Category Archives: Handavinna

Vefprjón, mósaíkprjón og óprjónaðar lykkjur

mósaíkprjón

Barbara Walker í mósaíkprjónaðri peysu

Hérlendis virðist ríkja einhver misskilningur í heitum á prjónaðferðunum vefprjóni og mósaíkprjóni. Hér verður saga þessara aðferða og heita rakin.

Segja má að þrjár konur, Mary Thomas, Elizabeth Zimmerman og Barbara Walker, beri höfuð og herðar yfir aðra sem fjallað hafa um prjónaðferðir og prjónaskap á síðustu öld. Það er því rétt að athuga hvað þær hafa um umfjöllunarefnið að segja.

VEFPRJÓN

Í Mary Thomas’s Book of Knitting Patterns, fyrst gefin út 1943 en hér er stuðst við endurprentun frá 1973, eru prjónaðferðir flokkaðar í nokkra flokka. Einn flokkurinn heitir SLIP-STITCH MOTIFS AND PATTERNS, sem snara mætti sem „munstur sem byggja á óprjónuðum lykkjum“. Þar er lýst ýmsum munstrum sem ganga í endurnýjun lífdaga nú um stundir en hið eina sem hún kennir við vefnað, þ.e. Woven Rib og Woven Check or Hopsaic Stitch (s. 95-96) eru einföld munstur þar sem tekin er óprjónuð önnur hvor lykkja og garnið látið liggja yfir þær á réttunni. Áferðin verður svipuð og rangan á bosnískum inniskóm, sem margir hafa spreytt sig á að prjóna undanfarið.

Í eldri bók sama höfundar, Mary Thomas’s Knitting Book, fyrst gefin út 1938, hér er stuðst við endurprentun frá 1972, minnist hún á prjónaðferðina Woven Knitting, sem þýða mætti sem ofið prjón, mögulega vefprjón (s. 109). Þar eru notaðir tveir litir, önnur hvor lykkja er prjónuð í hvorum lit og lausi liturinn ávallt festur í hverri lykkju (líkt og í tvíbandaprjóni). Prjónað er slétt á réttu og brugðið á röngu. Rangan á síðan að snúa út. Um aðferðina segir höfundur: Þessi gerð af klæði var notuð snemma á Viktoríutímunum til að prjóna karlmannsvesti, og var einnig nefnd „Vestisprjón [Waistcoat Knitting] “. Prjónið lítur svona út (myndin er skönnuð úr bókinni):

Vefprjón

Woven/Waistcoat knitting

Barbara Walker nefnir einnig ofið prjón (Woven stitch) í bók sinni A Treasury of Knitting Patterns, útg. 1968, hér vitnað í endurútgáfu frá 1998, s. 94. Hún lýsir nokkrum afbrigðum af þessu prjóni og birtir mynd sem sýnir þær. Hér er myndin:

vefprjón

Sjá má útfærslu í lit af einni næstefstu aðferðinni, að vísu með þremur litum, á þessari slóð.

Heitið vefprjón er miklu þekktara nú til dags yfir norska aðferð sem er ýmist kölluð vevstrik eða doppeltvev. Annemor Sundbø lýsir aðferðinni í bók sinni Usynlege trådar i Strikkekunsten, útg. 2009, s. 32-33. Þar kallar hún hana doppeltvev en í námskeiðum sem Annemor hefur haldið er aðferðin kölluð vevstrik, að sögn þátttakenda sem um slík námskeið hafa bloggað.

Sú aðferð byggir á garðaprjóni í tveimur litum, á réttu er prjónað úr öðrum litnum en af röngunni úr hinum litnum (hvor litur er s.s. notaður í hálfan garð). Eftir hverja umferð verður því að klippa á garnið og þess vegna hentar aðferðin best til að prjóna trefla eða einhver stykki sem eiga að vera með kögri (garnendarnir nýtast í kögur). Munstrið er myndað með því að taka óprjónaðar lykkjur úr umferðinni á undan (sem er þá í öðrum lit). Óprjónuðu lykkjurnar eru alltaf teknar í sama lit og mætti því kalla annan litinn munsturlit og hinn bakgrunnslit.

Þetta er gömul aðferð, segir Annemor Sundbø, og stundum kölluð „Mor Astrups strikketeknik“ eftir Ebbu Astrup, sem varð forstöðukona á barnaheimili laust eftir aldamótin 1900. Sagt er að Ebba hafi prjónað trefla á börnin með þessari aðferð.

Einhverjar prjónakonur munu kannast við uppskrift af karlmannstrefli sem Christine Einarsson seldi meðan Prjónasmiðja Tínu starfaði. Uppskriftin heitir Tígull og má sjá mynd af honum á síðu fyrirtækisins á Vefsafninu. Munstrið er sláandi líkt mynd af trefli sem Annemor Sundbø birtir í fyrrnefndri bók, en hvaða munstur sem byggir á skálínum og tveimur litum má útfæra í þessa prjónaðferð. Líklega yrðu tíglar og sikk-sakk munstur alltaf vinsælust. (Sjá má tvær aðrar útfærslur af treflum, byggðum á myndinni í bók Sundbø, á síðu prjónara á Ravelry.)

Hér eru myndir af minni eigin prufu í vefprjóni, sú efri sýnir stykkið á réttu, sú neðri sýnir hvernig rangan lítur út.

Vefprjón

Vefprjón á réttu

Vefprjón

Vefprjón á röngu

 

MÓSAÍKPRJÓN

Skv. Richard Rutt fann Barbara Walker upp mósaíkprjónið (sjá A History of Hand Knitting, útg. 1987, s. 205). Hún gerir þessari aðferð skil í sérstakri bók, Mosaic Knitting, sem kom út 1976 og einnig í tveimur sinna safnbóka munstra, Charted Knitting Designs: A Third Treasury of Knitting Patterns, útg. 1986 og A Fourth Treasury of Knitting Patterns, sem kom út árið 2000.

Mósaíkprjón er garðaprjón þar sem hver garður er prjónaður í sínum lit. Einfaldast er auðvitað að prjóna í tveimur litum en í rauninni skiptir litafjöldi ekki miklu máli því einungis er prjónað með einum þræði í einu og þá heill garður. Óprjónaðar lykkjur mynda munstur á réttunni. En ólíkt norska vefprjóninu sem var lýst hér að ofan er munstrið gert með óprjónuðum lykkjum í báðum litunum. Og auðvitað má nota þessa aðferð í sléttprjóni eingöngu þótt hún sé hugsuð fyrir garðaprjón.

Líklega er auðveldast að útskýra þetta með myndum. Hér að neðan eru myndir af prufu sem ég var að prjóna, fyrri myndin af réttunni og hin síðari af röngunni. Neðsta myndin er svo af munstrinu.

Mósaíkprjón

Mósaíkprjón á réttu

Mósaíkprjón

Mósaíkprjón á röngu

 

Munstur fyrir mósaíkprjón

Munstur fyrir mósaíkprjón

 

Það er stutt síðan íslenskar prjónakonur uppgötvuðu mósaíkprjón en ég giska á að aðferðin verði vinsæl innan tíðar því það er mjög gaman að prjóna með þessari aðferð.  Rétt er að vara við að þótt prjónað sé með garðaprjóni verður prjónlesið lítt teygjanlegt vegna bandanna sem liggja á röngunni, fyrir aftan óprjónuðu lykkjurnar. Eðli mósaíkprjóns er að munstur verða geómetrísk og beinar línur eru oft ríkjandi, geómetrískar skálínunur verða hins vegar alltaf í norska vefprjóninu.  (Ég biðst afsökunar á slettunni geómetrískt en orðalagið „munstur sem minnir á rúmfræðilegar myndir“ er of óþjált, finnst mér.)

Þeim sem hafa áhuga á mósaíkprjóni er bent á að skoða dæmin á The Walker Treasury Project. Munstrin fylgja ekki heldur er vísað í þau í bókum Barböru Walker.

MUNSTUR MEÐ ÓPRJÓNUÐUM LYKKJUM

Eins og nefnt var í upphafi, þegar vísað var í bækur Mary Thomas, er til fjöldi munstra sem gerð eru með því að taka lykkjur óprjónaðar. Á ensku eru slíkar aðferðar oftast kallaðar yfirheitinu “Slip stitch knitting”.

Skv. munnlegri heimild kunnu íslenskar prjónakonur að gera einföld munstur með óprjónuðum lykkjum a.m.k. frá miðri síðustu öld. Sú aðferð hafði ekkert sérstakt heiti.

Má í þessu sambandi benda á peysuuppskrift sem birtist í Húsfreyjunni í mars 1957 (krækt er í uppskriftina). Peysan er eitt af elstu dæmunum um hringlaga berustykki/axlarstykki í íslenskri prjónauppskrift og líklega þýddi Elsa E. Guðjohnson þessa uppskrift úr sænsku (uppskriftin hafði árið áður birst í sænsku prjónablaði). Munstrið er hvítt, blátt og rautt en það er ekki gert með tvíbandaprjóni (eins og íslenskar lopapeysur nútímans) heldur er þessi hluti axlarstykkisins prjónaður fram og til baka og munstrið gert með að taka upp óprjónaðar lykkjur. Úrtökur eru í einlitu röndunum með vissu millibili. Opið (vegna þess að munstrið er prjónað fram og til baka) er á bakinu og gert ráð fyrir að settur sé rennilás til að loka því.

Hér er mynd sem sýnir munstrið á peysunni:

Óprjónaðar lykkjur

Munstur með óprjónuðum lykkjum

NIÐURSTAÐA

Það eru kannski engar stórkostlega niðurstöður af þessari umfjöllun nema þær að það er algerlega út í hött að kalla mósaíkprjón vefprjón s.s. ég hef heyrt fleygt að sumir vilji gera, og að heitið vefprjón getur átt við ýmsar prjónaðferðir aðrar. Loks má benda á að munstur með óprjónuðum lykkjum eru mjög fjölbreytt og engan veginn hægt að fella þau undir yfirheitið vefprjón, þó ekki væri nema vegna þess að mörg þeirra líkjast vef ekki hið minnsta.

 

Fimm þúsund konan

Eina konan sem nýtur þess heiðurs að skreyta íslenskan peningaseðil er Ragnheiður Jónsdóttir, annáluð hannyrðakona á sautjándu öld. Þessi pistill fjallar um hana.

Ragnheiður fæddist árið 1646 og var dóttir hjónanna Jóns Arasonar og Hólmfríðar Sigurðardóttur. Faðir hennar var prófastur í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp. Hann var sonur Ara í Ögri, sýslumanns sem frægastur er fyrir fjöldamorð á spænskum skipreika sjómönnum hér á landi.  Móður Ragnheiðar, Hólmfríðar, er hins vegar einkum minnst fyrir sagnir af því hve tilhaldssöm hún var; hún lét meira að segja flytja inn gylltan lit til að setja í hár sitt!

Ragnheiður var í hópi níu systkina sem upp komust, af tólf fæddum börnum þeirra Jóns og Hólmfríðar. Mörg systkinanna voru annáluð fyrir offitu, t.d. Oddur digri, sem hestar gátu einungis borið 2-3 bæjarleiðir í senn, eða Anna digra, sem þurfti tröppu eða stiga til að komast í söðulinn því enginn treystist til að lyfta henni. Líklega hefur Ragnheiður verið léttari á fæti en þessi systkini hennar.

Fáum sögum fer af Ragnheiði Jónsdóttur fyrr en hún var komin fast að þrítugu. Þá giftist hún Gísla Þorlákssyni, biskupi á Hólum. Gísli hafði átt tvær eiginkonur áður sem létust hvor af annarri, var hann þó aðeins liðlega fertugur þegar þau Ragnheiður voru pússuð saman. Þau Gísli og Ragnheiður voru gift í áratug en þá lést hann. Þau voru barnlaus. Ragnheiður flutti svo að Gröf á Höfðaströnd, í Skagafirði, og bjó þar rausnarbúi í sínu ekkjustandi.

Skömmu eftir að Gísli biskup andaðist, árið 1684, lét Ragnheiður mála mynd af honum og setja upp í Hóladómkirkju. Á myndinni eru Gísli og eiginkonur hans: Ragnheiður til vinstri en þær Gróa (d. 1660) og Ingibjörg (d. 1673) til hægri. Upplýsingar um málverkið má lesa á Gripur mánaðarins október 2012  á síðu Þjóðminjasafns Íslands.

Skömmu eftir að Gísli biskup andaðist, árið 1684, lét Ragnheiður mála mynd af honum og setja upp í Hóladómkirkju. Á myndinni eru Gísli og eiginkonur hans: Ragnheiður til vinstri en þær Gróa (d. 1660) og Ingibjörg (d. 1673) til hægri. Upplýsingar um málverkið má lesa á Gripur mánaðarins október 2012 á síðu Þjóðminjasafns Íslands.

 

Hannyrðir og hannyrðakennsla Ragnheiðar

Talið er að Ragnheiður hafi kennt ungum stúlkum hannyrðir, bæði meðan hún bjó á Hólum og á Gröf. Svo virðist sem hún hafi ávallt haft nokkrar stúlkur í læri. Meðal nemenda hennar var Þorbjörg Magnúsdóttir, bróðurdóttir hennar, en glæsileg útsaumuð rúmábreiða Þorbjargar er varðveitt á Victoria and Albert Museum í Lundúnum.

Þau útsaumsverk sem haldið hafa nafni Ragnheiðar Jónsdóttur á lofti eru altarisklæði og altarisdúkur með brún sem gefin voru Laufáskirkju í Eyjafirði 1694. Neðst á altarisklæðinu er eftirfarandi áletrun: ÞETTA ALTARIS KLÆDE GIEFVR RAGNHEIDVR IONSDOTTER / KIRKIVNNE AD LAVFASE FIRER LEGSTAD SINNAR SÆLV HI / ARTANS MODVR HOLMFRIDAR SIGVURDAR DOTTVR 1694.

Altarisklæðið er 99 x 115 cm, úr hvítu hörlérefti og saumað í það með mislitu ullarbandi. Nánari upplýsingar um það má sjá í Sarpi , gagnasafni Þjóðminjasafnsins.

Altarisklæðið er 99 x 115 cm, úr hvítu hörlérefti og saumað í það með mislitu ullarbandi. Nánari upplýsingar um það má sjá í Sarpi , gagnasafni Þjóðminjasafnsins. Smelltu á myndina ef þú vilt sjá stærri útgáfu.

 

Aðalmunstrið í altarisklæðinu er saumað með skakkagliti, algengri gamalli útsaumsgerð hérlendis og erlendis. (Hér má sjá úskýringu á skakkagliti og glitsaumi, en vilji menn leita uppplýsinga á Vefnum er enska heitið yfir þetta spor Pattern Darning.) Áttablaðarósir eru og velþekkt munstur víða, sama gildir um brugðninga og fugla á greinum.

