Á sjúklingur að vera hamingjusamur gísl?

Allt frá því ég las Medical Muses eftir Asti Hustvedt, bók sem fjallar um dr. Charcot og hysteríurannsóknir hans á nítjándu öld, hef ég velt dálítið fyrir mér sambandi læknis og sjúklings. Í þeirri bók er hinu fullkomna sambandi slíkra lýst: Með fullkominni samvinnu við sjúklinga sína tókst Charcot að búa til heilt kerfi sjúkdómsgreiningar sem er almennt talið algert kjaftæði og vitleysa nútildags en þótti afar merkileg uppgötvun á sínum tíma. Sjúklingarnir, hysteríudívurnar, léku sjúkdómseinkennin í kerfi Charcot af list og uppskáru athygli, aðdáun og betra atlæti fyrir. Þær voru hamingjusamir gíslar taugalæknis sem var ansi mikið út úr kortinu svo ekki sé kveðið fastar að orði.

Það hafa ekki margir skrifað um þessa hlutverkaskipan læknis og sjúklings. Má þó nefna David Healy (geðlækni, höfund Pharmageddon o.fl. bóka) sem telur lækna vera hamingjusama gísla lyfjafyrirtækja og sjúklinga vera hamingjusama gísla læknanna. Healy kallar þetta Stockholm-heilkennið  í þessu sambandi en ég tek mér það bessaleyfi að kalla þetta einfaldlega hamingjusaman gísl.

 

Læknirinn sem algóður faðir – sjúklingurinn sem hlýðið barn

Í stuttum pistli er ekki tóm til að gera grein fyrir því sem snýr að læknum í gíslingu lyfjafyrirtækja en þegar kemur að sjúklingnum er átt við að sjúklingur vill gjarna gera sínum góða lækni allt til þægðar, er ekki með neitt vesen og minnist ekki á alls konar aukaverkanir af lyfjum eða öðrum læknisráðum sem góði læknirinn ávísaði til að valda honum ekki vonbrigðum. Þessi hlutverkaskipan fellur einkar vel að hugmyndafræði þeirra lækna sem aðhyllast föðurlega læknisfræði: Læknirinn er í hlutverki hins algóða, alvitra föður sem vill sínum sjúklingi hið besta, sjúklingurinn er í hlutverki barnsins sem á að fara möglunarlaust að leiðbeiningum og vera þakklátt fyrir.

Svo tekið sé gamalt en einstaklega lýsandi dæmi af sjúklingi sem gekkst algerlega inn á að vera hamingjusamur gísl læknisins síns má nefna minningargrein um Ólaf Geirsson lækni frá 1965  sem fyrrverandi sjúklingur hans af Berklahælinu á Vífilsstöðum skrifaði. Læknirinn talaði sjúklinginn inn á að fara í þá hræðilegu aðgerð lóbótómíu, sem virkaði auðvitað til engra bóta en sjúklingurinn bar þó engan kala til síns góða læknis:

Þegar ég kom að Vífilsstöðum árið 1951, var ég sjúk bæði á sál og líkama. Truflun á efnaskiptum líkamans hafði þrúgað svo taugakerfi mitt að í algert óefni var komið. Þá tóku þessir mætu mannvinir, Ólafur heitinn og Helgi Ingvarsson, höndum saman og slógu um mig varðlokur [- – -] Og kom nú Ólafi Geirssyni í hug heilagerð [svo] sú, er lobotomi nefnist og oft hefur reynst rík til árangurs. Íslenzkur læknir var þá á lífi, sem fékkst við þessar aðgerðir, Bjarni heitinn Oddsson. Blessuð sé minning hans. Réði nú Ólafur mér að leita þessa ráðs, en ég var lengi treg. Mun þar hafa ráðið nokkru að ég hef aldrei verið kjarkkona og treg orðin að trúa á árangur. En þó mun þar mestu hafa ráðið, að tilhugsunin við að láta hrófla við þessu viðkvæma líffæri, heilanum, skóp mér beyg við einhverja breytingu, er verða kynni á sjálfri mér til hins lakara. Ég þæfði því lengi á móti. Ólafur heitinn skildi mig út í æsar og sótti mál sitt ekki fast. Hann hvorki skipaði né bað. En hann setti sig ekki úr færi að bera þær aðgerðir af þessu tagi í tal, sem hann kunni sögur af. Segja mér frá þeim og árangri þeirra, einnig að útlista fyrir mér, í hverju þær væru fólgnar og árangur þeirra, rétt eins og hann væri að ræða við jafningi við jafningja sinn. Þessum hæverska áróðri hélt hann áfram uns ég fór að linast. Hugsaði loks sem svo, að það mikið hefði Ólafur fyrir mig gert, að skylt væri að sýna honum það traust að hlíta ráðum hans. Var svo aðgerðin gerð. En með því að sjúkdómurinn var búinn að leika mig grátt, var ég nokkuð lengi að ná mér á eftir. Gekk svo fyrsta árið, að á mig sóttu geðtruflanir, sem lýstu sér í þunglyndi og ýmis konar firrum. Dvaldi ég í skjóli þeirra Vífilsstaðalækna — og hef ég oft hugsað til þess með kinnroða, hve þreytandi sjúklingur ég hlýt að hafa verið þennan tíma.

 

Er þekking lækna rétthærri þekkingu sjúklings?

Samkvæmt minni eigin reynslu taka sumir læknar það óstinnt upp þegar sjúklingur neitar að vera hamingjusamur gísl þeirra áfram og vill verða sjálfráða manneskja. Bætir ekki úr skák ef sjúklingur fer sjálfur að lesa sér til um eigin krankleik og læknisaðferðir og hafa skoðanir á þessu. Af gömlu embættismannastéttunum eru læknar (sumir) þeir einu sem ríghalda í þá blekkingu að þeir einir hafi aðstöðu til að afla sér þekkingar á sínu sviði og sú þekking gefi þeim vald, jafnvel óskorað vald yfir sjúklingum sínum.

Því verður ekki á móti mælt að sjúklingar eru, enn sem komið er, gíslar svoleiðis lækna. Tökum sem dæmi konu sem veit talsvert meira um vanvirkan skjaldkirtil en venjulegur heimilislæknir og óskar eftir að tilteknir þættir verði mældir í blóðprufu. Konan veit líka auðvitað miklu betur en læknirinn hvernig henni líður. Sú kona gæti lent á föðurlegum lækni sem segir líðan konunnar vera ímyndun eina og neitar að senda beiðni um blóðprufuna af því hann sjálfur álítur, eftir 15 mínútna viðtal, að það sé ekkert að henni og byggir þá skoðun á eldgömlum fræðum og fullvissu um eigið ágæti fram yfir sjúkling. Þessi ímyndaða kona er auðvitað gísl læknisins því hún getur ekki sjálf pantað blóðprufuna, einungis læknar geta það.

Ímyndaða konan getur hins vegar alveg valið hvort hún kærir sig um að vera hamingjusamur gísl, hugsandi með kinnroða til þess hve þreytandi sjúklingur hún hljóti að vera, farandi heim jafnveik og fyrr …

Og vonandi getur ímyndaða konan fengið annan lækni sem er ekki gíslatökumaður.

 

(Þessi pistill birtist áður í Kvennablaðinu 12. júní 2014.)

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation