Prjónagaldur

Prjónagaldur

Prjónagaldur

Prjón er göldrum líkast: Með afar einföldum verkfærum, prjónum, og mismunandi merkilegum þræði má skapa ótrúlegustu flíkur og form; Áferðin getur verið fíngerð sem kónglóarvefur eða gróf og hnausþykk og allt þar á milli, lögunin getur verið hver sem er.

Prjón og galdrar tengjast raunar svolítið. Fyrsta nafngreinda prjónakonan í Noregi fékk nafn sitt skráð í söguna vegna þess að hún var ákærð fyrir galdra (raunar einnig þjófnað og flæking). Þetta var Lisbet Pedersdatter sem var ákærð ásamt Karen Eriksdatter  fyrir bæjarréttinum í Stavanger árið 1634.

Þær Karen og Lisbet voru förukonur og sáu sér m.a. farborða með göldrum gegn greiðslu og hnupli þegar tækifæri gafst. Í málsskjölum kemur fram Karen hafði haft Lisbet í þjónustu sinni í eitt ár. Lisbet skyldi bera föggur Karenar og prjóna sokka handa henni: „at schulle bere hendes goeds med hende. och spede hosser for hennde‟. Líklegt er talið að Karen hafi selt sokkana sem Lisbet prjónaði. Og að launum fékk Lisbet fæði og klæði.

Í fórum Lisbetar fundust smávegis galdragræjur en auðvitað neitaði hún að kunna nokkuð til fjölkynngi. Ég gat ekki séð hvaða refsing henni var gerð. En þakka má því að galdraákærur voru teknar alvarlega á þessum tíma að nafn og nokkur deili á prjónakonunni norsku hafa varðveist. Yfirleitt er talið að Norðmenn hafi lært að prjóna um svipað leyti og Íslendingar (kannski eilítið seinna þó) þ.e.a.s. seint á sextándu öld eða í upphafi þeirrar sautjándu, svo dæmi Lisbetar Pedersdatter er ómetanleg gömul heimild í norskri prjónasögu.

 

Á galdrasafni í Cornwall héraði á Englandi, The Museum of Witchcraft, eru til sýnis tól til galdra með prjóni. Þetta eru glerprjónar og hálfunnið prjónles úr svartri ull. Myndin efst í pistlinum er einmitt af galdraprjóns-græjunum, birt með leyfi safnsins.

Nú er óvíst hversu gömul þessi tiltekna galdraaðferð er en leiðbeiningarnar sem fylgja eru svona (lauslega snarað):

Nota skal nornaprjóna, þ.e. grófa, sljóa (ekki oddhvassa) prjóna úr gleri. Svart ullargarn hentar til bölbæna og hefndargaldurs, aðrir litir eru prýðilegir til hvítagaldurs. Sem hver lykkja er prjónuð skal söngla galdurinn (bölbænirnar eða annan galdur). Þegar þetta þykir hafa verið endurtekið nógu oft er prjónlesið tekið af prjónunum og brennt.

Eigi einhver prjónakona harma að hefna mætti kannski prófa svona galdur?

 

Frekari upplýsingar má sjá hér:

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation