyttist. Grunnprjónið er garðaprjón. Sjalið skiptist í miðjustykki, fjóra mynsturborða þar utan um og fjóra mynsturhluta þar utan um sem mynda kantblúnduna. Hafi einhver áhuga á slíkum sjölum er bent á myndasafn á Shetland Museum and Archives þar sem flestar af rúmlega 300 myndum sýna „knipplinga“-sjöl/giftingarhrings-sjöl, hyrnur, trefla eða fólk sem tengist svoleiðis gripum.

Orenburg-sjölin

Orenburg stendur við ána Úral, örstutt frá landamærum Kasakstan.

Um uppruna Orenburg-sjalanna er til krassandi þjóðsaga sem raunar hverfist um sama markaðssetningartrix og á Hjaltlandseyjasjölunum þótt árangurinn hafi verið eilítið á annan veg. Sagan segir að eiginkona Úral-kósakka hafi fundið upp fyrsta sjalið og sent Katrínu miklu keisaraynju það að gjöf, á átjándu öld. Keisaraynjunni þótti sjalið dýrgripur og greiddi prjónakonunni svo vel fyrir að hún gat lifað af fénu áhyggjulaus ævina út. En til að tryggja að engin önnur eignaðist eins sjal lét Katrín mikla stinga augun úr prjónakonunni í trausti þess að þá gæti hún ekki prjónað meir. Það sem keisaraynjan vissi hins vegar ekki var að prjónakonan átti dóttur og sú prjónaði annað alveg eins sjal: Til þessara sjala megi síðan rekja uppruna allra Orenburg-sjalanna.

Sagnfræðilegar heimildir herma hins vegar að þegar rússneskir kósakkar urðu útverðir keisaradæmisins við rætur Úral-fjalla, á sautjándu öld, fundu eiginkonur þeirra upp á að prjóna næfurþunnar flíkur úr geitaullinni sem þar fæst til að hafa næst sér í fimbulkulda þessa harðbýla svæðis. Af þeim flíkum rann sá kóngulóarvefnaður sem Orenburg sjölin eru.

Orenburg sjöl

Hér sjást prjónakonur í Orenburg halda á lofti sjölum sínum.

Á nítjándu öld kviknaði áhugi Evrópumanna á þessum sjölum, ekki hvað síst eftir að M.A. Uskova, kósakkakona frá Orenburg, vann gullverðlaun á alþjóðlegri vörusýningu í London árið 1862 fyrir sex sjöl sem hún hafði sjálf prjónað. Nokkrum áratugum síðar fengu konur frá Orenburg sex medalíur fyrir sjöl sín á Heimssýningunni miklu í Chigaco 1893.

Orenburg sjal er prjónað úr geitaull, sem áður sagði. Geiturnar eru kembdar einu sinni a ári og hver geit gefur af sér 300-500 gr af ull sem er u.þ.b. það sem þarf í eitt sjal. Ullin er handspunnin með snældu í örfínan þráð. Áður fyrr var síðan prjónað beint úr geitarullarþræðinum en nú orðið er ullin yfirleitt spunnin saman við silkiþráð.

Orenburg sjölin eru oftast ferhyrnd og hefðbundin stærð er rúmir tveir metrar á kant. Samt sem áður eru þau svo létt og næfurþunn að það má þræða slíkt sjal gegnum giftingarhring, fyrir öld tíðkaðist meira að segja sú aðferð til að sanna að um ekta Orenburg sjal væri að ræða. Í þessu myndbandi (með frönsku tali), sem sýnir gerð Orenburg-sjals, sést sjalið einmitt dregið gegnum (giftingar)hring.

Íslensk sjöl

Gataprjónuð íslensk sjöl litu líklega ekki dagsins ljós fyrr en komið var nokkuð fram á tuttugustu öld. Í bók Sigríðar Halldórsdóttur, Þríhyrnur og langsjöl, eru elstu heimildir fyrir þessu tvær nafngreindar konur sem segjast fyrst hafa séð útprjónuð langsjöl í kringum 1920 og ein enn sem telur að gataprjónuð langsjöl og hyrnur hafi fyrst breiðst út á þriðja áratug síðustu aldar. (s. 8.) Gataprjónaðar hyrnur koma sem sagt enn seinna til sögunnar.

Halldóra Bjarnadóttir og íslenskt sjal

Halldóra Bjarnadóttir

Á myndinni hér að ofan er Halldóra Bjarnadóttir með gullfallegt langsjal yfir herðarnar. Sjalið prjónaði Jóhanna Jóhannesdóttir frá Svínavatni sérstaklega fyrir Halldóru sem sýndi það víða á Norðurlöndum á árunum 1924-25. (Halldóra Bjarnadóttir. 1928, nmgr. s. 46-47  )

Sjalið er úr handspunnu togi. Hafi Halldóra ætlað sér að markaðssetja svona sjöl erlendis mistókst það með öllu enda hafði hún ekki sinnu á að gefa neinum konungbornum sjalið heldur átti það sjálf alla ævi.

En þótt íslensku sjölin séu langt innan við aldargömul hefð hérlendis er giftingarhrings-prófið auðvitað tengt þeim líka:

Prjónið til heimanotkunar var vitanlega mjög misjafnt að vöndun, allt frá grófustu togsokkum […] til […] herðasjala úr svo smáu bandi að draga mátti þau gegn um venjulegt fingurgull.
(Inga Lárusdóttir. 1943, s. 181)

Þau íslensku gataprjónssjöl sem njóta hylli núna eru öll úr bók Sigríðar Halldórsdóttur og mörg munstrin eru samin af henni sjálfri, sum tekin upp eftir ekkert mjög gömlum langhyrnum eða sjölum sem gefin hafa verið söfnum. Myndir af svona sjölum má t.d. sjá á http://www.ravelry.com/designers/sigridur-halldorsdottir. Sjölin í bók Sigríðar eru prjónuð úr eingirni (sem nú heitir einband) og mín reynsla er sú að þau stinga hroðalega mikið. Hins vegar á ég gamalt langsjal með krónupjóni úr þeli sem er mun þægilegra.

 

Álfadrottningar og íslensk gataprjónssjöl

Íslensku gataprjónssjölin hafa það fram yfir þau heimsfrægu sjöl sem kennd eru við Hjaltlandseyjar eða Orenburg að svoleiðis sjöl prjóna líka álfar! Í útlendri prjónasögubók segir að til sé íslensk þjóðsaga sem hermi að álfadrottningar ferðist milli mennskra og síns álfaríkis þannig: Þær leggja gataprjónuðu sjölin sín á mýrlendi, standa á þeim miðjum og sökkva djúpt ofan í mýrina. Svo skýtur þeim aftur upp í ríki álfanna og þá eru bæði álfadrottningar og sjölin tandurhrein og þurr! (Nargi. Lela. 2011, s. 134.) Það væri óneitanlega gaman að komast að því hvort þetta er satt því ég man ekki eftir öðru dæmi um að álfar tengist prjónasögu.

 

Prentaðar heimildir

Black, Sandy. (2012). Knitting. Fashion, Industry, Craft. London: V&A Publishing.

Halldóra Bjarnadóttir. (1928), Togtóskapur, Hlín 12(1), 43-46.

Inga Lárusdóttir. (1943). Vefnaður, prjón og saumur. Í Guðmundur Finnbogason ritstjóri, Iðnsaga Íslands síðara bindi (s. 154-192). Reykjavík: Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík.

Khmeleva, Galina A. og Carol R. Noble. (2010) Orenburg Gossamer and Warm Shawls from Russia, Knitting Traditions 1(1), 107-111.

Nargi, Lela. (2011). Knitting around the World. A multistranded history of a time-honored tradition. Minneapolis: Voyageur Press.

Nielsen, Ann Møller. (1988). Alverdens strikning – historie og teknik. Fredericia: Forlaget Ariadne.

Rutt, Richard. (1989). A History of Handknitting, 2. útg. Loveland, CO: Interweave Press.

Sigríður Halldórsdóttir. (2005). Þríhyrnur og langsjöl. Sögubrot, leiðbeiningar og uppskriftir, 2. útg. Reykjavík: Höfundur.

 

Heimildir á vef

AUTHENTIC RUSSIAN SHAWLS FROM ORENBURG: A UNIQUE HANDMADE WORK OF ART FROM GOAT’s HAIR AND SILK. Artisan euro Skoðað 30. ágúst 2014.

Belogolovtsvev, Konstantin. (21. okt. 2013). The history and craft behind Orenburg shawls. Russia beyond the headlines. Skoðað 30. ágúst 2014.

Strelnikova, Elena. (4. mars 2013). Orenburg shawls: a classic of Russian folk art. oDR Russia and beyond. Skoðað 30. ágúst 2014.

Orenburg Downy Shawls. (20. okt. 2009). Russia Info-Centre. Skoðað 30. ágúst 2014.

Orenburg shawl. (Janúar 2010). Wikipedia. Skoðað 30. ágúst 2014.

 

Nirfilspyngjur og krónukönnur

nirfilpyngja_forsidumynd

Myndin hér að ofan er af dæmigerðri nirfilspyngju (Miser’s Purse) sem voru afar vinsælar peningabuddur á Viktoríutímunum. Talið er að nafnið sé dregið af því að það gat verið óttalegt vesen að ná aurunum úr svona pyngju.

Sé myndaleitað í Google að miser’s purse birtist fjöldi nirfilspyngja af öllum stærðum og gerðum, flestar glæsilega skreyttar enda safngripir í útlöndum. Hér eru nokkur dæmi:

Glæsilegar nirfilspyngjur

Glæsilegar nirfilspyngjur

Nirfilspyngja er í rauninni bara aflangt prjónað (eða heklað) stykki, saumað saman en skilið eftir örlítið gat í miðjunni sem hægt er að smeygja peningi inn um. Endar stykkisins eru oftast hafðir eilítið mjórri eða dregnir fast saman þegar búið er að sauma saman stykkið. Síðan er tveimur málmhringjum smokkað upp á stykkið og þá er hún tilbúin: Skreytist að vild. Hér er myndband sem sýnir hvernig nirfilspyngja er notuð.

Á Íslandi voru líka notaðar nirfilspyngjur á nítjándu öld. Mér hefur ekki tekist að hafa upp á mynd af prjónaðri nirfilspyngju en veit að þær eru til á Þjóðminjasafninu. Aftur á móti er hægt að finna myndir af tveimur hekluðum nirfilspyngjum og er önnur þeirra með elstu hekluðu munum íslenskum.

Nirfilspyngja á Byggðasafni Árnesinga, talin frá 1890. Nánari upplýsingar eru hér.

Nirfilspyngja á Byggðasafni Árnesinga, talin frá 1890. Nánari upplýsingar eru hér.

Hekluð pyngja úr dánarbúi Þóru Melsteð.

Hekluð pyngja úr dánarbúi Þóru Melsteð.

Þóra Melsteð  stofnaði Kvennaskólann í Reykjavík árið 1874 og veitti honum forstöðu til 1906. Þar var „heklan“ eða „hekling“ kennd frá upphafi, eina stund á viku í þriðja bekk. Líklega hafa námsmeyjar þaðan átt drjúgan þátt í að breiða kunnáttu í hekli út um landið.

Pyngjan hennar Þóru Melsteð er 25 cm löng. Hún var gefin Þjóðminjasafni Íslands úr dánarbúi Þóru (sem lést 1919) og var þá lýst þannig í skrá safnsins: „Peningapyngja hekluð úr móleitu garni, aðallega á þrennan hátt. Baugur úr stáli er um miðju; hafa líklega verið tveir slíkir … Sennilega eptir frú Thoru Melsteð; kann þó að vera útlend að gerð og uppruna.“

Líklega er ekki óvitlaust á þessum síðustu og verstu tímum að prjóna eða hekla sér nirfilspyngju og treysta því sem sagnir herma: Að það kosti verulega fyrirhöfn að ná hundraköllum, fimmtíuköllum og tíköllum úr henni og spara þannig nánast sjálfkrafa.

 

Krónukönnur

Krónukönnur

Önnur sparnaðargræja frá Viktoríutímunum var svokölluð „Pence Jug“, sem mætti kannski kalla Krónukönnu á íslensku. Hún var, eins og nafnið bendir til, haganlega prjónuð lítil kanna sem menn settu smápeningana sína í og notuðu um leið sem stofustáss.

Þessi mynd fylgir uppskrift í The Young Ladies Journal Complete Guide to the Work-Table, upphaflega útgefin 1884 en hér er krækt í uppskriftina í 6. útg. 1888.

Þessi mynd fylgir uppskrift í The Young Ladies Journal Complete Guide to the Work-Table, upphaflega útgefin 1884 en hér er krækt í uppskriftina í 6. útg. 1888.

Ef menn eiga erfitt með að klóra sig fram úr ensku uppskriftinni frá 1884 þá má benda á skiljanlegri  uppskrift (á ensku) af krónukönnu sem liggur frítt frammi á Ravelry en það þarf að skrá sig inn á  hannyrðavettvanginn til að nálgast hana á þessari slóð.

Uppskriftin er eftir Robert Jenkins en hann styðst við uppskrift á síðu 146 í þeirri ágætu bók Art of Knitting, sem kom út árið 1892. (Þetta er það skemmtileg bók að titillinn krækir í smámyndir af öllum síðunum og dugir að smella á smámynd til að fá síðuna í réttri stærð.)

Krónukönnur Robert Jenkins

Krónukönnur Robert Jenkins

Heimild önnur en krækt er í úr texta:

Elsa E. Guðjónsson. Um hekl á Íslandi. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, 92, s. 75-85. 1995.

Kvekarar og nálapúðar

forsidumynd

 

Þessi pistill fjallar um nálapúða á átjándu öld, kvekara, geðveikrahæli og mannréttindabaráttu. Nálapúðinn sem sést hér að ofan er í safni Viktoríu og Alberts í Lundúnum (sjá hér) og er talinn með þeim elstu af mörgum svipuðum sem hafa varðveist. Hann er jafnframt sá stærsti, 18 x 11,5 cm, og ferhyrndur en hinir eru flestir kúlur eða disklaga. Nálapúðinn er prjónaður úr fínu silkigarni, prjónafesta er 9-10 lykkjur í sentimetra, framstykki og bakstykki eru saumuð saman og saumarnir huldir með snúru/borða. Í púðann er prjónað ártalið 1733 sem sjá má.

Nálapúðar voru, eins og nafnið bendir til, notaðir til að stinga títuprjónum og nálum í og geyma þannig. Sumir telja að það hafi verið ákveðin vörn gegn ryði í saggafullum húsakynnum átjándu aldar.

Þennan nálapúða má líka sjá í safni Viktoríu og Alberts (nánari uppl. hér.) Snúran, sem e.t.v. var til að binda um mitti eigandans, er mögulega spjaldofin.

Þennan nálapúða má líka sjá í safni Viktoríu og Alberts (nánari uppl. hér.) Snúran, sem e.t.v. var til að binda um mitti eigandans, er mögulega spjaldofin.

Talið er að átjándu aldar nálapúðarnir af þessu tagi hafi fyrst og fremst verið ætlaðir til gjafa. Þeir tveir til viðbótar sem til eru á V&A safninu styðja það því í annan er útprjónað „SS loveth the giver 1782“ og í hinn „SL to RL 1805‟. Þeir eru saumaðir saman úr tveimur átthyrndum stykkjum (eins og sá sem sést hér að ofan) og saumurinn síðan falinn með snúru/borða.

Þótt ekki hafi tekist að rekja elstu nálapúðana til kvekara eru munstrin dæmigerð í hannyrðum þeirra og flestir yngri nálapúðar af þessu tagi (frá því seint á 18. öld og fram á þá 19.) eru taldir handverk kvekara.

Kvekarar eru trúarsöfnuður. Opinbert heiti trúfélagsins er Religious Society of Friends og það var stofnað um 1650 á Bretlandi. Þeir hafa enga trúarjátningu en viðurkenna Biblíuna og telja að guð upplýsi trúaða með orði sínu, hinu innra ljósi. Kvekarar hafa alla tíð verið eindregnir friðarsinnar og eru ötulir talsmenn trú- og skoðanafrelsis enda hlutu bresku og bandarísku kvekarahreyfingarnar friðarverðlaun Nóbels árið 1947.

Nálapúði frá Retreat-hælinu eða eftirlíking af slíkum.

Nálapúði frá Retreat-hælinu eða eftirlíking af slíkum.

Í Kastalasafninu í Jórvík (York) á Englandi eru nokkrir nálapúðar frá þessum tíma, þar á meðal einn dökkblár með ljósu munstri, ákaflega fínt prjónaður (14 lykkjur í sentimetra) og prjónað í hann orðin „An emblem of love‟ (Tákn ástar/vinskapar). Á röndina milli tveggja disklaga stykkja er prjónað „From the Retreat, near York“.

Retreat, í nágrenni Jórvíkur, var fyrsta geðsjúkrahúsið á Englandi, þ.e.a.s. stofnun af slíku tagi sem stóð undir nafni en var ekki bara hryllings-geymsla undir hlekkjaða geðsjúklinga. Sá sem stofnaði Retreat árið 1792 var William Tuke, kvekari og te-kaupmaður. Kvekarar voru ólíkir samtímamönnum sínum að því leyti að þeir litu á geðsjúka sem veikt fólk og töldu að því gæti batnað við mannúðlega umönnun og réttar aðstæður. Barnabarn Williams, Samuel Tuke, skrifaði bók um meðferðina sem veitt var á Retreat  og þar kemur fram (á s. 100) að prjón var álitið æskilegur hluti af meðferð geðsjúkra kvenna. Kannski voru nálapúðarnir sem sjúklingarnir á Retreat prjónuðu seldir sem gjafavara?

Vegna ofsókna heimafyrir fluttust margir kvekarar vestur um haf og urðu sérstaklega áhrifamiklir í Pennsylvaníu. Þeir reistu mörg hæli fyrir geðsjúka þar vestra og þeirra er sérstaklega minnst í sögu geðlækninga fyrir mannúðlega meðferð og virðingu fyrir sjúklingunum, ólíkt því sem tíðkaðist á hælum og sjúkrahúsum á vegum hins opinbera eða undir stjórn lækna.

Nálapúði með útprjónuðu baráttumerki William Wilberforce gegn þrælahaldi. Hinum megin stendur „Pity the poor slave‟.

Nálapúði með útprjónuðu baráttumerki William Wilberforce gegn þrælahaldi. Hinum megin stendur „Pity the poor slave‟.

Kvekarar komu víðar við sögu bættra mannréttinda og sér þess einnegin stað í þeirra nálapúðum s.s. sjá má á myndinni hér að ofan. Nefndur Wilberforce var þó ekki kvekari heldur breskur stjórnmálamaður sem barðist gegn þrælahaldi og tókst ásamt fylgismönnum sínum að fá samþykkt lög sem bönnuðu að bresk skip flyttu afríska þræla til breskra nýlenda, árið 1807. Það var hins vegar ekki fyrr en mánuði eftir lát hans 1833 sem lög sem bönnuðu þrælahald með öllu voru samþykkt í breska þinginu.

Fleiri nálapúðar með þessu merki eru til og eru yfirleitt taldir verk kvekara, bæði bandarískra og breskra. Aftan á einum þeirra stendur „Am I not your Sister?“

Þessir dökkbláu nálapúðar eru í safni í Norfolk, Englandi.

Þessir dökkbláu nálapúðar eru í safni í Norfolk, Englandi.

Nú eru dagar prjónuðu nálapúðanna liðnir þótt komið sé í dálítið tísku að prjóna eftirlíkingar af þeim, á örfína prjóna og úr fínu silkigarni. Mér hefur aðeins dottið í hug hvort jólakúlurnar vinsælu (sem komu fram á sjónarsviðið á þessari öld, kannski ekki fyrr um 2010) sæki fyrirmynd sína í nálapúða kvekara. Og væri þá ekki upplagt að prjóna einhver friðarins slagorð í næstu jólakúlu?

jolakulur

 

Heimildir aðrar en krækt er í úr texta

A Modern Campain‟ á Remembering Slavery Online Exhibition. Tyne&Wear archives&museums.

Quaker Sympathy. Nilly Hall.

The Retreat – York, High Royds Hospital.

Harlow, Eve. The Art of Knitting. 1977.

Nargi, Leila. Knitting Around the World. 2011.

Rutt, Richard. A History of Hand Knitting, önnur útg. 1989.

Utenand, Erica. A Quaker Pinball to Knit. PieceWork, 17(5) 2009.

Röggvar

Röggvar (kvk.ft) er gamalt orð, notað um flóka sem var ofinn í vaðmál eins og þétt kögur svo yfirborðið varð „loðið‟.

 

Röggvar þræddar í vef

Röggvar þræddar í vef

Á fyrstu öldum Íslands byggðar var vaðmál helsti gjaldeyririnn í utanlandsferðum, þ.e.a.s. menn tóku með sér heimaunnið vaðmál og seldu þegar út var komið. Nefndar eru nokkrar tegundir vaðmáls í fornum heimildum, þ.á.m. vararfeldur. Talið er að vararfeldir hafi verið röggvarfeldir, nokkurs konar „gervipelsar“ úr röggvarvefnaði. Þessi aðferð við vefnað var óþekkt í Noregi og mögulega hafa breskir (írskir, skoskir og enskir) þrælar kennt íslenskum landnámsmönnum tæknina.

Kona í endurgerðum röggvarfeldi

Kona í endurgerðum röggvarfeldi

Af markaðssetningu íslenskra röggvarfelda/vararfelda er til saga á þá leið að laust eftir miðja tíundu öld hafi átta Íslendingar komið á skipi til Harðangurs í Noregi og var skipið hlaðið slíkum feldum sem þeir hugðust selja. Hins vegar þótti Norðmönnum þetta frámunalega hallærislegur klæðnaður og enginn vildi kaupa. Sem betur var skipstjórinn málkunnugur kónginum, Haraldi Eiríkssyni, fór á hans fund og tjáði honum þessi vandræði. Konungur, sem var „maður lítillátur og gleðimaður mikill“, brá sér ofan í skip, leit á varninginn, óskaði eftir einum feldinum að gjöf og skellti sér í hann. Allir manna hans keyptu umsvifalaust alveg eins feldi og eftir það rokseldust þeir upp á örfáum dögum. (Sjá Heimskringlu Snorra Sturlusonar, hér er krækt í Netútgáfuna og sagan er í 7. kafla þessa hluta.)

Þessi litla saga er gott dæmi um hvernig koma má íslenskri hönnun á framfæri í útlöndum: Fá kóngafólk til að klæðast henni! Þetta lukkaðist; Feldirnir komust í tísku; Íslendingarnir græddu á tá og fingri og kóngurinn fékk viðurnefnið gráfeldur.

