Litla stúlkan og sjálfsvígslagið

Undanfarið hafa margir deilt myndbandi af henni Angelinu Jordan (Astar) syngjandi Gloomy Sunday á  Facebook. Þetta er lag sem fjöldi tónlistarmanna hefur spreytt sig á en er einna þekktast í flutningi Billie Holiday og það er túlkunin sem Angelina tekur sér til fyrirmyndar. Aðdáun manna á söng Angelinu stafar ekki hvað síst af því að hún var bara sjö ára þegar myndbandið var tekið upp í Norske talenter keppninni (sem er sams konar og  Ísland Got Talent) snemma í þessum mánuði. Það er satt að segja ótrúlegt að heyra sjö ára barn syngja svona:

 

Lagið og textinn á sér ekki síður ótrúlega sögu. Það er dálítið snúið að greina milli þjóðsagna og þess sem satt kann að vera þegar leitað er upplýsinga um þetta lag á Vefnum. Helstu staðreyndir virðast þó þessar:

Lagið var samið af ungverska gyðingnum og píanóleikaranum Rezső Seress þá hann bjó í París 1932. Hann gerði sjálfur texta við lagið en þegar það birtist fyrst (útg. í nótnahefti) árið 1933 var það með texta ljóðskáldsins László Jávor og hét Szomorú vasárnap, þ.e. Sorglegur sunnudagur.

Texti Jávor hefst á lýsingu á sorglegum sunnudegi þegar mælandinn beið eftir ástinni sinni sem aldrei kom, beið með hundrað hvítra blóma. Síðan þá hafa allir sunnudagar verið sorglegir, tárin eru drykkur minn og sorgin brauð mitt, segir mælandinn og heldur svo áfram á þessa leið: Fylgdu mér á þeim hinsta sunnudegi. Þar bíða þín blóm, líkkista og prestur því þetta verður mín hinsta för. Augu mín verða opin svo ég get séð þig hinsta sinni, ekki hræðast augnaráð mitt því ég blessa þig jafnvel í dauða mínum, hinn hinsta sunnudag.

Fyrst heyrðist lag og texti á upptöku frá 1935 þar sem ungverski söngvarinn Pál Kalmár söng það og sló strax í gegn. (Krækt er í söng hans á Youtube.) Það varð einnig vinsælt víða annars staðar; Var hljóðritað á frönsku, japönsku og ensku (amerísku) strax árið 1936.

Í ameríska textanum eftir Sam M. Lewis er sjálfsvíg bókstaflega nefnt: „My heart and I have decided to end it all‟ en síðan dregið úr alvöru málsins með því að frumsemja viðbótarvers þar sem kemur fram að örvænting mælandans var draumur einn. Þetta er sá texti sem Billie Holiday gerði frægan 1941 og sá sami og Angelina litla syngur.

 

 

Hins vegar er texti Bretans Desmond Carter, sem Paul Robeson söng 1936, miklu nær frumtextanum og þar er engin viðbót sem gerir þetta allt að draumi einum:

 

Allar götur síðan 1935/36 hefur lagið verið vinsælt og fjöldi tónlistarmanna haft það á sinni efnisskrá, þar á meðal Björk (hér er ein útgáfan hennar á Youtube).

Ungverska sjálfsvígslagið

Meðal enskumælandi þjóða gengur lagið stundum undir nafninu „ungverska sjálfsvígslagið“ sem tengist nútímaþjóðsögum um hve mjög þetta lag og þessi texti hvetji til sjálfsvígs. Þær þjóðsögur hafa blómstrað frá því lagið varð vinsælt. Við hraðskoðun heimilda á Vefnum mátti finna allt frá pistlum um einhvers konar töframátt sem byggi í laginu sjálfu og fengi fólk með yfirnáttúrulegum hætti til að vilja kála sér, til lærðra greina um áhrifamátt skáldskapar og tónlistar til að hvetja til sjálfsvíga. Af þessari ástæðu, hermir sumstaðar á Vefnum, hefur söngur lagsins verið sums staðar bannaður til skamms tíma, t.d. í BBC, en leyft að flytja það í instrúmental-útgáfu.

Þeir sem þessari yfirnáttúru trúa vísa gjarna til hárrar sjálfsvígstíðni í Ungverjalandi á fjórða áratug síðustu aldar og sögum af því að hinir látnu hafi ýmist tengst laginu (t.d. vélritað textann) eða skilið eftir sig eitthvað sem tengdist því. Í þessum sögum er auðvitað litið framhjá því að lag og texti varð vinsælt á tímum heimskreppunnar miklu og að sjálfsvígstíðni í Ungverjalandi hefur lengstum verið með þeirri hæstu í Evrópu.

Svo breiddist þessi nútímaþjóðsaga út eins allar góðar þjóðsögur og má nefna sem dæmi frétt New York Times þann 6. apríl 1936 af þrettán ára pilti í Michigan sem hengdi sig með textann í buxnavasanum eða frétt Time Magazine 25. jan. 1937 um 24 ára mann í Indianapolis sem greiddi söngvara til syngja fyrir sig lagið á skemmtistað og bjóst þar næst til að drekka fullt glas af eitruðum bjór en var stöðvaður á síðustu stundu. (Má þakka fyrir að textinn hefur aldrei verið þýddur á íslensku.)

Og höfundur lagsins, Rezső Seress, framdi vissulega sjálfsmorð. En það var ekki fyrr en rúmum 35 árum eftir að hann samdi það; Árið 1968 fleygði hann sér útum glugga á háhýsi í Búdapest, lifði fallið af en kláraði verkið með að kyrkja sjálfan sig með vír á sjúkrahúsinu. (Öllu sennilegra er að vist í fangabúðum nasista og slæmt þunglyndi hafi valdið því að Rezső Seress tók þennan kost en það er svo sem óþarfi að spilla góðri þjóðsögu með svoleiðis upplýsingum.) Textahöfundurinn, László Jávor, lést hins vegar af hjartaslagi árið 1956 svo textinn hefur væntanlega ekki jafn uggvænleg áhrif og lagið.

Það þarf varla að taka fram að bent hefur verið á líkindi Angelinu litlu Jordan og og Amy Winehouse, bæði í útliti og tónlistarsmekk, og fylgja þeim ábendingum jafnvel illspár. Svo ekki sé minnst á að lagið sem Angelina valdi til að slá í gegn lofar ekki góðu … trúi menn þjóðsögum.

 

Heimildir og frekari upplýsingar

Angelina Jordan

Gloomy Sunday. Snopes.com

Gloomy Sunday. Wikipedia.org

Stack S, Krysinska K, Lester D. Gloomy Sunday: did the “Hungarian suicide song” really create a suicide epidemic? Omega (Westport) 56(4), s. 349-358. 2007-2008

 

Þessi pistill birtist fyrst í Kvennablaðinu, 27. mars 2014.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation