Category Archives: Geðheilsa

Kominn tími til að tengja: Um þunglyndi I

Þótt skömm sé frá að segja hef ég aldrei sett mig almennilega inn í fræðilegar rannsóknir á þunglyndi og læknisráðum við því, kannski af því það stendur svo nærri mér. Mér hefur þótt þægilegra að skoða eitthvað annað sem snertir mig ekki persónulega en getur verið spennandi efni per se (s.s. saga Sögu Akraness eða siðblinda). Auðvitað hef ég bloggað helling um eigin reynslu af þunglyndi og þunglyndislyfjum, sem og reynt að slá aðeins á puttana á mannkynsfrelsurum sem endalaust vilja hafa vit fyrir geðsjúklingum þegar kemur að lyfjagjöf, öllu heldur hvetja sjúklinga sem þeir hafa alls ekki menntun til að sinna til að taka EKKI lyfin sín. Það er alltaf spurning hvað maður á að nenna að elta ólar við svoleiðis lið og eiginlega nenni ég því ekki lengur. Ég hef líka eitthvað bloggað um orðanotkun tengda geðveiki eða þunglyndi, læknisráð eða skilgreiningar í sögulegu samhengi og sitthvað smálegt annað: Hef sem sagt eitthvað kynnt mér efnið en að mestu hefur það verið ómarkvisst hálfkák. En nú er kominn tími til að kynna sér þetta efni betur, tel ég. Kannski vegna þess að ég er á ákv. endapunkti, þ.e.a.s. búið að reyna flest læknisráð, þunglyndið versnar með hverju árinu og mér finnst orðið hæpið að kalla þetta ástand „djúpa endurtekna geðlægð“, nær væri að tala um „djúpa viðvarandi geðlægð“ (en ég er ekki viss um að staðlar geri ráð fyrir svoleiðis … staðlar og flokkun er eitt af því sem ég þarf að athuga, sem og forsendur og gerð prófa til að meta þunglyndi). Þeir læknismöguleikar sem hafa verið orðaðir í mínu tilviki núna eru ekki sérlega fýsilegir, a.m.k. finnst mér rétt að athuga þá vel áður en ég ljái máls á að prófa þá.

Af því ég er svo gleymin ætla ég að fara gegnum þessar vangaveltur og grams í greinum á blogginu mínu. Raunar fletti ég stundum upp á eigin bloggi, þetta er prýðileg gagnageymsla og leitarmöguleikinn virkar vel. Auk þess eru meiri líkur á að ég muni eitthvað hafi ég skrifað um það.

Ég hef svolítið verið að lesa greinar um þunglyndi og læknisráð undanfarið, aðallega úttektir á rannsóknarniðurstöðum margar tilrauna. Það borgar sig oft að skoða fyrst úttektir (Review-greinar) í öllu upplýsingaflóðinu. Það háir mér vissulega að kunna lítið í tölfræði og efnafræði, verandi máladeildarstúdent, en á móti kemur að þessar greinar eru oft á fræðilegu hrognamáli þar sem latínukunnátta kemur sér vel til að skilja latínuafleiddu ensku orðin. Það virðist vera reglan að ef valið stendur milli þess að nota algengt stutt engilsaxneskt orð eða ógagnsætt langt orð samsett úr latneskum stofnum velja menn hið síðarnefnda. Þykir væntanlega fínna. Og enskuskrifendur dýrka skammstafanir! Íslensku læknisfræði- og líffræðiíðorðin eru svo annar hjalli sem oft er torvelt að komast yfir. En það þýðir ekki að maður geti ekki reynt.

Það sem ég reyni að hafa að leiðarljósi er að skoða greinar í viðurkenndum ritrýndum tímaritum og skoða jafnframt hvaðan höfundar hafa fengið styrki til að skrifa þessar greinar eða hjá hverjum þeir vinna því það er auðvitað mögulegt að hagsmunaaðilar hafi áhrif á niðurstöðurnar, a.m.k. ágætt að hafa það bak við eyrað (án þess að ég sé samt haldin þeim ofsóknarkenndu hugmyndum að læknar og aðrir fræðingar séu sjálfkrafa á mála hjá lyfjafyrirtækjum eða framleiðendum rafmagnsdóts fyrir heilaskurðlækningar). 

Greinin sem mér finnst áhugaverðust til þessa (þótt ég sé raunar ósammála niðurstöðunni eða finnst öllu heldur að niðurstaðan sé orðhengilsháttur) heitir „Föst í sama farinu: Endurskoðun þunglyndis og læknismeðferðar við því“  (Paul E. Holtzheimer og Helen S. Mayberg. 2011. „Stuck in a rut: rethinking depression and its treatment“, birtist í Trends in Neuroscienes, 34. árg. 1. hefti, janúar 2011, netútgáfan í nóv. 2010). Ég vonast til að geta sagt frá þeirri grein í næstu færslu. Málið er þó að allt gengur frekar hægt í mínu lífi, orkan er af skornum skammti og sumir dagar snúast fyrst og fremst um að lifa þá af. Svoleiðis að það er ómögulegt að segja hvernig þessu fyrirhugaða námsbloggi mínu í þunglyndisfræðum vindur fram. 

En ég er sem sagt komin með markmið og inngang og sé miðað við að verk sé hálfnað þá hafið er er lítur þetta ekki illa út 🙂