Hér er altarisdúkurinn sem tilheyrir altarisklæðinu og Ari í Sökku, bróðir Ragnheiðar, gaf af sama tilefni en er talinn saumaður af henni eða undir hennar stjórn. Nánari upplýsingar um hann má sjá í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins

Hér er altarisdúkurinn sem tilheyrir altarisklæðinu og Ari í Sökku, bróðir Ragnheiðar, gaf af sama tilefni en er talinn saumaður af henni eða undir hennar stjórn. Nánari upplýsingar um hann má sjá í Sarpi, gagnasafni Þjóðminjasafnsins. Smelltu á myndina ef þú vilt sjá stærri útgáfu.

 

Það þykir merkilegt að munstrin á mjóu munsturbekkjunum á altarisdúknum og munstrið á altarisbrúninni (brún dúksins sem fellur að altarisklæðinu) eru ekki þekkt í íslenskum sjónabókum og raunar ekki í evrópskum útsaumi nema á enskum stafadúkum frá 17. öld.

Efri myndin er af munstri á altarisbrúninni sem Ragnheiður saumaði líklega. Neðri myndin er af stafadúk (sampler) sem Mildred Mayow saumaði á Englandi árið 1633. Sá er varðveittur á V&A safninu í Lundúnum, sjá nánar hér.

Efri myndin er af munstri á altarisbrúninni sem Ragnheiður saumaði líklega. Neðri myndin er af stafadúk (sampler) sem Mildred Mayow saumaði á Englandi árið 1633. Sá er varðveittur á V&A safninu í Lundúnum, sjá nánar hér.

 

Þetta rennir stoðum undir að munstrin hafi borist norður til Hóla með enskri kennslukonu sem Þorlákur biskup Skúlason (1597-1656) og kona hans hafi fengið til að kenna einkadóttur sinni, Elínu, kvenlegar listir. Þorlákur var faðir Gísla biskups Þorlákssonar og Elín því mágkona Ragnheiðar. Líklega hefur Ragnheiður fengið svipaðan enskan stafadúk hjá Elínu og talið út munstrið eftir honum.

En svo vikið sé aftur að altarisdúknum sjálfum þá þykir útsaumurinn á letrinu neðst á því afar merkilegur. Letrið er nefnilega saumað með pellsaumi sem sárafá önnur dæmi eru um í íslenskum munum eldri en frá 19. öld. Erlendis nefnist þessi saumgerð oftast flórenskur eða ungverskur saumur. Neðst á þessari síðu er sýnt hvernig sauma skal pellsaum . (Þeir sem hafa áhuga á saumgerðinni gætu notað leitarorðin: Florentine stitch, Hungarian point eða Bargello stitch til að leita fanga á Vefnum.)

Fullt nafn Ragnheiðar saumað með pellsaumi í altarisdúkinn.

Fullt nafn Ragnheiðar saumað með pellsaumi í altarisdúkinn.

 

Stafrófið hennar Ragnheiðar, teiknað eftir áletrun á altarisdúknum og bætt inn stöfum sem í vantar, má sjá hér ef einhvern langar t.d. að sauma út sinn eigin seðil.

Á Þjóðminjasafninu eru til fjórir búshlutir úr einkaeigu Ragnheiðar og eru allir með fangamarki hennar. Þetta eru trafaöskjur, stóll  og tvær fatakistur. Einnig er varðveitt sjónabók (munsturbók) sem talin er hafa verið í hennar eigu. Í sjónabókinni er m.a. teiknað fangamark Ragnheiðar, samandregið R I D (Ragnheiður IonsDottir).

Fangamark Ragnheiðar í gamalli sjónabók. Takið eftir að munsturreitir eru tigullaga sem bendir til þess að þetta séu munstur ætluð til að sauma út með pellsaumi.

Fangamark Ragnheiðar í gamalli sjónabók. Takið eftir að munsturreitir eru tigullaga sem bendir til þess að þetta séu munstur ætluð til að sauma út með pellsaumi.

 

 

 Síðustu æviár Ragnheiðar Jónsdóttur

Ragnheiður bjó, sem fyrr sagði, á Gröf á Höfðaströnd eftir lát Gísla Þorlákssonar biskups, eiginmanns hennar. En haustið 1698 giftist hún Einari Þorsteinssyni Hólabiskupi. Ragnheiður stóð þá á fimmtugu en Einar var 63 ára og hafði misst fyrri eiginkonu sína rúmu ári áður. Þrátt fyrir að brúðhjónunum hafi verið flutt langt kvæði á latínu með góðum óskum um langa og gæfuríka framtíð  lifði brúðguminn einungis mánuð eftir brúðkaupið.

Ragnheiður sat ekkjuárið á Hólum en flutti síðan aftur að Gröf og bjó þar til æviloka. Hún lést árið 1715 og skorti þá einn vetur í sjötugt.

 

Seðillinn

fimmthusund_sedill

Fimm þúsund króna seðillinn var gefinn út árið 1986. Grafísku hönnuðirnir Kristín Þorkelsdóttir og Stephen A. Fair teiknuðu upphaflega seðilinn og þegar honum var lítillega breytt árið 2003 sá Kristín um það.

Á framhlið seðilsins sést Ragnhildur Jónsdóttir sjálf en einnig fyrri eiginmaður hennar, Gísli biskup, og tvær látnar eiginkonur hans, sem sagt sama fólkið sem sést á málverkinu sem Ragnheiður lét mála í minningu Gísla. Í baksýn er hluti altararisdúksins í Laufáskirkju. Upphæðin, fimm þúsund krónur, er rituð með stafagerðinni á þeim dúk.

Á bakhliðinni sést Ragnhildur sitja í stólnum sínum, haldandi á sjónabókinni sem eignuð er henni. Tvær námsmeyjar hennar eru að skoða fullunnið altarisklæðið sem einnig sést í baksýn. Neðst á myndinni er borðamunstur sem er á ystu brúnum altarisdúksins. Neðst til hægri á seðlinum er nánast lokið við að sauma fangamark Ragnheiðar með pellsaumi/flórentískum saumi.

Það er vel við hæfi að Ragnheiður Jónsdóttir, sem lagði svo mikið af mörkum til að efla listiðnað kvenna á sautjándu öld, skuli skreyta peningaseðil, enn sem komið er ein íslenskra kvenna.

 

Heimildir auk þeirra sem krækt er í úr texta

Elsa E. Guðjónsson. Skakkaglit. Húsfreyjan 13(4) 1962, s. 27-29.

Elsa E. Guðjónsson. Útsaumsletur Ragnheiðar biskupsfrúar. Húsfreyjan 14(1) 1963, s. 21-24.

Elsa E. Guðjónsson. Altarisdúkur Ara á Sökku. Húsfreyjan 18(4) 1967, s. 21-23.

Elsa E. Guðjónsson. Íslenzk útsaumsheiti og útsaumsgerðir á miðöldum.  Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 69 1972, s. 131-150.

Elsa E. Guðjónsson. Íslensk hannyrðakona á 17. öld. Úr óprentaðri ritgerð. Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands 1990, s. 29-34.

Elsa E. Guðjónsson. Með silfurbjarta nál. Um kirkjuleg útsaumsverk íslenskra kvenna í kaþólskum og lútherskum sið. Konur og kristsmenn. Þættir úr kristnisögu Íslands. Ritstjóri Inga Huld Hákonardóttir. Háskólaútgáfan 1996, s 119-162.

Elsa. E. Guðjónsson. Íslenskur útsaumur. Önnur úgáfa, Elsa E Guðjónsson 2003.

Koll, Juby Aleyas. Pattern darning reversible. Sarah’s Hand Embroidery Tutorials. 18. nóv. 2009.

Sigurður Pétursson. Nuptiæ Holanæ. Humanistica Lovaniensia: Journal of Neo-Latin Studies XL 1991. Leuven University Press, s. 336-356.

Sigríður Thorlacius. „Af þessu fólki er nefnd Vatnsfjarðardrambsemin“. Nokkrir drættir úr sögu Hólmfríðar Sigurðardóttur frá Vatnsfirði. Tíminn 46(17) 21. jan. 1962, s. 9 og 15.

Þorkell Grímsson. Þrjú fangamörk Ragnheiðar biskupsfrúar. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 82 1985, s. 185-188.

Dulinn menningarkimi

Færslan hefði auðvitað eins getað heitið Prjón því hún er um þá göfugu list.

Ég velti því stundum fyrir mér hvað ræður því hvaða menning (í víðu samhengi) er opinber (í þröngu samhengi) og hver ekki. Íþróttir er t.d. afar opinber menning, það verður ekki þverfótað fyrir íþróttafréttum og umræðu um þær og annað sem tengist íþróttum, í öllum fjölmiðlum. Þetta er sjálfsagt gott og gaman fyrir þá sem hafa áhuga á íþróttum (en ég velti því stundum fyrir mér hversu stór hluti þjóðarinnar það raunverulega er). Fyrir okkur hin er ósköp auðvelt að sleppa því að lesa, horfa og hlusta og því hef ég akkúrat ekkert við mikla íþróttaumfjöllun að athuga.

En umfjöllun um prjón er óneitanlega dálítið ósýnileg. Það er ekki gefinn út sérstakur prjónakálfur með mogganum oft í viku, ekki sagðar prjónafréttir í lok hvers fréttatíma og engir netstormar með prjónatengdum upphrópunum geisa reglulega. Samt er ótrúlega mikill fjöldi prjónenda hérlendis. (Þori ekki annað en nota orðskrípið prjónandi til að þóknast femínistum með rörið á orðanna hljóðan, þótt miklu eðlilegra sé auðvitað að tala um prjónakonur.) Eini netmiðillinn sem ég man eftir að birti reglulega prjónafróðleik er innihald.is.

Prjónamenning lifir góðu lífi á netinu þótt hún sjáist ekki á yfirborðinu. Fjöldi prjónablogga er til vitnis um það en þau eru ekki skráð á blogggáttina og af því lítið er um upphrópanir og garg þegar prjón ber á góma er þeim heldur ekki deilt á Facebook í stórum stíl. (Sé samt alveg fyrir mér fyrirsögnina: “Segir engu máli skipta hvernig slétt lykkja snýr!” og meðfylgjandi gargið í “virkum í athugasemdum” … en er dálítið fegin að prjón skuli ekki teljast til hitamála.) Á Facebook eru stórir og virkir umræðuhópar prjónenda sem ræða málin án þess að skerist nokkru sinn í odda með þeim; þar fer allt fram í fullkomnu systrerni.

Svo eru það uppskriftirnar og kennslan … maður lifandi! Hver prjónakona með snefil af sjálfsvirðingu er áskrifandi að Knitting Daily og Interweave og meðlimur í Ravelry. Drops/Garnstudio.no byrjaði að birta uppskriftir á íslensku einnig, á þessu ári. Viti maður ekki hvernig skal prjóna þetta eða hitt er hægur vandi að finna YouTube myndband og læra listina. Kennslumáttur netsins er hvergi meiri og auðsærri en í prjóni. Sú staðreynd virðist hafa farið fram hjá Æpad-trúboðum skólakerfisins og vendikennsluboðendum, einhverra hluta vegna.

Svo er það geðræktarhlutverk prjóns, þáttur sem er sorglega lítið fjallað um. Að prjóna er sérdeilis róandi og huggandi og alveg upplagt þegar maður getur ekki gert neitt annað, til að drepa helv. tímann sem verður stundum helsti óvinur þunglyndra … tíminn sem aldrei ætlar að líða. Mín reynsla af geðdeildarvistunum er að prjón bjargar manni algerlega frá því að koðna ofan í ekki neitt þar inni. Þar er nefnilega nánast ekkert að gera nema auðvitað bíða eftir næsta pilluskammti. Þeir sem sinna geðdeildarsjúklingum mest eru sjúkraliðar (og vaktstrákarnir en af því þeir hafa lítið með prjón að gera eru þeir ekki til umræðu í þessari færslu, tek þó fram að þetta eru miklir ágætismenn sem sinna sjúklingunum einkar vel). Mín reynsla er sú að sjúkraliðar eru dásamlega þolinmóðar konur, góðar konur, mannþekkjarar …  og margar þeirra mjög flinkar prjónakonur, prjónakennslukonur einnig. Það bjargar ótrúlega miklu að fá hjálp og kennslu og aðstoð við að prjóna í Húsi þjáningarinnar, þ.e. geðdeildum Lans. Án prjóns er nær ekkert að gera nema mæla gangana, nú eða spekúlera í gardínunum og litnum á hurðunum, ef menn eru þannig innstilltir …

Þarf sosum ekki þunglyndi til, til að meta gildi prjónaskapar. Að setjast niður og iðja með höndunum smástund á degi hverjum fær alla til að slaka á og bætir geð og léttir lund.

Með þessari færslu er ég ekki að hvetja til neinna breytinga. Það ber að þakka fyrir að hafa fjölmennan menningarkimann prjón í friði fyrir æsingarliði 😉

Fitjunarfræði, tækniorðaforði og tossar

Svo ég tengi fyrirsögnina: Ég er tossi þegar kemur að því að skilja skýringarmyndir! Hef fyrir löngu sjálfgreint mig með átakanlegan skort á rýmisgreind (sem fyrir daga greiningarfræðanna miklu hét rúmskynjun). Ekki skrítið í því ljósi að mér veittist nám í evklíðskri rúmfræði erfitt og fannst það hundleiðinlegt, álíka leiðinlegt og hin rúmfræðin sem átti að læra fyrr, dæmi á borð við: Ef keila dettur ofan í píramída fullan af vatni … o.s.fr. Því miður var ekki búið að starta frelsisbaráttu tossanna á þeim tíma svo ég neyddist til að leggja ómælda vinnu í að læra þetta helvíti til að ná prófum. Passaði að gleyma því strax eftir próf.

Nú er ég að setja mig inn í fitjunarfræði, merk vísindi sem ekki voru kennd í skólum í gamla daga nema mjög takmarkað. Þökk sé nýrri tækni, einkum YouTube og öðru vídjódóti á vefnum: Mér hefur loksins tekist að skilja silfurfit, ekki hvað síst eftir að ég fattaði að það myndi vera hið sama og heitir “twisted German cast-on” í flestum kennslumyndböndum (nema á Garnstudio þar sem aðferðin heitir “Gammel Norsk rett“, “Gömul norsk aðferð” í íslensku útgáfu síðunnar). Til að flækja málin er húsgangsfitin á Garnstudio kölluð silfurfit í íslenskri útgáfu síðunnar. Hin raunverulega og rétta silfurfit er víst stundum kölluð tvöföld fit.

Mér þótti fyrirfram augljóst að sú fit sem er kennd í skólum væri skólafit. En málið er ekki svo einfalt, það er nefnilega húsgangsfit sem er kennd í skólum, skólafit er aftur á móti prjónuð fit. Á hinn bóginn er til flóknara afbrigði af skólafit á Garnstudio sem er kallað keðjuaðferð en sagt vera “einnig kölluð prjónað uppfit.” (Mér þætti gaman að vita hver þýðir eiginlega textann á Garnstudio á íslensku, sá virðist halda að uppfit sé hvorukynsorð …). “Prjónaða uppfitið”, þ.e. “keðjuaðferðin” er hið sama og heitir kaðaluppfit í þeim prjónafræðum íslenskum sem ég er að lesa þessa stundina.

Eftir miklar spekúlasjónir um hvað væri eiginlega gullfit (engar nýtilegar upplýsingar að finna á Vefnum um hana nema að orðið er gamalt) datt mér í hug að skoða Íslenska orðabók, munandi að Elsa E. Guðjónsson skrifaði hannyrðaorðskýringarnar í þeirri bók. Elsa klikkaði ekki: Gullfit mun vera sama og hundafit. Og skólafit heitir líka breiðafit. Þegar ég sá að Elsa telur húsgangsfit og silfurfit það sama runnu á mig tvær grímur og ég hætti að treysta henni …

Eftir stendur: Hver fjandinn er Halldórufit? Ég veit að hún er kennd við Halldóru Bjarnadóttur, eins og Halldóruhællinn frægi (sem ég hef hugsað mér að vara fólk við því nýuppfundinn Tómatahæll virðist mun árennilegri) og ég veit að hún þótti léleg fit en mér hefur ekki tekist að komast að því hvernig Halldórufit er.   

Affellingafræði verða að bíða um sinn en þau eru sko ekki einfaldari en uppfitjunarfræðin! Næst liggur fyrir að kenna sjálfri mér að prjóna rétta brugðna lykkju. Ég prjóna nefnilega snúna brugðna lykkju, sem kemur yfirleitt ekki að sök því ef ég prjóna fram og til baka prjóna ég snúnar sléttar lykkjur á réttunni og tvöfaldur snúningur gerir ósnúið, alveg eins og tveir mínusar breyttust í plús í stærðfræðinni. Skv. Elsu E. Guðjónsson var svona snúið prjón (stundum kallað austrænt snúið prjón) algengasta prjónaaðferð á Íslandi frá því Íslendingar lærðu að prjóna. Á vorum rétttrúnaðartímum þykir þetta hins vegar ekki fínt, nú eiga allir að prjóna vestrænt og ósnúið. Svo ég verð að læra að prjóna ósnúna brugðna lykkju (kann ósnúna slétta lykkju). Til að flækja málin var brugðin lykkja kölluð snúin lykkja þar sem ég ólst upp svo raunar prjóna ég snúna snúna lykkju, skv. orðfæri bernsku minnar …

Svo er það tækniorðaforðinn sem ég á alveg eftir að tileinka mér. Fór í tvöfalda afmælisveislu áðan og notaði tækifærið til að stökkva á handavinnukennara í grunnskóla sem þar var gestkomandi og þýfga um prjónakennslu. Varð margs vísari nema fékk ekkert gott íslenskt orð yfir Entrelac. Kaðlaprjón, hélt handavinnukennarinn að þetta væri kallað. Það getur eiginlega ekki verið því kaðlaprjón hlýtur að vera að prjóna hefðbundna kaðla og fléttur … entrelac á lítið skylt við það. Einhver sem veit þetta?

—-

Svona smá innlegg í tossafræðin: Ég sakna þess að leikfimi, nútildags stundum kölluð íþróttir, sé ekki dregin inn í tossa-brottfalls-útaf-stöðnuðu-skólakerfi-s-umræðuna. Leikfimi er það aleiðinlegasta sem ég man eftir úr minni skólagöngu. Öll heimsins stærðfræði kemst ekki í hálfkvisti við leikfimi! Nú er ég stúdent í leikfimi en ég held að þetta sé eina fagið sem aldrei hefur komið að nokkrum einustu notum í mínu lífi. Ég tek fram að sum stærðfræði nýtist prýðilega í prjóni, t.d. margföldun tomma með sentimetrum eða sú ómissandi undirstöðuregla þríliða (sem mér skilst raunar að sé ekki lengur kennd í skólum). En ég hef aldrei þurft að fara í kollhnís, hvorki áfram né aftur á bak, aldrei þurft að (reyna að) standa á höfði né höndum og aldrei þurft að brúka megrandi og styrkjandi gólfæfingar fyrir kviðvöðva og læri, hvað þá að ganga í takt. Leikfimi var gersamlega handónýtt nám, sem eytt var óratíma í árum saman. Leikfimi og sund voru einu fögin sem ég var raunverulegur tossi í … svo það er kannski ágætt að þau reyndust gagnslaus þegar upp er staðið 😉 

Að lokum eru tvær vísur úr ágætu kvæði, Gripið í prjóna, sem birtist í Speglinum í janúar 1966. Í kvæðinu er fjallað um nýja tækni, hvernig skólakerfið klikkar nútildags og hvernig mætti bæta vinnulag á Alþingi: Allt eru þetta málefni sem eru mjög til umræðu akkúrat núna.

Þessi iðn nú þekkist valla
þrátt fyrir tækni-væðing alla,
langskólun og lærdómsstrit.
Fráleitt mundi finnast drengur
sem fær er um að þekkja lengur
húsgangs- eða hunda-fit.

Þetta er heilnæm handavinna
sem hollt þeim einkum væri að sinna,
er semja lög og sitja þing.
Vinnutímann vel skal nota,
þá væri ráð að sitja og pota
í duggarasokk og sjóvettling.

Tvöfalt prjón, frh.

Þessi færsla er framhald af hinni fyrri um tvöfalt prjón.
 
 

Að prjóna út letur með tvöföldu prjóni

Einfalda meginaðferðin, þ.e. að einbeita sér að sléttu lykkjunum í munstri og bakgrunnslit og passa alltaf að prjóna „brugðna tvíburann“ í andstæða litnum virkar ekki þegar prjóna á letur því þá birtist letrið speglað á „bakhliðinni“ og speglað letur er ólæsilegt. Það verður því að prjóna sitt hvort munstrið í einu.

Ég bý ævinlega til prjónamunstur í íslenska forritinu KnitBird. Þetta er ódýrt forrit, mjög einfalt að læra á það og nota það. Mæli sem sagt eindregið með þessu forriti! Í KnitBird er m.a. hægt að vista munstur sem pdf-skjal. Litla myndin hér að neðan sýnir uppskriftina að seinna nafninu á teppinu sem ég prjónaði (sjá mynd í fyrri færslu), þetta er nafnið Vala. Séð frá vinstri til hægri er Vala munstrað með bláu, séð frá hægri til vinstri er Vala munstrað með rauðu. (Litla myndin krækir í pdf-skjalið með þessu munstri.)

Letur � tvöföldu prjóni
 

Í munstrinu er önnur hliðin táknuð með hvítum (ólituðum) reitum og munsturlitur táknaður með bláum lit. Hin hliðin er táknuð með gulum reitum og munsturliturinn hafður rauður. Lesið er úr fyrstu línu munstursins einhvern veginn svona (miðað við að prjóna hliðina sem er táknuð með hvítum reitum, munstrið byrjar þá á fyrsta bláa reitnum, frá hægri til vinstri):

Slétt lykkja í munsturlit;
Brugðin lykkja í andstæðum lit (sem er reyndar sami litur og munsturliturinn á þessari hlið);
Slétt lykkja í munsturlit;
Brugðin lykkja í andstæðum lit (sami litur og munsturlitur á þessari hlið);
Slétt lykkja í aðallit;
Brugðin lykkja í andstæðum lit;
Slétt lykkja í aðallit;
Brugðin lykkja í andstæðum lit;
Slétt lykkja í munsturlit;
Brugðin lykkja í andstæðum lit (sem er munsturliturinn hinum megin á stykkinu);
o.s.fr.

Það þarf sem sagt að hugsa stíft um bæði litinn á hverri einustu sléttu lykkju og litinn á brugðnu lykkjunni við hlið hennar, lesa svo munstrið frá vinstri til hægri þegar prjónað til baka á hinni hliðinni. Ég þurfti að einbeita mér algerlega að þessu og gat ekki horft á sjónvarpið meðfram eins og ég geri venjulega þegar ég prjóna 🙂  Ef menn vilja prjóna mismunandi munstur á hvorri hlið þarf væntanlega að búa til uppskrift á svipaðan hátt og hér er sýnt, þ.e.a.s. að raða munstrunum saman í eitt.
 

Að prjóna tvöfalt prjón í hring

Það er í rauninni einfaldara en að prjóna flatt stykki því þá snýr sami aðallitur alltaf að manni. Aðalatriðið er að muna að hver slétt lykkja á sér brugðna tvíburalykkju í andstæðum lit. Ég gerði tilraun til að prjóna húfu með tvöföldu prjóni, misreiknaði að vísu stærðina svo þessi húfa passar á kött en að öðru leyti tókst tilraunin vel. Hún sést hér að neðan (ath. að ég prjóna brugðnu lykkjuna með austrænu snúnu prjóni svo áferðin á ljósbláu hliðinni er dálítið öðru vísi, ég snéri dökkbláu hliðinni að mér meðan ég var að prjóna húfuna).

Húfa með tvöföldu prjóni

Aðalatriðið í þessu húfuprjóni var að læra úrtöku í tvöföldu prjóni. (Úrtakan á prufuhúfunni er of laust prjónuð, ég laga það í næstu tilraun.) Til að taka úr þarf að raða saman tveimur sléttum lykkjum og tveimur brugðnum og pjóna saman. Handhægast er að hafa aukaprjón við verkið. Hér má sjá góða útskýringu á þessu í myndum.

Sjálf er ég ekki komin lengra en þetta í listinni að prjóna tvöfalt prjón og lýk færslunni á að krækja í efni á Vefnum sem mér finnst þess virði að skoða. Ég kræki ekki í YouTube myndbönd en bendi fólki á að fara á YouTube og leita með leitarorðinu Double knitting.
 

  • Nancy Kremer: Free Knitting Patterns – Heart Double Knit Hot Pad. Þetta er síða með einföldu munstri að tvöfalt prjónuðum pottaleppum. Á síðunni er vísað í myndband þar sem er sýnt hvernig þeir eru prjónaðir, mjög gott myndband að mínu mati þótt prjónaaðferðin sér ensk.
  • Stitch Diva Studios er með heilmikið kennsluefni með ljósmyndum um tvöfalt prjón (t.d. hvernig á að auka út, hvernig á að taka úr, hvernig á að prjóna „styttar umferðir“, þ.e. short rows, hvernig á að leiðrétta villu í munstri o.fl.). Ef litið er framhjá hvernig haldið er á garnendum (efnið er miðað við enska prjónaðaferð) er þetta mjög góð síða.
  • Vigdis Flowers er ljómandi fallegur trefill, uppskriftin er til sölu á Ravelry.

  • Apfelbluete er annar gullfallegur trefill, uppskriftin er til sölu á Ravelry.

  • Hér eru skemmtilegir tvöfaldir kisuvettlingar, Kittens Mittens, sem seld er uppskrift að á Ravelry.
  • En þessa ótrúlega fallegu vettlinga, Yuma Double Knitting Mittens, einnig til sölu á Ravelry, er líklega mun vandasamara að prjóna með tvöföldu prjóni.

 Svo er bara að vera dugleg(ur) að myndagúggla Double Knitting, jafnvel Extreme Double Knitting 🙂
 
 
 
 

Tvöfalt prjón

Bernateppi með tvöföldu prjóniÞað er fullt af kennsluefni um tvöfalt prjón á Vefnum en mér þótti sjálfri óþægilegt að í því er prjónað með „ensku prjóni“ sem er talsvert ólíkt þeirri aðferð sem flestir Íslendingar nota í prjóni. Svo ég ákvað að setja inn leiðbeiningar um tvöfalt prjón sem e.t.v. gætu hjálpað einhverjum til að læra þessa einföldu aðferð.

Frumraun mín í tvöföldu prjóni er þetta teppi sem sést hér til hliðar og ég gaf í skírnargjöf. (Sé smellt á myndina kemur upp stærri mynd.) Dæmin sem ég sýni hér að neðan eru prjónuð úr sama garni í sömu litum. Sé stykki prjónað með tvöföldu prjóni verður bæði framhlið og bakhlið sléttprjónuð og litir víxlast þannig að munstrið kemur speglað á annarri hliðinni. Það er einungis hægt að nota tvo liti. Munstrið má vera dreift (ólíkt hefðbundnu tvíbandaprjóni) því maður er alltaf með báða litina/báða garnþræðina á prjónunum. Þess vegna hentar tvöfalt prjón vel til að prjóna stóra, staka litaflekki.
 

Að fitja upp í tvöföldu prjóni

Á Vefnum eru ýmist gefnar leiðbeiningar um að fitja upp með báðum litunum eða bara öðrum. Mér fannst fallegra að hafa uppfitina í einum lit og fitjaði upp með bleikum. Af því maður fitjar upp lykkjurnar bæði á framhlið og bakhlið í einu þarf að fitja upp tvöfaldan fjölda lykkja (miðað við hvernig uppfit er venjulega hugsuð) og gera ráð fyrir tveimur kantlykkjum. Hér að neðan sést uppfit á stykki sem á að vera 20 lykkjur á framhlið (og 20 lykkjur á bakhlið): Fitjaðar eru upp 20 + 20 + 2 (kantlykkjur) = 42 lykkjur.

Fitja upp � tvöföldu prjóni
 

Byrjað að prjóna
 

Sjálfsagt er misjafnt hvernig menn vilja fara að í köntunum en mér þótt fallegast að taka fyrstu lykkju (fyrri kantlykkju) óprjónaða og prjóna síðustu lykkjuna (seinni kantlykkju) með báðum litum, þ.e. tvöfalda. Þá myndast nokkurs konar fléttukantur á jöðrunum.

Þess utan er bara prjónað hefðbundið tvöfalt prjón þannig:
Önnur hver lykkja slétt í öðrum hvorum litnum.
Hin hver lykkja brugðin í hinum litnum.

Ég byrjaði á bleiku hliðinni og:
– tók fyrstu lykkjuna óprjónaða;
– sléttprjónaði næstu lykkju bleika;
– prjónaði næstu lykkju hvíta brugðna;
– prjónaði næstu lykkju slétta bleika;
o.s.fr.
– prjónaði síðustu lykkjuna með hvorutveggja garninu (tvöföldu garni).

Hér sést bleika hliðin (að vísu eftir 2 umferðir):
 

Tvöfalt prjón

Svo er prjónað til baka á hvítu hliðinni þannig:

– fyrsta lykkjan (sú tvöfalda) tekin óprjónuð;
– hvít lykkja prjónuð slétt;
– bleik lykkja prjónuð brugðin;
– hvít lykkja prjónuð slétt;
o.sfr.
– endalykkjan prjónuð með báðum litum (tvöföld).

Þá lítur þetta svona út:

Tvöfalt prjón
 
 

Hvernig á að halda á garninu

Það vafðist fyrir mér að finna út hvernig ætti að bera sig við með litina tvo en mér fannst svo best að hafa garnið eins og þegar prjónað er tvíbanda. En aðalatriðið er að passa að aðalliturinn sé ofar á fingrinum, þ.e.a.s. sá litur sem er á sléttu lykkjum. Brugðnu lykkjurnar eru prjónaðar með neðra bandinu, þær sléttu með efra bandinu. Hér er skýringarmynd sem ég fann á Vefnum og aðlagaði að evrópskri prjónaaðferð (sem við Íslendingar notum):

Halda á garninu � tvöföldu prjóni
 

Hvernig á að prjóna munstur

Það er í rauninni ákaflega einfalt þegar maður hefur náð því að sléttu lykkjurnar eru þær sem birtast á viðkomandi hlið, þær brugðnu eru sléttu aðallykkjurnar á bakhliðinni/hinni hliðinni. Setjum svo að munstrið sé hjarta, sem hefst á einni lykkju í munsturlit, í næstu umferð eru þrjár lykkjur í munsturlit o.s.fr. Ef ég ætla að prjóna hvítt hjarta á bleiku framhliðina prjóna ég allar bleiku lykkjurnar sléttar og allar hvítu lykkjurnar brugðnar nema þar sem munstrið hefst: Þar víxla ég böndunum, hef hvíta litinn ofar á fingrinum og þann bleika neðar, prjóna eina slétta hvíta lykkju og eina brugðna bleika lykkju, víxla böndunum aftur í venjulegt horf og prjóna bleikar sléttar lykkjur og brugðnar hvítar lykkjur til enda.  Þegar ég sný stykkinu til að prjóna til baka eru hvítu lykkjurnar sléttar og þær bleiku brugðnar, nema ég sé auðvitað eina slétta bleika lykkju, sem er upphafið að munstrinu. Svo í þessari „hvítu [næstu] umferð“ prjóna ég þrisvar sinnum bleika slétta lykkju og hvíta brugðna þar sem munstrið er.

Mér fannst þægilegast að hugsa um lykkjurnar í pörum: Hvert par er slétt lykkja í „aðallit“ og tvíburi hennar brugðin í „aukalit“. Til að átta sig á munstrinu telur maður bara sléttu lykkjurnar en gleymir vitaskuld ekki að hver svoleiðis lykkja á sér brugðinn tvíbura í hinum litnum.

Hér er bleika hliðin eftir fimm umferðir:

Munstur � tvöföldu prjóni

Og hér sú hvíta:

Munstur � tvöföldu prjóni
 

Hvernig á að ganga frá endum?

Teppið sem ég prjónaði var 2×137 lykkjur + 2 kantlykkjur og varð u.þ.b. 150 cm langt. Svo dokkurnar kláruðust öðru hvoru og þurfti því að ganga frá endum. Á Vefnum er sumstaðar gefin sú ráðlegging að láta endana bara dingla lausa innan í stykkinu en ég gat ekki hugsað mér það; alin upp við að ganga alltaf frá endum!

Í rauninni er svona tvöfalt prjónað stykki eins og poki, a.m.k. þar sem litaflekkirnir eru stórir. Ég raðaði því saman svona 10-12 sléttum lykkjum á einn prjón, brugðnu tvíburalykkjunum á aukaprjón. Þá „opnaðist pokinn“ og mátti auðveldlega ganga frá endum á röngunni „ofan í pokanum“. Svo raðaði ég lykkjunum aftur rétt á prjóninn og hélt áfram að prjóna.

Á YouTube má finna myndband þar sem sýnt er hvernig má ganga frá endum „á réttunni“ án þess að það sjáist. Það er gott að kunna þá aðferð líka, t.d. til að ganga frá síðustu endunum ef prjónuð er húfa með tvöföldu prjóni.

Hér er framhaldsfærsla um hvernig maður getur prjónað sitt hvort munstrið, þ.e.a.s. ekki sama munstur á hvorri hlið, í tvöföldu prjóni, t.d. letur,  og hvernig úrtaka er þegar prjónað er svona tvöfalt. Í þeirri færslu kræki ég líka í það efni á Vefnum sem mér þykir skiljanlegast. (Ef menn vilja leita sjálfir þá heitir tvöfalt prjón Double Knitting á ensku.)
 
 
 
 

Er íslenski skautbúningurinn frá Normandí?

Prjónasaga getur leitt mann út um ótrúlegustu trissur. Í dag hef ég annars vegar lesið heilmikið um aftöku Karls I. Englandsskonungs og svo hins vegar reynt að glöggva mig á því af hverju íslenski skautbúningurinn virðist sniðinn eftir skautbúningum í Normandí. Ég vissi fyrir að fæst í íslenskum þjóðbúningum er sér-íslenskt; Ekki upphluturinn, ekki víravirkið, ekki baldýringin, ekki blómstursaumurinn/mislöngu sporin, ekki pilsið, ekki stakkurinn sem tilheyrir 19. aldar faldbúningi og líklega ekki peysan í peysufötunum heldur … kannski helst að skotthúfan sé séríslenskt fyrirbæri, þróuð úr norður-evrópskum karlmannshúfum fyrri tíma og endaði í skelfilega ópraktísku höfuðfati. Og ég vissi auðvitað að vinsæl útsaumsmunstur á 20. aldar faldbúningi og skautbúningi eru ekki íslensk, eitt það vinsælasta skreytir t.d. flest grísk hótelhandlæði. En ég hélt í alvörunni að Siggi séní hefði hannað faldinn upp úr sér og mætti þá kalla hann íslenskan.

Ástæðan fyrir því að ég fór að athuga þetta var að í ferðabók sem ég var að glugga í lýsir ensk ferðakona búningi íslenskrar stúlku um 1890 svona:
 
 

The dress consisted of a thickly-pleated black silk skirt, very full and somewhat short, embroidered round the bottom with a deep band of gold thread; a black bodice, also similarly embroidered with gold down the front and round the collar; a handsome necklet and girdle of silver gilt, and a high head-dress of white muslin, in appearance resembling a Normandy cap. This, she told us, she always wore on Sundays and great occasions, dressing like an Englishwoman on week days.
(Tweedy, Alec. A Girl’s Ride in Iceland. Önnur útgáfa 1894, aðgengileg á Gutenberg.org.)

Bóndakona � Normand�Svo ég fór að skoða þetta mál, þ.e.a.s. pæla í því af hverju þessi hái höfuðbúnaður minnti ensku konuna á húfur í Normandí. Komst svo að því að faldur og skaut minna ekki bara á höfuðbúnað í Normandí heldur er þetta hreint og beint kóperað frá Normandí. (Ljósmyndin er af bóndakonu í Normandí, sú ber fald og blæju. Ég veit ekki hvenær hún er tekin.)

Snúum okkur nú að upphafsmanninum: Sigurði málara.
 

Sigurður Guðmundsson (f. 1833, d. 1874) hannaði sem fyrr sagði íslenska skautbúninginn sem fegurðardrottningar landsins skarta ávallt á 17. júní, okkur alþýðunni til yndis og ánægjuauka.

Sigurður gerði grein fyrir hugmyndum sínum um nýjan íslenskan kvenbúning í greininni Um kvennbúninga á Íslandi að fornu og nýju, sem birtist í Nýjum félagsritum árið 1857. Þetta er kostuleg og skemmtileg grein sem ég hvet alla til að lesa. Sigurði gekk ætlunarverk sitt feikilega vel, þ.e. að fá að ráða því hverju íslenskar konur klæddust. Elsa E. Guðjónsson segir í bæklingnum Íslenskir þjóðbúningar kvenna nú á dögum, árs. 1999 og aðgengilegur á vef:

Féllu breytingartillögur þessar í góðan jarðveg; lét Sigurður enda ekki sitja við orðin tóm heldur hjálpaði konum um myndir, snið og munstur og sagði fyrir um hvernig búningurinn ætti að vera í öllum smáatriðum. Var fyrsti skautbúningurinn kominn í notkun í Reykjavík þegar síðla árs 1859, og hefur haldist síðan svo til óbreyttur.

Hafi menn áhuga á konunum sem gerðu drauma og fantasíur Sigurðar málara að veruleika bendi ég á síðuna Hagleiksfólk og hugsuðir, á vef Byggðasafns Skagfirðinga, en þar segir frá Sigurlaugu Gunnarsdóttur í Ási, mikilli hannyrðakonu, sem var ein af þeim konum.   

Í greininni í Nýjum félagsritum fer Sigurður um víðan völl yfir íslenskar fornsögur og fornkvæði og er ekki feiminn að draga víðtækar ályktanir um klæðaburð til forna af lýsingum í þeim. Svo kemur kafli þar sem hann hneykslast mjög á klæðnaði íslenskra kvenna einmitt nú (þ.e. árið 1856-57), segir m.a. um höfuðbúnað þeirra sem klæða sig upp á:
 

Fyrir hinn þjóðlega fald, sem Freyja sjálf bar, eptir því sem hin gömlu kvæði vor kenna oss, höfum vér fengið hatta, sem í sniði varla líkjast neinu, sem konur hafa borið fyr eða síðar; þeir líkjast mest hellisskúta, svo að konur, sem bera þá, líkjast mest steinuglum, eða kattuglum, sem hnipra sig inn í skúta til að forðast dagsljósið. (s. 37)

Svo víkur Sigurður að öðrum þjóðum og segir: „… hvergi veit eg að bændafólk sé að sækjast eptir útlendum búníngum, jafnmikið og víðast á Íslandi … Í flestum löndum lætr bændafólk sér nægja að bera sinn eigin þjóðbúníng.“ (s. 39)

Þegar hann snýr sér að því að ræða æskilegan fald við æskilegan nýjan búning kemur þetta:
 

Í Norðmandí, sem að mörgu er álitið kjarninn úr Frakklandi, sér maðr faldinn enn í dag, og hefir hann haldizt við síðan á dögum Göngu-Hrólfs; þessvegna mun það vera, að Frökkum, sem koma til Íslands, verður svo starsýnt á faldinn, því hann er einn hluti þeirra gamla þjóðbúníngs. (s. 41)

Faldur frá Normand�Eftir að hafa stungið upp á að núverandi faldi (gamla spaðafaldinum) verði breytt, því „þessi þunni leggr lítr ekki vel út frá hlið að sjá, og er líkastr öngli“, sagt að ekki ættu konur að hylja hárið með faldinum (enda hefðu þær Guðrún Ósvífursdóttir og Helga hin fagra ekki gert það) og lagt til að „gamli“ höfuðdúkurinn væri settur yfir faldinn, ítrekar hann tenginguna við Normandí: „Ég hef áðr sýnt yðr, að konur í Norðmandí láta sér þykja sóma að bera fald enn í dag, en þær þykja fríðastar og dugmestar af frakkneskum konum.“ (s. 52) Myndin er af normönnskum faldi, án blæju, á Listasafninu í Boston. Hún krækir í síðu safnsins með stærri mynd og upplýsingum um faldinn.

Íslenskar konur hlýddu því strax að klæðast sams konar faldi og þær fríðustu og dugmestu meðal franskra kvenna, konurnar í Normandí á Frakklandi. Hefur sjálfsagt ekki spillt ef þær íslensku hafa trúað því að þessi faldur væri frá dögum þess hrausta danska víkings Göngu-Hrólfs. Og þær hafa örugglega viljað allt til vinna svo þær líktust ekki lengur steinuglum og kattuglum …

Íslenski faldurinn og skautið er svona:

Íslenskur faldur undir skautiFaldurinn sjálfur, sem einnig er nefndur faldhúfa, er króklaga og fremur lágur. Hann er saumaður úr hvítu lérefti, en tilsniðin lengja úr pappa eða eirþynnu (faldpappi, faldeir) höfð innan í honum ofanverðum. Þá er hann troðinn út með ull eða öðru viðeigandi tróði og fóðraður utan með hvítu smálérefti eða atlasksilki (satíni). Yfir faldinum er blæja, faldblæja, úr hvítu netefni, stundum með hvítum ídregnum saumi og/eða brydd samlitri blúndu, en utan um faldinn neðanverðan er gyllt koffur úr silfri, hlekkjað saman úr stokkum með mismunandi skrautverki, eða gyllt spöng, oftast nær slétt, úr silfri eða látuni. Faldhnútur, breitt hvítt hnýti (slaufa) úr silkiborða er undir blæjunni að aftan til þess að hylja samskeytin á blæjunni og koffrinu eða spönginni.
(Elsa E. Guðjónsson. 1999. Íslenskir þjóðbúningar kvenna nú á dögum. Myndin sýnir þegar verið er að festa faldinn á höfuð stúlku.)

Í svari Æsu Sigurjónsdóttur við spurningunni Hver er uppruni íslenska spaðafaldsins eða skauts í íslenska faldbúningnum? á Vísindavefnum 19. des. 2012 telur hún ekki ólíklegt að Sigurður málari hafi haft frelsishúfuna frönsku (bonnet de la Liberté) að fyrirmynd faldsins í skautbúningnum. Þessi húfa var upphaflega hvít en síðar rauð, í frönsku stjórnarbyltingunni. Hún var raunar vinsæl í ýmsum stjórnarbyltingum, t.d. hömpuðu Ameríkanar svona húfum í sínu frelsisstríði og kölluðu Liberty Caps. Frelsishúfurnar eru líklega þekktast nútildags á Strumpunum. Rök Æsu eru að amerísk kvenréttindakona sem sá íslenska skautbúninginn á kvennaþingi í Búdapest árið 1913 sagði í blaðagrein: „The head dress is a small white satin “liberty cap” in a golden coronet … surrounded by a sort of bridal veil. Freedom, modesty and beauty, courage and intellect – there was a warm welcome to Iceland.“

Sjálfri sýnist mér einsýnt að Sigurður málari Guðmundsson hafi einfaldlega gert höfuðbúnað kvenna í Normandí á 19. öld að sínum og þar með að aðalstássinu í flottasta íslenska búningnum, hátíðabúningnum: Skautbúningnum! Það er því hlálegt að hugsa til alls þess regluverks sem íslenskar konur hafa sett í kringum þennan búning síðan Sigurði datt þetta í hug.
 

Hvað ætli konum í þjóðbúningaráðinu í Normandí finnist um íslenska skautbúninginn?

Íslenskur skautbúningur og skautbúningur � Normand