Reiði og alhæfingar

Bloggfærsla Ástu Svavarsdóttur, Haltu kjafti, vertu sæt og éttu skít., hefur vakið nokkra athygli og umræðu á Facebook enda mikill reiðilestur. Málflutningi hennar hefur verið svarað á öðrum bloggum en þessu, t.d. á bloggi Eiríks Arnar Norðdahl (sjá færsluna Trigger warning: Klám, klám og klám) og verður sjálfsagt svarað meir. Í þessari færslu ætla ég einungis að beina sjónum að því sem Ásta segir um námsefni í íslensku í framhaldsskólum.

Hún segir:

Í framhaldsskólum eru kenndar nokkrar sömu skáldsögurnar. M.a.  Brennu Njáls sagaSalka Valka og smásagnasafnið Uppspuna.
Það er farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins.
Njála býr yfir þekktustu kvenpersónu Íslendingasagna, sjálfri Hallgerði langbrók sem hefur verið hötuð og fyrirlitin síðastliðin átta hundruð ár.
Salka Valka býr yfir kvenfrelsishetjunni Sölku sem vill ekki vera kona! Salka Valka er mín uppáhaldssaga og sýnir hversu mikill snillingur Kiljan var að geta skrifað svona um konu 1930.
Uppspuni er nýjust, gefin út 2003 og flokkast því undir samtímabókmenntir og lumar á ýmsu.
Nú ætla ég að leyfa mér að tengja saman það sem er kennt í framhaldsskólum landsins og þann veruleika sem ungmennin okkar búa við. Gætu verið tengsl þarna á milli? Erum við fullorðna fólkið að skapa þennan veruleika?

Síðan túlkar Ásta valin atriði úr þessum bókum og tengir við klámvæðingu, bága stöðu kvenna, karllægt val o.s.fr. Ég geri túlkun hennar ekki að umræðuefni hér en hnaut um staðhæfinguna: Það er farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins.

Hallgerður langbrókMér er auðvitað ljóst að Njála er víða lesin í fornsagnaáfanga í framhaldsskólum en kannaðist satt best að segja ekki við að hinar tvær bækurnar væru algengar. Svo ég athugaði málið: Fletti upp bókalistum í 25 framhaldsskólum (en alls eru taldir vera 32 framhaldsskólar á Íslandi ef ég man rétt) og kíkti á kennsluáætlanir ef upplýsingar á bókalistum voru ekki fullnægjandi. (Raunar kíkti ég á síður fleiri framhaldsskóla en hjá sumum þeirra liggja þessar upplýsingar hreint ekki á lausu, t.d. hjá Kvennó og ML. Og sumstaðar eru upplýsingarnar af mjög af skornum skammti, t.d. hjá MTR og MH, sem er auðvitað afskaplega lélegt!)

Eftir að hafa skoðað upplýsingar á síðum: FVA, MA, VMA, FSH, MTR, VA, ME, FAS, FL, FNV, MH, MR, FB, FÁ, MS, BHS, FG, FSU, FSS, FSN, MÍ, MB, FMOS, TÍ og Verzló) er niðurstaðan þessi (með þeim fyrirvara að þessar bækur hefðu getað verið kenndar á fyrri önnum en haustönn 2013):

Einu framhaldsskólarnir sem kenna allar þessar þrjár bækur sem Ásta nefnir eru Framhaldsskólinn á Húsavík (skólinn í hennar heimasveit) og Framhaldsskólinn á Höfn.

Eini skólinn sem kennir Sölku Völku fyrir utan þá tvo ofantöldu er Menntaskólinn á Ísafirði. Flestir skólar sem kenna langa sögu eftir Laxness velja Sjálfstætt fólk, stöku skóli kennir Íslandsklukkuna.

Smásagnasafnið Uppspuni er kennt við eftirtalda skóla: FSH, FAS, VA, Verzló, FÁ, FMOS, MB, TÍ og MS.

Brennu Njáls saga er kennd í sumum skólanna, Egils saga, Grettis saga eða Laxdæla í sumum, sums staðar er skipt um sögu aðra hvora önn. Ég taldi ekki hlutföllin milli þessara Íslendingasagna.

Þegar öllu er á botninn hvolft stenst fullyrðing Ástu um að það sé farið í þessar bækur í flestöllum framhaldsskólum landsins engan veginn nema menn kjósi að túlka orðið flestallir sem afar teygjanlegt orð en teygjanleg orð ku í tísku um þessar mundir 😉

Myndin er af Hallgerði Höskuldsdóttur langbrók.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation