Category Archives: Óflokkað

Siðanefnd lækna og ábyrgðarmaður Læknablaðsins fundin sek – taka siðareglur til þessara aðila?

Í síðustu viku féll dómur í máli sem höfðað var gegn Læknafélagi Íslands (vegna siðanefndar félagsins) og ritstjóra og ábyrgðarmanni Læknablaðsins. Dómurinn birtist á netinu í dag. Færslan fjallar um þetta undarlega mál.

Málavextir

Málið hófst með deilum tveggja lækna sem sjúklingur blandaðist í með óbeinum hætti því hann sagði öðrum lækninum hvað hinn læknirinn hefði sagt um hann. Sá læknir kærði ummælin til siðanefndar Læknafélags Íslands (hér eftir skammstafað LÍ).

Siðanefnd LÍ birti úrskurð sinn í Læknablaðinu í september 2011 (hér er tengt í vefútgáfu Læknablaðins á Vefsafninu, afritið er frá því seint í október 2011 og hefur þá verið afmáður kóði og sjúkdómsheiti úr sjúkraskýrslu sjúklingsins sem birtur var upphaflega). Í umfjöllun og úrskurði siðanefndar LÍ voru birt bréf annars læknisins þar sem hann vitnar í sjúkraskýrslur sjúklingsins og dregur fram sjúkdómsgreiningu sem sjúklingnum sjálfum var ókunnugt um. Af umfjöllun siðanefndar sem birtist í Læknablaðinu má auðveldlega þekkja hver sjúklingurinn er enda bjó hann í litlu plássi úti á landi.

Úrskurður siðanefndar LÍ var að læknirinn sem sendi ívitnuð bréf hafi brotið siðareglur lækna með því að fara í sjúkraskrá sjúklings að nauðsynjalausu og miðla úr henni upplýsingum til siðanefndar.

Í næsta tölublaði Læknablaðsins birtist annar úrskurður siðanefndar LÍ þar sem segir að vegna klúðurs í vinnslu málsins hjá siðanefndinni sé fyrri úrskurður felldur úr gildi. Þar með eru deilur læknanna tveggja úr sögunni því siðanefnd ómerkti eigin úrskurð.

Sjúklingurinn sem blandaðist í málið kvartaði við Persónuvernd, Landlæknisembættið o.fl. aðila því birtar voru persónugreinarlegar klausur úr hans sjúkraskrá í Læknablaðinu. Persónuvernd úrskurðaði í málinu í janúar 2012 og gerði Læknablaðinu að eyða þessum úrskurði siðanefndar LÍ úr netútgáfu blaðsins. Það var gert og nú sér hans engin merki í 9. tbl. 97. árg. Læknablaðsins á vefsetri blaðsins (en auðvitað liggur vefútgáfa sama tölublaðs frá því í október 2011 áfram frammi á Vefsafninu). Þess er ekki gerið í vefútgáfu þessa tölublaðs á vefsetri Læknablaðsins að eytt hafi verið úr því.

Landlæknisembættið virðist einnig hafa fjallað um málið skv. málavöxtum sem lýst er í nýföllnum dómi, a.m.k. var lagt fram bréf frá embættinu í meðferð málsins.

Sjúklingurinn höfðaði mál gegn Læknafélagi Íslands (v. siðanefndar félagsins) og Engilbert Sigurðssyni, ritstjóra og ábyrgðarmanni Læknablaðsins. Sjúklingurinn vann það mál í síðustu viku.

   

Málsmeðferð

Málsvörn LÍ, vegna siðanefndar félagsins, og Engilberts Sigurðssonar snýr einkum að því hve stór skaði þessa sjúklings geti verið. Báðir aðilar játa rangan verknað, þ.e. að birting upplýsinga úr sjúkraskrá í Læknablaðinu hafi ekki verið rétt. Raunar kjósa báðir að kalla þetta „gáleysi“ en telja að „gáleysi þeirra geti aldrei talist meiriháttar eða verulegt“, síðan er þessi birting upplýsinga úr sjúkraskrá kölluð „hin slysalegu atvik”. Í bréfi siðanefndar LÍ til Persónuverndar var þetta í munni siðanefndar LÍ „þau leiðu mistök“ og siðanefnd LÍ staðhæfir að „Hefði hann sleppt því að stíga sjálfur fram hefði enginn vitað með vissu að hann er þessi sjúklingur sem um ræðir í þessu máli.“ Í vörn hinna stefndu í dómsmálinu er ítrekað að fórnarlambið sjálft sé sökudólgurinn í málinu: „Það virðast hafa verið hans fyrstu viðbrögð við fréttinni og ábendingunni um hana að tryggja að það yrði alþjóð kunnugt að hann væri sjúklingurinn í umræddri frétt.“ Að mati Persónuverndar voru þau rök ekki tæk. Héraðsdómur Reykjaness féllst heldur ekki á þau rök.

LÍ og Engilbert Sigurðsson gerðu auk þess þá athugasemd að lagagreinar þær sem þeir voru kærðir fyrir að brjóta snertu ekki málið:
 

Stefndu gera þá athugasemd við málatilbúnað stefnanda að hann vísi til fjölmargra lagaákvæða sem stefndu telja að eigi ekki við í máli þessu, eins og lög nr. 55/2009 um sjúkraskrár, lög nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga, læknalög nr. 53/1988 og lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Gyðja réttlætisinsÞetta er að því leyti einkennileg vörn að Persónuvernd var búin að úrskurða (17. janúar 2012) að málið varðaði lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónupplýsinga og að á grundvelli þeirra laga hefði verið óheimilt að birta persónugreinanlegar upplýsingar um sjúkrasögu mannsins. Persónuvernd gaf siðanefnd LÍ stuttan frest til að eyða þessum upplýsingum úr vefútgáfu 9. tbl. 97. árg. Læknablaðsins og líklega hafa siðanefnd og ritstjóri blaðsins gripið til þess að eyða öllum umræddum úrskurði siðanefndar úr blaðinu í janúar 2012, a.m.k. er hann horfinn núna. Persónuvernd skar ekki úr um hvort málið snerti önnur lög því sá hluti átti að vera á könnu landlæknisembættisins og úrskurður þess er ekki opinber (eitthvert skjal frá landlæknisembættinu var lagt fram í réttarhöldunum en kemur ekki fram hvað í því stóð).

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness segir að bæði sé litið til þessara laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga sem og 2. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár en þar segir að við færslu og varðveislu sjúkraskráa og aðgang að þeim skuli mannhelgi og sjálfsákvörðunarréttur sjúklinga virtur, þess gætt að sjúkraskrár hafa að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar og að sjúkraskrárupplýsingar eru trúnaðarmál:

Héraðsdómur Reykjaness féllst ekki á þann málatilbúnað stefndu um að þeir hafi einungis gerst sekir um minniháttar gáleysi heldur voru þeir fundnir sekir um „ólögmæta meingerð“. Í greinargerð með frumvarpi að skaðabótalögum nr. 50/1993 kemur fram að til að eitthvað teljist „ólögmæt meingerð“ þurfi að vera um saknæma háttsemi að ræða og gáleysi þarf að vera verulegt til að atvik teljist ólögmæt meingerð. Niðurstaða Héraðsdóms Reykjaness er að þessi skilyrði séu uppfyllt og því eigi Læknafélag Íslands og Engilbert Sigurðsson að greiða manninum miskabætur.

Dómsorðið hljóðar svo:

    Stefndu, Læknafélag Íslands og Engilbert Sigurðsson, greiði stefnanda, Páli Sverrissyni, in solidum, 300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 [laga um vexti og verðtryggingu] frá 13. mars 2012 til greiðslu dags.
    Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 627.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
 
 

Ná siðareglur lækna yfir siðanefnd Læknafélags Íslands?

Þetta er ótrúlegt mál og furðulega að því staðið. Siðanefnd LÍ úrskurðaði á sínum tíma að læknirinn Magnús Kolbeinsson hefði brotið 13. grein Siðaregla lækna (Codex Ethicus) með því að fara í sjúkraskrá sjúklings að nauðsynjalausu, hirða þaðan upplýsingar og senda í bréfi til siðanefndar LÍ án leyfis sjúklingsins. En svo gerði siðanefnd LÍ hið sama og hún fann Magnús Kolbeinsson sekan um, þ.e. birti upplýsingar úr þessari sjúkraskrá þessa sjúklings í málgagni LÍ, Læknablaðinu, án leyfis sjúklingsins. Braut siðanefndin þá siðareglur lækna? Mun hún fjalla um eigið mál af sjálfsdáðum?

Formaður siðanefndar lækna frá því í nóvember 1990 hefur verið Allan Vagn Magnússon, lögfræðingur og dómstjóri Héraðsdóms Vesturlands. Hann er því væntanlega undanþeginn siðareglum lækna (Codex Ethicus) því hann er ekki læknir. Hinir tveir siðanefndarfulltrúarnir eru læknar. Ætla má að Allan Vagn sé vel að sér í lögum. Eigi að síður var siðanefnd LÍ undir hans forsæti (raunar Læknafélag Íslands því Læknafélagið ber ábyrgð á því sem siðanefnd félagsins gerir) dæmd fyrir ólögmæta meingerð og LÍ dæmt til að greiða skaðabætur.

Ná siðareglur lækna yfir ábyrgðarmann Læknablaðsins?

Dómsmálið sem hér hefur verið fjallað um var einnig höfðað gegn ritstjóra og ábyrgðarmanni Læknablaðsins. Það hlýtur að vera næsta ljóst að sá ritstjóri og ábyrgðarmaður les ekki yfir allt efni Læknablaðsins sem hann fær greitt fyrir að ritstýra og axla ábyrgð á. (Hinn möguleikinn er of fjarstæðukenndur, þ.e.a.s. að Engilbert Sigurðssyni prófessor í geðlæknisfræðum við læknadeild HÍ og yfirlækni á Landspítalanum þyki það engu máli skipta að birtar séu persónugreinanlegar endursagnir á sjúkraskrá sjúklings sem blandast inn í deilur tveggja lækna í Læknablaðinu sem hann ritstýrir.) Nú vaknar auðvitað einnig sú spurning hvort siðareglur lækna nái einnig yfir ritstjóra og ábyrgðarmann Læknablaðsins og hvort siðanefnd Læknafélags Íslands ætli að fjalla um það mál.
 

 Viðbrögð við dómsmálinu og dómnum hafa enn sem komið er verið lítil sem engin enda dróst í viku að birta dóminn eftir að hann féll. Ekki virðist hafa hvarflað að siðanefnd LÍ eða ábyrgðarmanni Læknablaðsins að segja af sér þegar þeir voru kærðir (málið var dómtekið 21. nóvember 2012, skaðabótakrafa stefnanda var sett fram 13. janúar 2012). Í frétt Vísis þann 21. janúar sl. er haft eftir Þorbirni Jónssyni formanni LÍ að Læknafélag Íslands hafi haft efasemdir um greiðslu miskabóta (sem liggur auðvitað í augum uppi því annars hefði félagið varla látið málið fara fyrir dómstóla).
 
 

Svarthvíta hetjan mín …

Ég hef undanfarið fylgst með netumræðu um tillögu til þingsályktunar um heildrænar meðferðir græðara. Þetta er varlega orðuð tillaga um að Alþingi feli velferðarráðherra að skipa starfshóp til að kanna hvort niðurgreiða ætti meðferðir græðara eða gera greiðslur til þeirra undanþegnar virðisaukaskatti. Í nethamförum hefur umræðan snúist upp í að Ólína Þorvarðardóttir (meðflutningsmaður þessarar tillögu) vilji láta okkur skattgreiðendur borga fyrir kukl; snákaolía og miðlar eru nefnd í því sambandi og síðan í gær hefur einn og einn hamfarakommentari splæst óskyldri frétt um andsetin börn við þessa umræðu: Nú vill Ólína láta okkur skattgreiðendur halda uppi særingamönnum …

SvæðanuddÞegar svokallað kukl berst í tal stígur ávallt fram á sjónarsviðið sjálfskipaður riddari okkar pöpulsins, læknirinn og vantrúarfélaginn Svanur Sigurbjörnsson*. Hann er óþreytandi í sinni baráttu fyrir að ullabjakki og kukli sé ekki haldið að okkur hinum, líklega okkur hinum fávísu sem ella létum glepjast af gylliboðum. Baráttuna heyr hann einkum á sínu bloggi, vefsíðu Raunfélagsins, spjallþráðum Vantrúarvefjarins og í Læknablaðinu.

Málflutningur Svans í þessum miðlum er keimlíkur og felst einkum í að benda (okkur hinum) á að ýmsar kukl-aðferðir hafi aldrei verið sannaðar vísindalega og séu ekki reistar á vísindalegum grunni. Í leiðara í Læknablaðinu 07/08. tbl. 98. árg. 2012 skilgreinir hann kukl þannig:

Hvað er kukl? Til forna var kuklari sá sem iðkaði galdur eða fúsk, oft með dulúð og sjónarspili. Einnig beindist kukl að lækningum og þó að yfirbragðið sé annað í dag er þetta orð mest lýsandi fyrir þær meðferðartilraunir sem byggja á gervivísindum. Það einkennist af því að hugmyndafræðin er í andstöðu við sannreynda lífeðlisfræði, efnafræði og sjúkdómafræði nútímans. Kukl stenst ekki lágmarksrannsókn á verkun þess sem sagt er að eigi sér stað, það kann að vera gamalt en aldur fræða segir ekkert til um sannleiksgildi þeirra. Jafnframt ber það þess öll merki þess að vera skáldskapur og byggir oft á margnotuðu þema sem getur verið aðlaðandi fyrir ófaglært fólk í heilbrigðisvísindum eins og „styrking ónæmiskerfisins“, „losun eiturefna“ og svo framvegis.

Svanur blæs á mögulega lækningu kukls af lyfleysuáhrifum því siðferðilega sé engin réttlæting fyrir notkun lyfleysu nema í rannsóknum. Afleiðingar kukls eru m.a. fjárhagslegt tjón og „útbreiðsla ranghugmynda um mannslíkamann og meðferðir“, segir hann.

Ég hef dálítið velt fyrir mér þessum skörpu skilum sem Svanur o.fl. sjálfskipaðar hetjur, sem vernda okkur almúgann fyrir ásælni kuklara, telja vera milli vísindalegra lækninga lækna annars vegar og kuklara hins vegar. Eftir að hafa kynnt mér þokkalega vel minn eigin sjúkdóm, þunglyndi, og reynt vestrænar læknisaðferðir við honum í þaula er niðurstaðan sú að:

  • Ekki er vitað af hverju sjúkdómurinn þunglyndi stafar (það eru til ýmsar kenningar um það en engin þeirra hefur verið sannreynd með óyggjandi hætti);
  • Tilgátan um boðefnaójafnvægi í heila sem þunglyndislyf geti leiðrétt verður æ ósennilegri (við því er brugðist með að reyna að flækja tilgátuna en hún er jafn ósönnuð eftir sem áður);
  • Þunglyndislyf virka yfirleitt ekki betur en lyfleysa í vísindalegum rannsóknum (munur á virkni þunglyndislyfja og lyfleysu er lítill sem enginn nema í hópi alveikustu sjúklinga og þar skýrist munurinn af því að lyfleysa virkar síður á þá sjúklinga).

PilluboxVísindaleg og sönnuð útskýring á orsök þunglyndis er sem sagt ekki til, ekki heldur vísindaleg sönnun fyrir að lyfin sem notuð eru við sjúkdómnum virki, þau eru heldur ekki reist á neinum vísindalega sönnuðum grundvelli. Lyflækningar við þunglyndi eru samt mjög algengar. Þær byggjast oftar en ekki á dularfullu hugrænu fyrirbrigði sem kallast klínísk reynsla (lækna). Klínísk reynsla virðist geta verið hvað sem er, hún er a.m.k. ómælanleg með öllu. Einfaldar (en ósannar) boðefnaruglingsskýringar eru oft gefnar sjúklingum og þeirra aðstandendum og tilraunamennska lækna í blöndun lyfjakokteila er rökstudd með „klínískri reynslu“.

Satt best að segja er það mín sjúklingsreynsla (og hún er ansi yfirgripsmikil) að nútíma þunglyndislækningar byggi einmitt afskaplega mikið á dulúð og sjónarspili en ekki vísindalegum rökum eða sönnunum. Ég hef spurt Svan Sigurbjörnsson um hvort hann telji nútíma þunglyndislækningar kukl, af því þær uppfylla öll skilyrði hans fyrir að svo sé, en hann sá ekki ástæðu til að svara þeirri spurningu. Ég tek fram að þunglyndi er sko ekki neinn jaðarsjúkdómur: Innan fárra ára verður þunglyndi mest heilsufarsvá á Vesturlöndum að mati Heilbrigðisstofnunarinnar Sameinuðu þjóðanna og fjölda annarra. Svoleiðis að mér finnst mikilvægt að hetjan okkar, sem berst gegn því illa kukli, beiti sínum kríteríum á þá læknismeðferð sem býðst þorra þunglyndissjúklinga, sem eru fjölmennur hópur í heilbrigðiskerfinu, og felli sinn úrskurð.

Nú þekki ég fólk sem hefur batnað þunglyndi af því að eta algeng þunglyndislyf. Ég þekki líka fólk sem hefur ekki batnað baun við hið sama. Ég þekki fólk sem hefur hlotið bata af ýmsum kvillum af magnesíumsprautum, LDN, nálastungum eða hómópatíulyfjum. Ég þekki líka fólk sem þetta hefur ekkert virkað á. Sjálf var ég nógu vitlaus til að trúa goðsögnum um þunglyndislyf, geðlyf og raflækningar í meir en áratug en hef aldrei náð því að trúa á hómópatalyf: Líklega flytur trúin fjöll í hvoru tveggja tilvikinu.

Síðustu vikurnar hef ég þegið meðferð annars vegar hjá nuddara (nuddarar eru í Bandalagi íslenskra græðara, eru sem sagt kuklarar) og hins vegar sjúkraþjálfa. Hvor hefur til síns ágætis nokkuð: Nuddarinn er miklu flinkari að finna auma bletti með fingrunum en sjúkraþjálfarinn hefur yfir góðum græjum að ráða, í þessu tilviki hljóðbylgjunuddtæki. Árangurinn af veittri meðferð beggja er enn sem komið er hinn sami, þ.e.a.s. enginn. Aðalmunurinn fyrir mig er sá að ég borga skít á priki fyrir tímann hjá sjúkraþjálfaranum en margfalt meira fyrir tímann hjá nuddaranum. Ég ætla að halda áfram að skipta við báða og mér er alveg sama hvor læknar mig, vona einungis að öðrum hvorum takist það 🙂

Í fullkomnasta heimi allra heima ættu sjúklingar hafa algert val um hvernig meðferð þeir kjósa að þiggja og fá hana niðurgreidda úr sameiginlegum sjóðum. Við lifum ekki í slíkum heimi heldur þurfum að forgangsraða. Mér finnst litlu skipta hvort Alþingi skipar einum starfshópi fleiri eða færri en held að niðurstaðan hljóti að vera að skynsamlegast sé að niðurgreiða þá þjónustu sem flestum kemur til góða og er að því leyti sammála Svani og skoðanasystkinum hans: Líklega er flestum til hagsbóta að niðurgreiða næst þjónustu tannlækna og sálfræðinga.

Umræðan á netinu um þingsályktunartillöguna undanfarið lýtur sömu lögmálum og önnur umræða sem aktívistahópar einhenda sér í, er sem sagt ekki umræða heldur keppni í hver getur haft svarthvítasta viðhorfið og gargað hæst í netheimum. Ég er engin Dúkkulísa en fæ samt ekki varist því að hugsa í hvert sinn sem ég les málflutning Svans Sigurbjörnssonar: Hvernig ertu í lit?
 
 
 

* Ég veit ekki hvort Svanur Sigurbjörnsson læknir er ennþá félagi í Vantrú, athugasemdir hans á vef Vantrúar í sambandi við þessa þingsályktunartillögu eru ekki merktar þannig.
 
 
 
 
 
 
 
 

Hefur barátta íslenskra femínista skilað árangri?

Femínistafélag Íslands var stofnað vorið 2003. Það er vitaskuld nokkrum erfiðleikum háð að meta hvort eða hversu mikil áhrif þetta félag og einstaklingar sem þar eru í forsvari hafa haft. Baráttumálin eru þess eðlis að auðvelt ætti að vera til að fá fólk til að styðja baráttuna. Markmið og leiðir Femínistafélags Íslands eru skv. heimasíðu félagsins:

Að vinna að jafnrétti kynjanna.
Að vinna gegn hverskonar birtingarmyndum kynjamisréttis. Þar má nefna klámvæðinguna, ágengar, lítilsvirðandi auglýsingar, ofbeldi, mansal og vændi.
Að uppræta staðalmyndir um hlutverk og eðli kvenna og karla.
Að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði, útrýma kynbundnum launamun og auka hlut kvenna í stjórnun auðlinda og fjármagns.
Að styrkja þátttöku kvenna í opinberu lífi, fjölmiðlum og stjórnmálum.
Að stuðla að samfélagi sem tekur mið af mismunandi hagsmunum og sjónarmiðum karla og kvenna svo sem í atvinnu- og menntamálum, stjórnmálum, menningu og á vettvangi einkalífsins.

Markmiðum þessum skal náð með lýðræðislegri, gagnrýnni og sýnilegri umræðu á fundum, Netinu og í öðrum fjölmiðlum.

ÖskurEn eins og ég rakti í síðustu færslu snýst framganga femínista í æ ríkari mæli um ögrun og athygli á sínum aðalvettvangi, Netinu. Ögrun og öfgafullur málflutningur kalla á öfgafull viðbrögð. Auðvitað bera femínistar ekki ábyrgð á niðrandi, særandi og jafnvel hótandi ummælum sem að þeim beinast en þeir eru ekki algerlega blásaklausir heldur því þeir haga málflutningi sínum stundum þannig að þessi viðbrögð eru fyrirsjáanleg, stimpla sig síðan fórnarlömb ofsókna í kjölfarið. (Nákvæmlega sömu hernaðarlist má sjá í öðrum aktívistahópum á netinu, t.d. félaginu Vantrú.) Skyldu svona baráttuaðferðir vera vænlegar til árangurs? Er líklegt að þær auki samstöðu fólks með málstaðnum, þ.e. efli jafnrétti og hvetji fólk til að vilja jafna stöðu karla og kvenna? Þetta er erfitt að mæla en finna má rannsóknir sem gefa vísbendingar um svarið.

Í norrænni könnun sem gerð var árið 2009, The Nordic Youth Research among 16 to 19 year old in Åland Islands, Denmark, Faroe Islands, Finland,  Greenland, Iceland, Norway and Sweden, voru 16-19 ára nemendur spurðir um ýmislegt, þ.á m. viðhorf til karla og kvenna (sjá s. 92 o.áfr. í skýrslunni sem krækt er í). Svör íslenskra unglinga um þetta skera sig ekki áberandi úr svörum unglinga á hinum Norðurlöndunum nema þegar spurt er hvort þeir telji að kona geti veitt trúfélagi forstöðu, t.d. verið prestur, en íslenskir unglingar af báðum kynjum hafa áberandi litla trú á því að svoleiðis starf henti konum (sjá s. 96).  Í frétt af niðurstöðum þessarar könnunar var því slegið upp að 14% íslenskra unglingsstráka teldu að konur ættu alls ekki að vinna úti (í fréttinni kemur einnig fram að 4,6% stúlkna voru piltunum sammála og raunar voru þessar tölur nánast samhljóða meðaltali álits allra norrænu unglinganna).

Í fréttinni sem krækt er í hér að ofan lýsir Andrea Hjálmsdóttir félagsfræðingur því yfir að niðurstöðurnar séu í samræmi við aðrar kannanir, hennar eigin og annarra. Í  yfirlitsgreininni “Mamma er meira svona í einfalda lífinu, þú veist” rekur Andrea nokkrar niðurstöður sínar og annarra og bendir á að hægt sé að greina bakslag í viðhorfum unglinga til jafnréttis: „Árgangurinn sem var í 10. bekk vorið 1992 hafði mun jákvæðari viðhorf til jafnréttis en 10. bekkingar vorið 2006.“ Í greininni Egalitarian Attitudes Towards the Division of Household Labor Among Adolescents in Iceland fjalla Andrea Hjálmsdóttir og Þóroddur Bjarnason um niðurstöður rannsóknarinnar 2006. Af umfjöllun þeirra má skilja að það atriði sem helst má tengja við viðhorf unglinganna sé hegðun foreldra, t.d. hvort móðir vinnur úti, hvort faðir sé heimaverandi, hvort foreldri sé einstætt o.s.fr. en tengsl milli sjónvarpsgláps og viðhorfa unglinga til jafnréttis mælast ekki, þvert á það sem þau Andrea og Þóroddur bjuggust fyrirfram við (því ætla mætti að ýmsar sápuóperur festu íhaldssöm viðhorf í sessi). Tengsl milli internet-notkunar og viðhorfa til  jafnréttis mældust einungis hjá stúlkum: Því meira sem þær héngu í tölvunum því íhaldsamara var viðhorf þeirra til karlhlutverka. Í þessu sambandi velti ég því fyrir mér hvort mikil áhersla í kynjafræði í sumum skólum á auglýsingar eða kynhlutverk í sjónvarpssápum og kvikmyndum skipti einhverju máli í því að ala upp/mennta jafnréttissinnaðri unglinga en ella – en kannski virkar þessi áhersla eitthvað á stelpurnar og gerir þær eilítið víðsýnni í garð karla.

Bleikt og bláttÍ meistararitgerð sinni, “Reality Bites” Attitudes Toward Gender Equality Among Icelandic Youth segir Andrea frá eigindlegri rannsókn sem hún gerði í júní 2008 og niðurstöðum hennar. Andrea og aðstoðarmaður hennar töluðu við á 22 tíundubekkinga á Akureyri (14 stelpur og 8 stráka). Niðurstaðan er að fylgi við femínisma standi í stað eða fari jafnvel minnkandi. Í ritgerðinni er áhugaverð skírskotun til Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns vinstri grænna, sem fór fram á það að heilbrigðisráðherra rannsakaði upphaf þess siðar að klæða nýfædd stúlkubörn í bleikt og drengbörn í blátt á fæðingardeildum og spurði hvort ráðherra vildi ekki breyta þessu. Orð Kolbrúnar féllu á Alþingi í maí 2007, vöktu mikla athygli og umræðu. Ein unglingsstúlkan sem Andrea talaði við vakti máls á þessu, sagði að stundum væri femínismi einum of mikið af því góða og hún hefði heyrt að á einhverju sjúkrahúsi hefði kona [femínisti] orðið kolvitlaus yfir að ungbörnin voru sett í bleik og blá föt. Stalla hennar tók undir að stundum færi femínismi yfir strikið, sú fyrrnefnda bætti við að það væri pirrandi þegar gert væri stórmál úr einhverju smáræði.

Ég hef ekki aðgang að könnuninni frá 1992 en treysti Andreu Hjálmsdóttur fullkomlega til að fara ekki með fleipur þegar hún segir að tíundubekkingar þá hafi haft mun jákvæðari viðhorf til jafnréttis en mælast í sama aldurshópi á síðustu árum. Andrea dregur af þessu þá ályktun að efla þurfi kynjafræðikennslu í skólum. Ég er sammála því að gott er að bjóða upp á nám um ýmis mál sem snerta jafnrétti karla og kvenna og hvetja nemendur til að ræða þau mál í sínum hópi. En mér sýnist að núverandi áherslur íslenskra femínista ýti ekki undir fylgi við jafna stöðu karla og kvenna meðal íslenskra unglinga og dæmið hér að ofan sýnir að í stöku tilvikum gætu baráttuaðferðir femínista ýtt undir að ungar stúlkur vilji ekki láta bendla sig við femínisma. Það er væntanlega ekki markmið íslenskra femínista.

Vilji menn einkum ná fram hugarfarsbreytingu hjá ungu fólki má til samanburðar nefna vímuefna- og tóbaksneyslu unglinga og viðhorf til svoleiðis neyslu: Undanfarin rúm 15 ár hefur neysla unglinga á vímuefnum og tóbaki minnkað ár frá ári. Þetta er þakkað samanteknum ráðum foreldra, skóla og fleiri aðila. Fjöldi kannana bendir og til þess að sá þáttur sem skipti mestu máli upp á hvort unglingar fara að drekka eða reykja sé hegðun foreldra þeirra þannig að hinn ágæti árangur sem hefur náðst er væntanlega ekki hvað síst þeim að þakka, síður opinberum forvörnum eða húllúmhæi í fjölmiðlum. Ef femínistar vilja ná raunverulegum árangri legg ég til að þeir skoði hvað virkar til hugarfarsbreytinga og breytinga á hegðun í vímuefnaneyslu og tóbaksneyslu og taki sér til fyrirmyndar. Stafrænt garg og stafrænir hurðarskellir virka ekki.
  
  
  
  
 

Er ég femínisti?

 Fors�ða Vikunnar 1939Ég var að velta því fyrir mér að hefja færsluna á dæmigerðri femínistavitnun, t.d. um þátttöku mína í Kvennalistanum og fleiri sérkvenlegum félagsskap eða öðrum ævisögulegum vitnisburði … en sá að þeir sem þetta káfaði upp á myndu hvort sem er skella skollaeyrum við svoleiðis trúarjátningu og annar vettvangur en Netið er oft heppilegri fyrir játningar.

Skilgreining Femínstafélags Íslands á femínista er: „Femínisti er karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því.“ Samkvæmt þessari skilgreiningu er ég femínisti. En birtingarmynd femínisma á Íslandi er talsvert önnur og af „fréttum“ og opinberri umræðu virðast femínistar sem telja sig í forsvari fyrir þá hugmyndafræði gera þá kröfu að almennilegir femínistar hafi asklok fyrir himin; allir aðrir eru andfemínistar. Femínistar og vantrúarfélagar hafa sakað mig um að vera kvenfjandsamlegur illa innrættur andfemínisti. Því er ég ósammála en fellst fúslega á að ég hafi andæft málflutningi þessara hópa enda tel ég fulla ástæðu til þess.
 

Vettvangur íslenskra femínista er Netið. Þar er annars vegar vefritið Knúz og hins vegar yfirlýsingar og fréttir frá femínistum mest áberandi, nokkrir femínistar reka eigið blogg en flestir blogga sjaldan og slitrótt. Kveikjan að Knúz er fögur hugsjón og einkunnarorðin þess bera henni vitni: „Alnetið þarf knúz miklu oftar. Annars breytist það í vígvöll.“ Vefritið ber þessa æ minni merki; Æ fleiri greinar virðist eingöngu hafa þann tilgang að stuða fólk með einhverjum hætti; ögra eða espa til illinda, þ.e. leggja sitt til af mörkum til að  breyta alnetinu í vígvöll. Af nýlegum greinum má nefna sem dæmi Til varnar femíniskum framhaldsskólanemum eftir Thomas Brorsen Smidt (29. nóvember 2012), Drykkjubingó femínista eftir Ingólf Gíslason (15. nóvember 2012) og  „Öfgafemínista vísað úr strætó: Notar túr til að gagnrýna auglýsingar á apótekapokum“ MYNDIR eftir Hildi Lilliendahl Viggósdóttur (21. ágúst 2012). Í þessum greinum eru mismunandi aðferðir notaðar til að ögra; óheflað málfar, smekklaus og fáránleg tillaga sem líklega á að vera brandari og frásögn af líkamsvessa sem venjulegt fólk sér ekki ástæðu til að hafa í hámæli. En inn á milli eru skínandi góðar og vandaðar greinar á vefritinu Knúz, t.d. „Hún skrifaði það ekki … Hún skrifaði það en hún hefði ekki átt að skrifa það … Hún skrifaði það EN …“ eftir Magneu Matthíasdóttur (26. nóvember 2012) eða Birtingarmyndir fordóma og mismunar eftir Eyju M. Brynjarsdóttur (13. nóvember 2012). Á Knúz ægir nefnilega öllu saman: Ómerkilegum klögumálum og málefnalegum greinum; Rexi yfir smámunum og tilraunum til að fjalla um raunveruleg vandamál; Ómerkilegum illa skrifuðum greinum og vönduðum texta.

Yfirlýsingar og fréttir sem einstakir femínistar standa að eru því miður oftast um smámuni og virðast einungis til þess ætlaðar að ná athygli hvað sem það kostar, helst með því að espa til illinda. Þar ber Hildur Viggósdóttir Lilliendahl höfuð og herðar yfir aðra femínista. (Ég tek fram að ég tel Hildi ekki bera ábyrgð á fréttaflutningi af sér nema að takmörkuðu leyti. Hún er hins vegar ódeig við að vekja athygli á sér og netmiðlar snúa því alla vega.) Undanfarið hefur Hildur einkum vakið athygli fyrir tvennt: Úrklippualbúm með ummælum eftir karla, sem kallast Karlar sem hata konur, og að Facebook hefur fjórum sinnum lokað aðgangi hennar af því hún hefur brotið reglur samskiptamiðilsins, reglur sem hún samþykkti þegar hún stofnaði til aðgangs að honum.

Úrklippusafn Hildar er merkilegt að mínu mati. Ekki af því að það sýni að karlar hati konur í stórum stíl, það sýnir ekki einu sinni að karlarnir sem eiga ummælin hati konur sérstaklega mikið því ummælin eru af ýmsum toga, klippt úr samhengi og kríterían í söfnuninni óljós. Úrklippusafnið er fyrst og fremst góð heimild um orðræðu á Vefnum. Það væri enginn vandi að búa til samsvarandi albúm um eitthvað annað, í svipinn dettur mér í hug: Fólk sem hatar banka, fólk sem hatar lögfræðinga, fólk sem hatar vinstri græna/ samfylkinguna/ sjálfstæðisflokkinn … nú eða sérhæfðari albúm eins og fólk sem hatar Hildi Lilliendahl, vantrúarfélagar sem hata Bjarna Randver Sigurvinsson, femínistar sem hata Brynjar Níelsson o.s.fr. Orðræða á Vefnum verður sífellt grófari og er merkilegt rannsóknarefni að mínu mati. Ég efast um að hægt sé að greina kynjaða orðræðu þegar þessi vettvangur er skoðaður en það væri vissulega áhugavert að sjá rannsókn á slíku og verðugt efni fyrir málfræðinga sem hafa áhuga á muninum á málsniði kvenna og karla.

Auglýsingabæklingu Smáralindar 2001Við lestur netmiðla fær alþýðan smám saman þá hugmynd að femínismi snúist um smáatriði eins og hvort bókaforlagi sé yfirhöfuð heimilt að gefa út gamaldags bækur fyrir karlbörn og kvenbörn, hvort verið geti að auglýsing hafi kynferðislega skírskotun og feli í sér niðurlægingu kvenkyns nemenda, með ítrustu táknfræðilegri túlkun, hvort eigi/megi klæða stelpur og stráka í bleik og blá föt, hvort eigi/megi gefa litlum stelpum og strákum meint stelpuleikföng og strákaleikföng, hvort dónalegan menntaskólahúmor eigi að skilja sem svívirðilega árás feðraveldisins á allt kvenkyns o.s.fr. Hver frétt er blásin upp úr öllu valdi og verður að nethamförum, hvort sem um er að ræða auglýsingu sem líklega hefði ella vakið litla athygli eða að Facebook lokar aðgangi Hildar Lilliendahl jafnt og annarra notenda sem tilkynnt er um að hafi brotið notendareglur Facebook. Þegar búið er að endurtaka nógu oft að Hildur Lilliendahl hafi fengið líflátshótun er það orðið satt og geirneglt í hugum manna þótt ómögulegt sé að lesa líflátshótun úr ummælunum sem urðu kveikjan að fárinu; Lögreglan í Reykjavík skal hafa gert lítið úr kynferðislegri misbeitingu þótt engin leið sé að sjá út úr frétt hennar um manninn sem var hent út úr eigin íbúð að um slíkt hafi verið að ræða; Kvikmyndaskóli Íslands hampar klámi og niðurlægir kvenkyns nemendur með auglýsingu; Hagkaup selur dónalegan undirfatnað á smástelpur o.s.fr. 

Þar sem ekki er vandamál en ætti að vera vandamál að mati femínista eru þau búin til. Þetta má t.d. sjá í nýlegum bæklingi Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur, Klám er kynferðisleg áreitni eftir Thomas Brorsen Smith (Einar Steingrímsson gerði þessum bæklingi, rannsókn höfundar og túlkun ágæt skil í færslunni Reykjavíkurborg með klám á heilanum? 2. apríl 2012 og ég vísa í færslu hans til rökstuðnings) eða skemmtilegi farsinn um ónefndan dónalegan leynigest í Harmageddon, kvörtun Hildar Lilliendahl og ákvörðun þáttarstjórnenda að reka sjálfa sig til að undirstrika alvarleika kvörtunarinnar. Netmiðlar flytja alvörugefnar fréttir af þessum óskunda einmitt núna um helgina.

Ég ætlaði að fjalla um ýmis raunveruleg vandamál sem íslenskir femínistar hunsa og um afleiðingar þessara baráttuaðferða sem ég hef rakið hér að ofan en þá yrði færslan of löng svo ég geymi þau umræðuefni.

Myndirnar sem skreyta þessa færslu eru af auglýsingabæklingi Smáralindar vorið 2007, en um þessa mynd er haft eftir dr. Guðbjörgu Hildi Kolbeins: „Á forsíðunni má sjá unga stúlku á háum hælum í velþekktri stellingu úr klámmyndum. Hún er tilbúin til þess að láta taka sig aftan frá. Með munninn opinn býður hún lesendum af karlkyni að setja skaufa sína upp í sig“ (Guðbjörg Hildur Kolbeins barst eilítið í tal í umræðum um síðustu færslu mína og þá næstsíðustu) og forsíðu Vikunnar 1939 (um hana hafa femíniskir fjölmiðlafræðingar ekki tjáð sig en ég vek athygli þeirra á því að stúlkan er með opinn munn, það sést glöggt á frumheimildinni sem ég vísa í).

P.s. Varðandi síðustu færslu mína og umræður við hana: Ég hef rakið nútímaþjóðsöguna um G-strengi handa fjögurra ára stúlkubörnum sem Hagkaup ku selja og I’m a Porn Star barnaboli aftur í umræðu á Barnalandi 2005; það er elsta umræða sem ég finn um I’m a Pornstar/I’m a Pornstar in Training barnaboli sem Hagkaup á að hafa selt „fyrir nokkrum árum“ og umræðan færist síðan yfir í G-strengi fyrir fimm ára. Þessi umræða gengur aftur á yngri barnalandsspjallborðum, femin.is og hugi.is en  ef einhver veit um eldri heimild er ábending vel þegin. Sagan um Pornstar barnabolina í Hagkaup má sjá víðar, t.d. í birtu lokaverkefni nemanda í framhaldsnámi í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands, sjá ritgerðina Klámvæðingin og áhrif hennar á íslensk ungmenni á vefsetrinu Heimasíða Beddu en þar er ekki vísað í heimild.  Haldi femínistar áfram sama málflutningi má ætla að þjóðsagan um I’m a Porn Star in Training barnabolina og G-strengi fyrir börn í verslunum Hagkaups verði útbreiddari en sagan af kettinum í örbylgjuofninum 😉
 

Þankar um femínisma, pjatt og froðu

 Tákn fem�nistaNethamfarir dagsins snérust um auglýsingu Kvikmyndaskóla Íslands þar sem notuð var mynd af jólavaralitun, sem einhverjum þótti klámfengin og texti auglýsingarinnar auk þess tvíræður: Svo alvarlegt var málið að Fr. Lilliendahl sá sig knúna til að skrifa opið bréf til skólastjórans og birta það á Knúzinu. Þetta vakti mig til umhugsunar … hvorki þó um Kvikmyndaskólann né jólavaralitun heldur um merki femínista.

Tákn kvennaFemínistatáknið puntar þessa bloggfærslu efst. Ég held að það sé ekki sérlega gamalt en ítarleg gúgglun skilaði fáum upplýsingum um sögu táknsins. Það er samsett úr tákni kvenna og krepptum hnefa, líklega er fyrirmyndin að hnefanum fengin úr réttindabaráttu blökkumanna í Bandaríkjunum á seinni hluta síðustu aldar. Kvennatáknið notaði grasafræðingurinn Linné fyrstur markvisst fyrir kvenkyns, í sínum flokkunarfræðum. En merkið sjálft er gamalt, táknaði reikistjörnuna Venus og í fræðum alkemista stóð það fyrir kopar. Táknið er afleitt úr gríska f-stafnum því Venus kallaðist Fosfóros (Ljósberi) sem morgunstjarna. (Frekari upplýsingar um þetta má lesa hér.)

Venus með spegilFæðing Venus eftir IngresKvennatáknið er tengt Venus á fleiri máta en reikistjörnunni Venus. Það er talið eiga að tákna spegil gyðjunnar Venus, lítinn handspegil. Venus var mikil pjattrófa eins og sést á myndunum hér til hliðar: Myndin af Venus með spegilinn er af styttu frá 1. eða 2. öld eftir Krist sem komst í eigu Freud, hin er af málverki Ingres, Venus Anadyomene, þar sem Venus er nýsköpuð að greiða á sér hárið upp úr bárulaugunum … (Áhugaverða túlkun á hvað vantar á styttuna frægu af Venus frá Míló má sjá hér – en athugið að þetta er grein frá 1908.)

Venus var frjósemisgyðja Rómverja og samsvaraði Afródítu hjá Grikkjum. Venus stóð fyrir ást, fegurð, kynlíf, frjósemi, ríkidæmi og sigur. Nafn hennar, venus, þýðir á latínu losti eða erótísk ást. Hún var sköpuð úr sjávarlöðri, sem sagt froðu.
 

Sú gyðja í norrænni goðatrú sem samsvarar þeim Venus og Afródítu er Freyja. Freyja var lauslát með afbrigðum (eins og þær Venus og Afródíta) og átti nokkra góða gripi, ekki þó spegil. Í eigu hennar eru m.a. tveir kettir sem draga vagninn hennar. Það er því vel við hæfi að eini femínisti þessa heimilis sé felina docta – hún er að vísu nýfemínisti.

Niðurstaðan? Ja, tákn femínista er samsett úr krepptum hnefanum blökkumanna og tákni kvenna, sem rekja má til lauslátrar hégómlegrar gyðju sem sköpuð var úr froðu einni saman …
 
 

Örblogg á degi íslenskrar tungu

Það er ekki allt jafn eymdarlegt í týndu árunum í lífi mínu. Þetta er úr bloggfærslu 15. júní 2006:

Drengbarnið: “Mig hlakkar svo til að fara til Krít.”

Ábyrg móðirin (= ég): “Ég hlakka svo til að fara til Krítar.

Drengbarnið (í skilningsríkum mæðutóni): “Já, hvern hlakkar ekki til? Krít er svo æðisleg.”

Jákvæð færsla

Ég spurði manninn: “Um hvað ætti ég að blogga eitthvað jákvætt?” Hann stakk auðvitað upp á bloggi um gula einstaklinginn … en ég er nýbúin að blogga um hann. Svo ég reyni að tína til sittlítið af hvurju annað þótt auðvitað sé Fr. Dietrich óumdeilanlegt jákvætt viðfangsefni. (Ég hef nefnilega fengið nóg af neikvæðni og hef ákveðið að hætta að lesa “fréttir” sumra vefmiðla + athugasemdadræsur og sumt annað netkyns – það er mannskemmandi.)

Jákvætt? Tja … í lífi öryrkjans gerist sosum ekki margt en það má einblína á þá jákvæðu smámuni sem gefast í umhverfinu. Má nefna klukkustundarlabbitúr í dag um þann góða Skaga og upp í Garðalund. (Ég er nefnilega hætt að labba norðanmegin á nesinu því ég nenni ekki að ergja mig á eigendum lausra hunda og svo framarlega sem ég fæ mér sjálf ekki alminlegan sjeffer til að vappa lausan mér við hlið er ég alls ekki óhult þeim megin.) Á Langasandi er alltaf sól, líka þegar rignir.

Fór áðan á kaffihús með vinkonu minni; OK, þetta er ekki beinlínis kaffihús heldur ísbúð en þarna fæst besta kaffið á Skaganum. Svo við létum okkur hafa það að sitja á barstólum við skenk – hvað gerir maður ekki fyrir gott kaffi? Hugguleg stund að venju.

Helgin hefur verið ljúf og letileg, sloppadagur á Joe Boxer í gær, hangið yfir bókum, sunnudagskrossgátunni og auðvitað horft á Matador. Ég hef meira að segja misst mig í Solitaire af og til, sem ég hef ekki lagt í mörg ár. Núna er ég að lesa Klingivalsinn (Klinkevalsen) eftir Jane Aamund, mikinn uppáhaldshöfund. Alveg er ég handviss um að ég hef séð sjónvarpsþætti eftir þessari bók, án þess ég muni neitt eftir söguþræðinum … ég sé nefnilega aðalpersónuna fyrir mér svo ljóslifandi að ég hlýt að hafa séð hana á mynd.

Af nýjum bókum er ég búin að lesa stutta titla: Skáld og Rof. Og svo náttúrlega Mensalder og Kattasamsærið. Veit ekki hvort telst með að ég las textana í Orð, krydd & krásir og skoðaði myndirnar en sleppti því að lesa uppskriftir enda ber ég ekki við eldamennsku. Þetta eru allt fínar bækur af ólíku tæi.

Á hverjum degi, upp á síðkastið, læðist tómið mikla aftan að mér en með því að ríghalda í ljósa punkta, passa að einföld atriði séu í lagi (eins og að fara á fætur fyrir átta á morgnana alveg burtséð frá því hvenær mér tókst að sofna, fara í langan göngutúr svo framarlega sem veðrið er ekki snarvitlaust, setja mér fyrir eitthvað skemmtilegt á hverjum degi, leiðrétta hugsanaskekkjur o.s.fr. … þetta er voðalíkt meðmæltu alkaprógrammi og eflaust mörgu öðru) hefur mér til þessa tekist að hrekja tómið á brott. Svo ég er frískari en ég hef verið í mörg ár.

Það sem mig vantar helst er meiri umgengni við fólk. Ég kíkti áðan á stundaskrár og námsframboð í HÍ á vorönninni en fann fátt spennandi þar. Samt leitaði ég líka í guðfræðideildinni 😉  Mér leggst eitthvað til, það er ég viss um.    

Íþaka

Þegar þú heldur af stað til Íþöku skaltu
óska þess að ferðin verði löng,
lærdómsrík og full af ævintýrum.
Óttastu ekki kýklópa og ekki lestrýgóna
og ekki heldur reiðan sjávarguð.
Ef hugur þinn dvelur við háleit efni,
ef hold þitt og andi eru snortin því besta,
þá verða slíkir ekki á vegi þínum.
Þú hittir ekki kýklópa og ekki lestrýgóna
og ekki heldur trylltan sjávarguð
nema þú berir þá sjálfur í eigin sál,
nema sál þín reisi þá upp á móti þér.

Óska þess að ferðin verði löng,
að marga sumarmorgna komir þú
með unaði og gleði í ókunnar hafnir;
að í kaupstöðum Fönikíumanna,
staldrir þú við og eignist ágæta gripi,
perlumóðurskeljar, kóralla, raf og fílabein
og þokkafullan ilm af öllum gerðum,
sem allramest af þokkafullum ilmi;
að í borgum Egypta komir þú víða
og nemir, já nemir af þeim lærðu.

Hafðu Íþöku ávalt í huga.
Að komast þangað er þitt lokatakmark.
Gættu þess samt að herða ekki á ferðinni.
Betra er að hún endist árum saman;
þú takir land á eynni gamall maður,
auðugur af því sem þér hefur áskotnast á leiðinni
og væntir þess ekki að Íþaka færi þér neitt ríkidæmi.

Íþaka gaf þér stórkostlegt ferðalag.
Án hennar hefðir þú aldrei lagt af stað.
En hún hefur ekkert meira að gefa þér.

Þótt kostarýr virðist hafði Íþaka þig ekki að fífli.
Enda ert þú orðinn svo vitur, með slíka reynslu,
að þér hefur skilist hvað Íþökur þýða.

(Konstantinos P. Kavafis 1911. Atli Harðarson þýddi.)

Ég er lögð á stað til Íþöku …

Frí

Lína langsokkur vildi fara í skóla til að geta fengið jólafrí, páskafrí og sumarfrí, ef ég man rétt. Ég skil hana mjög vel. Einn gallinn við að vera öryrki er að lífið er afskaplega tilbreytingarlaust; Öryrkjar fá aldrei frí. Fyrir manneskju eins og mig sem hef unnið fulla vinnu allt árið frá átján ára aldri eru það ansi mikil viðbrigði að þurfa að yfirgefa vinnumarkað enda sé ég óendanlega mikið eftir starfinu mínu, sem ég get ekki lengur unnið vegna veikinda.

En nú var ég svo lúsheppin að fá tækifæri til að “kenna” lítilsháttar, fyrir vinkonu mína sem þurfti að bregða sér af bæ. Þetta var nú samt frekar “pössun” en kennsla; Aðallega fólst starfið í að merkja við í kladda og sýna nemendum vídjó (sem eins og forðum gekk ekki andskotalaust fyrir sig, með batteríislausar fjarstýringar og tæknifælna mig). Frábærasti parturinn var að hitta unglinga, unglingar eru nefnilega mikið ágætisfólk. Svo var gaman að vera á kennarastofunni með gömlu vinnufélögunum. Og, síðast en ekki síst: Á morgun byrjar miðannarleyfið og þess vegna voru allir að óska öllum góðrar skemmtunar í fríinu og góðs frís. Þess vegna fannst mér þegar ég labbaði út úr skólanum í dag að ég væri komin í frí. Mikið svakalega er það góð tilfinning! (Þótt hún sé blekking …)

Ég er samt eins og undin tuska eftir pössunina. Þótt ég hafi ekkert þurft að undirbúa neitt og ekki fara yfir neitt er sennilega nokkuð langt í að mér batni nóg til að geta kennt. Samt er ég tíu sinnum frískari en á sama tíma í fyrra.

Akkúrat núna er hættulegasti tíminn geðsjúkum, að sögn þess læknis sem ég hef verið hjá í meir en áratug. Hann hefur sagt mér oftar en einu sinni að geðveikum hætti mjög til að veikjast þegar birtan breytist, haust og vor. Ég hugsa að þetta sé rétt hjá honum, hef nefnilega mörg undanfarnin ár oftast veikst um mánaðamótin september – október og verið orðin fárveik í október. En ekki núna. Eftir því sem lyfjaþokunni léttir og með því að nýta mér það sem ég lærði á HAM-námskeiðinu fyrir stuttu tekst mér að vera sæmilega frísk, raunar finnst mér í samanburði við undanfarin ár að ég sé bara helv. frísk!  Svo tek ég einn dag í einu og fyrir hvern dag sem mér líður nokk normal er ég óendanlega þakklát.

Og nú er ég sem sagt komin í frí 🙂