Category Archives: Netið

Geðvonska, illska, þunglyndi

illskanÍ verkfallinu á vorönn var ég meðlimur í þremur Facebook-grúppum framhaldsskólakennara í verkfalli. Munandi að menn eru nú ekkert alltaf mjög jákvæðir og skapgóðir í verkföllum, þau geta nefnilega tekið svolítið á sálina, skráði ég mig í nokkrar hannyrðagrúppur af því ég hélt að þar myndi ríkja rósemdin ein; uppbyggileg nútvitundin svífa þar yfir vötnum því hannyrðir eru svo róandi.

En … það reyndist nokkur misskilningur. Öðru hvoru rýkur moldin hressilega í logninu meðal hannyrðakvenna. Og eins og í venjulegri æsingarumræðu á óvönduðum vefmiðlum er ómögulegt að segja fyrir um hvernig stormarnir snúast og í hvern hænurnar gogga. Eftir seinustu svona uppákomu sá ég að aðalgrúppan ber nafn með rentu og sagði mig úr henni áðan, algerlega eftirsjárlaust.

Af því ég hélt sloppadag í dag var ég óvenju dugleg að skruna á Netinu og sá að fólk er að tjúllast yfir ýmsu, s.s. einhverri ráðstefnu SÞ þar sem karlar einir ætla að fjalla um jafnréttismál; einhverju læki manns sem ekki þótti við hæfi að lækaði eða má sko alveg læka; bloggi bæjarstjóra í Vestmannaeyjum og mögulegum tengslum þess við sorg ekkja og áratugs gamla bók; nýjum reglum í Júróvissjón; góðri perravakt eða illri perravakt o.s.fr.; Auk þessa venjulega níðs um stjórnmálamenn en í hópi „vinsælustu“ bloggara eru nokkrir karlar sem skrifa örblogg og kasta í þeim skít á báðar hendur, uppáhaldsorð þess alvinsælasta er siðblinda og útnefnir hann ótrúlega marga siðblinda nánast í hverri viku. (Sem mér finnst benda til þess að maðurinn sé annars vegar ótrúlega geðvondur og hafi hins vegar ekki hugmynd um hvað orðið siðblindur þýðir.) Á morgun tjúllast virkir í athugasemdum örugglega yfir einhverju allt öðru og eitthvert annað siðblint skítapakk verður afhjúpað hægri-vinstri.

Við skrun formiddagsins sá ég, eins mér er svo sem löngu orðið ljóst, að einskis er misst við að sleppa lestri athugasemda á vefmiðlum og best að halda áfram að sigta út einstaka bloggara á blogg-gáttinni, þeir eru fáir sem eru bæði sæmilega skrifandi og ekki spúandi illsku í allar áttir og verkið því fljótlegt.

Áhugaverðasta fréttin sem ég sá í dag/gær/fyrradag var þessi um að nú sé verið að sýna fram á með vísindalegum aðferðum að karlar séu þunglyndir til jafns við konur. Ef maður býr í venjulegu samfélagi (en ekki í netheimum eða fílabeinsturni) er þessi staðreynd raunar frekar augljós en gaman að nú skuli hún rannsökuð með vísindalegum aðferðum og skrifaðar greinar í ritrýnt tímarit um niðurstöðurnar. Ég á eftir að verða mér út um greinarnar (finn bara aðra þeirra í augnablikinu og dettur ekki í hug að borga 46 dollara fyrir aðgang að henni og nenni ekki að hafa upp á öðrum ódýrari möguleika akkúrat núna) og les þær áreiðanlega báðar við tækifæri. Í útdrætti þessarar sem ég fann kom fram að gamla góða kortisól-prófið til að skera úr um þunglyndi er þarna notað, í  breyttri útfærslu, og mig langar að lesa meira um það.

Er ritstjóri Læknablaðsins starfi sínu vaxinn?

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með yfirklóri ritstjóra og ábyrgðarmanns Læknablaðsins í dag, í tilefni þess að fréttamaður uppgötvaði að upplýsingar sem Læknablaðinu var gert að fjarlægja fyrir tveimur og hálfu ári lágu enn inn inni á vefþjóni blaðsins. Sagt var frá þessum skandal í kvöldfréttum RÚV í gærkvöld.

Forsaga málsins er að Persónuvernd gerði Læknablaðinu að fjarlægja þennan hluta, þ.e. úrskurð siðanefndar Læknafélags Íslands þar sem persónugreinanlegar tilvitnanir í sjúkraskrá Páls Sverrissonar birtust athugasemdalaust, í janúar 2012. Það var gert en Páll var svo sem ekkert beðinn afsökunar á tiltækinu. (Úrskurðurinn í heild var fjarlægður í júlí 2012 enda siðanefnd þá búin að núlla út eigin úrskurð.) Páll höfðaði mál gegn Engilbert Sigurðssyni ritstjóra og ábyrgðarmanni Læknablaðsins og Læknafélagi Íslands (sem siðanefndin heyrir undir) og voru þessir aðilar dæmdir til að greiða honum 300.000 kr. í miskabætur skv. dómi Héraðsdóms Reykjaness frá 17. janúar 2013.

Í málsvörn sinni viðurkenndu hinir stefndu, Læknafélagið og Engilbert Sigurðsson, verknaðinn en reyndu að gera lítið úr honum með því t.d. að kalla athæfið „gáleysi“ eða „hin slysalegu atvik” og gerðu stefnanda, fórnarlambið, að nokkurs konar sökudólgi í málinu, því hefði hann ekki opinberlega fundið að birtingu úr sjúkraskrá sinni hefði enginn fattað um hvaða sjúkling væri rætt í þessu opinberlega (og ólöglega) birta broti úr sjúkraskrá. Ég veit ekki hvort þeir trúðu því í alvöru að þetta gerði verknaðinn, skýlaust brot á lögum um meðferð sjúkraskrárupplýsinga, eitthvað skárri en held að flest viti borið fólk sjái nú hve svona málflutningur er snautlegur.

Nú hefur komið á daginn að Læknablaðið lét duga að eyða úrskurði siðanefndar Læknafélags Íslands úr vefsíðuútgáfu blaðsins, þ.e.a.s. HTML-síðunni, og fékk því framgengt að Vefsafnið eyddi úrskurðinum úr sínu afriti. Vefsafnið virðist hafa staðið við sitt og eytt hvoru tveggja vefsíðu og pdf-skjali með úrskurðinum. En Læknablaðinu yfirsást upprunalega pdf-skjalið, þ.e. skjalið með persónugreinanlegu upplýsingunum úr sjúkraskrá sjúklings.

Allt frá árinu 2000 hafa úrskurðir siðanefndar Læknafélags Íslands birst í Læknablaðinu, í pappírsútgáfu, á vefsíðum og sem pdf-skjöl. Það er því afar merkilegt að sjá Engilbert Sigurðsson ritstjóra og ábyrgðarmann blaðsins frá 2010 (og sitjandi í ritstjórn blaðsins frá 2005) halda því fram að þetta hafi „bara [verið] greinilega mistök að við náðum ekki að koma tæknilega í veg fyrir að það væri hægt að gúgla sig inná það [skjalið]“ (RÚV 29.9. 2014, feitletrun mín).

Það er augljóslega ekki hægt að „gúgla sig inná“ nokkurt skjal nema það liggi á vefþjóni. Allar greinar sem birtust í Læknablaðinu í september 2011 lágu sem pdf-skjöl inni á skráasafninu /media/tolublod/1533/PDF/. Það að fatta ekki að eyða umræddum úrskurði siðanefndar með ólöglega birtum upplýsingum úr sjúkraskrá einstaklings úr þessu skráasafni lýsir annað hvort fullkomnum sauðshætti eða algerri vanþekkingu á hvernig Læknablaðið er uppsett á Netinu. Þetta hefur akkúrat ekkert með tækni að gera heldur heilbrigða skynsemi og lágmarksþekkingu á hvernig blað sem maður hefur ritstýrt og borið ábyrgð á í 4 ár er gefið út.

Hins vegar kann það að vera rétt hjá Engilbert að einhver hafi fundið skjalið gegnum Google. Leitarvél Læknablaðsins er nefnilega ónothæf, birtir iðulega 100 niðurstöður sama hvert leitarorðið er og er allur gangur á hvort niðurstöðurnar tengjast leitarorðinu eitthvað eða eru bara algerlega út í hött. Þess vegna nota sæmilega vanir internet-notendur miklu frekar site-leitarmöguleikann í Google til að leita í Læknablaðinu því það er eina leiðin til að finna upplýsingar hratt og vel flokkaðar.

Ég veit svo ekki hvort Engilbert Sigurðsson og aðrir sem starfa við þetta blað, Læknablaðið, hafa áttað sig á því að enn er til afrit af þessu pdf-skjali, sem þeim var gert að eyða úr í janúar 2012 og töldu sig hafa eytt með öllu í júlí 2012, í skyndiminni Google og frægu afritasafni á Vefnum. Það er ekkert mál fyrir þann sem veit hvað skjalið heitir (sem er ákaflega auðvelt að reikna út með því að skoða uppsetningu á pdf-skráasöfnum Læknablaðsins og auðkenningarnúmerakerfi skjala í þeim eða leita í öðrum leitarvélum en Google) að finna afritið. Kannski tekst þeim að gúggla upplýsingar um hvernig þeir geti fengið afritinu eytt … kannski ekki.

Formaður Læknafélags Íslands, Þorbjörn Jónsson, hefur nú birt opinberlega afsökunarbeiðni til Páls Sverrissonar, á vef Læknafélags Íslands.  Afsökunarbeiðnin er sögð vera fyrir hönd Siðanefndar LÍ, Læknafélagsins og Læknablaðsins. Ritstjóri og ábyrgðarmaður Læknablaðsins, Engilbert Sigurðsson, hefur hins vegar ekki séð ástæðu til að hafa samband við Pál Sverrisson og biðja hann afsökunar, þegar þetta er skrifað. Fyrirsögn fréttar RÚV, Læknablaðið biðst afsökunar er því enn sem komið er röng því Læknablaðið lét annan aðila biðjast afsökunar fyrir sig.

 

Reiði og alhæfingar

Bloggfærsla Ástu Svavarsdóttur, Haltu kjafti, vertu sæt og éttu skít., hefur vakið nokkra athygli og umræðu á Facebook enda mikill reiðilestur. Málflutningi hennar hefur verið svarað á öðrum bloggum en þessu, t.d. á bloggi Eiríks Arnar Norðdahl (sjá færsluna Trigger warning: Klám, klám og klám) og verður sjálfsagt svarað meir. Í þessari færslu ætla ég einungis að beina sjónum að því sem Ásta segir um námsefni í íslensku í framhaldsskólum.

Hún segir:

Í framhaldsskólum eru kenndar nokkrar sömu skáldsögurnar. M.a.  Brennu Njáls sagaSalka Valka og smásagnasafnið Uppspuna.
Það er farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins.
Njála býr yfir þekktustu kvenpersónu Íslendingasagna, sjálfri Hallgerði langbrók sem hefur verið hötuð og fyrirlitin síðastliðin átta hundruð ár.
Salka Valka býr yfir kvenfrelsishetjunni Sölku sem vill ekki vera kona! Salka Valka er mín uppáhaldssaga og sýnir hversu mikill snillingur Kiljan var að geta skrifað svona um konu 1930.
Uppspuni er nýjust, gefin út 2003 og flokkast því undir samtímabókmenntir og lumar á ýmsu.
Nú ætla ég að leyfa mér að tengja saman það sem er kennt í framhaldsskólum landsins og þann veruleika sem ungmennin okkar búa við. Gætu verið tengsl þarna á milli? Erum við fullorðna fólkið að skapa þennan veruleika?

Síðan túlkar Ásta valin atriði úr þessum bókum og tengir við klámvæðingu, bága stöðu kvenna, karllægt val o.s.fr. Ég geri túlkun hennar ekki að umræðuefni hér en hnaut um staðhæfinguna: Það er farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins.

Hallgerður langbrókMér er auðvitað ljóst að Njála er víða lesin í fornsagnaáfanga í framhaldsskólum en kannaðist satt best að segja ekki við að hinar tvær bækurnar væru algengar. Svo ég athugaði málið: Fletti upp bókalistum í 25 framhaldsskólum (en alls eru taldir vera 32 framhaldsskólar á Íslandi ef ég man rétt) og kíkti á kennsluáætlanir ef upplýsingar á bókalistum voru ekki fullnægjandi. (Raunar kíkti ég á síður fleiri framhaldsskóla en hjá sumum þeirra liggja þessar upplýsingar hreint ekki á lausu, t.d. hjá Kvennó og ML. Og sumstaðar eru upplýsingarnar af mjög af skornum skammti, t.d. hjá MTR og MH, sem er auðvitað afskaplega lélegt!)

Eftir að hafa skoðað upplýsingar á síðum: FVA, MA, VMA, FSH, MTR, VA, ME, FAS, FL, FNV, MH, MR, FB, FÁ, MS, BHS, FG, FSU, FSS, FSN, MÍ, MB, FMOS, TÍ og Verzló) er niðurstaðan þessi (með þeim fyrirvara að þessar bækur hefðu getað verið kenndar á fyrri önnum en haustönn 2013):

Einu framhaldsskólarnir sem kenna allar þessar þrjár bækur sem Ásta nefnir eru Framhaldsskólinn á Húsavík (skólinn í hennar heimasveit) og Framhaldsskólinn á Höfn.

Eini skólinn sem kennir Sölku Völku fyrir utan þá tvo ofantöldu er Menntaskólinn á Ísafirði. Flestir skólar sem kenna langa sögu eftir Laxness velja Sjálfstætt fólk, stöku skóli kennir Íslandsklukkuna.

Smásagnasafnið Uppspuni er kennt við eftirtalda skóla: FSH, FAS, VA, Verzló, FÁ, FMOS, MB, TÍ og MS.

Brennu Njáls saga er kennd í sumum skólanna, Egils saga, Grettis saga eða Laxdæla í sumum, sums staðar er skipt um sögu aðra hvora önn. Ég taldi ekki hlutföllin milli þessara Íslendingasagna.

Þegar öllu er á botninn hvolft stenst fullyrðing Ástu um að það sé farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins engan veginn nema menn kjósi að túlka orðið flestallir sem afar teygjanlegt orð en teygjanleg orð ku í tísku um þessar mundir 😉

Myndin er af Hallgerði Höskuldsdóttur langbrók.

Netumræðan um mál Jóns Baldvins

Ég hef lengi haft áhuga á að skoða hvernig netumræða raunverulega er og gafst gott tækifæri til þess núna. Mig langaði að vita hve margir taka þátt í netupphlaupi á borð við umræðuna um væntanleg störf Jóns Baldvins Hannibalssonar sem gestafyrirlesara í stjórnmálafræðiskor HÍ, hve margir þeirra tjáðu sig á fleiri en einum vettvangi, hvernig þátttaka í netumræðu skiptist eftir kynjum og hvaða afstöðu menn tækju í umræðunni.  Er líklegt að einhvers konar þjóðarsál endurspeglist í netumræðu?

Til þess að komast að þessu skoðaði ég umræðuna við 4 fréttir og 2 blogg eins og hún leit út kl. 16 í gær, sunnudaginn 1. september. Fréttirnar og bloggin voru:

Það fyrsta sem kemur í ljós þegar svona umræðuhalar eru skoðaðir nánar er að umræðan er ekki nærri eins umfangsmikil/innihaldsrík og hún virðist við fyrstu sýn. Við fréttina/bloggin birtast nefnilega tölur um fjölda ummæla en ekki fjölda ritenda, t.d. eru skráð 143 ummæli við Ætla ekki að taka ráðningu Jóns Baldvins þegjandi en höfundar ummælanna eru ekki nema 78 talsins. Í þeim umræðuhala telst t.d. slóð á bloggfærslu á Knúz.is vera 15 ummæli því sama manneskjan sendir slóðina 15 sinnum inn á umræðuvettvanginn. Svo verkið, að skoða umæðuna, var ekki eins óyfirstíganlegt og fljótt á litið mætti ætla.

Helstu niðurstöður eru þessar:

Alls skrifuðu 221 manns athugasemdir við fréttirnar og bloggin sem ég taldi upp hér að ofan. Þetta voru 148 karlar og 73 konur. Það kom mér talsvert á óvart að karlarnir skyldu vera um tvöfalt fleiri í þessum hópi.

Rétt rúmlega 9,5% þeirra sem tóku þátt í umræðunni (21 manns) tjáðu sig á fleirum en einum vettvangi. Tveir umræðumanna tjáðu sig á öllum þeim sex umræðuþráðum sem ég skoðaði.

Rúmlega 15% þeirra sem tóku þátt í umræðunni (35 manns) eru á Facebook-vinalista Hildar Lilliendahl Viggósdóttur. Ég athugaði þetta sérstaklega af því allar fréttirnar nema sú fyrsta á listanum eru sprottnar af bloggfærslu Hildar og Helgu Þóreyjar Jónsdóttur, Háskóli Íslands – griðastaður dónakarla?, knuz.is 28. ágúst 2013.

Ég flokkaði athugasemdir þessara 221 þáttakenda í þrjá flokka: Þá sem taka undir með málflutningi Hildar Lilliendahl Viggósdóttur og Helgu Þóreyjar Jónsdóttur, þá sem lýsa sig andsnúna sama málflutningi og þá sem lýsa sig hlutlausa eða fjalla um annað í sínum athugasemdum. Hlutföllin eru þessi:

  • Sammála Hildi og Helgu Þóreyju um að Jón Baldvin Hannibalsson ætti ekki að fá að vera gestafyrirlesari í HÍ eru rúmlega 18,5% (41 af þeim sem leggja orð í belg);
  • Ósammála Hildi og Helgu Þóreyju um að Jón Baldvin Hannibalsson ætti ekki að fá að vera gestafyrirlesari í HÍ eru tæplega 39% (86 af þeim sem leggja orð í belg);
  • Hlutlausir eða með annars konar athugasemdir eru 42,5%  (94 af þeim sem leggja orð í belg).

Ég tek fram að hluti skýringarinnar á hve margir falla í flokk hlutlausra er að bloggfærsla Egils Helgasonar, Heiftin á netinu, snérist ekki sérstaklega um mál Jóns Baldvins og því tjáðu margir sig um eitthvað annað en akkúrat ráðningu Jóns Baldvins. Önnur skýring er að þeir sem nota Facebook átta sig ekki allir á að þeir eru að svara opinberlega þegar þeir skrifa athugasemd við eitthvað sem einhver Facebook vinur þeirra hefur skrifað við frétt eða blogg og því eru athugasemdir undir öðrum athugasemdum oft ómarkvissar. Þriðja skýringin er að hluti þeirra sem tjáir sig í þessari umræðu snýr sínum athugasemdum upp á eitthvað sem tengist málinu lítið, fjallar t.d. um skoðun Jóns Baldvins á Evrópusambandinu eða prófessorsstöðu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar við HÍ.

Drömun á Netinu

Það hefur fátt markvert borið til tíðinda upp á síðkastið. Kannski er það þess vegna sem netheimar loga dag eftir dag yfir smotteríi. Og orðbragðið í “umræðum netverja” (kommentum Facebook-notenda) er þess lags að alþýðukonu upp á Skaga setur hljóða.

Fyrst kom sú hryllingsfrétt að halda ætti Fegurðarsamkeppni Íslands í haust. Hildur Lilliendahl Viggósdóttir og aðrir vaskir femínistar skráðu sig eins og skot í keppnina, gættu þess að láta netmiðla vita af þessu og sumir femínistar fóru að safna handarkrikahári fyrir haustið. Facebook-kommenterar fóru offari yfir væntanlegri kúgun kvenna. Svona keppni er nefnilega kúgun kvenna og valdstjórnartæki illa innrættra karla því allir vita að ekki er hægt að keppa í fegurð. Það er hins vegar hægt að keppa í stauraburði og fótamennt og ýmsu öðru sem karlar keppa aðallega í. Femínistarnir hafa a.m.k. ekkert við svoleiðis að athuga. Þarf varla að taka fram að Fegurðarsamkeppni Íslands hefur aldrei verið eins rækilega auglýst og núna. Enda sett met í skráningu í hana.

DV gerði þá stórkostlegu uppgötvun að forsetafrúin hefði flutt lögheimili sitt til Englands fyrir hálfu ári. Kommenterar eru flestir á sveif Dorritar enda kemur hún alþýðlega fyrir, segir skemmtilegar vitleysur á íslensku, klæðist stundum lopapeysu og á hund sem hún elskar úr af lífinu. (Til skýringar: Það er sætt þegar útlendingar misþyrma íslenskri tungu. Það er ekki sætt þegar ambaga veltur upp úr Íslendingi, allra síst framsóknarmanni og allra allra síst framsóknarkonu.) Þess vegna fjalla kommentin við fréttina dévaffs og afleiddar fréttir netmiðla aðallega um að lögheimilislög séu hvort sem er svo vitlaus að það verði að breyta þeim svo forsetafrúin geti löglega átt lögheimili á Bretlandi og þurfi ekki að fremja lögbrot eða jafnvel að skilja við forsetann okkar allra. Ráðamenn sem DV hefur náð í hafa þau ein svörin að enginn hafi kært. Næsta holl hliðhollra kommentera bendir á að skattalögin séu hvort sem er svo vitlaus að það sé skiljanlegt að Dorrit hafi þurft að flytja lögheimilið til Englands. Raunar hefur komið fram að hún hefur aldrei greitt auðlegðarskatt hér á landi þótt lögheimilið hafi verið úti á Álftanesi en það skiptir ekki máli, skattalögin eru samt vitlaus. Engum hefur dottið í hug líkleg raunveruleg ástæða sem er að Dorrit vilji komast á svig við lög um gjaldeyrismál, sem sé komast hjá því að skipta pundunum sínum í krónur ef hún skyldi græða að ráði. Skiptir sosum ekki máli því allir vita hvað gjaldeyrislögin eru vitlaus. Niðurstaðan er hin sama: Aumingja forsetafrúin að þurfa að flytja til útlanda af því íslensk lög eru svo vitlaus og hún svo óheppin að vera svo auðug í útlandinu ….

Eftir tveggja daga netstorm um bágt hlutskipti forsetafjölskyldunnar, a.m.k. frúarinnar og Sáms, dró nýja bliku á loft og fljótlega var skollið á ofsaveður í netvatnsglasinu: Í ljós kom að aðstoðarmaður ráðherra hafði sent fundarboð á rangt netfang! Við tók drama sem í gærmorgun var farið að líkjast Dreyfusmálinu franska.

Kjarninn í málinu var að ráðherra vildi ræða við tvo forsvarsmenn undirskriftarsöfnunar. Mér finnst líklegast að aðstoðarmaður ráðherra hafi einfaldlega farið línuvillt í netfangalista tölvuþjónustu háskólans og sent boðið á netfangið aj, sem er netfang deildarstjórans yfir öðrum manninum (sem rekur velþekkt blogg undir skammstöfuninni AK).

Þessi mistök reyndust afdrifarík. Lögmaður mannanna taldi að í þeim fælust hótun um atvinnumissi og fór mikinn. Lögmaður þessi ratar reglulega í fréttir DV, síðast vegna þess að hún var yfir sig hneyksluð á að vera rukkuð fyrir styrktarsímtöl sonar síns.  Í netheimum er Helga Vala góður lögfræðingur, samfylkingarkona m.m., enda eldar hún reglulega grátt silfur við Brynjar Níelsson, sem alþýða netheima veit að er vondur lögfræðingur því hann er sjálfstæðismaður m.m. Maðurinn sem ekki fékk allan tölvupóstinn skrifaði tvær bloggfærslur um dramatíkina í lífi sínu, í hinni seinni kom fram að dagurinn hafi verið lýjandi og nóttin erfið og hann þarfnaðist sárt að fá hvíld og ró. Skiljanlegt í ljósi þeirra skelfilega örlaga sem biðu hans ef marka mátti Fb.kommentera og uppslætti dévaffsins.

Þegar ekki lá fyrir annað en að sparka þessum aðstoðarmanni ráðherra fyrir að hafa sent fundarboð á rangt netfang og helst ráðherranum með brast á blæjalogn. Maðurinn sem átti yfir höfði sér atvinnumissi (og kannski ríkisborgaramissi og guð-má-vita-hvar-etta-hefði-endað) birti bloggfærslu um að allt hefði þetta verið eðlilegt! Aðstoðarmaðurinn hafði víst líka hringt í hann og sent honum SMS, auk þess að senda tölvupóst á netföng sem hún taldi að tilheyrðu manninum: Fundarboðið hafði verið sent honum á einkanetfang en afrit á netfang yfirmannsins á vinnustaðnum. Aðstoðarmaðurinn hafði margbeðist afsökunar og gefið skýringar sem “fórnarlambinu” fundust fullkomlega trúverðugar.  Ef marka má þessa bloggfærslu var Dreyfusarmálið nýja aldrei neitt mál nema í vatnsglasi Facebook-sítengdra. (Ég tek fram að mér þykir ólíklegt að obbinn af þeim drekki latte.)

Nú er spurningin: Hvað næst? Mun einhver framsóknarráðherrann sjást með lausan hund? Mun Vigdís missa út úr sér málvillu? Mun Brynjar Níelsson tjá sig um Fegurðarsamkeppni Íslands eða handarkrikahár? Hverfur Lúkas á ný? Hvaða flog fá Facebook-kommentarar næst?

Samfélagsmiðlar

Samfélagsmiðlareru það sem á ensku kallast Social Media. Menn hafa reynt að afmarka hugtakið við ýmislegt en í rauninni má segja að Vefurinn eins og hann leggur sig sé samfélagsmiðill því núorðið er allra handa efni deilt og það rætt eða a.m.k. „líkað“. Útstöðvar þessarar tækni eru líka að renna saman í snjallsímum og spjaldtölvum (það verður örugglega fljótlega hægt að hringja úr spjöldum – sé það ekki hægt nú þegar – og samruninn verður fullkominn).

Ég byrjaði að nota internetið í janúar 1991. Það var fyrir daga Vefjarins og tengingin við alheimsnetið var í gegnum tölvuna Imbu (sálugu) á Kópaskeri. Það sem maður notaði einkum var tölvupóstur (Elm forritið í óvingjarnlegu Unix-umhverfi), leit í gagnabönkum, skrif á spjallborð sem kölluðust ráðstefnur og einstaka sinnum möguleikann „Talk“, sem var undanfari IRC-sins og í rauninni alveg nákvæmlega eins og Facebook-spjall nútímans. Frá því Vefurinn leit dagsins ljós hér á landi, svona 1994-1995, hef ég notað hann bæði til að leita mér upplýsinga og til að setja inn upplýsingar. Ég byrjaði að blogga í upphafi árs 2005 og hef gert það allar götur síðar. (Fyrsta tölvan á okkar heimili var keypt 1985 en ég geri hana ekki að umtalsefni hér.)

En ég kæri mig ekki um að vera sítengd. Þess vegna á ég ekki snjallsíma, ég nota raunar farsíma afar sjaldan. Og ég er enn nógu háð ritmáli (er svakalega fljót að pikka) til að kæra mig ekki um spjaldtölvu … er hins vegar dálítið veik fyrir krílum því núna loksins eru fartölvur orðnar raunverulega far- eitthvað, þ.e.a.s. nógu léttar til að drösla þeim með sér með léttum leik.

Í mínum augum er Vefurinn sambærilegur við sjónvarp, það borgar sig að velja og hafna og sýna hóf í notkun svoleiðis tækja. Vinsælt kvörtunarefni kennara nútildags er hve nemendur eru háðir farsímunum sínum. Ég er svo sem sammála því að það getur verið ótrúlega erfitt að fá unglinga til að missa sjónar af sínum snjallsímadýrgrip í klukkustund en held að þetta gildi alveg eins um marga þá sem teljast fullorðnir, a.m.k. er mér minnisstætt þegar sessunautur minn dró upp símann sinn og opnaði Facebook á HAM námskeiði síðsumars á liðnu ári … vitandi það að enginn sótti þetta námskeið nema af brýnni þörf og veigamiklum ástæðum. Ef menn geta gert tvo hluti vel í einu er ekkert því til fyrirstöðu að vera sítengdur, reynsla mín er hins vegar sú að fáir höndla slíkt, einna helst eru það flinkar prjónakonur.

Mér finnst notkun persónulegs tölvupósts vera heldur að minnka, a.m.k. breytast. Kunningjar og fjölskylda senda allt eins Facebook skilaboð og tölvupóst, Facebook-hópar koma að mörgu leyti í stað póstlista. Á hinn bóginn er líklega orðið algengara að menn sendi ýmis erindi sín í tölvupósti en hringi, svo ekki sé talað um yfirvofandi dauða sniglapósts. Eiginmaður minn er skólameistari og hann kveðst fá að meðaltali kringum 100 tölvupósta á dag, yfirleitt fljótsvöruð erindi og símtölum hefur fækkað að mun á móti. Hann telur að tölvupóstur sé skilvirkari og fljótlegri leið en símtöl eða viðtöl. Ég hugsa að þetta sé rétt hjá honum og tek reyndar eftir því að núorðið er það hending að kennari sé kallaður fram til að tala við nemanda í frímínútum … mestallan minn kennaraferil hefur glumið oft í kallkerfinu í hverjum frímínútum … og líklega er það vegna þess að nemendur eru óragir við að senda fyrirspurnir eða skilaboð inn á lokað kennsluumhverfi.

Blogg

Blogg eru orðin sjaldséðari eftir að Facebook varð til og eftir að netmiðlar tóku upp athugasemdakerfi (núorðið nýta þeir flestir Facebook sem athugasemdamöguleika). Stóra bloggsprengingin varð þegar mbl.is bauð upp á notendavænt bloggumhverfi. En bloggararnir þar, á blog.is, voru sjaldnast raunverulegir bloggarar heldur nýttu bloggumhverfið sem athugasemdakerfi. Ágætt dæmi um það er frétt á mbl.is frá 2007 sem gekk í endurnýjun lífdaga á Facebook fyrir skömmu: Við fréttina Elsta systkinið gáfaðast eru 32 blogg!  Það eimir enn eftir af þessari „moggabloggs-hefð“, þ.e. bloggum sem eru bara nokkrar línur og oftast er viðkomandi að tjá sig um einhverja frétt. Og það er áreiðanlega grundvöllur fyrir moggabloggshefðinni ennþá því meðal vinsælustu bloggara landins, skv. Blogggáttinni sem vel að merkja er ótraustur mælikvarði, eru Jónas Kristjánsson og Eiríkur Jónsson, fyrrum blaðamenn (blogg hins síðarnefnda er raunar flokkað sem vefrit á Blogggáttinni) en báðir blogga þeir örstutt og stundum oft á dag, Jónas er yfirleitt með eigin yfirlýsingar um eitthvað sem hefur ratað í fréttirnar þann daginn, Eiríkur birtir fremur myndir eða slúðursögur af ýmsu tagi. Enn einn mjög vinsæll bloggari sem bloggar jafnvel oft á dag er Egill Helgason sem alla jafna bloggar í styttri kantinum en umfjöllun hans er oftast mun bitastæðari en þessara tveggja sem ég nefndi. Og ég tek fram að þeir sem blogga á blog.is fylgja hreint ekki allir gömlu moggabloggs-hefðinni. Bloggsetrið skiptir ekki máli þótt veran á blog.is sé vissulega vísbending um gæði bloggs.

Sjálf reyni ég að blogga langar færslur. Annars vegar gefur það kost á að reifa efnið að einhverju leyti en ekki bara upphrópunum í æsifréttastíl. Hins vegar kemur svoleiðis háttalag ágætlega í veg fyrir að ákveðinn hópur lesenda þvælist mikið á mínu bloggi, þ.e.a.s. lesendur sem höndla ekki að lesa nema nokkrar línur af texta á skjá og byrja síðan að garga hástöfum byggt á þessari agnarögn sem þeir lásu. Ég vil gjarna vera laus við svoleiðis lesendur og þykir ágætt að þeir haldi sig við kommentakerfi óvandaðra netmiðla, sem þjóna slíkum lesendahópi ágætlega með örfréttum undir stríðsfyrirsögnum og reyna ævinlega að draga eitthvað krassandi fram í örfréttunum.

Það er erfitt að meta hvort blogg séu vinsæl eða ekki. Ein leiðin er að skoða Blogggáttina en það er mjög takmörkuð vitneskja sem fæst úr þeim lista. Á honum er líka fjöldi gamaldags moggabloggara. Heimsóknartölur á mitt blogg eru kringum hundrað þá daga sem ég blogga ekki (og því fer fjarri að ég bloggi daglega), undir eðlilegum kringumstæðum. Stór hluti þeirra heimsókna er gegnum Google. Tölurnar eru fljótar að hækka ef einhver vekur athygli á einhverri (oft eldri) bloggfærslunni, sem oft gerist, ég sé það gerast gegnum önnur blogg, gegnum Facebook, einstaka sinnum gegnum netmiðla, gegnum spjallvefi o.s.fr. Sólarhringinn eftir að ég sendi inn bloggfærslu eru yfirleitt í kringum 200-250 heimsóknir á bloggið mitt. Fjalli færslan um einhver „heit“ málefni og sé deilt mikið á Facebook fara heimsóknir fljótt yfir þúsundið.

Dags daglega sé ég miklu hærri tölur á teljurum sumra gamaldags moggabloggara en í ljósi þess að nánast aldrei eru skrifaðar athugasemdir við svoleiðis blogg held ég að smellirnir á þau séu „óvart-smellir“ þeirra sem lesa viðkomandi frétt á mbl.is (sem tengir í bloggin um fréttina). Veit ég þó að athugasemdir segja æ minni sögu því talsvert af athugasemdum við mínar eigin færslur fæ ég gegnum Facebook, einstaka sinnum í tölvupósti.

Af mínu eigin bloggi að dæma virðist vera að því ómerkilegri sem færsla er því vinsælli mælt í hreinum teljaratölum, t.d. er Úrklippur Hildar Lilliendahl langvinsælasta færslan, með talsvert yfir 15.000 lesendur. Eins og nafnið gefur til kynna er þetta í rauninni ekki færsla heldur skjámyndasafn. Satt best að segja er mér ekki kappsmál að margir lesi bloggið mitt. Mér finnst miklu meira virði að hafa fáa góða (t.d. í merkingunni fluglæsa og þokkalega klára) lesendur heldur en að búa við það að fá holskeflu af misvitrum athugasemdum inn á bloggið mitt – það er t.d. umtalsverð vinna að halda orðbragði svoleiðis hópa í skefjum.

Það er allur gangur á því hvort blogg sem ég les sjálf að staðaldri séu skráð á Blogggáttina. Skv. minni reynslu er þetta kynskipt: Ég les talsvert af bloggfærslum eftir konur sem einhverra hluta vegna kjósa að skrá ekki bloggin sín í RSS-veitu. Af þeim sem ég les eru þetta ýmist blogg um þunglyndi eða blogg um hannyrðir en ég hef svo sem enga yfirsýn yfir óskráð blogg almennt og man ekki eftir óskráðu bloggi eftir karlmann. Ég veit því miður ekki um neinn góðan mælikvarða til að meta vinsældir bloggs eftir að blogg og Facebook og Google og líklega Twitter runnu saman, líklega er sá mælikvarði ekki til.

Hannyrða-heimurinn

Það er kannski ekki úr vegi að nefna stóran og vinsælan en svo til ósýnilegan kima á Vefnum öðrum en þeim sem áhuga hafa sem er efni tengt hannyrðum. Sem dæmi má nefna Prjónabloggið, eitt margra prjónablogga á íslensku sem eru ekki skráð í Blogggáttina, en eigandi þess tilkynnti nýverið:

Ég hef verið með blogigð [svo] mitt í tæp 3 ár og þar sem heimsóknir á síðuna eru komnar yfir 200.000 á þaim [svo] tíma og fara yfir nokkur hundruð og jafnvel nokkur þúsund á dag, þá hef ég ákveðið að gera facebook síðu líka. Inn á þessa síðu kem ég til með að setja inn myndir af því sem ég er að gera ásamt því að láta ykkur, kæru lesendur vita þegar ég set inn nýjar færslur á bloggið mitt :)
 

Það er til talsvert af sambærilegum síðum á Facebook, áhugasömum er bent á að leita með leitarorðinu prjón eða knitting :) Eðli Facebook sem samfélagsmiðils eru gerð skemmtileg skil í færslu Gísla Ásgeirssonar frá sl. nóvember, Kvittað, lækað og deilt.Gary Grant prjónar

Fyrir utan prjónablogg og uppskriftavefi (t.d. garnstudio.no) og prjónakennsluvefi (t.d. Wool and the Gang) og prjónavefi tengda garni eða tímaritum (t.d. Knitting Daily) og prjónafacebook og Google til að leita að svoleiðis er YouTube ótæmandi uppspretta hannyrðafræða. Kennslumyndbönd í ýmsum hannyrðum létta fólki eins og mér (sem á erfitt með að skilja uppskriftir, vegna meðfædds skorts á rýmisgreind) lífið ótrúlega mikið! Raunar er YouTube náma hvers kyns efnis: Tónlistar; hljóðs; myndbanda; kvikmynda; glærusýninga; fyrirlestra o.s.fr. og löngu orðið órjúfanlegur hluti annarra samskiptamiðla, fyrir utan að það að vera samskiptamiðill sjálft því á YouTube tjá notendur sig óspart um efnið og krækja í aðra umfjöllun.

Loks verður að nefna Pintrest, stafræna korktöflu þar sem festa má myndir sem tengjast áhugasviði hvers og eins. Pintrest er auðvitað draumur hverrar hannyrðakonu því maður gleymir ótrúlega fljótt fyrir hvað hvert bókamerki í vafranum stóð en sjái maður mynd af því sem var á síðunni sem alls ekki átti að lenda í glatkistunni er miklu auðveldara að passa upp á það sem átti að muna eftir. Ég skoða Pinterest síður þeirra sem hafa svipuð áhugamál og ég, endurfesti myndir af þeirra töflum, sé hvaðan þeir fengu myndirna, kíki á þær síður og Pinterest-töflur o.s.fr. … það er ótrúlega auðvelt að festast í Pinterest-skoðun og eyða í hana mörgum klukkustundum! Pinterest má nota um hvaða áhugamál sem er þótt ég hafi fellt þessa umfjöllun undir hannyrðir á netinu, ég er t.d. með Pinterest-töflu yfir myndir sem tengjast Snorra-Eddu sem ég get notað í kennslu (eða ekki notað). Pinterest-töflurnar mínar eru á http://pinterest.com/harpahreins/ ef einhver lesandi hefur ekki séð svona korktöflur. (Af því ég er nýbyrjuð að nota þetta á ég ekki margar korktöflur.) Ég sé fyrir mér að Pinterest muni skipta álíka máli og Google í framtíðinni í að veita heimsóknum inn á vefsíður og blogg.

Akkúrat núna: Ég á líf og I’m a Cow

Íslenska Eurovission lagiðÁgætt dæmi um hvernig samskiptamiðlar virka má sjá akkúrat núna: Komið hefur í ljós að íslenska Eurovission-lagið sem var kosið í gærkvöldi er nauðalíkt öðru lagi eftir kanadíska hljómsveit. Í athugasemdir við frétt netmiðla af þessari kosningu er alls staðar vakin athygli á þessu og krækt í myndbönd á YouTube. Á YouTube eru skrifaðar athugasemdir við tónlistarmyndbönd af I’m a Cow og vakin athygli á líkindum þess og íslenska Eurovision-lagsins Ég á líf. Strax í gærkvöldi bloggaði Gísli Ásgeirsson um þessi óheppilegu líkindi, “Ég á líf ” eða I Am Cow -Kom út í Kanada 2006 og aftur í dag, Búkolla og systur hennar í Kanada. (Gísli er einn af mínum uppáhaldsbloggurum sem skýrir af hverju ég vitna svona oft í hann í þessari færslu.) Á Facebook ganga nú grín-rím-statusar um texta og líkindi laganna, með krækjum í blogg Gísla og YouTube myndbönd og Láru Hönnu sem hefur sett saman lögin tvö á SoundCloud. Sjálf nota ég ekki Twitter en efast ekki um að mikið hefur verið tíst um akkúrat þetta. Laust eftir hádegi í dag fóru að berast fréttir af þessu á netmiðlum, t.d. Líkt en ekki stolið á ruv.is og  Er framlag Íslands í Eurovision stolið? á visir.is, og eflaust er þegar farið að deila þeim fréttum á Facebook og ræða þær, sem gæti orðið uppspretta einhverra blogga, sem gætu ratað í netmiðla, sem gætu síðarmeir orðið fóður í fræðilega grein um meint stolin Eurovision-lög, sem gæti orðið uppspretta frétta, sem gæti verið deilt á Facebook o.s.fr. Og yfir öllu þessu vakir sjálfur Google og gætir að það týnist ekki.

Í þessari færslu ætlaði ég að nefna algeng umfjöllunarefni blogga, fjalla um afstöðu eða afstöðuleysi ákveðinna stétta til samskiptamiðla, um gífurlegt gagn landsaðgangs að fræðigreinum o.fl. en þótt ég hafi þá stefnu að skrifa langar bloggfærslur sé ég að þessi má ekki lengri vera svo þetta verður að bíða betri tíma.
 
 
 

Netbúrkur, hótanir, mannorðsmorð …

Mér hefur af og til runnið kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég les athugasemdadálka við fréttir á netmiðlum, einkum dv.is og eyjan.is. Blessunarlega þaggaði úttekt áramótaskaupsins aðeins niður í verstu netböðlunum en bara í nokkra daga … svo tóku þeir á ný við að rótast eins og naut í flagi.

Fyrir tilviljun eða öllu heldur misskilning fékk ég lánaða glænýja rafbók sem heitir Skrivbordskrigarna, eftir sænska blaðamanninn Lisu Bjurwald (í því ágæta sænska rafbókasafni sem bókasafn Norræna hússins veitir aðgang að). Misskilningurinn var að ég hélt að bókin fjallaði um netsóða almennt en hún fjallar um öfgahópa á netinu, frá öfga-múslimum til nýnasista og öfgahægrimanna. En vissulega kemur Lisa Bjurwald inn á netsóðaskap almennt, fyrsti kaflinn heitir Nätets mörka sida. Í upphafi hans tínir Lisa til nokkur dæmi um óðgeðsleg nafnlaus komment sem hafa verið skrifuð um hana sjálfa og hið fyrsta stakk í augu því það hefði svo vel getað birst um Hildi Lilliendahl! Eins og allir vita hefur Hildur Lilliendahl Viggósdóttir orðið einna verst fyrir barðinu á úrhrökum netsins, sem eru því miður of mörg þótt þau séu fá. Þetta er fyrsta dæmið um komment í garð Lisu Bjurwald:

Skulle knappast tacka nej till at straffknulla den här korsade horan och lägga min ariska såd i munnen på henne.

(Af umræðuþræðinum “SKVALLER om journalisten Lisa Bjurwald?” á Flashback.org 7. júní 2011.)

Íslensk ógeðskomment í líkum dúr beinast yfirleitt gegn femínistum. En Lisa Bjurwald er ekki talskona femínista heldur hefur hún fjallað um nýnasisma í mörg ár, rasisma, pólitíska öfgahópa o.s.fr. Svo ég fór að velta fyrir mér hvort einföldum aumum körlum á netinu dytti ævinlega í hug þetta sama gamla til að ná sér niðri á konum sem þeir eru ósammála eða þeirra ættmennum, sumsé að fífla konuna. Í Íslendingasögunum eru fíflingar af sama meiði og víg, munurinn er sá að aumingjarnir sem þora ekki í manninn brúka það ráð að fífla frænku hans eða systur eða einhverja þá konu sem hetjan telur sig vandabundna. Fáum sögum fer af því hvernig þessum kvenkyns aukapersónum þótti að láta fífla sig en yfirleitt náðu aumingjarnir takmarki sínu, sem var að æsa upp hin sönnu karlmenni. Í þessu kommenti hér að ofan dettur þessum sænska netminnipokamanni það helst í hug að fífla hana Lísu. Er mögulegt að íslenskir netminnipokamenn hóti femínistum nauðgun af því þeir eru of miklir aumingjar til að beita öðru en aumingjahótun?

Nú, af algerum áhugaskorti á þeim banala fulltrúa lágkúrunnar Breivik og liði af hans tagi (bókin fjallar að stórum hluta um þetta) hraðrenndi ég í gegnum hina kaflana. En tók þó eftir talsverðri umfjöllun um fyrirbærið dold.se og fór að skoða það á netinu.

Í Svíþjóð virðist einkar blómlegur markaður fyrir þá þjónustu að fela netspor manna. A.m.k. benda ábendingar í færslunni Surfa anonymt: Här är bästa tjänsterna! á TkJ Sveriges största IT-blogg til þess, þar sem talin eru upp sjö fyrirtæki sem selja mönnum “órekjanleika” á netinu. Á vefsíðu dold.se segir: Vafraðu nafnlaust – það er fylst með þér! Og síðan:

Visste du at din internetoperatör lagrar varje länk du följer på internet, varje sökning du gör på Google (inklusive de ord du söker på!) och subjectraden i varje mail du skickar? Din IP-adress avslöjar vart du bor och vad du gör på nätet.

Hm … líklega er allt svona um mig skráð sjálfkrafa hjá Vodafone en hverjum er ekki sama? Og hver ætti sosum að kíkja á þetta? Svo fremi sem maður er ekki á kafi í glæpsamlegu athæfi held ég að þetta skipti frekar litlu máli (og á kafi í glæpsamlegu athæfi eru örugglega meir aðkallandi vandamál en möguleg skráning Gúguls-athæfis á IP-tölu). Eini maðurinn sem ég hef kynnst (og það einungis í netkynnum) sem hefur sýnt sérstakan áhuga á IP-tölum er Matthías Ásgeirsson vantrúarfélagi 😉

En Svíum þykir greinilega vænt um sitt anonymitet, annars þrifust ekki auðkenningarafskrúbbunarfyrirtækin. Haustið 2011 reyndi dagblaðið Dagens Nyheter að loka nafnlausum athugasemdavettvangi við sínar fréttir en neyddist til að bakka með þá ákvörðun. Akkúrat núna geta menn skrifað undir dulnefni en þurfa að vísu að skrá sig inn á svoleiðis dulnefnisvettvang svo blaðið getur væntanlega alltaf rakið hver stendur að baki hverri athugasemd. Auk þess er gefinn kostur á að skrifa athugasemdir gegnum Facebook.

Ég sleppi því að fjalla um sjóræningjabanka, gósenland barnaníðinga sem svona auðkenningarafskrúbbun færir þeim, áskorun dönsku löggunnar um að banna svoleiðis skrúbbun í Danmörku o.s.fr. Skrúbbunina hefur ekki borið á góma á Íslandi svo ég viti.

Hér uppi á því kalda Íslandi bera menn yfirleitt ekki netbúrkur. Yfirleitt ekki … en frá því eru of margar undantekningar. Í athugasemdamöguleikum við fréttir netmiðla er núorðið krafist að menn noti Facebook-aðgang sinn. Það kostar því það vesen og fyrirhöfn að falsa Facebook (og raunar þarf að byrja á að stofna netfang undir fölsku flaggi, því Facebook krefst virks netfangs) vilji menn íklæðast netbúrku. Ég er samt viss um að hver einasti sæmilega virkur notandi á Facebook kannast við feik-Feisbúkk-síður. Það er enginn vandi að verða svoleiðis netbúrka, stofna t.d. Facebook síðu undir nafninu Karlmenni að vestan og bauna síðan naugðunarhótunum og hótunum um limlestingar, illgjörnu slúðri, hvatningum til að kasta grjóti í heimili manna og rústa bílunum þeirra o.s.fr. á athugasemdadálka netmiðla. Þeir sem eiga að vakta athugasemdadálka Eyjunnar og DV eru líklega sofandi sauðir hefur mér sýnst.

Á mínu eigin bloggi er upp og ofan hvort fólk skrifar undir fullu nafni, fornafni eða dulnefni. Stundum er vel skiljanlegt að fólk noti ekki fullt nafn/nafn, t.d. í kommentum við færslur sem fjalla um persónulegan vanda eða sjúkdóma. Stundum skýrist þetta eingöngu af því að umfjöllunarefnið höfðar sérstaklega til netbúrkuhópa, t.d. færslur um Vantrú eða femínísta. Ég fullvissa netbúrkurnar um að ég nenni alls ekki að fletta upp IP-tölunum þeirra svo það er óþarfi að logga sig inn á eitthvert millistykki/þjón í útlöndum til að fela hana, bara vesen …

Nafnlaus blogg eru orðin svo fáséð hérlendis að það tekur því ekki að minnast á svoleiðis. 

Eftir stendur að vissulega er áhugavert að lesa um netósóma í Svíþjóð, öflugt starf öfgahópa á Norðurlöndum á netinu og fá nasasjón af þrá Svía til að vera órekjanlegir á internetinu. En miklu miklu merklegra er að sjá ósómann og ógeðið sem vellur upp úr dálitlum hópi Íslendinga (ég giska á sá hópur sé langt innan við hundraðið, við dyggan lestur fer maður að þekkja sömu nöfnin æ ofan í æ) á athugasemdadálkum netmiðla, undir fullu nafni og mynd af viðkomandi! Þetta eru líklega svo miklir aumingjar að þeir megna ekki einu sinni að íklæðast netbúrku …

  

Réttlætir tjáningarfrelsi einelti?

Nornahamar fem�nistaUndanfarna daga hafa netheimar logað eins og oft gerist og kveikjan er að þessu sinni Hildur Lilliendahl eins og oft gerist.

Upphaf máls í þetta sinn var að Fr. Lilliendahl var talin ein af áhrifamestu konum landsins skv. víðlesnu kvennablaði. Í umræðuþræði við frétt af þeirri upphefð skrifaði maður nokkur ósmekkleg skilaboð gegnum fésbókina sína; skilaboð þar sem hann grínast með að keyra yfir Hildi (ég tek glottmerkið sem svo að þetta hafi átt að vera grátt gaman eða einhvers konar vantrúarkaldhæðni) og storkar henni síðan til að birta þessi ummæli í víðfrægu albúmi sínu yfir karla sem ku hata konur. Hildur tók auðvitað umsvifalaust skjámynd af skilaboðunum en lét ekki duga að koma þeim bara fyrir í albúminu sínu heldur birti úrklippuna á fésbók.

Það varð til þess að einhver gerði símaat í sambýlismanni Hildar Lilliendahl og símaatið varð umsvifalaust að frétt: Úrklippan af smekklausu skilaboðunum fylgdi fréttinni. Nú er alls óvíst hvort sami maður og skrifaði fésbókarummælin stóð einnig fyrir símaatinu en tilefni atsins var úrklippan með smekklausu ummælunum. Um leið og fréttin af því að gert hefði verið símaat í sambýlismanninum út af smekklausu ummælunum birtist linkuðu rétthugsandi femíniskir fésbókarnotendur í fréttina og ýmis ósmekkleg ummæli í garð smekklausa-ummæla-mannsins mátti sjá við svoleiðis linka.

Hið næsta sem gerist er að Facebook lokar aðgangi Hildar Lilliendahl í fjórða sinn. Það er í sjálfu sér ekkert sérlega dularfullt því Hildur Lilliendahl braut notendaskilmála Facebook í fjórða sinn. Það er nefnilega óheimilt að birta skjáskot af ummælum annars Facebook-notanda nema með skriflegu leyfi þess notanda. Umsvifalaust birtast fréttir á netmiðlum um að aðgangi Hildar Lillendahl hafi verið lokað í fjórða sinn, menn fara mikinn og kalla þetta pólitískar ofsóknir (af hálfu Facebook væntanlega) og aðför að tjáningarfrelsinu o.s.fr. og meðfylgjandi eru birt smekklausu ummælin sem Hildur Lilliendahl tók skjámynd af, klippti til og birti. Rétthugsandi femíniskir fésbókarnotendur deila nú þeim fréttum ákaft og ýmis ósmekkleg ummæli í garð smekklausa-ummæla-mannsins og Facebook má nú sjá við svoleiðis linka.

Bloggarinn ágæti, Eva Hauksdóttir, sem er nýbúin að blogga skemmtilega færslu um nornabrennur, kyndir nú undir einni slíkri í færslunni Verjum tjáningarfrelsi Hildar Lilliendahl. Í þeirri færslu er að sjálfsögðu birt skjáskot af smekklausu ummælunum – svona ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum – og Eva hefur skrifað, hringt og efnt til undirskriftasöfnunar, allt til að verja rétt Hildar Lilliendahl til að brjóta reglur þess amríska umræðuvettvangs Facebook. Og auðvitað linka réttsýnir femíniskir fésbókarnotendur í bloggið Evu og deila á sínum fésbókum og ýmis ósmekkleg o.s.fr.

Einhverjir eru búnir að fletta upp ósmekklega skilaboðamanninum í þjóðskrá og aðrir hafa flett honum upp á ja.is. Það er bara tímaspursmál hvenær einhverjir rétthugsandi tjáningarfrelsiselskendur færa sig úr sýndarheimum í kjötheima, henda grjóti í hús mannsins, teppa símann hans með hótunum, velta honum upp úr tjöru og fiðri eða þaðan af verra. Skjáskotið af ummælum hans lifir áfram víða á vefnum. Líklega er heppilegast fyrir hann að sækja um nafnbreytingu eða flytja úr landi úr því sem komið er: Skömm þessa manns verður uppi meðan netheimar byggjast.

Hildur Lilliendahl er Pussy Riot Íslands, hlutskipti hennar er jafnvel líkt við við aðstæður rithöfundarins Salman Rushdie eða pakistönsku stúlkunnar Malala Yousafzai. Hildur sætir jafn ómaklegum ofsóknum og þau fyrir skoðanir sínar: Ósmekklegum fésbókarummælum, símaati og fésbókarlokun! Eða eins og einn aðdáandi hennar orðar það:

Hins vegar ef við notum eitthað [svo] hlutlægt mat á hvað hetja er þá væri það einmitt einhver sem stendur á sinni sannfæringu samkvæmt sinni réttlætiskennd, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til skoðanakúgunar, þöggunar og hótanir um líkamsmeiðingar og skemmdarverk. Ég fæ ekki séð hver munurinn er á Hildi í þessu sambandi og Salmon [svo] Rushdie eða Malölu, Rushdie var aðeins hótað, líkt og Hildi, er hann ekki bara paranoid?

Réttsýnir og rétthugsandi netnotendur munu væntanlega halda áfram að úthrópa manninn sem var svo vitlaus að skrifa ósmekkleg fésbókarskilaboð um Hildi Lilliendahl og leggja sitt af mörkum til þess að Fr. Lillendahl megi brjóta reglur Facebook vegna þess að málstaður hennar er svo göfugur. Ég hugsa að hinir réttsýnu og rétthugsandi séu fjarskalega mikið á móti einelti á netinu en finnist í þessu tilviki í góðu lagi að leggja sjálfir smekklausa skilaboðamanninn í rækilegt óafturkræft einelti … allt er eineltið jú í þágu hins góða málstaðar.

Arasyndrómið í umræðunni

Þessi færsla er að sumu leyti framhald af síðustu færslu nema hér er ekki fjallað um hina einu réttu afstöðu og þær einu réttu skoðanir heldur þá umræðuhefð sem hinum einu rétthugsandi finnst rétt og við hæfi.

Spurull krakkiUmræðuhefð rétthugsandi hverfist um nokkrar reglur. Þeirra mest áberandi er spurningavaðall, langoftast um eitthvert smáatriði eða jafnvel atriði sem kemur umræðuefninu lítið sem ekkert við. Síðan verða þeir rétthugsandi hoppandi vondir ef spurningum þeirra er ekki svarað. Til hægðarauka mætti kalla þetta “Arasyndrómið”, með vísun í hið ágæta kvæði Stefáns Jónssonar (en vísanir í bókmenntir og bókmenntatitla eru mjög móðins þessa dagana eins og allir rétthugsandi vita).

Glæný dæmi um Arasyndrómið eru í frétt DV í dag, Vigdís gagnrýnir öfgafemínista, þar sem spurningaflóðið vellur úr tveimur rétthugsandi femínistum, þ.e. allar ÞÆR SPURNINGAR sem blaðamaður Monitors HEFÐI ÁTT AÐ SPYRJA frú Vigdísi Finnbogadóttur þegar hann tók viðtal við hana og frú Vigdís HEFÐI ÁTT AÐ SVARA:

María Lilja [Þrastardóttir] segist gjarnan vilja fá að vita hverjar öfgarnar séu sem blaðamaður Monitor eigi við. „Eru það myndaalbúmin hennar Hildar Lilliendahl eða pistlarnir mínir og Önnu Bentínu? Ég skil ekki þetta hugtak; öfgafemínisti. Hvernig er hægt að aðhyllast öfgajafnrétti? Það er ekki til,“ segir María Lilja og bætir við að sér hefði fundið sniðugra að spyrja Vigdísi út í öfgakarlrembur. 

[- – -]

DV leitaði einnig eftir viðbrögðum hjá Hildi Lilliendahl sem sagði umrædda grein bera vott um slappa blaðamennsku. „Hvers vegna var hún ekki spurð hvað hún ætti við? Það er alltaf verið að tala um öfgar í málflutningi og aðferðum femínista en svo lendir fólk í vandræðum með að benda á þessar öfgar. Vigdís kallar sjálfa sig karlréttindakonu. Gott og vel. En hvað á hún við? Hvaða áhyggjur hefur hún af réttindum karla? Hvar finnst henni halla á, hvað heldur hún að verði tekið frá þeim annað en forréttindi?“

Araheilkennið birtist samt miklu oftar á umræðuþráðum. Sem dæmi bendi ég á umræðuþráð við pistilinn “Ósýnilegu konurnar” á vefsvæði knuz.is eða umræðuþráð við eigin færslu, Úrklippublogg Hildar Lilliendahl. Sjálfsagt er hægur vandi að finna sambærileg dæmi á vef Vantrúar eða umræðu við fréttir DV eða Eyjunnar … áhugamönnum um Araheilkennið er bent að leita uppi fréttir sem fjalla um feminísma, trú, virkjanaframkvæmdir eða stóriðju, “ástandið í þjóðfélaginu í dag” eða einhver álíka “heit” rétttrúnaðarmálefni. Áreiðanlega þarf ekki að leita langt yfir skammt á Facebook til að finna slík dæmi. Yfirleitt ná Ararnir að þráspyrja í lokin, “Ætlarðu ekki að svara þessu?” eða staglast á að meintur andstæðingur hafi ekki svarað Araspurningum þeirra, “Merkilegt nokk þá hefurðu ekki svarað þessu”.

Önnur atriði sem eru áberandi í “umræðu” hinna rétthugsandi eru aðallega:

* að brigsla meintum andstæðingi um að vita ekkert í sinn haus (vera einfaldur, heimskur eða eitthvað svoleiðis, svo taka við brigsl um ýmsa geðsjúkdóma eða geðraskanir þegar hinum rétthugsandi er orðið hæfilega heitt í hamsi);

* að brigsla meintum andstæðingi um að vera fákunnandi á einhverju sviði, sem oft kemur umræðunni ekkert við (t.d. að viðkomandi kunni nú ekkert á tölvur … ég minnist þó ekki þess að hafa séð neinum borið á brýn að kunna ekki á þvottavél eða eldavél eða grunnatriði í bifvélavirkjun en það kemur eflaust einhvern tíma í þróun þessarar rétthugsandi umræðuhefðar);

* að brigsla meintum andstæðingi um að þykjast vera heimskari en hann er (t.d. með klisjunum “þú sem ert kennari, hvernig geturðu haldið þessu fram?” … í einfaldaðri mynd er þetta “þú sem ert menntuð manneskja, hvernig geturðu haldið þessu fram?”. Þetta er afbrigði af nöldri fullorðinna við krakka, “þú sem er orðin(n) svo stór ættir að …”);

* að brigsla meintum andstæðingi um að “vera í rosalegri vörn” eða “vera rosalega hörundsár” og gefa þannig til kynna að viðkomandi sé í algerri afneitun sem liti allan hans málflutning;

* að gera lítið úr rökræðuhæfileikum meints andstæðings með því að auglýsa eigin meinta rökræðusnilld. Þetta sést aðallega á því að einhver illa haldinn af Araheilkenninu fer að flagga klisjum á borð við “strámaður” eða “ad hominem rök”. Oft sést að Arinn hefur ekki hugmynd um hvað þessi hugtök þýða en hefur einhvers staðar pikkað þau upp og finnst flott að strá um sig með þessu “fína” orðalagi.

GuttiEflaust má greina fleiri atriði sem lita umræðuhefð þeirra rétthugsandi. Skástu viðbrögðin við þessari hefð er að reyna ekki að svara því það kallar bara á meira á spurningaflóð og stjörnumerktu brigslin sem ég taldi upp hér að ofan.

Satt best að segja hef ég alltaf kunnað miklu betur að meta Guttavísur en Aravísur :) En það er náttúrlega ekki mjög pólitískt réttþenkjandi geri ég mér grein fyrir.

Snorri, Egill og hið eina rétta viðhorf

Nei, þessi færsla fjallar ekki um gömlu reyfarana/þjóðararfinn. Hún fjallar um “takt og tone” á Íslandi í dag, þ.e.a.s. hvað eru hinar einu réttu skoðanir og hvernig sumum leyfist en öðrum ekki.

Í upphafi er rétt að minnast á mál Snorra Óskarssonar grunnskólakennara á Akureyri, sem oft er kenndur við Betel (hvítasunnukirkjuna í Vestmannaeyjum). Snorri skrifaði fræga færslu á sitt blogg þar sem hann sagði m.a.:

Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg.

Þessi stutta færsla, blogguð úr frá frétt í mogganum, olli því að nokkrir Akureyringar fengu hland fyrir hjartað. Skólanefnd bæjarins sá til þess að Snorri væri settur í hálfs árs launað leyfi svo hann kæmi ekki nálægt saklausum börnunum og Pétur Maack, sálfræðingur á Akureyri, kærði Snorra til lögreglu fyrir þessi ummæli. Lögreglan vísaði kærunni frá, Snorri segist hlakka til að koma aftur til starfa en hefur til vara boðist til að gera starfslokasamning við sína launagreiðendur, Akureyrarbæ. Svo virðist vera sem skólayfirvöld (væntanlega að undirlagi skólanefndar) setji sem skilyrði fyrir að Snorri megi kenna að hann hætti að blogga. Sjálfur segir hann að sér hugnist ekki að selja tjáningarfrelsið fyrir kennaralaun. 

Það hefur hvergi komið fram hversu margir foreldrar nemenda Snorra hafa tjáð sig um þær. Enda skiptir það engu máli. Málið er að það má ekki tala illa um homma og lesbíur. Þetta vita allir. Það má ekki viðra annað viðhorf til samkynhneigðar en jákvætt. Alveg eins og það má ekki tala um tóbak nema illa. Og auðvitað tekur steininn úr þegar bloggari eins og Snorri rökstyður sína stuttu færslu með trúarlegum rökum, þ.e. tilvísun til kristinnar trúar. Eins og margoft hefur verið bent á af vantrúarfélögum og öðrum rétt-pólitískt-þenkjandi eru talsmenn kristinnar trúar nokkurs konar barnaníðingar, þ.e. barnaníðingar hugans. Það er ótækt að slíkir menn valsi um innan um saklaust ungviðið í grunnskólum.

Leikskólakennari vill kála leserum pass�usálmaAftur á móti virðist allt í lagi þótt starfandi leikskólakennari, Egill Óskarsson, lýsi þeirri skoðun sinni að rétt sé að kála öllum sem lesið hafa Passíusálma sr. Hallgríms Péturssonar í útvarp allra landsmanna, að undanskildum (meistara) Megasi. Og gleymi meira að segja skyldubundnum broskarli í þeirri yfirlýsingu, sem gefin var örskömmu áður en sami leikskólakennari tók við formennsku í félaginu Vantrú. (Þess bera að geta að út af einhverjum tiktúrum í Matthíasi Ásgeirssyni vefstjóra Vantrúar virka linkar af blogginu mínu í opinbera síðu Vantrúar ekki. Lesendum er bent á að endurhlaða síðuna með ummælum Egils þegar hún kemur upp með “Access forbidden” skilaboðunum.)

Af hverju er það allt í lagi að leikskólakennari lýsi því á vefmiðli að rétt sé að taka ákveðinn hóp fólks af lífi fyrir að hafa lesið Passíusálmana í útvarp og einnig að þær bókmenntir beri að banna? Jú, það er vegna þess að Passíusálmarnir eru fullir af gyðingahatri (sem er slæmt) og auk þess illa ortir (mér er ekki ljóst hvort það skiptir í rauninni máli en það er a.m.k. ekki til bóta) og eru auk þess fullir af trúarboðskap hinnar illu evangelísku kirkju. Þess vegna vekja þessi orð enga athygli (önnur skýring gæti raunar verið sú að það séu hvort sem svo fáir sem lesa vef Vantrúar að enginn nema örfámenn klíka hafi tekið eftir þessu).

Munurinn á Snorra hvítasunnuhirði og grunnskólakennara á Akureyri og Agli Óskarssyni formanni Vantrúar og leikskólakennara í Reykjavík er sem sagt sá að hinn fyrrnefndi hefur rangt viðhorf en hinn síðarnefndi hefur hið eina rétta viðhorf. Enn skýrara verður þetta sé haft í huga að Egill Óskarsson er ekki bara pólitískt rétt trúlaus heldur líka vinur femínista. Ef maður er femínistavinur fyrirgefst flest annað. Því femínismi er hið eina rétta viðhorf.

Til að gera lesendum þessarar færslu enn skýrar grein fyrir hinum réttu viðhorfum skal bent á að karlar sem skrifa andstyggileg komment eða saklaus komment með broddi sem beinist gegn konum eiga það fullkomlega skilið að lenda saman í haug í albúminu “Karlar sem hata konur”, sem ku hafa verið deilt um 500 sinnum á Facebook, því karlar mega alls alls ekki segja neitt ljótt um konur. Konur mega hins vegar segja ljótt bæði um karla og konur svo lengi sem þær eru femínistar. Karlkyns femínistar fá svo aukið tjáningarfrelsi af því þeir eru femínistar. Femínistar mega brjóta reglur samskiptamiðla eins og Facebook og baða sig í píslarvætti þegar er lokað á þær/þá. Af því þær eru femínistar og femínistar hafa alltaf rétt fyrir sér, hafa hið rétta viðhorf.

Svo ég taki þetta saman í lokin: Þú skalt eingöngu tala jákvætt um homma, illa um kristna trú og vera femínisti! Það er takt og tone i nutidens samfund. Til frekara öryggis er rétt að tala vel um flokkun rusls, grænmetisneyslu og hjólreiðar en illa um virkjanir, feitt kjöt og Hannes Hólmstein. Fylgirðu þessum einföldu leiðbeiningum verðurðu á grænni grein.