Haraldur gráfeldur ríkti í Noregi frá 961-970, að talið er. Hann var sonur Eiríks blóðaxar (Haraldssonar hárfagra) og Gunnhildar drottningar/kóngamóður. Til að þvæla umfjölluninni um víðan völl má nefna að útsaumuð rómantísk mynd af Gunnhildi þessari var vinsælt viðfangsefni á Íslandi einhvern tíma á fyrri hluta tuttugustu aldar. Er henni þó ekki borin vel sagan í íslenskum fornritum því hún þótti ansi vergjörn, illgjörn og göldrótt.

Rýjapúði

Rýjapúði

Íslendingar hættu röggvarvefnaði laust fyrir 1200 en vitaskuld hafa röggvar stungið hér upp kollinum með ýmsum hætti síðan, í vefnaði, prjóni og saumum. Af nýlegum dæmum má nefna rýjapúða/rýjamottu-tískuna sem greip um sig um miðja síðustu öld. Rýjað var með því að sauma lykkjur utan um einhvers konar lista, t.d. reglustiku, og festa með hnútum í stramma, síðan var klippt upp úr lykkjunum. (Hér má sjá myndband sem sýnir aðferðina. Síðar komu smyrnamottur og -púðar til sögunnar en þá er notuð sérstök nál, smyrnanál, til að hnýta klippta garnenda í grófan stramma. (Sjá myndband.)

Röggvað prjón

Röggvað prjón

Akkúrat núna er dálítið í tísku að prjóna vettlinga með röggvum. Þá snúa röggvarnar inn. Aðferðin felst í því að prjóna „lýs” úr óspunnum lagði, hver lús er prjónuð úr lagði og ekki gengið frá neinum endum. Vettlingurinn verður auðvitað afskaplega hlýr en kannski þarf að venjast því að klæðast svona vettlingum. Á Vefnum má líka sjá uppskriftir og myndir af sokkum, inniskóm og jafnvel húfum prjónuðum með þessari tækni. (Nota má leitarorðið „thrummed”, t.d. „thrummed mittens”, „thrummed socks” o.s.fr.)

Nútíma-vararfeldur?

Nútíma-vararfeldur?

Loks er gaman að benda á uppskrift í nýlegu (nýjasta?) Prjónablaðinu Ýr  (nr 55, útg. okt. 2013) af röggvarfeldi/röggvarfeldsjakka. Í þeirri uppskrift, sem heitir Hekluð kögurpeysa, er grunnurinn heklaðir möskvar en röggvarnar niðurklipptir þræðir sem er raðað í knippi og hnýttar/heklaðar í eftir á. Það er gaman að bera saman þessa glænýju útgáfu við endurgerða ofna röggvarfeldinn á myndinni ofar í pistlinum.

Þessi pistill birtist áður í Kvennablaðinu 20. mars 2014.

 

Prjón við aðra iðju

velsk_malverk

Þessi pistill fjallar um listina að prjóna á göngu eða meðfram annarri iðju. Forsíðumyndin er af frægu velsku málverki eftir William Dyce, sem var málað 1860 og heitir Welsh Landscape with Two Women Knitting. Konan sem stendur hægra megin er í velskum þjóðbúningi, pípuhatturinn er hluti hans. Þær hafa sjálfsagt tekið sér pásu á göngu sinni yfir velsku heiðina en ég efast ekki um að þær hafi prjónað alla leið. Snúum okkur að körlunum fyrst:

Þessi koparstunga er efir ítalska teiknarann Annibale Caracci (1560-1609) og koparstungumanninn Gimon Guillain (1581-1658). Myndin heitir Calsettaro (sem ég hygg að þýði sokkaprjónarinn). Takið eftir sérstökum garnspóluútbúnaðnum sem sokkaprjónarinn notar.

Þessi koparstunga er efir ítalska teiknarann Annibale Caracci (1560-1609) og koparstungumanninn Gimon Guillain (1581-1658). Myndin heitir Calsettaro (sem ég hygg að þýði sokkaprjónarinn). Takið eftir sérstökum garnspóluútbúnaðnum sem sokkaprjónarinn notar.

 Myndirnar tvær hér að ofan sýna hermenn drepa tímann í pásum frá stríðsátökum með prjóni. Þær eru báðar úrklippur úr málverkum eftir þýska listamanninn Carl Spitzweg (1808-1885). Má skoða Der strickende Soldat og Der strickende Vorposten í heild með því að smella á krækjurnar.

Myndirnar tvær hér að ofan sýna hermenn drepa tímann í pásum frá stríðsátökum með prjóni. Þær eru báðar úrklippur úr málverkum eftir þýska listamanninn Carl Spitzweg (1808-1885). Má skoða Der strickende Soldat og Der strickende Vorposten í heild með því að smella á krækjurnar.

Og úr stríði til þess að sitja yfir ánum:

 

Þetta málverk, Fårehyrde på heden, málaði danski listamaðurinn Frederik Vermehren árið 1855. Takið eftir hvernig garnið er fest á krók rétt neðan við öxlina á þessum jóska fjárhirði (heiti málverksins krækir í mjög stóra útgáfu af því).

Hér að neðan er ljósmynd af færeyskri stúlku sem er væntanlega að koma úr kvíum og hefur nýlokið við að mjólka ærnar. Hún nýtir auðvitað gönguna heim til að prjóna – og takið eftir færeysku prjónaðferðinni að bregða garninu yfir hægri vísifingurinn. Ég veit því miður ekki hve gömul þessi mynd er.

Færeysk prjónakona

Færeysk prjónakona

Á Íslandi gekk smalamennska og umhirða fjárins meðfylgjandi prjónaskap ekki alltaf jafn ljúft fyrir sig og marka má af jóska smalanum og færeysku stúlkunni:

Á þessum hraunslóðum skeði sá atburður að ung kona þar úr sveit gekk við ásauði og hóaði saman til kvía, hún hélt á prjónum eins og venja var á tímum vinnuhörkunnar og hraðaði göngunni. Þessi kona var smalavön og kunnug hrauninu en í þetta sinn kunni hún ekki fótum sínum forráð og féll í hraungjótu, líka þeirri sem faðir minn dró lambið úr. Ekki slasaðist hún í fallinu svo til baga væri en kom niður á fæturna og hélt á leist og bandi. Fljótlega hefir hún séð hvernig komið var, að engin leið var til uppgöngu þar sem hraunveggirnir voru allir innundir sig og hvelfdust yfir gjótunni sem var um tvær mannhæðir frá botni á barm og gjörsamlega ókleif. Hún reyndi af fremsta megni að róa hugsunina og hélt áfram að prjóna, að kalla á hjálp var tilgangslaust [- – -]. Eftir þrjú dægur þóttist hún heyra mannamál [- – -] Enn liðu þrjú dægur og konan var að glata síðasta vonarneistanum. Leisturinn [svo] var löngu fullprjónaður og bandið gengið til þurrðar og hungrið og kuldinn surfu að. (Tryggvi Emilsson. 1976, s. 29)

  Blessunarlega varð kraftaverk í sögunni sem Tryggvi rekur: „[…] það var á fjórða degi, og þá skeði kraftaverkið, hún vaknaði á barmi gjótunnar og komst til bæja.“

 

Prjónasmalamennska á Norðurlöndum var þó hjóm eitt hjá því sem tíðkaðist í Landes, héraði í suðvestur Frakklandi, þar sem land er mýrlent og illt yfirferðar.

Fjárhirðir í Landes að gæta sinna kinda og prjóna. Koparstungan er frá 1855. Frekari upplýsingar um myndina eru hér.

Fjárhirðir í Landes að gæta sinna kinda og prjóna. Koparstungan er frá 1855. Frekari upplýsingar um myndina eru hér.

 

Fjárhirðir í Landes, ljósmyndin er tekin 1905.

Fjárhirðir í Landes, ljósmyndin er tekin 1905.

Vilji einhver fræðast meir um hvernig menn sátu yfir ánum í Landes og um héraðið sjálft er mælt með vefsíðunni les landes—its forestry industry, life before the forest. Þar segir m.a. af honum Sylvain Dornon sem vann sér til frægðar, auk prjónasmalamennsku á stultum, að ganga upp í topp Eiffel-turnsins á sínum stultum árið 1889 og tveimur árum seinna gekk hann á stultunum frá París til Moskvu, 2.850 km leið á 58 dögum. Sagnir herma ekki hvort hann hafi prjónað á leiðinni. Meira má lesa um Sylvain Dornon og afrek hans hér , þar er meira að segja mynd af honum prjónandi á stultunum.

 

Svo vikið sé að prjónaskap karla á Íslandi þá urðu þeir allt eins fyrir óhöppum eins og íslenska smalastúlkan sem sagt var frá hér að ofan. Tvö banaslys af völdum prjónaskapar eru skráð í íslenskri sögu, í báðum tilvikum fórust karlar. Hið síðara varð einmitt út af prjónagöngu:

Árið 1833: [- – -] Nokkur urðu slysferli á ári þessu á landi hér, annars staðar en í Skagafirði. [- – -] og maður einn eystra reikaði prjónandi fram af sjóarhömrum. Fannst með lífi en dó tveimur dögum síðar. (Jón Espólín. 1978, s. 34.)

  Þessum pistli lýkur á nokkrum myndum af prjónandi konum við vinnu sína, jafnt rómantískri sýn sem raunsærri.

 

Sænsk kona, gangandi og prjónandi og berandi barn, á gömlu póstkorti.

Sænsk kona, gangandi og prjónandi og berandi barn, á gömlu póstkorti.

 

Úrklippa úr ljósmynd frá Hörðalandi, Noregi, um 1890. Alla myndina má sjá á Digitaltmuseum.no.

Úrklippa úr ljósmynd frá Hörðalandi, Noregi, um 1890. Alla myndina má sjá á Digitaltmuseum.no.

 

Vatnslitamyndin Fishergirls on Shore, Tynemouth [Bretlandi] er eftir ameríska málarann Winslow Homer, líklega máluð 1884.

Vatnslitamyndin Fishergirls on Shore, Tynemouth [Bretlandi] er eftir ameríska málarann Winslow Homer, líklega máluð 1884.

Skoskar fiskvinnslukonur, óvíst hvenær myndin var tekin en hana er að finna í ljósmyndasafni Skoska sjóminjasafnsins.

Skoskar fiskvinnslukonur, óvíst hvenær myndin var tekin en hana er að finna í ljósmyndasafni Skoska sjóminjasafnsins.

 

Ég veit ekki hvar þessi mynd af prjónandi síldarstúlkum er tekin (örugglega ekki á Raufarhöfn) en skv. upplýsingum sem henni fylgja á Vefnum er hún tekin 1932. Þær eru glaðar og hressar þessar.

Ég veit ekki hvar þessi mynd af prjónandi síldarstúlkum er tekin (örugglega ekki á Raufarhöfn) en skv. upplýsingum sem henni fylgja á Vefnum er hún tekin 1932. Þær eru glaðar og hressar þessar.

 

Þetta póstkort frá 1910 sýnir eina af fjölmörgum myndum sem finna má af hjaltlenskum konum að burðast með mó og prjóna á meðan. Margar myndir af hjaltlenskum, skoskum og írskum konum við sama þrældóm, prjónandi um leið eða ekki, má sjá hér.

Þetta póstkort frá 1910 sýnir eina af fjölmörgum myndum sem finna má af hjaltlenskum konum að burðast með mó og prjóna á meðan. Margar myndir af hjaltlenskum, skoskum og írskum konum við sama þrældóm, prjónandi um leið eða ekki, má sjá hér.

Heimildir aðrar en krækt er í úr texta:

Jón Espólín og Einar Bjarnason. Saga frá Skagfirðingum 1685-1847 (þriðja bindi). Reykjavík, Iðunn 1978.

Tryggvi Emilsson. Fátækt fólk I. Reykjavík, Mál og menning 1976.

 

Þessi pistill birtist áður í Kvennablaðinu 15. mars 2014.

Geðveik handavinna

Emil Kraepelin (1856-1926) var þýskur geðlæknir sem stundum er kallaður „faðir nútíma geðsjúkdómagreininga“. Hann lagði mikið kapp á að stúdera geðsjúka og flokka geðsjúkdóma eftir einkennum. Áhrif Kraeplin á geðlækningar um og fyrir aldamótin 1900 voru gífurleg. Hann gaf út marga doðranta um niðurstöður sínar og birti þar m.a. ljósmyndir af dæmigerðum geðsjúklingum enda taldi hann að mætti talsvert styðjast við útlitið eitt og sér til að greina sjúklinginn rétt. Fleira mátti nota til sjúkdómsgreiningar að mati Kraepelin, svo sem handskrift og jafnvel hannyrðir sjúklinganna.

Í sumum rita sinna lýsir Kraepelin sárasóttargeðveiki, þ.e. geðveiki af völdum sýfilis (dementia paralytica), sem var skelfilegur ólæknandi sjúkdómur og helsta áhyggjuefni geðlækna fram yfir heimstyrjöldina síðari en þá kom pensillín á markað og sárasótt varð auðlæknanleg. Kraepelin segir:

Ég á smásafn af hannyrðum sýfilisgeðveikra kvenna. Þar eru léleg vinnubrögð áberandi, stórar lykkjur, meiriháttar villur og lykkjuföll. Samfara þessu kemur geðveikin fram í undarlegri lögun, sérstaklega sokkanna; einn sjúklingur prjónaði þrönga endatotu á stærð við fingur á ólögulegan sokkabolinn, annar prjónaði endalausan strokk, sá þriðji lokaði sokknum í báða enda.
(Emil Kraepelin. Psychiatrie: Ein Lehrbuch für Studirende und Aerzte, útg. 1899, hér þýtt eftir enskri útgáfu frá 1913.)

Kraepilin insane knitting

Sokkurinn sem var lokaður í báða enda.

Líklega er það liðin tíð að geðlæknar greini sjúklinga eftir vinnubrögðum í hannyrðum.

 

Jakki Agnesar

Agnes Richter's jacket

Jakki Agnesar Richter

Af öðru tagi er hinn frægi jakki Agnesar, sem varðveittur er á Prinzhorn safninu í Heidelberg, Þýskalandi. Jakkinn var ekki verkfæri til sjúkdómgreiningar heldur mögulega eina verkfærið sem sjúklingurinn hafði til að tjá sig.

Agnes Richter var þýsk saumakona sem var lögð inn á geðsjúkrahúsið Hubertusburg (ekki langt frá Leipzig) laust fyrir aldamótin 1900. Nær ekkert er vitað um ævi hennar og sjúkdóm en giskað hefur verið á að hún hafi þjáðst af geðklofa.

Þessi jakki var var hluti af einkennisklæðnaði sjúklinganna í Hubertusburg, úr grófgerðu gráleitu lérefti og stimplaður með þvottanúmeri/númeri sjúklingsins, 583. Meðan á sjúkrahúsdvöl Agnesar stóð saumaði hún jakkann sinn allan út. Aðallega eru útsaumuð orð og setningar en einnig teikningar.

 

Jakki Agnesar Richter

Jakki Agnesar Richter

Erfitt eða ómögulegt er að lesa margt sem saumað er í jakkann. Sumstaðar eru ný og ný orð saumuð ofan í eldri orð, leturgerðin er illlæsileg og textinn sem tekist hefur að lesa úr er samhengislaus. Meðal þess sem lesið hefur verið úr eru orðin „ég“ og „minn“, sem eru margendurtekin; „börn“, „systir mín“, „bróðir frelsi? “, „hvítu sokkarnir mínir“, „sokkarnir mínir eru 11“, „Ég er í Hubertusburg / jarðhæð“, „kirsuber“, „engin kirsuber“ o.fl. Fyrir neðan „Ég er í Hubertusburg / jarðhæð“ er klausan „95 A. D. / A. I. B“ sem hefur verið túlkuð sem svo að Agnes hafi lokið við jakkann 1895. Innan á vinstri boðungi stendur „19. Juni 73 geb“ sem e.t.v. er þá fæðingardagur Agnesar. Víðar má lesa ártöl og eitthvað um fatnað (t.d. „jakkinn minn“) en margt er ólæsilegt og engan veginn hægt að vita í hvaða röð á að lesa textann, í hvaða átt á að lesa hann eða hvaða klausur, jafnvel einstök orð, heyra saman. Þvottanúmerið eða sjúklingsnúmerið 583 er saumað út um allt í jakkann.

Ermin á jakka Agnesar

 

Það gerir heldur ekki auðveldara fyrir að Agnes hefur sprett upp jakkanum og saumað hann saman upp á nýtt, t.d. þannig að önnur ermin er nú úthverf. Á ytra byrði er einungis útsaumur á ermunum en jakkinn er þakinn útsaumuðum orðum á röngunni. Sumir hafa túlkað þetta sem svo að Agnes hafi viljað hafa orðin næst sér. Kannski var hún að reyna að fullvissa sig stöðugt um að að hún væri „ég“ en ekki bara sjúklingur númer 583 á Hubertusburg-geðspítalanum?

 

Jakki Agnesar

Útsaumur á röngunni

Titilmynd og myndin af ermi á jakka Agnesar eru birtar með leyfi Liz Aldag, sem tók myndirnar. Þær birtust upphaflega á blogginu hennar, The Lulu Bird, í febrúar 2009.

 

Frekari upplýsingar um jakka Agnesar Richter má fá hér:

Prjónagaldur

Prjónagaldur

Prjónagaldur

Prjón er göldrum líkast: Með afar einföldum verkfærum, prjónum, og mismunandi merkilegum þræði má skapa ótrúlegustu flíkur og form; Áferðin getur verið fíngerð sem kónglóarvefur eða gróf og hnausþykk og allt þar á milli, lögunin getur verið hver sem er.

Prjón og galdrar tengjast raunar svolítið. Fyrsta nafngreinda prjónakonan í Noregi fékk nafn sitt skráð í söguna vegna þess að hún var ákærð fyrir galdra (raunar einnig þjófnað og flæking). Þetta var Lisbet Pedersdatter sem var ákærð ásamt Karen Eriksdatter  fyrir bæjarréttinum í Stavanger árið 1634.

Þær Karen og Lisbet voru förukonur og sáu sér m.a. farborða með göldrum gegn greiðslu og hnupli þegar tækifæri gafst. Í málsskjölum kemur fram Karen hafði haft Lisbet í þjónustu sinni í eitt ár. Lisbet skyldi bera föggur Karenar og prjóna sokka handa henni: „at schulle bere hendes goeds med hende. och spede hosser for hennde‟. Líklegt er talið að Karen hafi selt sokkana sem Lisbet prjónaði. Og að launum fékk Lisbet fæði og klæði.

Í fórum Lisbetar fundust smávegis galdragræjur en auðvitað neitaði hún að kunna nokkuð til fjölkynngi. Ég gat ekki séð hvaða refsing henni var gerð. En þakka má því að galdraákærur voru teknar alvarlega á þessum tíma að nafn og nokkur deili á prjónakonunni norsku hafa varðveist. Yfirleitt er talið að Norðmenn hafi lært að prjóna um svipað leyti og Íslendingar (kannski eilítið seinna þó) þ.e.a.s. seint á sextándu öld eða í upphafi þeirrar sautjándu, svo dæmi Lisbetar Pedersdatter er ómetanleg gömul heimild í norskri prjónasögu.

 

Á galdrasafni í Cornwall héraði á Englandi, The Museum of Witchcraft, eru til sýnis tól til galdra með prjóni. Þetta eru glerprjónar og hálfunnið prjónles úr svartri ull. Myndin efst í pistlinum er einmitt af galdraprjóns-græjunum, birt með leyfi safnsins.

Nú er óvíst hversu gömul þessi tiltekna galdraaðferð er en leiðbeiningarnar sem fylgja eru svona (lauslega snarað):

Nota skal nornaprjóna, þ.e. grófa, sljóa (ekki oddhvassa) prjóna úr gleri. Svart ullargarn hentar til bölbæna og hefndargaldurs, aðrir litir eru prýðilegir til hvítagaldurs. Sem hver lykkja er prjónuð skal söngla galdurinn (bölbænirnar eða annan galdur). Þegar þetta þykir hafa verið endurtekið nógu oft er prjónlesið tekið af prjónunum og brennt.

Eigi einhver prjónakona harma að hefna mætti kannski prófa svona galdur?

 

Frekari upplýsingar má sjá hér:

 

Meistarastykki

Agnus Dei knitting

Lamb guðs, miðja prjónateppis

 

Frá því á fjórtándu öld varð handprjón lögvernduð iðngrein víða í Evrópu, þ.e.a.s. prjónameistarar störfuðu í samtökum sem kölluð voru gildi. Eftir því sem prjónagildum óx fiskur um hrygg urðu inntökuskilyrði strangari. Talið er að á sautjándu og átjándu öld hafi tekið allt upp í sex ár til að læra til meistararéttinda í prjóni. Að sjálfsögðu voru bara karlmenn í þessum prjónagildum eins og í flestum iðngildum öðrum á þessum tíma.

Misjafnt var  hvers lags stykkjum prjónasveinn þurfti að framvísa til meistararéttinda en víða á svæðum sem lutu þýskri stjórn var prjónateppi eitt þeirra. Teppi er kannski dálítið misvísandi orð því svona meistarastykki voru notuð sem veggteppi, borðdúkar, rúmábreiður o.fl. Skv. heimildum tók það prjónasvein oftast 2-3 mánuði að prjóna teppi en dæmi eru um að það hafi tekið hálft ár eða verið full vinna árið allt.

Fyrir heimstyrjöldina síðari voru þekkt 28 slík teppi/reflar en a.m.k. átta þeirra voru eyðilögð í stríðinu (flest í Póllandi). Nú er vitað með vissu um 18 af þessum meistarastykkjum auk eins sem er óheilt. Þau eru dreifð um söfn í Evrópu og í Bandaríkjunum eða jafnvel í einkaeigu. Flest þekktustu teppin eru frá Slésíu (héraði sem er nú í Póllandi) og Alsace/Elsass (sem ýmist hefur tilheyrt Frakklandi eða Þýskalandi.

 

Knitted carpet

Jean George Mueller prjónaði þetta teppi 1748.

 

Þetta teppi er varðveitt í Musée de l’Œuvre Notre-Dame í Strassburg. Það var prjónað í Alsace/Elsass árið 1748. Nafn prjónameistarans er þekkt, Jean George Mueller. Teppið er 1,92 x 1,70 metrar, prjónað úr tíu mismunandi litum af ullargarni. Í miðjunni er mynd af guðslambinu og textinn sem aðskilur borða á jöðrum og aðalmyndina er úr velþekktum páskasálmi frá Alsace/Elsass:

O lamb Godes unscvltig am stamen des creidz geschlact alzeid gefvnten gedvldig wiewol dv wahrest veracht ale sind has dv gedragen sons miesten mir verzagen erbarm dich vnser o Iesv gib vns den friten o Iesu Amen.

 

Knitted carpet

Þetta teppi er líka meistarstykki frá Alsace/Elsass, frá 1781. Það er varðveitt í Victoria & Albert Museum í London. Teppið er 193 sm að hæð og 174,5 sm breitt. Myndefnið er eitt af þeim vinsælustu á prjónateppunum frá Alsace, þ.e.a.s. Draumur Jakobs. Í stuttu máli sagt þá var Jakob sá sem plataði frumburðarréttinnn út úr Esaú bróður sínum fyrir baunadisk, lagði seinna land undir fót,  á leiðinni lagði hann sig með stein fyrir kodda og dreymdi merkilegan draum:

Honum þótti stigi standa á jörðu og ná til himins og englar Guðs fóru upp og ofan eftir stiganum.Þá stóð Drottinn hjá honum og mælti: „Ég er Drottinn, Guð Abrahams, föður þíns, og Guð Ísaks. Það land, sem þú hvílist á, gef ég þér og niðjum þínum. Þeir munu verða fjölmennir sem duft jarðar og breiðast út til vesturs, til austurs, til norðurs og suðurs og allar ættkvíslir jarðarinnar munu blessun hljóta í niðjum þínum. (Sjá 1. Mósebók 25:10 o.áfr.)

Í kringum aðalmyndefnið er textinn: „Hilfe wirt Gott ferner schicken meinen Feinden zum Verdrus.“ (Guð mun halda áfram að senda hjálp þrátt fyrir óvini mína.) Efst í aðalmyndarammanum er svo nafn guðs, Jahve, ritað á hebresku.

Neðst á prjónateppinu sjást þau hjúin Adam og Eva í Paradís, um það bil að fara að gadda í sig eplum af skilningstré góðs og ills.

Sjá má mynd af teppinu og stækkaðan bút úr því á vef V&A safnsins.

 

Enn eitt teppið, frá 1791, má sjá á vef Metropolitan-safnsins í New York, en myndin af því er því miður svarthvít. Í lýsingu ættaðri frá safninu segir að grunnurinn sé grár, mynstrin í bleikum, bláum, hárauðum, grænum, gulum og svörtum litum; tvíhöfða örninn er svartur, ljónin rauð, einhyrningarnir ljósbrúnir og páfuglarnir dökkbláir.

 

Enginn veit hvernig þessi teppi voru nákvæmlega prjónuð, þ.e.a.s. hvort einhvers konar vél eða græja (knitting frame) hafi verið notuð við verkið. Teppin eru prjónuð fram og tilbaka. Flestir eru á því að einfaldlega hafi verið raðað mörgum prjónum í lykkjur hverrar umferðar, giskað er á 3-4 mjög langa prjóna, og prjónað af einum á annan. Sömuleiðis er erfitt að finna upplýsingar um prjónafestu því mörg teppanna voru þæfð, jafnvel svellþæfð og því ómögulegt að greina einstakar lykkjur.

 

Heimildir aðrar en krækt er í úr textanum

Turnau, Irene og K.G. Pointings. 1976. Knitted masterpieces. Textile History 7, s. 7-23.
Turnau, Irene. 1982. The Knitting Crafts in Europe from the Thirteenth to the Eighteenth centuryThe Bulletin of the Needle and Bobbin Club 65:1 og 2, s. 20-42.

 

Lambhúshettur í stríði og friði

Allir Íslendingar þekkja lambhúshettur enda nytsamt höfuðfat í svo köldu landi. En svona höfuðfat er dálítið merkilegt fyrir þær sakir að það er bæði tengt fiskeríi og styrjöldum, börnum og glæpamönnum, útivist og uppþotum og mörgu því öðru sem ólíkt er. Hér verður stiklað á stóru um ólík hlutverk lambhúshetta í rás sögunnar.

Á íslensku þekktust áður bæði nöfnin lambhúshetta og Mývatnshetta skv. Íslenskum þjóðháttum Jónasar Jónassonar, sem fæddist 1856. Í bókinni er þessi mynd af sauðsvörtum eða gráum hettunum til að sýna muninn:

Lambhúshetta eða Mývatnshetta

Nú er fátt hægt að hugsa sér friðsælla en fjárhús fullt af lömbum og íslenska heitið því einkar fallegt. En lambhúshettan hefur samt ekki hvað síst verið vinsæl í stríði. Eiginkonur, dætur og mæður hafa keppst við að prjóna lambhúshettur á sína karlmenn sem hímdu skjálfandi á vígstöðvunum.

Balablava í Krímstríðinu

Balaclava í Krímstríðinu

Á ensku og fleiri málum er lambhúshetta kölluð balaclava. Nafnið er dregið af orustunni við Balaclava, mikilvægri orustu í Krímstríðinu, sem stóð 1853-56. (Í því stríði börðust Englendingar og fleiri við Rússa um yfirráð yfir Krímskaga en hann tilheyrir nú Úkraínu.) Margir halda að lambhúshettan hafi verið fundin upp í þessu stríði en það er ekki rétt því árið 1848 var sótt um einkaleyfi á nákvæmlega eins flík á Englandi. Orustan við Balaclava tengist raunar fleiru í prjónasögu en lambhúshettum því í henni börðust bæði Jarlinn af Cardigan, en eftir honum heita hnepptar peysur cardigan á ensku, og Raglan lávarður en eftir honum heitir sérstök axlastykkisúrtaka (sem á íslensku er gjarna kölluð laskaúrtaka). Sá fyrrnefndi þótti sýna mikla hetjudáð í umræddri orustu en hinum síðarnefnda eru kenndar ýmsar ófarir.

Lambhúshetta úr Þrælastríðinu

Lambhúshetta úr Þrælastríðinu

Þessi lambhúshetta var prjónuð handa John T. Gilmore, yfirforingja og herlækni í liði Suðurríkjamanna í Þrælastríðinu/Bandaríska borgarastríðinu sem stóð 1861-1865. Sem stríðinu vatt fram varð æ meiri skortur á klæði og garni í Suðurríkjunum. Lambhúshettan er greinilega prjónuð úr alls konar afgöngum.

Lambhúshetta fyrir hermenn í fyrri heimstyrjöldinni.

Lambhúshetta fyrir hermenn í fyrri heimstyrjöldinni.

Forsíða þýska kvennablaðsins Die Schachenmayrin í ágúst 1942.

Forsíða þýska kvennablaðsins Die Schachenmayrin í ágúst 1942.

Í síðari heimstyrjöldinni hvöttu allir stríðsaðilar heimaverandi löndur sínar til að prjóna, ekki hvað síst lambhúshettur.

 

 

Lambhúshettur fyrir glæpamenn

Heilar lambhúshettur með göt fyrir augu og munn eru oftast tengdar glæpamönnum.

Í Noregi hefur lambhúshettan verið kölluð finlandshette til skamms tíma. Það heiti er náttúrlega ættað úr stríði.  Norðmenn lögðu nefnilega allt kapp á að prjóna lambhúshettur handa finnsku hermönnunum í Vetrarstríðinu 1939 (en þá réðust Sovétríkin á Finnland). Sagt er að finnski ambassadorinn í Noregi hafi beðið dagblöð nútímans að hættað nota orðið finnlandshetta þegar þeir minnast á lambhúshettu í fréttum því hún er núorðið svo mjög tengd allra handa skúrkum og öfgasinnum í pólitík, sem ekki vilja þekkjast. Það þarf því ekki að koma á óvart að í Svíþjóð er lambhúshettan oft kölluð rånarluva(ræningjahúfa) en stundum skidmask (skíðagríma) sem er ólíkt saklausara orð. Frændur vorir Danir kalla hana hins vegar elefantlue eða elefanthue (fílshúfu) og kann ég enga skýringu á því heiti.

 

Perúsk lambhúshetta

Perúsk lambhúshetta

Kannski áttu einhverjir íslenskir krakkar svona skrautlegar perúskar lambhúshettur áður fyrr, ég veit a.m.k. að tengdamóðir mín prjónaði svona handa sínum krökkum um 1970 eftir að hafa séð mynd af dýrindinu í dönsku blaði. En skrautlegar lambhúshettur eru svo sem ekkert endilega grín svo sem sjá má á næstu mynd.

Pussy Riot

Pönksveitin Pussy Riot og þeirra stuðningsmenn sérkenna sig með litskrúðugum lambhúshettum

 

Til að enda pistilinn á jafn friðsælum nótum og hann byrjaði er mynd af friðsömu íslensku barni í lambhúshettu. Ég veit að margir lesendur kannast prýðilega við lambhúshettur af þessu tagi.

Atli Harðarson

Þetta er skólameistarinn á Akranesi á yngri árum. Myndin var tekin 1961.

 

 

 

Sokkar Eleonoru af Toledo

Eleonora af Toledo

Eleonora di Toledo fæddist 1522 og var af konunglegum spænskum ættum. Hún giftist Cosimo I, af Medici ættinni, sem tók við af þeim fræga Alessandro Medici og stjórnaði Toskaníuhéraði á Ítalíu, með aðsetur í Flórens. Þeim hjónum varð ellefu barna auðið og af þeim urðu tveir synir að þjóðhöfðingjum. Það fór á ýmsa vegu með hin börnin, má nefna að dóttirin Ísabella var myrt af eiginmanni sínum vegna framhjáhalds og einn sonurinn, Pietro, myrti eiginkonu sína vegna framhjáhalds (en Medici fjölskyldan kallaði svo sem ekki allt ömmu sína þegar kom að skrautlegu kynlífi og morðum innan fjölskyldunnar).

Það þótti nokkur ljóður á ráði Eleonoru hve hún barst mikið á, t.d. í klæðaburði, og auk þess var hún forfallinn fjárhættuspilari. Ekki hvað síst fór svo í taugarnar á Flórensbúum hve höll hún var alla sína ævi undir allt það sem spænskt var. En valdamikil var hún, stóð jafnfætis manni sínum og stjórnaði ríkinu þegar hann brá sér af bæ.

Eleonora lést í Pisa einungis fertug að aldri, árið 1562. Öldum saman gengu þær sögur að Garcia, sextán ára sonur hennar hefði myrt nítján ára bróður sinn, Giovanni, og faðir þeirra hefði kálað Giovanni í kjölfarið með eigin sverði; Eleonora hefði sprungið af harmi viku síðar. En lík þessa fólks hafa verið rannsökuð með nútímaaðferðum sem leiddu í ljós að Eleonora og synirnir dóu úr malaríu.

Grafhýsi fjölskyldunnar var opnað árið 1857. Klæðin sem Eleonora var jörðuð í eru varðveitt og til sýnis í Galleria del Costume í Palazzo Pitti í Flórens, sem Eleonora keypti einmitt sem sumarhöll á sínum tíma.

Sokkar Eleonoru af Toledo

Upprunalegir sokkar Eleonoru

Endurgerðir sokkar Eleonoru

Endurgerðir sokkar Eleonoru

Endurgerðir sokkar Eleonoru af Toledo

Endurgerðir sokkar Eleonoru af Toledo

Sokkar Eleonoru af Toledo

Uppábrotið á endurgerðum sokk

Uppábrot á upprunalegum sokk (ath. að rangan snýr út því brotið er upp á)

Uppábrot á upprunalegum sokk (ath. að rangan snýr út því brotið er upp á)

Glæsilegur fatnaður hennar hefur vakið mikla athygli, ekki hvað síst sokkarnir. Þótt í prjónasögu sé oft talað um þessa sokka sem ítalska er allt eins líklegt að þeir séu spænskir. Prjón var lögvernduð iðngrein víða í Evrópu á tímum Eleonoru í þeim skilningi að til voru gildi (nokkurs konar fag- og stéttarfélög) prjónara. Prjónagildið í Toledo á Spáni sérhæfði sig einmitt í silkisokkaprjóni og sokkar þaðan voru fluttir út til margra Evrópulanda þar sem konungbornir og háttsettir í hirðum konunga klæddust þeim og voru þessir handprjónuðu silkisokkar rándýrir.

Það sem er sérstakt við silkisokka Eleonoru af Toledo er að þeir eru með elstu varðveittu flíkum þar sem munstur er myndað með brugðnum lykkjum. Líklega var skammt um liðið frá því menn lærðu að prjóna brugðnar lykkjur þegar þessir sokkar voru prjónaðir. (Stroff efst á sokkum var ekki fundið upp fyrr en mörgum öldum síðar.) Rúmri öld eftir lát Eleonoru komst svo í tísku að prjóna munstur úr brugðnum lykkjum á jakka/treyjur, svokallað damask-prjón, sem átti eftir lifa lengi.

Silkisokkarnir Eleonoru voru líklega upphaflega hárauðir. Þeir voru hnéháir og kanturinn efst hefur verið brettur yfir sokkaböndin. Sokkunum er þannig lýst í bók Richards Rutt, History of Handknitting:

Sokkar Eleonoru af Toledo

Munstur á sokk Eleonoru
Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu. Munstrið er birt með leyfi teiknara þess, Colleen Davis

Á uppábrotinu (þ.e. yfirbrotinu) er munstrið lárétt. Efst eru sléttar umferðir, munstraðar með tveimur einföldum sikk-sakk línum úr brugðnum lykkjum. Þessi efsti munsturborði er svo afmarkaður með tveimur brugðnum umferðum áður en aðalmunstuborðinn á uppábrotinu hefst.

Aðalmunstrið er nokkurs konar tíglótt grind, mynduð úr tveimur brugðnum lykkjum á sléttum grunni. Í hverjum tígli eru fjögur göt til skrauts. Efsti munsturborðinn er svo endurtekinn að loknu aðalmunstrinu í uppábrotinu.

Sokkabolur og sokkur eru með tvenns konar breiðum lóðréttum munsturborðum. Annars vegar er 8 lykkju borði prjónaður með tvöföldu perluprjóni (þ.e. hver perla er prjónuð í tveimur umferðum). Hins vegar er 9 lykkju borði prjónaður með tvöföldu garðaprjóni (þ.e. tvær brugðnar og tvær sléttar umferðir til skiptis). Milli þessara munsturborða eru mjórri borðar, afmarkaðir með venjulegri sléttri lykkju hvorum megin en annars prjónaðir með snúnum sléttum lykkjum. Í miðjulykkjunni í þeim borðum skiptast á ein slétt og ein brugðin lykkja (lóðrétt perluprjónsrönd).

Það er ekki að undra að prjónakonur hafa viljað endurgera hnésokka Elenoru af Toledo enda eru þeir gullfallegir og bera vott um glæsileg hönnun.

Þeim sem hafa áhuga á þessum sokkum er bent á:

  • Archivio-digitale/Documentazion-fotografica: Restauro degli abiti funebri dei Medici, sem eins og nafnið gefur til kynna eru ljósmyndir af viðgerð og forvörslu klæða sem fundust í grafhýsi fjölskyldu Eleonoru. Á s. 15 og s. 16 eru myndir af sokkunum hennar Eleonoru.
  • Síðu Colleen Davis með munstri og myndum af endurgerðum sokkum í bláum og hvítum lit.
  • Uppskrift á síðunni Georg’s research. Þar er mælt með því að nota mjög fínt garn og mjög fína prjóna, miðað er við prjónafestuna 47 lykkjur í 10 sentimetrum. Sjá má nokkrar myndir af þessari endurgerð, bleikum sokkum, á Flickr.
  • Ítarlegar munsturleiðbeiningar og uppskrift eru á síðu Brandy Dickson, The Costume Dabblersjá síðu 1síðu 2 og síðu 3. Prjónafesta er: 31 lykkja og 39 umferðir gera 10 cm.

 

Þessi færsla birtist áður í Kvennablaðinu 19. desember 2013.