Gengið til samninga við Gunnlaug

hofrungur_i_dumbungi

Hér verður fjallað um aðdraganda nýjasta samnings Akraneskaupstaðar við Gunnlaug Haraldsson um ritun þriðja bindis Sögu Akraness og örlítið um samninginn sjálfan. Í næstu færslu verður gerð grein fyrir efndunum.

Aðdragandinn

Ritnefnd um sögu Akraness kom saman þann 23. mars 2012.  Raunar er álitamál hvort ritnefndin sjálf kom saman því formaður hennar og tveir aðrir nefndarmenn boðuðuð forföll, einungis tveir óbreyttir nefndarmenn mættu á fundinn. En maður kemur í manns stað og fundurinn var ekkert sérlega fámennur þrátt fyrir fjarveru meirihluta ritnefndar. Fundinn sátu nefnilega einnig Árni Múli Jónasson bæjarstjóri (sem tók pokann sinn í nóvemberbyrjun sama ár); Jón Pálmi Pálsson bæjarritari (sem tók við af Árna Múla sem bæjarstjóri en tók pokann sinn um miðjan desember sama ár); Kristján Kristjánsson, útgefandi (en bókaforlagið hans, Uppheimar, lagði upp laupana á liðnu ári) og Gunnlaugur Haraldsson söguritari. (Gunnlaugi farnaðist að venju vel í fjárhagslegum samskiptum við Akraneskaupstað allt til þessa árs en ekki er gert ráð fyrir að spreða í hann neinum peningum í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2015.)

Fundargerð Ritnefndarinnar er vægast sagt varlega orðuð þegar þessum klukkutíma og korters langa fundi er lýst:

Fyrir tekið:
1. Saga Akraness, 3. bindi
Farið var yfir stöðu málsins, bæði út frá fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar svo og mögulegri aðkomu söguritara að verkinu á næstu mánuðum.

Aðilar málsins munu skoða málið nánar á næstu dögum.

Mér er ekki ljóst hvaða aðilar málsins skoðuðu málið nánar en ég giska á það hafi verið þeir sem mættu á þennan fund og ekki sátu í Ritnefndinni. Sú nefnd hélt ekki aftur fund fyrr en í október 2012 og í fundargerð hans er þess ekki getið að ritnefndarmeðlimir hafi innt nein störf af hendi í millitíðinni.

Líklega hefur Árni Múli Jónasson bæjarstjóri verið sá sem var mest áfram um að gera frekari samninga við Gunnlaug Haraldsson um sagnaritun. Stórkarlalegar yfirlýsingar Árna Múla um ágæti fyrri bindanna tveggja af Sögu Akraness og viðbrögð við gagnrýni á þau benda til þess að hann hafi gerst sérlegur verndari (patrón) sagnaritarans fljótlega eftir að hann tók við starfi bæjarstjóra hér.

Niðurstaðan af þessari skoðun „aðila málsins“  á málinu  varð að útbúa nýjan samning við sagnaritarann. Sá samningur var lagður fram í bæjarráði þann 22. júní 2012  og bæjarráð samþykkti hann.  Ástæða þess að það dugði að þriggja manna bæjarráð samþykkti þetta er auðvitað sú að bæjarstjórn starfaði ekki – hún fór í sumarleyfi tíu dögum fyrr.

Í bæjarráði sátu:

  • Guðmundur Páll Jónsson, formaður bæjarráðs. Guðmundur Páll hafði greitt atkvæði sitt með fyrri samningum og viðbótarsamningum við Gunnlaug Haraldsson frá upphafi, 1997, og setið í Ritnefnd um sögu Akraness um tíma. Guðmundur Páll lýsti og mikilli hrifningu á merkri uppgötvun sagnaritans á uppruna landnámsmanna hér á Skaganum, sjá bloggfærsluna glæsilegasta byggðarit og rit um sögu byggðarlags sem búið hefur verið til, 9. júní 2011.
  • Hrönn Ríkarðsdóttir, varaformaður bæjarráðs. Hrönn hafði stutt fyrri samninga og viðbótarsamninga við sagnaritarann frá því hún tók sæti í bæjarstjórn árið 2002. Hún sat í Ritnefnd um sögu Akraness frá upphafi, 1987 (en í þeirri ritnefnd sat Gunnlaugur Haraldsson einmitt til ársins 1990), til ársins 2002.
  • Þröstur Þór Ólafsson aðalmaður. Þröstur sat einungis eitt kjörtímabil í bæjarstjórn og virðist aldrei hafa gert neinar athugasemdir við greiðslur vegna sagnaritunar bæjarins ef marka má fundargerðir bæjarráðs og hljóðupptökur af bæjarstjórnarfundum.

Á þessum fundi bæjarráðs lét áheyrnarfulltrúi minnihlutans, Einar Brandsson bæjarfulltrúi sjálfstæðisflokksins, bóka þá athugasemd að vegna fjárhagsstöðu Akraneskaupstaðar væri ekki forsvaranlegt að ganga til samninga um ritun III. bindis Sögu Akraness. Sú bókun skipti auðvitað engu máli og samdægurs skrifaði Jón Pálmi Pálsson undir Samning um ritun Sögu Akraness – III bindi – fyrir hönd Akraneskaupstaðar, að fyrirmælum bæjarráðs.

Samningurinn

Þessi samningur var þriðji grunnsamningurinn sem Akraneskaupstaður hefur gert við Gunnlaug Haraldsson um sagnaritun. (Hinir eru frá 23. apríl 1997 og 30. nóvember 2006. Auk þess hafa sömu aðilar gert með sér 4 viðaukasamninga gegnum tíðina. Gunnlaugur stóð ekki við neinn þessara fyrri grunn- og viðbótarsamninga, sjá Sögu Sögu Akraness.)

Samingur um ritun Sögu Akraness – III. bindi-, undirritaður 22. júní 2012, sker sig ekki tiltakanlega úr hinum samningunum: Kveðið er á um ákveðna skiladaga verkhluta og að greiðslur fyrir verkið séu háðar skilum eins og tíðkast hefur í hinum samningunum; Launakjör Gunnlaugs eru góð, jafnvel enn betri en fyrr; Ritnefndin á að hafa eftirlit með verkinu eftir því sem því vindur fram o.s.fr. Það er bara tvennt sem má telja alger nýmæli í þessum þriðja grunnsamningi:

1. Hluti samningsins er upp á krít. Alls er samið um 14.520.000 kr. greiðslu fyrir að ganga frá III. bindi á þremur árum svo það sé tækt til útgáfu árið 2015 en sérstaklega tekið fram: „Verkþættir skv. 3. og 4. tl. og fjárveiting til þeirra árin 2013 og 2014 eru með fyrirvara um að fjárveiting til þeirra verði veitt í fjárhagsáætlun hvors árs um sig“ (5. grein, s. 3 í Samningi um ritun Sögu Akraness – III – bindi).

2. Það á að skoða og meta fyrri vinnu sagnaritara við þetta bindi og samningurinn tekur ekki gildi fyrr en þetta hefur verið gert: „Við upphaf verks skal ritnefnd um Sögu Akraness yfirfara og gera nauðsynlega úttekt á stöðu verksins í samvinnu við söguritara. Slík úttekt er forsenda samningsins og öðlast hann ekki endanlega samþykkt af hálfu Akraneskaupstaðar, nema ritnefnd hafi afgreitt hana með jákvæðum hætti sem grundvöll fyrir samningnum í heild sinni“ (4. gr., s. 2 í Samningi um ritun Sögu Akraness – III bindi –).

 

Hér verður látið staðar numið í bili en í næstu færslu fjallað nánar um launakjör, greiðslur, skil og efndir þessa samnings.

 

Samningur um ritun Sögu Akraness – III bindi er fenginn frá Akraneskaupstað þann 1. des. 2014.

Myndin sem fylgir færslunni er af Höfrungi og tekin af Atla Harðarsyni 6. ágúst 2008.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation