Þyrnirósar-ritnefndin og Saga Akraness

kindur_i_hrutatungurett

Hér er fjallað um langvarandi sofandahátt Ritnefndar um Sögu Akraness og spurt hvort þriðji grunnsamningurinn sem Akraneskaupstaður gerði við Gunnlaug Haraldsson sagnaritara teljist  gildur samningur þar sem forsendur þess að hann tæki gildi voru aldrei uppfylltar. (En, s.s. fjallað verður um síðar, kom það ekki í veg fyrir að Akranesbær greiddi sagnaritaranum vegleg laun árin 2012 og 2013.)

Í síðustu færslu var þess getið að Ritnefnd um Sögu Akraness átti að fara yfir og taka út fyrri vinnu Gunnlaugs Haraldssonar við bindi III og samningurinn sem skrifað var undir þann 22. júní 2012 ekki að „öðlast endanlega samþykkt af hálfu Akraneskaupstaðar nema ritnefnd hafi afgreitt hana með jákvæðum hætti sem grundvöll fyrir samningum í heild sinni“ (4. gr., s. 2 í Samningi um ritun Sögu Akraness – III bindi –).

Þessi fyrri vinna Gunnlaugs hafði raunar verið rækilega greidd, jafnvel metin, á sínum tíma, því í fyrsta samningnum sem gerður var við hann, 1997, var tilskilið að hann skyldi byrja á að skrifa bindi um byggðasögu Akraness 1700-1900 og því bindi átti hann að skila í síðasta lagi 1. október 1999. (Núverandi III bindi á að fjalla um sögu Akraness 1800-1900.) Ritnefnd um sögu Akraness, undir forystu Gísla Gíslasonar þáverandi bæjarstjóra, staðfesti skil á þessu bindi þann 19. nóvember 2001, svo sem segir í 3. lið þeirrar fundargerðar:

3. Rætt var um stöðu málsins. Ritnefndin staðfesti skil á 1. bindi verksins sbr. gildandi samning. Nefndin er sammála um að það efni sem skilað hefur verið sé gott og lofi góðu um heildarverkið. Nefndin telur mikilvægt að verkinu verði haldið áfram og leggur til við bæjarráð að samningur bæjarins við söguritara verði framlengdur.

Það er áhugavert í þessu sambandi að í ritnefndinni, sem staðfesti síðla árs 2001 skil á handriti að byggðasögu Akraness 1700-1900 svo Gunnlaugur Haraldsson gæti fengið vel greitt fyrir það verk og framlengdan samning um meiri greiðslur, sat einmitt Hrönn Ríkharðsdóttir, sú hin sama og samþykkti í bæjarráði snemma vors 2012 að greiða Gunnlaugi Haraldssyni 14,5 milljón fyrir að ganga frá handriti að sögu Akraness 1800-1900. Í þriggja manna bæjarráðinu sem samþykkti viðbótarsamning við Gunnlaug í samræmi við þessa hvatningu ritnefndarinnar þann 20.12. 2001 sat einmitt Guðmundur Páll Jónsson og má því ætla að honum hafi verið kunnugt um að staðfest hafi verið skil á efninu þegar hann greiddi atkvæði sitt í bæjarráði snemma vors 2012 að greiða Gunnlaugi Haraldssyni aftur fyrir að ganga frá sama handriti.

Í síðari hluta bloggfærslu minnar, Verður tilbúið næsta sumar. Ég hef alveg þokkalega samvisku.  (17. júní 2011) eru raktar misvísandi upplýsingar sagnaritarans, útgefanda Sögu Akraness I og II, formanns Ritnefndar um sögu Akraness o.fl. um hvort III bindið sé tilbúið, hversu tilbúið það sé eða hvort það sé kannski ekki tilbúið.

Fyrirskipuð úttekt Ritnefndar um Sögu Akraness 2012

Ég óskaði eftir upplýsingum frá síðasta formanni Ritnefndar um Sögu Akraness, Jóni Gunnlaugssyni, um hvort sú úttekt og mat á vinnu sagnaritara við III bindi sem kveðið er á um í Samningi um ritun Sögu Akraness – III bindi – hefði farið fram og þá með hvaða hætti. Í svari hans, tölvupósti til mín þann 8. des. 2014, staðfestir Jón einfaldlega að öllu starfi ritnefndarinnar sé lýst í fundargerðum hennar.

Til eru tvær fundargerðir Ritnefndar um sögu Akraness sem aldrei hafa birst opinberlega, önnur frá 3. október 2012 (83. fundur nefndarinnar) og hin frá 9. júlí 2013 (ótölusettur en væntanlega 84. fundur nefndarinnar). Í þessu sambandi er rétt að geta þess að allar fundargerðir nefnda Akraneskaupstaðar eiga að liggja frammi á vef bæjarins nema um trúnaðarmál sé að ræða. Fundargerðir Ritnefndar um sögu Akraness geta engan veginn fallið undir trúnaðarmál en það er svo sem ekkert nýtt að Akraneskaupstaður reyni að fela þær sjónum almennings.

Af óbirtri fundargerð ritnefndarinnar þann 3. okt. 2012 er ekki hægt að ráða að neitt starf hafi farið fram í ritnefndinni eftir að samningurinn við Gunnlaug var undirritaður þann 22. júní sama ár. Allir fimm nefndarmennirnir voru viðstaddir þennan fund, auk Árna Múla Jónassonar bæjarstjóra, Jóns Pálma Pálssonar bæjarritara og sagnaritarans Gunnlaugs Haraldssonar.

Ritnefndin kemur ekkert við sögu á þessum fundi nema formaður setti fund (liður 1 í fundargerð) og sleit honum.

Bókað er að Árni Múli hafi farið yfir „þá vinnu sem unnin hafi verið varðandi verksamning við söguritara um áframhald á Sögu Akraness“ (liður 2); Jón Pálmi útskýrði samninginn lið fyrir lið (liður 3); Gunnlaugur Haraldsson lagði fram skrá yfir gögn í átta möppum sem ætti að afhenda Héraðsskjalasafni Akraness (liður 4) og fór yfir verkáætlun III bindis (liður 5). Í lið 6 í fundargerð segir: „Ákveðið að hafa stöðufund í lok nóvember“ og svo er fundi slitið.

Nóvemberfundurinn fyrirhugaði var aldrei haldinn. Bókaður kostnaður Akraneskaupstaðar vegna Ritnefndar um sögu Akraness árið 2012 er 96.109 kr., sem passar við nefndarlaun þessara fimm sem mættu á fundinn 3. okt. 2012 og þeirra tveggja nefndarmanna sem höfðu mætt á fund 23. mars sama ár (en um hann var fjallað í síðustu færslu, þótt næsta lítið verði ráðið af ör-fundargerð hans).

Niðurstaðan er því sú að Ritnefnd um sögu Akraness hafi aldrei metið eða tekið út vinnu Gunnlaugs Haraldssonar við III bindið sem átti að vera forsenda þess að samningurinn öðlaðist gildi. Og þá vaknar auðvitað spurning um hvort samningur Akraneskaupstaðar og Gunnlaugs Haraldssonar frá 2. júní 2012 sé gildur samningur eða bara gamniplagg til að fóðra greiðslur til sagnaritarans?

Þyrnirósarsvefn Ritnefndar um sögu Akraness

Í rauninni er algerlega óskiljanlegt hvaða hlutverki Ritnefnd um sögu Akraness hefur átt að gegna í þau 26 ár sem hún hefur starfað því hún hefur aldrei axlað neina ábyrgð á verkinu né sýnt nokkurn lit á að leita eftir sérfræðiaðstoð, t.d. sagnfræðings, til að meta verk og verklag sagnaritara. Hins vegar hefur þetta löngum verið dýrasta nefnd bæjarfélagsins í þeim skilningi að hún hefur haldist fjölskipaðri en aðrar nefndir í fjölda ára.

Fyrsta áratuginn sem ritnefndin starfaði var ofurlítið líf í henni, þ.e.a.s. hún lagði sig nokkuð í líma við að vera andstyggileg við þáverandi sagnaritara. (Þetta er rakið í plagginu Sögu Sögu Akraness og verður ekki tíundað frekar hér.) Seinni sextán árin sem Ritnefnd um sögu Akraness hefur starfað virðist nefndin hafa gegnt hlutverki Þyrnirósar: Sofið og beðið eftir að prinsinn birtist (eða skilaði einhverju af sér). Þyrnirós svaf í heila öld en ritnefndin hefur eytt 70 mannárum í svipaða iðju. Þyrnirós var launalaus prinsessa en ritnefndarmenn hafa þegið prýðileg laun í 26 ár. Þyrnirós fékk prinsinn sinn að lokum en Saga Akraness er enn óskrifuð. (Þótt vissulega sé búið að framleiða mikinn glanspappír í að skrifa sögu Hvalfjarðarsveitar í annað og þriðja sinn, ævintýralegar fabúleringar um fyrsta íslenska óskráða dýrlinginn og uppruna Bresasona, sem og valda endursagnarparta úr Íslandssögunni, með samþykki sofandi ritnefndarinnar, er ekki enn komið þar sögu hjá Gunnlaugi Haraldssyni að Akranes sé annað en örfá örreytiskot sem fáum sögum fer af.)

 

Sem betur fer hefur sú bæjarstjórn sem tók við völdum hér á Skaganum sl. vor ekki skipað í Ritnefnd um sögu Akraness og má vona að ritnefndin verði ekki ræst til starfa í náinni framtíð – til þess eins að vera stungin svefnþorni á ný.

 

Óbirt gögn sem vísað er til í þessari færslu eru fengin frá Akraneskaupstað þann 1. desember 2014, þ.e. tvær fundargerðir Ritnefndar um sögu Akraness, samantekt á greiðslum vegna Sögu Akraness árin 2012 og 2013 og Samningur um ritun Sögu Akraness – III bindi -.

Myndin er af kindum í Hrútatungurétt, tekin af Atla Harðarsyni þann 8. september 2012.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation