Það er ei kvöldsett enn (Ой, да не вечер)

Þessi færsla er um enn eitt uppáhaldslagið mitt, sem hefur haldist í uppáhaldi í meir en ár. Skil ég þó ekki textann og má ætla að texti sé aukaatriði í góðum og velfluttum lögum.

Lagið syngur rússneska söngkonan Pelageya Sergeyevna Khanova (Пелагея Серге́евна Ханова). Pelageya var undrabarn í tónlist og nýtur mikillar hylli sem þjóðlagasöngkona í Rússlandi. Hún stjórnar eigin hljómsveit og satt best að segja minna útsetningarnar hennar mig svolítið á þá ágætu færeysku þjóðlagasveit Týr.

Ótal útgáfur af Oy, to ne vecher (Ой, да не вечер) er að finna í flutningi Pelageyu á YouTube en þessi, tekin upp á tónleikum 2009, finnst mér sérstaklega góð:


Á YouTube síðunni fylgir textinn, á rússnesku og í enskri þýðingu.

Oy, to ne vecher er annars upphafið á löngu rússnesku þjóðlagi, segir sjálf Wikipedia, sem er ýmist kallað Dæmisagan um kósakkana eða Draumur Sténka Rasin.

Í upphaflegu útgáfunni dreymir Sténka Rasin draum sem túlkaður er sem fyrirboði ósigurs hans og liðsmanna. Efni textans er eitthvað á þessa leið:

Það er ei kvöldsett enn en ég lagði mig örstutt og dreymdi að svarti hesturinn minn ólmaðist, að hvassir vindar úr austri blésu af mér svartri húfunni, að boginn minn sviptist af öxl mér og örvarnar dreifðust um rakan svörðinn. Herforingi minn túlkaði drauminn: Sténka Timofeyevich, sem menn kalla Rasin: Af höfði þér fauk svarta húfan og af þér mun fjúka villt höfuðið; Boginn sem sviptist af þér þýðir að ég sjálfur mun dingla í snörunni; Örvarnar sem dreifðust eru Kósakkarnir okkar sem allir munu flýja.

Textinn hefur verið fluttur með ýmsu móti en núorðið er algengast að syngja einungis fjögur erindi, búið er að fella Sténka Rasin brott, fyrirboðunum í draumnum hefur fækkað og tákna einungis eitt.

Textinn sem Pelagya syngur er á þessa leið:

Það er ei kvöldsett enn en ég lagði mig örskotsstund og dreymdi;
Í draumnum var sem svarti hesturinn minn væri óður og ólmaðist undir mér;
Og illir vindar blésu úr austri og þeir sviptu svörtu húfunni af villtu höfði mér;
Og herforinginn var vitur, hann gat þýtt draum minn: Ó, það mun vissulega fjúka af, sagði hann, hið villta höfuð þitt.

 

Það er auðvitað dálítið leiðinlegt að Sténka Rasin skuli horfinn úr textanum því margir Íslendingar sem komnir eru til vits og ára kannast við annað rússneskt þjóðlag um hann, sem í íslenskri þýðingu Jóns Pálssonar frá Hlíð hefst svo:

Norður breiða Volguvegu
veglegt fer með þungum skrið
skipaval mót stríðum straumi
Sténka Rasins hetjulið.

(Framhaldið má lesa í Æskunni, 75(5-8) s. 51-52  – raunar er svo til önnur þýðing á þessu kvæði eftir Jochum M. Eggertsson sem birtist í Eimreiðinni, 39(4) s. 386-388.)

En frá Sténka Rasin til hennar Pelageyu: Hér er önnur útgáfa þar sem hún syngur lagið ásamt leikkonunni Daryu Moroz :

Í lokin finnst mér rétt að benda á nótur af píanóútsetningu Oy, to ne vecher ásamt tilbrigðum , fyrir þá lesendur sem langar að spila lagið í stað þess að syngja með.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation