Category Archives: Daglegt Líf

Kimilsungia og Kimjongilia

kimil_baeklingur Þegar sonurinn skilaði sér heim frá Norður-Kóreu fyrir þremur vikum færði hann móður sinni og afa að gjöf tvær merkilegar plöntur. (Kannski er ekki hvað síst merkilegt að honum skyldi hafa tekist að halda lífi í plöntunum í Kínastoppinu í bakaleiðinni og á þvælingnum aftur heim á skerið- hingað til hefur sonurinn nefnilega ekki sýnt mikla takta í stofublómaumhirðu.)

Þessar merkisplöntur voru Kimilsungia og Kimjongilia, báðar ræktaðar til heiðurs þeim góðu landsfeðrum í Norður-Kóreu svo sem fram kemur í ítarlegum bæklingi sem fylgdi þeim.

Innan á kápu bæklingsins er rauðletraður texti, bein tilvitnun í Kim Jong Il:

Kimilsungia er blóm sem táknar mikilleika Kim Il Sung forseta, sem lýsti fram veginn fyrir heiminn allan með Juche hugmynd sinni [Juche er pólitísk stefna, einnig kölluð Kimilsungismi, orðið er illþýðanlegt], og jurt sem hefur blómstrað í hjörtum fólks á tímum sjálfstæðis til heiðurs mikilmenni.

Á Wikipediu kemur svo fram að Kimjongilia sé tákn fyrir visku, ást, réttlæti og frið og sé blómið svo uppræktað að það blómstri árlega á afmælisdegi Kim Jong Il, þ.e. þann 16. febrúar.

Þetta eru sem sagt magnaðar plöntur!

En … líklega eiga þær erfitt uppdráttar í stofuglugga á Akranesi, þótt ég hugsi hlýlega til þeirra dag hvern. Og raunar eiga Kimilsungiurnar okkar tengdapabba mér þegar líf að launa því Kóreufarinn og faðir hans ruku út í gróðurhús í svartamyrkri seint um kvöld og pottuðu öllum plöntunum í mold, vökvuðu svo duglega. Á meðan las ég bæklinginn. Í honum kom fram að Kimilsungia er orkídea svo ég var fram yfir miðnætti að bjarga þeim úr klesstri pottamoldinni, skola ræturnar og umplanta í þann dularfulla mulning sem orkídeum hugnast.

Allt um það: Kimilsungian hjarir ennþá þótt skv. leiðbeiningarbæklingnum góða þurfi hún að lágmarki 12 klst. sól á dag, raka og hátt í 30 stiga hita. Kimjongilian bærir ekki á sér. Hún er begónía og ég ætla rétt að vona að þeir feðgar hafi ekki snúið hnýðinu á hvolf í pottinum (sýnist þó ekki). Garðyrkjumaðurinn tengdafaðir minn segir þetta alveg eðlilegt miðað við árstíma. En ef hún er forrituð til að blómstra þann 16. febrúar – fer þá ekki allt í vitleysu?

Hér að neðan er mynd af greyjunum eins og þau líta út núna.

kimil

Hún varð feit og rjóð og fríkkaði mikið

Afdalabarn

Ég er nýbúin að lesa Afdalabarn eftir Guðrúnu frá Lundi, skemmtilega sögu sem ég er viss um að margir hafa gaman að. En þessi færsla er ekki ritdómur um bókina heldur ábending um hvernig smekkur manna á holdafari og fegurð hefur mjög breyst, eiginlega snúist við, sem sjá má af dæmunum hér á eftir. Það er óljóst hvenær Afdalabarn á að gerast en giska má á snemma á tuttugustu öld, kannski best að tímasetja hana eftir því hvenær gúmmístígvél urðu föl hérlendis.

María er móðir afdalabarnsins, einstaklega fögur stúlka þá hún fór út í heim, eða öllu heldur úr afdalnum, en þegar hún snýr aftur er annað upp á teningnum:

Svo kom María heim. [- – -] Svo fór hún [móðir Maríu] að virða hana fyrir sér – ósköp hafði hún breyst mikið. Kafrjóða, feita heimasætan var orðin grannvaxin, föl og tekin fullorðin kona.
(s. 16.)

Unglingsstúlkan Bogga er ráðin sem barnfóstra í heiðarbýlið þar sem aðalpersónurnar búa. Henni er lýst svo:

Stelpan var skinhoraður gopi sem Hannes gat tæplega vænst mikils af […]
(s. 28.)

Enda segir Beta, móðir húsfreyju í afdalakotinu, um Boggu:

„Þú færð að vita af því að fæða hana. Þetta fær náttúrlega aldrei í sig, þessir krakkaangar þarna í Holti. Þetta er líka meiri horinn á barninu.“
(s. 29.)

En þrátt yfir horinn stendur Bogga sig vel í vistinni og braggast dag frá degi:

Þvílíkan ungling höfðu þau aldrei þekkt. Þeim var mikil ánægja að því hvað hún tók miklum framförum hvað útlit snerti. Hún varð feit og rjóð og fríkkaði mikið.
(s. 30-31.)

Það er aftur á móti verra með ungu vinnustúlkuna á sýslumannsheimilinu, hana Lilju:

Hannes [sýslumanni] hafði alltaf hryllt við þessu vesalings barni vegna þess hve hún var föl og fjörlaus. Taldi hann hana sjálfsagt herfang tæringarinnar fyrst báðar systur hans, sem voru feitar og blómlegar og aldar upp í allsnægtum, urðu þessum voðasjúkdómi að bráð [- – -] en kona hans bjóst við að útlit hennar stafaði af inniveru og hreyfingarleysi.
(s. 98.)

Ég deili algerlega skoðunum Guðrúnar frá Lundi á fegurð og fönguleika. Þess vegna hef ég gert ítrekaðar tilraunir til að innbyrða 3000 kaloríur á dag en það er ekki auðvelt verk, ekki einu sinni þótt maður sparsli nokkrum Snickers í matseðil dagsins. Líklega er afdalafæði lausnin á mínum lífsstílsvanda. Hvar er boðið upp á lífsstílsleiðréttingu í afdölum nútildags?

 

Orð kvöldsins og Þröstur Helgason

Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1, hefur ákveðið að fella niður nokkra örstutta dagskrárliði á rásinni, þ.e. Morgunbæn, Morgunandakt og Orð kvöldins. “Miða breytingarnar að því að sækja fram í takt við breyttan lífsstíl þjóðarinnar …” segir í beinni tilvitnun í yfirlýsingu Þrastar í Morgunblaðinu í dag (s. 2) en ég finn yfirlýsinguna hvergi, ekki einu sinni á vef RÚV. Enn fremur segir í beinni tilvitnun í yfirlýsinguna: “Hlustun á þá [dagskrárliði sem falla burt] hefur verið afar lítil.”

Ég hafði ekki hugmynd um að Þröstur hefði látið mæla hlustun á þessa dagskrárliði og þætti gaman að sjá tölurnar sem hann styðst við. Í leiðinni væri ágætt að sjá mælingu á fleiru, t.d. hlustun á tæpra tveggja klukkustunda Sumartónleika evrópskra útvarpsstöðva (í síðustu viku slökkti ég einmitt á svoleiðis eftir að kynnir upplýsti að þarna væru spiluð hljómsveitarverk eftir Béla Bartók og Dmitri Schostakowitsch … en kannski falla þessi tvö tónskáld eins og flís við rass við breyttan lífsstíl þjóðarinnar og hún hlustar af áfergju?). Og hve margir hlusta á kvöldsöguna? Nú er verið að lesa Leigjandann, merkilega ádeilusögu, allegóríu fyrir bókmenntafræðinga o.s.fr. …  en því miður hundleiðinlega og því miður er ádeilan dottin upp fyrir því herinn er löngu farinn og því miður finnst almenningi sennilega skemmtilegra að ráða krossgátur en túlka allegóríur. Hvar ætli maður geti séð áheyrendatölurnar yfir þá einstaka liði Rásar 1, sem Þröstur vísar í? Og aðra dagskráliði sömu rásar? Og hvernig var þetta mælt?

Ég veit ekki hvað þessi Morgunandagt er, hlusta ekki á Morgunbæn, sem skv. dagskránni í dag tók þrjár mínútur og var flutt fyrir klukkan 7 í morgun. En einstaka sinnum hlusta á ég Orð kvöldsins, fimm mínútna þátt. Það geri ég einkum í slæmum þunglyndisköstum og þykir þessi dagskrárliður hafa sefandi áhrif til bóta á þá hryllilegu líðan. Örlítil falleg tónlist og örlítið af fallegum orðum sem gefa von og veita huggun.  Þess vegna á ég eftir að sakna Orðs kvöldsins. Einhvern veginn hafði líka læðst inn hjá mér sú hugmynd (væntanlega firra af því ég geng ekki í takt við breyttan lífsstíl þjóðarinnar) að sumt gamalt fólk, sumt fólk sem ætti bágt og jafnvel sumt trúað fólk hlustaði á þennan dagskrárlið: Samanlagt er þetta sennilega dágóður fjöldi en kannski dagskrárstjóranum finnist óþarfi að telja það til þjóðarinnar?

Satt best að segja læðist að konu eins og mér að með því að skera niður þessa átta mínútna+ (veit ekki hvað Morgunandaktin er löng) dagskrárliði sé Þröstur Helgason að reyna að skora stig hjá einhverjum í þeim háværa en fámenna sí-nettengda hópi sem telur að allt efni þar sem guð ber á góma sé í rauninni verkfæri andskotans. Sjálfsagt tekst honum það átölulaust því hópurinn sem hlustar á þessa dagskrárliði er ekki líklegur til hafa sig í frammi.

P.S. Þessi færsla var jafnframt sú síðasta sem ég skrifaði á harpa.blogg.is því hér með er bloggið mitt flutt á slóðina harpahreins.com/blogg.

Kostir, gallar og aðgengi að rafrettum

Þessi pistill er framhald af Rafrettur, Lyfjastofnun og nikótínlyf.

Rafrettur komu fyrst á markað í Evrópu og Bandaríkjunum árið 2006. Vinsældir þeirra hafa vaxið hröðum skrefum, ekki vegna markvissrar markaðssetningar heldur vegna Netsins: Notendur stofna hópa og umræðuborð og segja af reynslu sinni; umræðan berst hratt í gegnum samskiptamiðla; smáfyrirtæki/vefsíður sem selja rafrettur, íhluti og vökva spretta upp eins og gorkúlur. Vegna þessarar hröðu útbreiðslu hafa ekki verið gerðar margar almennilegar rannsóknir á rafrettum. En nú hafa tröllin tvö í viðskiptaheimi Vesturlanda áttað sig og bítast um bitann: Tóbaksframleiðendur og lyfjaframleiðendur. Því miður er útlit fyrir að þessi ágæta uppfinning falli í þeirra hendur með dyggri aðstoð stjórnvalda sem fóðra gjörninga sína með því að verið sé að gæta hagmuna notenda, þ.e. passa þá eins og óvita.

 

Geta rafrettur verið hættulegar?

Græjan sjálf er ekki hættuleg nema lithium-rafhlöðurnar geta sprungið eins og allar slíkar rafhlöður. Það hefur gerst einstaka sinnum ef marka má fréttir sem birst hafa í misáreiðanlegum fjölmiðlum en yfirleitt var þá einhver vitleysingur að hlaða rafhlöðuna rangt. (Sams konar sögur má finna um tölvur, farsíma og fleira dót með endurhlaðanlegri lithium-rafhlöðu.)

Vökvinn sem er í tönkum (eða geymum) rafretta getur innihaldið ýmis óholl aukaefni önnur en glycerol og nikótín og sömuleiðis geta orðið óæskileg efnahvörf við hitun hans. Þessi aukaefni eru í álíka litlum mæli og í nikótínúða þeim sem lyfjafyrirtæki framleiða og margfalt minni en mælast í sígarettureyk. Málmagnir sem mælast í gufunni (t.d. kadmín, nikkel og blý) eru í álíka magni og mælist í nikótínúða. Væri áhugavert að sjá samanburðartölur við gufu úr hraðsuðukatli, útblástur bíla o.fl. en þær liggja ekki á lausu. Mögulega gæti einhver haft ofnæmi fyrir þessum málmögnum eða efnum sem myndast við hitun glycerols.

Nikótín er ekki sérlega hættulegt efni. Vísindaþjóðsaga frá lokum nítjándu aldar hefur hermt að 30-60 mg af nikótíni væri banvænt inntöku en til eru nýleg staðfest dæmi um sjálfsvígstilraunir þar sem fólk drakk nikótínvökva með allt upp í 1500 mg af nikótíni án þess að takast ætlunarverk sitt.

Niðurstaðan hlýtur því að vera sú að rafrettugufun sé ekki hættuleg  manni. En auðvitað má fara að dæmi fillifjonkunnar í sögu Tove Jansson og eyða orku sinni í að óttast allar mögulegar hörmungar sem gætu dunið yfir, í þessu tilviki komið í ljós löngu seinna.

 

Lítið nikótín

Kannski er stærsti gallinn við rafrettur, frá sjónarhóli notenda, að það er erfitt að gufa nikótíni í sæmilegu magni úr þeim. Í nýlegri tilraun Maciej L. o.fl., sem segir frá í vísindaritinu Addiction árið 2013  kom í ljós að uppgefið nikótínmagn í vökva í geymum stóðst ekki nærri alltaf. En öllu merkilegri var þó sú uppgötvun að samhengi milli nikótínmagns í vökvanum og nikótínmagns í gufunni var ótrúlega lítið. Í þessari tilraun var notuð reykvél og kom í ljós að gufað nikótín í 300 „smókum“ (sem hver stóð í 1,8 sekúndu) mældist á bilinu 2 mg – 15 mg. Í grein Hajek o.fl. sem birtist í sama tímariti nú í júlí og vísað er til neðst í þessum pistli var niðurstaða rannsókna á raunverulegum gufurum sú að reyndur gufari sem gufaði að vild í klukkustund gæti náð sama magni nikótíns í innöndun og er í einni sígarettu!

 

Kostir rafretta

Stærsti kosturinn er væntanlega sá að með því að nota rafrettu má draga úr reykingum eða jafnvel hætta þeim alveg. Og eins og rakið hefur verið eru rafrettur ólíklegar til að valda skaða á heilsu manns en allir ættu að vita að það er hreint ekki raunin með sígarettur, raunar allt tóbak.

Engin stór og rétt framkvæmd klínísk rannsókn hefur verið gerð á því hvort rafrettur nýtist betur eða verr en hefðbundin nikótínlyf til að hætta að reykja. Raunar sé ég ekki ástæðu til að efna til klínískrar rannsóknar á þessu því þá er um leið búið að gefa ádrátt lyfjaframleiðendum og áhangendum þeirrar skoðunar að rafretta sé einhvers konar lækningatæki.

Skv. grein Hajek o.fl. í Addiction í júlí sl. nota mjög margir rafrettur meðfram sígarettum og hefur tekist að draga umtalsvert úr reykingum með hjálp þeirra. Þetta eru „tví-notendur“ (dual users) og telja höfundar þessarar greinar að það sé ekki slæmt í sjálfu sér því það hljóti að vera til bóta að draga úr reykingum. Grana o.fl. sem skrifuðu grein í Circulation 2014 (sjá tilvísun neðst i pistlinum) halda því hins vegar fram að það þýði ekkert að minnka reykingar, þeim verði að hætta algerlega. Rökin eru þau að hætta á lungnakrabba og fleiri tegundum krabbameina ráðist af hve lengi hefur verið reykt og skipti engu máli hvort reykt sé lítið eða mikið þann tíma. (Ég ákvað umsvifalaust að hætta við að hætta nokkurn tíma að reykja þegar ég las þetta, það tekur því ekki úr þessu.)

 

Aðgengi að rafsígarettum og nikótíntönkum/geymum

Sem fram kom í síðast pistli flokkar Lyfjastofnun hérlendis nikótínvökva sem lyf og fylgir þar fordæmi Svía , Dana og Norðmanna, auk fleiri þjóða innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Í læknatímaritinu Lancet  var nokkur umræða í fyrra um hvernig skyldi flokka rafrettur og nikótínvökva og hafa eftirlit með þeim. Þar má t.d. lesa greinina Regulation of e-cigarettes: the users’ perspective eftir Ricardo Polosa og Pasquale Caponnetto, sem talsvert hafa tjáð sig um rafrettur. Í henni kemur fram að líklega félli nikótínvökvi ágætlega undir lög og reglugerðir í Evrópusambandsríkjum um fæðubótarefni en: „The rapidly expanding popularity of e-cigarettes is a threat to the interests of both the tobacco and pharmaceutical industry and to their associated stakeholders.” Ætli þetta sé ekki mergurinn málsins fremur en umhyggja fyrir heilsu gufara?

Evrópusambandið setti nýlega reglugerð  þar sem nikótínvökvi í rafrettur sem inniheldur 20 mg eða minna er flokkaður sem tóbaksvara, yfir 20 mg vökvi er flokkaður sem lyf (krækt er í fréttatilkynningu frá 24. febrúar 2014). Skoða má sérstakt áróðursplagg Evrópusambandins „til að slá á kjaftasögur” af þessu tilefni  (sem að mínu mati er ágætt dæmi um algert kjaftæði).

Evrópusambandið hefur sem sagt fellt sinn Salómónsdóm: Gefið tóbakströllinu helminginn af nikótínvökvagróða og lyfjaframleiðströllinu hinn helminginn. Auðvaldið ætti að vera hamingjusamt.

 

Delluverk dauðans

Sem betur fer hefur þessi ákvörðun Evrópusambandsins ekki orðið að veruleika ennþá. Hins vegar er innflutningur á nikótínvökvum núna gott dæmi um Catch-22 aðstæður því rétt í þessu fékk ég svar við fyrirspurn minni um hvort mætti flytja inn nikótínvökva til eigin nota  frá þjónustufulltrúa Tollstjóraembættisins:

„Nei það er ekki leyfilegt. Nikótín skilgreinist sem lyf og er því í höndum Lyfjastofnunar að veita leyfi fyrir slíku. Þar sem varan er markaðssett sem almenn vara fær hún ekki markaðsleyfi þar sem almennar vörur mega ekki innihalda lyf.“

Lyfjastofnun hér (og sums staðar annars staðar) skilgreinir nikótínvökva sem lyf. Ekkert apótek í þessum löndum selur nikótínvökva sem lyf því enginn hefur sótt um markaðsleyfi á því. Fullt af netverslunum selja nikótinvökva sem venjulega vöru en „almennar vörur mega ekki innihalda lyf“ og því er ekki hægt að vísa í reglugerðina um að sjúklingur geti flutt inn lyf til eigin nota. Ef þetta er ekki della dauðans þá veit ég ekki hvað!

 

Svo líklega sný ég mér aftur að keðjureykingum á Winston long úr því Lyfjastofnun er svo umhugað um heilsu mína og Tollurinn svona löghlýðinn.

 

En … ef einhver vill prófa þá lýk ég þessum pistli á krækjum í nokkrar vefsíður þar sem kaupa má rafsígarettur og nikótínvökva.

 

Íslenskar síður þar sem kaupa má rafrettur og íhluti:

Gaxa  (Ég hef ágæta reynslu af viðskiptum við þennan aðila en ég er svo sem óttalegur græningi í gufun.)

Rafreykur 

eLife

 

Evrópskar síður sem hafa verið vinsælar til að panta nikótínvökva:

The Pink Mule á Spáni

eShop á Írlandi

Digbys á Bretlandi

 

Aðalheimildir fyrir utan þær sem krækt er í úr texta:

Grana, R., Benowitz, N., & Glantz, S. A. (2014). E-Cigarettes A Scientific Review. Circulation, 129(19), 1972-1986.

Hajek, P., Etter, J. F., Benowitz, N., Eissenberg, T., & McRobbie, H. (2014). Electronic cigarettes: review of use, content, safety, effects on smokers and potential for harm and benefit. Addiction.

 

Rafrettur, Lyfjastofnun og nikótínlyf

Gufarar

Gufarar

Rafsígarettur (e-cig) eru tæki sem framleiða gufu til að anda að sér og líkjast oftast sígarettum að lögun. Gufan myndast úr vökva og sé nikótín í vökvanum anda menn því að sér eins og í tóbaksreyk en einnig eru fáanlegir alls konar vökvar sem einungis innihalda bragðefni. Nikótíninnöndun er það eina sem er sameiginlegt rafsígarettum og venjulegum sígarettum og notendur þeirra kalla þetta ekki að reykja heldur að gufa.

Rafsígarettur komu fyrst á markað í Kína vorið 2004 og Kínverjar eru enn leiðandi í framleiðslu þeirra og íhluta í þær. (Þeim sem hafa ímugust á kínverskum vörum og efast um gæði þeirra er bent á að líklega eru tölvurnar þeirra og mörg raftæki á heimilinu full af íhlutum framleiddum í Kína 😉 ) Rafsígarettur eru af ýmsum toga en algengast er eitthvað sem lítur út á þessa leið:

rafsígaretta

Í tankinum (geyminum) sem skrúfaður er á rafhlöðuna er hitari. Úr honum liggja þræðir sem soga upp vökvann í tankinum, hita hann á örskotsstund svo hann verður að gufu sem notandi andar að sér. Notandi andar frá sér svo til hreinni gufu sem er ólíklegt að hafi áhrif á nærstadda og er nánast lyktarlaus. Á vef Gaxa, íslensks fyrirtækis sem selur rafsígarettur, má sjá myndir af þessum íhlutum í rafretturnar. Rafhlöðurnar má hlaða í tölvu eða í venjulegri innstungu.

Gaxa hefur hins vegar ekki leyfi til að selja vökva sem innihalda nikótín. Það er vegna ákvörðunar Lyfjastofnunar um að nikótínvökvi skuli teljast lyf. Sama gildir um aðrar íslenskar vefsíður sem selja rafrettur, s.s. RafreykeLIFE og e.t.v. fleiri.

 

Nikótínlyf og lyf til að hætta að reykja

Á íslenskum markaði eru fyrir nokkrar gerðir svokallaðra nikótínlyfja. Má nefna nikótíntyggjó, nikótínúða og nikótínsogtöflur. Þetta dót er einkum framleitt af tveimur lyfjarisum: Nicotinell er framleitt af Novartis, sem er meðal fimm söluhæstu lyfjafyrirtækja heims. Einkaleyfið á Nicorette á hins vegar GlaxoSmithKline, í Bandaríkjunum, og Johnson&Johnson í Evrópu (Nicorette berst til Íslands gegnum dótturfyrirtæki Johnson&Johnson, McNeil Denmark ApS). Bæði þessi fyrirtæki eru lyfjarisar sem hafa margoft verið lögsóttir fyrir ýmislegt svindl í markaðssetningu lyfja og svínarí í viðskiptaháttum. Ekkert af þessum nikótínlyfjum er ódýrt. En það er bullandi bissniss í að selja fólki þetta, t.d. er Nicorette “eitt stærsta lyfið á lausasölumarkaði hér á landi”, að sögn innflytjanda þess.

Ég þekki marga sem hafa hætt að reykja með hjálp svona nikótínlyfja. Hins vegar er stór hluti þeirra fólk sem hefur tuggið nikótíntyggjó árum saman og tyggur enn (getur ekki hætt), svo það er spurning um öskuna og eldinn, sé haft í huga hvaða aukaverkanir þessi lyf hafa.

Í leiðinni er rétt að geta eins lyfs sem ávísað hefur verið þeim sem vilja hætta að reykja. Það er ekki nikótínlyf heldur þunglyndislyf. Þegar lyfinu er ávísað til að hætta að reykja heitir það Zyban en þegar því er ávísað við þunglyndi heitir það Wellbutrin. Þetta er nákvæmlega sama lyfið og ráðlagir dagskammtar þeir sömu. Ég hef reynslu af þessu lyfi gefnu við þunglyndi árið 2009; Það virkaði ekkert gegn þunglyndi, ég fann ekki fyrir minnstu þörf á að draga úr reykingum en hins vegar varð að minnka lyfjaskammtinn niður í lágmark (150 mg) því aukaverkun af lyfinu var að skjálfa svo heiftarlega frá toppi til táar að ég gat hvorki drukkið úr glasi né bolla, einungis stútkönnu. Zyban/Wellbutrin er einmitt framleitt af GlaxoKlineSmith og má kannski í leiðinni geta þess að fyrirtækið reyndi að markaðssetja sama lyf einnig sem megrunarlyf og getuleysislyf en bandarískur alríkisdómstóll dæmdi fyrirtækið í þriggja milljarða sekt fyrir það tiltækið árið 2012.

Álit Lyfjastofnunar á nikótínvökva

Löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins er í sjálfsvald sett hvernig þau vilja flokka nikótínvökva í rafsígarettur. Lyfjastofnun sem virðist fara með alræðisvald hér á landi hefur ákveðið að flokka slíkan vökva sem lyf og ber fyrir sig 2. tölulið. 1. mgr. 5. gr. Lyfjalaga nr. 93/1994, sem er þýðing á skilgreiningunni á lyfi í lyfjalöggjöf Evrópu og afskaplega illskiljanleg:

2. [Lyf: Hvers konar efni eða efnasamsetningar sem sögð eru búa yfir eiginleikum sem koma að gagni við meðferð sjúkdóma hjá mönnum eða dýrum eða við forvarnir gegn sjúkdómum eða hvers konar efni eða efnasamsetningar sem nota má fyrir menn eða dýr eða gefa þeim, annaðhvort í því skyni að endurheimta, lagfæra eða breyta lífeðlisfræðilegri starfsemi fyrir tilstilli líflyfjafræðilegrar eða ónæmisfræðilegrar verkunar eða verkunar á efnaskipti eða til þess að staðfesta sjúkdómsgreiningu.]

Það er ekki áhlaupsverk að túlka þessa lagagrein með háskólapróf í íslensku ein að vopni., hvað þá koma auga á hvernig hún getur rökstutt þá ákvörðun Lyfjastofnunar að telja nikótínvökva í rafsígarettutanka vera lyf. En það hefur Lyfjastofnun ítrekað 31. júlí 200920. nóvember 2009  og 3. janúar 2014 (og e.t.v. oftar).

Í þessum tilkynningum er hamrað á því að “innflutningur á rafsígarettum með nikótíni til endursölu er óheimill sé markaðsleyfi skv. lyfjalögum, nr. 93/1994, ekki fyrir hendi.” (tilv. í tilkynninguna frá 3. jan. í ár.) Markaðsleyfið fæst frá Lyfjastofnun.

Í símtali við fulltrúa Lyfjastofnunar í dag kom fram að markaðsleyfi lyfs sem bara er selt hér á landi, sem yrði túlkað sem frumlyf, kostar 4 milljónir. Taki mörg Evrópulönd sig saman og vinni umsókn um markaðsleyfi og íslenskur aðili gæti húkkað sig á það samstarf gæti markaðsleyfið kostað 300.000 kr.

Þetta markaðsleyfi er sem sagt ekki gefið. Og satt best að segja finnst mér ólíklegt að nokkur sæki um markaðsleyfi til að flytja inn lyfið “nikótínvökva til áfyllingar á tanka á rafsígarettur” nema alheimsframleiðslan komist í hendur lyfjarisa, t.d. sömu lyfjarisa og hafa orðið uppvísir að svindli, markaðsmisnotkun, fölsuðum rannsóknarniðurstöðum, leppuðum skrifum í læknatímaritum o.s.fr., þ.e. “Big Pharma” í öllu sínu veldi.

Ég fékk engin ótvíræð svör hjá Lyfjastofnun um hvers vegna það íslenska batterí hefði ákveðið að niktótínvökvi væri lyf nema gefið var í skyn að  jafnræðisreglu hefði verið beitt, þ.e.a.s. horft til nikótínlyfja sem fyrir eru á markaðnum. Sem eru framleidd af lyfjarisum.

Hvernig geta gufarar nálgast nikótínvökva í sínar rafrettur?

Eins og fyrr kom fram hafa íslenskt fyrirtæki selt rafrettur og íhluti í þær í nokkur ár. Á Netinu er síðan auðvelt að panta nikótínvökva og raunar algerlega löglegt fyrir einstaklinga sem ekki ætla að selja vökvann þann. Í gildi er nefnilega Reglugerð um innflutning einstaklinga á lyfjum til eigin nota, nr. 212 frá 1998.  Pöntun má fá í pósti frá ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu og er miðað við 100 dagskammta til eigin notkunar. Raunar segir í 2. gr. Reglugerðarinnar:

Einstaklingur skal geta framvísað vottorði læknis, lyfseðli eða annarri skriflegri yfirlýsingu ásamt fyrirmælum um notkun, er færi fullnægjandi sönnur á að lyfjanna hafi verið aflað með lögmætum hætti og að lyfin séu honum nauðsynleg í því magni sem tilgreint er.

Nú reikna ég með að það væri auðsótt mál að skaffa vottorð, t.d. fyrir mig frá heimilislækni því ég get ekki notað tyggjó, líklega vegna skemmda í miðtaugakerfi af lyfðseðilsskyldum lyfjum sem Lyfjastofnun hefur leyft og mér hafa verið ávísuð árum saman í óhóflegu magni – og allir læknar vilja auðvitað venja sína sjúklinga af reykingum, svo bráðóhollar sem þær nú eru. En hvernig ætli búðirnir sem ég kaupi nikótínvökvann af taki íslenskri vottorðasendingu? Þetta eru nefnilega ekki apótek heldur venjulegar verslanir á Vefnum því það eru margar þjóðir í Evrópu, fyrir utan Ísland, sem telja nikótínvökva í rafrettur vera hvurja aðra vöru en ekki lyf. Á ég kannski að afhenda Tollstjóraembættinu lyfseðilinn, ef um er beðið? Eða Lyfjastofnun sjálfri?

Í framhaldsfærslu verður fjallað um hvort eða hvursu óholl gufun úr rafsígarettum er miðað við reykingar og bent á nokkra staði á Vefnum þar sem hægt er að kaupa græjur og nikótínvökva.

Lífsstílssjúkdómavæðingin

Á dögunum las ég á visir.is greinina Berum við ábyrgð á eigin heilsu?, 6. júní 2014, eftir Geir Gunnar Markússon, næringarfræðing á Heilsustofnun NLFÍ og ritstjóra vefjar stofnunarinnar. Nú hef ég af og til heyrt svipaðan málflutning upp á síðkastið en þessi grein vakti sérstaka athygli mína fyrir það hversu mikill þvættingur er í henni samankominn.

Höfundur greinarinnar segir m.a.:

Það er nauðsynlegt að við veltum fyrir okkur hvers vegna við erum að leita læknis og nýta okkur heilbrigðiskerfið okkar. Mikið af þeim „sjúkdómum“ sem eru að hrjá okkur í dag eru þessir svokölluðu lífsstílssjúkdómar s.s. sykursýki, offita, hjarta- og æðasjúkdómar, ýmis krabbamein, þunglyndi [leturbreyting mín] og stoðkerfisvandamál.

Geir Gunnar bætir svo seinna við: „Hættum að nota heilbrigðiskerfið til að meðhöndla alla þessa lífsstílssjúkdóma og notum það frekar til að lækna okkur af „alvöru“ sjúkdómum sem við ráðum ekki við sjálf með líferni okkar.“ 1

Ég sakna þess mjög að sjá ekki dæmi um það sem Geir Gunnar telur „alvöru sjúkdóma“ – hverjir gætu það mögulega verið?

Er þunglyndi lífsstílssjúkdómur?

Síðan ég las þessa grein hef ég velt þessu mjög fyrir mér enda hef ég ýmist verið 75% eða 100% öryrki af völdum þunglyndis undanfarin ár. Þunglyndi er algerlega lamandi sjúkdómur eins og þeir sem reynt hafa þekkja vel. Þegar hver dagur snýst aðallega um að komast á fætur og einbeita sér að því að lifa daginn af en kála sér ekki í þunglyndisköstunum því kvölin og myrkrið er svo alltumlykjandi, þegar maður er ólæs, ófær um að horfa á sjónvarp, ófær um að tala, minnið, jafnvægisskynið og tímaskynið og svefninn fokkast gersamlega upp … tja, er furða þótt kona eins og ég velti fyrir mér hvar ég klikkaði í lífsstílnum ef marka má grein Geirs Gunnars?

Er mögulegt að ég éti ekki nógu „hreinan mat“? Solla í Gló er nýbúin að vara fólk við að margur maturinn sé óhreinn, sá ég í fyrirsögn, en ég nennti ekki að lesa greinina enda hvorki grænmetisæta né holl undir kosher-fæði neins konar. Er þunglyndið refsing guðs fyrir að reykja? Er ég þunglynd af því ég hleyp ekki, lyfti ekki lóðum og fer aldrei í leirbað, ekki einu sinni í skiptiböð? Eða er það skortur á núvitundaræfingum sem veldur helv. sjúkdómnum?

Ég þyrfti að panta tíma hjá Geir Gunnari til að fá leiðbeiningar um hvernig ég gæti étið úr mér þunglyndið eða baðað það úr mér eða íhugað sitjandi á kodda eða eitthvað lífsstíls-, það er ekki spurning!

Og ég er ekki með neitt af hinum sortunum sem hann taldi upp svo rangi lífstíllinn minn hefur einvörðungu valdið helvítis þunglyndinu.

Raunar veit ég ekki til þess að orsakir þunglyndis séu þekktar, eftir umtalsverðan lestur um efnið, hef jafnvel legið yfir fræðilegum greinum og bókum, svo Geir Gunnar lumar á merkilegri uppgötvun þarna.

Úrkynjunarkenningin

Í lok greinar sinnar segir Geir Gunnar:

Við Íslendingar erum afkomendur víkinga og hreystimanna sem settust hér að á þessari köldu eyju í Norður-Atlantshafinu. Tölur WHO benda til þess að við séum á góðri leið með að verða andstæða forfeðra okkar, því þessir lífsstílssjúkdómar sem eru að tröllríða íslensku samfélagi eru ekki að gera okkur að hreystimönnum.

Ég kannast ágætlega við úrkynjunarkenninguna sem skýringu á geðsjúkdómum og fleiri krankleikum: Hún var voða mikið í tísku á nítjándu öld og vel fram á þá tuttugustu. Mannakynbætur voru sjálfsögð afleiðing hennar, sem komu fram í geldingum geðsjúkra, þroskaheftra, samkynhneigðra o.fl., þær áttu svo sína gullöld í útrýmingarbúðum nasista. Það kemur svo sem ekki á óvart að einhverjir í Hveragerði aðhyllist einmitt úrkynjunarkenninguna.

Og ég kannast svo sem nokkuð vel við landnámsmenn líka, verandi íslenskufræðingur með áherslu á miðaldabókmenntir, þ.e.a.s. Íslendingasögur og svoleiðis. Vissulega voru þeir margir víkingar en það má alveg deila um hversu göfugt starf það var: Að brytja niður mann og annan, einkum varnarlaust fólk í útlöndum, konur og börn ekki undanskilin, er ekki sérlega hreystimannlegt, finnst mér. Og sumir þeirra voru gersamlega kolklikk, ég nefni sem dæmi forföður okkar Geirs Gunnars, Egil Skallagrímsson á Borg. Eftir að hafa sett mig dálítið inn í „víkingana og hreystimennin“ sem hér námu land hugga ég mig venjulega við að mínir hvatberar eru ekki frá þeim heldur góðum og gegnum keltneskum og enskum konum (sem kannski voru ekki hreystimenni en þó skömminni skárri en norrænu karlarnir).

Hvað er lífsstílssjúkdómur?

Samkvæmt orðanna hljóðan er þetta hvaða krankleiki sem er sem rekja má til einhverrar hegðunar í lífinu. Ónýt hné fótboltastráka/fótboltamanna eru tvímælalaust lífsstílssjúkdómur og hann ekki sjaldgæfur; Háfjallaveiki og kafaraveiki líka, beinbrot í vélsleðaslysum, slitin liðbönd af íþróttaiðkun, áverkar í bílslysum o.s.fr.

Á nokkuð að vera að púkka upp á svona sjúklinga því þeir geta jú sjálfum sér um kennt og eru þá ekki með „alvöru sjúkdóma“? Þarf  ekki frekar að auka forvarnir gegn fótboltaiðkun og annarri íþróttaiðkun, fjallaklifri, köfun, vélsleðanotkun og að fólk aki bíl um allar trissur?

Af hverju eru lífsstílssjúkdómar í tísku núna?

Ég held að grein Geirs Gunnars næringarfræðings svari þessu prýðilega: Þetta er spurning um í hvað peningarnir eru settir. Sama kemur fram í máli Guðmundar Löve, framkvæmdastjóra SÍBS, sem getið er í neðanmálsgrein: Setja meiri peninga í forvarnir og þá þarf minni pening í heilsugæslu. Og þá fá alls konar lýðheilsufræðingar, næringarfræðingar, sálfræðingar, einkaþjálfarar, markþjálfar, jógakennarar, eigendur líkamsræktarstöðva og ekki hvað síst Náttúran í Hveragerði meiri pening og geta unað glaðir við sitt.

1 Ég reikna með að Geir Gunnar Markússon næringarfræðingur á Heilsustofnun NLFÍ sé að bergmála málflutning Guðmundar Löve framkvæmdarstjóra SÍBS, í leiðara nýjasta tölublaðs SÍBS, júní 2014, (sem skartar einmitt ljómandi lekkerri heilsíðuauglýsingu frá Náttúrunni í Hveragerði á fyrstu síðu). Guðmundur Löve segir:

Um níu af tíu dauðsföllum á Íslandi stafa af sjúkdómum sem eru að einhverju leyti á áhrifasviði lífsstíls.
[—]
Samkvæmt tölum WHO úr skýrslunni „Global burden of disease [svo]“ frá 2012, eru stærstu ógnir við heilsufar Íslendinga [skv. samhenginu er verið að tala um „glötuð góð æviár”] eftirfarandi: stoðkerfisraskanir, geðraskanir, krabbamein og hjarta- og æðasjúkdómar – í þessari röð. Ef það kemur einhverjum á óvart að heilsufarsskaðinn sé meiri af völdum stoðkerfisraskana og geðraskana en krabbameina og hjarta- og æðasjúkdóma er mögulega einnig ástæða til að vera hissa á hvaða áhættuþættir vega þyngst: Þar er nefnilega mataræði í efsta sæti, og þar á eftir ofþyngd, reykingar og háþrýstingur.

Sá hluti Global Burden of Diseases sem varðar Ísland er hér: GBD PROFILE: ICELAND, útg. 2012.

Þar koma áhættuþættirnir fram á s. 3 og eru þeir sömu og Guðmundur telur, en þeir þrír þættir sem vega þyngst í „glötuðum góðum æviárum“ (DALYs) árið 2010 eru verkir í mjóbakihjartasjúkdómar og þunglyndi, í þessari röð. (s. 2) Vekur furðu að framkvæmdarstjóri SÍBS hefur ekki rétt eftir skýrslunni en kannski var hann að skoða einhverja allt aðra skýrslu.

Nýir krankleikar á topp-tíu listanum íslenska í „glötuðum góðum æviárum“ árið 2010, samanborið við 1990, eru Alzheimers-sjúkdómur og önnur elliglöp ásamt þunglyndi og langvinnri lungnateppu. (Sjá s. 2. )

Þeim sem finnst gaman að leika sér í tölfræði er bent á þessa gagnvirku útgáfu af skýrslunni sem má stilla á ýmsan máta.

Á sjúklingur að vera hamingjusamur gísl?

Allt frá því ég las Medical Muses eftir Asti Hustvedt, bók sem fjallar um dr. Charcot og hysteríurannsóknir hans á nítjándu öld, hef ég velt dálítið fyrir mér sambandi læknis og sjúklings. Í þeirri bók er hinu fullkomna sambandi slíkra lýst: Með fullkominni samvinnu við sjúklinga sína tókst Charcot að búa til heilt kerfi sjúkdómsgreiningar sem er almennt talið algert kjaftæði og vitleysa nútildags en þótti afar merkileg uppgötvun á sínum tíma. Sjúklingarnir, hysteríudívurnar, léku sjúkdómseinkennin í kerfi Charcot af list og uppskáru athygli, aðdáun og betra atlæti fyrir. Þær voru hamingjusamir gíslar taugalæknis sem var ansi mikið út úr kortinu svo ekki sé kveðið fastar að orði.

Það hafa ekki margir skrifað um þessa hlutverkaskipan læknis og sjúklings. Má þó nefna David Healy (geðlækni, höfund Pharmageddon o.fl. bóka) sem telur lækna vera hamingjusama gísla lyfjafyrirtækja og sjúklinga vera hamingjusama gísla læknanna. Healy kallar þetta Stockholm-heilkennið  í þessu sambandi en ég tek mér það bessaleyfi að kalla þetta einfaldlega hamingjusaman gísl.

 

Læknirinn sem algóður faðir – sjúklingurinn sem hlýðið barn

Í stuttum pistli er ekki tóm til að gera grein fyrir því sem snýr að læknum í gíslingu lyfjafyrirtækja en þegar kemur að sjúklingnum er átt við að sjúklingur vill gjarna gera sínum góða lækni allt til þægðar, er ekki með neitt vesen og minnist ekki á alls konar aukaverkanir af lyfjum eða öðrum læknisráðum sem góði læknirinn ávísaði til að valda honum ekki vonbrigðum. Þessi hlutverkaskipan fellur einkar vel að hugmyndafræði þeirra lækna sem aðhyllast föðurlega læknisfræði: Læknirinn er í hlutverki hins algóða, alvitra föður sem vill sínum sjúklingi hið besta, sjúklingurinn er í hlutverki barnsins sem á að fara möglunarlaust að leiðbeiningum og vera þakklátt fyrir.

Svo tekið sé gamalt en einstaklega lýsandi dæmi af sjúklingi sem gekkst algerlega inn á að vera hamingjusamur gísl læknisins síns má nefna minningargrein um Ólaf Geirsson lækni frá 1965  sem fyrrverandi sjúklingur hans af Berklahælinu á Vífilsstöðum skrifaði. Læknirinn talaði sjúklinginn inn á að fara í þá hræðilegu aðgerð lóbótómíu, sem virkaði auðvitað til engra bóta en sjúklingurinn bar þó engan kala til síns góða læknis:

Þegar ég kom að Vífilsstöðum árið 1951, var ég sjúk bæði á sál og líkama. Truflun á efnaskiptum líkamans hafði þrúgað svo taugakerfi mitt að í algert óefni var komið. Þá tóku þessir mætu mannvinir, Ólafur heitinn og Helgi Ingvarsson, höndum saman og slógu um mig varðlokur [- – -] Og kom nú Ólafi Geirssyni í hug heilagerð [svo] sú, er lobotomi nefnist og oft hefur reynst rík til árangurs. Íslenzkur læknir var þá á lífi, sem fékkst við þessar aðgerðir, Bjarni heitinn Oddsson. Blessuð sé minning hans. Réði nú Ólafur mér að leita þessa ráðs, en ég var lengi treg. Mun þar hafa ráðið nokkru að ég hef aldrei verið kjarkkona og treg orðin að trúa á árangur. En þó mun þar mestu hafa ráðið, að tilhugsunin við að láta hrófla við þessu viðkvæma líffæri, heilanum, skóp mér beyg við einhverja breytingu, er verða kynni á sjálfri mér til hins lakara. Ég þæfði því lengi á móti. Ólafur heitinn skildi mig út í æsar og sótti mál sitt ekki fast. Hann hvorki skipaði né bað. En hann setti sig ekki úr færi að bera þær aðgerðir af þessu tagi í tal, sem hann kunni sögur af. Segja mér frá þeim og árangri þeirra, einnig að útlista fyrir mér, í hverju þær væru fólgnar og árangur þeirra, rétt eins og hann væri að ræða við jafningi við jafningja sinn. Þessum hæverska áróðri hélt hann áfram uns ég fór að linast. Hugsaði loks sem svo, að það mikið hefði Ólafur fyrir mig gert, að skylt væri að sýna honum það traust að hlíta ráðum hans. Var svo aðgerðin gerð. En með því að sjúkdómurinn var búinn að leika mig grátt, var ég nokkuð lengi að ná mér á eftir. Gekk svo fyrsta árið, að á mig sóttu geðtruflanir, sem lýstu sér í þunglyndi og ýmis konar firrum. Dvaldi ég í skjóli þeirra Vífilsstaðalækna — og hef ég oft hugsað til þess með kinnroða, hve þreytandi sjúklingur ég hlýt að hafa verið þennan tíma.

 

Er þekking lækna rétthærri þekkingu sjúklings?

Samkvæmt minni eigin reynslu taka sumir læknar það óstinnt upp þegar sjúklingur neitar að vera hamingjusamur gísl þeirra áfram og vill verða sjálfráða manneskja. Bætir ekki úr skák ef sjúklingur fer sjálfur að lesa sér til um eigin krankleik og læknisaðferðir og hafa skoðanir á þessu. Af gömlu embættismannastéttunum eru læknar (sumir) þeir einu sem ríghalda í þá blekkingu að þeir einir hafi aðstöðu til að afla sér þekkingar á sínu sviði og sú þekking gefi þeim vald, jafnvel óskorað vald yfir sjúklingum sínum.

Því verður ekki á móti mælt að sjúklingar eru, enn sem komið er, gíslar svoleiðis lækna. Tökum sem dæmi konu sem veit talsvert meira um vanvirkan skjaldkirtil en venjulegur heimilislæknir og óskar eftir að tilteknir þættir verði mældir í blóðprufu. Konan veit líka auðvitað miklu betur en læknirinn hvernig henni líður. Sú kona gæti lent á föðurlegum lækni sem segir líðan konunnar vera ímyndun eina og neitar að senda beiðni um blóðprufuna af því hann sjálfur álítur, eftir 15 mínútna viðtal, að það sé ekkert að henni og byggir þá skoðun á eldgömlum fræðum og fullvissu um eigið ágæti fram yfir sjúkling. Þessi ímyndaða kona er auðvitað gísl læknisins því hún getur ekki sjálf pantað blóðprufuna, einungis læknar geta það.

Ímyndaða konan getur hins vegar alveg valið hvort hún kærir sig um að vera hamingjusamur gísl, hugsandi með kinnroða til þess hve þreytandi sjúklingur hún hljóti að vera, farandi heim jafnveik og fyrr …

Og vonandi getur ímyndaða konan fengið annan lækni sem er ekki gíslatökumaður.

 

(Þessi pistill birtist áður í Kvennablaðinu 12. júní 2014.)

Kettir

Forsíðumyndin er af grískum kettlingum. Allir sem ferðast hafa um grísku eyjarnar kannast við kattafjöld alls staðar: Á veitingastöðum þiggja þeir bita sem falla af diskum gestanna, í bókabúðum og bókasöfnum búa gjarna einn til tveir kettir og á götum og húsasundum er fjöldi gullfallegra grískra katta.

Í þessum pistli verður stiklað á stóru um ýmislegt sem snertir ketti í fortíð og nútíð.

Kettir og guðir

Einna frægust eru tengsl katta við goðmögn í Egyptalandi hinu forna. Hér fyrir neðan er mynd af kattagyðjunni Bastet  sem dýrkuð var allt frá þriðju öld fyrir Krists burð. Hún gegndi ýmsum hlutverkum eftir því tímar liðu og sumir telja eitt þeirra hafa verið frjósemi. Bastet var geysivinsæl gyðja. Kettir voru sérstaklega helgaðir henni og smurðir eftir dauðann.  Við hlið styttunnar af Bastet er ein fjölmargra kattamúmía sem hafa fundist.

Hvoru tveggja gripirnir eru á British Museum
Hvorir tveggju gripirnir eru á British Museum

 

Í norrænni goðatrú eru kettir tengdir frjósemisgyðjunni Freyju því tveir slíkir draga vagninn hennar. Freyja er á sífelldum faraldsfæti  því hún leitar stanslaust eiginmanns síns, Óðs, sem skilaði sér ekki heim úr ferðalagi. Og séu menn ekki vel versaðir í goðafræði er þetta skýringin á því að vörumerki sælgætisverksmiðjunnar Freyju er köttur.

Freyja og kettirnir. Úr útg. Norðmannsins P.A. Munch á norrænum goðsögum 1880.
Freyja og kettirnir. Úr útg. Norðmannsins P.A. Munch á norrænum goðsögum 1880.

 

Hægt er að sjá betri mynd af þessum skrautborða á Flickr.com. https://www.flickr.com/photos/28493949@N02/4384217199/
Hægt er að sjá betri mynd af þessum skrautborða á Flickr.com.

Kettir tengjast ekki beinlínis kristinni trú. En óbeinar tengingar má finna, s.s. hluta af skrautborða í hinum frægu Lindisfarne guðspjöllum, sem sést hér til hægri. Handritið er rómað fyrir fegurð og er talið vera frá því um 700. Skrautborðinn með kettinum er í upphafi Lúkasarguðspjalls.

Um öld eftir að munkar á Eynni helgu (Lindisfarne) bjuggu til sitt glæsilega handrit hripaði einsetumunkur á Írlandi hjá sér kvæði um köttinn sinn. Kötturinn hans hét Pangúr Ban, sem gæti þýtt hvítur þófari eða bara hvíti Pangúr. Jón Helgason prófessor þýddi kvæðið um Pangúr Ban og hefst það þannig:

Gömul skipti mín ég man
mörg við fressið Pangúr Ban,
meðan krás í klær hann tók
klausur henti ég af bók.

Allt kvæðið í þýðingu Jóns má lesa í Nýja stúdentablaðinu 26(1) 1962, s. 23.

Kettir í skáldskap

Til er fjöldi þjóðvísna, barnagæla og kvæða um ketti og engin leið að gera slíku skil í svo stuttum pistli. En úr því minnst var á Jón Helgason hér að ofan nefni ég eitt af mínum uppáhaldskvæðum sem hann orti, líklega til síns eigin kattar, sem heitir Á afmæli kattarins. Kvæðið má lesa í heild í Dýraverndaranum 37(8) 1951, s. 60.  Þar er m.a. þessi vísa, sem ég veit að margir eru sammála:

Ólundin margsinnis úr mér rauk
er ég um kverk þér og vanga strauk,
ekki er mér kunnugt um annað tal
álíka sefandi og kattarmal.

Kettir eru dularfull dýr og láta ekki allt uppi. Þetta vissi skáldið T.S. Eliot og orti kvæði um nöfn katta (sem birtist í Old Possum’s Book of Practical Cats, útg. 1939) . Hver köttur á þrjú nöfn: Eitt hvunndagslegt, sem fólkið hans notar, eitt tignarheiti, sem er einstakt fyrir hvern kött, og loks eitt nafn sem einungis kötturinn sjálfur veit hvert er! Sjáirðu kött í þungum þönkum er hann að hugsa um það nafnið sitt, eða eins og Gísli Ásgeirsson segir í þýðingu sinni á ljóði Eliot:

Þegar þú sérð köttinn sitja í þönkum þungum
þá er hugur hans að dvelja við
sitt heimullega nafn, er hann að hugsa um
hið dularfulla,
ónefnanlega,
óaðfinnanlega, einstaka nafn.

(Alla þýðingu Gísla og frumtexta T.S. Eliot má sjá í færslunni Í tilefni dagsins 30.9.2013 á malbeinid.wordpress.com )

Myndskreyting Nicholas Bentley við ljóðið The Naming of Cats í bók Eliot.
Myndskreyting Nicholas Bentley við ljóðið The Naming of Cats í bók Eliot.

 

Frægir íslenskir kettir

Hér er líklega rétt að telja auðugasta kött Íslands, köttinn í Hraunsnefi í Norðurárdal. Sá köttur var uppi á seinni hluta nítjándu aldar og þótti svo góður til áheita að á endanum þurfti að fá fjárhaldsmann sem gætti fjárins og ávaxtaði dyggilega það sem kettinum barst.

Peningar og skuldabréf kattarins voru geymd í ágætum kistli (sem ég hef fyrir satt að sé enn til) en einnig voru keyptar jarðir fyrir féð, peningar lánaðir og ær leigðar.

Ekki voru allir ánægðir með vaxandi ríkidæmi kattarins, t.d. áminnti prófasturinn í Stafholti sinn söfnuð fyrir að eyða fé í vesælan kött en vanrækja kirkjur og kristindóm. Ráðsettir bændur nöldruðu á hinn bóginn yfir að Hraunsnefsfólkið væri að skjóta eigum sínum undan skatti í kattarsjóðinn því ekki þótti við hæfi að leggja útsvar eða skatt á köttinn. En þar sem fjárhaldsmenn kattarins voru fyrst hreppstjórinn í sveitinni og svo oddvitinn var ekkert gert í málunum og kötturinn hélt áfram að græða.

Þegar eigandi kattarins, Oddný Þorgilsdóttir, lést árið 1887 fylgdi kötturinn henni til grafar ásamt hennar heimafólki en skilaði sér ekki aftur heim heldur lagðist út. Enginn veit hvað af honum varð.

Ítarlegri söguna af ríkasta ketti á Íslandi má lesa í Nýja tímanum 17(3) 1957, s. 3.

Skáldið Jósefína Meulengracht Dietrich von Steuffenberg.
Skáldið Jósefína Meulengracht Dietrich von Steuffenberg.

 

Hér að ofan var tæpt á nokkrum dæmum um menn sem ortu um ketti. Hitt vita færri að uppi á Skaga býr einkar hagmælt læða sem gefur út ljóðabók á hverju ári (hér er krækt í fjórðu útgáfu hennar). Er við hæfi að ljúka þessum pistli með tveimur vísum eftir Jósefínu Dietrich sem sóma sér vel í kvennablaði:

Ég er fagur femínisti og fer á kostum,
malandi læt rímið renna,
raula fyrir málstað kvenna.

Þó að fress í fúlu skapi fussi og svei-i
rófu mína loðna og langa
legg ég undir gulan vanga.

 

(Birtist fyrst í Kvennablaðinu 7. júní 2014.)

Leit í læknisfræðilegu efni á ensku á Netinu

Þetta dæmi er af sjúklingi sem ekki hefur fengið bót meina sinna í heilbrigðiskerfinu; hefur gengið milli lækna af ýmsu tagi og prófað ýmis læknisráð án árangurs. Sjúklingurinn er með verki sem ekki finnst skýring á, í þessu tilviki í kjálka. Í stað þess að læknar upplýsi hann um að í fjölmörgum tilvikum kunni læknisfræðin enga skýringu á verkjum eða ýmsum öðrum krankleik er sífellt lagt til að sjúklingurinn leiti til nýs og nýs sérfræðings í nýjum og nýjum greinum. Sjúklingurinn nennir loks ekki að taka þátt í frekari læknisleik og ákveður að kynna sér málið sjálfur.

Forsagan felur í sér að sjúklingurinn hefur lesið sér talsvert til á „ófræðilegum“ vefsíðum, t.d. Wikipedia-síðum eða upplýsingasíðum fyrir almenning. Það er almennt langbest að byrja á að lesa svoleiðis yfirlit, þótt ekki sé nema til að læra helsta orðaforða um sinn sjúkdóm.

Hvar á að leita upplýsinga?

Efni sem læknar taka mark á (þ.e. ritrýnt efni eftir aðra lækna eða þá sem hafa háskólagráðu í heilbrigðisvísindum) er skráð í ýmsa gagnabanka. Það er ekki sérlega árangursríkt að leita beint í þeim, aðallega af því það er svo seinlegt. Gagnabankarnir henta kannski betur læknum sem vilja velja bestu bitana fyrir sig, stunda það sem kallað hefur verið á lélegri íslensku „kirsuberjatínsla“,  þ.e.a.s. leita staðfestingar fræðinga á því sem fellur að þeirra eigin fyrirfram skoðun.

 

Hvernig á að leita upplýsinga?

Langöflugasta leitarverkfærið er enn og aftur Google, í þetta sinn sá angi þess sem kallaðist „Fræðasetur Google“, þ.e.a.s. scholar.google.com.  Þetta tól Google leitar í fræðigreinum í tímaritum, sem mörg eru aðgengileg í landsaðgangi, fræðibókum,en hluti þeirra er oft aðgengilegur á Google books, og fleiru efni. Það er auðvelt að stilla leitartólið og því tiltölulega fljótlegt að finna þær upplýsingar sem notandi er á höttunum eftir. Síðan má nota efni úr þeim, t.d. heimildir sem þær vísa í, til enn markvissari leitar (ef sjúklingurinn hefur hug á að gerast sérfræðingur í eigin sjúkdómi).

Hér að neðan sést skýringarmynd af Google scholar, stillingum og hvert krækjur vísa. Útskýringar eru fyrir neðan myndina. Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.

Stillingar á Google Scholar

Lengst til vinstri eru stillingar sem voru valdar áður en leit hófst. Hér var valið að leita að efni frá 2010 til dagsins í dag. Stillt var á „Sort by relevance“ sem þýðir að upplýsingum er raðað eftir því hve vel þær tengjast leitarorðinu/leitarorðunum. Hakað var við „include citations“ til að sjá hvar hefur verið vitnað í efnið (sem gæti gefið vísbendingar um gæði þess).

Leitarorð geta verið mörg, í þessu tilviki er leitað að „atypical facial pain“ (ódæmigerðum andlitsverk). Önnur leitarorð sem hefðu komið til greina væru „myofascial face pain“ (andlitsverkir sem tengjast bandvefsvandamálum), „facial neuralgia“ (taugaverkir í andliti), „persistent idiopathic orofacial pain“ (stöðugur óútskýrður verkur í neðri hluta andlits eða munnholi) o.s.fr. Sjúklingurinn veit nú þegar að hann er ekki með TMD (Temporomandibular disorder, þ.e.a.s. einhverja skemmd sem tengist kjálkalið) og ekki með Trigeminal neuralgia (vangahvot, verki sem tengjast þríburatauginni) svo hann er ekkert að ómaka sig við að leita eftir þeim leitarorðum.

Fyrsta greinin sem kemur upp er aðgengileg sem vefsíða en einnig fylgir krækjan Landsaðgangur. Sé smellt á Landsaðgangur opnast nýr gluggi sem er hluti af landaðgangsleitarvélinni (bein slóð á landsaðgengi að greinum er hvar.is). Í þeim glugga kemur fram í hvaða gagnabanka greinina er að finna, í hvaða tímariti hún birtist, hvenær, á hvaða blaðsíðum o.s.fr. Vilji maður lesa grein í landsaðgangi er smellt á Go. Þá opnast greinin í viðkomandi tímariti, í þessu tilviki Scandinavian Journal of Pain. Þess ber að geta að oft er nýjasti árgangur fræðitímarits ekki aðgengilegur í landsaðgangi.

 

Hvernig á að meta leitarniðurstöðurnar?

Sjúklingurinn sem er að leita sér upplýsinga tekur eftir því að þótt Google Scholar raði greininni úr Scandinavian Journal of Pain efst í leitarniðurstöðum (vegna þess að leitarorðin koma fyrir í röð snemma í greininni) virðist þetta ekki talin mjög merkileg grein (eða háttskrifað tímarit). Það sést á því að einungis 4 hafa vitnað í hana síðan hún birtist: Cited by 4 gefur sumsé ákveðnar vísbendingar.

Neðar á fyrsta skjá birtast mun álitlegri krækjur (smelltu á myndina til sjá hana stærri):

Vægi greina á Google Scholar

 

Krækja í efni sem hefur verið vitnað í af 104, stærstur hluti þeirra eru væntanlega fræðimenn sem vitna til þessa efnis í sínum fræðiskrifum, virðist álitleg. Og skv. krækjunni lengst til hægri er efnið aðgengilegt sem pdf-skjal á rússnesku vefsetri (sem kann að vera vegna þess að Rússar eru ekki píetistar í höfundarétti og birtingin því kannski ekki fullkomlega lögleg … en það varðar sjúklinginn svo sem ekkert um. Raunar er heil bók aðgengileg á þessari slóð þótt Google kræki hér einungis í tólfta kafla hennar.). Það styður einnig meint vægi þessarar greinar að hún hefur birst í 8 útgáfum.

Sjúklingurinn kemst svo að því að þessi grein er í rauninni kafli í bók, Evidence-Based Chronic Pain Management, útg. 2010, og er afar gagnlegt yfirlit yfir andlitsverki af ýmsum toga og jafnt „sannreynd“ sem möguleg læknisráð við þeim. Meginniðurstaða umfjöllunarinnar er, eins og sjúkling grunaði, að læknavísindin vita sáralítið um svona kvilla og flest læknisráðin eru byggð á kerlingabókum lækna og ágiskunum en ekki öruggum rannsóknum.

Önnur grein af fyrsta skjá sem virðist fýsilegt að skoða er þessi sem 42 hafa vitnað í og er aðgengileg á 11 stöðum, birtist í tímaritinu Pain 2010. Þessi grein er aðgengileg sem pdf-skjal, auk þess að vera í landsaðgangi.  Miðað við titilinn fjallar hún um mögulegar orsakir andlitsverkja. Þetta er dæmigerð vísindagrein, skrifuð inn í ákveðið snið (template) eins og þær eru flestar.

Í næstu færslu verður fjallað um snið dæmigerðra læknisfræðigreina og hvernig sjúklingur getur nánast strax metið hvort borgar sig að lesa gegnum svoleiðis grein. Einnig verður fjallað um orðaforða í svona greinum; hvernig finnur maður hvað orðin þýða á íslensku og hvað er hægt að gera þegar íslensku heitin (íðorðin) eru gersamlega óskiljanleg?

Þessi færsla er framhald af færslunum:

Er nýjasta trendið alltaf best?

 

Ég er nógu gömul til að muna eftir bæði sveitasíma og steinolíulömpum í mínum uppvexti. En í þessari færslu ætla ég að rifja upp aðeins nýrri tíma en bernskuna.

 

Veturinn 1985-86 stundaði ég kennsluréttindanám. (Verður að segjast eins og er að nánast ekkert úr því námi hefur nýst í starfi mínu sem framhaldsskólakennari en það er annar handleggur.) Eitt af því sem kennt var var svokölluð nýsitækni svo við gætum notað nýjustu tæki og tól til að lífga upp á kennsluna. Við lærðum að búa til flettilglærur, þ.e.a.s. föndra saman plastglærur í mismunandi litum og lögum. Mig minnir að ég hafi búið til glæru af óléttri konu (enda ólétt sjálf á þeim tíma), þar sem fletta mátti upp á henni kviðnum og sjá fóstrið undir: Gasalega sætt í myndvarpanum, fannst mér. Svo lærðum við að taka slæds-myndir af litmyndum í bókum.

Ég hef aldrei búið til flettiglæru síðan. Og aldrei tekið slæds-myndir af litmyndum í bókum, til að setja í framköllun og halda skuggamyndasýningu fyrir nemendur.

 

 

1986 kom fyrsta tölvan inn á heimili mitt. Mér þótti þetta mikil búbót enda hafði ég lært vélritun árið áður, ég fór nefnilega í landspróf og landsprófsnemendur lærðu ekki vélritun enda var búist við að við yrðum öll háskólaborgarar með ritara á okkar snærum þegar við yrðum fullorðin. Svo ég lærði að vélrita eftir að hafa lokið BA-prófi. Sambýlismaður minn (seinna eiginmaður) bjó sjálfur til ritvinnsluforrit í tölvuna, ágætis verkfæri nema það mátti alls ekki snerta einn ákveðinn takka á lyklaborðinu því þá þurrkaðist allt út. Í fyrstu tilraun minni til að nota þessa flottu nýju græju rak ég mig auðvitað í þann takkann og glataði merkri ritsmíð um uppeldis-og kennslufræði … en lét það ekki stöðva mig í að nota þessi nýju tæki áfram, tölvurnar altso.

 

 

Haustið 1986 byrjaði ég að kenna við Fjölbrautaskóla Akraness (sem nú heitir Fjölbrautaskóli Vesturlands). Í skólanum voru tölvur og mig minnir að Windows hafi ekki verið til þá. Einhvern tíma skömmu síðar stóð ég fyrir tilraunaverkefni í tölvustofunni sem hét Ritsmiðja. Það fólst í því að hjálpa nemendum að semja texta og ganga frá honum, eftir skólatíma. Obbinn af vinnunni var samt að hjálpa nemendum að brúka WordPerfect og Works ritvinnsluforritin.

 

Svo hef ég fylgst með þróun í tölvutækni allar götur síðar, byrjaði að nota internetið í janúar 1991, gegnum Imbu sálugu á Kópaskeri, Vefinn þegar hann kom til sögunnar o.s.fr. Ég hef unnið mýgrút af þróunarverkefnum tengdum þessari tækni, sem öll snérust um hvernig væri hægt að nota tæknina í kennslu og nám, í mínu tilviki íslenskukennslu.

 

Undanfarið hefur, í umræðu um skólamál, verið haldið mjög á lofti að í skólum sé ekki fylgst nógu vel með og þar sé ekki notuð ný tækni. Skólabækur séu óþarfar og allir eigi að nota Ipad eða önnur spjöld. Óþarft sé að kenna þekkingaratriði því nemendur geta alltaf og ævinlega flett upp á Vefnum. Nýafstaðið samræmt próf í íslensku þykir hallærislegt, jafnvel vont, af því á því birtust gamlir textar, spurt var út í óinteressant þekkingaratriði í stafsetningu o.fl. og prófið vakti alls ekki áhuga nútíma nemenda á móðurmáli sínu eða gekk út frá veruleik nútíma nemenda. Og þannig mætti lengi áfram halda.

 

Akkúrat núna erum við stödd í Ipad- og Iphone- og allrahandaspjaldvæðingunni miklu. En hver er þess umkominn að spá hvað verður eftir áratug, svo ég tali nú ekki um eftir nokkra áratugi? Ættu skólar að stökkva á þessar nýju græjur til að vera móðins og fylgjast með og vekja nægan áhuga? Ættu kennarar að hætta að kenna “steingeldar staðreyndaþulur” af því Gúgull frændi á svör við öllum spurningum? Eiga próf að hætta að mæla þekkingu og mæla eitthvað allt annað í staðinn eða yfirhöfuð alls ekki að mæla neitt heldur virka sem einhvers konar spennandi áhugahvöt?

 

Ég held að borgi sig að fara sér hægt. Hver veit nema spjöldin þyki jafn hallærisleg og slædsmyndir þykja nú, eftir áratug. Hver veit nema Vefurinn fyllist svo af óábyggilegu rusli að ekki einu sinni Gúgull frændi finni réttu svörin eftir nokkur ár. Hver veit nema Gúgull sjálfur deyi drottni sínum, eins og Altavista sáluga eða IRC-ið o.s.fr.

 

Ég sé sem sagt ekki ástæðu til að umbylta skólastarfi bara af því menn hafa eignast nýjar græjur. Á hinn bóginn finnst mér lofsvert hve menn eru duglegir að prófa þessar nýju græjur í kennslu og fara nýjar leiðir að markinu. Öll tilraunaverkefni kennara eru af hinu góða því hafi kennarinn áhuga á því sem hann er að gera (t.d. prófa eitthvað nýtt) þá skilar það sér í betri kennslu. Tilraunir í kennslu hafa nefnilega sams konar lyfleysuáhrif og þau frægu þunglyndislyf. Og um þetta gildir hið sama: Þegar verið er að meta árangurinn verður að hafa lyfleysuáhrifin í huga.