Hún varð feit og rjóð og fríkkaði mikið

Afdalabarn

Ég er nýbúin að lesa Afdalabarn eftir Guðrúnu frá Lundi, skemmtilega sögu sem ég er viss um að margir hafa gaman að. En þessi færsla er ekki ritdómur um bókina heldur ábending um hvernig smekkur manna á holdafari og fegurð hefur mjög breyst, eiginlega snúist við, sem sjá má af dæmunum hér á eftir. Það er óljóst hvenær Afdalabarn á að gerast en giska má á snemma á tuttugustu öld, kannski best að tímasetja hana eftir því hvenær gúmmístígvél urðu föl hérlendis.

María er móðir afdalabarnsins, einstaklega fögur stúlka þá hún fór út í heim, eða öllu heldur úr afdalnum, en þegar hún snýr aftur er annað upp á teningnum:

Svo kom María heim. [- – -] Svo fór hún [móðir Maríu] að virða hana fyrir sér – ósköp hafði hún breyst mikið. Kafrjóða, feita heimasætan var orðin grannvaxin, föl og tekin fullorðin kona.
(s. 16.)

Unglingsstúlkan Bogga er ráðin sem barnfóstra í heiðarbýlið þar sem aðalpersónurnar búa. Henni er lýst svo:

Stelpan var skinhoraður gopi sem Hannes gat tæplega vænst mikils af […]
(s. 28.)

Enda segir Beta, móðir húsfreyju í afdalakotinu, um Boggu:

„Þú færð að vita af því að fæða hana. Þetta fær náttúrlega aldrei í sig, þessir krakkaangar þarna í Holti. Þetta er líka meiri horinn á barninu.“
(s. 29.)

En þrátt yfir horinn stendur Bogga sig vel í vistinni og braggast dag frá degi:

Þvílíkan ungling höfðu þau aldrei þekkt. Þeim var mikil ánægja að því hvað hún tók miklum framförum hvað útlit snerti. Hún varð feit og rjóð og fríkkaði mikið.
(s. 30-31.)

Það er aftur á móti verra með ungu vinnustúlkuna á sýslumannsheimilinu, hana Lilju:

Hannes [sýslumanni] hafði alltaf hryllt við þessu vesalings barni vegna þess hve hún var föl og fjörlaus. Taldi hann hana sjálfsagt herfang tæringarinnar fyrst báðar systur hans, sem voru feitar og blómlegar og aldar upp í allsnægtum, urðu þessum voðasjúkdómi að bráð [- – -] en kona hans bjóst við að útlit hennar stafaði af inniveru og hreyfingarleysi.
(s. 98.)

Ég deili algerlega skoðunum Guðrúnar frá Lundi á fegurð og fönguleika. Þess vegna hef ég gert ítrekaðar tilraunir til að innbyrða 3000 kaloríur á dag en það er ekki auðvelt verk, ekki einu sinni þótt maður sparsli nokkrum Snickers í matseðil dagsins. Líklega er afdalafæði lausnin á mínum lífsstílsvanda. Hvar er boðið upp á lífsstílsleiðréttingu í afdölum nútildags?

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation