Category Archives: Bækur

Lífsmörk

Narcissus

Narcissus

Á dögunum las ég bók Ara Jóhannessonar, Lífsmörk, og þótti hún mikil ágætissaga. Þeir fáu sem ég hef talað við um bókina eru líka hrifnir en svo virðist sem mismunandi þættir hennar falli mismunandi fólki í geð; Sumum líkar kaldhæðnisleg og raunsæ lýsing á álaginu á spítalanum, þar sem aðalpersónan er svæfingarlæknir, sumum annað … það lesa sem sagt ekki allir bókina á sama hátt. Og einhvers staðar las ég (sjálfsagt í ritdómi) að vendipunkturinn í sögunni væri ansi ótrúlegur. Raunsætt séð er hann það en ég get ekki séð að hægt hefði verið að kúvenda aðstæðum aðalpersónunnar Sölva á algerlega raunsæjan máta, hvað þá þannig að sú kúvending gerði það að verkum að Sölvi næði að einhverju leyti áttum, miðað við hvers lags manngerð hann er.

Ég gat ekki varist þeirri hugsun að þetta væri lykilróman, að aðalpersónan væri byggð á ákveðnum manni. Inn á milli datt mér þó í hug að þetta væri vitleysa, akkúrat þessi manngerð í akkúrat  þessu umhverfi væri kannski ekki sjaldgæf. Svo fannst mér aftur að þetta væri um mann sem ég kannaðist við.

Það var gaman að þekkja sumt sögusviðið vel: Sölvi elst upp í Laugardal, pabbi hans er grár og gugginn kennari (Héraðsskólanum og Menntaskólanum er dálítið slegið saman í sögunni og ekki auðvelt að átta sig á í hvorum skólanum pabbinn kenndi dönsku) og hjólhýsahverfinu (sem stundum var kallað sígaunahverfið ef ég man rétt) eru gerð prýðileg skil.

Þema sögunnar er hybris (ofmetnaður). Gulldrengurinn, Sölvi súper, læknirinn sem tekur allar aukavaktirnar, til að vera ómissandi og baða sig í aðdáun annarra,  til að halda uppi almennilegum lífsstandard í flotta einbýlishúsinu í Garðabæ, sem á réttu eiginkonuna, flottu börnin, stundar rétta heilsusamlega lífstílinn (hlaup) og er sá vinælasti og klárasti á deildinni sinni  er náttúrlega að fara með sig á þessu: Dramb er falli næst. Og fall hans er hátt.

Fallið kemur samt ekki svo mjög við Sölva til að byrja með. Kannski er það vegna þess að þótt hann missi allt, læknisleyfið, familíuna, flotta húsið, flotta bílinn og fínu fjölskylduvinina (sem eru jafninnantómir og hann sjálfir) þá hefur það ótrúlega lítil áhrif á hann vegna þess að í grunninn elskar hann engan nema sig sjálfan: Stóra ástin í lífi Sölva er Sölvi sjálfur. Sá eini sem Sölvi dáist að er Sölvi sjálfur þótt hann hafi auðvitað verið mjög þurfandi fyrir aðdáun allra í kringum sig einnig. Vinnufélaginn Andrés, sem einn kolleganna heldur sambandi við Sölva eftir fallið mikla miðlar það mikið af (takmarkaðri) þekkingu sinni á geðlæknisfræðum að það verður að líta á hann sem málpípu höfundar, sem er kannski óþarfi því hafi lesandi ekki kveikt á því að Sölvi er haldinn narsissíkri persónuleikaröskun á háu stigi þegar hér er komið sögu er ólíklegt að sá lesandi sé bættari með útlistunum Andrésar.

Nú veit ég ekki hvort mögulegt er að fólki með narsissíska persónuleikaröskun batni einhvern tíma. En í lok bókarinnar er gefið í skyn að Sölvi hafi á endanum lært eitthvað sem gæti orðið honum til bjargar, sem gæti gert líf hans að einhverju leyti innihaldsríkt en ekki bara innantóma sýndarmennsku, jafnvel gert honum kleift að vera ekki nákvæmlega sama um aðra en sig.

Þeim sem ekki hugnast pælingar um  tómleika hins fullkomlega sjálfhverfa manns er bent á að lesa bókina sem táknsögu um veltiárin og hrunið 😉

 

Hún varð feit og rjóð og fríkkaði mikið

Afdalabarn

Ég er nýbúin að lesa Afdalabarn eftir Guðrúnu frá Lundi, skemmtilega sögu sem ég er viss um að margir hafa gaman að. En þessi færsla er ekki ritdómur um bókina heldur ábending um hvernig smekkur manna á holdafari og fegurð hefur mjög breyst, eiginlega snúist við, sem sjá má af dæmunum hér á eftir. Það er óljóst hvenær Afdalabarn á að gerast en giska má á snemma á tuttugustu öld, kannski best að tímasetja hana eftir því hvenær gúmmístígvél urðu föl hérlendis.

María er móðir afdalabarnsins, einstaklega fögur stúlka þá hún fór út í heim, eða öllu heldur úr afdalnum, en þegar hún snýr aftur er annað upp á teningnum:

Svo kom María heim. [- – -] Svo fór hún [móðir Maríu] að virða hana fyrir sér – ósköp hafði hún breyst mikið. Kafrjóða, feita heimasætan var orðin grannvaxin, föl og tekin fullorðin kona.
(s. 16.)

Unglingsstúlkan Bogga er ráðin sem barnfóstra í heiðarbýlið þar sem aðalpersónurnar búa. Henni er lýst svo:

Stelpan var skinhoraður gopi sem Hannes gat tæplega vænst mikils af […]
(s. 28.)

Enda segir Beta, móðir húsfreyju í afdalakotinu, um Boggu:

„Þú færð að vita af því að fæða hana. Þetta fær náttúrlega aldrei í sig, þessir krakkaangar þarna í Holti. Þetta er líka meiri horinn á barninu.“
(s. 29.)

En þrátt yfir horinn stendur Bogga sig vel í vistinni og braggast dag frá degi:

Þvílíkan ungling höfðu þau aldrei þekkt. Þeim var mikil ánægja að því hvað hún tók miklum framförum hvað útlit snerti. Hún varð feit og rjóð og fríkkaði mikið.
(s. 30-31.)

Það er aftur á móti verra með ungu vinnustúlkuna á sýslumannsheimilinu, hana Lilju:

Hannes [sýslumanni] hafði alltaf hryllt við þessu vesalings barni vegna þess hve hún var föl og fjörlaus. Taldi hann hana sjálfsagt herfang tæringarinnar fyrst báðar systur hans, sem voru feitar og blómlegar og aldar upp í allsnægtum, urðu þessum voðasjúkdómi að bráð [- – -] en kona hans bjóst við að útlit hennar stafaði af inniveru og hreyfingarleysi.
(s. 98.)

Ég deili algerlega skoðunum Guðrúnar frá Lundi á fegurð og fönguleika. Þess vegna hef ég gert ítrekaðar tilraunir til að innbyrða 3000 kaloríur á dag en það er ekki auðvelt verk, ekki einu sinni þótt maður sparsli nokkrum Snickers í matseðil dagsins. Líklega er afdalafæði lausnin á mínum lífsstílsvanda. Hvar er boðið upp á lífsstílsleiðréttingu í afdölum nútildags?

 

Rugl um rafbækur

Titillinn “Rugl bókaútgefanda og framkvæmdarstjóra Rithöfundasambandsins” er of langur en það er umfjöllunarefni færslunnar.

 

Í gær var haft eftir Kristjáni B. Jónassyni, útgefanda hjá Crymogeu: “Það er alltof dýrt að gefa út rafbækur fyrir markað sem hefur í raun engan áhuga á þeim enn sem komið er.” (Fáar nýjar rafbækur um jólin. Morgunblaðið 8. nóv. 2013, s. 9.) Hvernig Kristján þessi veit að “markaðurinn” hafi engan áhuga á rafbókum er ofar mínum skilningi: Hefur hann kannað þetta? Vissulega er lítil sala í íslenskum rafbókum en augljósustu skýringarnar á því eru tvær:

1. Það eru afskaplega fáar íslenskar bækur gefnar út á rafbókaformi;

2. Í mörgum tilvikum er rafbókaútgáfu á Íslandi svo háttað að það er verulegt vesen að lesa þær, jafnvel ómögulegt.

 

Íslenskir bókaútgefendur eru svo þjófhræddir að jaðrar við þráhyggju þegar kemur að rafbókum. Þeir virðast ímynda sér að sé bók aðgengileg á tölvutæku formi muni henni dreift ólöglega skefjalaust og enginn maður kaupa hana. Þess vegna er allt kapp lagt á að gera rafbækur svo þjófheldar að þær eru jafnvel ólesanlegar með öllu – og svo dregin sú ályktun að “markaðurinn” hafi ekki áhuga á þeim. Líklega er það rétt ályktun, t.d. hefði ég (er ég markaður?) ekki áhuga á að kaupa mér reiðhjól sem væri það vel læst að ég gæti alls ekki hjólað á því eða vellæsta þvottavél sem ekki væri hægt að þvo í o.s.fr. Verulega þjófhræddir reiðhjólasalar og þvottavélasalar myndu svo draga þá ályktun að markaðurinn hefði ekki áhuga á þessum tækjum.

 

Í mínum kunningjahópi heyrði ég um daginn af viðskiptum við íslenska bókabúð: Viðkomandi keypti enska rafbók hjá þessari búð en gat alls ekki opnað skrána. Eftir að hafa fengið “lagaða skrá” senda nokkrum sinnum, án þess að geta opnað hana í sínu spjaldi gafst viðkomandi upp, keypti sömu bókina hjá Amazon og las þá útgáfu án vandkvæða. Ég reikna ekki með að þessi kúnni verði áhugasamur markaður í skilningi íslenskra bókaútgefenda á rafbókaútgáfu á Íslandi.

 

Í Morgunblaðinu í dag (Tvær rafbókaveitur væntanlegar, 9. nóv. 2013, s. 19) er enn meira rugl þjófhræddra hagsmunaaðila bókaútgáfu að finna. Steininn tekur úr í ummælum Ragnheiðar Tryggvadóttur, framkvæmdastjóra Rithöfundasambandsins, sem segir:

‘“Við þurfum að vanda okkur. Passa að efnið flæði ekki óheft, þá erum við búin að tapa baráttunni,” segir Ragnheiður. Í þessu samhengi vísar hún til Svíþjóðar þar sem rafbækur voru lánaðar út á bókasöfnum sem ekki voru afritunarvarðar. Eftir það seldist ekki rafbók.’

 

Ég hef skipt við sænskt rafbókasafn í 2-3 ár, í gegnum bóksafn Norræna hússins. Á sama árabili hef ég keypt svolítið af sænskum rafbókum gegnum dito.se og sé ekki betur en úrvalið þar sé ágætt. Á ég að álykta, af orðum Ragnheiðar, að einu kúnnarnir séu utan Svíþjóðar og að dito.se riggi upp tíu nýjum titlum á viku bara fyrir mig og örfáa aðra útlendinga sem kaupi sænskar rafbækur? Af því rafbækur seljast ekki í Svíþjóð af því bókasöfn þarlendis lána út rafbækur?

Æ fleiri dönsk bókasöfn lána rafbækur (því miður hafa Íslendingar ekki aðgang að þeim). Dönskum rafbókaverslunum fjölgar stöðugt á sama tíma, þetta veit ég því ég skipti reglulega við a.m.k. fjórar þeirra. Nýverið jók bog.nu við þjónustuna með því að birta verðsamanburð á rafbókum einnig svo það er handhægt og fljótlegt að finna út hvar hver rafbók er ódýrust.

Ég les í Kindli og þarf oftast að umbreyta skrám sem ég kaupi eða fæ lánaðar í Skandinavíu (frændur vorir eru enn á epub-stiginu, alveg eins og íslenskir bókaútgefendur). En það er æ fátíðara að skrárnar séu læstar (með DRM-vörn), núorðið láta flestir skandinavískir bókaútgefendur duga að vatnsmerkja eintökin svo þau séu rekjanleg til kaupanda ef þau skyldu dúkka upp á torrent-síðum. (Og í þessu samband má einnig geta þess að það er sárasjaldgæft að rekast á rafbók á skandinavísku máli á svoleiðis síðum svo vilji brotamanna á þessu sviði er ekki í samræmi við þjófhræðslu íslenskra bókaútgefenda og framkvæmdastjóra Rithöfundasambandsins.)

Mér finnst, sem íslenskufræðingi, frekar leiðinlegt að ég skuli lesa æ minna á íslensku. Á þessu heimili eru líklega til hátt í 1000 bækur á pappír og við hjónin eru sammála um að eignast frekar bækur í okkar Kindla, bæði til að grynna á bókaflóðinu og vegna þess að það er miklu þægilegra að lesa í Kindli en á pappír (þótt ekki væri nema til að stækka letrið … á kvöldin þegar ellifjarsýnin gerir vart við sig). Viðhorf íslenskra bókaútgefenda og forsvarsmanns Rithöfundasambandins benda til þess að innan fárra ára lesi ég ekkert á íslensku nema kannski mogga mannsins sem dettur inn um bréfalúgu heimilisins oft í viku.

 

 

 

 

 

Spinalonga og morð

Svo ég vendi kvæði mínu strax í kross frá fyrirsögninni þá fór ég á bókasafnið áðan til að vita hvort þangað hefði borist bókin Hælið eftir Hermann Stefánsson. Enginn hafði heyrt á hana minnst og bókaverðir fengu upp það sama og ég í Gegni, nefnilega að ekkert bókasafn á þessa bók. (Og heldur ekki þessa eftir okkar nýja ágæta bæjarlistamann sem er með í 1005 hollinu, a.m.k. minnir mig að þetta sé talan 1005 sem heiti tímarits hefst á …)  Af prinsippástæðum kaupi ég bókina ekki sem rafbók, ég kaupi nefnilega ekki íslenska rafbók á höfundaréttarvörðu epub-formi fyrir 2.500 kr. til þess að þurfa svo að brjóta hana upp og konvertera til að geta lesið hana á mínum Kindli

En prinsipp eru náttúrlega til að brjóta þau svo ég upplýsi að ég var í þessu að fjárfesta í Polis eftir Nesbø, á sænsku reyndar. Hún var að vísu ólæst en auðvitað epub-skrá. Ég þarf nefnilega að vita hvort Harry Hole hjarir enn eftir að hafa verið skotinn í tætlur og rotta byrjuð að gæða sé á honum (líkinu) í lok síðustu bókar … það þarf væntanlega sterk bein til að vakna aftur til lífsins eftir svoleiðis trakteringar. 

Er nýbúin að lesa nýjustu bók Kristinar Ohlsson, Davidsstjärnor. Hún er helv. góð eins og hinar bækurnar hennar. Yfirleitt er ég svona tveimur þremur bókum á undan íslensku þýðingunum á skandinavískum reyfurum … get upplýst að Marco effekten hans Jussi Adler-Olsen er fantagóð en hef gefist upp á Mons Kallentoft, alkóhólískir órar hinnar skyggnu lögreglukonu eru orðnir of fyrirferðarmiklir.

Svo potast ég hægt og bítandi gegnum The Island eftir Victoriu Hislop. Þetta var metsölubók fyrir nokkrum árum, hefur verið þýdd á Norðurlandamálin nema íslensku. Eiginlega nenni ég alls ekki að klára hana en af því ég hef ákveðið að heimsækja Spinalonga (gríska nafnið er Kalydon), pínupons-eyju fast við Krít, í sumar verð ég náttúrlega að klára söguna frægu sem gerist akkúrat þarna. Á Spinalonga voru holdsveikir geymdir fram til 1957 en eyjan er nú óbyggð.

Til mótvægis við morðin og holdsveikrarómantíkina hef ég Ritið og TMM og Skírni og Sögu. Er búin að lesa nýjustu heftin af þeim þremur síðasttöldu og langt komin með að lesa um ýmsar tegundir af minni í Ritinu. Og svo les ég prjónauppskriftir lon og don af stakri ánægju. Verst að ég er of fljót að lesa, annars gæti ég lesið prjónandi. (Þarf að fletta svo hratt að það er ekki vinnandi vegur að prjóna á meðan.) Er á útkikki eftir prjónastykkjum sem eru einföld, helst fljótleg og ekki ljót. Þetta fer ekki vel saman svo það þarf að leita vel. Veðrið er mér einkar hliðhollt í þessu bardúsi.

Náttúrlega skanna ég helstu vefmiðla og blogg daglega en yfirleitt ristir þetta svo grunnt að tíu mínútur með morgunkaffinu duga prýðilega í svoleiðis lestur. Ég hef samt gaman af því að sjá hvernig fólk getur trompast yfir fegurðarsamkeppni einn daginn, lögheimilisflutningi Dorritar næsta dag … og fylgist grannt með rómantíseríngu tossanna, mikil ósköp 😉

Ósjálfrátt

hefur sagan Ósjálfrátt eftir Auði Jónsdóttur verið mér ofarlega í hug frá því ég kláraði hana um síðustu helgi. Ég heillaðist gersamlega af þessari bók og horfði með angist á ólesnum síðunum fækka og fækka … þetta er ein þeirra bóka sem maður óskar sér að klárist aldrei.

   

Nú fylgist ég ekki mikið með umfjöllun um bækur, vil frekar lesa þær sjálf og mynda mér skoðun á þeim. En ég hef það á tilfinningunni að því hafi einkum verið hampað að Ósjálfrátt fjallaði um hvernig skáld verður til, hvernig bók eða rithöfundur fæðist. Vissulega fjallar hún um það en kannski mætti frekar segja að bókin fjallaði um gildi þess að skrifa, hvað það er sem gerir skrif eftirsóknarverð og frelsandi. Fólk sem venur sig á skriftir kannast mætavel við þetta, maður þarf ekki að vera skáld til þess, maður þarf ekki einu sinni lesanda því skrifin ein og sér gera öllum gott. Fáar konur hafa þó reynsluna af því að skrifa í sig barn eins og Eyja :)

Í Ósjálfrátt býr svo ótal margt. Það sem höfðaði fyrst og fremst til mín, fyrir utan aðalersónuna, var lýsingin á fjölskyldu Eyju og lýsingin á alkóhólisma; alkóhólistum og áhrifum  sjúkdómsins á alla þá sem lifa og hrærast kringum alkann. Oft á tíðum er lýst kaldranalegum aðstæðum og nöprum uppákomum en frásögnin litast ævinlega af hlýju og húmorinn er ekki langt undan. Það er undirstrikað rækilega að lífið er ekki svarthvítt, að ekki er hægt að skipta fólki í sökudólga og fórnarlömb, að hver er sinna gæfu smiður en er jafnframt háður því umhverfi sem hann hrærist í og erfðum.

Í mínum huga er Ósjálfrátt saga um konur. Hún er sagan af Eyju, systur hennar, móður hennar og ömmu, meira að segja langmæðgur koma við sögu, og sagan af konunum í kringum þær. Þessar konur hafa sína galla enda af holdi og blóði en kostirnir yfirskyggja gallana. Örlög og líf þessara kvenna fléttast í rúmi og tíma. Sífellt tímaflakk í bókinni kemur ekki að sök heldur virkaði fullkomlega eðlilegt, hvort sem um var að ræða endurlit eða kafla sem gerðist í framtíð aðalsögutímans.

Það hvarflaði reyndar að mér við lesturinn að einhverjir myndu hvorki skilja haus né sporð í þessari frásögn. Ég held að til þess að skilja Ósjálfrátt þurfi að hafa einhverja svipaða upplifun og þær sem bókin lýsir en það kann auðvitað að vera minn misskilningur.  Aðalatriðið er að ég get glaðst yfir að hafa fengið tækifæri til að lesa svona frábæra bók sem situr eftir í huga mér og fyllir mig hlýju. 
 
 

Dagurinn, femínistinn og bækurnar

Jósef�na öskrarÉg vaknaði við að femínisti heimilsins stóð á öskrunum við rúmstokkinn. Sennilega hefur hún staðið lengi á öskrunum því hún er femínín femínisti og heyrist lágt í henni … samt sætir hún þöggun og jafnvel út-skúfun (fer ekki nánar út í það á opinberu bloggi). Þegar ég loksins hafði mig framúr og bjóst til að bursta tennur blasti ástæðan fyrir felmtri femínistans við: Hinn einbeitti innbrotsköttur Kuskur hreiðraði um sig í baðherbergisvaskinum, sæll og glaður og síbrotalegur á svip. Ég henti honum út og róaði femínistann.

Eftir að hafa stungið út úr nokkrum kaffibollum og lesið moggann (mannsins) var kominn tími á bloggrúntinn. Blessunarlega höfðu mínir uppáhaldsbloggarar skrifað sitt lítið af hvurju, þær Vilborg og Gurrí og Eva. Ég hafði raunar lesið færslu Evu kvöldið áður og skemmt mér ágætlega við að horfa á prinsessuvídjóið, skemmti mér við að horfa á það aftur í morgun; og ég las líka færslu Gurríar í gærkvöld en það mátti alveg lesa hana aftur enda er ég eins og venjulega sammála Gurrí (deili reynsluheimi með henni) og bæti hér með við að það að hluti Flatus-lifir-veggjarins hafi fokið hefur einnegin verið þaggað niður.

Svo var að kynna sér hvernig pólitískt réttir vindar blésu í dag. Aðalhitamálið virtist vera barnabækur, bleikar og bláar, alveg eins og í gær, og virðist stutt þar til blásið verður til bókabrenna (eins og systursamtök femínísta iðkuðu í henni Amríku á níunda áratugnum).

Ég valdi “sumur [er sæll] af verkum vel” úr sæluboðorðum Hávamála fyrir daginn í dag (þetta eru ágæt geðorð, ekki verri en hver önnur) og bjó manni mínum fagurt heimili = sinnti helgarþrifum. Á meðan reikaði hugurinn þægilega til barnæsku minnar og þeirra bóka sem ég las. Valið var einfalt: Ég las lestrarfélagsbækurnar. Bækurnar komust fyrir í einu herbergi og ég hafði aðgang að lyklinum.  Á norðurhjara landsins var ekki búið að finna upp uppeldi skv. kenningum þegar ég var krakki –  bæði er langt síðan og sveitin afskekkt. Þess vegna las ég Nonnabækurnar og Percy hinn ósigrandi, Kapítólu og Karlsen stýrimann, rauðu telpnabækurnar og bláu drengjabækurnar, Tópelíuz og Tamin til kosta, Fornaldarsögur Norðurlanda og Freuchen o.s.fr. Ég man að mér var bannað að lesa Gleðisögur Balzacs og þess vegna las ég þá bók einkar vandlega … þótti hún mjög leiðinleg.  Sömuleiðis var mömmu eitthvað illa við að ég læsi Tígulgosann … þess vegna las ég Tígulgosann innan í Æskunni en því miður komst það upp. Það komst líka upp að ég faldi bækur undir rúmi þegar gerð var tilraun til að skammta mér bækur á viku vegna þess að í gildi var sú norðlenska uppeldisaðferð að börn ættu að vera úti og ekki liggja alltaf í bókum því þá yrðu þau eins og hundaskítur í framan. (Ég hef mömmu grunaða um að hafa viljað losna við krakkana smástund á hverjum degi og upplagt að láta mig passa því ég var elst fremur en hún hafi raunverulega trúað þessari hundaskítshúðlitarkenningu … árangurinn var sá að ég fékk algera andúð á útivist og krökkum og var sérlega vond við yngri systkini mín. Og faldi bækur.)

Velti því svo fyrir mér hvort synir mínir hefðu beðið skaða af því að fyrir þá var lesinn allskonar pólitískt rangur barnalitteratúr, s.s. Litli svarti Sambó og Tíu litlir negrastrákar og Tinni og Enid Blyton komplett … ég man ekki einu sinni eftir öllum óhroðanum til að telja upp. Held þeir hafi sloppið fyrir horn sálarlega séð. Og það eina pólitískt rétta í þeirra uppeldi sem ég man eftir var þegar leikskóli eldri stráksins skar upp herör gegn vopnakyns leikföngum. Einn daginn sagði krakkinn hróðugur þegar pabbi hans sótti hann á leikskólann: “Við erum búnir að skjóta allar stelpurnar í dag!” Þá höfðu þeir notað sleifar til verksins, blessaðir drengirnir í bófahasarnum … Það rættist eigi að síður úr syninum og hann heldur sig örugglega réttu megin við lögin í dag, fullorðinn.

Við erum hugmyndafræðileg gauð hér á þessu heimili, fyrir utan femínista heimilisins en mynd af henni skreytir þessa færslu. Auk femínisma leggur hún stund á mannfræði og kveðskap, s.s. sést á þessari gömlu vísu:

Ég er fagur femínisti og fer á kostum;
malandi læt rímið renna;
og raula fyrir málstað kvenna.

Fock, litíum og fréttir dagsins

Þetta er svona sittafhverjutæi-færsla. Ég ætti að gera meira af því að skrifa svoleiðis, mér finnst það gaman og slakandi.

Útsaumað bréf Mettu FockÉg var að klára bókina Mercurium eftir Anne Rosman. Einhverra hluta vegna hélt ég lengi vel að mercurium væri kvikasilfur en í eftirmála kom fram að það hefði verið notað um arsenik (sem gerði söguþráðinn auðvitað mun skiljanlegri). Ein bók Rosman hefur verið þýdd á íslensku, þ.e. Dóttir vitavarðarins. Ég fékk rafbókina Mercurium lánaða í sænsku rafbóksafni en ætla mér að kaupa fleiri rafbækur eftir Anne Rosman, á dönsku (sem mér finnst þægilegra að lesa en sænsku).

Mercurium er að hluta morðsaga en sú saga er ekki sérlega áhugaverð og raunar var mér slétt sama um hver var morðinginn … kom þó gleðilega á óvart að það var sá sem lesandi grunaði síst. Aðalsagan er saga Mettu Fock og gerist í byrjun 19. aldar. Metta þessi var aðalborin en giftist einfeldingi og þurfti að vinna hörðum höndum að kotbúskap því karlinn var gagnslaus. Hún missti tvö börn og síðan eiginmanninn. Sögur komust á kreik um að Metta hefði eitrað fyrir þeim með arseniki, magnaðist söguburðurinn æ meir og loks var hún hneppt í fangelsi. Í fangelsinu átti Metta illa ævi og á endanum játaði hún á sig morðin og var líflátin þótt í Mercurium sé tekin eindregin afstaða með því að hún hafi verið saklaus.

Metta reyndi að reka sitt mál úr fangelsinu en svo fór að hún var svipt pappír og skriffærum og höfð í algerri einangrun. Þá greip hún til þess ráðs að sauma saman pjötlur úr eigin klæðum og bróderaði langt bænarbréf til yfirvalda og bað um endurupptöku málsins. Bútur úr þessu bréf sést í upphafi færslunnar, sé smellt á litlu myndina opnast síða Norræna safnsins í Svíþjóð með mynd af bréfinu bróderaða og má stækka einstaka hluta hennar. Mér finnst hugmyndaauðgi Mettu aðdáunarverð og hannyrðahæfileikar hennar líka! Því miður kom þetta að litlu haldi.

Sænskur trúbadúr, Stefan Andersson, hefur samið ballöðu um Mettu Fock. Hér er Youtube myndband af flutningi hans og hér er textinn. Ég er náttúrlega hugfangin af þessari ballöðu í svipinn, nýbúin að lesa þessa ágætu bók.

Sem stendur er ég að lesa gegnum eigið blogg, er stödd síðsumars 2006. Sumt er ótrúlega fyndið en á heildina er þetta átakanlegur lestur. Þegar ég ber saman blogg og sjúkraskýrslur verður mér æ ljósara að þetta er saga um trúgirni og afneitun, sem sagt ekki skemmtileg saga. Á hinn bóginn mun ég aldrei verða frísk nema ég kanni þessa sögu ofan í kjölinn og nái fjarlægð frá henni: Þetta er fyrstasporsvinna þunglyndissjúklings. Líklega er skynsamlegt að vinna hana hægt … en bítandi.

Ég rakst á ýmis gullkorn um lítíum í dag. Litarexi var haldið stíft að mér árum saman, rökin voru fyrst þau að lítíum stillti sveiflur og mundi þ.a.l. koma í veg fyrir djúpar þunglyndisdýfur, a.m.k. grynnka þær, seinna urðu rökin þau að ég gæti verið með geðhvarfasýki II … fyrir þeirri sjúkdómsgreiningu voru engin haldbær rök og svo var bakkað með hana enda grunar mig að geðhvarfasýki II greining hafi bara verið almennt tískufyrirbrigði á tímabili. Litarex hafði aldrei nein áhrif til bóta og miðað við fræði Joanna Montcrieff sé ég ekki betur en ég hafi verið með snert af lítíum-eitun árum saman. Má nefna þetta:

Það rifjaðist upp fyrir mér að fyrir nokkrum árum, þá ég át Litíum, kvartaði ég yfir skjálftanum við minn góða lækni. Honum þótti þetta nú heldur léttvægur skjálfti þegar ég teygði út hendurnar fyrir hann. Fólk hefur sjálfsagt mismunandi skoðanir á skjálfta … en sjálfri finnst mér helv. óþægilegt að skjálfa eins og eftir þriggja daga fyllerí, að geta ekki handskrifað, að spila eins og byrjandi á pjanófortið og eiga jafnvel erfitt með að nota lyklaborð. Kann að vera að svona “nettur” skjálfti hái konum lítið ef þær konur eru einungis í húsverkum (mér finnst samt erfitt að klemma þvott á snúrur og missti faktískt aðra hverja klemmuna í morgun) – kann að vera að til sé fólk sem skelfur miklu meira og tekur því með stöku æðruleysi – en þessi bloggynja þjáist hvorki af æðruleysi í óhófi né skorti á hobbíum eða vitsmunalegri störfum en ræstingu og þvotti (nú loksins þegar vitið er að skila sér svona soldið til baka).

Hm … það mætti kannski afsaka þetta með fyrirtíðarspennu, stöðu himintungla eða öðru tilfallandi … en ég sé ekki betur sjálf en þetta sé helv. lítíumið! Nú hef ég leikið samtal við minn góða lækni og veit að hann mundi annars vegar segja mér að gefa þessu lengri tíma, upp á að aukaverkanir réni með tímanum, og hins vegar ráðleggja mér að taka Rivotril til að slá á skjálftann ef á þarf að halda. Svo myndi hann benda á að í rauninni teldist þetta nú ekki mikill skjálfti … og ég mundi fyrtast við en segja ekki neitt af því ég kann mig svo vel … Svo mundi hann segja mér líka að þéttni Litíums í blóðtökunni í morgun væri í minnsta lagi miðað við þau millimól sem æskileg þykja og ég myndi heldur ekki segja neitt við því heldur horfa veluppalin á ‘ann.
(9. júní 2006.)

Skv. doktor.is er ég aumingi með örsjaldgæfar aukaverkanir, þar segir um Litarex: “Algengast er að aukaverkanir komi fram í upphafi meðferðar en hverfi síðan af sjálfu sér. … Algengar: Ógleði, niðurgangur, tíð þvaglát, þorsti og bjúgsöfnun í líkamanum með meðfylgjandi þyngdaraukningu, þreytutilfinning í höndum og fótum. Sumir verða skjálfhentir.”
Aha, svo “sumir verða skjálfhentir”? Ég skelf öll, er nánast með munnherkjur af skjálfta, gott ef ég gæti ekki talist skjálf-fætt! Sé ekki að þetta sé mikið að lagast eftir tveggja vikna lítíum-át.

[- – -]

Nú veit ég ekki hvort björgunarhringurinn um mittið á mér er “bjúgsöfnun með meðfylgjandi þyngdaraukningu” eða út af “aukinni matarlyst og þyngdaraukningu”. Mér er reyndar slétt sama um þetta, það eina sem plagar mig verulega er helvítis skjálftinn, sem ég slæ á með róandi, sem gerir mig svo rólega að ég koðna öll niður og leggst í bælið um hábjartan daginn (reyndar hefur viðrað einkar vel til miðdegisblunda hér á suðvestur-horninu undanfarið). Úr því þessi skjálfti er svona hroðalega sjaldgæfur þá er þessi bloggynja sennilega einfaldlega svona mikill aumingi. Í mínum huga skiptir ekki máli hvort skýringin er rétt, þetta er jafn óþægilegt fyrir það.
(15. júní 2006.)

— 

Fréttir dagsins komu nokkuð á óvart, þ.e.a.s. fréttir af því að bæjarstjórnin hefði sagt upp okkar góða bæjarstjóra. Skýringin sem hann gefur sjálfur er að einhverjir bæjarfulltrúar hafi verið orðnir leiðir á honum og hann á þeim, tekið fram að ekki sé um forustumenn bæjarins að ræða (sem núllar þá út Svein Kristinsson og eitthvað af samfylkingarliðinu, reikna ég með). Mér þætti gaman að vita hvað hefur eiginlega gengið á: valtaði bæjarstjórinn yfir rangan mann í rangri stöðu í þetta sinn?

Að lesa um sjálfa sig

Ég er næstum búin að lesa Pillret, sænska bók sem ég hef áður minnst á og fjallar um sjúkdómsgreiningar þunglyndis- og kvíða og lyfjameðferð í sögulegu ljósi (og raunar margt margt fleira). Höfundurinn Ingrid Carlberg hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir þessa bók.

Söguleg og fræðileg umfjöllun er brotin upp af lífreynslusögum og í gærkvöldi las ég söguna Annika och tröttheten. Mér brá nokkuð við þennan lestur því þótt aðstæður Anniku hafi verið ólíkar mínum var upphaf veikinda og meðferðin sem henni var veitt kannski ekkert svo ólíkt. Saga Anniku endaði vel en mér finnst lítið hafa ræst úr minni, vonast þó til þess að ná bata með tíð og tíma.

Þetta byrjaði allt með því að Annika var örmagna af svefnleysi. Hún var einstæð móðir tveggja barna og yngra barnið með viðvarandi magakrampa vegna mjólkuróþols og óþols fyrir fleiri fæðutegundum. Þegar hún loksins leitaði á náðir heilsugæslunnar í febrúarbyrjun, eftir að hafa ekki fengið nægan svefn í meir en hálft ár, fékk hún viðtal við læknanema sem taldi hana mögulega geta verið þunglynda: Þunglyndi lýsti sér ekkert endilega í að vera niðurdregin heldur gæti komið út sem svefnleysi og að grennast, sagði læknaneminn. Annika svaf lítið og hafði grennst töluvert. Hún fékk í kjölfarið viðtal við geðlækni sem ávísaði þunglyndislyfi. Þunglyndislyfið kveikti mikinn almennan kvíða og ofsakvíðaköst. Svo Annika fékk róandi lyf við kvíðanum. En henni leið bölvanlega og hvað eftir annað leitaði hún á náðir heilsugæslu og bráðamóttöku geðsviðs á næstu vikum og mánuðum. Annika tók eftir því að nú var lítið hlustað á það sem hún hafði að segja, allt var skrifað á geðheilsu hennar, meira að segja verkir í kinnholum.

Annika byrjaði að trappa niður þunglyndislyfið í samráði við heilsugæslulækni. Þá snarversnaði henni og hún var lögð inn á geðdeild, fært í sjúkraskrá að hún þyrfti líkast til sterkari geðlyf til að ráða bót á slæmu þunglyndi. Þáverandi þunglyndislyf var trappað út og Annika sett á nýtt lyf, við útskrift var skammturinn tvöfaldaður og Annika fékk áfram róandi lyf og nú svefnlyf að auki. Hún fékk líka sjúkdómsgreiningu við útskrift: F 322 Djúp geðlægð án sturlunareinkenna.

Viku síðar margfaldaðist kvíðinn. Annika reyndi næstu mánuði að benda á að sér versnaði bara af nýja lyfinu: “I februari, när jag första gången fick medicinen, uppfyllde jag inte ett enda symtom för depression. Nu kunde jag kryssa i nåstan alla rutorna i diagnosskalorna.” Og sjálfsvígshuganir urðu æ áleitnari. Á tímabili var hún í daglegu sambandi við yfirlækni geðdeildarinnar.

Snemma í júlí leitaði Annika enn einn ganginn á bráðamóttöku og talaði við óbreyttan lækni. Sá listaði upp lyfin sem hún var nú á, allar tólf sortirnar: Meirhlutinn var geðlyf en þremur tegundir af verkjalyfjum hafði einnig verið ávísað vegna lið-og vöðvaverkja. Yfirmaður hins óbreytta bókaði í sjúkraskrá að líðan Anniku stafaði af  aukaverkunum af lyfjum og ákveðið var að trappa lyfin ansi hratt niður.

Laust eftir miðjan júlí var Annika hætt á þunglyndislyfjunum. En svona hraðri niðurtröppun fylgdi skelfilegt fráhvarf, t.d. martraðir, kvíði, óþægindi í öllum skrokknum og tilfinning eins og rafstuð í höfði. Annika fór að velta fyrir sér hvort hún væri með heilaæxli og henni fannst að legið væri að detta úr sér. Svo hún leitaði til læknis.

Í sjúkraskrá var bókað að Annika væri illa haldin af þunglyndi og hefði ranghugmyndir sem minntu á geðrof, því til sönnunar bókuð absúrd hugmyndin um legið. Og Annika var aftur lögð inn á geðdeild.

Skv. sjúkraskrá bað hún sjálf um “nýtt kraftaverkalyf”. Yfirlæknirinn sem hafði sinnt henni síðast taldi Anniku nú hafa persónuleikaröskun auk svæsins þunglyndis. Hann velti fyrir sér að setja hana á enn sterkari lyf en ákvað á síðustu stundu að reyna fremur raflækningar.

Raflækningarnar reyndust hafa mjög góð áhrif og “hin gamla Annika” leit aftur dagsins ljós. Hún náði aftur tökum á eigin lífi.

Í viðtölum við Ingrid Carlberg kemur fram að Annika leitaði aftur til læknanna eftir að henni batnaði í leit að skýringum eða afsökunarbeiðni. Yfirlæknirinn á geðdeildinni sagði henni þá að sín skoðun hefði verið að fjórfalda ætti lyfjaskammtinn, að vandinn hefði falist í því að hún tók of lítið af lyfjum. Að auki talaði hann um vandræði fólks sem gerði of miklar kröfur til sjálfs síns (en hann hafði bókað svolítið um hve krefjandi starfi Annika sinnti og að hún gerði of miklar kröfur til sín í starfi).

Annika snéri aftur til starfa, í sitt “intellektuellt krävande arbet” og hefur þrifist ágætlega í því starfi í mörg ár. Sjálf heldur hún að ef hún hefði fengið fjögurra nótta óslitinn svefn í nóvember og desember hefði hún aldrei orðið svona veik og ekki leitað til heilsugæslu í febrúar … og hún hefði þá ekki tapað hálfu ári úr lífi sínu, segir hún.

Þremur árum eftir hina erfiðu reynslu Anniku af læknisaðferðum geðlækna fékk hún greiddar skaðabætur úr sjúklingatryggingu ríkisins “för det förlängda bristerna i sjukvårdens behandling och uppföljning inneburit för henne.”

Haldið framhjá Kindlinum

Nú hefur Kindillinn minn legið meira og minna á hillu undanfarnar margar vikur. Sem er auðvitað sorglegt miðað við hve mikla ást ég hef fest á gripnum.

Ég datt sumsé í pappírsbækur. Fallið byrjaði með tveimur hnausþykkum bókum eftir Jussi Adler-Olsen, uppáhaldið mitt. Ég tók að mér að vera “pössunarpía” fyrir vinkonu mína, þ.e. leysa hana af í kennslu nokkra daga, einhvern tíma snemma í september. (Þetta var nú ekki kennsla þannig lagað, ég fékk allt upp í hendurnar og þurfti ekki fara yfir neitt, bara mæta í tímana, merkja við og passa að nemendur ynnu.) Kennari þar varð áskynja aðdáunar minnar á Adler-Olsen og lánaði mér Flaskepost fra P og Journal 64, sem ég gleypti í mig.

Skömmu síðar bárust pappírseintökin sem ég neyddist til að panta frá Amazyni af því önnur bókanna var bara til á pappír, rafbókaútgáfan af hinni bara til sölu í Amríku. Þetta voru bækur sem snertu geðlækningar, The Myth of the Chemical Cure og Unhinged; Las þá síðarnefnu spjaldanna á milli en hina svona í pörtum.

Stuttu síðar var mér bent á enn eina ágætis bókina um svipað efni sem til væri á bókasafni Norræna hússins. Það er bókin Pillret. En berättelse om depressioner och doktorer, forskare och Freud, människor och marknader eftir blaðamanninn Ingrid Carlsberg (útg. 2008). Innan á bókakápu er ýmislegt hrós, þ.á.m. staðhæfir lyfjafræðiprófessor að bókin sé “En formidabel thriller!” Nú er ég hálfnuð með bókina (hún er ansi löng) og verð að taka undir þessi orð: Þessi bók um þunglyndi, lyf og geðlækningar er nefnilega æsispennandi, gefur góðri morðsögu lítið eftir. Sá sem benti mér á hana skrifaði sjálfur bloggfærslu um hana á sínum tíma og ég vísa bara í bloggfærsluna hans vilji menn kynna sér bókina (sem ég verð vel að merkja með í láni í tvær vikur í viðbót). Sjá Bókarýni: Frábær bók um geðlyf! eftir Einar Karl Friðriksson. Það tefur svo lesturinn nokkuð að ég er alltaf að kíkja í tilvísana- og heimildaskrárnar …

Ég uppgötvaði að mig bráðvantaði bókina Alverdens strikning eftir Ann Möller-Nielsen (útg. 1988). Hafði upp á eintaki til sölu með hjálp Gúguls frænda og hugmyndaauðgi bóksalans (sem ekki var með kreditkortaþjónustu) varð til þess að við ákváðum að skiptast á gjöfum, ég og hann. Svo fékk ég bókina að gjöf og þurfti að lesa hana upp til agna samstundis … vitaskuld á pappír. Þessi bók á eftir að nýtast mér afar vel í prjónasögublogg, sem ég tek aftur til við þegar ég hef bloggað eina færslu enn til að klára yfirferð yfir þunglyndislyfjapakkann.

Nú, í ofanálag hef ég dottið inn á ýmis bókasöfn undanfarið, er með heilan haug af hannyrðafræðum af bókasafninu í Kennó og nokkrar af bókasafninu hér á Skaga, hef stillt mig um að fá lánað á Þjóðarbókhlöðu þótt ég hafi rekið þar inn nefið vikulega og gramsað í ýmsu. M.a. er hér í hillu hálflesin Sagan af klaustrinu á Skriðu eftir Steinunni Kristjánsdóttur, sem er mjög skemmtileg og vel skrifuð og ég ætla örugglega að klára. Ég fékk líka lánaða bókina hans Óttar Guðmundssonar, sem ég hef lesið ýmislegt skemmtilegt eftir, Hetjur og hugarvíl. Las kaflann um Njálu en þótti ekki mikið til koma og ákvað að skila bókinni með restinni ólesinni. Nú er ég nefnilega hætt að klára bækur sem mér finnast leiðinlegar. (Af sömu ástæðu lagði ég Fifty Shades of Gray á Kindilhilluna eftir 40 lesin prósent, sú bók sameinaði það að vera einstaklega illa skrifuð og margauglýst erótíkin svo ómerkileg að ég roðnaði næstum yfir að lesa þessa hörmung.)

Í Kindlinum er hálflesin Ást er þjófnaður eftir Eirík Örn Nordahl. Ég mun örugglega klára hana því þetta er helvíti góð bók! Hins vegar held ég að ég hendi hinni hálflesnu bókinni, sögunni um hvernig Liza Marklund og Mia Eriksson hagræddu sannleikanum ansi mikið í bókunum sem þær skrifuðu og slógu í gegn. Vissulega er áhugavert hvernig hægt er að teygja og toga hlutina og ljúga duglega í þokkabót og selja svo metsölu … en bókin er alltof langdregin og ég nenni ekki einu sinni að gá hvað hún heitir. Líklega eru hundraðogeitthvað bækur í Kindlinum svo það er ekki eins og ég sé að ljúka lestri í bili … en hann liggur sem sagt í hillunni. Og enn á ég eftir að calibra bók sem mér áskotnaðist fyrir stuttu, um geðveiki og vestrænar læknisaðferðir við henni …

Það tefur mig líka frá lestri að vera þokkalega hress. Það er ótal margt sem mig langar til að gera á hverjum degi og um að gera að láta það eftir sér meðan heilsan er með skásta móti. Svo reyni ég líka að vinna í því að halda heilsunni áfram með skásta móti, t.d. er nauðsynlegt að arka 6-8 kílómetra á hverjum degi (veit ekki hvort það virkar eitthvað gegn þunglyndi en það skaðar a.m.k. ekki); segi já við öllum samkomum og uppákomum (á HAM-námskeiðinu greip ég ráðlegginguna að það væri slæmt fyrir þunglynda að vera í félagsskítafélaginu … fín ráðlegging og við skulum vona að hún virki): Satt best að segja held ég að ég sé búin að gera meira undanfarna tvo mánuði en samanlagt tvö árin á undan.

Þetta er bloggað beint af augum … og ég nenni ekki að blogga um dægurmál frekar en venjulega enda er offramboð á svoleiðis bloggum, mjög misjöfnum að gæðum. 

Af límingunum – um Unhinged

Í sumar og haust hef ég lesið ýmsar bækur og greinar um geðlyf og geðlækningar. Ég hef áður bloggað um bók sálfræðingsins Irving Kirsch, Nýju lyfin keisarans, og gagnrýni á hana. Kannski blogga ég einhvern tíma um Anatomy of an Epidemic eftir blaðamanninn Robert Whitaker, fína bók til að byrja á að átta sig á ýmsum hindurvitnum í nútíma geðlækningum, og vonandi kemst ég í gegnum þau massífu fræði The Myth of the Chemical Cure. A Critique of Psyhiatric Drug Treament, eftir breska geðlækninn Joanna Moncrieff, sem ég er að lesa núna.Unhinged eftir Daniel Carlat

Bók bandaríska geðlæknisins Daniel J. Carlat, Unhinged. The Trouble with Psychiatry – a Doctor’s Revelations about a Profession in Crisis, er ákaflega vel skrifuð og læsileg, heimilda er og getið ítarlega. Hún kom út fyrir tveimur árum og satt best að segja held ég að allir geðlæknar hefðu ákaflega gott af því að lesa hana, ekki síður en geðsjúklingar. Það er erfitt að þýða titilinn, unhinged getur þýtt „af hjörunum“, „úr skorðum“ eða bara hreinlega „klikkaður“.  Líklega nær íslenska orðalagið „gengið/farið af límingunum“  best merkingunni. Titillinn vísar til þeirrar skoðunar höfundar að einhvers staðar hafi geðlæknisfræði farið út af sporinu/af hjörunum og hann lýsir mætavel þeirri hugmyndafræðilegu kreppu sem hann sjálfur og kollegar hans eru í. Þessari kreppu hefur Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur gert ágæt skil í greininni Glímir geðlæknisfræðin við hugmyndafræðilega kreppu? Um vísindi og hagsmuni, í Tímriti félagsráðgjafa, 1.tbl. 5.árg. 2011, s. 5-14.

Unhinged er samtíningur af ýmsu efni sem er haganlega felldur saman í eina heild. Sumt er frásagnir Carlat af sínu námi, margt frásagnir úr starfi, t.d. ýmsar smásögur (anekdótur) af sjúklingum og sjúkratilfellum, sumt er umfjöllun um geðlyf, þ.á.m. blekkingarleik og sölumennsku risastórra lyfjafyrirtækja en einnig er tæpt á sögu lyfjanna, sumt er umfjöllun um aðrar aðferðir við geðlækningar, t.d. raflækningar (ECT), skreyjutaugarörvun (VNS), segulómörvun (TMS) o.fl. Veigamikill hluti bókarinnar eru vangaveltur Carlat sjálfs og í lok hennar setur hann fram nokkrar hugmyndir um hvernig megi koma geðlækningum á rétta braut.

Carlat hefur verið harkalega gagnrýndur af kollegum sínum fyrir þessa bók. Niðurstöður hans, sem starfandi geðlæknis, eru þó ekkert ákaflega byltingarkenndar. Hann vill áfram ávísa þunglyndislyfjum þegar það á við þótt hann viðurkenni fúslega að vísindin sem þau eiga að byggja á séu hugarsmíð og mögulega felist lækningarmáttur þeirra aðallega í lyfleysuáhrifum. Hann er hlynntur raflækningum þótt hann dragi ekki fjöður yfir það að enginn viti hvernig 40-45 sekúndna krampi heila geti haft lækningarmátt fyrir marga þunglyndissjúklinga og að þessi aðgerð geti haft geigvænlegar afleiðingar fyrir lítinn sjúklingahóp. Kannski er það sem fer mest fyrir brjóstið á öðrum geðlæknum að Carlat viðurkennir hikstalaust að menn séu litlu nær um af hverju þunglyndi stafar en menn voru á dögum Hippókratesar, að kenningasmíð til að útskýra orsakir þess er að mestu hugarleikfimi en ekki byggð á vísindum og að hann heldur því fram að akkilesarhæll geðlækna sé vangeta og síminnkandi vilji til að hlusta á sjúklinga og veita almennilega viðtalsmeðferð. Carlat telur að grunnnám í læknisfræði nýtist geðlæknum næsta lítið og að þeir hefðu miklu meira gagn af því að læra sálfræði. Ofuráhersla síðustu áratuga á líffræðilegar skýringar geðsjúkdóma hafi alls ekki skilað góðum árangri. Hann er og jákvæður fyrir því að sálfræðingar fái að ávísa geðlyfjum eftir skemmri skírn í lyfjafræði og læknisfræði.
 

Lofsamlegir dómar um Unhinged almennt urðu ekki til að lægja öldurnar sem bókin vakti hjá kollegum Carlat, amerískum geðlæknum. Sem dæmi má nefna ritdóm Chetan Haldipur, prófessors í geðlæknisfræðum, sem birtist í Psychiatric Times 6. júlí 2011 en honum lýkur á klausunni:
 

Unhinged er ein margra bóka sem komið hafa út upp á síðkastið og gagnrýna geðlæknisfræði. Það hefði mátt búast við meiru af hæfileikaríkum og hálærðum geðlækni á borð við  Daniel Carlat. En þess í stað er hér bók sem er uppfull af  hneykslum og álitaefnum og nokkurs konar ádeilurit – nokkur konar „trahison des clercs“ [þetta er líklega vísun í titil frægrar bókar heimspekingins Julien Benda, enska þýðingin var kölluð The Betrayal of the Intellectuals, þ.e. Svik menntamannanna] – fremur en gáfuleg umræða um geðlæknisfræði. Í þessu felst vandi geðlæknisfræðinnar.
 

Daniel Carlat svaraði þessum ritdómi samdægurs.

 
 En fyrst færðist þó fjör í leikinn þegar Marcia Angell, fyrrum ritstjóri The New England Journal of Medicine, skrifaði langan ritdóm um bækur Kirsch og Whitaker, sem nefndar voru hér efst í færslunni, og Unhinged Daniels J. Carlat í New York Review of Books (sjá The Epidemic of Mental Illness: Why?, 23. júní 2011 og The Illusions of Psychiatry 14. júlí 2011). Í þessari löngu umfjöllun segir Angell undan og ofan af bókunum og ræðir þær skoðanir og staðhæfingar sem í þeim eru settar fram, reynir að meta þær og niðurstaðan er yfirleitt sú að rökstuðningur höfundanna sé góður og megi ætla að þeir fari með rétt mál. Raunar stendur þessi langi dómur ágætlega fyrir sínu sem sjálfstæð umfjöllun og er prýðilega skrifaður – áhugafólk um þunglyndi eða aðra geðræna sjúkdóma og hefðbundnar lækningatilraunir nútímans við þeim hefði eflaust gagn og gaman af því að lesa hann. Í seinni ritdómnum gerir hún einnig DSM-IV-R (Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders, endurskoðaða fjórðu útgáfu, þ.e.a.s. þann staðal sem Bandarísku geðlæknasamtökin nota til að greina geðsjúkdóma) að umtalsefni. 

Sjá má aðsend bréf vegna ritdómsins hér og má benda á að Daniel Carlat tekur þar til máls og álasar Angell  fyrir að taka gagnrýnilaust undir niðurstöður Kirsch, þ.e. að munurinn á gagnsemi lyfleysu og geðlyfja í rannsóknum sé svo lítill að hann sé ekki klínískt marktækur. Carlat staðhæfir að munurinn skipti máli þótt lítill sé. Þetta hefur væntanlega glatt geðlækna en næsta efnisgrein Carlat kann að hafa hleypt duglega upp í þeim sumum:
 

Það er engin spurning að innan læknisfræðinnar er geðlæknisfræði frumstæðust þegar litið er til vísinda. Við höfum einungis mjög ófullkominn skilning á lífeðlismeinafræði geðrænna sjúkdóma og í neyð höfum við gripið til hálmstráa og síbreytilegra kenninga um hvernig meðferð okkar virkar. Dr. Angell dregur vel fram þennan sannleik en á sama tíma afgreiðir hún með fljótaskrift þann sannanlega ávinning sem við getum þrátt fyrir allt veitt sjúklingum okkar.

Af hjörunumÁri eftir að hinn langi ritdómur Marciu Angell birtist andmælti þungavigtarmaður í geðlæknisfræðum, John H. Krystal, henni harðlega, sjá Dr Marcia Angell and the Illusions of Anti-Psychiatry í Psychiatric Times 12. ágúst 2012. Þótt hann sé á yfirborðinu að finna að umfjöllun Angell er hann vitaskuld einnig að andmæla Kirsch, Whitaker og Carlat því Marcia Angell tók mjög undir þeirra málflutning. Aðalatriðin í grein Krystal eru sömu rök sem maður sér víða notuð af geðlæknum í viðbrögðum við gagnrýni á hvernig geðlækningar eru praktíseraðar, s.s. að það sé hættulegt að halda því að almenningi að geðlyf séu gagnslítil eða gagnslaus og vísindin á bak við þau engin vísindi; að það auki brennimerkingu geðsjúklinga þegar fundið er alvarlega að DSM-greiningarstaðlinum; að ritandi (í þessu tilviki Marcia Angell) hafi ekki nægilega mikla þekkingu til að fjalla um efnið o.s.fr. Um leið finnur Krystal að því að manneskja eins og Angell sé hátt skrifuð í fræðaheimi sem fyrrverandi ritstjóri The New England Journal of Medicine og misnoti þá stöðu sína í skaðlegum málflutningi og álasar henni fyrir að benda ekki á nýjar leiðir í geðlækningum úr því hún taki undir gagnrýni á núverandi ástand.

John H. Krystal skartar traustvekjandi titlafjöld, þ.á.m. er hann forseti The American College of Neuropsychopharmacology, leiðandi félags fræðimanna í rannsóknum á heila, atferli og geðlyfjunarfræðum (segir á heimasíðu þess). Á hinn bóginn renna á lesanda tvær grímur þegar kemur í ljós að hann þiggur greiðslur frá mörgum stærstu geðlyfjaframleiðendum í heimi og læðist að manni sá grunur að kannski geri þau tengsl hann ekki algerlega hlutlausan í sinni gagnrýni.

Loks má nefna að mögulega hefur Unhinged haft einhver jákvæð áhrif á geðlæknastétt vestanhafs, orðið til þess að einhverjir geðlæknar séu til í að ræða þessi mál án þess að hrökkva í harða vörn, líkt og Haldipur og Krystal. Ronald W. Pies, prófessor í geðlæknisfræði og skáld, skrifaði tvær greinar um stöðu og framtíðarhorfur geðlækninga í Psychatric Times, How American Psychiatry Can Save Itself, og birtist fyrri greinin 8. febrúar 2012, sú síðari þann 1. mars 2012. Þar ræðir hann gagnrýni á geðlækningar, reynir að meta hvað sé réttmæt gagnrýni og hvað byggist á hindurvitnum og kemur loks með tillögur að því hvernig geðlæknastéttin geti bætt sín vinnubrögð og endurheimt virðingu sína. Ég sé raunar ekki betur en tillögur hans séu að miklu leyti samhljóða tillögum Carlat í lok bókarinnar Unhinged.

 

 
Ég mæli eindregið með bókinni Unhinged fyrir alla sem eiga við geðræna kvilla að stríða og alla geðlækna. Þess utan er þetta skemmtileg og vel skrifuð bók sem margir hefðu sjálfsagt gaman af að lesa.