Melankólía gáfaðra karla og hvunndagsleg geðlægð kvenna

Ég hef undanfarið verið að lesa bók eftir Karin Johannisson, Melankoliska rum. Om ångest, leda och sårbarhet i förfluten tid och nutid, sem kom út árið 2009. Er ekki nema rétt hálfnuð með bókina en finnst margt í henni athyglisvert. Karin þessi er sagnfræðingur með hugmyndasögu sem sérsvið (idéhistoriker). Hún hefur skrifað margar bækur um sjúkdóma og hugmyndasögu og hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir.

Í upphafi bókarinnar er gerð góð grein fyrir hvernig lýsingar á tilfinningum breytast í tímans rás og hve erfitt, eða jafnvel ómögulegt, getur verið að túlka lýsingar fyrri tíma með hugtökum og orðum nútímans. Eftir að sá varnagli hefur verið sleginn fer Karin að velta fyrir sér melankólíu og hvernig henni hefur verið lýst um aldir, í læknisfræði, bókmenntum, sjúkraskrám o.fl.

Hún telur að hugtakið melankólía hafi a.m.k. þrjár víddir sem snerta tilfinningar, geðslag og sjúkdóm. Gömul orð yfir melankólíu sem tilfinningu er fjölmörg og í þeim felst mismunandi mikill þungi. Karin telur upp sænsk orð yfir þetta en á íslensku eru eftirfarandi orð sögð samheiti við melankólíu: Geðveiki, samviskuveiki, þunglyndi, sturlun, fálæti, fáleiki, hjartveiki, hrelling, hugtregi og hugarvíl (Sveinn Pálsson. 1788.)

En þessi orð tengjast ekki sjúkdómi, segir Karin, heldur felst í þeim ákveðið þema: Einhvers konar missir, stol eða -leysi. Melankólía getur verið missir tilgangs (tilgangsleysi) en einnig bókstaflega missir tungmáls (væntanlega hæfileikans til að tjá sig), missir atorku eða missir orku til að koma sér fram úr rúminu.
Þótt melankólíu fylgi erfiðar tilfinningar hefur henni, sögulega séð, verið eignuð uppbót sem er glöggskyggni og sköpunarkraftur. Á koparstungu Dürer, Melencolia I, frá 1514, sést þetta vel: Þungbúinn engill situr (svo sannarlega) í þungum þönkum; Andlitið er dökkt og augun dauf en í kringum hann liggja tákn vísindanna. Á sextándu öld var þessi tegund af melankólíu kölluð melancholia generosa, hin gjafmilda melankólía.

[Hér mætti og skjóta inn dæmi um rómantíska sýn á melankólíu, þ.e. eftirfarandi tilvitnun í Drauminn eftir Byron (1788-1824), í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar:

Því þunglyndisins skarpa og skyggna sjón
Er geigvæn gáfa þeim, sem hana hlaut.
Hvað er hún nema sannleiks sjónarauki,
Sem fjarlægð sviptir töfrum tálarmynda,
Sem nálgast lætur líf í tómri nekt
Og harðan sannleik helzt til sannan gjörir.]

Hugtakið depression er miklu þrengra. Það er búið til með hliðsjón af deprimere= að sökkva eða þrýsta niður. Myndhverfingin í því orði vísar til þess að einstaklingurinn
er niðurdreginn/þrúgaður niður. (Í íslenskun geðgreiningarlykla nútímans hefur verið búið til orðskrípið geðlægð til að þýða depression. Almenningur kallar depression þunglyndi, sem er eitt gömlu orðanna yfir melankólíu.)

Í melankólíu geta falist sterkar tilfinningar og sköpunarkraftur en í depression-hugtakinu felst aðallega hindrun. Karin vísar til Jennifer Radden, sem hefur farið kerfisbundið gegnum greiningarkerfi nútímageðlækninga og sýnt fram á að það sem seint á 19. öld var skilgreint sem tilfinningar hafi síðan þá þróast yfir í skilgreiningar á hátterni (s.s. svefn-, matar- og einbeitingartruflanir, hreyfhömlun og þreyta).

Melankólía karla breytist í geðlægð kvenna

Það sem mér þótti þó athyglisverðast við þessa melankólíuumfjöllun Karin Johannisson var umfjöllun um hvernig melankólía karla varð að depression kvenna. Þar víkur nefnilega sögunni að mínu uppáhaldi þessa dagana: Staðalmyndum (stereotýpum).

Karin staðhæfir að söguleg staðaltýpa melankólíunnar sé hinn útvaldi karlmaður. En staðaltýpa nútímans af þunglyndi sé nafnlausa konan.

Melankólía var tengd við gáfur og sköpunarkraft … en bara þessa eiginleika karla. Væri minnst á melankólíu í sambandi við konur var hún gjarna tengd kynferðismálum, eins og í sjúkdómsgreiningunni erotomani. “Hoon vaar … så spaak, som ett litet deggie-lam, och gick i kärlig melancholij”, skrifar sænski 17. aldar læknirinn Urban Hjärne. Sú þögn sem ríkir um melankólískar konur, í sögunni, er tæplega vegna þess að þær hafi ekki verið til heldur sýnir þögnin frekar hve lágan status melankólía kvenna hefur haft í karllægri hefðinni: Þegar melankólíu er hampað eru konur ekki taldar með. Karin vitnar í Juliana Schiesari sem heldur því fram að melankólía kvenna hafi verið umrituð, annað hvort í eitthvað þýðingarminna og hversdagslegra eða í eitthvað hættulegra, t.d. hýsteríu og brjálæði. Og Karin tekur dæmið: Af hverju má bara kalla svartsýni yðar en ekki mína svartsýni melankólíu? spurði óánægð skáldkona í bréfi til sænska ljóðskáldsins P.D.A. Attenbom (1790-1885). Hann svaraði: Af því að til þess er ætlast að konan sé glaðleg og saklaus.

Kyn melankólíunnar er sem sagt skilgreint karllægt. Þótti hinn melankólíski karl sé viðkvæmur og brothættur tapar hann ekki karlmennsku sinni. Melankólíuhugtakið leyfir þvert á móti karlkyns gáfumönnum að innlima hið kvenlega inn í hið karlmannlega. Á sama hátt hefur hystería karlmanna verið tengd við sérstaklega skapandi viðkvæmni, í menningarsögunni, ólíkt hysteríu kvenna.

Nútildags eru konur greindar í geðlægð (depressívar) í tvöfalt meiri mæli en karlar. Staðalmynd geðlægðar/nútíma þunglyndis rennur saman við staðalmynd hins kvenlega: óvirkni, lágan róm, lélega sjálfsmynd, segir Karin Johannisson. Hún tekur síðan ýmis dæmi úr ævisögulegum skrifum frægra þunglyndra kvenna til að sýna hvernig þær upplifa þunglyndið sem “ekki-tilveru”, óvirkni, lamandi ástand o.þ.h.

Sú kona sem ekki er meðfærileg, ekki glöð og saklaus o.s.fr., heldur niðurdregin, óánægð og jafnvel galin, á í hættu að vera dæmd, ekki bara af karlmönnum og vísindaheiminum heldur einnig af sér sjálfri. Þannig kona er jú skilgreind, og skilgreinir sjálfa sig, sem sjúka. Vandinn felst í þessu ómeðvitaða vali kvenna, segir Karin, að dempa sitt sjálf (ego) en ekki að upphefja það, að leita innávið en ekki útávið, að bregðast við í vörn en ekki í sókn. Svo víkur hún talinu að kenningum Juliu Kristevu og fleiri sálkönnuða en þá hætti ég að lesa …

Skiptir þetta einhverju máli?

Þótt ég sé ekki sammála öllu í umfjöllun Karin Johannisson og hafi rekið mig á slælega umgengni hennar við heimildir í þessari bók finnst mér margt áhugavert í því sem hún segir. Mér finnst t.a.m. spennandi að velta því fyrir mér hvaða máli það skiptir að melankólía var karlanna, í menningarsögunni, en geðlægð er kvennanna, í nútímageðlæknisfræði. Hvaða máli skiptir svoleiðis fyrir status og staðalmyndir, þ.e.a.s. þá þætti sem einkum skipta máli í fordómum og brennimerkingu/stimplun?

Og passar þetta við Ísland?
Á hinn bóginn er ég ekki viss um að hve miklu leyti megi heimfæra umfjöllun hennar upp á íslenska menningu í tímans rás. Sveinn Pálsson segir í lýsingu á melankólíu árið 1788 : “Þat sýnisz og at fleiri séu konur enn karlar veikindum þessum undirorpnir.” Í annarri lýsingu sem birtist árið 1794 segir Sveinn að byrjunareinkenni melankólíu geti verið ofurlítið misjöfn eftir kynjum en virðist svo gera ráð fyrir að sjúkdómurinn lýsi sér eins hjá konum og körlum þegar hann elnar:

Géð- eðr Sinniveiki (Melancholia, Tungsindighed), er svo almennur sjúkleikr hér at ekke veitti af heille bók um hann, kynni þar með einhverium at verða hiálpar, byrjar hann optar með miltisveike eða vaniflasótt (Hypochondria, Miltsyge), hjá karlmønnumm, eðr móðursyke hiá kvennfólki, sem eru nærstumsømu veikleikar, og hvarum høndlat skal í [grein] 58, ríðr þá miøg svo á strax í fyrstu at bera sig að koma í veg fyrer hið verra; géðveikt fólk misser fyrst matarlyst, regluligan svefn og náttúrligar hægðir; elskar einsetur og veit þó ei giorla hvar fyrir; þeinkia jafnann um hið sama, fá jafnvel hatr á øllum mønnum og sér siálfum með; eru ofr sorgfullir eðr og þeigiandi og hræðast stundum alla hluti, með mørgu fleiru sem bagt er upp að reikna, um síðer vex þúnglyndit æ meir og meir, þar til siúklingr annað hvert fyrirfer sér siálfr þegar minst varer, elleger missir vitit og nefniz þá vitfirring […]

2 Thoughts on “Melankólía gáfaðra karla og hvunndagsleg geðlægð kvenna

  1. Trausti Jónsson on October 20, 2013 at 22:48 said:

    Árið 1793 setti Sveinn Pálsson saman leiðbeiningar um veðurathuganir. Þar er því haldið fram að þær séu hið besta geðlyf (örugglega nokkuð til í því):
    Yduglig adgætsla lopts og vedrlags er bædi skémtilig og gagnsöm: Skémtiligt er ad yfirvega dásémdir skaparans í náttúrunni hvernin sem þær sýna sig, en einkum ad siá, hve sundurleitustu hlutir: eldr og vatn, þurkr og væta, þyckvidr og heidríkia, hiti og frost, og s. fr. skiptaz til ad framqvæma þad eina augnamid, þörf, ánægiu, vellídan skapadra hluta, eptir stadbundnustu, líkliga strax í öndverdu settum reglum. Gagnsamt er bædi med til þess giördum verkfærum, líka egin eptirtekt, ad þeckia svo imisligt loptslag og vedrabrigdi, ad þar eptir megi nockurnveginn haga útrettíngum sínum í dagligu lífi og búskap. Yndælid af þessari idn er jafnvel svomikid, ad fá munu medöl betri, auk góds vinar, gedveikum, upplýstum manni, enn jafnadargiörn adgiætsla, uppteiknan og samanburdr vedrfarsins og þaraf dragandi forspár.

  2. Harpa on October 22, 2013 at 10:03 said:

    Ekki vissi ég þetta. Mér sýnist full ástæða (fyrir mig) til að snúa mér að veðurathugunum úr því þetta virkar svona vel (ef marka má Svein Pálsson) 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation