Gunnlaugi greitt árið 2013

Höfrungur á Akranesi

Hér er fjallað um þær tæpu 2 milljónir sem Akraneskaupstaður greiddi Gunnlaugi Haraldssyni fyrir sagnaritun árið 2013 og bent á ótæk vinnubrögð fulltrúa Akraneskaupstaðar í miðlun upplýsinga um verkið til bæjarbúa, umfjöllun um verkið og mati á skilum sagnaritara. Því miður er þetta sleifarlag í ágætu samræmi við fyrri vinnubrögð ritnefndar og annarra fulltrúa kaupstaðarins í langri sagnaritunarsögu Gunnlaugs.

Í Samningi um ritun Sögu Akraness – III – bindi, sem Akraneskaupstaður og Gunnlaugur Haraldsson gerðu með sér þann 22. júní 2012 var kveðið á um að Gunnlaugur fengi greiddar 14.520.000 kr. sem skipt skyldi á ákveðna verkþætti og greiðslur miðuðust við skil verka á ákveðnum tímum (5. gr.). Greiðslur voru verðtryggðar miðað við þróun launavísitölu, með grunnvísitölu í maí 2012 (5. gr.).

Svo sem fjallað var um í síðustu færslu virðist  Gunnlaugur hafa fengið greiddar 2,2 milljónir árið 2012 fyrir skil á einu A-4 blaði (Frágangur á prenthandriti III. bindis Breytt kaflaskipan og verkáætlun pr. 1. október 2012), önnur gögn hef ég ekki fengið því til sönnunar að hann hafi unnið þá tveggja og hálfs mánaðar vinnu (1. verkáfanga A) sem upphæðin var greidd fyrir. Þáverandi bæjarstjóri (ég giska á að Árni Múli Jónasson hafi náð að sjá til þessa áður en hann lét óforvarendis af störfum þann 7. nóvember 2012) og Ritnefnd um sögu Akraness hljóta einhvern veginn að hafa  samþykkt að þessi tveggja og hálfs mánaðar vinna hafi verið unnin því slíkt er áskilið í samningnum (sjá 4. og 5. gr.).  Bókað er í ótölusettri og óbirtri fundargerð Ritnefndar um sögu Akraness þann 9. júlí 2013 að verkskil hafi verið um mánaðamótin nóvember/desember 2012 og greitt hafi verið að fullu fyrir skv. samningi.

„Af fjölmörgum ástæðum ástæðum [svo] hefur verkið reynst tímafrekara …“

1. verkfáfangi B er í samningnum skilgreindur sem „9 vikna verktakagreiðsla fyrir umritun og frágang á I.-IV. kafla prenthandrits á grundvelli verkáætlunar, skv. fylgiskjali samnings nr. 2 …“ (2 tl. gr. 5) og fyrir hann átti Gunnlaugur að fá allt að 1.800.000 kr. Þetta átti að vinna á árinu 2012 og var gert ráð fyrir fjárveitingu til verksins það ár skv. samningnum en næstu verkáfangar, sem átti að vinna árin 2013 og 2014, voru háðir samþykktum í fjárhagsáætlunum Akraneskaupstaðar fyrir þau ár.

Þar sem fyrsta verk Gunnlaugs var að umturna skipulaginu sem fólst í fylgiskjölum samningsins er verkáætlunin, fylgiskjal 2 með samningnum, auðvitað marklaust plagg núna. (Eins og nefnt hefur verið fékk hann 2,2 milljónir fyrir að umturna áætluninni.) Þess í stað kemur A-4 blaðið Frágangur á prenthandriti III. bindis Breytt kaflaskipan og verkáætlun pr. 1. október 2012. Í því skjali er 1. verkáfangi B orðinn 10 vikna vinna og heitir nú:

1. verkáfangi B-endurskoðun og umritun 2012:
I. kafli Byggðarþróun og búnaðarhagir.

Í fyrrnefndri ótölusettri og óbirtri fundargerð Ritnefndar um sögu Akraness, sem ber yfirskriftina Fundur ritnefndar um sögu Akraness ásamt rithöfundi  Skilafundur, 9. júlí 2013, segir um stöðu vinnunnar:

[…]
B.  Meginhluti 1. verkáfanga B er í höfn samkvæmt verksamningi og verkáætlun frá 3. október 2012. Framlagt handrit GH, þ.e. þrír af fjórum undirköflum I. kafla samtals 365 blaðsíður með tilheyrandi töflum og skrán [svo].
C.  Frágangi 4. undirkafla (um 50 blaðsíður) mun GH ljúka í ágúst nk. að loknu sumarleyfi.
D.  Af fjölmörgum ástæðum ástæðum [svo] hefur verkið reynst tímafrekara en GH og áætlanir gerðu ráð fyrir. Fyrirsjáanlegt er að fresta þarf 2. verkáfanga fram yfir áramótin þar sem GH er bundinn í öðru verki til þess tíma. (Feitletrun er mín.)
E.  Umfang verksins hefur engin áhrif á samningsbundnar greiðslur sem byggja á framvindu og skilum GH á efni og samþykkt ritnefndar og bæjarstjóra á að skil séu fullnægjandi. GH óskar eftir að fá greiðslu 1,6 mkr. af 1,8 mkr. samningsgreiðslu við fyrsta tækifæri en eftirstöðvarnar (200.000) við fullnaðarskil handrits (4. undirkafli).
F.  Ritnefnd og bæjarstjóri munu fara yfir fyrirliggjandi handrit og taka afstöðu til beiðni GH svo fljótt sem verða má sbr. 5. gr. samningsins.

SA mun framsenda efnið á nefndarmenn ásamt fundargerð til samþykktar.

Efnið, sem þarna er nefnt, var líklega þessi 365 síðna handritsbútur sem nefndur er í lið E. Um hann segir í upphafi fundargerðarinnar:

Formaður [ritnefndarinnar] … [f]ór nokkrum orðum yfir aðdragandann og ástæður þess að ekki hafi verið haldinn fundur síðan í október sl. Hann vísaði til gagna sem Gunnlaugur hafði skilað til hans deginum áður og væru til umræðu á fundinum ásamt öðrum atriðum sem fundarmenn vildu taka upp. Efninu var ekki dreift fyrir fundinn en Gunnlaugur var með það meðferðis í útprentuðu eintaki. (Feitletrun er mín.)

Þetta var rétt rúmlega klukkustundar langur fundur. Hann sátu, auk sagnaritarans, þrír af fimm fulltrúum Ritnefndar um sögu Akraness og Steinar Adolfsson, framkvæmdastjóri hjá Akraneskaupstað sem ritaði fundargerð.

 

Hefðbundin vinnubrögð í Ritnefnd um sögu Akraness og meðferð fundargerða

Það að halda skilafund án þess að fulltrúum í Ritnefnd um sögu Akraness hafi gefist kostur á að kynna sér efni sagnaritans fyrir fundinn er gamalt bragð sem Gunnlaugur hefur oft beitt áður. Að skila ókláruðu verki hálfu ári eftir að átti að skila því er líka ágætlega í takt við vinnubrögð sagnaritarans til þessa (handritinu átti að skila árið 2012, skv. verkáætlun og 2. lið 5. gr. Samnings um ritun Sögu Akraness – III – bindi).

Það að birta aldrei fundargerðina á vef bæjarins né leggja hana fram í bæjarráði eða bæjarstjórn eru heldur ekki ný vinnubrögð þegar kemur að fundargerðum Ritnefndar um sögu Akraness. Hins vegar kann það að vera nýtt verklag að ganga ekki einu sinni eftir því að fundarmenn samþykktu hana með undirritun sinni: Það dróst nefnilega í 7 vikur að skila mér afritum því efni sem ég óskaði eftir frá Akraneskaupstað snemma í október 2014 vegna þess að þá uppgötvaði fundarritari, framkvæmdastjóri bæjarins, að gleymst hafði að láta fundarmenn samþykkja og undirrita fundargerðina og sóttist honum seint að ná í allar þær undirskriftir nú.

En ekki stóð á greiðslum

Þetta verklag við svokallaðan skilafund Ritnefndar, vinnubrögð sagnaritara, ritnefndar og og framkvæmdastjóra bæjarins, kom þó alls ekki í veg fyrir að Akraneskaupstaður greiddi Gunnlaugi Haraldssyni 1.933.276 kr. árið 2013. Má ætla að þessi greiðsla sé upphaflega 1,8 milljónin sem hann átti að fá fyrir að vinna verkið 2012, með verðbótum. Kostnaður vegna Ritnefndar um sögu Akraness árið 2013 var 51.358 kr., sem rímar við að formanni og tveimur óbreyttum nefndarmönnum hafi verið greitt fyrir að sitja þennan klukkustundar og fimm-mínútna fund 9. júlí 2013. (Saga Akraness, samantekt 2012 og 2013.)

Mögulega hafa einhverjir ritnefndarmenn farið ókeypis yfir framlagðan handritsbút Gunnlaugs Haraldssonar eftir fundinn og samþykkt hann ásamt bæjarstjóra, s.s. kveðið er á um í samningi að þurfi að gera, altént fékk hann refjalaust borgaðar tæpar tvær milljónir fyrir 365+199 framlagðar blaðsíður.

 

Heimildir

Fundur ritnefndar um sögu Akraness ásamt rithöfundi  Skilafundur, 9. júlí 2013, skjal frá Akraneskaupstað afhent mér þann 1. desember 2014;
Frágangur á prenthandriti III. bindis Breytt kaflaskipan og verkáætlun pr. 1. október 2012, skjal frá Akraneskaupstað afhent mér þann 1. desember 2014.
Saga Akraness, samantekt 2012 og 2013, skjal frá Akraneskaupstað afhent mér þann 1. desember 2014;
Samningur um ritun Sögu Akraness – III. bindi-, ásamt fylgiskjölum, skjöl frá Akraneskaupstað afhent mér þann 1. desember 2014.

Myndina af Höfrungi tók Atli Harðarson 7. júní 2014, sjá nánar á Flickr.

 

Næsta færsla fjallar um hinn dýrmæta handritsbút í Sögu Akraness III, sem Gunnlaugur hefur skilað.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation