Rugl um rafbækur

Titillinn “Rugl bókaútgefanda og framkvæmdarstjóra Rithöfundasambandsins” er of langur en það er umfjöllunarefni færslunnar.

 

Í gær var haft eftir Kristjáni B. Jónassyni, útgefanda hjá Crymogeu: “Það er alltof dýrt að gefa út rafbækur fyrir markað sem hefur í raun engan áhuga á þeim enn sem komið er.” (Fáar nýjar rafbækur um jólin. Morgunblaðið 8. nóv. 2013, s. 9.) Hvernig Kristján þessi veit að “markaðurinn” hafi engan áhuga á rafbókum er ofar mínum skilningi: Hefur hann kannað þetta? Vissulega er lítil sala í íslenskum rafbókum en augljósustu skýringarnar á því eru tvær:

1. Það eru afskaplega fáar íslenskar bækur gefnar út á rafbókaformi;

2. Í mörgum tilvikum er rafbókaútgáfu á Íslandi svo háttað að það er verulegt vesen að lesa þær, jafnvel ómögulegt.

 

Íslenskir bókaútgefendur eru svo þjófhræddir að jaðrar við þráhyggju þegar kemur að rafbókum. Þeir virðast ímynda sér að sé bók aðgengileg á tölvutæku formi muni henni dreift ólöglega skefjalaust og enginn maður kaupa hana. Þess vegna er allt kapp lagt á að gera rafbækur svo þjófheldar að þær eru jafnvel ólesanlegar með öllu – og svo dregin sú ályktun að “markaðurinn” hafi ekki áhuga á þeim. Líklega er það rétt ályktun, t.d. hefði ég (er ég markaður?) ekki áhuga á að kaupa mér reiðhjól sem væri það vel læst að ég gæti alls ekki hjólað á því eða vellæsta þvottavél sem ekki væri hægt að þvo í o.s.fr. Verulega þjófhræddir reiðhjólasalar og þvottavélasalar myndu svo draga þá ályktun að markaðurinn hefði ekki áhuga á þessum tækjum.

 

Í mínum kunningjahópi heyrði ég um daginn af viðskiptum við íslenska bókabúð: Viðkomandi keypti enska rafbók hjá þessari búð en gat alls ekki opnað skrána. Eftir að hafa fengið “lagaða skrá” senda nokkrum sinnum, án þess að geta opnað hana í sínu spjaldi gafst viðkomandi upp, keypti sömu bókina hjá Amazon og las þá útgáfu án vandkvæða. Ég reikna ekki með að þessi kúnni verði áhugasamur markaður í skilningi íslenskra bókaútgefenda á rafbókaútgáfu á Íslandi.

 

Í Morgunblaðinu í dag (Tvær rafbókaveitur væntanlegar, 9. nóv. 2013, s. 19) er enn meira rugl þjófhræddra hagsmunaaðila bókaútgáfu að finna. Steininn tekur úr í ummælum Ragnheiðar Tryggvadóttur, framkvæmdastjóra Rithöfundasambandsins, sem segir:

‘“Við þurfum að vanda okkur. Passa að efnið flæði ekki óheft, þá erum við búin að tapa baráttunni,” segir Ragnheiður. Í þessu samhengi vísar hún til Svíþjóðar þar sem rafbækur voru lánaðar út á bókasöfnum sem ekki voru afritunarvarðar. Eftir það seldist ekki rafbók.’

 

Ég hef skipt við sænskt rafbókasafn í 2-3 ár, í gegnum bóksafn Norræna hússins. Á sama árabili hef ég keypt svolítið af sænskum rafbókum gegnum dito.se og sé ekki betur en úrvalið þar sé ágætt. Á ég að álykta, af orðum Ragnheiðar, að einu kúnnarnir séu utan Svíþjóðar og að dito.se riggi upp tíu nýjum titlum á viku bara fyrir mig og örfáa aðra útlendinga sem kaupi sænskar rafbækur? Af því rafbækur seljast ekki í Svíþjóð af því bókasöfn þarlendis lána út rafbækur?

Æ fleiri dönsk bókasöfn lána rafbækur (því miður hafa Íslendingar ekki aðgang að þeim). Dönskum rafbókaverslunum fjölgar stöðugt á sama tíma, þetta veit ég því ég skipti reglulega við a.m.k. fjórar þeirra. Nýverið jók bog.nu við þjónustuna með því að birta verðsamanburð á rafbókum einnig svo það er handhægt og fljótlegt að finna út hvar hver rafbók er ódýrust.

Ég les í Kindli og þarf oftast að umbreyta skrám sem ég kaupi eða fæ lánaðar í Skandinavíu (frændur vorir eru enn á epub-stiginu, alveg eins og íslenskir bókaútgefendur). En það er æ fátíðara að skrárnar séu læstar (með DRM-vörn), núorðið láta flestir skandinavískir bókaútgefendur duga að vatnsmerkja eintökin svo þau séu rekjanleg til kaupanda ef þau skyldu dúkka upp á torrent-síðum. (Og í þessu samband má einnig geta þess að það er sárasjaldgæft að rekast á rafbók á skandinavísku máli á svoleiðis síðum svo vilji brotamanna á þessu sviði er ekki í samræmi við þjófhræðslu íslenskra bókaútgefenda og framkvæmdastjóra Rithöfundasambandsins.)

Mér finnst, sem íslenskufræðingi, frekar leiðinlegt að ég skuli lesa æ minna á íslensku. Á þessu heimili eru líklega til hátt í 1000 bækur á pappír og við hjónin eru sammála um að eignast frekar bækur í okkar Kindla, bæði til að grynna á bókaflóðinu og vegna þess að það er miklu þægilegra að lesa í Kindli en á pappír (þótt ekki væri nema til að stækka letrið … á kvöldin þegar ellifjarsýnin gerir vart við sig). Viðhorf íslenskra bókaútgefenda og forsvarsmanns Rithöfundasambandins benda til þess að innan fárra ára lesi ég ekkert á íslensku nema kannski mogga mannsins sem dettur inn um bréfalúgu heimilisins oft í viku.

 

 

 

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation