Jean-Martin Charcot

 

napoleon_neurosis_litilJean-Martin Charcot (1825-1893) var afar mikils metinn franskur taugalæknir um sína daga og er í sumu enn. Hann skilgreindi fyrstur hreyfitaugungahrörnun (MND, stundum kölluð Charcot veikin í Frakklandi), heila- og mænusigg (MS-sjúkdóminn eða multiple sclerosis), jók mjög við þekkingu manna á Parkinson-sjúkdómnum, greindi fyrstur tabes dorsalis (mænutæringu, sem er taugasjúkdómur af völdum sárasóttar) og blandaða hreyfitaugahrörnun (ALS eða Lou-Gehrigs-sjúkdóm). Seinni hluta ævinnar snéri hann sér að því að rannsaka hysteriu.

 

Jean-Martin Charcot var næstelsti sonur vagnasmiðs í París. Þótt fjölskyldan tilheyrði verkamannastétt var hún alls ekki fátæk en svo sem heldur ekki auðug. Til var nægt fé til að mennta einn sonanna og faðir hans ákvað að það skyldi vera Jean-Martin. Elsti sonurinn átti að taka við vagnasmiðjunni og hinir tveir að ganga í herinn. Þótt Charcot væri sérlega listfengur, unnandi bókmennta og ágætur teiknari frá unga aldri, sá hann að listnám væri heldur ótryggt veganesti og veðjaði í staðinn á læknisfræði til frægðar og frama. (Þótt það komi efni þessa færsluflokks ekkert við læt ég þess getið að Jean-Martin Charcot var faðir Jean-Baptiste Charcot, læknisins og pólfarans knáa sem fórst með skipi sínu Pourquoi-Pas? þann 16. september 1936 við Álftanes á Mýrum).

 

Salpêtrière-spítalinn

Það kom e.t.v. einhverjum á óvart þegar hinn metnaðargjarni læknir Jean-Martin Charcot sóttist eftir yfirlæknisstöðu á Salpêtrière-spítalanum í París síðla árs 1861 og fékk starfið. Þessi stofnun átti sér langa sögu, var upphaflega byggð sem saltpétursgeymsla fyrir púðurgerð (þaðan er nafn spítalans dregið), síðar varð þetta geymsla fyrir vandræðakonur af ýmsu tagi, loks einhvers konar sjúkraheimili fyrir konur. Salpêtrière á sinn sess í sögu geðlækninga því það var þarna sem Philippe Pinel leysti geðsjúkar konur úr hlekkjum árið 1795, svo sem frægt er (krækt er í málverk sem sýnir atburðinn).  Enn þann dag í dag er Salpêtrière í fullum rekstri, nú sem almennt sjúkrahús, meira að segja virtur kennsluspítali, og heitir Pitié-Salpêtrière. Salpêtrière kemur því einnig við sögu nútímans, með allt öðrum hætti þó, má nefna að Díana prinsessa var flutt með hraði á þennan spítala eftir hörmulegt bílslys þann 31. ágúst 1997. Menn vita hvernig það fór.

 

Þegar Charcot hóf störf Salpêtrière voru um 5000 konur á spítalanum, um helmingurinn taldur geðsjúkur en hinar voru fátæklingar sem voru illa farnir af ýmsum líkamlegum sjúkdómum, þar á meðal flogaveiki og hysteríu. Þessir ólíku sjúklingar voru meira og minna í einni kös í þessu „stórfenglega hæli mannlegrar eymdar“ sem Charcot kallaði svo. Þetta virtist ekki vera lokkandi pláss fyrir framagjarnan lækni. En Charcot sá tækifæri þar sem aðrir sáu tóm vandræði.

 

Salpêtrière var stærsti spítali í Evrópu og eiginlega „borg í borginni“ París. Þarna voru meir en hundrað byggingar af ýmsu tagi og frá ýmsum tímum, þröngar götur og stígar á milli þeirra, garðar og port og skúmaskot. Þarna var ræktað grænmeti, rekið pósthús, þvottahús sem þvoði allan þvott fyrir ríkisrekna spítala í París, saumastofur o.m.fl. Sjúklingar unnu eftir mætti á þessum stöðum, ásamt því að vera „gangastúlkur“, þ.e.a.s. aðstoða hjúkrunarkonurnar, og þágu lúsarlaun fyrir. Í Salpêtrière var einnig slökkvilið, tvær kirkjur (mótmælenda- og kaþólsk), verslun, kaffhús og starfandi vínkaupmaður. Þar voru meira að segja haldin böll; Geðveiku böllin á Salpêtrière voru mjög vinsælt þáttur í árlegu karnivali Parísarbúa og vel sótt af sjúklingum, læknum og öðru starfsfólki spítalans og borgarbúum. (Sjá nánar Bal des folles à la Salpêtrière á Wikipedia.)

gedveikt_ball

 

Charcot varð óumdeildur leiðtogi þessarar „borgar í borginni“ og eftir því sem hróður hans óx gáfu dagblöðin honum titla á borð við „Caesar Salpêtrière“ eða „Napoleon taugasjúkdómanna“ („Napoleon de la nevrose“).

Og sem orðstír Charcot óx og hann komst til æ meiri virðinga í læknasamfélagi Parísar (og Frakklands og raunar allrar Evrópu) lét hann gera ýmsar umbætur á sinni aðstöðu: Sett var upp fyrsta flokks rannsóknarstofa til að rannsaka vefsýni með fullkomnustu smásjám þeirra tíma, stór fyrirlestrarsalur var byggður enda vildi fjöldi manns hlýða á dr. Charcot og njóta sýninga hans, ekki síst eftir að hann snéri sér að hysteríurannsóknum og meðfylgjandi hysteríusýningum (sem oftast eru kallaðar fyrirlestrar í umfjöllun lækna). Charcot breytti sem sagt Salpêtrière úr stórfenglegu hæli mannlegrar eymdar í frábært kennslusjúkrahús. Hann laðaði að ýmsa afburðalækna og aðra fræðimenn sem dáðust óspart að honum (a.m.k. meðan hann var lífs), s.s. Joseph Babinski (sem uppgötvaði Babinski-viðbragðsprófið), Georges Gilles de la Tourette (sem fyrstur lýsti Tourette sjúkdómnum, raunar var það Charcot sjálfur sem kom því til leiðar að sjúkdómurinn væri kenndur við hann); Alfred Binet (annar höfundur greindarprófs sem enn notað) og Sigmund Freud, svo einhverjir séu nefndir.

 

Af hverju vildi Charcot ná yfirráðum yfir Salpêtrière?

Fyrir taugalækni sem vildi uppgötva eitthvað nýtt var Salpêtrière kjörið pláss. Þarna ægði saman alls konum með alls konar krankleika, enda kallaði Charcot standið á Salpêtrière „ringulreið heilsubrestanna“ og vatt sér svo í að sortéra og greina á vísindalegan hátt. Hann hélt mjög nákvæmar sjúklingaskrár og brúkaði ýmsar nýstárlegar aðferðir til að mæla sjúkdómseinkenni, t.d. að festa fjaðrir á höfuð sjúklinga til að greina milli mismunandi skjálfta eða titrings og að nýta nýuppfundið spygmograph (frumstæðan púlsmæli) sömuleiðis til að mæla titring og skjálfta. Í sjúkraskránum eru ekki bara textar heldur heilmikið af teikningum og kom sér vel að Charcot var drátthagur, sem og margir hans aðstoðarmenn.

Charcot var einlægur dýravinur og gerði því aldrei kvikskurð á dýrum í rannsóknarskyni. Stór hluti sjúklinganna á Salpêtrière voru gamlar konur eða konur komnar að fótum fram. Þess þurfti því yfirleitt ekki lengi að bíða að sjúklingur sem hafði verið kyrfilega mældur og veginn og sjúkdómseinkenni hans vandlega skráð í riti og teikningum ræki upp tærnar svo hægt væri að kryfja hann. Með því að bera saman vefsýni við ítarlega skráð einkenni ýmiss krankleika („klínísk-pathológíska aðferð“ kallar höfundur greinar á íslensku þetta, sjá Sigurjón B. Stefánsson. 2010) komst Charcot ótrúlega langt áleiðis í að skilja og greina uppruna eða einkenni ýmissa taugasjúkdóma, s.s. nefnt var í upphafi þessarar færslu. Og komst hjá því að gera dýratilraunir – síst af öllu vildi hann meiða dýr.

Af hverju snéri Charcot sér að hysteríu?

Tja, ástæðan er nánast tilviljun. Salpêtrière var löngum yfirfullt og um 1870 tók stjórn spítalans þá ákvörðun að hann skyldi aðallega sinna „einfaldri flogaveiki“, þ.e.a.s. flogaveiki- og hysteríusjúklingum. Flestir geðveiku sjúklingarnir voru fluttir á annan spítala og öðrum tvístrað.

Charcot áleit að hystería væri taugasjúkdómur, ekki geðsjúkdómur. (Raunar hafði hann engan áhuga á geðsjúkdómum, sem m.a. sést í því að í öllu því greina-og ritaflóði sem frá honum kom um ævina er einungis ein grein um geðsjúkdóm (nánar tiltekið um samkynhneigð/hómósexúalisma) sem hann er skráður höfundur fyrir ásamt geðlækni (alienistar voru þeir kallaðir á þessum tíma) – og flestir telja að Charcot hafi einungis ljáð nafn sitt en ekki komið nálægt skrifum greinarinnar.)

Hann tók því til óspilltra mála að greina hysteríu og leita uppi þá vefrænu skemmd sem ylli sjúkdómnum, alveg eins og hann hafði greint og fundið orsakir annarra taugasjúkdóma. Um þá iðju Charcot fjallar næsta færsla.

 

Heimildir:

Hustvedt, Asti. 2011. Medical Muses: Hysteria in Nineteenth-Century Paris. W. W. Norton & Company, New York og London.

Régnier, Christian. 2010. Gunpowder, madness, and hysteria: the birth of neurology in France Vignettes of five great neurologists who made history at the Salpêtrière Hospital in Paris: Jean-Martin Charcot (1825-1893), Pierre Marie (1853- 1940), Joseph Babinski (1857-1932), Jean Lhermitte (1877-1959), Paul Castaigne (1916-1988). Medicographia. 2010;32, s.310-318

Sigurjón B. Stefánsson. Taugalæknisfræði sérgrein verður til. Læknablaðið 2010/96. Fylgirit 64, s. 59-102.

 

Myndin af Charcot sem fylgir þessari færslu var gjöf hans til Sigmund Freud 1886.

Neðri myndin er af geðveiku balli á Salpêtrière og birtist í Le Monde Illustré þann 22. mars 1890.

 

Þessi færsla tilheyrir færsluröð um hysteríu, er önnur í röðinni. Sú fyrsta er Hystería eða móðursýki.

 

One Thought on “Jean-Martin Charcot

  1. Pingback: Eggjastokkapressa o.fl. við móðursýki | Blogg Hörpu Hreinsdóttur

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation