Geðveik handavinna

Emil Kraepelin (1856-1926) var þýskur geðlæknir sem stundum er kallaður „faðir nútíma geðsjúkdómagreininga“. Hann lagði mikið kapp á að stúdera geðsjúka og flokka geðsjúkdóma eftir einkennum. Áhrif Kraeplin á geðlækningar um og fyrir aldamótin 1900 voru gífurleg. Hann gaf út marga doðranta um niðurstöður sínar og birti þar m.a. ljósmyndir af dæmigerðum geðsjúklingum enda taldi hann að mætti talsvert styðjast við útlitið eitt og sér til að greina sjúklinginn rétt. Fleira mátti nota til sjúkdómsgreiningar að mati Kraepelin, svo sem handskrift og jafnvel hannyrðir sjúklinganna.

Í sumum rita sinna lýsir Kraepelin sárasóttargeðveiki, þ.e. geðveiki af völdum sýfilis (dementia paralytica), sem var skelfilegur ólæknandi sjúkdómur og helsta áhyggjuefni geðlækna fram yfir heimstyrjöldina síðari en þá kom pensillín á markað og sárasótt varð auðlæknanleg. Kraepelin segir:

Ég á smásafn af hannyrðum sýfilisgeðveikra kvenna. Þar eru léleg vinnubrögð áberandi, stórar lykkjur, meiriháttar villur og lykkjuföll. Samfara þessu kemur geðveikin fram í undarlegri lögun, sérstaklega sokkanna; einn sjúklingur prjónaði þrönga endatotu á stærð við fingur á ólögulegan sokkabolinn, annar prjónaði endalausan strokk, sá þriðji lokaði sokknum í báða enda.
(Emil Kraepelin. Psychiatrie: Ein Lehrbuch für Studirende und Aerzte, útg. 1899, hér þýtt eftir enskri útgáfu frá 1913.)

Kraepilin insane knitting

Sokkurinn sem var lokaður í báða enda.

Líklega er það liðin tíð að geðlæknar greini sjúklinga eftir vinnubrögðum í hannyrðum.

 

Jakki Agnesar

Agnes Richter's jacket

Jakki Agnesar Richter

Af öðru tagi er hinn frægi jakki Agnesar, sem varðveittur er á Prinzhorn safninu í Heidelberg, Þýskalandi. Jakkinn var ekki verkfæri til sjúkdómgreiningar heldur mögulega eina verkfærið sem sjúklingurinn hafði til að tjá sig.

Agnes Richter var þýsk saumakona sem var lögð inn á geðsjúkrahúsið Hubertusburg (ekki langt frá Leipzig) laust fyrir aldamótin 1900. Nær ekkert er vitað um ævi hennar og sjúkdóm en giskað hefur verið á að hún hafi þjáðst af geðklofa.

Þessi jakki var var hluti af einkennisklæðnaði sjúklinganna í Hubertusburg, úr grófgerðu gráleitu lérefti og stimplaður með þvottanúmeri/númeri sjúklingsins, 583. Meðan á sjúkrahúsdvöl Agnesar stóð saumaði hún jakkann sinn allan út. Aðallega eru útsaumuð orð og setningar en einnig teikningar.

 

Jakki Agnesar Richter

Jakki Agnesar Richter

Erfitt eða ómögulegt er að lesa margt sem saumað er í jakkann. Sumstaðar eru ný og ný orð saumuð ofan í eldri orð, leturgerðin er illlæsileg og textinn sem tekist hefur að lesa úr er samhengislaus. Meðal þess sem lesið hefur verið úr eru orðin „ég“ og „minn“, sem eru margendurtekin; „börn“, „systir mín“, „bróðir frelsi? “, „hvítu sokkarnir mínir“, „sokkarnir mínir eru 11“, „Ég er í Hubertusburg / jarðhæð“, „kirsuber“, „engin kirsuber“ o.fl. Fyrir neðan „Ég er í Hubertusburg / jarðhæð“ er klausan „95 A. D. / A. I. B“ sem hefur verið túlkuð sem svo að Agnes hafi lokið við jakkann 1895. Innan á vinstri boðungi stendur „19. Juni 73 geb“ sem e.t.v. er þá fæðingardagur Agnesar. Víðar má lesa ártöl og eitthvað um fatnað (t.d. „jakkinn minn“) en margt er ólæsilegt og engan veginn hægt að vita í hvaða röð á að lesa textann, í hvaða átt á að lesa hann eða hvaða klausur, jafnvel einstök orð, heyra saman. Þvottanúmerið eða sjúklingsnúmerið 583 er saumað út um allt í jakkann.

Ermin á jakka Agnesar

 

Það gerir heldur ekki auðveldara fyrir að Agnes hefur sprett upp jakkanum og saumað hann saman upp á nýtt, t.d. þannig að önnur ermin er nú úthverf. Á ytra byrði er einungis útsaumur á ermunum en jakkinn er þakinn útsaumuðum orðum á röngunni. Sumir hafa túlkað þetta sem svo að Agnes hafi viljað hafa orðin næst sér. Kannski var hún að reyna að fullvissa sig stöðugt um að að hún væri „ég“ en ekki bara sjúklingur númer 583 á Hubertusburg-geðspítalanum?

 

Jakki Agnesar

Útsaumur á röngunni

Titilmynd og myndin af ermi á jakka Agnesar eru birtar með leyfi Liz Aldag, sem tók myndirnar. Þær birtust upphaflega á blogginu hennar, The Lulu Bird, í febrúar 2009.

 

Frekari upplýsingar um jakka Agnesar Richter má fá hér:

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation