Hystería eða móðursýki

Í þessari færslu og þeim næstu verða skoðaðar hugmyndir lækna um hysteríu (móðursýki), dularfullan sjúkdóm sem einkum hrjáir kvenfólk. Ástæður þess að ég hef áhuga á að skoða þetta efni eru nokkrar. Má nefna að að ég tel að rekja megi ýmsar hugmyndir nútíma geðlækna, eða öllu heldur goðsagnir sem þeir hafa fyrir sannar, til gamalla hugmynda um hysteríu. Sömuleiðis má benda á að hystería lifir enn góðu lífi í greiningarlyklum geðsjúkdóma þótt undir öðrum heitum sé. Vísindalegar rannsóknir dr. Charcot á hysteríu sem urðu til að koma sjúkdómnum virkilega í tísku meðal geð-og taugalækna á sínum tíma er líka fróðlegt að skoða til að átta sig á hvers lags vísindi voru (og jafnvel eru) stunduð í geðlækningum en ekki hvað síst til að varpa ljósi á samspil sjúklinga og lækna í sjúkdómsgreiningu og meðferð geðsjúkdóma.

Bloggið mitt er öðrum þræði mitt eigið gagnasafn svo þessi færsla einkennist talsvert af mjög löngum beinum tilvitnunum í texta annarra, sem ég get svo vísað í síðar í samantekt/umfjöllun um efnið.

 

Hystería er gamalt sjúkdómsheiti og er nafnið dregið af gríska orðinu hystera (ὑστέρα) sem þýðir leg/móðurlíf. Á íslensku var til skamms tíma notast við orðið móðursýki til að þýða hysteríu, íslenska orðið er líklega hugsað eins og orðið hystería. Seint á síðustu öld tók orðið sefasýki við en núna eru notuð ógagnsærri orð yfir hysteríu.

Frá fornu fari var legið talið óstöðugt líffæri sem gat flækst um líkama konunnar: „ […] móðurlífið lyfti sér upp úr grindinni og teygði sig upp í holið (ascensus uteri), jafnvel alla leið upp í háls (globus hystericus)‟. (Tilvitnun í Hirsch 1886 í Vilmundur Jónsson. 1949:264). Allt fram á nítjándu öld (og jafnvel lengur) röktu menn ýmsa kvilla sem hrjáðu konur til móðurlífsins, ekki hvað síst geðræna kvilla, þótt tengsl kvillanna við líffærið væru oft á tíðum algerlega óljós.

Síðari hluti nítjándu aldar og upphaf þeirrar tuttugustu var gullöld hysteríunnar, má segja að hysteríufaraldur hafi geisað um Evrópu á þeim tíma. Þótt karlar væru greindir hysterískir af og til var hysterían fyrst og fremst kvennasjúkdómur.

 

Hystería á Ísland á fyrri tíð

Hér á Íslandi er hysteríu lítið getið fyrr en komið er seint á átjándu öld, eftir því sem ég kemst næst. Seinni tíma læknar, t.d. Sigurjón Jónsson, sem skrifaði bókina Sóttarfar og sjúkdómar á Íslandi 1400-1800, útg. 1944, hafa viljað túlka ýmsar lýsingar í eldri ritum sem hysteríu en eru þá að túlka textana út frá eigin hugmyndum um sjúkdóminn hysteríu, sem segir vitaskuld takmarkað um hugmyndir manna á þeim tíma sem þeir voru skrifaðir. Þó má finna einstök gömul íslensk dæmi um sjúkdómsgreininguna hysteríu, á sautjándu og átjándu öld.

Sr. Þorkell Arngrímsson, sem var menntaður læknir auk prestskapar, getur hysteríu með nafni einu sinni í sinni lækningadagbók, sem hann hélt frá 1652 og líklega til æviloka 1677. Frumhandrit Þorkels hefur ekki varðveist en uppskriftin er talin áreiðanleg. Í þessu eina dæmi, merkt XX og ársett 1657, segir af fimmtugri konu sem haldin er „dolor hystericis‟, með miklum kvíða og svefnleysi. Sr. Þorkell byrjaði á því að „hreinsa líkamann‟ með laxerandi lyfi leyst upp í vínanda (spiritus aureus), og gefa einhver jurtalyf sem áttu að virka sérstaklega á legið (herba uterina). Til að vinna á svefnleysinu gaf hann daglega ópíumlyf (Pilulae Laudani uterinae Hartmanni) og ráðlagði jafnframt að samsett duft, tæp 4 grömm, skyldi leysa upp í hvítvíni og drekka í einum sopa á hverjum degi. Í duftinu var hvítt raf (succinum albi), mulin hjartarhorn (cornu cervi philosophice praeparatum) og rauður kórall (corallium rubrorum). Ekki segir hve marga daga beita skyldi þessum lyfjum og ekki segir af árangri meðferðarinnar.

Vilmundur Jónsson landlæknir, sem sá um útgáfu læknadagbókar sr. Þorkels árið 1949, telur að í sex öðrum sjúkdóms/lækningaskrám Þorkels séu dæmi um móðursýki. Í þeim notar Þorkell ekki orðið hystería og er ómögulegt að vita hvort hann taldi sjúkdómseinkennin til hysteríu eða hvort það er síðari tíma túlkun Vilmundar Jónssonar.

Rétt tæpum 140 árum síðar lýsir Sveinn Pálsson hysteríu ítarlega í greininni Tilraun að upptelja sjúkdóma þá er að bana verða og orðið geta fólki á Íslandi, sem birtist í Riti þess (konunglega) íslenzka lærdómslistafélags árið 1794. (Titillinn krækir í umfjöllunina um hysteríu, s. 128-130, á timarit.is.) Sveinn rekur líklegar orsakir sjúkdómsins og bendir á læknisráð. Mörg læknisráðanna eru móðins nú á tímum við ýmsum þeim krankleik sem illa gengur að lækna með hefðbundinni læknisfræði eða eru talinn æskilegur lífstíll.

Hér er texti Sveins Pálssonar í grein 58 stafréttur en ég hef bætt í hann greinaskilum:

Móðursýki (hysteria, Modersyge) er almennr kvennasiúkdómr hér á landi, á þó eckert skyldt við kélisýki eðr brókarsótt (erotomania five [sive?] nymphomania), sem margra flökku [?] lækna meining er. Siúklingar þessir quarta þráfalt um veiki sína, skíra nærsta ítarliga og fabreitit frá henni, plagaðar eru þær sérdeilis af ropum, vindgángi og uppþembu, finnz þeim køckr stígi uppí hálsinn, og þær ætle að missa andann, stundum er sem bandi sé reyrt um bríngsmalirnar og brióstit, þær eru aldrei nema at geispa [?], þiáz af hrolli, kulda og einhverslags umsløgti í kroppnum enda þótt heitt sé í veðri, stundum hlaupa sina drættir hingat og þángat í kroppnum ímist sem kaldt vatn renni milli skinns og hørunds, ímist með fliúgandi hita, sem í augabragdi þýtur uppí andlit þeim, þær fá hræðslu og sinnis óróleik af hveriu einu, jafnvel aungvit og niðrfalls teygiur.

Þvag þeirra er optast klárt og mikit, harðlífi, hiartsláttr, høfuðpína og þúngsinni er þeim eiginlegt, kallar fólk þetta alt køldu, uppstíganda, giørninga, og nær því alt er nøfnum tiáer at nefna.

Høfuð orsakir þessarar veiki meðal almúga eru: allra handa úreglur, og smá meinsemdir í moðirlífinu, illa með høndlaðar sóttir, mánaðar teppa, og harðar fæðingar; enn fleira hiálpar hér til, svo sem viðkvæmni sina-kerfisins, sem kvennfólki er eigenligra en karlmønnum, bráðlindi, sorg, illa luckaðr kiærleiki, og fleira þvílikt;

lækníngarmátin í veiki þessari er næsta lángsamr, og einkum innifalin í nákvæmri lifnaðar orðu; allskyns jarðargróði og maturtir, skulu þessara siúklinga helsta fæða á øllum ársins tíðum, einkum á morgna eðr framann af deigi, enn minna af kiøti, feitætum, fínu brauði eðr sérmeti, allskyns áfeingir dryckir skaða, enn fyri dagligann dryck er eckert betra en nýmiólk og mysa, samt þessámilli vallhumals-thee.

Miøg ríðr á at hægðir séu ætíð góðar, og er teygr af køldu vatni druckinn hvern morgun fastandi, sumum þar til einkar góðr; annars má þessámilli, brúka stólpípur og hægt laxerandi meðøl.

Ydiuleisi er nærsta skaðligt, enn fá sér sem flest til at giøra, þeinkia sem skialdnast um siálfan sig, og nockru fyrir middeiges-matar nautn taka sér góða hræríng, er ómissandi; þessi lifnaðar orða, er nauðsynlig hver helst sem orsøkinn er til nefnds veikleika, þaraðauk þarf nockr meðøl.

Sé þá innvortis teppur orsøkinn, skal jafnaðarliga brúka uppleysandi púlver, qvikróta [?] seydi, vallar fífla róta seyði og svo framveigis. Sé teppt mánaðarás í veigi, skal ráða bót þar á; eins ef veikin hefir sinn uppruna af ormum eðr øðrum siúkdómum, skal fyrst undirþvinga þá. Blóð skal þeim feitu og holdigu taka 2r eða 3svar á ári framum 60s aldur. Sé ofur kraptaleysi líkamanns og sina kerfisins orsøk, eru køld sióar- eðr vatnsbøð næsta þénanlig. Annars fylgi sinadrættir, eru móður-pillúrnar eins brúkaðar og sagt er í [grein] 55 nauðsynlegar.

Grein 55 fjallar um tíðateppu. Á s. 125 er minnst á móðurpillur og innihaldsefni þeirra rakin í neðanmálsgrein en ég skil ekki hver þau eru nema það sem seinna var nefnt laukdropar en eiga ekkert skylt við lauk, sjá síðar í færslunni. Ekki veit ég hvað qvikróta seyði er en dettur í hug seyði af rótum húsapunts sem heitir kvickrot á sænsku, almindelig kvik á dönsku. Seyði af þeim rótum er sætt á bragðið og þótti hollur drykkur, jafnvel með lækningamátt, í Skandinavíu. Ég man hins vegar ekki til þess að hafa séð húsapunts getið í eldri umfjöllun um íslensk jurtalyf.

 

Hystería kvenfólks sló gersamlega í gegn sem spennandi geðsjúkdómur fyrir lækna þegar franski taugalæknirinn Jean-Martin Charcot hóf hana til vegs og virðingar á áttunda áratug 19. aldar. Segir af áhuga Charcot og vísindalegum rannsóknum hans á fyrirbærinu í næstu færslu. Líklega sér þessara vinsælda merki í Lækningabók handa alþýðu á Íslandi Jónasar Jónassen læknis, sem kom út rétt tæpri öld eftir að Sveinn Pálsson skrifaði sína lýsingu á hysteríu, eða 1884. (Hér er krækt í umfjöllun um hysteríu í stafrænni útgáfu bókarinnar.)

Jónas helgaði sjúkdómnum móðursýki heilan kafla í bók sinni, s. 349-354, og gerir því skóna að veikin hrjái einungis konur. Séu umfjallarnir Sveins og Jónasar bornar saman sést vel hvernig sjúkdómshugtakið hefur tútnað út; sjúkdómseinkennin eru orðin miklu fleiri og fjölbreyttari, en lækningaraðferðir eru jafn fábreyttar sem fyrr.

Í upphafi segir Jónas Jónassen: „Móðursýki er sjúkdómur, sem dregur nafn sitt af lífmóðurinni (barnsleginu), af því að menn áður á tímum (eins og reyndar nokkrir gjöra enn) álitu að veikin hefði aðalupptök sín í barnsleginu. Nú skoða allflestir móðursýkina sem taugakennda veiki, sem sjerstaklega lýsir sjer með æsing í öllu taugakerfinu og miklu ólagi á því.‟ Í neðanmálsgrein lætur hans þess getið að „Almenningur nefnir þessa veiki opt „hjartveiki‟ „þankabrot‟ „að kvennmaðurinn sje með þungum þönkum‟ o.s.frv.”

Að mati Jónasar Jónassen er hystería afar algeng, einkum í sveitum:

Hjer á landi er, eins og flestum er kunnugt, móðursýkin mjög almenn, og dregur án efa margt til þess; hún virðist vera langtum almennari til sveita en í kaupstöðum; hver orsökin er til þessa skal ég láta ósagt; það þykist jeg sannfærður um, að lifnaðarháttur og allt heimilislífið til sveita eigi hjer mestan hlut að máli. (s. 353)

Jónas setur fram kenningu um orsök hysteríu. Hún stafar auðvitað af ólagi, ekki á boðefnaskiptum heilans eins og nútímageðlæknisfræði leggur oft áherslu á eða flækingi legsins eins og gamla læknisfræðin gerði ráð fyrir, heldur á ólagi í samsetningu blóðsins. Hins vegar geta sjúkdómseinkennin komið fram í margvíslegu ólagi á “á öllu því, er snertir fæðingarparta kvennmannsins”. Hystería er arfgeng að mati Jónasar. Í leiðinni bendir hann á að þetta sé lúmsk sótt sem geti vel orðið til þess að einhver bóndinn eða eiginmaðurinn kaupi köttinn í sekknum:

Veikin byrjar aldrei allt í einu heldur smátt og smátt, og því er það, að hún opt og tíðum er byrjuð löngu áður en nokkurn varir; hún byrjar optast nær á aldrinum frá 16-30 ára, og það álitið sannreynt, að hún næstum eingöngu kemur í þá, sem eiga taugaveiklaða í ætt sinni; það er algengt að dóttirin erfi veikina eptir móður sína. Á móðursjúkum kvennmanni er samsetning blóðsins ávallt röng, og eru öll líkindi til, að þetta sje ein af aðalundirrótum veikinnar, sem kemur fram í svo óendanlega mörgum myndum, en sem langoptast er samfara jómfrúrgulu, hinu svo nefnda blóðleysi og öllu hinu margvíslega ólagi, sem er á meltingunni og sjerstaklega á öllu því, er snertir fæðingarparta kvennmannsins á hinum áður um getna aldri. Það ber eigi allsjaldan við, að móðursýkin þjáir þann kvennmann, sem fyrir manna sjónum lítur hraustlega og blómlega út, en allt fyrir það er sannreynt að sá kvennmaður reynist þollítill og miklu lakari til allrar vinnu en maður skyldi ætla, að dæma eptir útliti hennar, og á þetta rót sína í hinni röngu samsetning blóðsins. (s. 350)

Um einkenni sjúkdómsins segir Jónas: „Móðursýkin lýsir sjer með óendanlega mörgu og margvíslegu móti, svo að eigi er hægt að gefa neina lýsingu á veikinni, sem á við í hvert skipti.‟ (s. 350) Hann gerir svo sitt besta til að telja upp einhver af þessum óendanlega margvíslegu einkennum á s. 351-353. Þetta er auðvitað ómetanleg sjúkdómslýsing svo hún er birt hér nánast óstytt, myndskreytingar eru mínar:

Æsingin, sem er í taugakerfinu, lýsir sjer sjerstaklega með ákaflega næmri tilfinningu, og hvað snertir skilningarvitin, þá ber opt og tíðum mjög mikið á því, að taugar þeirra eru í æsingu; þannig sjáum vjer mjög títt að móðursjúkur kvennmaður þolir illa mikla eða skæra birtu; heyrnin er opt fremur venju góð og smekkurinn mjög næmur og frábrugðinn því sem venjulegt er. Hörundið er allt miklu viðkvæmara; sjúklingurinn þolir nú ef til vill alls ekkert kul eða hlýju og hvað lítið sem hörundið særist, kennir hún sviðaverks; sama er og að segja um vöðvana, að þeir eru svo viðkvæmir, að hvað lítið sem á þá er reynt, linast þeir og þola svo enga áreynslu, hún fær þá verki í liðamótin (einkum hnjelið og mjaðmarlið), beinin og í allar taugar, og bakverkur er þá mjög algengur, sem og verkir í kviðnum og aptan á hálstaugunum. Sama viðkvæmni kemur og í innvortis parta; og má svo segja, að ónota tilfinning leggi alveg úr kokinu og niður í endaþarm; í kokinu og hálsinum er opt pínandi herpingur, í maganum uppþemba og önnur ónot, sem versna við hvað lítið sem hún nærist á; garnameltingin er í ólagi, því annaðhvort er harðlífi eða niðurgangur, og eins er þvagblaðran opt svo viðkvæm, að hvað lítið sem í hana kemur af þvagi vill hún losast við það, og konunni er því sífellt mál að kasta þvagi. Hjartsláttur og æðasláttur með titringi og óstyrk í öllum taugum er venjulega mikill.

 hysteria_mynd_krarmpar_2[…] af þessari miklu og óeðlilegu viðkvæmni … [er] sjúklingnum […] ávallt svo hætt við krampa, sem þá getur lýst sjer með margvíslegu móti; stundum eru krampanum samfara yfirlið og verður opt að halda sjúklingnum í krampaumbrotunum. Þegar krampi leggst í vissa vöðva, t.a.m. á útlimum, og loðir lengi við þá, getur af því hlotizt viðvarandi samdráttur vöðvanna (útlimi kreppir) og það er eigi óalmennt að fótur hefur kreppzt um hnjelið, svo sjúklingurinn hefur orðið að liggja rúmfastur svo mánuðum skiptir. Opt ber það og við, að kirtlar líkamans gefa frá sjer óeðlilega mikinn vessa, þannig t.a.m. svitakirtlarnir; annaðhvort eru þeir þá allir í æsingu, svo sjúklingurinn svitnar allur venju fremur, eða aðeins á stöku stöðum, t.a.m. í lófum, á fótunum, í handkrikunum. Munnvatnið er óeðlilega mikið og tárarennslið sömuleiðis, niðurgangur og ólag á galli. Mjög er það og almennt að vindur sækir í magann og garnirnar, svo uppþemba er mikil og vindskruðningar sífeldir, og gengur þá mikill vindur opt niður, en venjulega er engin fýla af honum, Tíðirnar eru og opt óreglulegar með ýmsu móti. Hún kvartar einnig opt um höfuðverk, sem kemur með kviðum, og finnst henni stundum, að höfuðið verði hálfkalt í kviðunum og fylgir þessu fjarska óeirð, og segi hún, að sjer finnist hún naumlega geti afborið þetta.

hysteria_mynd_tristeEitt er enn, sem að öllum jafnaði fylgir móðursýkinni, og það eru þau áhrif, sem hún hefur á allt sálarástand sjúklingsins. Svo má segja, að allt hennar tilfinningalíf sje á flökti; það er engin festa í neinu sem hún vill, hún er dutlungafull og hugsar opt annað augnablikið mest um sjálfa sig en hitt um aðra; hún er glöð og ánægð í annan svipinn en óánægð og örvæntingarfull í hinn svipinn; henni þykir ósköp vænt um eitthvað eða einhverja manneskju nokkrar stund, en svo hatar hún það ef til vill síðar meir; þannig ber að opt við, að móðursjúkur kvennamaður fær ákaflega mikla ást á karlmanni um nokkurn tíma; en þessi ást breytist þá opt í hatur síðar meir, og það þótt karlmaðurinn alls eigi í nokkrum hlut hafi brotið á móti sjúklingnum. Einna lökust áhrif á hana hafa allar geðshræringar, henni versnar ávallt við það, ef eitthvað kemur fyrir hana, sem henni þykir eða líkar miður.

Hugmyndalíf móðursjúks kvennmanns er að öllum, jafnaði ríkast hvað snertir allt ástand hennar sjálfrar, og svo mikil brögð geta orðið að hugarvingli hennar, að hún alveg lifir sig inní sjálfa sig, hugsar og talar eigi um annað, og endar þetta opt með sinnisveiki, og það sem ennfremur stuðlar til þessa er kvíði mikill og hræðsla ásamt svefnleysi, sem opt ásækir sjúklinginn. Margt fleira mætti hjer tilfæra um þennan leiða sjúkdóm, en hjer er hvorki rúm nje staður til þess.

Lækning á svo dularfullum og margbrotnum sjúkdómi er vitaskuld erfið. Um hana segir Jónas Jónassen á s. 353-354:

Um lækning á móðursýki.

Hvað lækningu snertir, þá er það viðurkennt bæði hjer á landi og annarstaðar, að hún er einhver hin örðugasta, og liggur þetta eðlilega í því, að svo örðugt er að komast fyrir upptökin, því þau geta legið svo víða eins og getið hefur verið um hjer að framan. Eitt er, sem öllum kemur saman um, og það er, að nauðsynlegt sje að styrkja taugakerfið og reyna að forðast allt, sem æsir það í nokkru tilliti. Jafnframt þessu verður með gætni að reyna að koma hugsunum og öllu sálarlífinu á rjetta og skynsama leið og um fram allt verður að forðast að láta sjúklinginn verða þess áskynja, að vjer eigi trúum því, sem hún segir oss um ástand sitt og tilfinningar, en á hinn bóginn skal leiða henni með skynsamlegum fortölum fyrir sjónir, að allt stafi af of mikilli viðkvæmni tauganna, og að hún með góðum og einbeittum vilja geti að miklu leyti bætt úr þessu auma ástandi sem hún sje komin í og náð að verða heil heilsu aptur.

Hvað snertir meðalabrúkun, þá er ráðlegast að leita læknis. Þegar veikin er samfara jómfrúgulu, eins og opt á sjer stað, læknast hún stundum um leið og jómfrúgulan batnar. Sumum móðursjúkum kvennmönnum er einkar hollt að þvo allan likamann daglega upp úr köldum sjó eða köldu vatni. Hreyfing úti við, að ganga í góðu veðri bæjarleið eins opt og því verður komið við, að ríða opt ásamt öðrum sjer til gamans er optast einkar gott. Kvennmaðurinn ætti að hátta tímanlega og fara snemma á fætur. Opt er einkar gott að skipta um verustað um nokkurn tíma. Sje herpingur og kökkur í hálsinum og fyrir brjóstinu, eru hinir svonefndu laukdropar opt góðir.

Í umfjöllun um algeng lyf síðar í bók Jónasar Jónassen segir um þessa laukdropa: “Laukdropar (Tct. asæ foetidæ) er og gott krampaeyðandi meðal. Af þeim eru gefnir 25-30 dropar í einu annaðhvort eintómir eða saman við opíumsdropa.” (s. 461.)

Tinctura asæ foetidaæ hefur vel að merkja ekkert með lauk að gera. Þetta er kvoða, unnin úr smávaxinni jurt af steinseljuætt sem vex í Mið-Austurlöndum. Jurtin heitir Ferula assafoetida og hefur verið kölluð djöflatað á íslensku enda er lyktin af henni frámunalega ógeðsleg. Jurtin hefur verið notuð frá fornu fari sem krydd í mat og til lækninga. Raunar ráðleggur Sveinn Pálsson sama lyf í sinni umfjöllun um hysteríu níutíu árum fyrr svo vinsældir djöflataðs í lyfjaflóru íslenskra lækna hafa haldist nokkuð stöðugar. Af því Jónas ráðleggur tinktúru má ætla að djöflataðskvoðan hafi verið uppleyst í vínanda. Mögulega hefur hann gert ráð fyrir að lausninni væri oftast blandað við ópíumsdropa og mætti þá ætla að svoleiðis hefði róað hysteríska kvenmenn þokkalega vel.

 

Urðu íslenskar konur hysterískari eftir því sem íslenskir læknar lærðu meiri fræði?

hysteria_framkollud_med_havada

Í fyrirlestri Sigurgeirs Guðjónssonar sagnfræðings á Söguþingi 2012, „Hysterian „liggur í landi.‟‟ Nýjar hugmyndir um geðveiki ná til íslenskra lækna (hér er krækt í fyrirlesturinn í Skemmunni) segir að skv. ársskýrslum íslenskra héraðslækna á seinni hluta 19. aldar sé geðveiki kvenna aðallega hystería. Sama kemur fram í doktorsritgerð Sigurgeirs frá 2013. Áberandi misræmi megi þó sjá í greiningum einstakra lækna á hysterísku kvenfólki:

Árið 1892 greindi Þorgrímur Þórðarson læknir í Austur-Skaftafellssýslu 16 konur með hysteriu. Ólafur Guðmundsson læknir í Rangárvallasýslu greindi hvorki fleiri né færri en 108 tilfelli en Bjarni Jensen læknir í Vestur-Skaftafellssýslu greindi ekkert tilfelli. Hversvegna var beinlínis hysteriufaraldur í Rangárvallasýslu meðan ekki greindist eitt einasta tilfelli í Vestur-Skaftafellssýslu? Voru konur á þessum svæðum svona ólíkar? (Sigurgeir Guðjónsson. 2012:7)

Sigurgeir getur sér síðan til að meginástæðan fyrir þessu ósamræmi í greiningu hysteríu sé „hversu vel læknarnir voru að sér í nýjustu sjúkdómsgreiningum í geðlæknisfræði.‟ Hann setur einnig fram þá tilgátu að stórfjölgun geðveikra kvenna á Íslandi seint á nítjándu öld stafi líklega af því að fleiri konur hafi verið greindar með hysteríu. Í manntali 1850 eru 39 karlar taldir geðveikir, eða 1,3 af hverjum 1000 körlum á Íslandi, geðveikar konur eru 52 talsins, 1,6 af hverjum 1000 konur. (Þótt í töflum Sigurgeirs sé talað um hlutfall af 1000 íbúum er augljóst að átt er við hlutfall af hvoru kyni. Og miðað við mannfjöldatölur frá 1850 á vef Hagstofu eru hlutföllin 1,4 promill og 1,7 promill nær lagi, ég fór ekki yfir aðrar tölur.) Geðveikum körlum fjölgar svolítið í næstu manntölum en geðveikum konum fjölgar töluvert:

1880: Karlar 0,5‰ (17 talsins ) konur 1,6‰ (63 talsins)

1890: Karlar 0,9‰ (30 talsins) konur 2,4‰ (93 talsins)

1901: Karlar 0,9‰ (37 talsins) konur 2,3‰ (96 talsins)

(Sigurjón Guðjónsson. 2013:41)

Hér verður látið staðar numið í söglegri yfirferð hysteríu í greiningum íslenskra lækna. Ekki verður fjallað um þá merku sjúkdóma jómfrúrgulu/bleikjusótt og tíðateppu þótt læknar á átjándu og nítjándu öld hafi haft þungar áhyggjur af þeim, ekki hvað síst þær að ómeðhöndluð jómfrúrgula eða tíðateppa gæti leitt til hysteríu.

Í næstu færslu verður fjallað um rannsóknir hins stórmerka (að talið er) vísindamanns dr. Charcot á hysteríu en „fyrirlestrar‟ og skrif hans um sjúkdóminn höfðu gífurleg áhrif. Eini nemandi dr. Charcot sem starfaði á Íslandi var Daninn Hans Jacob George Schierbeck, sem var landlæknir og forstöðumaður Læknaskólans hér á landi 1883-1894. (Thora Friðriksson. 1931:145.) Í þeim fáu opinberu skrifum hans þar sem geðveiki ber á góma er hysteríu ekki getið, var hann þó nemandi Charcot um sama leyti og sá síðarnefndi varð virkilega niðursokkinn í hysteríuna. Hans J. G. Schierbeck er aðallega minnst hérlendis fyrir mikinn áhuga á garðyrkju og frumkvöðlastarf á því sviði enda lærði hann til garðyrkjumanns áður en hann hóf læknanám.

Heimildir

Jónas Jónassen. Lækningabók handa alþýðu á Íslandi. 1884. Aðgengileg á vef bókasafns Harvard háskóla.

Sigurgeir Guðjónsson. „Hysterian „liggur í landi.‟‟ Nýjar hugmyndir um geðveiki ná til íslenskra lækna. Fyrirlestur á Söguþingi 2012. http://skemman.is/handle/1946/1559

Sigurgeir Guðjónsson. Aðbúnaður geðveikra á Íslandi og umbætur yfirvalda fyrir daga geðspítala. Doktorsritgerð útg. ágúst 2013. http://skemman.is/handle/1946/16732

Sveinn Pálsson. Tilraun að upptelja sjúkdóma þá er að bana verða og orðið geta fólki á Íslandi. Rit þess (konunglega) íslenzka Lærdómslistafélags 15. árg 1794. S. 1-150.

Thora Friðriksson. Dr. Jean Charcot. Eimreiðin 37. árg. 2. hefti ,1931. S. 144-163

Vilmundur Jónsson. 1949. Lækningar – Curationes – séra Þorkels Arngrímssonar sóknarprests í Görðum á Álftanesi.

Myndirnar eru úr bókinni Études cliniques sur la grande hystérie ou hystéro-épilepsie eftir samstarfsmann dr. Charcot, Paul Marie Louis Pierre Richer, sem fyrst kom út árið 1881.

 

One Thought on “Hystería eða móðursýki

  1. Pingback: Jean-Martin Charcot | Blogg Hörpu Hreinsdóttur

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation