Category Archives: Saga Geðlækninga

Geðveikar myndir II

 (Sjá einnig Geðveikar myndir, sem eru af öðrum toga en þessar.)
 
 

Thorazine er sama lyf og Largactil (klórprómazín).
Það var upphaflega markaðassett fyrir geðklofa sjúklinga og
sjúklinga í geðrofi (sturlaða sjúklinga).

Remeron er sama lyf og Míron (þunglyndislyf).

Mellaril var upphaflega markaðssett við geðklofa.

Loxapac var upphaflega ætlað við geðklofa og sturlun.
 


 

 

Þetta þunglyndislyf er á markaði hérlendis undir 
heitinu Noritren.
 

Það var hætt að blanda litium í 7 up árið 1950.
 

Sama bensólyf og Sobril.
 

  
  

Þetta er ekki auglýsing – en ketamin er bjartasta vonin í 
þunglyndislækningum núna. Sem stendur er ketamin þó þekktast
sem dóp, nauðgunarlyf og svæfingarlyf fyrir hross. Tilraunir
til að nota það til að lækna þunglyndi eru sagðar lofa góðu.

Ég held ég skilji geðlækna

  

7 janúar 2011 var ég dregin með valdi frá vinnu minni, sett í lögreglubíl og keyrð á geðdeild. Þar var ég látin dvelja inni í herbergi án nokkura útskýringa hvers vegna. Það var föstudagur og ég fekk engin svör fyrr en á mánudegi eftir að hafa legið fyrir alla helgina með þunga hugun og bugað stolt. Næstu 3 mánuðir eru í móðu – en ég man þó að hurðar deildarinnar voru læstar og ef ég varð hrædd þá fékk ég sprautur og var látin sofa úr mér hræðsluna. Ég fékk ekki að vita hvaða lyf var verið að dæla í líkamann minn né hversvegna – sterkir menn sáu um að halda mér þegar ég barðist fyrir lífi mínu.Læknirinn minn talaði vart við mig og sagði mig sjúka – að ég væri í geðrofsástandi og að það yrði að dæla í mig lyfjum til þess að ná mér góðri. Andlegt ástand mitt var engu verra en fyrri mánuði og ár – geðrofsástand var ekki til staðar. Ég er einhverf og átti því erfitt með að umgangast fólk og horfa í augu þess – vegna vanþekkingar þá þótti ég geðrofsleg.

16 mars 2011 fékk ég sprautu – mjög sterka blöndu ætluð veikustu geðklofasjúklingunum – ég reyndi að kalla á hjálp á meðan 6 stæðir karlmenn héldu mér niðri og girtu niður nærbuxurnar mínar til þess að hjúkrunarfræðingurinn gæti sprautað efninu í rasskinn mína.

Ég var svo hrædd að ég upplifði mig fara út úr líkamanum og horfa á ástandið, andliti mínu var þrýst ofaní koddann svo ég gat ekki andað. Ég upplifði sjálfa mig sem misnotað dýr – því ég var ekki meira í hugum þessa manna en óþekkt dýr sem var ekki kjurrt á meðan það var verið að misþyrma því.

Dögum síðar óskaði ég svara um það hvað sprauturnar höfðu að geyma – mér var sagt að hver sprauta væri inni í líkamanum í 6 vikur – en að endurtaka þyrfti lyfjagjöf á 2 vikna fresti – það var gert í eitt skipti eftir þetta.

2 vikum síðar lá ég nær meðvitundarlaus í fósturstellingu uppi í rúmi hágrátandi – og óskandi eftir mömmu minni við rúmstokkinn. Brjóstin mín voru full af mjólk vegna aukaverkanna lyfjanna svo ég varð að mjólka mig eins og eftir barnsburð. Ég lá fyrir hágrátandi í rúmlega 3 mánuði – aukaverkanir lyfja drápu mig næstum því. Ég var svo kvalin að ég get ekki lýst með orðum hversu veik ég var – mamma mín fór grátandi frá mér og grátbað læknanna að hætta að pynta mig.

Til þess að niðurlægja mig enn frekar var ég látin pissa í glas til þess að athuga hvort ég væri ólétt – læknarnir trúðu ekki að allar þessar breytingar á líkama mínum væru vegna þeirra mistaka – þrátt fyrir að ég hafi sagt þeim að ég ætti engan mann og hefði ekki sofið hjá lengi þá sögðu þeir mig of geðveika til þess að muna eftir því hefði það gerst.

Í 6 mánuði var mér haldið inni á læstri deild, þegar ég reyndi að segja læknunum að ég væri ekki haldin geðrofsjúkdóm þá hristu þeir hausinn og sögðu mig í afneitun. Það var ekki fyrr en ég var send frá deild 33c til kleppspítala að læknar sáu berlega að ég var engin geðrofssjúklingur. Lyfjagjöf var því stöðvuð og fóru næstu 3 mánuðir í það að draga mig fram úr rúmi og halda mér lifandi. Áhrif lyfja vörðu í líkama mínum í 12- 15 vikur og var ég ílla kvalinn í þann tíma – svo ílla kvalin að ég get varla hugsað til þess ástands sem ég var í. Ég bað mömmu mína eitt skiptið að drepa mig – ég gat ekki farið fram úr rúminu, baðað mig eða klætt.
(Úr færslunni Tunglið Tunglið taktu mig og berðu mig upp til skýja!, 10. desember 2012, á larakristin.com, krækt er í afrit á Vefsafninu.)

Þessi lýsing er ekki frá dögum hrossalækninganna miklu, geðlækninga fram yfir miðja síðustu öld, heldur greinir í textanum frá atburðum sem gerðust í hittifyrra. Í færslunni kemur og fram að geðlæknirinn hefur ekki beðið sjúklinginn afsökunar á meðferðinni, þótt Landspítalinn hafi beðið hann formlega afsökunar (þetta var ekki í fyrsta sinn sem sjúklingurinn var lagður inn á geðdeild, haldið í einangrun og gefin sterk geðklofalyf). Sjúklingurinn var síðar greindur einhverfur og hefur aldrei þjáðst af geðklofa, geðrofi eða neinum þeim sjúkdómi sem yfirlæknir geðdeildarinnar greindi hann með og sveifst einskis til að lækna. Forræði yfir barni var dæmt af sjúklingnum vegna þess að hann átti sögu um innlagnir á geðdeild Landspítala – þrátt fyrir að yfirmaður geðsviðs hafi útskýrt fyrir dómstólum að sjúkdómsgreiningin hafi verið röng og að meðferðin sem yfirlæknir geðdeildar stjórnaði hefði valdið geðklofa/geðrofseinkennunum.

Þegar þetta mál komst í hámæli í fjölmiðlum bjóst ég við að einhver geðlæknir myndi tjá sig eitthvað í sambandi við það … má t.d. ætla að sjúkdómsgreining sé alla jafna jafnmikið lottó og í þessu tilviki? Væri ekki rétt að upplýsa almenning um á hvaða vísindum geðlæknar byggja í sjúkdómsgreiningu? Þótti íslenskum geðlæknum þetta dæmi vera það saklaust að enginn sá tilefni til að segja skoðun sína á því? Eða er samtrygging geðlækna á Íslandi svo mikil, þörf þeirra fyrir að snúa bökum saman og slá um sjálfa sig skjaldborg, að enginn þeirra þorir að tjá sig?

Eftir að hafa lesið tvær bækur um sögu geðlækninga í Danmörku (Det hvide snit. Psykokirurgi og dansk psykiatri 1922-1983 og Psykiatriens Historie i Danmark), ásamt auðvitað A History of Psychiatry from the Era of the Asylum to the Age of Prozac eftir Edward Shorter og talsvert af greinum um efnið, er mér ljóst að:

A) Geðlækningar byggjast ekki og hafa aldrei byggst á vísindalegum grunni. Hér er átt við að orsakir geðsjúkdóma eru jafn huldar og fyrrum, lækningaaðferðir eru sjaldnast studdar vísindalegum forsendum (t.d. veit enginn hvernig raflost virka á heila, forsendur þunglyndislyfja, boðefnaruglið, er getgáta sem núorðið er talin heldur ósennileg, virkni þunglyndislyfja umfram lyfleysu er ekki mælanlega læknisfræðilega (klínískt) marktæk. Um þetta hef ég bloggað margar færslur og vísa í þær helstu, þar sem jafnan er getið heimilda: Nýju lyfin keisarans, Virka þunglyndislyf eða er verkunin aðallega lyfleysuáhrif? og  Virka þunglyndislyf?

Af því að geðlækningar lúta svipuðum lögmálum og kukl, þ.e.a.s. þær eru byggðar á ósönnuðum tilgátum og vísindalegum tilraunum sem ekki hafa sýnt þær niðurstöður sem geðlækningar vilja hafa fyrir satt, er skiljanlegt að yfirlækni á íslenskri geðdeild finnist sjálfsagt að sprauta sjúkling með sterkum geðlyfjum eftir greiningu sem byggð er á tilgátu út í bláinn eins og lýst var í dæminu hér að ofan. Klínísk reynsla þessa læknis er væntanlega að margir sjúklingar með uppástöndugheit verði mun rólegri þegar búið er að sprauta þá duglega með þessum lyfjum og mætti kalla það að sjúklingunum batni við læknisaðgerðina. Þetta er ekki ósvipað og álit geðlækna á síðustu öld var á gagnsemi sjóðheitra baða, brennisteinsolíusprautunar í vöðva, lóbótómíu og daglegra insúlínlosta við geðveiki af ýmsum toga.
 

B) Geðlæknum var og er mjög í mun að teljast vísindamenn meðal annarra lækna og meðal almennings. Í sögu geðlækninga úir og grúir af vísindalega þenkjandi geðlæknum/taugalæknum sem bjuggu til vísindalegar skýringar á aðferðum sínum eftir á (alveg eins og þunglyndislyfjaframleiðendur nútímans stunda með góðum árangri), t.d. upphafsmaður raflostmeðferðar, Cerletti, sem setti fram þá tilgátu að raflost létu heilann framleiða örvandi efni sem hann kallaði „agro-agonime“ eftir að geðlæknar fóru í stórum stíl að stuða heila sjúklinga sinna. Eða Þórður Sveinsson sem ályktaði um samband truflunar í svitakirtlum og geðveiki eftir að hafa áratugum saman sett sjúklinga sína í heit böð.

Ágætt dæmi úr nútímanum, um hvernig reynt er að skjóta vísindalegum stoðum undir þunglyndislyfjagjöf (sem hvílir á brauðfótum), er yfirlýsing Evrópsku geðlæknasamtakanna um þunglyndislyf, en álit þeirra reynist, þegar öllu er á botninn hvolft, hvíla á klínískri reynslu sem er ómælanleg með öllu. (Um þessa yfirlýsingu er fjallað í færslunni Afstaða evrópskra geðlækna til þunglyndislyfja og krækt í hana þaðan.)

Saga geðlækninga er lituð af þrá geðlækna til að teljast læknar með læknum og er gott að skoða raflost sérstaklega í því sambandi:

Helgi Tómasson sagði um raflost árið 1955:
 

 Þótt trú fólks á lyf sé mikil, mun sönnu næst, að mun meiri sé trú þess á alls konar „tæki“, og á það ekki síður við um læknana sjálfa. Hér fengu geðlæknar upp í hendurnar tæki, sem lét gerast eitthvað, sem þeir og fólk sáu, tæki, sem var auðvelt í meðförum og fljótt álitið virtist ekki gera skaða, eða a.m.k. ekki mikinn skaða. Það var því freistandi að nota það, stundum meira en minna. Samvizkuna mátti friða með því, að eitthvað hefði verið gert og e.t.v. hefði sjúklingnum reitt verr af, ef það hefði ekki verið gert.
(Sjá færsluna Raflost við geðveiki hérlendis, þaðan sem vísað er í heimildir og vitnað í mismunandi sjónarmið íslenskra geðlækna á sjötta áratug síðustu aldar.)

Í bókinni Unhinged, sem kom út árið 2010, segir geðlæknirinn David Carlat um raflost (í kaflanum The Seductions of Technology, s. 167-68):
 

   The major problem with ECT is identical to the problem with psychiatric medications. While ECT works, we have no idea how or why. […] I wonder why psychiatrists need to be present at all. My role was the pusher of buttons, the turner of dials, and the observer of brain waves. [- – -] If something went wrong, and the patient had a cardiatric arrhythmia or a drop in blood pressure, I moved out of the way, and let the specialists sweep in to administer emergency treatment. [- – -]
    But if we left ECT to techs, we would lose the only technical procedure that we can call our own. This would be another insult to our sense of being part of the community of physicians.

Saga geðlækninga frá því á 19. öld hefur einnig á stundum markast af baráttu geðlækna gegn almenningi, þ.e.a.s. hve mikilvægt þeim hefur þótt að afneita því að almenningur, t.d. sjúklingar, hefði minnsta vit á geðsjúkdómum og meðferð þeirra. Deilur Knuds Pontoppidan við Amalie Skram o.fl. (sjá færsluna Danskar geðlækningar 1850-1920) snérust að hluta til um þetta, grein Guðfinnu Eydal um kaffæringar og illa meðferð á sjúklingum á Kleppi í tíð Þórðar Sveinssonar og svar Þórðar við gagnrýninni eru líka gott dæmi um vörn geðlæknis gegn áliti sjúklings byggðu á heilbrigðri skynsemi. (Sjá færsluna Upphaf geðlækninga á Íslandi.)

Í tilviki sjúklingsins sem ég vitnaði í efst í þessari færslu var eftir atvikin sem hún lýsir sett sem skilyrði fyrir þjónustu geðsviðs að sjúklingurinn tjáði sig ekki í fjölmiðlum (sjá færsluna Hafa geðsjúklingar ekki málfrelsi?). Ef illmögulegt er að verja „læknismeðferð“ fyrir heilbrigðri skynsemi almennings er kannski best að ekkert vitnist. Til eru dæmi þess að sjúklingurinn sjálfur sé ekki upplýstur um sjúkdómsgreininguna sem bendir til að geðlæknar telji almenning ekki botna mikið í þeirra miklu fræðum og því óþarft að nefna þetta. (Sjá fréttina Siðanefnd læknafélagsins fær á baukinn, í DV 9. feb. 2012.) Sjálf hef ég reynslu af því að vera „sagt upp sem sjúklingi“ af því geðlækninum mínum fyrrverandi hugnaðist ekki að ég fjallaði um geðlækningar á bloggi, eigin sjúkrasögu þar með talda (sjá færsluna Geðlæknir dömpar sjúklingi vegna bloggs).

Af þessum dæmum dreg ég þá ályktun að allt frá í árdaga geðlækninga og til dagsins í dag hafi geðlæknum líkað einkar illa að ótíndur pöpullinn byggði á eigin skynsemi um geðlækningar eða læsi sér til um geðlækningar, svo ekki sé talað um að hann tjái sig um reynslu af geðlækningum. Landsaðgangur að vísindatímaritum um geðlæknisfræði hlýtur að fara í taugarnar á þeim einhverjum …
 

C) Til að styrkja stöðu sína standa geðlæknar saman, forðast gagnrýni, forðast jafnvel gagnrýna hugsun, og gæta að orðspori stéttarinnar. Edward Shorter hefur bent á að geðlæknar séu „líklegri til að stjórnast af hjarðhegðun en læknar í öðrum greinum læknisfræðinnar, þar sem raunveruleg þekking á orsökum sjúkdóma auðveldar mönnum að halda meðferðartískubólum í skefjum“ (bls. 5 í Before Prozac: The troubled history of mood disorders in psychiatry, útg. 2009, tilvitnun tekin úr Steindór J. Erlingsson. Glímir geðlæknisfræðin við hugmyndafræðilega kreppu? Um vísindi og hagsmuni. Tímarit félagsráðgjafa, 5(1): 5-14, 2011.) Geðlæknar tjá sig ekki um geðlækningar starfsbræðra sinna (af báðum kynjum), þeir halda hjörðinni saman og gæta þess að enginn rási útundan sér. Eina undantekningin frá þessu sem ég hef rekist á er Helgi Tómasson, sem ekki lét rekast í hóp íslenskra geðlækna á sínum tíma.

Geðlæknar spyrja sig ekki óþægilegra spurninga heldur taka orð hver annars fyrir sönn og hlúa þannig að nútímagoðsögum. Dæmi um þetta er sú „staðreynd“ sem þeir halda gjarna á lofti að þunglyndi sé miklu algengara meðal kvenna en karla. (Sjá um þetta t.d. erindi Arnþrúðar Ingólfsdóttur og Gloriu Wekker, „Staðreyndir lífsins“ Orðræða geðlækna um tvöfalt tíðara þunglyndi kvenna og færsluna Þjóðsagnir um þunglyndi og konur.)

Geðlæknum er sumum illa við að sjúklingar þeirra leiti álits annarra (ein ávirðingin sem fyrrum geðlæknir minn ber mér á brýn er að ég hafi talað við sálfræðing án þess að biðja hann leyfis fyrst) og vilja halda á lofti sinni sjúkdómsgreiningu á sínum sjúklingum fram í rauðan dauðann (eins og saga Matthildar Kristmannsdóttur er gott dæmi um, sjá bloggfærslu hennar Heilbrigðiskerfið brást og viðtalið Kvaldist í þrjú ár vegna læknamistaka í Fréttatímanum 31. jan. 2013).

Geðlæknar gæta þess síðan í hvívetna þegar þeir fjalla um geðlækningar (t.d. í fjölmiðlum og sögulegum skrifum) að ekki falli blettur á stéttina, þar er enga gagnrýni að finna heldur minnir umfjöllun yfirleitt á aðlaðandi trúboð.

Ég held sem sagt að ég sé langt komin með að skilja geðlækna, að skilja af hverju geðsjúkdómurinn (greindur með réttu eða röngu) skiptir í þeirra huga meginmáli, sem og (óvísindalegar) læknisaðgerðir við sjúkdómnum, en sjúklingurinn sjálfur skiptir litlu máli. A, B og C liðirnir í færslunni, og færslurnar á undan þessari, skýra hirðuleysi geðlækna um aukaverkanir, upp í stórskaðlegar aukaverkanir, af læknisaðferðum þeirra. Umfjöllunin svarar líka spurningu sjúklingsins sem ég vitnaði í fremst í færslunni:

Lífið mitt er markað af mistökum eins læknis  – afhverju fær hann að sofa vel á hverju kvöldi en ég þjáist vegna mistaka hans ?

 

 

 

Hvernig er hægt að skilja geðlækna?

Síðan ég fór að lesa mér til um geðlækningar, einkum tilraunir geðlækna til að lækna þunglyndi, fyrir rúmu ári síðan, hefur þessari spurningu verið ósvarað. Hvernig stendur á því að geðlækningar eru kynntar sjúklingum sem vísindi, t.d. að þunglyndi stafi af boðefnarugli í heila, að þunglyndislyf lækni þunglyndi í flestum tilvikum, að raflost séu áhrifaríkt læknisráð til að lækna þunglyndi og hafi engar alvarlegar aukaverkanir og margt fleira í sama dúr? Hvernig stendur á því að geðlæknar telja sig hafa vald til að gera alls konar lyfjatilraunir og fleiri tilraunir á sjúklingum sínum algerlega án tillits til þess hvort lyfin eru við þeim geðsjúkdómi sem sjúklingurinn er haldinn og án þess að skeyta, að því er virðist, hætishót um þann skaða sem lyfin og lostin valda? Hvaðan kemur geðlæknum þetta vald og af hverju eru þeir, líklega einir í læknastétt, stikkfrí af einni af grundvallarhugmyndinni í siðfræði lækna, „umfram allt ekki skaða“ (primum non nocere)?

Ein leiðin til að nálgast svarið er að skoða sögu geðlæknisfræða. En þá blasir við það vandamál að sagan er mismunandi skrifuð eftir því hver staða höfundarins er. Skýrt dæmi um þetta er saga norskra geðlækninga, sem hefur annars vegar verið skrásett af geðlækni (Einar Kringlen) og hins vegar af sagnfræðingi (Per Haave). Ég hef hvoruga bókina lesið en af greinum eftir þessa tvo og viðtölum við þá má ráða að sjónarmið þeirra er afar ólíkt. Vinnubrögðin litast af sjónarmiðinu. Eftir að hafa lesið langa yfirlitsgrein eftir Einar Kringlen um sögu norskra geðlækninga var ég satt best að segja litlu nær um hlutskipti sjúklinga í þeirri sögu, greinin fjallaði nefnilega aðallega um merkilega nafngreinda karla í geðlæknastétt, fjölda geðveikrahæla á ýmsum tímabilum, pólítískar ákvarðanir í geðheilbrigðismálum o.þ.h. Í heimildaskránni úði og grúði af greinum eftir merkilega nafngreinda karla í geðlæknastétt. Per Haave vill hins vegar fjalla um aðbúnað sjúklinga, meðferðina sem þeir hlutu á geðspítölum og taka lýsandi dæmi af einstaklingum. Heimildir hans eru aðallega sjúkraskrár og önnur frumgögn af geðveikrahælum/geðspítölum. Það er himinn og haf milli ályktana dregnum af þessum gögnum og ályktana sem dregnar eru af greinum geðlækna í tímaritum, s.s. þeirri opinberu mynd sem þeir hafa sjálfir skapað af sér og sínum störfum. Þetta vandamál, hver skrifar söguna, sést alls staðar í sögu geðlækninga.

Eina íslenska geðlækningasagan er Kleppur í 100 ár eftir Óttar Guðmundsson. Óttar má eiga það að hann reynir að fjalla um sögu Klepps undir mjög víðu sjónarhorni, bindur sig ekki við fræga karla í geðlæknastétt (kannski líka af því þeir eru afskaplega fáir í íslensku sögunni), lætur orð sjúklinga sjást o.þ.h. En það er samt auðséð að hann er alltof háður sínu geðlæknishlutverki, yfir sumt (óyndislegt) er skautað á hundavaði og annað fegrað full mikið fyrir minn smekk. Auk þess er ég búin að finna svo margar villur í bókinni að ég get ómögulega mælt með henni sem traustri sagnfræði. Yfirlitsgrein um íslenskar geðlækningar eftir Óttar í History of Psychiatry (erlendu tímariti) reyndist alveg í anda Einars Kringlen og sagði þ.a.l. fátt um geðlækningar.

Þegar rennt er yfir sögu geðlækninga langt fram eftir síðustu öld blasir við að geðlæknar/taugalæknar voru oftast að reyna að finna lækningu við geðklofa og þegar hún virkaði ekki var henni í skyndi snúið upp í lækningu við þunglyndi. Má nefna lostlækningar og lóbótómíu sem dæmi, seinna meir geðlyfin. Uppfinningarnar voru yfirleitt taldar afar merkilegar og stór skref fram á við í geðlæknisfræðum. Aldrei var nein skynsamleg skýring á því af hverju þessar aðferðir virkuðu. Þær spruttu af tilraunum út í bláinn, svo var sagt að tilraunirnar hefðu gefið frábæra raun (og þar með er hugmyndin um sönnunargildi klínískrar reynslu komin fram), þegar þær náðu lýðhylli geðlækna og í ljós kom að árangurinn var lítill sem enginn, var gripið til þess að beita þeim á aðra geðsjúkdóma, s.s. finna sjúkdóminn sem aðferðin gat gagnast við, og þar var þunglyndi vinsælasti flokkurinn.

Augljóslega voru þessar aðferðir fram yfir miðja síðustu öld hreinustu hrossalækningar. En tveir hrossalækningaruppfinningamenn fengu samt Nóbelsverðlaun fyrir vísindi sín, þeir Wagner-Jauregg fyrir að fatta upp á að smita sýfilisgeðveika með malaríu, og Egan Moniz fyrir að fatta upp á að hræra í framheila geðsjúkra með oddhvössu áhaldi. Hérlendis gripu menn þessar frábæru uppfinningar fegins hendi; að vísu þurfti að framkalla háan sótthita í geðveikum með því að sprauta brennisteinsolíu í vöðva á þeirri malaríulausu eyju Íslandi, hér þurfti sem sagt ódýra eftirlíkingu af frábærri uppfinningu Wagner-Jauregg og líklega var henni beitt á aðra sjúklinga en sýfilisgeðveika. Lóbótómíuna mátti hins vegar framkvæma „vísindalega“ eftir amerísku útgáfunni hér á landi og voru geðlæknar hreint ekki sparir á hana um leið og þeir komust upp á lagið. Í deilum geðlækna hér við Helga Tómasson, sem virðist hafa verið sérlega skynsamur maður og var þ.a.l. alfarið á móti lóbótómíu og raflostum, kom skýrt fram þrá þeirra eftir að beita nýjustu aðferðum og hræðslan við að útlendir kollegar myndu líta niður á þá ef þeir fylgdu ekki stefnum og straumum í geðlækningum. Þeir vildu teljast læknar með læknum og nota tæki og tól (skurðlækningargræjur Bjarna Oddssonar á Landakotssptíala eða eigin ferðaraflosttæki) eins og almennilegir læknar nota tæki og tól.

Eina hrossalækningin sem lifði áfram var raflost. Þar er sama uppi á teningnum og var þegar hinar aðferðirnar voru í tísku; Raflost eru sögð einkar áhrifarík aðferð en enginn hefur hugmynd um hvernig þau virka á heila fólks. Eins og í mismunandi skrifuðum geðlækningasögum er himinn og haf milli þeirra greina sem geðlæknar skrifa um árangur og eftirköst raflosta og þeirra greina sem óháðir aðilar skrifa og byggja á reynslu sjúklinga sem hafa hlotið raflostmeðferð. Í upplýsingabæklingi Landspítala handa sjúklingum um raflost, útg. 2010, segir: „Fólk getur orðið óáttað og skert skammtímaminni getur gert vart við sig, mislengi eftir einstaklingum …“.  Árið 2004 segir í umfjöllun um raflost á Persona.is að raflostum geti fylgt „tímabundin minniskerðing, en ekki langtímaaukaverkanir.“ Geðlæknirinn sem er skrifaður fyrir þessum texta sendi mig tvisvar í raflostmeðferð, vorin 2006 og 2007. Ætli hann trúi því ennþá að raflostum fylgi bara tímabundin minnisskerðing en ekki langtímaaukaverkanir?

Um haustið 2006 var ljóst að tvö ár höfðu þurrkast út úr minni mínu. Og næsta ljóst að mér hafði lítið batnað við raflostin (raunar hafði mér ekkert batnað, sé ég sjálf af heimildum). Samt sendi hann mig aftur í raflost 2007. Vissulega er bókað í sjúkraskrá að ég hafi óskað eftir þessu sjálf, en hvernig á fárveik manneskja á sjö mismunandi geðlyfjum (flest við ýmsum geðsjúkdómum öðrum en þunglyndi, sum ekki einu sinni ætluð við geðsjúkdómum af neinu tagi, sjá má upptalningu í færslunni Lyfjakokteilar eða kemískar lóbótómíutilraunir?) að taka upplýsta ákvörðun? Og þegar ofan í ruglingslegan og tætingslegan hug eftir raflostin 2006 er hamrað á því að mér hafi víst batnað af raflostunum og að til sé aragrúi vísindarannsókna sem sýni fram á ótvíræðan lækningarmátt raflostmeðferðar við þunglyndi? Samskipti okkar geðlæknisins voru auk þess fyrir löngu orðin alveg eins og samskipti konununnar sem fór í lóbótómíu að ráði berklalæknisins síns og vitnað var í undir lok síðustu færslu. Upplýsta samþykkið sem ég skrifaði undir var ekki tekið hátíðlegar en svo að það gleymdist að láta mig samþykkja svæfingarnar ellefu vorið 2007. (Ég þarf varla að taka fram að tímabilið frá vori 2006 fram á mitt ár 2007 þurrkaðist algerlega út úr mínu minni og bættist við eyðuna miklu, a.m.k.  tvö ár fyrir fyrri raflostin. Og minnistruflanir hafa gert mér lífið leitt síðan.)
 

Ég hef sem sagt reynt að skilja AF HVERJU geðlækninum mínum fannst sjálfsagt að senda mig í aðra raflostmeðferð, vitandi hvaða hroðalegu eftirköst sú fyrri hafði. Og af hverju honum fannst sjálfsagt að ég prófaði nýjar og nýjar lyfjasamsetningar og fleiri og fleiri lyf í hærri og hærri skömmtum þótt hann vissi vel að aukaverkanir margra þessara lyfja voru mér þungbærar og alltaf kæmi í ljós að lyfjakokteilarnir gögnuðust ekkert við þunglyndinu. Og af hverju honum datt í hug að sjúkdómsgreina mig með annan geðsjúkdóm (geðhvarfasýki) þótt ég uppfyllti engin skilyrði fyrir slíkri sjúkdómsgreiningu (hvorki staðfest dæmi um maníu eða ólmhug) og miðaði lyfjagjöf við sjúkdóm, sem ég hef aldrei verið haldin.

Ég held ég sé farin að nálgast svarið, þ.e. farin að átta mig aðeins á þankagangi geðlækna, en færslan er orðin nokkuð löng svo ég skrifa framhaldið síðar.
 

P.s. Ég hef áhuga á að láta leiðrétta upplýsingabækling Landspítala fyrir notendur (þ.e. sjúklinga sem eru sendir í raflost). Ætti ég að tala við þann góða landlækni um slíkt? Er kannski heppilegra að samtök á borð við Geðhjálp gerðu athugasemd?
 
 
 
 
 
 

Lóbótómía á Íslandi

Það er ekki líklegt að íslenskir geðlæknar snemma á fimmta áratug síðustu aldar hafi séð lóbótómíusjúkling með eigin augum áður en þeir hófu að láta framkvæma svoleiðis aðgerðir á sínum sjúklingum (nema kannski Gunnar Þ. Benjamínsson sem starfaði á geðsjúkdómadeild Rigshospitalets fram á árið 1945). En þeir Alfreð Gíslason og Kristján Þorvarðsson fylgdust vel með í sínu fagi og nýttu sér hæfni Bjarna Oddssonar til lóbótómíuaðgerða. Bjarni gerði fyrstu lóbótómíuna fyrir þá í febrúar 1948 en ekki fleiri slíkar aðgerðir það árið. En strax um haustið fóru að birtast fréttir í dagblöðum af þessari ágætu læknisaðgerð við geðveiki, sjá t.d. 10,000 heilaskurðir til lækningar sálsjúkum, í Morgunblaðinu 5. september 1948 og  Hugarvíl læknast, í sama blaði í nóvemberbyrjun 1948. 

Bjarni Oddsson lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands árið 1934, sigldi síðan til Danmerkur og lauk doktorsprófi frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1946. Doktorsritgerð hans fjallaði um taugaæxli í mænu. Bjarni vann á ýmsum spítölum í Danmörku meðan á námsdvöl hans þar stóð, áratuginn 1934-44, bæði á fæðingar- og kvensjúkdómadeildum og taugahandlækningadeildum. Meðal annars starfaði hann á deild þeirri sem Eduard Busch veitti forstöðu, á Rigshospitalet. Þegar hann kom til Íslands fékk hann sérfræðingsleyfi í handlækningum, kvensjúkdómum og fæðingarhjálp, árið 1946. Hann starfaði þó einkum sem skurðlæknir á Landakotsspítala, þar á meðal að heila-og taugaskurðlækningum. Bjarni Oddsson lést í bílslysi í septemberbyrjun 1953.

Um lóbótómíur Bjarna Oddssonar segir Bjarni Jónsson læknir, samstarfsmaður hans, í bókinni Á Landakoti, útg.1988, s. 128:
 

    Smám saman opnuðust augu lækna fyrir því, að dr. Bjarni vissi meira um miðtaugakerfi en þeir og fóru í stöku tilvikum að leita ráða hjá honum, og voru það geðlæknar, sem riðu á vaðið. Þá var farið að gera aðgerð á framheila geðveikra – prefrontal lobotomia – og hafði Egas Moniz sem fyrr var nefndur, verið upphafsmaður hennar. Þessa aðgerð var hægt að gera í staðdeyfingu og verkfæralaust að kalla.
    Þá var enginn svæfingalæknir til á landinu, og læknar Landakotsspítala þurftu sjálfir að leggja sér til verkfæri. Úr því svona hagaði til með aðgerðina lagði dr. Bjarni til atlögu og gerði þá fyrstu 1948, árið eftir gerðir hann fjórar, og alls urðu þær fjörtíu og tvær, þær síðustu gerðar 1953.

Hversu margar lóbótómíur voru gerðar á Íslandi?

Lóbótóm�a á ÍslandiÍ bók sinni Kleppur í 100 ár (útg. 2007) segir Óttar Guðmundsson að Bjarni Oddsson hafi gert 28 lóbótómíur, að Bjarni Jónsson hafi tekið við af Bjarna Oddssyni í lóbótómíum á Landakotsspítala og: „Alls er talið að um 140-180 Íslendingar hafi farið í þessa aðgerð.“ (s. 90). Óttar vísar ekki í heimildir fyrir þessu.

Mér þykja staðhæfingar Óttars heldur ótrúlegar. Í fyrsta lagi telur hann einungis þann fjölda lóbótómíuaðgerða sem Bjarni Oddsson gerir grein fyrir í Læknablaðinu 1952 en í þeirri grein er lýst aðgerðum hans á árunum frá 1948 fram í júnílok 1951. Af greinaskrifum Alfreðs Gíslasonar gegn Helga Tómassyni á árunum 1953-55 og fregnum af blaðamannafundinum sem Kristján Þorvarðsson hélt í desember 1953 (sem Óttar Guðmundsson segir ranglega að hafi verið haldinn í janúar 1954) má ráða að eftir lát Bjarna Oddssonar hafi geðlæknar ekki getað sent sína sjúklinga í lóbótómíu, hvorki á Landakot né annað hérlendis. Má raunar ætla að kveikjan að blaðamannafundinum hafi einmitt verið ergelsi sjálfstætt starfandi geðlækna í Reykjavík yfir að missa lóbótómíu-möguleikann og áframhaldandi árásir á Helga sprottnar af sömu rót. (Um þessar opinberu árásir sjálfstætt starfandi geðlæknanna gegn Helga Tómassyni má lesa í færslunni Raflost við geðveiki hérlendis.)

Séu tölur Óttars yfir áætlaðar aðgerðir bornar saman við mannfjöldatölur árin 1950 og 1960 gerir það 80-127 lóbótómíuaðgerðir á hverja 100.000 íbúa. Sambærilegar tölur yfir lóbótómíur í Noregi og Danmörku eru 81 og 85 á 100.000 íbúa en þar er lagt saman 15 ára tímabil, 1945-60, þar sem íslensku tölurnar gætu aldrei átt við meir en 12 ára tímabil, frá 1948-60. Deilt eftir árum væri danska talan tæplega 5,7 lóbótómíur á 100.000 íbúa að meðaltali á ári en sú íslenska 6,6 – 10,6 lóbótómíur á 100.000 íbúa að meðaltali á ári. Þessar tölur, 140-180 lóbótómíur á Íslendingum, virðast því út í hött.

Séu einungis taldar þær 42 lóbótómíur sem Bjarni Oddsson gerði á fimm ára tímabili, duga þær til að skjóta Íslandi í efsta sæti á lista yfir tölur lóbótómíuaðgerða miðað við mannfjölda, því umreiknað eru þetta 6 lóbótómíur á hverja 100.000 íbúa að meðaltali á ári. Vitað er að Íslendingar voru sendir til Danmerkur í lóbótómíu (Jesper Vaczy Kragh segist hafa fundið gögn um sjö Íslendinga sem aðgerðin var gerð á og lágu á Vordingborg geðsjúkrahúsinu) en varla hefur það verið í tugatali, hvað þá að þeir hafi losað hundraðið.

Myndin sýnir hvernig rist er í heilann/hrært í heilanum með leucotom í standard-lóbótómíu en sú aðferð var eingöngu notuð hér á landi.
 
 

Hvernig fór lóbótómía fram hérlendis?

Alfreð Gíslason, Bjarni Oddsson og Kristján Þorvarðsson skrifuðu greinina Lobotomia, sem birtist í  Læknablaðinu sumarið 1952.

Bjarni skrifar fyrsta hluta greinarinnar. Hann segist hafa framkvæmt 28 lóbótómíur síðan 1948 og að mestu leyti fylgt aðferð Freeman og Watts, frontal lobotomi [þ.e. Freeman-Watts standard prefrontal lobotomy]. Hann geri einungis lóbótómíu eftir skriflegri beiðni sjúklingsins sjálfs eða nánustu ættingja hans og lætur geðlækni, jafnvel tvo geðlækna, samþykkja hana. Aðgerðinni og undirbúningi hennar lýsir Bjarni þannig:
 

Kvöldið fyrir aðgerðina fær sjúklingurinn 30 cg luminal [róandi barbítúrlyf] og 1 klst. fyrir aðgerðina 20 cg. luminal. Ég hef framkvæmt 21 af aðgerðunum í staðdeyfingu einni saman, og 7 með staðdeyfingu ásamt evipan [róandi barbítúrlyfi].

Tækni. Borað er 1 cm. breitt gat á hauskúpuna báðum megin. [- – -] Dura [ysta himnan um heilann, kölluð bast á íslensku] er opnuð og cortex [heilabörkur] koaguleruð [?] á litlum bletti á æðalausum stað. Skorin er sundur heilahvíta beggja ennislobi [- – -] Lobotomían er framkvæmd með mjóum spaða eða hnúðkanna, eða sérstöku áhaldi, svokölluðum leucotom. Blæðing er venjulega lítil, en stundum getur blætt talsvert frá æðum í heilaberki og dura og er blæðingin þá stöðvuð með electro-koagulation [- – -]

Eftirmeðferð. Fyrstu dagana er sjúklingurinn látinn liggja í rúminu með hátt undir höfði og herðum. Blóðþrýstingur er mældur og æðaslög talin á klukkustundar fresti fyrsta sólarhringinn [- – -] nauðsynlegt er að vakað sé yfir sjúklingnum fyrstu sólarhringana eftir aðgerðina. Flestir sjúklingar gætu farið af spítalnum 1-2 vikum eftir aðgerð en þyrftu þá helzt að komast á hæli til sérfróðs læknis í geðsjúkdómum til eftirmeðferðar, en flesta sjúklingana hef ég orðið að senda heim til sín [- – -]

Lobotomia á ÍslandiBjarni telur síðan upp helstu hættur samfara þessari aðgerð sem eru blæðing (að æð sé skorin í sundur); blæðing í heilahol (jafnvel lítil blæðing getur verið hættuleg) og að skurðurinn í heilahvítuna sé of aftarlega, þá verða sjúklingarnir sljóir og sinnulausir og „getur það endað í dái (coma) og dauða.“ (Þetta eru sömu atriði og danski læknirinn Broager taldi upp í fyrirlestri sínum á þingi Samtaka norrænna geðlækna í Kaupmannahöfn 1944 og er óneitanlega freistandi að ætla að Bjarni hafi verið viðstaddur hann, þótt hann hefði svo sem vel getað hafa lesið hann.)

Dánartala við frontal lobotomi er frá 2-6%, segir Bjarni, og bætir við að af þeim 28 lóbótómíum sem hann hafði gert þegar greinin var skrifuð hafi einn sjúklingur dáið. Það var 44 ára kona, greind með geðklofa. Hún var þegar við komu á spítalann „sljó og slöpp“ og fékk strax hita eftir aðgerðina, varð sljórri með hverjum deginum og dó á áttunda degi. Bjarni segist halda að hann hafi lagt skurðinn í heilahvítuna of aftarlega.

Ég hef áður vitnað í sjúkrasögu þessarar konu (í færslunni Upphaf lost-lækninga við geðveiki). Hún hafði verið geðveik í 17 ár, árið 1936 fékk hún insúlínlost í þrjár vikur (insúlínlost voru yfirleitt gefin sex daga vikunnar og hvílt þann sjöunda), síðan cardiazol-lost í tuttugu skipti árið 1937. Hvor tveggja lostmeðferðin var veitt á Akureyri, líklega á Fjórðungssjúkrahúsinu þar (enda dvaldi konan í skjóli systur sinnar í Eyjafjarðarsveit skv. öðrum heimildum). Skráð er að cardiazol-lostin hafi gefið allgóðan árangur en bati hélst stutt. Árið 1948 var reynt að gefa henni raflost en þau skiluðu engum árangri. Lokaorðin í sjúkrasögu konunnar í grein Alfreðs, Bjarna og Kristjáns eru: „Lobotomia 17/5 1951, dó 24/5 ’51.“

Myndin er í grein Bjarna og félaga. Myndatexti undir henni er: „Skurður í húð og galea, og borað gat á höfuðkúpu 3 cm. fyrir aftan margo orbitalis lateralis, og 6 cm. fyrir ofan os zygomaticum.“
 

Á hvers konar sjúklingum var lóbótómía gerð?

Í greininni kemur fram að þessir læknar, Kristján og Alfreð, hafi beitt lóbótómíu við ýmsum geðsjúkdómum. Tæpur helmingur sjúklinga þeirra (9 af 20) var greindur með geðklofa (schizophrenia) og fjórðungur sjúklinganna (5 af 20) var með þunglyndisgreiningu (depressio mentis (melancholia)). Hinir voru: 2 með greininguna geðhvarfasýki (psykosis maniodepressiva); 2 siðblindir (psykopathia, ath. að menn skilgreindu siðblindu/geðvillu miklu víðar en gert er nú) og 2 með þráhyggju (anankasmus). Þessar tölur er að finna í greininni sjálfri en þeim ber ekki að öllu leyti saman við enska útdráttinn sem fylgir henni. Að mati greinarhöfunda varð tæpur helmingur allra sjúklinganna miklu betri (9 sjúklingar) og 7 urðu betri. Hér eru tvö dæmi, um miklu betri og betri árangurinn.
 

S. B. var greind með geðklofa og ofsóknarhugmyndir samfara honum.
 

    S.B. er 33 ára kona, gift sjómanni. Ekki er vitað um geðveiki í skyldmennum.
    Sjúkdómurinn byrjaði fyrir 8 árum, eftir barnsburð, með ranghugmyndum, ofsóknarhugmyndum, sem beindust gegn ákveðnu fólki og þó einkum gegn nábúum. Stundum ofheyrn, heyrði fólk tala inni í sér, stöku sinnum æst og beitti þá ofbeldi, ekki greinilega þunglynd, en stundum leið. Virtist heldur daufgerð og tilfinningasljó.
    Sjúkdómur: Schizophrenia (sennilega dementia paranoides).
    Raflost reynt, en án árangurs.
    Lobotomia 11/6 1949.
    Eftirrannsókn 15/11 1951. Ástandið í heild miklu betra, ofsóknarhugmyndir horfnar, er hress í skapi og finnst henni líðanin betri. Sér að öllu um heimilið (gerði það áður), svefn góður. Er nú barnshafandi í þriðja sinn, finnst heldur miður, en tekur ekki fóstureyðingu í mál af siðferðilegum ástæðum.
    Árangur: Miklu betri.

B.J.B. var greind siðblind og í sviga er tiltekið að hún sé haldin sjúklegri lygaáráttu (mytomaniu), stelsýki (kleftomaníu) og ástsýki (erotomaniu):
 

    B. J. B. 19 ára, óg. kona.
Arfhneigð: geðveila (psychopathia) bæði í föður-og móðurætt. Sjúklingurinn hefur frá 10 ára aldri verið þjófgefin og ósannsögul. Eftir 13 ára aldur mjög vergjörn (erotoman) og lauslát. Víns hefir hún neytt nokkuð, en þolir illa og verður ölvuð af litlum skömmtum, einnig man hún mjög illa það, sem gerist, er hún er ölvuð. – Að skapgerð kát og með köflum óeðlilega kát (hypomania) með geysilegt ímyndunarafl og hugarflug. Hún hefir verið við ýmisleg störf, en alls staðar komið sér út úr húsi, vegna þjófnaðar og ósannsögli. Til stórvandræða horfir um framtíð hennar, allar lækningatilraunir reynzt árangurslausar.
    Sjúkdómur: Psychopathia (myto-klepto-erotomania).
    Lobotomia 21/6. 1951.
Eftirrannsókn 5/12. 1951. Eftir aðgerð róleg og ekki sljó. Hefir unnið við eldhússtörf í héraðsskóla í sveit, komið sér vel. Kom til Reykjavíkur (á þar heima) og dvaldi þar í viku, og bar ekki á neinu sjúklegu.
    Árangur: Betri.
 

Deilur um lóbótómíu hérlendis

Þótt geðlæknarnir (Alfreð, Kristján og e.t.v. fleiri), sem og aðrir læknar, hafi vísað sínum sjúklingum í lóbótómíu til Bjarna Oddssonar á Landakotsspítala meðan hans naut við var áhrifamesti geðlæknir landsins, Helgi Tómasson yfirlæknir á Kleppi, algerlega mótfallinn þessari aðgerð. Sjálfstætt starfandi geðlæknarnir hömuðust gegn Helga í dagblöðum eftir að Bjarni Oddsson dó, flögguðu gjarna nafni hins fræga prófessors Busch (sjá t.d. grein Alfreðs Gíslasonar, Seinheppin heilbrigðisstjórn, í Tímanum 23. júní 1955) en vitaárangurslaust. Þeir ásældust aðstöðu á Kleppi, sennilega vildu þeir fyrst og fremst fá aðstöðu til að láta gera lóbótómíur en einnig til að beita raflostum á sjúklinga sína. (Hluti blaðagreinaárásanna er rakinn í færslunni Raflost við geðveiki hérlendis.)

Þegar Helgi svaraði loks Alfreð og félögum, í greininni Rafrot við geðveiki, í Heilbrigðisskýrslum 1951 (sem komu út snemmsumars 1955) fjallar hann lítið um lóbótómíu í því svari enda taldi hann aðgerðina mun skaðminni en raflostmeðferð og taldi hana auk þess hafa „lifað sitt fegursta“ í þáverandi mynd. Hann segir þó nokkuð af lóbótómíu, þar á meðal útskýrir hann hve ónákvæm skurðaðgerðin sjálf er því:
 

[…] lega ýmissa svæða á heilayfirborðinu er breytileg frá manni til manns og að mikil óregla (asymmetri) er á því hvernig samsvarandi heilasvæði liggja í hægri og vinstri heilahelmingi í sama manni. Þegar skurðalæknar telja sig hafa skorið þetta eða hitt sérstaka svæði, getur þar því skakkað miklu. Það er m.ö.o. ógerlegt að vita með vissu, hvaða heilasvæði (area) maður hittir eða hvaða brautir maður sker í sundur [- – -]

Svo ónákvæm skurðargerð er að mati Helga Tómassonar að tefla á tæpasta vað „siðferðilega, lagalega og einnig læknislega“. Hann útlistar álit sitt nánar með þessum hætti:
 

Mér virðist aðgerðin yfirleitt ekki koma til greina, nema maður ætli sér að gera andlega „amputation“, sem þó væri frekar „mutilation“, því að slíkri „amputationsaðgerð“ svipar til þess að maður ætli sér að gera venjulega „amputation“ rétt fyrir ofan ökla, en hitti liminn einhvers staðar á milli ökla og nára, eða lenti jafnvel stundum í kviðarholi og næði þá skástum árangri með „amputationinni“.

Árangur lóbótómíu

Í grein Alfreðs, Kristjáns og Bjarna segir að skv. eftirrannsókn á þeim 20 sjúklingum (af 28 lóbótómíuþegum 1948-51) sem gerð var í okt.-des. 1951 hafi komið í ljós að 9 sjúklingum hafi batnað alveg eða mjög, 7 sjúklingar séu betri, 1 sjúklingur ofurlítið betri og 2 hafi ekki batnað. Einn sjúklingur lést af aðgerðinni. Skv. þessu hefur lóbótómía skilað yfir 80% sjúklingahópsins bata, ýmist fullum bata eða að hluta. Það er vitaskuld frábær árangur! Grein íslensku læknanna sker sig svo sem ekkert úr lofsöng erlendra lækna, t.d. danskra, laust eftir 1950. Og íslensku dagblöðin bergmáluðu erlenda umfjöllun, sjá t.d. lofgrein um sænska heilaskurðlækninn Olivecrona í Vikublaðinu í mars 1950 eða  Ungur maður læknaður af glæpahneigð með heilaskurði, í Alþýðublaðinu 17. okt. 1952. Í febrúar 1953 birti Mánudagsblaðið viðtal við átrúnaðargoð íslenskra (geð)lækna, Eduard Busch, þar sem haft er orðrétt eftir honum um lóbótómíu: „Við höfum séð gerast sannkölluð kraftaverk eftir slíkar aðgerðir, og að bandvitlaust fólk hafi fengið fullan bata.“ (Í lok viðtalsins er svo skorað á íslensk heilbrigðisyfirvöld að kynna sér þessa aðgerð og „losa okkur við það álit, að vera álitin viðundur á þessu sviði“, þarf ekki stórkostlega túlkunarhæfileika til að grilla í geðlæknana Alfreð og Kristján bak við þessa áskorun).

Eðli málsins samkvæmt er erfitt að finna heimildir um afdrif einstaklinga sem hafa undirgengist lóbótómíu. Hér skulu þó nefnd tvö dæmi:

Í bókinni Kleppur í 100 ár rekur Óttar Guðmundsson sögu frænku sinnar, sem nefnd er I.S. í grein þeirra Alfreðs, Kristjáns og Bjarna. I.S. var 22 ára fyrrverandi afgreiðslustúlka, greind með geðklofa og hafði verið veik í fjögur ár þegar Bjarni Oddsson gerði á henni lóbótómíu (áður hafði tvisvar sinnum verið reynt raflost við sjúkdómnum). Þeir telja hana betri eftir aðgerðina og lýsa ástandi hennar, eftir lóbótómíu í febrúar 1951, nánar svo:

Lagaðist fyrst mikið eftir aðgerð, var róleg, glöð og ánægð, svefn góður, ofurlítið sljó og vottaði fyrir autismus og hélzt þetta í 4 mánuði, en þá byrjaði hún að flakka um, varð sljórri og kjánaleg (fatuið) í látbragði, var ekki æst og vann lítið eitt við hússtörf.

Óttar rekur söguna áfram og segir að ný lóbótómía hafi verið gerð hinum megin í framheilanum sama ár og „varð hún sæmilega róleg í tæpt ár. Þá lagðist hún aftur í flakk, varð mjög masgefin, hortug og alveg óviðráðanleg. Svefninn mjög lélegur.“ (s. 106). Í grein Alfreðs o.fl. um lóbótómíu er ekki minnst á að aðgerðin hafi verið gerð aftur sem er einkennilegt. Þeir mátu sjúklinginn I.S. í október 1951 og í greininni er lýst eftirrannsóknum á sjúklingum sem þeir gerðu fram í desember 1951. E.t.v. hafa þeir endurtekið aðgerðina seint í desember það ár og þá verið búnir að skila af sér greininni.

I.S. var lögð inn á Kleppsspítala í janúar 1953 og var viðloðandi spítalann til æviloka. Um áhrif lóbótómíunnar segir Óttar:
 

Hún bar greinilega öll merki lóbótómíu, var mjög flöt og sljó í öllum tilsvörum og framgöngu. Ekki sýndi hún nein geðbrigði eða skilning þegar ég ræddi við hana um ættingja sem þekktum bæði eða æskustöðvar hennar í Vestmannaeyjum og Langholtshverfinu. Lóbótómían virðist hafa klippt á allar tilfinningalegar tengingar hennar við það líf sem hún eitt sinn lifði.

Í minningargrein um Ólaf Geirsson, árið 1965, skrifar fyrrverandi sjúklingur hans af Berklahælinu á Vífilsstöðum athyglisverða lýsingu á því hvernig læknirinn, sem sjúklingurinn treystir, talar hann með lagni til að fara í aðgerð sem sjúklingurinn hafði illan bifur á. Virðist lóbótómían hafa lítinn sem engan árangur hafa borið til bóta sjúklingnum en því fer fjarri að hann beri kala til læknisins á eftir.
 

Þegar ég kom að Vífilsstöðum árið 1951, var ég sjúk bæði á sál og líkama. Truflun á efnaskiptum líkamans hafði þrúgað svo taugakerfi mitt að í algert óefni var komið. Þá tóku þessir mætu mannvinir, Ólafur heitinn og Helgi Ingvarsson, höndum saman og slógu um mig varðlokur [- – -] Og kom nú Ólafi Geirssyni í hug heilagerð [svo] sú, er lobotomi nefnist og oft hefur reynst rík til árangurs. Íslenzkur læknir var þá á lífi, sem fékkst við þessar aðgerðir, Bjarni heitinn Oddsson. Blessuð sé minning hans. Réði nú Ólafur mér að leita þessa ráðs, en ég var lengi treg. Mun þar hafa ráðið nokkru að ég hef aldrei verið kjarkkona og treg orðin að trúa á árangur. En þó mun þar mestu hafa ráðið, að tilhugsunin við að láta hrófla við þessu viðkvæma líffæri, heilanum, skóp mér beyg við einhverja breytingu, er verða kynni á sjálfri mér til hins lakara. Ég þæfði því lengi á móti. Ólafur heitinn skildi mig út í æsar og sótti mál sitt ekki fast. Hann hvorki skipaði né bað. En hann setti sig ekki úr færi að bera þær aðgerðir af þessu tagi í tal, sem hann kunni sögur af. Segja mér frá þeim og árangri þeirra, einnig að útlista fyrir mér, í hverju þær væru fólgnar og árangur þeirra, rétt eins og hann væri að ræða við jafningi við jafningja sinn. Þessum hæverska áróðri hélt hann áfram uns ég fór að linast. Hugsaði loks sem svo, að það mikið hefði Ólafur fyrir mig gert, að skylt væri að sýna honum það traust að hlíta ráðum hans. Var svo aðgerðin gerð. En með þvi að sjúkdómurinn var búinn að leika mig grátt, var ég nokkuð lengi að ná mér á eftir. Gekk svo fyrsta árið, að á mig sóttu geðtruflanir, sem lýstu sér í þunglyndi og ýmis konar firrum. Dvaldi ég í skjóli þeirra Vífilsstaðalækna — og hef ég oft hugsað til þess með kinnroða, hve þreytandi sjúklingur ég hlýt að hafa verið þennan tíma.

Helgi Tómasson segir að það hafi komið til greina af sinni hálfu að beita lóbótómíu á þrjá sjúklinga á Kleppi en af því hafi ekki orðið því ekki náðist samkomulag um hvernig aðgerðinni skyldi hagað. (S.s. nefnt var hér að ofan blöskraði Helga hversu ónákvæm prefrontal lóbótómían var.) Tveimur af þessum þremur sjúklingum hafi svo batnað talsvert af sjálfu sér.

Um reynsluna af lóbótómíusjúklingum segir Helgi Tómasson:
 

… við höfum nú á seinustu 4 árum fengið á spítalann 8 sjúklinga, sem aðgerð þessi hefur verið gerð á. Eru þeir allir óbætanlegir og slík hryggðarmynd andlegs tómleika, að mjög forhertan mann þyrfti til þess að tefla sínum nánustu eða skjólstæðingi sínum í þá tvísýnu að geta orðið þannig fyrir aðgerð, sem aldrei getur talizt lífsnauðsynleg.

  

Niðurlag

Það er skelfilegt til þess að hugsa að Ísland hefði getað skarað rækilega fram úr í lóbótómíu-aðgerðum heimsins á sjötta áratug síðustu aldar, nógu vel stóðu Íslendingar sig í þau fimm ár sem svona aðgerðir voru gerðar hérlendis. Í rauninni var bara tvennt sem kom í veg fyrir að svo yrði: Annars vegar sterk og óbifanleg andstaða Helga Tómssonar, yfirlæknis á Kleppi, og hins vegar að skurðlæknirinn sem gerði þessar aðgerðir lést í bílslysi í september 1953. Hefðu sjálfstætt starfandi geðlæknar í Reykjavík haft næga burði til að koma sér upp annarri aðstöðu til að gera lóbótómíur ættum við örugglega þetta óhugnalega heimsmet.
 
 
 
 

Heimildir aðrar en þær sem krækt er í úr færslunni:
 

Alfreð Gíslason, Bjarni Oddsson og Kristján Þorvarðsson. Lobotomia. Læknablaðið 36. árg., 7. tbl. 1952.

Bjarni Jónsson. Á Landakoti. Setberg 1988.

Helgi Tómasson. Rafrot við geðveiki. Heilbrigðistíðindi 1951. Útg. af landlækni 1955.

Kragh, Jesper Vaczy. Det hvide snit. Psykokirurgi og dansk psykiatri 1922-1983. Syddansk Universitetsforlag. 2010.

Óttar Guðmundsson. Kleppur í 100 ár. JVP útgáfa, 2007.
 

Lóbótómía við geðveiki

Þann 27. desember 1935 hratt portúgalski taugalæknirinn Egan Moniz hugmynd sinni um skurðlækningu við geðveiki í framkvæmd. Aðgerðin fór fram á Santa Marta sjúkrahúsinu í Lissabon en Moniz gat ekki framkvæmt hana sjálfur því hann þjáðist mjög af gigt í höndum, svo það var aðstoðarlæknirinn hans sem skar, taugaskurðlæknirinn Almeida Lima. Sjúklingurinn var 47 ára gömul kona sem þjáðist af þunglyndi og kvíða.
 

Sjúklingurinn var svæfður, borað gat ofan á höfuðkúpuna, alkóhóli sprautað í enniblöð/ennisgeira (frontal lobes) til að skadda taugatengsl og e.t.v. hrært í ennisblöðum með levkotomi (heimildum ber ekki saman um hvort Moniz hafi notað þetta áhald frá upphafi eða frá því í sjöundu lóbótómíutilraun sinni). Engin eftirköst voru fyrst eftir aðgerðina, sjúklingurinn kvartaði einungis yfir höfuðverk. Árangurinn var ekki eins góður og Moniz hafði vonast til: Að vísu hvarf kvíði konunnar en hún var áfram þunglynd og var nú að auki orðin sljó og sinnulaus (apatísk).

Prefrontal lóbótóm�a

Moniz lét ekki hugfallast heldur prófaði aðferðina á fleiri sjúklingum. Fyrir frekari tilraunir lét hann smíða sérstakt áhald til aðgerðarinnar, ellefu sentimetra langt mjótt rör og var hægt að skjóta út úr því beittum stálþræði með einum smelli, væri áhaldinu síðan snúið í hring skar þráðurinn u.þ.b. sentimetra hring að ummáli. Hann gaf aðgerðinni nafnið leukotomi (stafsett leucotomy á ensku), af grísku orðunum levkos, sem þýðir hvítur, og tomia, sem þýðir skurður, enda skyldi skurðurinn gerður í ennisblöðum/ennisgeira heilans þar sem var fjöldi hvítra taugaþráða. Áhaldið nefndi hann leukotom. Skurðum var fjölgað allt upp í sex og hætt að sprauta alkóhóli í heila sjúklinganna. Á nokkrum mánuðum var leukotomian reynd á 20 sjúklingum með ýmiss konar geðsjúkdómsgreiningar; tæpur helmingur sjúklinganna var greindur þunglyndur, sex voru með geðklofa, tveir með felmtursröskun og svo voru einstakir fulltrúar annarra geðsjúkdóma. Í ritgerð sem Moniz birti árið 1936 hélt hann því fram að 7 af þessum sjúklingum hefðu fengið fullan bata og 7 sjúklingum hefði batnað umtalsvert; aðgerðin skilaði sem sagt 70% bata í blönduðum sjúklingahópi. (Skýringarteikningin hér að ofan sýnir hvar Moniz boraði og skar og einnig áhaldið sem hann notaði.)

Þetta þóttu mikil tíðindi í heimi geðlækninga. Meðal þeirra sem heilluðust strax af fréttunum um feikigóðan árangur leukotomiu var ameríski taugalæknirinn Walter Freeman. Hann og skurðlæknirinn James Watts gerðu fyrstu leukotomiu-aðgerðina í Bandaríkjunum í september 1936. Þeir Freeman og Watts gerðu ýmsar tilraunir til að endurbæta aðferðina og komu sér ofan á þá aðferð að bora göt á höfuðkúpuna við gagnaugu hvoru megin og stinga inn áhaldi sem minnti helst á pappírshníf, snúa því lóðrétt og skera hálfhring í ennisblöð. Með þessari aðferð var minni hætta á að skera sundur æðar í heilanum, á hinn bóginn fylgdi henni sá ókostur að skurðlæknirinn sá alls ekki hvar hann skar í ennisblöðin og varð að giska á hversu djúpt skyldi stinga áhaldinu. Freeman og Watts kölluðu aðgerðina lobotomi, af gríska orðinu lobos sem þýðir blöð og tomia, sem þýðir skurður.

Freeman og Watts birtu fjölda greina um góðan árangur lobotomiunnar og árið 1942 kom út stórt ritverk eftir þá, Psychosurgery, sem vakti alheimsathygli á lóbótómíu. Árið 1943 stakk Freeman upp á því við Nóbelsnefndina að Egas Moniz yrði tilnefndur til Nóbelsverðlauna í læknisfræði fyrir miklvægt framlag til lækningar geðveiki en Nóbelsnefndin tók þá uppástungu ekki til greina.

Upphafsmenn lóbótómíu þögðu hreint ekki yfir fylgikvillum aðgerðarinnar. Egan Moniz nefndi að sjúklingar gætu fengið hita eftir aðgerðina, ælt, haldið hvorki saur né þvagi og sjón þeirra truflast, auk þess sem vart varð hreyfitregðu (akinesia), sljóleika, drunga, stelsýki, óeðlilegrar hungurtilfinningar og að sjúklingar voru illa áttaðir í rúmi og tíma. Freeman og Watts sögðu frá persónuleikabreytingum, að sumir sjúklingar yrðu tilfinningakaldir, tillitslausir og hirtu hvorki um boð né bönn. Örvefur eftir skurðina gat valdið flogaveiki, raunar voru flog með algengustu fylgifiskum hennar. Alvarlegustu „fylgikvillarnir“ voru þó banvæn heilablæðing: Í fyrstu tilraunum Freeman og Watts hlutu um 5% sjúklinganna bana af aðgerðinni.
 

Lóbótóm�a um augntóttSeinna einfaldaði Walter Freeman lóbótómíuna svo ekki þurfti lengur að framkvæma hana á skurðstofum sjúkrahúsa heldur gátu geðlæknar/taugalæknar gert hana sjálfir á geðspítölum eða stofu. Einfaldaða aðgerðin, transorbital lobotomy (lóbótómía gegnum augntótt), fólst í því að stinga sérstöku beittu áhaldi, nokkurs konar sting (kallaður orbitoclas eða leucotome), undir augnlok sjúklings, slá á áhaldsskaftið með hamri til að komast gegnum augntóttina og upp í heila til móts við nefrót. Stingurinn var hamraður um tvo sentimetra inn í ennisblöðin og síðan snúið sitt á hvað til að skera í ennisblöðin. Markmiðið var að skera þvert á hvíta efnið (taugaþræðina) sem tengdu saman framheilabörk og stúku. Stingurinn var svo dreginn út og aðgerðin endurtekin gegnum hina augntóttina. Aðgerðin tók bara sjö mínútur og yfirleitt deyfði (svæfði) Freeman sjúklingana með því að gefa þeim nokkur raflost svo þeir misstu meðvitund.

Teikningin til vinstri sýnir hvernig lóbótómía um augntótt er gerð.

Freeman gerði fyrstu lóbótómíuaðgerðiirnar um augntótt árið 1946 en ári síðar lauk samstarfi hans og taugaskurðlæknisins Watts því hinum síðarnefnda ofbuðu nýju aðfarirnar. Öðrum hugnaðist lóbótómía gegnum augntótt þó nægilega vel til þess að árið 1949 var sett met í  lóbótómíuaðgerðum í Bandaríkjunum, það árið voru gerðar 5.074 lóbótómíur. Noregur var eina Norðurlandið sem leyfði transorbital lóbótómíu, á hinum Norðurlöndunum héldu menn sig yfirleitt við lóbótómíu um gagnaugu.
 
 

Moniz, Freeman og fleiri kynntu mismunandi lóbótómíuaðferðir, sem þeir tveir höfðu komið sér saman um að hétu einu nafni psychosurgery (geðskurðaðgerðir), á Fyrstu alþjóðlegu geðskurðaðgerða-ráðstefnunni, í Lissabon í ágúst 1948. Meir en hundrað vísindamenn frá 27 löndum sóttu ráðstefnuna. Meðal þátttakenda voru tveir danskir geðlæknar og hinn heimsfrægi danski taugaskurðlæknir, Eduard Busch.

Á Youtube má horfa á brot úr heimildamynd um Walter Freeman, þar sem hann sýnir og útskýrir aðferð sína, lóbótómía um augntótt. Viðkvæmir ættu ekki að horfa á þetta.

Nóbelsverðlaun MonizÁrið eftir, 1949, fékk Egas Moniz Nóbelsverðlaunin í læknisfræði fyrir hina merku uppfinningu sína lóbótómíu (hann deildi að vísu verðlaununum með öðrum lækni). Einn af þeim níu vísindamönnum sem höfðu skrifað Nóbelsnefndinni og hvatt til að veita Moniz verðlaunin var Eduard Busch. Í bréfinu sagði Busch að uppfinning Moniz markaði tímamót bæði í meðferð geðsjúkra og geðlæknisvísindum. Sá sem skrifaði skýrslu um Moniz fyrir Nóbelsnefndina var sænski taugaskurðlæknirinn Herbert Olivercrona, sem sjálfur var upphafsmaður lóbótómíu í Svíþjóð. Hann lofaði mjög uppfinningu Moniz.

Myndin er af Nóbelsskjali Moniz. Á því segir að hann hljóti verðlaunin „för hans upptäkt av den prefrontala leukotomiens terapeutiska värde vid vissa psykoser.“
 

Þegar ný geðlyf (fyrst og fremst klórprómazín en reserpin einnig) komu á almennan markað sumarið 1954 hröpuðu vinsældir lóbótómíu mjög þótt enn héldu menn áfram að beita henni næsta áratuginn og enn þann dag í dag eru gerðar geðskurðaðgerðir.
 

Vinsældir lóbótómíu í ýmsum löndum

Í Bandaríkjunum voru gerðar, að talið er, á milli 25 og 30.000 lóbótómíur á árunum 1936-56. Í Bretlandi voru aðgerðirnar 11-12.000 á sama tímabili. Í sumum löndum voru einungis fáar lóbótómíur gerðar, s.s. í Þýskalandi, Ísrael, Tyrklandi og Sovétríkjunum (í síðasttalda ríkinu var lóbótómía bönnuð árið 1950, hún var hins vegar tekin upp þar undir lok tuttugustu aldar). Samanlagt er talið að í heiminum öllum hafi verið gerð lóbótómía á 60-80.000 manns á tímabilinu 1936-56. Raunar sker Skandinavía sig úr þegar tölur yfir lóbótómíuaðgerðir eru skoðaðar því þær voru 2.5 sinnum algengari þar miðað við mannfjölda en í Bandaríkjunum. Lóbótómía var fyrst gerð í Svíþjóð árið 1944, í Noregi árið 1941, í Finnlandi árið 1946, í Danmörku árið 1944 og á Íslandi 1948. Af Norðurlöndunum hefur einungis Noregur greitt lóbótómíusjúklingum skaðabætur eftir aðgerðina.

Þessi tafla er í doktorsritgerð Kenneth Ögren, Psychosurgery in Sweden 1944-1958. The Practice, the Professional and the Media Discourse (2007):
 

Tölur um lóbótóm�u
 
 

Séu tölur yfir lóbótómíu á árunum 1945-60 bornar saman við mannfjöldatölur árið 1950 kemur í ljós að tíðni aðgerðanna í Danmörku var um 85 aðgerðir á hverja 100.000 íbúa á 15 ára tímabili, í Noregi 81 aðgerð á hverja 100.000 íbúa, í Svíþjóð u.þ.b. 63 aðgerðir á hverja 100.000 íbúa og í Finnlandi 36 á hverja hundrað þúsund íbúa. Dönsku tölurnar má einnig túlka sem að meðaltali tæplega 5,7 aðgerð á 100.000 íbúa á ári. Í bókinni Det hvide snit (útg. 2010) gerir Jesper Vaczy Kragh mikið úr því að Danmörk hafi slegið öll met í lóbótómíum og veltir fyrir sér hvers vegna það hafi verið.

Í þessu sambandi er fróðlegt að skoða tölur yfir lóbótómíur á Íslandi (en sérstök færsla um þær bíður). Á tímabilinu 1948-1953 voru gerðar 42 svona aðgerðir hér á landi. Mannfjöldi þann 1. janúar 1950 var 141.042. Með sömu reikningsaðferð fæst út heildartalan 30 lóbótómíur á hverja 100.000 íbúa. Sé tekið tillit til þess að hér er einungis um fimm ára tímabil að ræða og reiknað út meðaltal á ári gerir það 6 lóbótómíur á ári á hverja 100.000 íbúa, sem sagt eilítið hærri tala en danska talan sem þó þykir svimandi há í alþjóðlegum samanburði. Má því ætla að ef ekki hefðu komið til sérstakar aðstæður hérlendis, sem gerð verður betri grein fyrir í næstu færslu, hefði Ísland verið með efstu löndum á topp-tíu vinsældarlista lóbótómíunnar, jafnvel í fyrsta sæti.
 

Lóbótómía í Danmörku

Lóbótómía varð snemma kunn meðal geðlækna og taugalækna í Danmörku því þeir fjölmenntu á Þriðja alþjóðlega taugalækningaþingið, sem hófst í Kaupmannahöfn 21. ágúst 1939, og lærðu þar ekki bara um gagnsemi raflosta við geðveiki heldur gafst einnig kostur á að hlýða á sjálfan Walter Freeman fjalla um lóbótómíu. Freeman sagði frá þeim 54 tilraunum með lóbótómíu sem hann hafði þá gert.

Á þeim tíma sem lóbótómía var sem mest iðkuð voru haldin fjögur þing Samtaka norrænna geðlækna, hið fyrsta í Kaupmannahöfn 1946, næsta í Helsinki 1949, þriðja í Stokkhólmi 1952 og hið fjórða í Osló 1955. Ég get ekki fundið upplýsingar um þátttöku Íslendinga á þessum þingum nema á þinginu í Kaupmannahöfn 1946. Það sóttu 269 þáttakendur og 168 aðrir. Þar var einn skráður þátttakandi frá Íslandi, Helgi Tómasson, sem var reyndar kjörinn einn af þingforsetum. Mig grunar að fleiri Íslendingar hafi verið viðstaddir þetta þing, þ.e. að Bjarni Oddsson, sem var að ljúka doktorsgráðu í taugaskurðlækningum frá Kaupmannahafnarháskóla, hafi einnig sótt það. Á þessu þingi fluttu danski læknirinn Broager, sænski læknirinn Wohlfahrt og norski læknirinn Dedichen fyrirlestra undir sameiginlega heitinu Geðlækningar, sérstaklega lóbótómía og lostlækningar. Broager benti á helstu hætturnar við lóbótómíu sem hefðu yfirleitt í bana í för með sér. Þær væru:
 

  • Blæðing vegna þess að stórar æðar væru skaddaðar;
  • Hættan á að opna heilahliðarhol;
  • Skurðurinn væri gerður of aftarlega.

Ég get þessa hér vegna þess að þetta eru nákvæmlega sömu hætturnar og Bjarni Oddsson, læknirinn sem gerði lóbótómíur hérlendis, telur upp í grein í Læknablaðinu 1952 (sem fjallað verður um í næstu færslu).
 

Á árunum 1944-1983 voru gerðar yfir 4.000 lóbótómíur í Danmörku, sem er margfalt hærra hlutfall miðað við mannfjölda en í Bandaríkjunum og Bretlandi. Í bókinni Det hvide snit reynir höfundurinn, Jesper Vaczy Kragh, að grennslast fyrir um af hverju aðgerðin varð svona feikivinsæl í Danmörku. Hann nefnir í þessu sambandi tvo sjónarmið sem einkum eru ríkjandi þegar menn skoða lóbótómíu í sögulegu ljósi: Annars vegar að þetta hafi verið örþrifaráð til hjálpar ólæknandi sjúklingum, sprottið af þörf lækna til að reyna að lina þjáningar sjúklinga sinna, hins vegar að þetta hafi verið áhrifarík leið til að hafa stjórn á erfiðum sjúklingum á yfirfullum geðspítölum. Þessar tvær kenningar hafði hann í huga þegar hann rannsakaði efnið og mátar þær reglulega við gögnin sem hann skoðar.

Vaczy fjallar um að staða geðlækna hafði breyst nokkuð laust áður en lost-lækningar og lóbótómía komu til sögunnar. Hún hafði batnað að því leyti að geðlæknar fengu ákveðið vald og virðingu í samfélaginu. Þetta var einkum fólgið í því að geðlæknar dæmdu um sakhæfi afbrotamanna, voru eiginlega hluti af löggæslunni að því leyti, og geðlæknar skáru úr um hvort eða hvenær gera skyldi fólk ófrjótt vegna fávitaháttar eða geðveiki. (Þeir fengu það hlutverk með lögum  árið 1929. Íslenskum geðlæknum var falið sama hlutverk með lögum árið 1938, þ.e.a.s. í þriggja manna nefnd sem átti að vera landlækni til ráðuneytis um framkvæmd laganna skyldi „einn vera læknir, helzt sérfróður um geðsjúkdóma“, svo sem segir í 5. grein laganna.) Staða danskra geðlækna meðal lækna hafði líka eflst eftir að þeir fyrrnefndu fengu tæki og tól, nefnilega með lostlækningum við geðveiki. (Þótt dönskum geðlæknum væri raunar sjálfum ljóst frá 1941 að árangurinn af cardiazol- og insúlínlostum var sorglega lélegur höfðu þeir þó áfram tröllatrú á raflostum.) Í ljósi alls þessa lá frekar beint við að víkka svið geðlækninga yfir á svið heilaskurðlækninga.

Fyrsta lóbótómían í Danmörku var gerð á sjúklingi á Vordingborg geðsjúkrahúsinu. Hann var sendur á Rigshospitalet í Kaupmannahöfn þar sem Eduard Busch gerði aðgerðina á honum í desember 1944. Sjúklingurinn var greindur geðklofa og hafði verið eitthvað til vandræða á Vordingborg vegna hegðunar, sem þó verður ekki talin sérlega árásargjörn af lýsingu í Det hvide snit. Svo virðist sem það hafi fyrst og fremst verið fyrir eindregna ósk fjölskyldu mannsins sem lóbótómía var reynd. Aðgerðin tókst vel en ekki varð mikill munur á sjúklingnum til bóta, e.t.v. þó einhver.

Næsti sjúklingur var líka frá Vordingborg, fyrrverandi kennslukona sem hafði verið þunglynd frá 1934 og dvalið á ýmsum stofnunum öðru hvoru. Í sjúkraskýrslum er henni lýst sem þunglyndri, fullri af sjálfsmeðaumkun og oft hágrátandi. Búið var að reyna cardiazol-lost án árangurs. Hún fór í aðgerðina á Rigshospitalet snemma árs 1946. Fljótlega varð ljóst að henni hafði ekkert batnað heldur þvert á móti versnað. Áfram var hún þunglynd og volandi en nú hafði bæst við að hún hélt hvorki saur né þvagi. Fimm mánuðum eftir lóbótómíuna fékk hún flog. Reynt var að útskrifa konuna snemma árs 1948 og skrifað í sjúkraskrá að hún sé „betri eftir lóbótómíu“. Sex mánuðum síðar var hún lögð aftur inn á Vordingborg og dvaldi þar árum saman áður en næst var reynt að útskrifa hana. Sama var með karlmanninn sem fyrsta lóbótómían var gerð á, hann var útskrifaður skömmu eftir lóbótómíuna, skrifað „betri“ í reitinn fyrir núverandi sjúkdómsástand, en lagður aftur inn í árslok 1946 og dvaldi mörg ár á Vordingborg eftir það.

Lóbótóm�usjúklingur fyrir og eftirYfirlæknirinn á Vordingborg, Vagn Askgaard, skrifaði samt í bréfi til Ríkisgeðspítalaráðsins (Direktoriet for Statens Sindssygehospitaler) í maí 1947 að báðir þessir sjúklingar hafi hlotið mikið gagn af lóbótómíu, konan hafi orðið umtalsvert betri og mikill munur sé á karlmanninum. Þetta varð upphafið að afar jákvæðum skrifum danskra geðlækna um lóbótómíu. Rétt er að geta þess að lóbótómía var gerð á a.m.k. sjö íslenskum sjúklingum á Vordingborg að sögn Jesper Vaczy Kragh (hann vitnar í skrár frá 1951 sem heimild fyrir þessu, auk óársettra sjúkraskráa af Vordingborg).

Myndirnar eru ekki teknar í Danmörku heldur birti Walter Freeman þær í einni ritsmíð sinni um ágæti lóbótómíu um augntótt. Þær eru af geðklofasjúklingi fyrir og eftir aðgerð; Sú lengst til vinstri er tekin árið 1945, hin er tekin 1948, átta dögum eftir lóbótómíu um augntótt, að sögn Freeman. 

Eins og annars staðar í heiminum var mikill meirihluti lóbótómíusjúklinga á Vordingborg konur. (Undantekning frá þessu er Noregur þar sem kynjaskipting var jöfn.) Þar skipuðu konur 68,5% af þeim hópi sem gerð var lóbótómía á, karlar 31,5%. Þetta skýrist ekki af kynjahlutföllum í innlögðum sjúklingum því á dönskum geðspítölum voru venjulega um 54% konur og 46% karlar í sjúklingahópi á þessum tímum.

Kölluðu yfirfullir geðspítalar á lóbótómíu? 

Þegar athugað er hvað af hefðbundnum sögulegum skýringum á vinsældum lóbótómíu eigi við í Danmörku kemur ýmislegt einkennilegt í ljós. Fyrsta skýringin, að geðspítalar hafi verið yfirfullir af ólæknandi sjúklingum, stenst ekki. Svo undarlega vill nefnilega til að hernám Þjóðverja (1940) hafði þau áhrif að langar biðraðir eftir plássi á dönskum geðspítölum gufuðu gersamlega upp og raunar var talsvert um laus pláss á spítölunum allan þann tíma sem síðari heimstyrjöldin stóð. Engin skýring hefur fengist á því af hverju geðheilsa dönsku þjóðarinnar batnaði svo mjög við að vera hernumin. Það er hins vegar ljóst að þegar Danir tóku upp lóbótómíu átti plássleysi á dönskum geðspítölum engan þátt í því.

Var lóbótómía örþrifaráð þegar allt annað hafði brugðist?

Önnur skýring sem oft er nefnd er að lóbótómía hafi verið þrautalending og einungis reynd þegar önnur úrræði höfðu brugðist. Kragh fór þá leið að gaumgæfa öll gögn um 285 sjúklinga á Vordingborg, úr hópi þeirra sem lóbótómíu var beitt á á nokkurra ára tímabili. Niðurstaðan var sú að einungis 2,44% sjúklinganna höfðu prófað insúlín-lost, cardiazol-lost og raflost. Þegar hver og ein þessara meðferða var skoðuð reyndust 71,57% sjúklinganna sem gengust undir lóbótómíu hafa reynt cardiazol-lost, 57,19% raflost og 44,56% insúlínlost. 26,66% sjúklinganna hafði aðeins reynt eina af þessum aðferðum og raunar hafði þeim alls ekki verið beitt við 7,36% af lóbótómíusjúklingunum. Svoleiðis að þótt í greinum geðlækna frá þessum tíma sé því gjarna haldið fram að lóbótómía sé þrautalendingin þegar allt annað hafi brugðist virðist það í reynd alls ekki hafa verið krafan. (Sama niðurstaða fæst þegar sjúkraskrár lóbótómíusjúklinga í Finnlandi og Noregi eru skoðaðar; Lóbótómía var hreint ekkert örþrifaráð í mörgum tilvikum.)

Var lóbótómía einungis gerð á ólæknandi sjúklingum sem dvalið höfðu árum saman á geðsjúkrahúsum?

Enn ein sögulega skýringin er að sjúklingarnir hafi verið ólæknandi, þeir hefðu legið á geðsjúkrahúsum árum saman og átt enga von um bata. Þegar Kragh skoðaði 313 skýrslur lóbótómíusjúklinga á Vordingborg kom í ljós að tæp 25% þeirra höfðu legið á spítalanum í 0-1 ár og 29% höfðu legið samanlagt (þ.e. fyrir utan útskriftarhlé) á spítala í 2-4 ár. Svoleiðis að talsvert yfir helmingur lóbótómíuþega hafði dvalið innan við fimm ár á geðsjúkrahúsi. Þeir teljast ekki í hópi langlegusjúklinga á þessum tímum en stór hópurs sjúklinga á Vordingborg átti meir en tveggja áratuga innlagnarsögu. Einungis fjórðungur lóbótómíuþeganna sem Kragh skoðaði (24,6%) hafði legið sem á geðspítölum í samtals meir en áratug.

Þegar rætt er um að lóbótómía hafi verið gerð á erfiðustu og mest ólæknandi sjúklingum geðspítala er oft litið þar sérstaklega til geðklofasjúklinga. Þetta fellst Kragh á að sé rétt að hluta til, þ.e. að rökin fyrir lóbótómíu hafi oft verið að gera geðklofasjúklingum lífið bærilegra en einnig sjáist víða þau rök að aðgerðin geri bærilegra að umgangast sjúklinginn, þ.e.a.s. að hann varð rólegri á eftir. Af súluriti í grein Kragh í Dansk Medicinhistorisk Årbog 2007, þar sem teknar eru saman læknisfræðilegar ábendingar sem mæltu með lóbótómíu í gögnum um 285 sjúklinga á Vordingborg, skorar ábendingin óróleiki (uro) langhæst (á við rúmlega 80 sjúklinga), næst á eftir kemur árásargirni og ofbeldi (á við rúmlega 70 sjúklinga). Ábendingin þjáning (forpinthed) á við tæplega 40 sjúklinga, að stöðva versnandi sjúkdóm á við 21 sjúkling og ákveðin sjúkdómsgreining er lögð til grundvallar í 20 tilvikum. Kragh dregur þá ályktun að vissulega sé eitthvað til í því að lóbótómía hafi aðallega verið gerð til að líkna sjúklingum en segir talsvert margt benda til að hún hafi allt eins verið gerð til að róa sjúkling og bæta þannig aðstæður starfsfólks (en geðspítalar voru mjög undirmannaðir á þessum tíma og erfiðir sjúklingar alger plága). Kragh vitnar í þessu sambandi í grein eftir Arild Faurbye, lækni á Sct. Hans, í Ugeskrift for Læger 1949, þar sem segir, um lóbótómíu geðklofasjúklinga: „Þótt sjúklingurinn læknist ekki skiptir miklu máli að losna við óróleikann; fyrst og fremst þjáist sjúklingurinn ekki lengur og hægt er að flytja hann á rólegri deild. Þetta skiptir líka miklu máli fyrir geðspítalana, það getur ríkt allt annar andi á órólegu deildunum, og hin vandasama umönnun þessara órólegu og ofbeldisfullu sjúklinga verður umtalsvert léttari fyrir starfsfólkið.“

Virkaði lóbótómía?

Þótt danskir geðlæknar væru jákvæðir í garð lóbótómíu var þeim vel ljóst að ýmis vandkvæði fylgdu aðgerðinni og fylgikvillar voru algengir. Á Vordingborg fengu 33,56% sjúklinga eitt eða fleiri flog eftir aðgerðina og dauðsföll af völdum lóbótómíu töldust 6,36% í hópi þeirra sem gengust undir aðgerðina. (Dauðsföll voru í lægri kantinum á Vordingborg því víða sjást hærri dánartölur nefndar, t.d. í íslensku greininni um lóbótómíu sem verður fjallað um í næstu færslu. Á norska geðveikrahælinu Gaustad Asyl dóu rúmlega 32% lóbótómíusjúklinga til ársins 1948. Þá var skipt um skurðlækni og dánartölur snarféllu.) Læknarnir á Vordingborg höfðu gott tækifæri til að gera sér grein fyrir áhrifum lóbótómíu því sjúklingarnir dvöldu yfirleitt talsverðan tíma á sjúkrahúsum eftir að hafa gengist undir aðgerðina. Þar höfðu rúm 67% lóbótómíusjúklinga ekki verið útskrifuð tveimur árum eftir aðgerðina. Tíu árum eftir lóbótómíu voru enn rúm 40% lóbótómíusjúklinganna á spítalanum. Margir þeirra útskrifuðust aldrei.

Meðal 285 lóbótómíusjúklingum á Vordingborg var skráður skaði af völdum aðgerðarinnar hjá 70%, óljóst eða ekki kannaður skaði var skráð á hluta sjúklinganna en einungis í 6,71%
tilvika var skráð að aðgerðin hefði ekki haft neinn skaða í för með sér. Þessar tölur, byggðar á frumgögnum, þ.e.a.s. skráðum upplýsingum um sjúklingana, sýna talsvert aðra mynd en sást í greinum eftir danska geðlækna á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. Auk skaða af lóbótómíu bókuðu læknarnir í Vordingborg alls konar einkenni sem fylgdu aðgerðinni en töldust ekki beinlínis skaðleg, s.s. sljóleika, vitglöp (demens), kaldlyndi, árásargirni; sumir sjúklingar urðu uppnumdir (euforiske), manískir, sinnulausir, latir eða aulalegir.

Lóbótómía á þroskaheftum

Þótt nýju geðlyfin sem komu fram á sjónarsviðið 1954 hafi farið sigurför um danska geðspítala var því fjarri að menn legðu lóbótómíur alfarið á hilluna eða hættu að hampa aðgerðinni. T.d. skrifaði taugaskurðlæknirinn Eduard Busch grein um geðskurðlækningar árið 1957, þar sem hann segir að Largactil lofi vissulega góðu en að geðskurðlækningar gegni áfram sínu hlutverki í meðhöndlun geðsjúkra, sem þrautalending („en sidste udvej“). Nýjar taugalækningadeildir í Óðinsvéum, Árósum og Glostrup tóku til starfa á árunum 1955-60 og á þeim öllum var gert ráð fyrir lóbótómíuaðgerðum. Það sem breyttist fyrst og fremst þegar Largactil kom var að geðsjúkum sem sendir voru í lóbótómíu fækkaði mjög og þá voru umönnunaraðilar þroskaheftra ekki seinir á sér að grípa tækifærið: Frá 1954 fjölgaði mjög lóbótómíum sem gerðar voru á þroskaheftum, þeir voru í meirihluta lóbótómíusjúklinga á Rigshospitalet strax það ár. Aldur skipti litlu máli þegar kom að þroskaheftum. T.d. sendi Andersvænge hælið í Slagelse sex ára dreng og átta ára dreng í lóbótómíu á Rigshospitalet 1954 og hælið sendi alls tíu börn undir 14 ára aldri í lóbótómíu þetta árið.

Lóbótómía í Danmörku breyttist þegar tækni varð fullkomnari og eftir 1960 var hnitastýrð (stereotaktisk) lóbótómía allsráðandi. Hún fólst í því að merkja skurðstaði á höfuð sjúklings í samræmi við röngtenmynd, höfuð sjúklingsins var líka skorðað í ramma. Hnitastýrð lóbótómía var því nákvæmari skurðaðgerð en gamla lóbótómían. Á árunum 1960-1979 voru t.d. 488 lóbótómíur gerðar á Rigshospitalet, allar hnitastýrðar. Árið 1983 var lóbótómía bönnuð með lögum í Danmörku.

Lóbótómía nútímans

Enn þann dag í dag eru gerðar lóbótómíur en sem betur fer eru aðgerðirnar fáar í heiminum öllum. Líklega eru þær algengastar í Bretlandi, einkum lóbótómía á gyrðilsgára (gyrus cingulatus) heilans, svokölluð cingulotomy, ábendingar fyrir þá aðgerð eru m.a. þráhyggja, kvíði, þunglyndi og miklir verkir. Ágæt yfirlitssíða yfir ýmsar aðgerðir af lóbótómíutoga, nú til dags kallaðar geðskurðlækningar og gerðar með gammahníf eða öðrum mun betri græjum en forðum, er að finna á síðunni Psychiatry Disorders Surgery á Functional Neurosugery. Mér er ekki kunnugt um að skurðaðgerðir við geðrænum sjúkdómum séu gerðar á Íslandi en ábendingar um það eru vel þegnar.

Ítarefni

 Næsta færsla fjallar um lóbótómíu á Íslandi á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar.
 
 

Heimildir aðrar en þær sem krækt er í úr textanum:
 
 

Heiða María Sigurðardóttir. Til hvers voru sálskurðlækningar eins og lóbótómía notaðar? Vísindavefurinn 23.3.2006.

Haave, Per. Ønskes ikke gjengitt i pressen. Tidsskrift for den Norske Lægeforening, 123. árg. 21. tbl., s. 3157-9. 2003.

Jansson, Bengt. Controversial Psychosurgery Resulted in a Nobel Prize. Nobelprize.org. Fyrst birt 29. október 1998.

Kragh, Jesper Vaczy. Det hvide snit. Psykokirurgi og dansk psykiatri 1922-1983. Syddansk Universitetsforlag. 2010.

Kragh, Jesper Vaczy. Sidste udvej? Træk af psykokirurgiens historie i Danmark. Dansk Medicinhistorisk Årbog 2007.

Lund, Ketil, Tómas Helgason, Anne-Lise Christensen, Yngvar Løchen, Reidar Lie og Steinar Mageli. Utredning om lobotomi : utredning fra et utvalg nedsatt av Sosialdepartementet 20. februar 1991 ; avgitt 30. juni 1992. Osló 1992.

Mashour, George A., Erin E. Walker og Robert L. Martuza. Psychosurgery: past, present, and future. Brain Research Reviews 48, s.  409-419. 2005.

Salminen, Ville. Lobotomy as a psychiatric treatment in Finland. Akademia.edu

Tranøy, Joar og Wenche Blomberg. Lobotomy in Norwegian psychiatry. History of Psychiatry, 16. árg. 1. tbl. 2005.

Unnur B. Karlsdóttir. Mannkynbætur. Hugmyndir um bætta kynstofna hérlendis og erlendis á 19. og 20. öld. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. 1998.

Vilmundur Jónsson. Afkynjanir og vananir. Greinargerð fyrir frumvarpi til laga um að heimila í viðeigandi tilfellum aðgerðir á fólki, er koma í veg fyrir, að það auki kyn sitt. 1937.

von Knorring, Lars. History of the Nordic Psychiatric Cooperation. Nordic Journal of  Psychiatry, 66. árg., fylgirit 1, s. 54-60. 2012.

Ögren, Kenneth. Psychosurgery in Sweden 1944-1958. The Practice, the Professional and the Media Discourse [doktorsritgerð]. Umeå 2007.

Ögren, Kenneth og Mikael Sandlund. Psychosurgery in Sweden 1944–1964. Journal of the History of the Neurosciences, 14. árg., 4. tbl., s. 352-367. Desember 2005.
 
 

Raflost við geðveiki hérlendis

Á fimmta áratug síðustu aldar fjölgaði mjög í stétt geðlækna á Íslandi. Fyrir voru þeir Þórður Sveinsson og Helgi Tómasson, sá síðarnefndi lærði bæði til læknis og stundaði sitt sérnám (sem lauk með doktorsgráðu 1927) við Kaupmannahafnarháskóla. Helgi vann á dönskum geðspítölum á árabilinu 1922-26 en tók við yfirlæknisstöðu á Nýja-Kleppi árið 1927.

Næsti sérmenntaði geðlæknirinn á eftir Helga var Alfreð Gíslason. Eftir læknapróf (cand. med) hér heima fór hann til Danmerkur og stúderaði geðsjúkdóma. Nám geðlækna var á þessum tíma (og lengi á eftir) fólgið í vinnustaðanámi, þ.e. praxís á geðspítölum. Alfreð vann á dönskum geðsjúkrahúsum á árunum 1932-36, kom svo heim og fékk sérfræðileyfi í tauga- og geðsjúkdómum árið 1936.

Síðan koma Kjartan R. Guðmundsson, sem fékk sérfræðileyfi í tauga-og geðsjúkdómum árið 1942, Kristján Þorvarðsson (sérfræðileyfi í tauga-og geðsjúkdómum árið 1945), Gunnar Þ. Benjamínsson (sérfr.leyfi 1948) og Grímur Magnússon (sérfr. leyfi 1949). Allir stunduðu þeir sitt nám í geðlæknisfræðum í Danmörku nema Grímur, sem lærði í Vín í Austurríki. Það er því ekki að undra þótt áhrif geðlækninga eins og þær voru stundaðar í Danmörku, hafi verið afar sterk hér á landi, a.m.k. fram yfir 1960. Heimkomnir störfuðu þeir allir sem almennir læknar (sjúkrasamlagslæknar) í Reykjavík en sinntu geðlækningum meðfram.
 

Kristján Þorvarðsson og Alfreð Gíslason mynduðu bandalag gegn Helga Tómassyni fljótlega eftir að Kristján kom heim, eftir átta ára dvöl í Danmörku, og þeir hinir sem taldir voru upp hér að ofan fylgdu þeim tveimur að málum. Ásteytingarsteinninn var að þeim fyrrnefndu þótti ófært hve Helgi Tómasson var ófús að taka upp „nútímageðlækningar“, einkum raflost og lóbótómíu.

Árið 1946 flutti Kristján Þorvarðsson erindið Rotlækningar geðveikra (Shock therapia) á Læknaþingi, erindið birtist svo sem grein í Læknablaðinu 1947. Í henni fjallar hann um insúlín-lost, cardiazol-lost og raflost. Kristján er hrifinn af öllum þessum „rotlækningum“ og segir um raflost:
 

Rafmagnsaðferðin hefir reynzt vel við psychogen psychosur, depressio (allar tegundir), og við psychoneurosur, og er þessi lækningaaðgerð talin sú bezta, sem þekkist við meinum þessum, og vex fylgi hennar ört, og er hún notuð um allan heim […]

Svo vitnar hann í G. Langfelt [Kristján á við norska geðlækninn Gabriel Langfeldt], sem hann segir einn þekktasta geðveikralækni Norðurlanda og kveður ummæli hans næga tryggingu fyrir að rétt sé með það farið að rafrot séu frábær aðferð. Sjálfur Langfelt hafi sagt:
 

„Þegar öll kurl koma til grafar, má segja að rafmagnslækningin sé stærsti sigur á sviði geðveikralækninga, sem nokkru sinni hefir unninn verið, að undantekinni malaria-meðferðinni á dementia paralytica. Við megum sem stendur ekki til þess hugsa, að vera án hennar, þótt meðferð þessari geti fylgt óþægindi, svo sem minnissljófgun um stuttan tíma og minni háttar „Kompressions“-brot, sem eru smámunir einir við hlið hins glæsilega árangurs, sem við náum, á sviði, þar sem stóðum áður alveg máttvana.“

Kristján gerir sér grein fyrir að ekki falli öllum læknum insúlín-, cardiazol- og raflost í geð, finnist þær of harkalegar. En því megi til svara að „margar handlæknisaðgerðir eru harkalegar og líðan sjúklinganna eftir aðgerðir miklu verri en „shock“-sjúklinganna, sem hafa aðeins lítilsháttar óþægindi fyrstu klukkustundirnar eftir aðgerð.“ Niðurstaða Kristjáns er að „enginn geðveikralæknir ætti að láta undir höfuð leggjast, að nota slíkar lækningaðgerðir.“
 
 

Deilur sjálfstætt starfandi geðlækna og Helga Tómassonar um raflost-meðferð

Gamalt raflosttækiNæstu árin eftir að grein Kristjáns birtist ríkti nokkurs konar vopnaður friður milli Helga Tómassonar og geðlæknanna nýju, þ.e.a.s. þeir síðarnefndu beittu einfaldlega raflostum á sína sjúklinga úti í bæ enda notuðu þeir hvorki vöðvalamandi lyf né svæfingu við aðgerðina. Hin frábæra (að þeirra mati) nýja aðferðin við lækningu geðsjúkra, lóbótómía, var gerð að þeirra undirlagi á Landakotsspítala (um lóbótómíu fjallar næsta færsla). Það er ekki fyrr en lóbótómíur leggjast af hér á landi, þegar skurðlæknirinn sem framkvæmdi þær lést í septemberbyrjun árið 1953, sem deilur geðlækna og Helga Tómassonar um raflostmeðferð verða opinberar.
 

Við tóku blaðaskrif þar sem Helgi Tómasson var sakaður um að fylgjast illa með nýjungum (þ.e. raflostum og lóbótómíu), halda geðlækningum á Íslandi í sorglegri niðurlægingu og láta íslenska geðlækna verða að athlægi í hinum stóra heimi. Það er freistandi að líta á opið bréf til formanns Læknafélags Íslands, sem birtist í Mánudagsblaðinu 26. október 1953 sem upptakt blaðaumfjöllunar gegn Helga. Ekki er höfundarnafn að þessu bréfi heldur einungis upphafsstafir bréfritara, S J. L. Hann sparar ekki stóru orðin, bendir á að Helgi sé nú roskinn maður og fylgist lítt með, þ.a.l. gangi ekki að hann einn ráði ríkjum á Kleppi og vafamál að forsvaranlegt sé að fela honum kennslu í geðlæknisfræðum. Í bréfinu kemur og fram að þegar Helgi hafi skroppið af bæ hafi sjúklingum verið rænt af Kleppi og „þeir tafarlaust fengið viðunanlegan bata með schok-lækningum.“ Mánudagsblaðið reyndist svo áfram dyggur bakhjarl þeirra geðlækna sem deildu við Helga Tómasson, sjá t.d. greinina Kleppsundrin 11. janúar 1954.

Myndin er af raflostmeðferðar-ferðatæki frá sjötta áratug síðustu aldar. Má ætla að græjurnar sem Kristján, Alfreð og aðrir íslenskir geðlæknar höfðu yfir að ráða hafi verið eitthvað svipaðar þessu tæki. Myndin krækir í stærri útgáfu á Vefnum.
 

Seint í desember 1953 var haldinn blaðamannafundur í Farsóttarhúsinu að undirlagi Kristjáns Þorvarðssonar og birtust fréttir af honum í dagblöðum daginn eftir, t.d. Nýjar og árangursríkar lækningatilraunir bannfærðar á Kleppi, í Tímanum 29. desember 1953 og Hvers vegna eru rafmagnslækningar ekki á Kleppi? í Alþýðublaðinu sama dag. Í þessum fréttum kemur fram að þrír geðlæknar, þeir Kristján, Kjartan Guðmundsson og Grímur Magnússon, hafi fengið inni í Farsóttarhúsinu til að beita raflostum á sjúklinga. Alfreð Gíslason hafði hins vegar haft ágæta aðstöðu til að veita raflost á Elliheimilinu Grund frá vori 1951, sem annar aðallæknir elliheimilisins (sjá frétt í Alþýðublaðinu 5. maí 1951).  Fréttir af blaðamannafundinum bergmála opna bréfið í Mánudagsblaðinu tveimur mánuðum áður, þ.e.a.s. talað er um „yngri og betur menntu tauglækna“ sem finnist hart að geta ekki beitt nýtísku læknisaðferðum, að aðstendur hafi náð sjúklingum út af Kleppi, komið þeim í raflost og hafi þeir fengið bata af o.s.fr.

Alfreð Gíslason skrifaði grein strax eftir áramótin, sem birtist í Alþýðublaðið 8. jan. 1954. Greinin ber yfirskriftina Geðlækningarnar á Íslandi í sorglegri niðurlægingu. Í henni segir m.a.:

Hér á landi starfa sex sérfróðir geðlæknar. Allir, að einum undanskildum, notfæra sér eftir því, sem aðstæður leyfa, hinar nýju aðgerðir [þ.e. raflostmeðferð, insúlín-lost meðferð og lóbótómíu] við lækningu geðveikra. En aðstaðan hér er ekki sem bezt, því að svo óheppilega vill til, að sá eini, sem ekki hefur aðhyllzt þessar lækningar, er yfirlæknir einasta geðveikarspítala landsins. Þetta kemur þó lítt að sök, þegar um er að ræða þunglyndissjúkdóma eða aðrar léttari tegundir geðveiki. Þeim sjúklingum má veita fullnægjandi hjálp með raflostmeðferð í almennu sjúkrahúsi eða í vel útbúinni lækningastofu og jafnvel í heimahúsi ef í nauðir rekur. Öðru máli gegnir um hinn alvarlega og algenga geðsjúkdóm hugklofa (schizofremi [svo]). Gegn honum er nýju aðferðunum beitt erlendis, hverri með annarri eða hverri eftir aðra, en vegna ástands þessara sjúklinga er ógerlegt og jafnvel hættulegt að viðhafa þær annars staðar en í geðveikraspítala.

Og Alfreð bætir við að af því ekki er hægt að „veita hugklofa-sjúklingum nýtízku meðferð eins og sakir standa […] standa nú geðlækningar hér á lægra stigi en erlendis og það raunverulega að óþörfu.“ Þetta svíður Alfreð sárt því:
 

Það er leitt að verða þess var, að erlendir sérfræðingar líta nú niður á okkur fyrir þá kyrrstöðu sem orðin er á geðlækningum okkar, en hálfu sárar er þó hitt að sjá fólk í blóma aldurs síns missa heilsuna og geta ekki veitt þá hjálp sem bezt er talin.

Alfreð stakk í greininni upp á að Kleppi yrði tvískipt og fengju hann og félagar hans (hinir fjórir geðlæknarnir) aðstöðu þar. Það er augljóst að hann er fyrst og fremst að falast eftir aðstöðu til lóbótómíu því raflostin veittu þeir með sínum ferðatækjum hvort sem var. Greinin fjallar þó á yfirborðinu miklu frekar um raflost, e.t.v. af því geðlæknarnir hafa talið að auðveldara yrði að fá almenningsálitið (þ.e. lesendur dagblaðanna) til að samþykkja og styðja þá læknismeðferð en lóbótómíu. Fjórum dögum síðar minnti Alþýðublaðið á grein hans, skoraði á Helga Tómasson að gera grein fyrir sínu sjónarmiði og hamraði á því að „við getum ekki unað því að vera eftirbátar annarra þjóða á sviði geðlækninganna.“ (Á þessum tíma var Alfreð Gíslason mjög ofarlega á lista Alþýðuflokksins til bæjarstjórnarkosninga í Reykjavík. Hann var hins vegar rekinn úr flokknum árið eftir og gekk þá í Alþýðubandalagið, sat síðan á þingi fyrir þann flokk á árunum 1956-1967.)
 

Helgi Tómasson hafði þagað þunnu hljóði meðan greinar voru skrifaðar gegn honum, bæði þessar sem minnst hefur verið á og aðrar um andstöðu hans gegn lóbótómíu. En svo má brýna að deigt járn bíti og í júní 1955 birtist löng grein eftir Helga, Rafrot við geðveiki, í Heilbrigðistíðindum 1951. Helgi segist hafa skrifað greinina veturinn áður og birti nú stytta útgáfu hennar að beiðni landlæknis. Þrátt fyrir titilinn fjallar greinin einnig um cardiazol-lost og lóbótómíu, aðaláherslan er þó á raflostmeðferðina. Í inngangi rökstyður Helgi heiti greinarinnar þannig:
 

En sá læknir sem var brautryðjandi þessarar aðferðar hér á landi [þ.e. Kristján Þorvarðsson], nefndi það þegar í upphafi mun réttara nafni, sem sé rot, sem mörgum mun þó síðar hafa þótt miður fara. en þar eð um ótvírætt rot í íslenzkri merkingu orðsins er að ræða, held ég því heiti.

Helgi segist vera í hópi þeirra sem aldrei hafi komið auga á þá rök sem réttlæti lost-lækningar „heldur beinlínis séð margt, sem óréttlætti þær.“ Hann nefnir fyrst hið augljósa, nefnilega að lost-meðferðum, einkum raflosti, var beitt á sjúklinga með ólíka geðsjúkdóma og að menn vissu ekkert hvernig þær virkuðu. (Síðarnefndu rökin eiga allt eins við í dag, þau fyrrnefndu að hluta.) Helgi segir um þetta, og byrjar á að vitna í eigin reynslu af sjúklingum sem gefið hafði verið raflost:
 

    Þá er maður sá einn rafrotaðan sjúkling hálsbrotna og deyja 5 dögum síðar úr lungnabólgu og annan lendarhryggbrotinn, svo hann gat sig ekki hreyft lengi á eftir, “róaðist” með öðrum orðum, þá sýndist mér þegar vera ærin ástæða til að halda að sér höndum gagnvart þessari lækningaðagerð, a.m.k. fyrst um sinn.
    Að lokum keyrir þó svo um þverbak, að manni blöskrar, er maður sér þessum aðgerðum beitt, án þess að hlutaðeigandi læknir hafi gert sér nokkra humynd um, á hvern hátt þær eigi að verka – aðeins u.a.f. – ýmist við einföldustu sálrænum tilfellum, eins og áhyggjum af því að geta sennilega ekki staðið í skilum með afborgun af víxli (og gleyma svo víxlinum alveg), í léttum og þungum geðklofatilfellum, við hvers kyns þunglyndi, oflæti, eiturlyfjanotkun, ofsóknarvillum, elliglöpum og vefrænum taugasjúkdómum, mjög oft í lækningastofu eftir eitt eða tvö viðtöl og svo til enga eða lauslega rannsókn. Þannig hefur framferðið verið í mörgum löndum.
   Ég minnist ekki að hafa séð eða heyrt um neinn geðkvilla, sem einhver hefur ekki reynt rafrot við og talið sig ná lofsverðum árangri af. [- – -]

Síðan fjallar Helgi um röksemdir ýmissa fræðimanna fyrir gagnsemi lost-lækninga og getur skoðana þeirra á því á hvaða geðsjúkdóma þær virki helst. Hann vitnar þar ekki í neina aukvisa því hann hlýddi sjálfur á fyrirlestra Cerletti (upphafsmanns raflosta), Sakel (upphafsmann insúlín-losta) og Meduna (upphafsmann cardiazol-losta) á alþjóðafundi geðlækna í París 1950 og endursegir mál þeirra auk greina eftir fleiri fræðimenn.  Helgi víkur síðan aftur að eigin skoðunum á raflostum, byggðum á fyrirlestrum fræðimanna og því sem hann hefur lesið:
 

   Árangurinn af meðferðinni […] þegar hún tekst vel, er eingöngu sá, að veikindakastið kann að styttast. En allmargir telja, að sjúklingar þessir veikist fremur aftur, svo að þá er talinn er saman veikindatíminn yfir 5 ár, verðu hann a.m.k. ekki styttri hjá þeim, sem hafa verið rafrotaðir.
    Þeim sjúklingum einum batnar, sem talið er, að mundi batna hvort væri og batna fullkomlega. En í allmörgum sjúklingum sem rafrotaðir hafa verið, helzt „vefræna geðástandið“ lengur eða kemur, oft svo að sjúklingurinn er langt frá því að vera heill heilsu, þegar hann fer undan læknishendi, þó að hann virðist verða það smám saman eftir á. En í mörgum slíkum tilfellum er þó augljóst, að einhverjir hinna fínni strengja í sál mannsins eru slitnir eða þeim hefur verið burtu kippt, en því er oft frekar öfugt farið, þegar melankoli batnar án rafrots.
    Í allmörgum tilfellum helzt „vefræna geðástandið“ að meira eða minna leyti. Sjúklingurinn hefur þá fengið varanlega vefræna skemmd í heilann í stað tímabundinnar, starfrænnar geðveiki, sem eðli sínu samkvæmt annars batnar.

Helgi telur svo upp helstu óhöpp sem geti fylgt raflostum og vitnar í heimild fyrir máli sínu. Heimild Helga er yfirlit Gab. Deshaies og S. Pellier í Annales Medico Psychologiques, október 1950, og hann tekur fram að þessir fræðimenn séu mjög hlynntir raflostmeðferð, kallar Deshaies einn ákafasta áhanganda rafrotanna.  Af helstu óhöppum má nefna slys á beinum og liðum, t.d. að neðri kjálki fari úr liði, að hryggjarliðir brotni o.s.fr. En geðslysin eru langalgengust, hefur hann eftir heimild sinni, „um 3/4 sjúklinga truflast á minni, margir svo, að um óminni (amnesia) er ræða aftur í tímann“ og fyrir hafi komið algert óminni um þrjú ár „sem stóð í nokkra daga“. Ýmislegt fleira varðandi geðslag og hugsun sem býður tjón af raflosti telur Helgi upp eftir heimildinni og getur einstaka sinnum eigin reynslu ef hann er ósammála. Skv. málflutningi hans eru sum áhrifin (óhöppin) á hugarstarf óafturkræf.Talverðu máli eyðir Helgi í að endursegja hugmyndir fræðimanna um hvernig raflost virki (eða hvað í aðgerðinni virki, t.d. hvort það er heilakrampinn eða rafmagnið) og kemur prýðilega fram að þar rekst hvert á annars horn. Eftir það fjallar hann um líffræðilegar breytingar sem einstakir vísindamenn telji sig hafa greint á heilum þeirra sem farið hafa í raflost. Að því búnu fjallar hann um árangur raflosta, einkum gegn þunglyndi, vitnar þar í fræðimenn og sænskar og svissneskar heilbrigðisskýrslur. Hann ber síðan árangurinn skv. heilbrigðisskýrslunum saman við „melankolisjúklinga sem farið hafa af Kleppi á árunum 1933-1952“ og virðist árangurinn á Kleppi mun betri, þ.e. sjúklingum þar batnar mun hraðar þótt ekki hafi þeir fengið raflost. Meiri umfjöllun um opinberar heilbrigðistölur fylgir í kjölfarið, einkum um tölur af skoskum geðspítölum. Niðurstaða Helga er þessi:
 

    Ég fæ ekki skilið, að „lækningaaðgerð“, sem er jafntvíeggjuð og rafrot, eigi rétt á sér til þess eins í svo og svo mörgum tilfellum að draga, að því er við höldum, úr nokkrum einkennum sjúkdóms, sem við vitum, að yfirleitt batnar. Til þess rötum við ýmsar aðrar sennilega mun minna hættulegar leiðir.
    Enda þótt við höfum ekki beitt þessum aðgerðum hér á Kleppi, tel ég, að árangurinn af læknismeðferð geðsjúklinga hér sé engu lakari en annars staðar, og verður væntanlega nánar skýrt frá því á öðrum vettvangi.

Hann fjallar svo eilítið um lóbótómíu, sem honum finnst þó skömminni skárri en rafrotið, en víkur aftur að raflostmeðferð í niðurlagi greinarinnar og bendir m.a. á að geðlæknum þyki mikill fengur í tæki sem láti eitthvað sýnilegt gerast, þeir geti þannig gengið í augun á alþýðunni:
 

    Þótt trú fólks á lyf sé mikil, mun sönnu næst, að mun meiri sé trú þess á alls konar „tæki“, og á það ekki síður við um læknana sjálfa. Hér fengu geðlæknar upp í hendurnar tæki, sem lét gerast eitthvað, sem þeir og fólk sáu, tæki, sem var auðvelt í meðförum og fljótt álitið virtist ekki gera skaða, eða a.m.k. ekki mikinn skaða. Það var því freistandi að nota það, stundum meira en minna. Samvizkuna mátti friða með því, að eitthvað hefði verið gert og e.t.v. hefði sjúklingnum reitt verr af, ef það hefði ekki verið gert.

Helgi víkur að því að raflostin spari tíma, að geðlæknar telji sig ekki lengur þurfa að velta fyrir sér af hverju geðsjúkdómur hvers og eins sjúklings stafi heldur beiti raflostum á alla en það sé vitaskuld fásinna að halda að til sé ein allsherjaraðferð til lækningar geðsjúkdómum. Hann minnir á að oft hafi furðulegustu læknisráð átt gengi að fagna meðal geðlæknastéttarinnar, s.s. mannaskilvindur, blóðtökur, rafmögnun o.fl. Og Helgi lýkur greininni á afdráttarlausri yfirlýsingu svo enginn þurfi að velkjast í vafa um skoðun hans:

    Rafrot nútímans er að mínum dómi blettur, á geðlæknastétt allra landa, blettur, sem hún eingöngu getur þvegið af sér með því að snúa aftur til heilbrigðrar skynsemi í lækningatilraunum sínum.

Það þarf varla að taka fram að grein Helga hleypti duglega upp í Alfreð Gíslasyni og félögum. Bætti ekki úr skák að sama dag og Heilbrigðistíðindi 1951 komu út, þann 15. júní 1955, flutti danski taugaskurðlæknirinn Eduard Busch erindi um lóbótómíu í Háskóla Íslands. Busch var frumkvöðull í lóbótómíu í Danmörku og litu íslensku geðlæknarnir mjög upp til hans, raunar fleiri en þeir því Eduard Busch var veitt heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands árið 1961. Alfreð skrifaði um fyrirlestur hins ágæta prófessors Busch en eyddi þó löngu máli í að fjargviðrast yfir Helga Tómassyni, í greininni Seinheppin heilbrigðisstjórn, sem birtist í Tímanum 23. júní 1955. Grein Helga í Heilbrigðistíðindum 1951 telur Alfreð að liggi beinast við að skilja sem sem „varnarrit heilbrigðisstjórnarinnar og afsökunarorð fyrir að hafa til þessa dags haldið geðveikralækningum á Ís- [svo] í sama eymdarástandinu og þær hvar vetna voru fyrir 20 árum.“ Alfreð er greinilega fjúkandi vondur, fer rangt með dagsetningu greinar Helga og virðist vera búinn að gleyma titli greinar félaga síns, Kristjáns Þorvarðssonar, sem birtist í Læknablaðinu 1947 og bar heitið Rotlækningar geðveikra (Shock therapia) því Alfreð skrifar:
 

Að efni til er ritsmíðin skilyrðislaus fordæming á þeim læknisaðferðum, sem til þessa hafa skárstar reynst í geðsjúkdómafræðinni. Þar er það nefnt svart, sem geðlæknar almennt kalla hvítt. Allt er til tínt, sem misjafnt má segja um raflostlækningu og heilaskurð við geðveiki, og það blásið upp, en vandlega þagað um alla kosti. Sérstaklega er lostlækningunni úthúðað, og í háðungarskyni er hún aldrei nefnd annað en „rafrot“ og „rotaðgerðir“.

Alfreð segir að auðvitað viti geðlæknar að raflostaðferðir og heilaskurður [lobótómía] hafi sína ókosti, er raunar ekki nærri eins kokhraustur og í fyrri greinum, en segir þær:
 

tákna mikilsverðan áfanga í framfarabraut og hafa glætt vonir um framhaldandi sigra. Þessar aðferðir verða lagðar til hliðar, þegar annað betra hefir fundist, og kann sá tími að vera eigi langt undan, en þangað til er þakkarvert að hafa þær.

Nú vildi svo til að nokkrum mánuðum fyrr, árið 1955, höfðu birtst fréttir um lyfið klórprómazín í íslenskum dagblöðum, lyf sem hafði undraverð áhrif á geðklofasjúklinga. Helgi Tómasson hafði upplýst í dagblaði að hann hefði notað þetta lyf frá 1952 handa sínum sjúklingum (og einnig reserpin, annað lyf sem skipti sköpum). Kann að vera að þær fregnir hafi slegið ofurlítið á puttana á Alfreð og félögum í árásum þeirra á Helga, a.m.k. gátu þeir ekki svo glatt haldið því fram að hann fylgdist ekki með nýjungum. Efasemdir um réttmæti og árangur lóbótómíu voru farnar að heyrast á þessum tíma. Og vonin um að annað betra en lóbótómía, við ýmsu, og raflost, einkum við þunglyndi, fyndist var sjaldan bjartari en akkúrat sumarið 1955, í ljósi þessara nýju lyfja við geðklofa. Altént fjöruðu deilurnar út og hafa geðlæknar ekki í annan tíma verið opinberlega ósammála á Íslandi.

 
Raflostmeðferð síðastliðin fimmtíu ár

Af raflostum er það að segja að þeir Alfreð, Kristján, Kjartan, Gunnar og Grímur héldu áfram að veita sjúklingum sínum raflost utan Klepps. Alfreð og Kristján tóku við stjórn áfengisdeildar á nýopnaðri Heilsuverndarstöð Reykjavíkur árið 1957 og hafa sjálfsagt nýtt aðstöðuna þar til raflostmeðferða milli þess sem þeir sinntu ölkunum. Alfreð hafði og aðstöðu á Elliheimilinu Grund eins og fyrr sagði. Grímur Magnússon gaf raflost í heimahúsum til ársins 1973 (sjá Hlédís Guðmundsdóttir. 1984.) og nýtti aðra aðstöðu einnig, t.d. beitti hann raflostaðferðum á geðsjúklinga í húsnæði sem tilheyrði fæðingardeild Landspítalans árið 1955 og svæfði sjúklingana þar sjálfur (munnleg heimild). Svo höfðu menn Farsóttarhúsið eitthvað áfram og seinna Hvítabandið.

Utan Reykjavíkur voru gefin raflost á sjúkrahúsinu Sólheimum (ég veit ekki frá hvaða tíma) og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. (Hlédís Guðmundsdóttir. 1984.) Á Akureyri tíðkaðist strax 1955 að svæfa sjúklinga með eter og gefa þeim curare til lömunar (munnleg heimild) en margt bendir til að læknarnir  í Reykjavík hafi lengstum sleppt vöðvaslakandi efnum og svæfingu í raflostmeðferð utan sjúkrahúsa.

Helgi Tómasson lést árið 1958 og virðast a.m.k. einhverjir hafa óttast að „rotlæknirinn“ Alfreð yrði yfirlæknir á Kleppi, sbr. lesendabréfið Það má aldrei verða í Vísi 11. desember 1958. En Alfreð tók ekki við heldur gegndi Þórður Möller stöðunni uns Tómas Helgason tók við henni. Tómas var, eins og faðir hans, ekki hrifinn af raflostum og bannaði þau á Kleppi. Hann varð þó loks að láta undan þrýstingi annarra íslenskra geðlækna og leyfði læknum þar að beita raflostum upp á eigin ábyrgð frá á áttunda áratugnum. Sjálfur beitti hann þeim aldrei og segir í viðtali við Morgunblaðið í maí 2007 að þeim feðgum, honum og Helga, hafi þótt raflost ómannúðleg aðferð og:

„Raflostið var hálfgerð hrossalækning. Hleypt var straumi gegnum heilann á fólki sem olli krampa. Það bar á minnistruflunuum fyrst á eftir og í sumum tilvikum urðu varanlegar breytingar.[- – -]“

Tómas segist í sama viðtali ekki hafa skipt um skoðun á raflostum. En ætla má að Óttar Guðmundsson bergmáli álit íslenskra geðlækna nútímans á skoðunum Helga Tómassonar (og Tómasar Helgasonar) í bókinni Kleppur í 100 ár: „Í ljósi sögunnar verður að telja andstöðu Helga við raflostin vafasama læknisfræði sem einungis lengdi þjáningar sjúklinga sem þjáðust af alvarlegu þunglyndi.“ (s. 96)

Geðdeild Borgarspítala var opnuð árið 1968 og yfirlæknir hennar var Karl Strand, íslenskur geðlæknir sem lærði í Bretlandi og hafði starfað í meir en tvo áratugi þar. Hann var hlynntur raflostmeðferðum. Þegar Tómas Helgason lét af störfum, árið 1997, tók Hannes Pétursson við. Hannes var menntaður á Bretlandi og að sjálfsögðu fylgjandi raflostmeðferðum. Núna eru raflost viðurkennd meðferð við þunglyndi á geðsviði Landspítalans, yfirleitt eru þeir sjúklingar sendir þrisvar í viku í raflostin.

Í greininni Rafkrampameðferð á Íslandi 1970-1981, sem birtist í Læknablaðinu 1984, segir Hlédís Guðmundsdóttir frá búnaði til raflostmeðferðar og framkvæmd hennar á tímabilinu:
 

Gamalt raflosttækiÁ Borgarspítala var sama tækið (Siemens Convulsator 622) notað allan tímann en tækin sem notuð voru á Kleppspítala, Fjórðungssjúkrahúsinu Akureyri og utan stofnana voru öll sömu tegundar, amerísk ferðatæki (Reuben Reiter). Á öllum meðferðarstöðunum voru rafskaut eingöngu lögð tvíhliða (bitemporalt). Svæfingar á sjúkrahúsunum fóru alltaf fram með atropin forlyfjagjöf, methothexital svæfingu og suxamethonium vöðvaslökun. Þessu fylgdi belgblástur með 100% súrefnisgjöf, þar til sjálfkrafa öndun fór í gang. Algengast var að RKM [raflostum] væri beitt tvisvar sinnum í viku, en þó var stöku sinnum byrjað með þrem til fjórum skiptum á fyrstu viku. Þeir sjö sjúklingar, sem fengu RKM í heimahúsi [sjúklingar Gríms Magnússonar á árunum 1970-73] fengu ekki suxamethonium vöðvaslökun.

Myndin er af Siemens Convulsator tæki. Litla myndin krækir í stærri mynd á vefnum.

Að sögn Hlédísar voru 1.111 raflost-lotur á þessu tímabili og var fjöldi raflostmeðferða í hverri lota 6,4 að meðaltali. Hún reiknar síðan út að þetta geri 4,5 raflost-lotur á hverja 10.000 íbúa. Raflostunum var einkum beitt á sjúklinga með „innborna geðlægð“, þ.e.a.s. þunglyndi. Árangurinn (sem væntanlega var metin af geðlæknunum sem framkvæmdu raflostin) er metinn góður en það er dálítið merkilegt, finnst mér, að Hlédís kemst að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa skoðað tölfræðileg gögn, að „fullur bati“ standi í öfugu hlutfalli við fjölda raflosta sem sjúklingarnir hlutu.

Hlédís spáir því í greininni að „lágmarksþörf fyrir RKM á Íslandi, reiknuð út frá árangri við meðferð á innborinni geðlægð verður 2 lotur á 10.000 íbúa“ og getur þess að þörfin aukist líklega með fjölgun aldraðra. Ég hef hvergi fundið tölur um fjölda raflostmeðferða á Íslandi eftir 1981 og veit því ekki hvort spá hennar gekk eftir. Í Kvalitetsmåling i psykiatrien i de nordiske lande, sem unnin var á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og kom út 2011, eru töluleg gögn um íslenska geðlækningaþjónustu í skötulíki. Ef einhver veit um töluleg gögn um raflostmeðferðir á geðdeildum Landspítala eftir árið 1981 eru ábendingar vel þegnar. Mig grunar að þær séu algengari á geðsviði Landspítalans en Hlédís Guðmundsdóttir spáði fyrir um árið 1984, þ.e. fleiri en 60 raflostlotur á ári (sem jafngildir tveimur raflostlotum á 10.000 íbúa ef íbúar eru 300.000).

Að sögn er raflostmeðferð væg og áhrifarík

Raflostmeðferð er kynnt fyrir íslenskum sjúklingum nútímans á jákvæðan og aðlaðandi máta. Má taka sem dæmi þessa klausu:
 
 

Raflækningar geta verið nauðsynlegar þegar þunglyndið er orðið mjög alvarlegt og hefur ekki svarað lyfjameðferð. Hinn veiki er svæfður fyrir hverja meðferð. Rafmagnið er notað til að kalla fram krampa, en þeir eru dempaðir með vöðvaslakandi lyfjum. Raflækningum geta fylgt vægar harðsperrur og tímabundin minniskerðing, en ekki langtímaaukaverkanir. Þessi tegund meðferðar hefur oft fljótvirk áhrif þar sem hún á við og gerir sjúklingi kleift að verða virkur þátttakandi í daglegu lífi á ný fyrr en aðrar tegundir meðferðar.
(Rúnar Helgi Andrason sálfræðingur og Engilbert Sigurðsson geðlæknir (ráðgjöf). Þunglyndi á persona.is. 2004.)

Í upplýsingabæklingi geðsviðs Landspítalans frá 2010, Raflækningar. Leiðbeiningar fyrir notendur, segir um meðferðina sjálfa (takið eftir áherslunni á lýsingarorðið vægur):

Eftir að einstaklingur er sofnaður og vöðvaslakandi  lyf eru farin að virka er vægum rafstraumi hleypt á í nokkrar sekúndur. Við það verða vægir krampar sem standa oftast yfir í 15-30 sekúndur.

Um hugsanlega fylgikvilla segir í sama bæklingi:
 

Fólk getur orðið óáttað og skert skammtímaminni getur gert vart við sig, mislengi eftir einstaklingum. Sumir geta einnig verið með ógleði, höfuðverk, þreytu og harðsperrur. Þessi síðartöldu eftirköst ganga yfir á skömmum tíma (nokkrum mínútum til nokkurra klukkutíma) og má meðhöndla með viðeigandi lyfjum

Loks segir í bæklingnum að virki hvorki lyf né hugræn atferlismeðferð við þunglyndi sé oft gripið til raflækninga ef „læknir og sjúklingur hafa orðið sammála um það“ og „ævinlega er haft að leiðarljósi að óþægindi sjúklingsins séu sem minnst.“

Á YouTube má myndband af nútímaraflostmeðferð og má vart á milli sjá hvort læknirinn eða fjölskylda sjúklingsins sem er viðstödd er hamingjusamari yfir meðferðinni. (Myndbandið er tekið í Ameríku, ath. að á Íslandi eru rafskautin/leiðararnir líklega ekki fest á borða heldur beint á höfuð sjúklingsins) .

Hér að neðan er mynd sem sýnir staðsetningu rafskauta í nútímaraflostum. Tvískauta (bilateral/bitemporal) staðsetningin var allsráðandi fyrrum, þ.e. rafskaut sett á hvort gagnauga og straumi hleypt á milli. Einskauta (unilateral) staðsetning kom mun síðar til sögunnar og sumir telja að hún valdi síður miklu minnistapi, á hinn bóginn þarf að gefa öflugri rafstraum til að framkalla krampa í heilanum með þessari aðferð. Nýjust er tvískauta staðsetning á enni (bifrontal).

Staðsetning rafskauta � raflosti
 
 
 

Eigin reynsla af raflostmeðferð

Vorið 2006 var ég mjög illa haldin af þunglyndi. Kann að hafa spilað inn í afar slæma líðan að ég var á mörgum lyfjum í háum skömmtum, sum lyfjagjöfin byggðist á rangri sjúkdómsgreiningu (geðhvarfasýki) sem aldrei voru nein rök fyrir. Geðlæknirinn minn taldi rétt að prófa raflost. Í sjúkraskrá segir að hann hafi kynnt fyrir mér kosti og galla meðferðarinnar en nánar er ekki getið um í hverju þessi kynning fólst. Eiginmann minn rekur ekki minni til þess að alvarlegar óafturkræfar aukaverkanir raflosta hafi verið kynntar honum, hvorki af mér né geðlækninum, og sjálf á ég engar minningar frá þessum tíma.

Þetta vor fór ég ellefu sinnum í tvískauta raflostmeðferð. Af heimildum, þ.e. eigin bloggi, er ljóst að eftir raflostin var ég ákaflega rugluð; minnislaus og með víðtækan athyglisbrest, sem þótti eðlilegur fylgikvilli. Einskis bata varð vart fyrr en líða tók á sumarið, þá bókar geðlæknirinn í sjúkraskrá að mér líði skár. Smám saman rann upp fyrir mér að það voru ekki bara tölvan sem ég kunni ekki lengur á eða nýju hverfin á Akranesi sem ég rataði ekki um sem voru fylgikvillar raflostmeðferðarinnar heldur var komin a.m.k. tveggja ára eyða í líf mitt, kolsvart tóm, sem aldrei hefur skilað sér aftur. Enn þann dag í dag er ég að fá þetta staðfest, t.d. hitti ég konu nú snemma vetrar sem heilsaði mér með virktum og fór að spjalla, ég gat ekki munað að ég hefði nokkurn tíma séð hana. Maðurinn minn fræddi mig svo um það að ég og þessi kona hefðum unnið saman heilan vetur og þekkst vel.

Í sjúkraskrá er nokkrum mánuðum eftir raflostin bókað að ég hafi misst um eitt og hálft ár úr minni að eigin sögn. Um haustið var ég aftur orðin mjög veik og versnaði enn eftir því sem veturinn leið (af heimildum sé ég raunar ekki að um neinn bata hafi verið að ræða heldur breyttist lamandi doði þunglyndisins í ofboðslegt óöryggi minnisleysins í örfáa mánuði). Haldið var áfram að hringla með alls konar geðlyf þennan vetur, t.d. var ég látin hætta á þreföldum dagskammti af einu þunglyndislyfi á tveimur vikum og á sama tíma keyrður upp duglegur skammtur af öðru þunglyndislyfi, auk þess sem mér var áfram ávísað lyfjum sem eru alls ekki ætluð við þunglyndi. Á útmánuðum 2007 er bókað í sjúkraskrá að ég vilji fara aftur í raflostmeðferð. Það kemur ekki á óvart því skv. eiginmanni mínum og eigin bloggi hélt geðlæknirinn því eindregið fram að raflostin 2006 hefðu verið til bóta. Þótt ég gerði mér grein fyrir tveggja ára útþurrkun á öllu í lífi mínu og vissi fyrirfram að námið sem ég stundaði veturinn 2006-2007, MA ritgerðin þar meðtalin, færi algerlega í glatkistuna fór ég aftur í ellefu raflostlotur vorið 2007, „að eigin ósk“ (hér tákna gæsalappirnar ekki beina tilvitnun í sjúkraskrá heldur þá staðreynd að ég hafði ekki forsendur til að taka upplýsta ákvörðun um þetta). Geðlæknirinn fullvissaði mig um að einskauta raflost yllu ekki nærri eins mikilli minnisskerðingu og bókar í sjúkraskrá að svoleiðis raflost verði nú reynd vegna minnisskerðingar af hinum fyrri.

Raflostin 2007 eyddu árinu 2006-2007 algerlega úr minni mínu. Ég geri mér ekki grein fyrir því núna hvort þau höfðu víðtækari áhrif, þ.e.a.s. nákvæmlega hvaða hluti óminnisins mikla allt aftur til ársins 2003 stafar af fyrri raflostlotunum og hvaða hluti af þeim síðari. (Sömuleiðis útiloka ég ekki að óhófleg lyfjagjöf á þessum árum eigi einhvern þátt í óminninu.)  Batinn varð enginn. Í sjúkraskrá er snemma vetrar haft eftir mér að ég hafi aldrei „jafnað mig eftir lotuna í vor.“

Allar götur síðan hefur minni mitt verið áberandi slæmt. Geðlæknirinn minn hefur í áranna rás tínt fram ýmsar skýringar á því, t.d. að minni fólks slakni með hækkandi aldri og að slæmu þunglyndi fylgi minnistruflanir og einbeitingarskortur. Sjálf er ég þess fullviss að raflostin hafi haft talsverð áhrif til þessa.

Sem þægur sjúklingur til skamms tíma keypti ég allar „vísindalegar” skýringar geðlæknisins míns, þ.m.t. árangur raflostmeðferða á þunglyndi. Árum saman var ég reglulega minnt á að vorið 2006 hafi mér batnað af raflostmeðferðinni (þótt heimildir segi annað, ég fór hins vegar ekki að skoða þær fyrr en í fyrravor). Þann 4. ágúst 2010 skrifaði ég í færslu á eigin bloggi:
 

En ég vorkenni sjúklingunum á Kleppi sem ekki fengu þennan séns út af tiktúrum yfirlæknisins. Ef allt um þrýtur er skárra að þiggja þessa meðferð en lifa við óbreytt ástand, þrátt fyrir aukaverkanir (minnistap – alla jafna er það tiltölulega lítið en ég var sérlega óheppin, að venju).

Eftir að hafa farið yfir heimildir, þ.e. eigin bloggfærslur frá tímum raflostanna og sjúkraskrá, tel ég tilvitnunina hér að ofan vera gott dæmi um heilaþvott. Eins og flestir sjúklingar treysti ég málflutningi læknisins míns lengstum. Þegar sjúklingur treystir lækni vel og læknirinn leggur huglægt mat á hvaða upplýsingar hann veitir sjúklingnum og skammtar upplýsingarnar í samræmi við sín viðhorf er vafamál hvort upplýst samþykki (þess er krafist að sjúklingur skrifi undir plagg þess efnis fyrir raflostmeðferð) getur yfirleitt talist upplýst. Eftir að ég fór að lesa mér til um áhrif hefðbundinna geðlæknisaðferða við mínum sjúkdómi, jafnt lyfja sem raflosta, er sú mynd af ágæti þessara aðferða talsvert önnur en ég hafði áður, af samtölum við geðlækninn minn. Og mér þykir, satt best að segja, þær upplýsingar sem liggja frammi um raflostmeðferð á íslensku gera ákaflega lítið úr mögulegum skaðlegum, jafnvel afar skaðlegum, aukaverkunum þeirra, sjá tilvitnanir í  upplýsingabækling Landspítalans og vefinn persona.is hér að ofan.

Eðli málsins samkvæmt fjalla íslenskir geðsjúklingar ekki í stórum stíl um reynslu sína af sjúkdómi og læknismeðferðum. Þó má finna dæmi um reynslu þeirra af raflostmeðferðum.

Bergþór G. Böðvarsson, talsmaður notenda á geðsviði, sagði í greininni Heiðarleg umræða og upplýst val í geðheilbrigðismálum, í Morgunblaðinu 7. nóv. 2006:
 

Í dag myndi ég aldrei samþykkja raflostmeðferð til langs tíma því mér finnst hún ekki mannúðleg og ég veit af eigin raun að það gerir engum gott, þegar til lengri tíma er litið, að búa við minnistap og tilfinningalega röskun á mörgum sviðum.

Á sama tíma sagði Héðinn Unnsteinsson, í greininni Af rangfærslum um raflækningar, Morgunblaðinu 26. október 2006:
 
 

Varðandi raflost meðferð, þá er mér það ljóst að hún hefur gagnast mörgum vel og komið fólki fram úr rúminu og upp úr djúpu þunglyndi. Það er engu að síður mín persónulega skoðun að sú aðferð að beita raflostum til meðferðar á lyndisröskunum sé ómannúðleg og eigi vonandi eftir að leggjast af í ljósi þess.

Í bókinni Ómunatíð, útg. 2011, lýsir Styrmir Gunnarsson viðhorfi aðstandanda sem varð að gefa leyfi til raflostmeðferðar á konu sinni árið 1968. Hann segir á s. 76:

Hefði ég haft þær upplýsingar í höndum sumarið 1968 sem ég hef nú, finnst mér ólíklegt að ég hefði skrifað undir það samþykki við raflækningum sem ég skrifaði undir þá.

Satt best að segja bendir mín eigin reynsla til þess að Helgi Tómasson hafi haft alveg rétt fyrir sér þegar hann skrifaði árið 1955 að augljós áhrif raflosta væru oft þau
 

að einhverjir hinna fínni strengja í sál mannsins eru slitnir eða þeim hefur verið burtu kippt […] Sjúklingurinn hefur þá fengið varanlega vefræna skemmd í heilann í stað tímabundinnar, starfrænnar geðveiki, sem eðli sínu samkvæmt annars batnar.

Heimildir aðrar en þær sem krækt er í úr textanum:
 

Helgi Tómasson. Rafrot við geðveiki, í Heilbrigðistíðindum 1951. Útg. af landlækni 1955.

Hlédís Guðmundsdóttir. Rafkrampameðferð á Íslandi 1970-1981. Læknablaðið 70. árg. 10. tbl. 1984, s. 325-332.

Kristján Þorvarðsson. Rotlækningar geðveikra (Shock therapia). Erindi flutt á Læknaþinginu 1946. Læknablaðið 32. árg. 2. tbl.  1947, s. 17-22.

Óttar Guðmundsson. Kleppur í 100 ár. JVP útgáfa, 2007.

Styrmir Gunnarsson. Ómunatíð. Saga um geðveiki. Veröld, 2011.
 
 
 
 

Raflækningar við geðveiki

 RaflækningarÁ nítjándu öld var talsvert í tísku beggja vegna Atlandshafsins að nota rafmagn til lækninga, ekki hvað síst geðlækninga. Þetta var einkar vægur straumur sem gefinn var hér og þar, ekkert endilega á höfuðið, og síðarmeir þróuðu menn „rafmagnsböð“, þ.e. ker sem rafstraumur lék um, í sama skyni.

Í yfirlitsgrein yfir raflækningar breskra lækna á nítjándu öld (Beverdige og Renvoize. 1988) eru raktar skiptar skoðanir bresku geðlæknanna á hvernig væri best að beita rafmagninu. Þeir voru þó sammála um eitt: Það væri einungis á færi sérmenntaðra vísindamanna, þ.e. lækna, að beita þessum aðferðum. Einnig vitnuðu þeir gjarna til klínískrar reynslu sinnar sem gerði það að verkum að þeir einir gætu metið hvaða aðferð væri heppilegust við hverjum geðrænum kvilla. (Eilítið fyrr var ýmiss konar segulmögnunarmeðferð við geðrænum vandamálum o.fl. í tísku, hún rann svo stundum saman við raflækningarnar á nítjándu öld.)

Áhugasömum um svona raflækningar er bent á amerísku kennslubókina A Practical Treatise on the Medical & Surgical Uses of Electricity: Including localized and general faradization; localized and central galvanization; electrolysis and galvano-cautery eftir George Miller Beard, fyrst útg. 1875; kaflinn um geðveiki hefst á s. 437 í þessari útgáfu. Eru í honum raktar margar sjúkrasögur sem og hvernig rafmagnsmeðferð læknaði móðursýki, taugaveiklun og brjálsemi. (Deilur þýskra geðlækna á nítjándu öld um hvernig raflækningar skyldu framkvæmdar eru svo raktar í Electrotherapeutic disputes: the ‘Frankfurt Council’of 1891 eftir Holger Steinbeck.)

Myndin er úr Burns safninu og sýnir raflækningu 1862.

Segja má að arfleifð þessara nítjándu aldar raflækninga við ýmsum kvillum, þ.á.m. geðveiki, megi helst sjá núna í kukllækningum og snyrtistofumeðferð. En einnig má rekja til þeirra nýtísku hugmyndir um djúpörvun heila (Deep Brain Stimulation) og skreyjutaugarörvun (Vagus Nervus Stimulation), hvort tveggja auglýst sem góð læknisaðferð við þunglyndi. Og gömlu segulmögnunaraðferðirnar hafa gengið í endurnýjun lífdaga í segulörvun heila, sjá samnefnda grein eftir Önnu L Möller og Sigurjón B Stefánsson í Læknablaðinu 2004. Ég veit um eitt nýlegt dæmi þess að geðlæknir á Landspítala hafi sent þunglyndissjúkling í segulörvunarmeðferð.
 

Á tuttugustu öld tóku raflækningar á sig heldur skelfilegri mynd, þegar farið var að beita rafmagnsmeðferð við sprengjulosti (shell shock) hermanna í fyrri heimstyrjöldinni. Walter-Jauregg, sá sem fann upp malaríumeðferðina sem fjallað var um í næstsíðustu færslu og þáði Nóbelsverðlaunin fyrir, var kærður fyrir rafmagnsmeðferðina sem hann beitti í þessu skyni. Til aðstoðar honum í réttarhöldunum var vitnið Sigmund Freud 🙂 Walter-Jauregg notaði rafmagnið eins og þýskir og franskir starfsbræður hans: Gaf hermönnunum sársaukafull stuð og lét þá horfa á félaga sína fá svona stuð. Talið var að þessi aðferð ýtti undir áhrifamátt hvatningar til rífa sig upp úr eymdinni og snúa aftur á vígvöllinn. Aðstoðarmaður Walter-Jauregg, Kozlowski, var sérlega hrifinn af því að gefa þessum sjúklingum, hermönnum sem þjáðust af sprengjulosti, raflost í fingurgóma, tær, geirvörtur og jafnvel eistu. Til að gera langa sögu stutta þá lauk réttarhöldunum á að Walter-Jauregg var með öllu sýknaður en aðstoðarmaður hans dæmdur fyrir slæma meðferð. Tilraun Freud til að koma sér í mjúkinn hjá Walter-Jauregg með jákvæðum vitnisburði í réttarhöldunum (Freud gaf t.d. það sérfræðiálit að 77 daga einangrunarvist væri „óþægileg en algerlega hættulaus“) mistókst með öllu.

Arfleifð franska og þýskra raflækninga við sprengjulosti hermanna í heimstyrjöldinni fyrri er auðvitað augsýnileg í pyndingum (t.d. pólitískra fanga) enn þann dag í dag.
 
 

Rafrot/raflost/raflækningar (ECT)
 

rafrot sv�naÍtölsku geð-og taugalæknarnir Ugo Cerletti og Lucio Bini fundu upp aðferðina að framkalla krampa með raflostum til lækningar geðveiki. Þeir leituðu að betri aðferð en cardiazol-sprautum til að framkalla krampa, í þeirri fullvissu að krampaköst myndu lækna geðklofa, a.m.k. gera hann viðráðanlegri. Sagan segir að þeim hafi dottið í hug að nota rafmagn eftir að athygli þeirra var vakin á raflostum sem notuð voru í heimabæ þeirra, Róm, til að rota svín svo þau væru ekki með óþekkt þegar þau voru skorin á háls. Svínin fengu krampa og misstu meðvitund. (Myndin er tekin í Róm árið 1938 og sýnir rafmagnsáhald til að rota svín.)

Lucio Bini sýnir raflostCerletti og Bini prófuð sig áfram í dýratilraunum (með aðstöðu í sláturhúsinu góða) og voru loks tilbúnir til að reyna aðferðina á manni, í apríl 1938. Til verksins völdu þeir tæplega fertugan verkfræðing frá Mílanó, með skýr einkenni geðklofa. Bini var þá búinn að smíða frumstætt tæki sem gat gefið 80-100 volta stuð í sekúndubrot, hannað eftir svínarotstækinu og straumurinn gefinn um gagnaugun.

Myndin til hægri er af Lucio Bini að sýna raflost á sjúklingi, tekin 1940.

Cerletti og Bini gerðu sér grein fyrir því að ef þeir dræpu fyrsta sjúklinginn yrði ekki um fleiri tilraunir að ræða og gengu eðlilega dálítið hræddir til verks. Þeir prófuðu fyrst að gefa honum raflost upp á 80 volt í einn tíunda af sekúndu. Ekkert gerðist. Næst reyndu þeir 90 volta straum en enn án árangurs. Loks  hækkuðu þeir strauminn í botn og stuðuðu sjúklinginn eins og tækið leyfði. Hann fékk þá krampa, hætti að anda og blánaði upp. Bini byrjaði að telja sekúndurnar … og á fertugustu og áttundu sekúndu andvarpaði sjúklingurinn djúpt. Það gerðu Cerletti og Bini líka! Sjúklingurinn settist upp, rólegur og brosandi. Cerletti og Bini gáfu honum ellefu raflost á næstu vikum og sjúklingnum batnaði svo vel að hann var útskrifaður og sendur heim til sín í Mílanó í sína vinnu. (Það skemmir eilítið þessa kraftaverkasögu að geta þess að þrem mánuðum seinna var þessi sami sjúklingur farinn að sjá sýnir og heyra ofheyrnir og var lagður aftur inn á geðsjúkrahús.)

Þeir félagarnir snéru sér síðan að öðrum geðklofasjúklingum og þóttust merkja mikinn bata af raflostunum. Þeir áttuðu sig strax á því að raflostunum fylgdi afturvirkt óminni en álitu það hið besta mál því þá gátu sjúklingarnir ekki munað eftir meðferðinni milli losta og var því ekkert í nöp við hana.
 

Eins og fyrri krampalækningaruppfinningarmenn höfðu þeir eiginlega ekki hugmynd um af hverju lækningaraðferðin virkaði. Seinna setti Cerletti fram þá tilgátu að raflost létu heilann framleiða örvandi efni sem hann kallaði „agro-agonime“. Hann prófaði þessa tilgátu með því að sprauta geðsjúklinga með uppleystri blöndu úr heilum svína sem höfðu fengið raflost og taldi árangurinn góðan. Nokkrir geðlæknar á Ítalíu, Frakklandi og í Brasilíu prófuðu þessa meðferð en hún náði ekki frekari útbreiðslu.
 

Cerletti og Bini kynntu strax raflostsaðferðina sína sem víðast og þótt kæmi mjög fljótt í ljós að hún gagnaðist illa sem meðferð við geðklofa, varð hún feikivinsæl um allan heim sem öflug lækningameðferð við þunglyndi og fleiri geðsjúkdómum. Cerletti og Bini voru meira að segja tilnefndir til Nóbelsverðlauna í læknisfræði á fimmta áratug síðustu aldar en fengu þau ekki.

Lothar Kalinowski, þýskur gyðingur og metnaðargjarn geðlæknir, flúði til Ítalíu 1933, fylgdist með fyrstu tilraunum Cerletti og Bini og breiddi svo út fagnaðarerindið: Fyrst í París, síðan á Englandi eftir að hann flutti þangað 1939. Ári síðar flutti Kalinowski til Bandaríkjanna og setti auðvitað upp raflostlækningamiðstöð í New York fylki. (Að vísu hafði ítalskur geðlæknir kynnt aðferðina í Bandaríkjunum ári fyrr en Kalinowski hefur væntanlega átt sinn þátt í útbreiðslu hennar. Í Bandaríkjunum var annars mjög sterk andstaða sálgreinandi geðlækna, sem störfuðu í anda Freud og Jung.) Alls staðar fögnuðu menn raflost-meðferðinni því ólíkt cardíazol-meðferðinni þurfti ekki að elta uppi sjúklingana og halda þeim, þeir voru miklu síður hræddir við raflostin.

Í árdaga raflostmeðferða fylgdi stundum sá böggull skammrifi að sjúklingarnir beinbrotnuðu, t.d. hryggbrotnuðu, í ofsafengnum krömpunum. Það vandamál var leyst árið 1940 í Bandaríkjum þegar þarlendur læknir fann upp að nota curare sem krampastillandi lyf í raflostum. (Curare var að vísu hreint ekki hættulaust lyf.) Seinna meir leysti succinylcholine (súxametón) curare af hólmi.

Það er oft talað um að malaríumeðferðin og lostmeðferðirnar hafi lyft geðlækningum úr öskustó læknisfræðanna. „Until then, psychiatry had been a poor Cinderella, eking out at paltry existence in the asylum“, segir Edward Shorter (1997, s. 224). Og hann vitnar í geðlækninn Louis Casamajor, sem starfaði í New York og sagði árið 1943: „Það má spyrja sig hvort lostlækningarnar séu yfirleitt til góðs fyrir sjúklingana en það er enginn vafi á að þær hafa verið geðlækningum til ómetanlegs góðs.“
 

Á Youtube er myndband af raflostmeðferð frá árdögum meðferðarinnar. Viðkvæmir ættu ekki að horfa á það.  
 

Víkur nú sögunni til Danmerkur, ekki hvað síst vegna þess að fyrstu íslensku geðlæknarnir (auk Þórð Sveinssonar og Helga Tómassonar), sem komu úr námi á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar, voru langflestir menntaðir í Danmörku og unnu þar um lengri eða skemmri tíma á ýmsum geðsjúkrahúsum.

raflost við geðveikiÞann 21. ágúst 1939 var þriðja Alþjóðlega taugalækningaráðstefnan sett í Kaupmannahöfn. Hana sóttu þátttakendur frá meir en 25 löndum og auðvitað mjög margir danskir tauga- og geðlæknar. Og þar fluttu fyrst Bini og síðan Cerletti fyrirlestra um nýju lækningaaðferðina sína við geðklofa. Bini fjallaði aðallega um tæknina sem þeir beittu og sýndi tæki til verksins. (Hér má sjá mynd af tækinu hans Bini.)

Einn dönsku þátttakendanna, Arild Faurbye, varð strax spenntur og langaði að prófa þessar nýju græjur á geðdeildinni á Bispebjerg Hospital. Hann fékk danskan verkfræðing til að smíða tæki eftir ítölsku fyrirmyndinni. Spennan gat verið 0-150 volt, lostin mátti gefa með tveimur elektróðum sem voru 4 x 5,5 cm og svo fylgdu grisjur sem voru smurðar með glycerináburði og festar við höfuð sjúklingsins með gúmmíteygju. Og fyrsta lostið var gefið á Bispebjerg sjúkrahúsinu þann 15. nóvember 1940. Næstu tvo mánuðina voru 26 sjúklingum gefin alls 200 raflost. Faurbye flutti  fyrirlestur í Danska geðlæknafélaginu í janúar 1941 um tilraunir sínar, birti niðurstöður sínar á prenti í mars sama ár. Og boltinn fór að rúlla, sérstaklega eftir að forstjóri Ríkisgeðspítalaráðsins (Direktoriet for Statens Sindssygehospitaler) hafði reiknað út að raflostin væru ódýrari meðferð en cardiazol-lostin.

Þótt myndin sé tekin í Bandaríkjunum sýnir hún dæmigert raflost áður farið var að svæfa og lama sjúklinga og getur allt eins átt við meðferðina í Danmörku á þessum tíma.

Í yfirlitsgrein sem Villars Lunn skrifaði í Ugeskrift for Læger áratug síðar (1949) sagði hann að „raflostaðferðin [væri] í augnablikinu ómetanleg sem hjálpartæki til lækninga.“ Lunn benti jafnframt á að þessi meðferð nýttist betur við „manio-depressiv psykose“ en geðklofa, þótt upphaflega hafi hún verið hugsuð við honum, og virkaði vel á ýmiss konar tilfinningaleg einkenni („emotionelle syndromer“).

Lunn hafði einnig orð á aukaverkunum. Af meðferðinni hlaust bani í 0,5% tilvika og í 5-9% tilvika beinbrotnaði sjúklingurinn. Það tíðkaðist á mörgum dönskum sjúkrahúsum að beita raflostmeðferðinni án svæfingar og án vöðvalamandi efna allt framyfir 1950.

Þótt vinsældir raflækninga döluðu nokkuð í Danmörku eftir því sem tímar liðu eru þær að aukast aftur. Samkvæmt tölum frá dönskum heilbrigðisyfirvöldum voru um 2000 Danir meðhöndlaðir með raflostum árið 2010, 37% fleiri en voru meðhöndlaðir þannig árið 2003. Það væri vissulega áhugavert að sjá samsvarandi tölur fyrir Ísland en þær liggja ekki á lausu.
 
 
 

Seinni tíma raflostmeðferð

Svo sem flestum ætti að vera kunnugt er raflostmeðferð beitt enn þann í dag, einkum við þunglyndi. Munurinn á meðferðinni nú til dags og á fyrstu áratugum hennar er einkum að nú eru undantekningarlaust notuð lömunarefni og sjúklingurinn svæfður fyrir aðgerðina. Einnig eru víða notuð einskauta-raflost, þ.e.a.s. annað rafskautið er haft á gagnauga sjúklings en hitt á enni, í stað beggja rafskauta á gagnaugu svo sem fyrr tíðkaðist. Einskauta raflostmeðferð er talin hafa minni hættu á minnistapi í för með sér.

Reglulega hafa blossað upp deilur um hvort þetta sé forsvaranleg læknismeðferð. Þær verða ekki raktar hér en bent á eftirfarandi:

Aldrei hefur verið sýnt fram á af hverju raflost virka á þunglyndi (séu menn sammála því að þau virki á sjúkdóminn). Það eru sem sagt engar vísindalegar forsendur fyrir notkun þeirra, einungis klínísk reynsla og mat geðlækna á virkninni. Getum hefur verið leitt að því að virki raflostmeðferð raunverulega eitthvað til bóta á þunglyndi sé það fyrst og fremst vegna lyfleysu-áhrifa (placebo) (Blease. 2013). Allir eru sammála um að verkun raflostmeðferðar gegn þunglyndi er stutt, oftast örfáir mánuðir.

Reglulega berast fregnir af kvörtunum sjúklinga undan miklum minnistruflunum eftir raflostmeðferð, jafnvel margra ára varanlegu minnisleysi. (Donahue. 2000 og Sackheim. 2007.) Þetta hefur aldrei verið rannsakað almennilega og því enn á huldu í hversu miklum mæli varanlegt langtíma minnisleysi fylgir meðferðinni. Á síðustu árum hefur og verið vakin athygli á því hve mikið ber í milli í niðurstöðum rannsókna, sem eru gerðar meðal geðlækna eða á vegum geðlækna og rannsóknum sem gerðar eru meðal sjúklinga, um ágæti meðferðarinnar. (Rose. 2003 og Blease. 2013.)
 

Í næstu færslu verður fjallað um raflostmeðferð á Íslandi (sem íslenskir geðlæknar vilja kalla raflækningar). Það verður eilítil bið á þeirri færslu því mín bíður prófaáþjánin mikla …
 
 

Heimildir auk efnis sem er tengt í úr færslunni:
 

Aruta, Alessandro. Shocking Waves at the Museum: The Bini–Cerletti Electro-shock Apparatus. Medical History, 55. árg. 3. tbl., s. 407–412. 2011.

Beveridge, A. W.; Renvoize, E. B. Electricity: A history of its use in the treatment of mental illness in Britain during the second half of the 19th century. The British Journal of Psychiatry, 153. árgangur, ágúst 1988.

Blease, Charlotte. Electroconvulsive Therapy, The Placebo Effect and Informed Consent. Journal of Medical Ethics, 29. árg. 3. tbl. s. 166-70. Mars 2013. Af þessari síðu má hlaða niður greininni í .doc skjali en maður þarf að vera loggaður inn á Facebook til að geta það.

Crocq, Marc-Antoine og Louis Crocq. From shell shock and war neurosis to posttraumatic stress disorder: a history of psychotraumatology. Dialogues in Clinical Neuroscience, 2. árg. 1.tbl. s. 47–55. Mars 2000.

Donahue, Anne B. Electroconvulsive Therapy and Memory Loss: A Personal Journey. The Journal of ECT, 16. árg. 2.tbl., s. 133-143. 2000.

Endler, Norman S. Origins of Electroconvulsive Therapy (ECT). Convulsive Therapy, 4. árg. 1. hefti, s. 5-23. 1988.

Hofer, Hans-Georg. War Neuroses. Europe Since 1914: Encyclopedia of the Age of War and Reconstruction. 2006

Kragh, Jesper Vaczy. Psykiatriske chokbehandlinger. Magasinet Humaniora nr. 4, s. 4-7. 2005.

Kragh, Jesper Vaczy. Elektrochok, psykiatri og historie. Ugeskrift for Læger, 167. árg, 50 tbl. 2005.

Kragh, Jesper Vaczy. Shock Therapy in Danish Psychiatry. Medical History, 54. árg., 3. tbl., s. 341-364. Júlí 2010.

Kragh, Jesper Vaczy. Det hvide snit. Psykokirurgi og dansk psykiatri 1922-1983. Syddansk Universitetsforlag. 2010.

Pascual-Leone, Alvaro og Timothy Wagner. A Brief Summary of the History of Noninvasive Brain Stimulation. Annual review of biomedical engineering. Í fylgiriti með 9. árg., s. 527-565. 2007

Rose, Diana o.fl. Patients’ perspectives on electroconvulsive therapy: systematic review. British Medical Journal, júní 2003.

Sackeim, Harold A  o.fl. The Cognitive Effects of Electroconvulsive Therapy in Community Settings. Neuropsychopharmacology 32, s. 244–254. 2007.

Shephard, Ben. A War of Nerves: Soldiers and Psychiatrists in the Twentieth Century. Harvard University Press, 2003
Aðgengileg til skoðunar á Google Books.

Shorter, Edward. A History of Psychiatry from the Era of the Asylum to the Age of Prozac. John Wiley & Sons, Inc. Bandaríkjunum. 1997.

Shorter, Edward. The History of ECT:Some Unsolved Mysteries. Psychiatric Times. Febrúar 2004.

Tatu, Laurent o.fl.The “torpillage” neurologists of World War I. Electric therapy to send hysterics back to the front. Neurology, 75. árg. 3. tbl., s. 279-283. 2010.
 
 

Upphaf lost-lækninga við geðveiki

  
  
Insúlín-lost Manfreds Sakel

Manfred Sakel fæddist í Austurrísk-ungverska keisaradæminu og stundaði nám í Vín. Árið 1927 gegndi hann störfum geðlæknis á hæli fyrir eiturlyfjafíkla í Berlín. Ýmsir listamenn leituðu sér hjálpar á þessu hæli, þar á meðal leikkona sem var morfínfíkill en að auki sykursjúk. Fyrir mistök gaf Sakel henni of stóran skammt af insúlíni og hún féll í dá. Þegar hún rankaði við sér aftur virtist morfínfíknin á bak og burt. Sakel prófaði því að gefa öðrum fíklum stóra skammta af insúlíni og taldi sig hafa uppgötvað lækningu gegn fíkn. Uppgötvun hans fékk engan hljómgrunn en þegar hann flutti aftur til Vínar, árið 1933, hélt hann áfram insúlín-tilraunum sínum.

Insulin lostSvo háttaði til að Sakel hafði umsjón með deild geðklofasjúklinga í Vín. Hann reyndi insúlínið á þeim enda þóttist hann hafa merkt í fyrri tilraunum að insúlín hefði góð róandi áhrif á geðsjúka. Sakel sprautaði sjúklingana með stórum insúlínskömmtum, blóðsykur þeirra féll mjög og þeir féllu í djúpt dá. Áður en þeir misstu meðvitund fengu margir þeirra krampa. Til að lífga sjúklinga aftur úr insúlíndáinu hellti Sakel ofan í þá sykurlausn, ca. 150 g af sykri uppleystum í vatni.

Manfred Sakel hafði enga skýra kenningu um það af hverju þessi meðferð virkaði. Hann taldi að kannski blokkeraði insúlínið virkustu heilafrumurnar – sem yllu geðveikinni – og á sama tíma styrkti það „eðlilega virkni“ í heilanum. Eða að insúlínið hefði „afeitrunaráhrif“, ef vera kynni að seinna kæmi í ljós að geðklofi stafaði af einhvers konar eitrun. Að mati Sakel skipti þetta litlu máli, aðalatriðið var að meðferðin virkaði.

Sakel gaf út fyrstu niðurstöður sínar á tilraunum með stóra insúlínskammta árið 1933, tveimur árum síðar gaf hann út bókina Neue Behandlungsmethode der Schizophrenie. Í bókinni hélt hann því fram að árangurinn væri undraverður: Yfir 70% geðklofasjúklinga hefðu náð fullum bata og allt í allt hafði 88% af sjúklingunum batnað eitthvað. Þetta spurðist um heim allan enda geðklofi sérlega erfiður viðureignar og á geðveikrahælum beggja vegna Atlandshafsins var insúlín-lost-meðferðin umsvifalaust tekin upp.

Danski geðlæknirinn Otto Jul Nielsen sótti Sakel heim í Vínarborg, sá með eigin augum árangurinn og byrjaði að prófa á sínum sjúklingum á Frederiksberg Hospital 1936. Fljótlega fylgdu ríkisreknu geðsjúkrahúsin í kjölfarið, fyrst Sindssygehospitalet í Árósum, síðan Vordingborg og svo koll af kolli.

Vagn Askgaard, yfirlæknir á Vordingborg, skrifaði grein í Månedsskrift for Praktisk Lægegerning þar sem hann lýsti reynslunni á Vordingborg og framkvæmd insúlínlosta þar. Eins og í Vínarborg byrjum við snemma á morgnana og sjúklingarnir eru sprautaðir klukkan 7, sagði Askgaard. Stuttu eftir sprautuna byrjuðu sjúklingarnir að svitna gífurlega og slefan rann í stríðum straumum. Áður en meðvitundarleysið tók við fengu sjúklingarnir kippi og krampa og stundum flog sem líktist flogaveiki. Svo féllu þeir í dá og engin viðbrögð við áreiti voru merkjanleg. Í dáinu lágu þeir með opin augun. Til að vekja sjúkling úr dái var leidd sonda gegnum nös ofan í maga og hellt í sykurvatni um trekt. Venjulega gefum við sykurinn um 11-11.30 leytið og svo verður að bíða í 8-10 mínútur uns sjúklingurinn rankar úr rotinu. Vaninn er að gefa hverjum sjúklingi lost 6 sinnum í viku í allt að þrjá mánuði.

Árið 1937 ákváðu danskir geðlæknar á fundi Danska geðlæknafélagsins að taka saman yfirlit yfir árangurinn af insúlín-lostunum (og raunar cardiazol-lostunum líka). Sú vinna tók tímann sinn því um leið þurfti að ná samkomulagi um greiningu geðsjúkdóma, þ.e.a.s. hanna samræmda greiningu. Niðurstöðurnar litu ekki dagsins ljós fyrr en á fundi í janúar 1941 og voru birtar opinberlega í tímaritinu Acta Psychiatrica et Neurologica árið 1942. Í hópi 162 ótvíræðra geðklofasjúklinga hafði einungis 4 batnað við insúlín-lostin. „Þetta var eins og ísköld vatnsgusa“, sagði geðlæknirinn Villars Lunn seinna um fundinn, „en kom okkur þó ekki að óvörum. Því við vissum hver skýringin var – nefnilega þær stífu og ófrávíkjanlegu kröfur sem við hérlendis gerum skylt að uppfylla til að sjúkdómsgreina geðklofa.“ Í þessari úttekt kom einnig í ljós að um 1% sjúklinganna hafði dáið af meðferðinni. Ýmsar aðrar óheppilegar aukaverkanir fylgdu henni, t.d. vandamál tengd hjarta og lungum og beinbrot af ýmsum toga. En fundarmenn samþykktu einróma að „þrátt fyrir ýmsa erfiðleika“ væru bæði insúlín-lost og cardiazol-lost „óvenju stórt framfaraspor innan geðlækninganna.“  Danskir geðlæknar héldu áfram að nota bæði insúlín-lost og cardizol-lost eftir þetta þótt raflost og lóbótómía leystu þau fljótlega að hluta til af hólmi. Þeir héldu einnig áfram að skrifa lofsamlega um bæði insúlín-lost og cardiazol-lostin, þrátt fyrir niðurstöðurnar sem fengust 1941.

Hér má sjá myndband af sjúklingi sem fær insúlínlost. Menn ættu ekkert að horfa á það nema þeir séu sterkir á taugum … Og í upphafi norska sjónvarspþáttarins/fréttarinnar Sjokkbehandling i norsk psykiatrihistorie sést sjúklingur fá insúlínlost, um miðbikið sést meir af sama atburði.
 

Að sögn Óttars Guðmundssonar (2007, s. 73) hafði Helgi Tómasson, yfirlæknir á Nýja-Kleppi, áhuga á insúlínlost-meðferðinni og vildi senda hjúkrunarfræðing til útlanda til að kynna sér aðferðina en „hún virðist aldrei hafa komist í almenna notkun.“ Kristján Þorvarðsson geðlæknir skrifar í greininni Rotlækningar geðveikra (Shock therapia) í Læknablaðinu 1947 mjög lofsamlega um insúlínlost-aðferðina, segir: „Árangurinn hefir orðið misjafn, en flestir eru þó sammála um, að insúlin-lækningin gefi betri árangur við schizophrenia en nokkur önnur lækningaðaðferð sem enn hefir verið reynd við sjúkdómi þessum.“ Máli sínu til sönnunar vitnar Kristján í bandaríska könnun. Hann segir að batinn haldist misjafnlega lengi, fáar vikur til eins árs hafi sjúkómurinn staðið lengi en „hafi veikin aðeins varað stutt, getur batinn haldizt árum saman.“ Kristján nefnir að insúlínlost gefist og afar vel við „confusio mentis psychogenia, paranoid psychogen psychosum og neurosum“. Það er engin leið að meta af grein hans hvort hann hefur prófað þetta sjálfur á sínum sjúklingum eða byggir einungis á því sem hann hefur lesið. Kristján nam geðlækningar í Danmörku, starfaði á ýmsum geðveikraspítölum þar á árunum 1937-44, og var búinn að lesa niðurstöður Danska geðlæknafélagsins sem birtust 1942 en vitnar ekki í þær þegar hann fjallar um árangur insúlínlostanna.

Í grein Alfreðs Gíslasonar, Bjarna Oddssonar og Kristjáns Þorvarðssonar, Lobotomia, sem birtist í Læknablaðinu 1952, eru raktar margar sjúkrasögur. Ein þeirra er saga 44 ára gamallar ógiftrar konu:
 

[Hún hefur verið] geðveik í 17 ár, byrjaði með exaltio, breyttist brátt í schizophren mynd (katakonia).  Fékk insulinlost 1936 (Jón heitinn Geirsson læknir) í 3 vikur, án árangurs. 1937 cardiazol-lost, 20 aðgerðir (J. G.) með allgóðum árangri. Bati hélzt stutt.

Jón Geirsson var fæddur 1905 og starfaði sem heimilislæknir á Akureyri frá 1934 til æviloka árið 1950. Hann hlýtur að hafa beitt þessum meðferðum á sjúkrahúsinu þar.

Af ofansögðu er ómögulegt að ráða í hve miklum mæli insúlín-losti var beitt á geðklofa sjúklinga á Íslandi. Sjálfsagt hefur það ekki verið ýkja mikið því það þurfti að gera þetta á sjúkrahúsi, með aðstoðarfólk við höndina og helst að hafa tiltækt adrenalín ef sjúklingurinn vaknaði ekki úr dáinu.
 
 

Cardiazol-lost Ladislas Meduna

Um svipað leyti og Manfred Sakel fann upp insúlín-lost fann Ladislas J. Meduna upp cardiazol-lostin. Meduna þessi var ungverskur geðlæknir sem hafði, af klínískri reynslu sinni, tekið eftir að geðklofasjúklingar voru nánast aldrei flogaveikir. Hann fór að velta fyrir sér af hverju þetta gæti stafað. Hann rannsakaði heila bæði flogaveikra og geðklofasjúklinga og taldi sig sjá að í heilum hinna fyrrnefndu var meira taugatróð (vefur til styrktar taugafrumum, heitir glia á ensku) en eðlilegt gat talist og að sama skapi minna taugatróð en eðlilegt gat talist í heilum geðklofasjúklinganna. Af því dró hann þá ályktun að flog/krampar gætu aukið taugatróðið í geðklofasjúklingum sem myndi þá lækna sjúkdóminn.

Meduna hóf strax leitina að efni sem framkallaði krampa Hann byrjaði á því að gera tilraunir á dýrum og var loks á því að kamfóra virkaði skást í þessum tilgangi (eftir að hafa prófað koffein, stryknín, o.fl.) Svo fór hann að gera kamfóru-tilraunir á geðklofa sjúklingum sínum í Lipotmez, rétt fyrir utan Búdapest. Þótt Meduna þættist merkja að sjúklingunum batnaði talsvert við að vera sprautaðir með kamfóru var hann ekki nógu ánægður með áhrif hennar og skipti yfir í cardiazol (efnið pentylenetetrazol, einnig kallað metrazol). Áður hafði cardiazol verið notað sem hjartalyf en væri því sprautað í stórum skömmtum olli það nánast umsvifalaust krampa, virkaði miklu hraðar en kamfóran. Medina birti fyrstu niðurstöður sínar á tilraunum til að sprauta cardiazoli í 26 geðklofasjúklinga (þar sem hann hélt því fram að tíu hefði alveg batnað og þremur batnað að hluta) árið 1935 og aðalritverk hans, Die Konvulsionstherapie der Schizophrenie,  kom út 1937. Í því segir hann frá árangri meðferðarinnar á 110 sjúklingum og staðhæfir að helmingi þeirra hafi batnað. (Þegar seinni tíma menn fóru ofan í saumana á rannsóknum Medina kom í ljós að hann hafði hagrætt niðurstöðunum töluvert.) Geðlæknar um alla Evrópu tóku aðferð Medina fagnandi, geðlæknar í Ameríku fögnuðu henni enn meir, og cardiazol-lostin voru hvarvetna notuð á geðklofasjúklinga.

cardiazol lostÍ Danmörku voru geðlæknar við Rigshospitalet í Kaupmannahöfn fyrstir til að nota cardiazol-lost, svo Vordingborg og svo hver spítalinn á fætur öðrum. Í Vordingborg tóku menn daginn snemma: Sjúklingurinn sem átti að meðhöndla var látinn liggja á bakinu í rúmi sínu með útlimi teygða frá sér. Koddi var settur undir höfuðið og samanbrotinn koddi undir axlir til að draga úr slysahættu af ofsafengnum krömpunum. Sjúklingurinn var svo sprautaður með 500-700 milligrömmum af uppleystu cardizoli. Tíu sekúndum eftir sprautuna þurfti læknirinn að grípa um úlnliði sjúklings og halda föstum, jafnframt að ýta niður öxlum hans. Næstu 50 sekúndurnar fékk sjúklingurinn slæmt flog, húðin blánaði, hendur og fætur kipptust til ótt og títt og loks missti sjúklingurinn meðvitund.

Á YouTube er örstutt myndband af sjúklingi sem er sprautaður með cardizol. Ég vara viðkvæma við að horfa á það.

Til er lýsing sjúklings á þessari meðferð, tæplega fertugs karlmanns sem var lagður inn á Vordingborg og greindur manio-depressívur. Yfirlæknar lásu yfir öll bréf til og frá sjúklingum og héldu eftir bréfum ef þeim sýndist, bréfin hafa svo varðveist með sjúkraskrám. Sama skikk var á Kleppi og þess vegna hefur fjöldi bréfa sjúklinga varðveist, að sögn Óttars Guðmundssonar (2007). Maðurinn á Vordingborg skrifaði fjölskyldu sinni og sagði frá cardiazol-lostmeðferðinni sem hann var beittur árið 1938:
 

Undanfarið hef ég fengið ca. 5-7 sprautur með einhverju sem heitir cardiazol. Sprautað er í venu (æð sem liggur til hjartans) í hægri olnbogabót. Þetta er eitthvað nýtt segir Dr. Hahnemann. Það hefur mjög sterka verkun, allt öðru vísi en allt annað, sem ég hef hingað til verið sprautaður með. Ca. 10 sekúndum eftir að maður hefur verið sprautaður er eins og manni sé kippt út úr sjálfum sér inn í annan heim, en samt sér maður þá sem standa hjá eins og í gagnsærri þoku. Þetta er algerlega óþolandi og fullkomlega ómögulegt að komast út úr þessu. Stundum er verkunin sterkari, stundum veikari; þegar hún er sterk sér maður sýnir. Stofan sem maður liggur í fer að líkjast helvíti og það er eins og maður brenni í ósýnilegum eldi. Þetta er mjög óhugnalegt. En nú er þessu sem betur fer lokið.

Verkunin af cardiazol var svo óhugnaleg að margir sjúklingar voru skelfingu lostnir af tilhugsuninni um sprauturnar. „Það kom fyrir að við, oft fjórir karlmenn, þurftum bókstaflega að brjóta mótspyrnu sjúklinganna á bak aftur“ sagði Villars Lunn, sem starfaði á Vordingborg (og varð seinna yfirlæknir á Rigshospitalet). Í sjúkraskrám Vordingborg er víða nóterað eitthvað um sjúklinga sem voru dauðhræddir við cardiazolmeðferðina. Ein kona var „svo hrædd við líkurnar á að henni yrði gefið annað lost, að hún hefur æpt hástöfum frá því snemma í morgun“ og „hótað að hárreyta deildarlækninn“.Yfirlæknirinn á Vordinborg, Victor Hahnemann, skrifaði grein um frábæran árangur af cardiazol-meðferðinni þar á árunum 1937-38 og birti í Ugeskrift for Læger í júní 1939. Þar segir hann að af 207 sjúklingum með geðklofa hafi 19% náð fullum bata, 33% náð nokkrum bata en enginn bati sjáist hjá 48% þeirra. Auk þeirra hafi hann meðhöndlað 24 þunglyndissjúklinga og 15 maníusjúklinga: Öllum batnaði. Niðurstaða hans var að cardiazol-lost væru ekki bara dýrmætt verkfæri til að fást við geðklofa heldur einnig lundarfars-geðveiki (stemnings-psykoser).

En … þegar Danska geðlæknafélagið fór að athuga kerfisbundið hverju cardiazol-lostin (og insúlin-lostin) hefðu skilað (sjá um þessa ákvörðun ofar í færslunni) og birti niðurstöðurnar fyrst á fundi 1941, síðar í fagriti 1942, varð ljóst að draumalækningin sem Hahnemann taldi sig hafa séð var tálsýn. Einungis 9 geðklofasjúklingum af 782 hafði batnað að fullu! Í hópi annrra geðsjúklinga (manio-depressivra, þeirra sem ekki var öruggt að væri geðklofa o.fl.) var árangurinn miklu betri, eða fullur bati hjá tæplega 40% þeirra. Cardiazol-lostin reyndust ekki eins hættuleg og insúlín-lostin en samt dóu 0,5% þeirra sem meðferðinni voru beittir. Talsvert var um skaða í lungum, hjartakvilla, sprungur á hrygg, upphandlegg og í hálsi.

Þótt menn kæmust upp á lag með að nota curare sem vöðvaslakandi lyf í lost-meðferðum fljótlega upp úr 1940 byrjuðu Danir ekki að nota það fyrr en 1948. Upp úr 1950 var hætt að nota cardiazol og insúlín til að framkalla krampa í geðsjúklingum, raflostin urðu þá allsráðandi.

Það er athyglisvert að þegar Kristján Þorvarðsson, danskmenntaður geðlæknir hér á landi, lýsir niðurstöðum Danska geðlæknafélagsins (í greininni Rotlækningar geðveikra í Læknablaðinu 1947) orðar hann þetta svona:
 

Árið 1942 lét Dansk psykiatrisk Selskab safna skýrslum um árangurinn af cardiazolaðgerðinni á schizophrenum sjúklingum. 11,3% urðu albata, þeirra, sem ekki höfðu verið veikir lengur en 1 ár.

Þarf varla að taka fram að Kristjáni þótti þetta mikil ágætis-lækningaraðferð og hann bætir við, með tilvísun í dönsku niðurstöðugreinina:
 

Cardiazol-meðferðin hefir verið reynd við psychogen psychosur, depressio mentis (bæði endogen og psychogen depressio), einnig við depressionir í klimakteríum, mani og psychoneurosum. Árangurinn er oftast góður og batinn fæst venjulega eftir fáar aðgerðir, fullur bati eða allgóður í yfir 75% tilfella. (Acta psych. 1942).

Því miður hef ég ekki aðgang að greininni í Acta Psychiatrica et Neurologica árið 1942 og get því ekki rakið nákvæmlega hvernig Kristján fegrar mynd sína af árangri cardiazol-losta. Hann telur raunar að raflost séu mun heppilegri því árangurinn sé ekki síðri af þeim og sjúklingarnir ekki nærri eins hræddir við raflostin.
 
 

Ómögulegt er að segja til um í hve miklum mæli cardiazol-lost voru notuð á Íslandi. Í sjúkrasögunni sem vitnað var í fyrr í færslunni kemur fram að sjúklingurinn (44 ára gömul kona) hafði árið 1937 verið sprautuð með cardiazol tuttugu sinnum, á Akureyri. Nær öruggt er að þessa meðferð hefur ekki verið hægt að veita nema á sjúkrahúsi. Á eina geðsjúkrahúsi landsins, Kleppi, var hún ekki notuð því Helgi Tómasson hafði illan bifur á cardiazol-lostum. Í greininni Rafrot við geðveiki, sem birtist árið 1955 segir Helgi:
 

    Tortryggni mín kom þegar upp við lestur fyrstu greinar v. Meduna um krampaaðgerðirnar, þar sem hann ályktar út frá því, sem vitanlega var rangt, þ. e. andstæðu geðklofa og flogaveiki.
    Það jók tortryggni mína, þegar ég sá sjúkling, sem telja varð lítið veikan, með cardíazolkrampa, sams konar krampa og maður árum saman hafði verið að berjast á móti, hafði jafnvel séð sjúkling deyja af, og manni gat aldrei skilizt, að nokkur sjúklingur hefði nema illt af krömpunum. Það bætti ekki um, þegar maður fékk nokkra sjúklinga til meðferðar á spítala eða utan spítala með sjúkdóm, sem manni virtist hefði átt að albatna, en sjúklingarnir höfðu í þess stað fengið „vefræn“ einkenni í viðbót, að því er bezt varð séð, vegna þeirrar rotmeðferðar sem þeir höfðu sætt hjá öðrum lækni.

Helgi fór nær árlega utan til að fylgjast með nýjustu stefnum og straumum í geðlækningum. Það kann vel að vera að suma sjúklingana sem hann lýsir í þessu broti hafi hann séð ytra en kann líka að hafa verið hérlendis.
 
 
 
 
 

Heimildir aðrar en krækt er í úr  færslunni:
 

Alfreð Gíslason, Bjarni Oddsson og Kristján Þorvarðsson. Lobotomia. Læknablaðið 36. árg., 7. tbl., s. 97-112. 1952.

Helgi Tómasson. Rafrot við geðveiki. Heilbrigðisskýrslur 1951. 1955.

Kragh, Jesper Vaczy. Psykiatriske chokbehandlinger. Magasinet Humaniora nr. 4, s. 4-7. 2005.

Kragh, Jesper Vaczy. Shock Therapy in Danish Psychiatry. Medical History, 54. árg., s. 341-364. 2010.

Kragh, Jesper Vaczy. Det hvide snit. Psykokirurgi og dansk psykiatri 1922-1983. Syddansk Universitetsforlag. 2010.

Kristján Þorvarðsson. Rotlækningar geðveikra (Shock therapia). Læknablaðið 32. árg., 2. tbl., s. 17-22. 1947.

Óttar Guðmundsson. Kleppur í 100 ár. JVP útgáfa, 2007.

Psykiatriens Historie i Danmark. Hans Reitzels Forlag, Kaupmannahöfn. 2008, ritstjóri Jesper Vaczy Kragh.

Shorter, Edward. A History of Psychiatry from the Era of the Asylum to the Age of Prozac. John Wiley & Sons, Inc. Bandaríkjunum. 1997.
 
 
 
 
 

Malaría, brennisteinsolía og hiti við geðveiki

Julius Wagner-Jauregg starfaði sem geðlæknir í Vínarborg og af klínískri reynslu sinni þóttist hann hafa tekið eftir að geðsjúklingum af sýfilis sem fengu hitasótt skánaði geðveikin. Wagner-Jauregg fór því að prófa sig áfram með að framkalla hitasóttarviðbrögð í sjúklingum sínum, prófaði m.a. að sýkja þá með streptókokkum og turbeculini (efni unnið úr berklabakteríunni, var talið gagnast til að lækna berkla en reyndist ónothæft til þess, hins vegar var það seinna notað til að prófa húðviðbrögð þegar skimað er fyrir berklum) en hafði ekki erindi sem erfiði. Lukkuhjólið snérist honum í hag þegar hann fékk malaríusmitaðan hermann á taugadeildina sína. Malaría var miklu viðráðanlegri en önnur alvarleg hitasótt því kínín var uppfundið og mátti gefa við malaríu. Wagner-Jauregg sprautaði blóði malaríusmitaða sjúklingsins í tvo sjúklinga með sýfilisgeðveiki (dementia paralytica) þann 14. júní 1917; svo notaði hann blóðið úr þeim til að sýkja lítinn hóp sýfilis-geðveikis-sjúklinga. Þessir sjúklingar fengu háan hita. Þegar hitinn hafði náð hámarki nokkrum sinnum var þeim gefið kínín gegn malaríunni. Og voru þá frískir af geðveikinni, að mati Wagner-Jauregg.

Wagner-Jauregg birti niðurstöður tilrauna sinna árið 1918. Í þeim hélt hann því fram að uppundir 70% sjúklinganna hefði batnað geðveikin við að sýkjast af malaríu. Á þessum tíma var geðveiki af völdum sýfilis stórt vandamál á evrópskum geðveikrahælum; Hún var gersamlega ólæknandi og dauðdaginn hræðilegur. Frá því veikin braust út og þar til menn dóu liðu að jafnaði þrjú ár. Svo menn tóku uppgötvun Wagner-Jauregg fagnandi og árið 1927 fékk hann Nóbelsverðlaunin fyrir uppfinningu sína, fyrstur geðlækna.

Sokkur sýfilsgeðveiks sjúklingsÍ Danmörku vildu menn auðvitað reyna þetta líka. Sjúklingar með dementia paralytica voru margir þar: Árið 1924 var áætlað að þeir væru 10%-20% af öllum innlögnum á geðveikahæli í Danmörku, við síðari tíma athugun á innlögnum á Sct. Hans spítalann í Hróarskeldu á árabilinu 1915-1921 reyndust sjúklingar með sýfilis-geðveiki vera 18% allra innlagðra.

Yfirlæknirinn á Sct. Hans í Hróarskeldu, Axel Bisgaard, lýsti dementia paralytica á þessa leið, árið 1923:

Fyrstu merki sjúkdómsins eru venjulega minnistruflanir, að sjúklingurinn er illa áttaður og lundin er ýmist svartsýn eða í skýjunum. Oft er göngulag skrykkjótt og vöðvakippir í andlitinu, einkum kringum munninn. Sjúklingurinn á erfitt með mál, skrift hans er hrafnaspark og hann gerir urmul af villum. Sjáöldrin eru sem títuprjónar. Sé sjúklingur í skýjunum slær hann um sig með stórfenglegum hugmyndum og loftköstulum, sem tengjast á furðulegan hátt og orðfæri er undarlegt. Seinna meir lamast svona sjúklingar oft að hluta og fá krampaköst, samfara því að sjúklingurinn verður æ sljórri og að lokum alveg út úr heiminum.  

Myndin er úr Psychiatrie: Ein Lehrbuch für Studirende und Aerzte eftir Emil Kraepelin (útg. 1899) og sýnir sokk sem sýfilisgeðveikur sjúklingur prjónaði. Sem sjá má kemst enginn í þennan sokk.
 

Fyrstur til að prófa malaríumeðferðina í Danmörku var Axel Bisgaard, yfirlæknir á Sct. Hans. Hann fór með tvo sjúklinga sína til Vínarborgar, til Wagner-Jauregg, og lét smita þá þar. Blóðið úr þeim var svo notað til að smita fleiri og þannig koll af kolli á geðsjúkrahúsum um alla Danmörku. Fyrirmælum Wagner-Jauregg var fylgt: Sjúklingarnir skyldu fá 10 hitatoppa, þar sem hitinn væri 40°-41°stig og svo mátti gefa þeim kínín. Þetta var auðvitað hrossalækning og talverð hætta á að deyja af henni. Niðurstöður deildarlæknis á Sct. Hans, sem skoðaði afdrif hundrað malaríusýktra kvenna, árið 1939, voru að 13% hefðu látist úr malaríunni. 1944 fóru menn aftur yfir tölurnar á Sct. Hans og þá var niðurstaðan sú að af öllum sjúklingum sem þessi lækningaraðferð var prófuð á hefðu 7% látist af meðferðinni. En jafnframt virtist 30-50% hafa batnað svo dönsku geðlæknarnir voru áfram jákvæðir í garð þessarar meðferðar.

Menn höfðu samt ekki hugmynd um af hverju malaríusýkingin virkaði. Sumir héldu að malarían truflaði einhvern veginn sýfilisbakeríuna, sumir héldu að hitinn sjálfur væri læknandi, sumir héldu að malarían styrkti líkamann til að framleiða mótefni sem hægði á sárasóttinni (sýfilisnum).

Smám saman dró úr notkun þessarar aðferðar í Danmörku. Kom þar ýmislegt til, t.a.m. erfiðleikar við að halda malaríunni við, þ.e.a.s. að hafa alltaf til reiðu smitaða sjúklinga í mörgum blóðflokkum svo hægt væri að smita aðra sjúklinga, nýjar hitahækkandi aðferðir eins og hitakassar (sjá undir lok þessarar færslu), sem komu líkamshitanum í 40°, héldu innreið sína 1942 og loks þegar pensillínið kom á markað eftir síðari heimsstyrjöldina vann það á sýfilis og dementia paralytica varð sárasjaldgæfur geðsjúkdómur. Samt sem áður var haldið eitthvað áfram að smita sýfilisgeðveika með malaríu, t.d. var þeirri meðferð beitt á 13 sjúklinga árið 1948 og 22 sjúklinga árið 1949 á Sct. Hans geðsjúkrahúsinu. En svo hættu menn þessu.

Mér þykir afar ólíklegt að malaríumeðhöndlun hafi nokkru sinni verið reynd á Íslandi, þó ekki væri nema vegna fámennis og erfiðleika við að halda malaríu hér við. Dementia paralytica virðist heldur ekki hafa verið algengur geðsjúkdómur hérlendis. Í fyrirlestrinum Áhrif föstu á undirvitundina, sem Þórður Sveinsson flutti í Læknafélagi Reykjavíkur í desember 1922, sagðist hann ekki hafa fengið sjúkling með dementia paralytica hérlendis en hefði séð þá hundruðum saman í Þýskalandi og Danmörku. Í lista yfir 300 sjúklinga sem voru lagðir inn á Klepp 1933-36 hafa fimm karlar og ein kona þessa sjúkdómsgreiningu, þ.e. 2% sjúklinganna. (Helgi Tómasson o.fl. 1937.) Svo það var engin knýjandi þörf fyrir lækningu á þessum geðsjúkdómi hérlendis.
 
 

Brennisteinsolíu-meðferð

Góður árangur af malaríumeðferðinni við dementia paralytica blés geðlæknum nýrri von i brjóst um að finna sambærilegar meðferðir við öðrum erfiðum geðsjúkdómum. Menn horfðu þar helst til geðklofa, sem danskur yfirlæknir kallaði „hið mikla ólæknandi botnfall sem fyllir geðveikraspítalana.“ Yfirleitt er talið að 50-60% sjúklinga á geðspítölum í Evrópu hafi verið haldnir geðklofa. Helgi Tómasson segir í greininni Æði hjá sjúklingum með schizophreni sem birtist í Læknablaðinu 1932 um geðklofa/geðklofasjúklinga:
 

Engin tæki eru þekt, né útbúnaður, sem geti stöðvað óróaköst þeirra [- – -] ef ekkert væri aðhafst myndu sjúklingarnir æða til dauða eða koma stórslasaðir úr köstunum, því hér er um hina bandóðustu allra brjálaðra manna að ræða.

Og svo alveg sé  ljóst sé við hvað var að etja er hér hluti af sjúkrasögu úr grein Helga:
 

I. 27 ára karlmaður, V. K., No 207/98, veikur í 8 ár af mjög svæsinni schizophreni. Hér á spítalanum síðan 1931. Er sljór og uppleystur en fær öðru hvoru altaf hin hroðalegustu æðisköst, sem standa nokkra daga til 2-3 vikur, ræðst á allt og alla, brýtur og bramlar, er mjög misskynjandi, skammast og öskrar, neytir hvorki svefns né matar. Virðist í lok kastanna oft alveg aðframkominn, grásvartur á lit, þurr og altekinn.
    14.08. 1934: Byrjandi kast undir kvöldið. Fyrst ekki mjög æstur og fær því kl. 20,30 1 g. Medinal. Róast ekki vel af því og fær því kl. 22 1,5 g. Chloral. Þetta dugar ekkert, hann verður æstari og æstari, nær í ofngrindina og rífur hana upp, hendir henni í gluggann og mölbrýtur margar rúður. Hann hefir frá gamalli tíð verið í belti í rúminu, dansar nú með rúmið um stofuna, og ber og lemur. Fær kl. 23,30 scop.-morfin (1,5 mg-1 ctg.) og 10 mín. síðar aftur sama skamt. Verður smámsaman rólegur af þessu og fellur í mók, en vaknar kl. 4 engu betri. Fékk þá aftur scop.-morfin, helmingi minni dosis, róast aðeins lítið, og er kl. 10 orðinn mjög óður og óviðráðanlegur. Brýtur rúðu með hnefanum, sker sig dálítið, virðist eins og átta sig snöggvast, kvartar um ófrelsi sitt og ilsku og hágrætur. Stuttu síðar aftur alveg sjóðvitlaus […]

Lyflæknirinn Knud Schroeder, yfirlæknir á sjúkrahúsinu í Óðinsvéum, fór að gera tilraunir með nýja hitaframkallandi meðferð, sem hann hugsaði í upphafi sem viðbót eða valkost við malaríumeðferðina og átti að beita á dementia paralytica. Hann fann upp á að nota nýtt efni, brennisteinsolíu (sulfosin), sem olli háum hita þegar því var sprautað í vöðva. Schroeder hélt því fram að það væri auðveldara að eiga við brennisteinsolíuna en malaríu og taldi líka að hún gæti gagnast við fleiri geðsjúkdómum en dementia paralytica, t.d. geðklofa (sem í Danmörku var ýmist kallaður dementia præcox eða skizofreni), það væri um að gera að prófa. Í greinunum sem hann skrifaði setti hann aldrei fram neina skýringu á því af hverju innsprautun með brennisteinsolíu ætti að virka á aðra sjúkdóma en dementia paralytica, lét duga að staðhæfa að hár hiti virtist hafa góð áhrif á geðklofasjúklinga.

Fyrstu niðurstöður á prófunum hans á brennisteinsolíu voru birtar 1927, vöktu mikla athygli og gerðu Knud Schroeder heimsfrægan. Aðferðin var notuð víða um heim og auðvitað í Danmörku. Á áratugnum 1928-38 voru t.d. mörg hundruð sjúklingar á Vordinborg (Oringe) geðveikrahælinu sprautaðir með brennisteinsolíu. Samt hafði yfirlæknirinn þar, Hjalmar Helweg, skrifað neikvæðan dóm um meðferðina í Ugeskrift for Læger 1929, sagt að lækningarmáttur hennar gegn geðklofa væri ekki sannfærandi. Geðlæknirinn Jørgen Ravn, sem vann á Sct. Hans geðsjúkrahúsinu, skrifaði grein um brennisteinsolíumeðferðina í Nordisk Medicinsk Tidsskrift 1934 þar sem hann hélt því fram að ekki væri hægt að telja batahlutfall geðklofasjúklinga sem sprautaðir voru með súlfosan neitt hærra en það hlutfall slíkra sjúklinga sem batnaði án læknismeðferðar. Hann sagði og frá því að hann hefði þurft að hætta þessari meðferð vegna slæmra og hættulegra aukaverkana: Sjúklingana sárkenndi til þegar sprautað var í vöðva, nokkrir höfðu kastað upp, fengið köldu, horast og veikst í meðferðinni. Í einum sjúklingi vildi hitinn ekki lækka aftur og þegar greinin var skrifuð hafði sjúklingurinn haft hita í fimm mánuði og myndi líklega ekki lifa af, sagði Ravn. Óttar Guðmundsson segir í Kleppi í 100 ár: „Þessi meðferð þótti vísindalegri [en malaríumeðferðin] og féll sjúklingum betur í geð.“ (s. 70). Ég veit ekki á hvaða heimild Óttar byggir þetta.

Helgi Tómasson, sem var ráðinn læknir á Nýja Kleppi árið 1929 og varð yfirlæknir á Kleppi 1939, stundaði sitt læknisnám í Danmörku. Hann útskrifaðist með cand. med gráðu 1922 og dokorsgráðu 1927, hvort tveggja frá Kaupmannahafnarháskóla. Helgi vann m.a. í Vordinborg, á Sjette afdeling Kommunehospitalets í Kaupmannahöfn og á Nykøbing Sindssygehospital. Líklega höfðu þessi sterku tengsl við Danmörku eitthvað að segja í því að Helgi notaði brennisteinsolíu-meðferðina töluvert á sína sjúklinga á Kleppi. Óttar Guðmundsson (2007, s. 73) lýsir henni svona:
 

Sjúklingarnir fengu sprautur að kveldi og síðan var fylgst með hitanum. Venjulega voru það læknanemar sem gáfu sprauturnar og skráðu hitahækkunina. Ekki fer miklum sögnum af árangri þessarar meðferðar.

Í grein Helga Tómassonar, Æði hjá sjúklingum með schizophreni (í Læknablaðinu 1934), minnist hann á brennisteinsolíumeðferð (sulfosin) í tilvitnunum í tvær sjúkrasögur af þremur. Vel að merkja er greinin skrifuð til að hampa gjöf örvandi lyfja (ephedrin) við geðklofa og kemur fram í þessum dæmum að sulfosin hafi ekki virkað: „Frá miðjum sept. til miðs okt. reyndur sulfosinkúr. En heldur virtist honum fara aftur á meðan heldur en hitt“ segir í öðru dæminu.
 
 
 

Önnur hitameðferð til geðlækninga

Í Læknablaðinu jan.-feb. 1934 birtist meðal erlendra frétta:
 

Mikið hefur verið skrifað um þýðingu hitasóttar, sem venjulega fylgir farsóttum, og hefir hún verið ýmist skoðuð sem blessun eða bölvun. Enn er þetta mikla mál óútrætt.
    Þegar Wagner-Jauregg tók upp malarialækning sína við paralysis generalis var um það deilt, hvort heldur lækningin væra [svo] að þakka hitasóttinni eða einhverju öðru. Hvort heldur sem er, þá varð þetta til þess að dr. W. R. Whitney kom til hugar að hita mætti sjúklingana með rafmagnsstuttbylgjum, og bjó hann til áhald til þessa. Gat hann hitað menn með því svo mikið og svo lengi sem vera skyldi. Þetta var síðan reynt við paralysis gener., en þótti ekki gefast jafnvel og gamla aðferðin.
    Síðan hefir þessi hitalækning verið reynd við marga kvilla. Dr. C. F. Tenny (New York) segir hana hafa gefist vel við bólgur í grindarholi, arthritis, trega blóðrás í útlimum, neuritis, syfilis og gonorhoe.
    Þessi hitalækning er enn á tilraunastigi, svo erfitt er um að dæma. Þó má ganga að því vísu, að þessi merkilega uppgötvun reynist nýtileg til margra hluta.
    (Dumaresq les Bas í Lancet 27. febr. ’34).

Þessi litla frétt sýnir að hérlendis fylgdust læknar vel með nýjungum í hinum stóra heimi. Hún sýnir líka trú á lækningargildi hita við ýmsum kvillum og trú á möguleika rafmagns til lækninga en það átti aldeilis eftir að hafa áhrif í geðlækningum nokkrum árum síðar og hefur enn þann dag í dag.

HydrotermÍ Danmörku fóru menn að nota hitakassa til að lækna sýfilissjúklinga árið 1942 (á Rigshospitalet – tveimur árum síðar á Sct. Hans). Í hitakössum mátti hækka líkamshita sjúklinganna og þurfti þá ekki lengur malaríuna til þess. Hitakassarnir voru þannig að í þeim hélst 45-60° hiti og rakastigið var 35-70%. Þetta var sem sagt eins og velheit finnsk sána og væri sjúklingur hafður nógu lengi í kassanum hækkaði líkamshitinn duglega. Ekki voru allir hrifnir, t.d. kvartaði yfirlæknirinn á Sct. Hans undan því í bréfi til heilbrigðisyfirvalda að þetta væri alltof dýrt, malaríumeðhöndlunin væri mun ódýrari því „apparatið notar 3.000 – 5.000 wött á klukkustund [svo].“ Auk þess, sagði hann, hefur malaríumeðhöndlun þann kost að hana mátti „beita líka mjög órólega sjúklinga, sem er erfitt í hitakassanum.“

Myndin er af hitakassa og einungis höfuð sjúklingsbrúðunnar stendur upp úr honum. Þessi hitakassi er á Glore Psychiatric Museum í Missouri, Bandaríkjunum.

Ég veit ekki til þess að svona hitakassar hafi verið notaðir á Íslandi (en óneitanlega minnir aðferðin mjög á svita-vatnslækningar Þórðar Sveinssonar undir lok starfsferil hans, sjá færsluna Upphaf geðlækninga á Íslandi). Einhverjir eru enn við sama heygarðshornið ef marka má þessa nýju auglýsingu frá geðlæknadeildinni við háskólann í Arizona þar sem auglýst er eftir þunglyndissjúklingum til að prófa glænýja læknismeðferð við þunglyndi, nefnilega hitameðferð 😉

Helgi Tómasson notaði talsvert, eins og fyrr sagði, brennisteinsolíu (sulfosan) til að láta geðklofasjúklinga fá hita. Hann notaði fleiri aðferðir til hins sama, t.d. hef ég eftir munnlegri heimild að árið 1955 hafi sumum sjúklingum Helga verið tekið blóð (úr bláæð í handlegg) og blóðinu strax á eftir sprautað í vöðva. Viðmælandi minn taldi að þetta hefði verið gert til að „fá hitareaksjón“ en hvaða tilgangi hún átti að þjóna vissi hann ekki.

Helgi skrifaði yfirlitsgreinina Shock í desemberhefti Læknablaðsins 1934. Þar fjallar hann um efni sem eru til þess að framkalla shock og þar á meðal:

Blóð er tekið úr venu, 10-20 cm3, og inj. subcutant eða intramusculært. Blóðið má taka úr sjúklingnum sjálfum, án þess að blanda það nokkru antikoagulerandi efni, autohæmoterapi, eða úr öðrum, heterohæmotherapi. Autohæmoterapi er bæði auðveldari og framkallar vægari shock.

Um einkennin af þessu segir hann: „[einkennin koma] eftir 4-6 klt.[svo], oft aðeins kuldahrollur, almenn vanlíðan, 38-39,5°, eða aðeins smáhækkun á hita.“ Og um lækningargildið segir Helgi:
 

Við ýmsa taugasjúkdóma er shock-therapi mikið notuð, fyrst og fremst dem. paralytica og aðrar myndir af lues [sýfilis] í taugakerfinu […] Við fjölda annarra taugasjúkdóma og geðsjúkdóma hefir ýmiskonar shock-therapi og verið reynd, en um ábyggilega verkun verður ekki talið að hafi verið að ræða.

Nú er afar ólíklegt að Helgi hafi haft marga sýfilisgeðveika sjúklinga árið 1955, e.t.v. engan slíkan, svo hann hefur brúkað þessa aðferð við einhverju öðru. Kannski bara einfaldlega til að róa illmeðfærilega sjúklinga með því að láta þá fá hita eða hitavellu?
 
 
 

Heimildir aðrar en efni sem krækt er í úr færslunni:
 

H. Guðm. Hitaveiki til lækninga. Læknablaðið 20. árg., s. 30. 1934.

Helgi Tómasson. Shock. Læknablaðið 20. árg., s. 54-58. 1934

Helgi Tómasson. Æði hjá sjúklingum með schizophreni. Læknablaðið 20. árg., s. 204-7. 1934.

Helgi Tómasson, Oddur Ólafsson og Viðar Pétursson. „Líkamlegir“ sjúkdómar geðveikra. Læknablaðið 23. árg., s. 35-63. 1937.

Kragh, Jesper Vaczy. »Den værste fjende vi have at kæmpe imod« Malariabenhandling og dementia paralytica i Danmark. Bibliotek for Læger. Júní 2006.

Kragh, Jesper Vaczy. Det hvide snit. Psykokirurgi og dansk psykiatri 1922-1983. Syddansk Universitetsforlag. 2010.

Óttar Guðmundsson. Kleppur í 100 ár. JVP útgáfa, 2007.

Psykiatriens Historie i Danmark. Hans Reitzels Forlag, Kaupmannahöfn. 2008, ritstjóri Jesper Vaczy Kragh.

Shorter, Edward. A History of Psychiatry from the Era of the Asylum to the Age of Prozac. John Wiley & Sons, Inc. Bandaríkjunum. 1997.

Þórður Sveinsson. Áhrif föstu á undirvitundina. Fyrirlestur í Læknafélagi Reykjavíkur þann 11. desember 1922. Læknablaðið 9. árg, s. 226-31. 1923.
 
 
 
 

Upphaf geðlækninga á Íslandi

Forsagan

Talsvert hefur verið gert úr illum aðbúnaði geðsjúkra hérlendis áður en Kleppur var stofnaður og þá jafnan bent á tvær heimildir, annars vegar heilbrigðisskýrslu Þorgríms Johnsen héraðslæknis, sem hann skrifaði 1872 og sendi heilbrigðisyfirvöldum í Danmerku, hins vegar skrif Christians Schierbeck frá 1901, dansks læknis sem hafði áhuga á að koma geðveikrahæli á fót á Íslandi. Báðir nefna þeir að „slegið sé utan um” brjálaða sjúklinga og þeir geymdir í einhvers konar búrum eða fjötraðir, jafnvel í útihúsum. Mér vitanlega eru ekki aðrar heimildir um þessa meðferð og engin slík búr hafa fundist hérlendis. Þar fyrir utan getur þetta vel verið satt og rétt. Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að í íslenska bændasamfélaginu (samfélagsgerð sem var ríkjandi langt fram eftir tuttugustu öld) þekkjast mörg dæmi um að farið hafi verið illa með þá sem ekki gátu unnið, þurfti ekki geðveiki til. Í neyð hefur sjálfsagt þurft að fjötra óða menn með einhverjum hætti og þarf ekki að hafa verið af illsku.

Á nítjándu öld var einn Íslendingur sérmenntaður í geðlæknisfræðum (þess tíma), nefnilega Jón Hjaltalín (1807-1882). Hann starfaði þó ekkert að slíkum lækningum hérlendis svo vitað sé. Eitthvað var um að geðsjúkir væru sendir utan, a.m.k. þeir sem gátu greitt fyrir sig. Sem dæmi má nefna Gunnlaug Blöndal, fyrrum sýslumann í Barðastrandarsýslu, sem dó á geðveikraspítala í Vordingborg árið 1884 (Ísland var á upptökusvæði þess spítala). Ein rök Schierbeck fyrir að reisa geðveikrahæli á Íslandi voru einmitt hve dýrt væri að greiða fyrir uppihald geðsjúkra á dönskum hælum (kostnaðurinn var mismunandi því dönsku geðveikrahælin voru stéttskipt, þ.e.a.s. aðbúnaður var misjafn eftir því hve mikið var greitt fyrir sjúklinginn).

Um fjölda geðsjúkra á landinu fyrir og eftir stofnun Klepps segir í endursögn á Skýrslum [Guðmundar Björnssonar landlæknis] um heilsufar og heilbrigðismálefni á Íslandi 1907 og 1908:
 

Geðveiki virðist fara vaxandi. Árið 1887 voru 81, en 1901 133 geðveikir menn á landinu. Skýrslur eru ekki til frá seinni árum Á Kleppi voru rúmlega 60 sjúklingar við hvor árslok, 1907 og 1908. Hér á landi er geðveiki miklu algengari í konum en körlum 97:36 árið 1901. I öðrum löndum er hún álíka algeng í körlum og konum. Ekki getur landlæknir um af hverju það muni stafa, en ætli það eigi ekki töluvert rót sína að rekja til þess, að sjúkdómar, sem orsakast af stöðugri áfengisnautn, eru hér sjaldgæfir, í samanburði við önnur lönd, og við þeim sjúkdómum er karlmönnum míklu hættara en konum?
    Brennivínsæði fengu 21 maður 1907 en 18 1908.

 Kleppur og Þórður Sveinsson

Árið 1905 var ákveðið að reisa sérstakan geðveikraspítala, Klepp, og var hann opnaður vorið 1907. Á fyrstu þremur árunum sem spítalinn starfaði voru lagðir inn 118 sjúklingar en eftir það einungis fáir á ári því spítalinn var meira og minna fullur af langveiku fólki. Samkvæmt blaðafregnum frá 1910 hefur verið pláss fyrir rúmlega 60 sjúklinga á Kleppi.

Þegar hyllti undir að Kleppur tæki til starfa var Þórður Sveinsson sendur utan til að kynna sér geðlækningar. Þórður var bóndasonur úr Húnavatnssýslu, fæddur 1874. Hann var illa haldinn af berklum sem barn og heldur pasturslítill, ólst upp við kröpp kjör og var talsvert eldri en skólabræður hans þegar hann útskrifaðist úr læknadeild háskólans vorið 1905. Kann að vera að áhrifamiklir sveitungar hans, Guðmundur Björnsson landlæknir og Guðmundur Magnússon prófessor í læknisfræði, hafi séð í honum mann sem ekki var líklegur til að höndla erfitt embætti héraðslæknis en gæti orðið frambærilegur yfirlæknir á hefðbundnu geðveikrahæli uppi í sveit, a.m.k. handvöldu þeir Þórð sem fyrsta yfirlækni á Kleppi og beittu sér fyrir því að hann kæmist til Danmerkur (og síðar Þýskalands) til að kynna sér geðlækningar í rúmt ár. Í Danmörku lærði Þórður hjá Alexander Friedenreich,  sótti líklega fyrirlestra Knuds Pontoppidan og setti sig inn í strauma og stefnur í dönskum geðlækningum þessa tíma (sjá nánar um þetta færsluna Geðlæknismeðferð í Danmörku 1850-1920). Svo fór hann til Þýskalands og naut þar handleiðslu Emils Kraepelin. Ætla má að Þórður hafi verið vel læs á dönsku og þýsku og hafi því einkum byggt kunnáttu sína í geðlæknisfræðum á ritum þessara dönsku og þýsku geðlækna, einkum Kortfattet, speciel Psykiatri eftir Friedenreich, (útg. 1901) og Psychiatrie: Ein Lehrbuch für Studirende und Aerzte eftir Kraepelin (fyrsta bindi útg. 1899, sjá fleiri bækur Kraepelin hér.) Sömuleiðis má ætla að hann hafi fylgst með skrifum danskra geðlækna í fagritinu Ugeskrift for Læger og e.t.v. lesið bækur um geðlækningar á dönsku og þýsku á starfsævi sinni.

Óttar Guðmundsson segir í bók sinni Kleppur í 100 ár að þýsk áhrif hafi sett mark sitt á meðferð Þórðar. En danskir geðlæknar voru undir miklum áhrifum af fræðum Kraepelin og fleiri Þjóðverja svo það er líklega erfitt að greina hvað Þórður tíndi upp í Danmörku og hvað í Þýskalandi.
 

Læknismeðferð Þórðar Sveinssonar

Fyrst eftir að Kleppur tók til starfa fór fáum sögum af starfsemi þar, ef frá eru taldar fréttir af tveimur sjálfsvígum (og meðfylgjandi gagnrýni um að fólks væri ekki nægilega vel gætt á spítalanum) og gróusögur um að yfirhjúkrunarkonan væri vond við sjúklingana og misþyrmdi þeim (sjá yfirlýsingu Þórðar og annars starfsfólks gegn þessum orðrómi, 1910).

Óttar Guðmundsson segir í Kleppi í 100 ár að flestir sjúklinganna sem lagðir voru inn 1907 og 1908 hafi greindir með annað hvort geðklofa eða geðhvarfasýki en aðrar greiningar hafi verið kvíðagreiningar, flogaveiki, móðursýki og alkóhólismi. Þórður Sveinsson segist aldrei hafa haft sjúkling með dementia paralytica (geðveiki af völdum sýfilis – stundum eru slíkir sjúklingar taldir hafa verið um 10% geðsjúklinga á dönskum geðveikrahælum á nítjándu öld og fram undir lok síðari heimstyrjaldar, þegar pensillín komst í notkun og læknaði sýfilis). Margir sjúklinganna höfðu verið veikir árum saman og von um bata var lítil. Í bók Óttars kemur margoft fram að Þórður hafi haft litla trú á lyflækningum og notað lyf lítið. Óttar vísar ekki neinar heimildir fyrir þessu en hlýtur að byggja á einhverjum lyfjakaupalistum því sjúkraskrár voru í miklum ólestri á tímum Þórðar og finnast ekki nema slitur af slíkum nú. Þórður úttalar sig um lyfjagjöf í fyrirlestri sem hann flutti í Læknafélagi Reykjavíkur 11. desember 1922 (en vakin er athygli á að þarna er hann að líta yfir fimmtán ára farinn veg og kann að vera að þessar hafi ekki verið skoðanir hans í upphafi):
 

Eins og áður er tekið fram, þá er það viljinn, er veiklast eða lamast í geðveikinni. Og það er sama hvort hún er hrein geðveiki eða móðursýki. Þar af leiðir, að öll deyfandi meðöl eru eitur öllum geðveikum sjúklingum. Þau verða beinlínis til þess, að ýta undir hinar sjúku ímyndanir sjúklingsins. Narcotica lama viljann, og er það á allra vitorði. Hugurinn beinist að veikinni, sem hann þarf sífelt að vera að stríða við með hinum og þessum svæfandi meðulum. Viljamagnið verður að þoka fyrir meðalatrúnni. Þess vegna nota ég aldrei deyfandi meðul við slíka sjúklinga.

Um sumt byggði Þórður þó á viðurkenndri geðlæknisfræði í upphafi tuttugustu aldar, t.d. „vinnulækningu“, þ.e.a.s. sjúklingar unnu við stórbúið á Kleppi, eigin fatagerð o.þ.h.  Hann var sammála dönskum geðlæknum um að „no restraint“ meðferð væri óframkvæmanleg og lét loka óða sjúklinga í einangrunarklefum uns bráði af þeim. Þessir klefar, sellurnar, voru innréttaðir þannig að sjúklingurinn gæti ekki skaðað sig, t.d. var ekki rúmstæði í þeim heldur einungis fleti, gluggar upp undir loft og vírnet fyrir þeim.  Þórður var alveg sammála kenningum lærifeðra sinna danskra og þýskra um arfgengi geðsjúkdóma og þá einkum arfgenga úrkynjun ef marka má blaðagreinar hans Geðveiki – áfengi – úrkynjun (júní 1907) og Fábjánar – áfengi (júlí 1907). Honum hugnaðist og meðferð með böðum svo sem tíðkaðist í Danmörku og Þýskalandi þegar hann lærði þar, en ólíkt dönskum kollegum sínum hélt hann sig eindregið við þá aðferð allt til starfsloka 1939.

Ef marka má kersknislega smá„frétt“ frá 1909 hefur áhersla á baðmeðferð, jafnt heit sem köld böð, verið lögð frá upphafi enda í fullu samræmi við viðteknar lækningaðferðir þá í Danmörku og Þýskalandi. Í „fréttinni“ er þetta reyndar talin refsing en ekki læknisaðferð, því talað er um „hegningar-bað (líklega líkt og er á Kleppi, þar sem það er haft til refsingar á óþæga vitfirringa að kasta þeim allsnöktum í kalt bað og halda þeim nauðugum niðri í því unz þeir sefast)“. Í riti sínu Vatnslækningar, útg. 1923, segir Þórður um þetta (á s. 18-19):
 

Jeg hef kaffært menn, það er alveg satt. Jeg hef gert það stöku sinnum, þegar jeg hefi talið það alveg sjálfsagt að reyna, hvort ekki væri unt að gera gagn með því, enda er reynsla fyrir því, að geðveikir menn hafi læknast af skyndilegum áhrifum. Einstöku sinnum hefir það gert mikið gagn að bregða sjúklingi ofan í baðker með köldu vatni. Eina konu hefi jeg gert alheilbrigða með einni dýfu; hún hafði legið rúmföst í tvö ár. Þrem vikum eftir kaffæringuna var hún orðin þvottakona á Kleppi og hefir verið alfrísk síðan.

Svo virðist sem Þórður hafi snemma ákveðið að byggja á „klínískri reynslu“ í meðhöndlun geðsjúkra fremur en því sem viðtekið var í fræðunum sem hann nam. Með tilraunum og af reynslu sinni útfærði Þórður vatnslækningarnar frá böðum til innvortis vatnslækninga. Hann segir (í ritinu Vatnslækningar, s. 3-5):
 

Af tilviljun rakst jeg, fyrir rúmum 12 árum, á lækningu við geðveiki, sem jeg rak strax augun í, að bar fljótari árangur heldur en þær aðferðir, sem jeg áður hafði átt að venjast við sumar tegundir geðveiki. Það vildi svo til haustið 1910: Jeg hafði á Kleppi geðveika konu, sem þá var búin að vera þar í nærri 3 ár. Geðveiki hennar lýsti sjer í því, að hún fjekk köst, sem stóðu yfir frá 6 vikum upp í hálft ár, og var hún með köflum alveg æðisgengin. [- – -] En það var einkennilegt við þennan sjúkling, að hann var altaf horaður, þegar köstin endurðu, hvernig sem með hann var farið. Þá datt mjer í hug að reyna, hvort ekki væri hægt að stytta köstin með því að svelta sjúklinginn, úr því að hann varð altaf horaður áður en honum batnaði, og að reyna að láta hann einungis hafa vatnskost. [- – -] Sjúklingnum var svo sagt frá því, að nú fengi hann ekkert annað en heitt vatn, engan mat, til þess að vita, hvort kastið yrði ekki styttra. Svo var þetta gert […] og kastið byrjaði. en það komst aldrei á verulega hátt stig, varð verst á 7.-8. degi. Á 10. degi var hann orðinn svo rólegur og skynsamur, að jeg áleit, að ekki þyrfti lengur að svelta hann. Það kastið var búið.

Í sama riti segist Þórður einungis nota vatnskost við geðveiki á byrjunarstigi enda sé áreiðanlega auðveldast að lækna geðveiki í byrjun. „Við menn, sem lengi eru búnir að vera geðveikir, reyni ég yfirleitt ekki vatnskostinn, nema í því skyni að draga úr æðisköstum“, segir hann (s. 7). Vatnið á að vera „álíka heitt og kaffi, sem menn drekka heitast“ (s. 17) og skv. lýsingu Þórðar á að drekka 2-3 lítra á dag, þótt hann viti dæmi af manni sem drakk 19 lítra af heitu vatni á 12 klukkustundum (s. 37).

Þórður sagði frá tilraunum sínum um vatnsdrykkju við geðveiki í fyrirlestri í Læknafélagi Reykjavíkur þann 11. desember 1922. Þar byrjar hann mál sitt á að staðhæfa að geðveikir menn fái miklu síður umgangspestir en aðrir. Veikist þeir af öðrum sjúkdómi en geðveiki þjáist þeir „að jafnaði mjög lítið.“ Einnig beri oft við að vitskertir sjúklingar fái ráð sitt og rænu rétt fyrir andlátið. Þetta telur Þórður stafa af starfsemi undirvitundarinnar „er verður með einhverjum hætti þess valdandi, að þetta hvorttveggja, næmleiki fyrir farsóttum og dauðinn eða andlátið, verður öðru vísi með geðveikum mönnum en hinum, sem ekki eru geðveikir.“ Þórði datt því í hug „að hafa áhrif á undirvitundina með föstu og hreinum vatnskosti“ og fór að gera tilraunir með það. Niðurstaða tilraunanna er þessi:
 

Reynsla mín er sú, að hreinn vatnskostur sé sú lækningaraðferð, er virðist fljótast lækna ýmis konar psychosur og geðveiki. Batinn kemur á mjög svipuðum tíma, hvernig sem geðveikinni er háttað og tíminn er tíu, fjórtán og upp að tuttugu dögum. Geðveikin hefir verið af þessum venjulegu flokkum; exaltationes, phobiur, depressivar og paranoiskar hystero-neurastheníur. [- – -] Vatnskosturinn kemur í stað sedatíva, sem annars eru notuð.

Þórður útskýrir hvernig sum tegund geðveiki („depression eða hræðslu-geðbilun“) lýsir sér í því að sjúklingurinn er fastur í óæskilegu hugsanamynstri og þrátt fyrir viljastyrk sjúklings og fortölur annarra geti slíkur sjúklingur „ekki um annað hugsað en sínar eigin ímyndanir. Og allar eru þær honum til meiri og minni kvalar.“ En sé svoleiðis sjúklingur sveltur, þ.e. látinn lifa á vatni einu saman, beinist hugurinn að föstunni og hverfur frá meinlokunum. „Viljinn vaknar og taumarnir dragast úr höndum ímyndunarlífsins“ eftir því sem hungurtilfinningin eykst. Sjúklingurinn fer að líta á meðferðina sem „mikla hjálp og heilsubótarmeðal og þá er autosuggestionin komin í það horf, sem hún á að komast. Hann telur sér trú um, að honum batni, er hann kemst á vatnskost, eins og líka er.“ Í lok fyrirlestrarins nefnir Þórður að sólarljós hafi, skv. sinni reynslu, mjög góð áhrif á geðveika menn. Lægju menn naktir í sólbaði eins og berklasjúklingar hefði það eflaust góð áhrif en því miður er geðsjúklingum mjög á móti skapi að gera það.
 

Undir lok starfsferils síns sem yfirlæknir á Kleppi var Þórður enn að þróa kenningu sína um vatnsdrykkju sem meðal við geðsjúkdómum og gagnsemi baða við ýmsum krankleik. Hann var kominn á þá skoðun að truflun í svitakirtlum ylli geðveiki. Í viðtali í Alþýðublaðinu í janúar 1940 vitnar hann í Jón Steingrímsson, eldklerkinn fræga, sem segi á einum stað í ævisögu sinni: „Þegar ég missti svitann, fór mér að líða ver“ og Þórður segist í starfi sínu hafi tekið eftir að „geðveikissjúklingar svitna aldrei“. Hann fór því að reyna koma svitanum út á sjúklingunum með ýmsum ráðum. Það sem virkaði best var að setja þá í 45° heitt bað í 20-60 mínútur og hafa þá vafða í umbúðir áfram eftir baðið, segir Þórður í ítarlegu viðtali í Morgunblaðinu vorið 1939. Þá hækki líkamshiti sjúklinga í  41.5°- 42°, hefur hæstur mælst 42.6° í tilraunum hans. Þórður tekur fram að ekki megi setja sjúkling í svona bað „nema með tóman maga og nýútskoluðu rectum.“ Hann staðhæfir í viðtalinu að tveir geðklofasjúklingar hafi orðið albata með þessari aðferð:
 

Annar er 26 ára gamall, var búinn að vera veikur í 10 ár, en hjer í 5 ár. Veiki hans var schizophrenia simplex. Hann fekk 15 böð alls. Þykir mjer það sjálfum ótrúlega Iítið. En maðurinn er prýðilega greindur og get jeg mjer til, að það og persónuleiki hans hafi hjer ráðið nokkru um. Hinn er um þrítugt. Búinn að vera geðveikur í 3—4 ár  […] Hann var með schizophrenia paranoides (ofsóknargeðveiki). Hann fekk um 40 böð og er nú heilbrigður og fer brátt heim til sín. Síðustu dagana stjórnaði hann sjer sjálfur í baðinu, og svitinn hefir streymt af honum eins og hverjum öðrum heilbrigðum manni.

Samkvæmt Þórði virðast sjúklingarnir ekkert alltaf hafa verið áfram um að fara í baðið holla en með því að reifa þá eins og tíðkaðist við ungabörn, svo þeir geti sig ekki hrært, er það vandamál úr sögunni. Í Morgunblaðsviðtalinu 1939 lýsir hann þessu svona:
 

En það er vissara með alla geðveikisjúklinga að leggja þá í umbúðir strax. — Hendurnar eru lagðar niður með síðunum, og laki vafið utan um þá. Síðan er strigi látinn utan yfir og bundinn, svo að sjúklingarnir geti ekki losað sig. Eftir baðið eru þeir látnir í þurt eða rakt lak, þar utan yfir er ullarábreiðu vafið og loks striga. Hendurnar eru fyrst lagðar niður með hliðunum, eins og fyr, og sjúklingarnir látnir í rúm sitt. Þá halda þeir áfram að svitna um allan líkamann.

Þessa svitameðferð taldi Þórður sína eigin uppgötvun og hana merka (líkt og sveltikúrana áður) en birti aldrei neinar vísindagreinar um hana.
 
 
 Gagnrýni á læknisaðferðir Þórðar Sveinssonar

Í spænsku veikinni 1918 vann Þórður sem almennur læknir en beitti sömu aðferðum á þá sem veiktust af þessari alvarlegu inflúensu og hann beitti á sjúklinga sína á Kleppi, nefnilega vatnsdrykkju og svelti. Aðrir læknar klöguðu hann fyrir Guðmundi Björnssyni landlækni en landlæknir hélt hlífiskildi yfir Þórði.

Þann 9. mars 1923 birtist greinin Geðveikrahælið á Kleppi í Alþýðublaðinu og vakti mikla athygli. Greinina skrifaði Guðfinna Eydal og í henni lýsir hún reynslu sinni af dvöl á Kleppi frá því síðsumars 1919 til haustsins 1920. Guðfinna segist hafa kynnt sér sambærilegar stofnanir í Danmörku, Englandi, Þýskalandi og víðar og að hvergi séu notaðar eins ómannúðlegar aðferðir og á Kleppi:
 

Ég hika ekki við að segja, að  meðferð á sjúklingum á Kleppi  er andstyggileg, og gæti ég  komið með mörg dæmi því til sönnunar úr daglega lífinu á  Kleppi þessa 15 mánuði, er ég var þar sjúklingur. Einna hrottalegastar fundust mér kaffæringarnar. Menn álíta nú máske, að þær séu lækningatilraun, en svo er ekki ætíð að minsta kosti. Þær eru blátt áfram refsing á sjúklingana fyrir ýmsar yfirsjónir […] [sjúklingurinn er] miskunnarlaust keyrður á kaf ofan í baðker, sem áður er hálffylt með ísköldu vatni. Það er ekki látið nægja að dýfa sjúklingunum í eitt skifti, heldur hvað eftir annað og er þeim haldið niðri í því, þar til þeir eru komnir að köfnun […]

Síðan nefnir Guðfinna sveltið sem hún telur að hafi dregið nokkra sjúklinga til dauða enda séu menn látnir svelta í alltof langan tíma. Hún slær varnagla um að svelti geti verið gild lækningaðferð: „Það má vel vera, að nokkurra daga svelta í ýmsum geðveikitilfellum geti verið heilsusamleg; ég skal ekkert um það fullyrða. En að læknirinn hafi leyfi til að svelta sjúklinga sína svo að segja takmarkalaust, — það get ég ekki skilið.“ Guðfinna rekur svo þrjár sorgarsögur af illri meðferð sjúklinga á þeim tíma sem hún lá á Kleppi og lýkur máli sínu þannig: „Mér finst, að læknir á geðveikrahæli þurfi að vera lýsandi stjarna í myrkri þessara vesalinga, en ekki hræða.“

Sjálfsagt hefur Guðfinnu verið kunnugt um skrif Amalie Skram gegn geðlækninum Knud Pontoppidan laust fyrir aldamótin 1900 og talið vænlegt til árangurs að birta gagnrýni sína opinberlega. Þórður Sveinsson brást og eins við og Knud Pontoppidan: Hélt fyrirlestur sér til varnar og gaf síðan fyrirlesturinn út (bæklinginn Vatnslækningar). En ólíku er þó saman að jafna: Guðfinna Eydal var ekki velþekkt skáldkona heldur húsfreyja á Akureyri. Og Þórður Sveinsson fór með sigur af hólmi og var talsvert skrifað honum til varnar.

Í maí 1923 birti Guðmundur Þorkelsson, sem starfað hafði sem hjúkrunarmaður á Kleppi undanfarna 20 mánuði, „Opið brjef til ríkisstjórnarinnar” í tímaritinu Stefnunni. Í bréfinu óskar hann eftir því að stjórnarráðið rannsaki ástandið á Kleppi því „lækningaaðferðir og framkoma læknisins gagnvart sjúklingunum er svo gjörólík því, er ég sem hjúkrunarmaður á geðveikrahælum erlendis hef vanizt um fult 7 ára bil“. Guðmundur hafði, skv. meðfylgjandi vottorðum, starfað á ýmsum geðveikrahælum í Noregi. Hann virðist hafa gert sér ágæta grein fyrir samtryggingu lækna á Íslandi því hann óskar, í bréfinu, eftir því að útlendur geðlæknir verði fenginn til að taka út læknismeðferð á Kleppi. Engar heimildir eru fyrir því að opinber yfirvöld hafi rannsakað læknismeðferð Þórðar á Kleppi í kjölfarið á þessu opinberlega birta bréfi.
 
 

Niðurlag

Annað hvort hefur Þórður Sveinsson ekki tekið sérlega vel eftir í sínu sérfræðinámi í Danmörku og Þýskalandi eða ekki haft mikla trú á þeim geðlækningaðferðum sem þar voru praktíseraðar, nema böðunum. Hann virðist og ekki hafa fylgst með þróun geðlækninga í þessum löndum heldur snemma hafa tekið þann pólinn í hæðina að gera eigin tilraunir á sjúklingum sínum og þróa eigin aðferðir. Þær minna að sumu leyti á geðlækningaaðferðir fyrir miðja nítjándu öld, að sumu leyti á nýmóðins detox meðferð.

Stundum hefur verið bent á áhuga Þórðar á spíritisma sem skýringu á þessum aðferðum, að hann hafi reynt að svelta illa anda úr sjúklingunum, en í opinberri vörn sinni fyrir lækningaðferðunum minnist hann vitaskuld ekkert á slíkt. Hitt er og víst að Þórður var algerlega trúlaus, raunar svarinn andstæðingur kirkjunnar, en eindreginn spíritisti, fór m.a. sálförum um víða veröld. Þótt ekki væri Þórður trúaður á spíritisma á námsári sínu í Danmörku hefur honum sjálfsagt verið fullkunnugt um að helstu framámenn í geðlækningum þar tóku virkan þátt í danska sálarrannsóknarfélaginu, enda töldu menn sálarrannsóknir vísindalegar á þessum tíma. Þátttaka í stofnun íslenska sálarrannsóknafélagsins 1918 og virk þátttaka í því hefur því líklega, í augum Þórðar, ágætlega samrýmst starfi hans sem eina geðlæknis landsins.

Í snarpri ritdeilu Þórðar og Ágústs H. Bjarnasonar prófessors, sem gaf út þýðingu sína á ritinu Geðveikin árið 1920, kemur fram að Þórður hafði enga trú á sállækningum í anda Freud. Samt greip hann til hugtaka úr þeirri smiðju í vörn sinni fyrir sveltimeðferðinni, þ.e.a.s. útlistar áhrif undirmeðvitundarinnar á geðveiki.

Kannski mætti segja að viðhorf og vörn Þórðar fyrir sínum lækningaaðferðum kristallist í orðum hans: „Hvernig stendur á því, að jeg má ekki reyna að hjálpa að hjálpa veikum mönnum með þeim aðferðum, sem jeg álít sjálfur, að sjeu betri heldur en aðrar?“ (s. 24 í Vatnslækningar.) Í í rauninni má segja að þetta viðhorf sé enn ríkjandi í geðlækningum, hérlendis sem erlendis. Geðlæknar hampa „klínískri reynslu“ til að rökstyðja lyfjagjöf sem engar vísindalegar rannsóknir styðja, t.d. svokallaðra „off label“ lyfja við ýmsum geðsjúkdómum (ekki hvað síst þunglyndi), eða raflækningar sem enn er umdeilt hvort séu til gagns eða skaða. Þeir nota sem sagt gjarna það sem þeir álíta sjálfir að sé betri aðferðir en aðrar, alveg eins og Þórður Sveinsson gerði. Munurinn liggur helst í því að læknisaðferðir Þórðar Sveinssonar, ógeðfelldar og kukl-kenndar sem þær kunna að þykja nútímamönnum, voru mun ólíklegri til að valda sjúklingum varanlegum skaða en þær lyfjagjafir sem lærifeður hans beittu, svo ekki sé minnst á seinni tíma geðlækningaaðferðir, aðferðir nútímageðlækna þar ekki undanskildar.
 
 
 
 
 
 

Heimildir, auk efnis sem krækt er í úr færslunni:
 
 

Guðmundur Þorkelsson. Opið brjef til ríkisstjórnarinnar. Stefnan, maí 1923. 

Hildigunnur Hjálmarsdóttir. Danska frúin á Kleppi. Bréf Ellenar Kaaber Sveinsson. Skrudda, 2007.

Jóhannes Bergsveinsson. Um Þórð Sveinsson og upphaf Kleppsspítala. Læknablaðið 2007/93, s. 780-785.

Óttar Guðmundsson. Kleppur í 100 ár. JVP útgáfa, 2007.

Tómas Helgason. Stutt ágrip af sögu Kleppsspítalans. Kleppsspítalinn 75 ára. 1907-1982. Sérprentað fylgirit Læknablaðsins 1983, s. 3-7..

Þórður Sveinsson. Vatnslækningar. Erindi flutt í Nýja Bíói 14.03 1923, vegna árásar Alþýðublaðsins á hjúkrunarfólk og lækna á Kleppi. Bókaverslun Guðmundar Gamalíelssonar, 1923.

Þórður Sveinsson. Áhrif föstu á undirvitundina. Fyrirlestur í Læknafélagi Reykjavíkur þann 11. desember 1922. Læknablaðið 1923:9, s. 226-31.