Dulinn menningarkimi

Færslan hefði auðvitað eins getað heitið Prjón því hún er um þá göfugu list.

Ég velti því stundum fyrir mér hvað ræður því hvaða menning (í víðu samhengi) er opinber (í þröngu samhengi) og hver ekki. Íþróttir er t.d. afar opinber menning, það verður ekki þverfótað fyrir íþróttafréttum og umræðu um þær og annað sem tengist íþróttum, í öllum fjölmiðlum. Þetta er sjálfsagt gott og gaman fyrir þá sem hafa áhuga á íþróttum (en ég velti því stundum fyrir mér hversu stór hluti þjóðarinnar það raunverulega er). Fyrir okkur hin er ósköp auðvelt að sleppa því að lesa, horfa og hlusta og því hef ég akkúrat ekkert við mikla íþróttaumfjöllun að athuga.

En umfjöllun um prjón er óneitanlega dálítið ósýnileg. Það er ekki gefinn út sérstakur prjónakálfur með mogganum oft í viku, ekki sagðar prjónafréttir í lok hvers fréttatíma og engir netstormar með prjónatengdum upphrópunum geisa reglulega. Samt er ótrúlega mikill fjöldi prjónenda hérlendis. (Þori ekki annað en nota orðskrípið prjónandi til að þóknast femínistum með rörið á orðanna hljóðan, þótt miklu eðlilegra sé auðvitað að tala um prjónakonur.) Eini netmiðillinn sem ég man eftir að birti reglulega prjónafróðleik er innihald.is.

Prjónamenning lifir góðu lífi á netinu þótt hún sjáist ekki á yfirborðinu. Fjöldi prjónablogga er til vitnis um það en þau eru ekki skráð á blogggáttina og af því lítið er um upphrópanir og garg þegar prjón ber á góma er þeim heldur ekki deilt á Facebook í stórum stíl. (Sé samt alveg fyrir mér fyrirsögnina: “Segir engu máli skipta hvernig slétt lykkja snýr!” og meðfylgjandi gargið í “virkum í athugasemdum” … en er dálítið fegin að prjón skuli ekki teljast til hitamála.) Á Facebook eru stórir og virkir umræðuhópar prjónenda sem ræða málin án þess að skerist nokkru sinn í odda með þeim; þar fer allt fram í fullkomnu systrerni.

Svo eru það uppskriftirnar og kennslan … maður lifandi! Hver prjónakona með snefil af sjálfsvirðingu er áskrifandi að Knitting Daily og Interweave og meðlimur í Ravelry. Drops/Garnstudio.no byrjaði að birta uppskriftir á íslensku einnig, á þessu ári. Viti maður ekki hvernig skal prjóna þetta eða hitt er hægur vandi að finna YouTube myndband og læra listina. Kennslumáttur netsins er hvergi meiri og auðsærri en í prjóni. Sú staðreynd virðist hafa farið fram hjá Æpad-trúboðum skólakerfisins og vendikennsluboðendum, einhverra hluta vegna.

Svo er það geðræktarhlutverk prjóns, þáttur sem er sorglega lítið fjallað um. Að prjóna er sérdeilis róandi og huggandi og alveg upplagt þegar maður getur ekki gert neitt annað, til að drepa helv. tímann sem verður stundum helsti óvinur þunglyndra … tíminn sem aldrei ætlar að líða. Mín reynsla af geðdeildarvistunum er að prjón bjargar manni algerlega frá því að koðna ofan í ekki neitt þar inni. Þar er nefnilega nánast ekkert að gera nema auðvitað bíða eftir næsta pilluskammti. Þeir sem sinna geðdeildarsjúklingum mest eru sjúkraliðar (og vaktstrákarnir en af því þeir hafa lítið með prjón að gera eru þeir ekki til umræðu í þessari færslu, tek þó fram að þetta eru miklir ágætismenn sem sinna sjúklingunum einkar vel). Mín reynsla er sú að sjúkraliðar eru dásamlega þolinmóðar konur, góðar konur, mannþekkjarar …  og margar þeirra mjög flinkar prjónakonur, prjónakennslukonur einnig. Það bjargar ótrúlega miklu að fá hjálp og kennslu og aðstoð við að prjóna í Húsi þjáningarinnar, þ.e. geðdeildum Lans. Án prjóns er nær ekkert að gera nema mæla gangana, nú eða spekúlera í gardínunum og litnum á hurðunum, ef menn eru þannig innstilltir …

Þarf sosum ekki þunglyndi til, til að meta gildi prjónaskapar. Að setjast niður og iðja með höndunum smástund á degi hverjum fær alla til að slaka á og bætir geð og léttir lund.

Með þessari færslu er ég ekki að hvetja til neinna breytinga. Það ber að þakka fyrir að hafa fjölmennan menningarkimann prjón í friði fyrir æsingarliði 😉

3 Thoughts on “Dulinn menningarkimi

  1. Rán Tryggvadóttir on September 18, 2013 at 19:53 said:

    Jamm, nú held ég fari að prjóna aftur – bjargaði miklu hjá mér þegar ég var í sem mestri meðvirkni með fyrri unglingnum … og sá allri fjölskyldunni fyrir treflum … og sem betur fer er ekki farið að gera keppnisþætti um prjón, svona eins og með kokkamennsku sem er önnur afslöppunar- og aftengingarleið mín …

  2. Guðlaug on September 19, 2013 at 21:41 said:

    Bændablaðið er alltaf með prjónauppskrift.

  3. Harpa Hreinsdóttir on September 20, 2013 at 17:23 said:

    Já, Bændablaðið klikkar ekki! Ég sé það að vísu mjög sjaldan en hef einmitt tekið eftir uppskriftunum þar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation