Kimilsungia og Kimjongilia

kimil_baeklingur Þegar sonurinn skilaði sér heim frá Norður-Kóreu fyrir þremur vikum færði hann móður sinni og afa að gjöf tvær merkilegar plöntur. (Kannski er ekki hvað síst merkilegt að honum skyldi hafa tekist að halda lífi í plöntunum í Kínastoppinu í bakaleiðinni og á þvælingnum aftur heim á skerið- hingað til hefur sonurinn nefnilega ekki sýnt mikla takta í stofublómaumhirðu.)

Þessar merkisplöntur voru Kimilsungia og Kimjongilia, báðar ræktaðar til heiðurs þeim góðu landsfeðrum í Norður-Kóreu svo sem fram kemur í ítarlegum bæklingi sem fylgdi þeim.

Innan á kápu bæklingsins er rauðletraður texti, bein tilvitnun í Kim Jong Il:

Kimilsungia er blóm sem táknar mikilleika Kim Il Sung forseta, sem lýsti fram veginn fyrir heiminn allan með Juche hugmynd sinni [Juche er pólitísk stefna, einnig kölluð Kimilsungismi, orðið er illþýðanlegt], og jurt sem hefur blómstrað í hjörtum fólks á tímum sjálfstæðis til heiðurs mikilmenni.

Á Wikipediu kemur svo fram að Kimjongilia sé tákn fyrir visku, ást, réttlæti og frið og sé blómið svo uppræktað að það blómstri árlega á afmælisdegi Kim Jong Il, þ.e. þann 16. febrúar.

Þetta eru sem sagt magnaðar plöntur!

En … líklega eiga þær erfitt uppdráttar í stofuglugga á Akranesi, þótt ég hugsi hlýlega til þeirra dag hvern. Og raunar eiga Kimilsungiurnar okkar tengdapabba mér þegar líf að launa því Kóreufarinn og faðir hans ruku út í gróðurhús í svartamyrkri seint um kvöld og pottuðu öllum plöntunum í mold, vökvuðu svo duglega. Á meðan las ég bæklinginn. Í honum kom fram að Kimilsungia er orkídea svo ég var fram yfir miðnætti að bjarga þeim úr klesstri pottamoldinni, skola ræturnar og umplanta í þann dularfulla mulning sem orkídeum hugnast.

Allt um það: Kimilsungian hjarir ennþá þótt skv. leiðbeiningarbæklingnum góða þurfi hún að lágmarki 12 klst. sól á dag, raka og hátt í 30 stiga hita. Kimjongilian bærir ekki á sér. Hún er begónía og ég ætla rétt að vona að þeir feðgar hafi ekki snúið hnýðinu á hvolf í pottinum (sýnist þó ekki). Garðyrkjumaðurinn tengdafaðir minn segir þetta alveg eðlilegt miðað við árstíma. En ef hún er forrituð til að blómstra þann 16. febrúar – fer þá ekki allt í vitleysu?

Hér að neðan er mynd af greyjunum eins og þau líta út núna.

kimil

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation