Geðvonska, illska, þunglyndi

illskanÍ verkfallinu á vorönn var ég meðlimur í þremur Facebook-grúppum framhaldsskólakennara í verkfalli. Munandi að menn eru nú ekkert alltaf mjög jákvæðir og skapgóðir í verkföllum, þau geta nefnilega tekið svolítið á sálina, skráði ég mig í nokkrar hannyrðagrúppur af því ég hélt að þar myndi ríkja rósemdin ein; uppbyggileg nútvitundin svífa þar yfir vötnum því hannyrðir eru svo róandi.

En … það reyndist nokkur misskilningur. Öðru hvoru rýkur moldin hressilega í logninu meðal hannyrðakvenna. Og eins og í venjulegri æsingarumræðu á óvönduðum vefmiðlum er ómögulegt að segja fyrir um hvernig stormarnir snúast og í hvern hænurnar gogga. Eftir seinustu svona uppákomu sá ég að aðalgrúppan ber nafn með rentu og sagði mig úr henni áðan, algerlega eftirsjárlaust.

Af því ég hélt sloppadag í dag var ég óvenju dugleg að skruna á Netinu og sá að fólk er að tjúllast yfir ýmsu, s.s. einhverri ráðstefnu SÞ þar sem karlar einir ætla að fjalla um jafnréttismál; einhverju læki manns sem ekki þótti við hæfi að lækaði eða má sko alveg læka; bloggi bæjarstjóra í Vestmannaeyjum og mögulegum tengslum þess við sorg ekkja og áratugs gamla bók; nýjum reglum í Júróvissjón; góðri perravakt eða illri perravakt o.s.fr.; Auk þessa venjulega níðs um stjórnmálamenn en í hópi „vinsælustu“ bloggara eru nokkrir karlar sem skrifa örblogg og kasta í þeim skít á báðar hendur, uppáhaldsorð þess alvinsælasta er siðblinda og útnefnir hann ótrúlega marga siðblinda nánast í hverri viku. (Sem mér finnst benda til þess að maðurinn sé annars vegar ótrúlega geðvondur og hafi hins vegar ekki hugmynd um hvað orðið siðblindur þýðir.) Á morgun tjúllast virkir í athugasemdum örugglega yfir einhverju allt öðru og eitthvert annað siðblint skítapakk verður afhjúpað hægri-vinstri.

Við skrun formiddagsins sá ég, eins mér er svo sem löngu orðið ljóst, að einskis er misst við að sleppa lestri athugasemda á vefmiðlum og best að halda áfram að sigta út einstaka bloggara á blogg-gáttinni, þeir eru fáir sem eru bæði sæmilega skrifandi og ekki spúandi illsku í allar áttir og verkið því fljótlegt.

Áhugaverðasta fréttin sem ég sá í dag/gær/fyrradag var þessi um að nú sé verið að sýna fram á með vísindalegum aðferðum að karlar séu þunglyndir til jafns við konur. Ef maður býr í venjulegu samfélagi (en ekki í netheimum eða fílabeinsturni) er þessi staðreynd raunar frekar augljós en gaman að nú skuli hún rannsökuð með vísindalegum aðferðum og skrifaðar greinar í ritrýnt tímarit um niðurstöðurnar. Ég á eftir að verða mér út um greinarnar (finn bara aðra þeirra í augnablikinu og dettur ekki í hug að borga 46 dollara fyrir aðgang að henni og nenni ekki að hafa upp á öðrum ódýrari möguleika akkúrat núna) og les þær áreiðanlega báðar við tækifæri. Í útdrætti þessarar sem ég fann kom fram að gamla góða kortisól-prófið til að skera úr um þunglyndi er þarna notað, í  breyttri útfærslu, og mig langar að lesa meira um það.

One Thought on “Geðvonska, illska, þunglyndi

  1. Valgerður Ósk Einarsdóttir on October 6, 2014 at 12:24 said:

    Ég endaði á að skrá mig úr öllum facebook framhaldsskólagrúbbum eftir verkfall því mér fannst umræðan þar ná nýjum hæðum (lægðum), handavinnugrúbburnar hafa þann kost að maður getur skellt sér í myndir þar og notið handavinnunar 🙂 Annars er ég í leyfi núna og nýt þess að vera “bara” námsmaður og lesa allt mögulegt sem maður verður að lesa en hefur ekkert með undirbúning kennslu að gera! Það er hamingja. kv Valgerður Ósk

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation