Spámennirnir í Botnleysufirði

Ég var að klára Profeterne i Evighedsfjorden eftir Kim Leine. Þessi sögulega skáldsaga hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2013 og skv. fregnum stefndi bókaútgáfan Draumsýn að því að gefa út íslenska þýðingu Jóns Halls Stefánssonar í mars á þessu ári en ekkert bólar á henni.

Það hefur tekið mig hátt í mánuð að komast í gegnum bókina, ekki af því hún væri svo leiðinleg heldur af því að þetta er ljót saga og gott að grípa í annað jákvæðara efni samhliða.

Bókin fjallar um norskan mann, Morten Pedersen Falck, sem lærir til prests í Kaupmannahöfn á síðari hluta átjándu aldar, gerist prestur á Grænlandi í nokkur ár, hrökklast til Noregs og þaðan til Kaupmannahafnar og hverfur loks aftur til Grænlands. Talverðu rúmi er eytt í að lýsa lífinu í Kaupmannahöfn, bæði á námsárum Mortens og svo brunanum miklar 1798 sem hann verður vitni að í seinni dvöl sinni í borginni. En hryggjarstykkið í sögunni er frásögnin af Grænlandsárum hans.

Þetta er því nokkurs konar Íslandsklukka sem gerist á Grænlandi. Nú hefur mér alltaf fundist Íslandsklukkan vera heldur kuldaleg bók, flestar persónurnar eru þannig að það er ekki nokkur leið að hafa samúð með þeim: Aumur þjófur af Akranesi, sem lemur sitt heimilisfólk; hofróðan Snæfríður og karríerklifrarinn Arnas eru ekki fólk sem mann langar til að kynnast neitt nánar en af blaðsíðum. Einna helst að gömul móðir Jóns Hreggviðssonar vekji samlíðan margra lesenda … og svo hef ég einlæga samúð með Magnúsi í Bræðratungu en efast um að það hafi verið ætlun höfundar. En þrátt fyrir að aðalpersónur Íslandsklukkunnar séu leiðindalið þá er ákveðin reisn yfir þeim, því verður ekki neitað. Og sagan er fantagóð.

Persónugalleríið í Spámönnunum í Botnleysufirði er þó að mun andstyggilegra en persónur HKL. Aðalpersónan, Morten Falck, er ekki beinlínis illmenni heldur duglaus ræfill sem lætur reka á reiðanum um nánast allt. Enda er niðurstaða hans í bókarlok að það sé best að vera ekkert að reyna að breyta neinu heldur veltast áfram um sem ósjálfbjarga leiksoppur kringumstæðna. Líf hans er að sumu leyti eins og sigling inn Evighedsfjorden en fjörðurinn dregur nafn sitt af því hversu krókóttur og langur hann er: Menn halda æ ofan í æ að nú sjái þeir inn í fjarðarbotninn og að takmarkinu sé náð en það reynist einatt tálsýn því snöggbeygja er á firðinum.

Af og til í allri sögunni veltir Morten Falck fyrir sér tilvitnun í Rousseau: „Mennesket er født frit, og overalt ligger det i lænker!“ [„Maðurinn fæðist frjáls en er hvarvetna í hlekkjum“] en kemst svo sem ekki að neinni niðurstöðu sjálfur í þessum eilífu pælingum. E.t.v. á þessi klifun að segja lesandanum eitthvað og vissulega eru margir í hlekkjum hugarfarsins í þessari sögu, jafnvel raunverulega hlekkjaðir, en kannski síst af öllu Morten sjálfur: Hans óhamingja stafar miklu frekar af skorti á drift og dug (og of mikilli brennivínsdrykkju) en hlekkjum samfélagsins, a.m.k. ef ævi hans er skoðuð í heild.

Nær allir Danir í sögunni eru illmenni: rasistar, gróðapungar, jafnvel sadistar. Má ekki á milli sjá hvor er verri: Danski kaupmaðurinn í Sukkertoppen [Maniitsoq] eða danski kynferðisafbrotapresturinn í Holsteinsborg [Sisimut]! Sóðaskapnum í Kaupmannahöfn þessa tíma er lýst í smáatriðum, sama gildir um lýsingarnar frá Grænlandi. Væri gaman að telja hversu oft lús og óþef ber á góma í þessari bók.

Þeir sem hafa einhverjar hugsjónir og mætti telja ærlegt fólk eru Grænlendingarnir, ekki hvað síst trúsöfnuður Maríu Magdalenu og Habakuks, sem hefur aðsetur lengst inni í Evighedsfjorden [Kangerlussuatsiaq], allt þar til þeir dönsku ráðast á byggð þeirra, eyðileggja hús og kirkju og stugga íbúunum á brott. Raunar eru þeir hálfdönsku, bastarðar dönsku karlanna og grænlenskra kvenna, einnig almennilegt fólk upp til hópa en eiga erfitt uppdráttar því hvorki Danir né Grænlendingarnir samþykkja þá svo þeir eru eins konar paríar í samfélaginu.

Höfundurinn, Kim Leine, á nokkuð skrautlega fortíð, m.a. uppeldi hjá Vottum Jehóva og verandi læknadópisti um tíma. Hann hefur sjálfsagt víða leitað fanga um efniviðinn en nefnir í eftirmála að á Vefnum sé grein eftir Mads Lidegaard um Mariu Magdalenu og Habakuk sem hafi nýst sér vel. Ég las greinina eftir að hafa lesið bókina, hún heitir einmitt Profeterne i Evighedsfjorden og birtist í Tidsskriftet Grønland 1986. Satt best að segja virðist Kim Leine hafa gjörnýtt grein Lidegaard og hefði ekki verið úr vegi að tiltaka titil og vefslóð í tilefni þess, í eftirmálanum.

Sem sagt: Þetta er verulega ljót og andstyggileg saga. En hún er einkennilega heillandi eigi að síður svo ég mæli eindregið með henni. Hvað sem má um efnið segja er kristaltært að Kim Leine kann að segja góða sögu!

Myndin við færsluna er af kápu norsku þýðingarinnar. Lýsnar eru upphleyptar 😉 Hér er færsla um pælingarnar í hvernig bókarkápa yrði best. Að mínu mati hefur Norðmönnum tekist að gera miklu meir lýsandi umbúðir um þessa sögu en Dönum. Verður spennandi að sjá hvernig gripurinn lítur út á íslensku … ef tekst að koma þýðingunni út.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation