Leit í læknisfræðilegu efni á ensku á Netinu

Þetta dæmi er af sjúklingi sem ekki hefur fengið bót meina sinna í heilbrigðiskerfinu; hefur gengið milli lækna af ýmsu tagi og prófað ýmis læknisráð án árangurs. Sjúklingurinn er með verki sem ekki finnst skýring á, í þessu tilviki í kjálka. Í stað þess að læknar upplýsi hann um að í fjölmörgum tilvikum kunni læknisfræðin enga skýringu á verkjum eða ýmsum öðrum krankleik er sífellt lagt til að sjúklingurinn leiti til nýs og nýs sérfræðings í nýjum og nýjum greinum. Sjúklingurinn nennir loks ekki að taka þátt í frekari læknisleik og ákveður að kynna sér málið sjálfur.

Forsagan felur í sér að sjúklingurinn hefur lesið sér talsvert til á „ófræðilegum“ vefsíðum, t.d. Wikipedia-síðum eða upplýsingasíðum fyrir almenning. Það er almennt langbest að byrja á að lesa svoleiðis yfirlit, þótt ekki sé nema til að læra helsta orðaforða um sinn sjúkdóm.

Hvar á að leita upplýsinga?

Efni sem læknar taka mark á (þ.e. ritrýnt efni eftir aðra lækna eða þá sem hafa háskólagráðu í heilbrigðisvísindum) er skráð í ýmsa gagnabanka. Það er ekki sérlega árangursríkt að leita beint í þeim, aðallega af því það er svo seinlegt. Gagnabankarnir henta kannski betur læknum sem vilja velja bestu bitana fyrir sig, stunda það sem kallað hefur verið á lélegri íslensku „kirsuberjatínsla“,  þ.e.a.s. leita staðfestingar fræðinga á því sem fellur að þeirra eigin fyrirfram skoðun.

 

Hvernig á að leita upplýsinga?

Langöflugasta leitarverkfærið er enn og aftur Google, í þetta sinn sá angi þess sem kallaðist „Fræðasetur Google“, þ.e.a.s. scholar.google.com.  Þetta tól Google leitar í fræðigreinum í tímaritum, sem mörg eru aðgengileg í landsaðgangi, fræðibókum,en hluti þeirra er oft aðgengilegur á Google books, og fleiru efni. Það er auðvelt að stilla leitartólið og því tiltölulega fljótlegt að finna þær upplýsingar sem notandi er á höttunum eftir. Síðan má nota efni úr þeim, t.d. heimildir sem þær vísa í, til enn markvissari leitar (ef sjúklingurinn hefur hug á að gerast sérfræðingur í eigin sjúkdómi).

Hér að neðan sést skýringarmynd af Google scholar, stillingum og hvert krækjur vísa. Útskýringar eru fyrir neðan myndina. Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.

Stillingar á Google Scholar

Lengst til vinstri eru stillingar sem voru valdar áður en leit hófst. Hér var valið að leita að efni frá 2010 til dagsins í dag. Stillt var á „Sort by relevance“ sem þýðir að upplýsingum er raðað eftir því hve vel þær tengjast leitarorðinu/leitarorðunum. Hakað var við „include citations“ til að sjá hvar hefur verið vitnað í efnið (sem gæti gefið vísbendingar um gæði þess).

Leitarorð geta verið mörg, í þessu tilviki er leitað að „atypical facial pain“ (ódæmigerðum andlitsverk). Önnur leitarorð sem hefðu komið til greina væru „myofascial face pain“ (andlitsverkir sem tengjast bandvefsvandamálum), „facial neuralgia“ (taugaverkir í andliti), „persistent idiopathic orofacial pain“ (stöðugur óútskýrður verkur í neðri hluta andlits eða munnholi) o.s.fr. Sjúklingurinn veit nú þegar að hann er ekki með TMD (Temporomandibular disorder, þ.e.a.s. einhverja skemmd sem tengist kjálkalið) og ekki með Trigeminal neuralgia (vangahvot, verki sem tengjast þríburatauginni) svo hann er ekkert að ómaka sig við að leita eftir þeim leitarorðum.

Fyrsta greinin sem kemur upp er aðgengileg sem vefsíða en einnig fylgir krækjan Landsaðgangur. Sé smellt á Landsaðgangur opnast nýr gluggi sem er hluti af landaðgangsleitarvélinni (bein slóð á landsaðgengi að greinum er hvar.is). Í þeim glugga kemur fram í hvaða gagnabanka greinina er að finna, í hvaða tímariti hún birtist, hvenær, á hvaða blaðsíðum o.s.fr. Vilji maður lesa grein í landsaðgangi er smellt á Go. Þá opnast greinin í viðkomandi tímariti, í þessu tilviki Scandinavian Journal of Pain. Þess ber að geta að oft er nýjasti árgangur fræðitímarits ekki aðgengilegur í landsaðgangi.

 

Hvernig á að meta leitarniðurstöðurnar?

Sjúklingurinn sem er að leita sér upplýsinga tekur eftir því að þótt Google Scholar raði greininni úr Scandinavian Journal of Pain efst í leitarniðurstöðum (vegna þess að leitarorðin koma fyrir í röð snemma í greininni) virðist þetta ekki talin mjög merkileg grein (eða háttskrifað tímarit). Það sést á því að einungis 4 hafa vitnað í hana síðan hún birtist: Cited by 4 gefur sumsé ákveðnar vísbendingar.

Neðar á fyrsta skjá birtast mun álitlegri krækjur (smelltu á myndina til sjá hana stærri):

Vægi greina á Google Scholar

 

Krækja í efni sem hefur verið vitnað í af 104, stærstur hluti þeirra eru væntanlega fræðimenn sem vitna til þessa efnis í sínum fræðiskrifum, virðist álitleg. Og skv. krækjunni lengst til hægri er efnið aðgengilegt sem pdf-skjal á rússnesku vefsetri (sem kann að vera vegna þess að Rússar eru ekki píetistar í höfundarétti og birtingin því kannski ekki fullkomlega lögleg … en það varðar sjúklinginn svo sem ekkert um. Raunar er heil bók aðgengileg á þessari slóð þótt Google kræki hér einungis í tólfta kafla hennar.). Það styður einnig meint vægi þessarar greinar að hún hefur birst í 8 útgáfum.

Sjúklingurinn kemst svo að því að þessi grein er í rauninni kafli í bók, Evidence-Based Chronic Pain Management, útg. 2010, og er afar gagnlegt yfirlit yfir andlitsverki af ýmsum toga og jafnt „sannreynd“ sem möguleg læknisráð við þeim. Meginniðurstaða umfjöllunarinnar er, eins og sjúkling grunaði, að læknavísindin vita sáralítið um svona kvilla og flest læknisráðin eru byggð á kerlingabókum lækna og ágiskunum en ekki öruggum rannsóknum.

Önnur grein af fyrsta skjá sem virðist fýsilegt að skoða er þessi sem 42 hafa vitnað í og er aðgengileg á 11 stöðum, birtist í tímaritinu Pain 2010. Þessi grein er aðgengileg sem pdf-skjal, auk þess að vera í landsaðgangi.  Miðað við titilinn fjallar hún um mögulegar orsakir andlitsverkja. Þetta er dæmigerð vísindagrein, skrifuð inn í ákveðið snið (template) eins og þær eru flestar.

Í næstu færslu verður fjallað um snið dæmigerðra læknisfræðigreina og hvernig sjúklingur getur nánast strax metið hvort borgar sig að lesa gegnum svoleiðis grein. Einnig verður fjallað um orðaforða í svona greinum; hvernig finnur maður hvað orðin þýða á íslensku og hvað er hægt að gera þegar íslensku heitin (íðorðin) eru gersamlega óskiljanleg?

Þessi færsla er framhald af færslunum:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation